Sunnudagur 19.02.2012 - 17:51 - Lokað fyrir ummæli

Hversu langt í evruna?

Á Íslandi varð tvenns konar hrun árið 2008: Annars vegar hrun skuldsettra spilaborga banka og eignarhaldsfyrirtækja, og hins vegar hrun krónunnar.

Þessi tvö hrun tengjast vissulega á ýmsa lund, en þó er það svo, að ef hér hefði verið stöðugur fjölþjóðlegur gjaldmiðill – t.d. evra – hefði aðeins fyrrnefnda hrunið orðið. Þótt bankar, FL Group og Exista hefðu engu að síður farið á hausinn, hefðu lán fólks og fyrirtækja staðið óbreytt, ekkert verðbólguskot orðið, enginn „forsendubrestur“. Vissulega hefði syrt nokkuð í álinn í ríkisfjármálum vegna samdráttar fjármagnstekna og skatttekna af fjármálageiranum, og einhver samdráttur orðið í landsframleiðslu, en búsifjar heimila og skaði á raunhagkerfinu hefðu orðið miklu minni með evru en krónu.

Sú umræða sem nú geisar um niðurfærslu skulda, breytingar á verðtryggingu o.s.frv. er í raun um augljósa og margstaðfesta galla og afleiðingar krónunnar. Menn tala um að nú þurfi að taka upp agaða hagstjórn (eins og það hafi ekki verið sagt og reynt áður) og þá verði krónan allt í einu að blessun. En kosturinn við sjálfstæðan gjaldmiðil er einmitt sagður vera sá að hann sé unnt að fella til að mæta versnandi viðskiptakjörum, auka útflutning, styðja innlenda framleiðslu og minnka innflutning. Með öðrum orðum, akkúrat það sem gert hefur verið reglulega í 90 ára sögu krónunnar. Sveiflur og óstöðugleiki munu ætíð fylgja þessum litla gjaldmiðli eins og nótt fylgir degi, með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur öll.

(Stærstu útflutningsgreinar Íslendinga eru reyndar þess eðlis að ekki er greiðlega hægt að auka magn útflutnings þótt viðskiptakjör batni í kjölfar krónufalls. Fiskveiðar eru takmarkaðar af aðstæðum í lífríkinu og álframleiðsla af orkuauðlindum sem tekur langan tíma að virkja. Þess vegna eru gengisfellingar óvenju illa til þess fallnar að bæta hag útflutnings hér á landi, og sú hagsbót felst fyrst og fremst í lækkun innlendra raunlauna fremur en í auknum gjaldeyristekjum.)

En tekur ekki áratugi að komast í evruna? Er umræða um slíkt tímabær?

Til að taka upp evru þarf að fá aðild að Evrópusambandinu og uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði. Þau eru eftirfarandi:

 • Stöðugleiki í gengismálum. Ríki skal hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar. Gengi má mest sveiflast ±15% í kringum það miðgildi sem ákvarðað er við inngöngu í ERM II. Ríkið nýtur aðstoðar evrópska seðlabankans í þessu efni.
 • Verðstöðugleiki. Verðbólga skal ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-löndum þar sem hún var lægst undanfarið ár. Þessu marki er hægt að ná ef menn einbeita sér að því, sérstaklega með stöðugra gengi innan ERM II.
 • Vaxtamunur. Langir vextir skulu ekki vera meira en 2 prósentum hærri en í þeim sömu þremur ESB-löndum þar sem verðbólgan var lægst. Vextir hér eru óvenju lágir um þessar mundir vegna gjaldeyrishafta og gætu lækkað enn, sérstaklega vegna væntinga um evruaðild. Þetta gæti samt verið erfiðasta skilyrðið að uppfylla.
 • Fjárlagahalli. Halli á fjárlögum má ekki vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Því marki verður náð strax á næsta ári.
 • Skuldir hins opinbera. Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af VLF, eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%. Hér þarf að hafa í huga að næstum þriðjungur brúttóskulda hins opinbera er vegna gjaldeyrisforða, sem verður óþarfur við upptöku evru. Nettóskuldir munu fara niður fyrir 60% árið 2015 skv. áætlunum AGS.

Sem sagt: ef við einbeitum okkur að verkefninu og fáum aðild að ESB 2013, þá yrðu árin í ERM II 2014-2015/16, og evruupptaka möguleg 2016 eða 2017. Ávinningur myndi þó birtast heimilum og fyrirtækjum fyrr þar sem væntingar um evruna kæmu inn í gengi krónunnar og vaxtastig.

Mér finnst ávinningurinn svo borðleggjandi, og framtíðarhagsmunirnir svo yfirgnæfandi, að það sé ekki eftir neinu að bíða.  Þessi áætlun liggur fyrir og er klár til umræðu og aðgerða. Þeir sem telja sig hafa betri plön skulda þjóðinni skýr svör um hver þau eru og hvernig þau ganga upp.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (64)

 • Hákon Hrafn

  Ég ætla að vona að það sé ekki jafn langt í Evruna og svar frá þér við síðustu færslu.

  Þar sagðir þú m.a.
  Hákon: Það var Hæstiréttur sem dæmdi gengistryggingu krónulána ólögmæta, og úrskurðaði hvernig skyldi reikna lánin (þ.e. með því að meðhöndla þau sem óverðtryggð krónulán með Seðlabankavöxtum). Það var ekki Samfylkingin sem ákvað þetta, eins og þú virðist halda, heldur æðsti dómstóll landsins.

  Kom svo í ljós að þú hafði rangt fyrir þér. Vissir þú það ekki eða hélstu virkilega að það væri heimilt að endurvekja dauðar kröfur?

 • Hans Haraldsson

  Hversu langt á evran eftir?

 • Hm? Svarið frá mér var alveg rétt. Hæstiréttur bætti svo við þeim núans að fyrri dómur hans ætti ekki við þar sem fólk hefði fengið fullnaðarkvittun, þ.e. ekki væri heimilt að reikna Seðlabankavexti skv. fyrri dómi ef það leiddi til hærri kröfu en þegar hefði verið greidd og gerð upp. (Það þýðir nóta bene *ekki* að reikna eigi lánin þannig að upphaflegir samningsvextir komi ofan á ógengistryggðan höfuðstól.) Um þetta útistandandi atriði gat enginn úrskurðað nema Hæstiréttur, þannig að það væri á kostnað fjármálafyrirtækja en ekki ríkissjóðs. En eigum við ekki frekar að ræða efni þessarar bloggfærslu hér?

  • Hákon Hrafn

   Nei svarið þitt er vitlaust. Það er reyndar óþarfi að ræða það því þú veist ALLT best og hefur ALLTAF rétt fyrir þér. Það er hin snilldarlega málefnalega umræða sem þú kallar eftir.

   Ég sá þig ekki í málflutningnum (sem þú veist greinilega hvernig fór fram). Þar kom fram að Hæstiréttur hefði einmitt ekkert sagt til um að reikna mætti vexti aftur í tímann. Það var engum núans um fullnaðarkvittanir bætt við. Þau hjón fengu engar sérstakar fullnaðarkvittanir heldur var fallist á það að þegar þú greiðir þá kröfu, t.d. í heimabanka, sem að þér er beint með fyrirvaralausri móttöku þá telst það fullnaðarkvittun. Semsagt allir sem greiða greiðsluseðla hafa þar með fengið fullnaðarkvittun. Hæstiréttur þurfti að tyggja þetta sérstaklega ofan í lögmann bankans sem reyndi að halda því fram að bankinn ætti kröfu aftur í tímann á þegar dauðar kröfur. Þar studdist bankinn við ÁrnaPálslögin frægu sem þú heldur að Hæstiréttur hafi búið til en ekki Ingvi Örn, starfsmaður samtaka fjármálafyrirtækja.

   Þú hefur auðvitað rétt fyrir þér um Evruna líka, ég get ekki annað en verið sammála þér þar.

   • Ég held að við séum meira sammála en kannski virðist. Ég geri engan ágreining um þetta með skilning á „fullnaðarkvittun“; tek undir með þér að venjuleg greiðsla í heimabanka sem tekið er á móti án fyrirvara telst vera „fullnaðarkvittun“. Er jafnframt persónulega sammála rökstuðningi Hæstaréttar og finnst niðurstaða hans sanngjörn í þessu máli. Vara hins vegar við því að nýjasti dómurinn sé túlkaður of vítt því það býður heim vonbrigðum á síðari stigum.

 • Evran er ekki að fara neitt, Hans. Spurningin gæti frekar verið: hversu langt á t.d. forintan eftir, eða jafnvel breska pundið ef út í það er farið?

 • „búsifjar heimila og skaði á raunhagkerfinu hefðu orðið miklu minni með evru en krónu.“

  Hefurðu eitthvað fyrir þér varðandi þetta annað en einungis orðin? Íslendingar fengu t.a.m. einhvern stærsta efnahagsskell sem um getur í hlutfalli við stærð hagkerfis. Sum hagkerfi á evrusvæðinu hafa ekki lent í eins miklu áföllum en eru samt sem áður á hliðinni, m.a. vegna þess að ekkert tilfærslukerfi er innan evrusvæðisins og verður varla í framtíðinni nema Þjóðverjar séu reiðubúnir í slíkt, sem telst ólíklegt. Það er að segja, mörg hagkerfi innan evrusvæðsins hafa lent í minni aföllum en hið íslenska hagkerfi lenti í en nú er hið íslenska á hægri uppleið meðan evruhagkerfin eru á niðurleið. Einnig ber að hafa í huga að við erum búin með skellinn, evrusvæðið er í miðjum stormi. Spyrjum um breytingu lífsgæða vegna efnahagsáfalla hjá ýmsum þjóðum eftir 1-2 ár.

  Það er t.d. einmitt vegna evrukerfisins að hin innri aðlögun gríska hagkerfisins hefur ekki gengið eftir, því ef þú getur ekki fellt gengið þitt þá verður aðlögunin að eiga sér stað í gegnum vinnumarkaðinn og hefur reynst mjög erfitt að lækka raunlaun að einhverju marki með þeim hætti. Alþekkt er að aðlögun í gegnum vinnumarkað tekur mun lengri tíma en aðlögun í gegnum gengi.

  Þú talar um agaða hagstjórn eins og hún hafi verið til staðar á evrusvæðinu, þegar akkúrat hið öfuga er sannleikurinn. Ég veit ekki hvort öguð hagstjórn hafi yfirhöfuð verið til á Vesturlöndunum á þessum brjálæðislegu uppgangstímum sem áttu sér stað.

  „Sveiflur og óstöðugleiki munu ætíð fylgja þessum litla gjaldmiðli eins og nótt fylgir degi“

  Hér gerirðu ráð fyrir því að sveiflur og óstöðugleiki séu krónunni sjálfri að kenna en ekki kerfinu sjálfu, tja, eða útflutningsatvinnuvegunum okkar. Ertu viss um að sveiflur og óstöðugleiki munu ekki einfaldlega alltaf fylgja þessu litla hagkerfi, sama hvaða mynt er við lýði?

  Svo langar mig gjarnan að spyrja þig að spurningu. Hefur þú skoðað þróun lífsgæða t.d. frá 2000-2010, annars vegar á Íslandi og hins vegar hjá hinum ýmsu ESB og evruþjóðum? Á þeim tíma vorum við jú með hið handónýta flotgengiskerfi (2001) meðan bjartsýnin heltók evrusvæðið. Hagkerfi Dana hefur varla vaxið frá 2000-2010. Sömu sögu er að segja um portúgalska hagkerfið. Ítalska hagkerfið hefur minnkað. Frakkar hafa ekki staðið sig vel. Írar eru meira með minni vöxt en við á þessum tíma. Og hafðu aftur í huga að þetta eru tölur til og með ársins 2010, þ.e. allar verstu tölur Íslands eru inni í þessu meðan 2011 og næstu framtíðartölur eru ekki með. En eins og við vitum eru evruhagkerfin á mikilli niðurleið núna, miðað við það sem áður var.

  • Búsifjar heimila og fyrirtækja hefðu augljóslega orðið minni vegna þess að lánin hefðu ekki stökkbreyst. Kaupmáttur heimilanna hefði þá ekki minnkað með sama hætti og venjuleg fyrirtæki hefðu ekki lent í höndum lánardrottna.

   Á Íslandi var allt annar vandi heldur en t.d. í Grikklandi eða Ítalíu. Við vorum með miklu lægri ríkisskuldir, innan við 25% af VLF fyrir hrun, lítinn ríkissjóðshalla og vel fjármagnað lífeyriskerfi. Við vorum hins vegar með dúndrandi viðskiptahalla, 50% af VLF á þremur árum 2005-7, og algjört ofris krónunnar. Seðlabankinn fór svo á hausinn með glans og út frá því gjaldþroti og síðan tekjutapi og hallarekstri ríkissjóðs 2008-2010 urðu skuldir ríkissjóðs verulegar. Hefðum við notast við evru í stað krónu hefði enginn Seðlabanki farið á hausinn og ríkissjóður komið út úr hruninu með vel viðráðanlega skuldastöðu.

   Vissulega byggir þetta á því að skuldir bankanna hefðu ekki verið færðar yfir á ríkissjóð í meira mæli en gert var, en möguleikar til þess voru hvort sem er hverfandi enda námu skuldir bankakanna 10 landsframleiðslum eins og kunnugt er.

   Það er útbreiddur misskilningur að skuldavandi eins evruríkis sé með einhverjum beinum hætti skuldavandi annarra evruríkja. Þvert á móti er ESB beinlínis bannað í Lissabon-samningnum (sbr. 125 gr. hans) að gera nokkuð það sem valdi því að eitt ríki þurfi að taka á sig skuldbindingar annars. Sá mekanismi sem verið er að nota til að hjálpa skuldugum ríkjum í vanda er fyrst og fremst EFSF/ESM en það eru sjóðir sem eru uppbyggðir með hliðstæðum hætti og AGS. Þeir sem vilja ekki sjá EFSF/ESM ættu að berjast með sömu rökum gegn þátttöku í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

   Ég er þeirrar skoðunar að hagsæld komi af því að nýta hugvit, sköpun, mannauð og auðlindir til að framleiða vöru og veita þjónustu sem öðrum þykir eftirsóknarverð. Því meira sem hægt er að einbeita sér að þessu, og því minna sem þarf að kljást við óstöðugt umhverfi, háan fjármagnskostnað og viðskiptahindranir, því betra og því líklegra til árangurs.

 • Jón Steinsson

  Mér finnst þú taka ansi djúpt í árina þegar þú segir að „skaði á raunhagkerfinu hefðu orðið miklu minni með evru en krónu.“ Fall krónunnar hjálpaði t.d. ríkinu að koma böndum á ríkisfjármálin með því að lækka raunlaun opinberra starfsmanna. Það hefði verið erfiðara með evru (hluti af vanda Grikkja). Og þótt ég sé sammála þér að gengisteigni útflutnings sé ekki eins mikil á Íslandi og víða annars staðar þá hafði fall krónunnar talsvert að segja með að lækka innflutning og færa neyslu yfir á vöru og þjónustu framleidda á Íslandi (færri bílar og verslunarferðir til útlanda).

  • Ríkið hefði ekki þurft að grípa til nærri því eins umfangsmikilla aðgerða, Jón, ef hér hefði verið evra í hruninu en ekki króna. Vaxtagjöld ríkissjóðs hefðu t.d. verið miklu lægra hlutfall af VLF. Laun opinberra starfsmanna voru lækkuð, einkum með afnámi yfirvinnu- og aukagreiðslna. Grunnvandinn hér var líka alls ekki viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði (innan ríkisreiknings og utan), eins og í Grikklandi og víðar. Vandinn var ofris krónunnar og síðan snjóhengja viðskiptahalla. Hjá hvoru tveggja hefði mátt komast með evru.

 • haukur kristinsson

  ef við hefðum verið í þessu blessaða ESB þegar hrunið varð hefðum við aldrei fengið leyfi til að láta bankana falla,hefðum þurft að taka við lánapakka frá ESB og seðlabanka evrópu og sett okkur í fátækt næstu 30 árin

 • Ómar Kristjánsson

  það er skemmtilegt afbrigði af ,,both ways“ hugsanavillu hjá Krónudýrkendum, að þeir segja sem svo að kostur krónu sé að þá er hægt að lækka laun og hækka verð með gengisfellingu og ,,þannig sé sveigjanleiki“ til staðar. þegar þeir eru búnir að segja það þá snúa þeir sér í hálfhring og segja, að það eigi að taka upp harða og agaða hagstjórn í alla staði sem leiði til að það verði ekki gengisfall og íslenska hagkerfið verði bara stabílt.

  Til hvers þá að hafa Krónu ef það á ekki að nota hana til að lækka laun og hækka verð? þetta gegngur ekkert upp hjá mönnunum þessi hugarspuni.

  Auðvitað er miklu betra að hafa Evru til að ná fram stabíleseringu og viðhalda stabíleseríngu í hagkerfinu hérna. Menn þurfa ekkert að láta svona. Menn láta eins og asnar! þetta minnir ennfremur á þegar íslendingar fóru fyrst í Euruvision söngkeppnina. þá var bara formsatriði að fara og taka gullið. Einfaldlega vegna þess að íslensk tónlist væri miklu betri en evrópsk! það var almennt hlegið að evrópskri tónlist hérna. (Nema hugsanlega enskri og þá aðallega vegna þess að Bítlarnir komu jú frá Englandi.)

  það er alveg sama hugmyndafræði á bak við krónuna hérna. Íslenskt: Best í heimi!

 • Stefán Benediktsson

  Jón Steinsson. Þú veist að laun starfsmanna ríkis, bæja og fyrirtækja voru lækkuð í krónum til viðbótar við fall krónu? Er það ekki?

 • Stefán Benediktsson

  Hvernig halda menn að það hljómi í eyrum fjárfesta. „Krónan er svo gott hagstjórnartæki. Hægt er að hagræða með 20-50% gengisfellingu, þegar þarf, að vísu eru raunvextir 2x-3x hærri af þessum sökum og mikill og stöðugur þrýstingur á launareikning fyrirtækja. Já og innflutningsverð breytist mjög hratt, það hækkar….bara.“

 • Ómar Kristjánsson

  þetta slær í gegn hjá fjárfestum. Iceland: Dúsund pojind.

  þeir hafa aldrei heyr eins mikla framtíðarmúsíkk. Svo væri fínt að hafa smá jóðlkafla í miðju laginu.

 • Ertu ekki að sneiða fram hjá því sem margir setja fyrir sig við upptöku Evru, sem er það að þá er krafist aðildar að Evrópusambandi, sem svo aftur gerir auðlindir okkar að auðlindum Evrópusambandsins? Kannski veistu meira en ég um það mál, og það þarf ekki mikið til, kannski getum við fengið inn einhver ákvæði í okkar aðildarsamning um að við höldum okkar náttúruauðlindum útaf fyrir okkur… Veistu hvernig það er?

  Önnur pæling, þó að við getum kannski ekki einhliða tekið upp Evruna, getum við ekki fest gengi krónunnar við Evruna, (t.d. 1 EUR = 100 ISK) og verið þar með óbeint búin að taka upp Evruna?

  • Við höldum auðlindum okkar við aðild að Evrópusambandinu, Jón. Svíar eiga áfram sína skóga, Bretar og Danir sína olíu, Frakkar sínar ölkeldur og Þjóðverjar sínar kolanámur. Með sama hætti munu Íslendingar áfram eiga og ráða sínum auðlindum. Fiskur er undantekning að því leiti að tilteknir fiskistofnar synda á milli lögsaga ESB-ríkja og því verður að stjórna veiðunum og semja um þær á sameiginlegum vettvangi með sjálfbærum hætti. Fiskistofnar sem eru staðbundnir við Ísland verða áfram undir íslenskri stjórn á grundvelli nálægðarreglu (subsidiarity). Sjá nánar http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/1083563/

   Varðandi fast gengi, þá virkar það ekki vegna þess að eftirspurnin eftir að komast út úr krónunni er svo mikil – meiri en gjaldeyrisforðinn ræður við. Talað er um að allt að 1.000 milljarðar króna myndu „vilja“ komast úr landi ef það byðist á ásættanlegum kjörum. Ef ríkið ætlaði að fastsetja 100 ISK = 1 EUR og opna svo flóðgáttirnar yrði það að eiga 10 milljarða evra á takteinum til að láta „flóttamennina“ hafa á leiðinni út. Eitthvað kæmi svo aftur inn smám saman en þetta er engu að síður óframkvæmanlegt.

 • Höskuldur Einarsson

  Að fella gengið í verðtryggðu umhverfi er eins og pissa í skóinn sinn.
  Hitnar í smá tíma og verður síðan mjög kalt.
  Kostirnir við að fella gengið eru færri en afleiðingarnar til lengi tíma litið

  Menn láta eins og ekkert hafi gerst á Íslandi eftir hrun.

  Það að fella gengið færir fé frá almenningi til útflutnings greinana.
  Gjaldeyrishöft.
  Krónan fell um 80%.
  Laun lækkað.
  Skattar hækkað.
  Allt verðlag hækkað.
  Lækkað verð á húsnæði
  Lán og afborganir hækkað mikið.
  Seðlabankinn gjaldþrota
  Nánast allt fjármálakerfið á hliðina
  Atvinnuleysi 5 faldaðist (litið minna en meðalatvinnuleysi á EU svæðinu sem er um 10%)

  Ef við hefðum haft Evru þá hefði hrunið ekki orðið svona stórt hjá okkur og við hefðum losnað við ýmislegt sem ég taldi upp þó svo Evran sé alls ekki fullkominn frekar en aðrir gjaldmiðlar.

  Ég er ekki að sjá annað en að það sé fullreynt með að nota krónuna til framtíðar sem gjaldmiðil hvort sem við notum fljótandi krónu eða fast gengi.

 • Eins og hagfræðingurinn Willem Buiter benti á ráðstefnunni í Hörpunni um daginn, þá erum of fá til að halda úti eigin mynt. Í fyrsta lagi er of erfitt að vera með litla mynt í því opna alþjóðahagkerfi sem er í dag, sveiflurnar sem koma vegna fjármagnsgerninga eru það miklar eins og við þekkjum vel af reynslu síðustu ára.
  Hitt er það að 300 þús. hræður hafa ekki þann fjölda hæfileikafólks til að halda úti alvöru Seðlabankastjórn og fjármálaeftirliti. Smæðin skapar og kunningjasamfélag sem veldur því að hagsmunir heildarinnar verða oftar en ekki útundan við stjórnun.
  Við þurfum því að losa okkur undan því að reyna að gera eitthvað sem við einfaldlega höfum engar forsendur til að ráða við eins og reynslan sýnir.

 • Eggert Sigurbergsson

  Bara smá oggu poggu pínu ponsu smáatriði, Íslendingar eru ekki á leið í ESB.

  Ekkert ESB engin Evra, komin tími til að ræða aðrar lausnir.

 • Ómar Kristinsson: Hugarspuni segirðu. Svo sem ágætis leið til að snúa út úr málunum hjá þér en gengur samt ekki. Þegar talað er um gengisfellingu/-lækkun er í nánast öllum tilfellum verið að tala um veiking gjaldmiðilsins sem er ekkert í líkingu við það sem gerðist í hruninu. Og hrunið var ekki íslensku krónunni að kenna. Hörð og öguð hagstjórn eins síns liðs getur ekki stöðvað allt ef eitthvað mikið fer úrskeiðis í hagkerfi. Því er mikilvægt að hafa bæði þessi tæki til að nota, sér í lagi vegna sveiflukennds hagkerfis okkar (krónan er óstöðug en ef til vill, bara ef til vill, vegna stófellds kerfisvanda?). Krónan okkar er líka óstöðug vegna þess að hún er lítil mynt, satt er það. Eru allar sveiflur vondar? Er hægt að laga þetta að hluta til með Tobin skattinum?

  Þú talar um stabílt. Það er nákvæmlega ekkert stabílt við það sem er í gangi í ESB og evrusvæðinu núna, eiginlega bara akkúrat hið öfuga við stabílt. Þar blasir t.a.m. greiðslufall við Grikklandi, Ítalir þurfa að endurfjármagna gífurlegar upphæðir á þessu ári, bankakerfi Spánverja stendur á brauðfótum, Portúgalir þurfa annað bailout. Maður á alltaf jafn erfitt með að átta sig almennilega á stöðu Írlands, en þar ákvað rikið að ábyrgjast bankakerfið Mikið af þessu er vegna kerfisgalla og brjáluðum útlánum banka í þenslunni. Fyrst til S-Evrópu en fjármagnið flúði austar í heimsálfuna síðar meir. Kannastu við þetta? Kerfisgalli, áhættusöm útlán, frjálst fjármagnsflæði. Hljómar svolítið eins og það sem gerðist hér heima.

  Hösuldur Einarsson: Það þurfti að láta gjaldeyrishöft á og núna er SÍ að vinna í að afnema þau. Ekki gleyma hversu stórt hrunið hér varð, það tekur tíma að vinna úr þessu. Hefur krónan fallið um 80%, ertu viss? Ef svo er, samt ekki meiri verðbólga en raun bar vitni, það er þroskamerki. Auk þess sem gengislækkunin hefur hjálpað til, sama hverju sem einhverjir kunna að halda fram. Laun lækkað já, enda var það nauðsyn, þau hafa líka lækkað hraðar vegna gengislækkunar. Við höfum náð botninum hvað það varðar. Laun eru rétt byrjuð að lækka á evrusvæðinu. Skattar hafa hækkað já, það var nauðsynlegur fylgifiskur hrunsins. Hvað sýnist þér annars vera að gerast á evrusvæðinu, sérðu mikið um skattalækkanir þar? Lækkað verð á húsnæði já, heldurðu að það sé mikill og blómstrandi fasteignamarkaður á evrusvæðinu núna? Lán og afborganir hækkað mikið, t.d. vegna ólögmætra gengistryggðra lana sem betur fer er búið að leiðrétta núna skulum við vona. Einnig er hér ríkjandi verðtrygging a neytendalánum, sem hvergi finnst annars staðar. Fjármálakerfið fór á hliðina já. Myndirðu frekar vera í sporum Íra, sem ábyrgðust það þegar það átti að fara á hliðina? Það er villandi að taka meðalatvinnuleysi á evrusvæðinu? Er þetta einfalt meðaltal eða vegið? Þar að auki er atvinnuleysi á uppleið þar meðan það er á niðurleið hér og staðan í sumum jaðarríkjum hreint út sagt hræðileg. Og ekkert tilfærslukerfi milli þjóða.

  Írar höfðu evru og höfðu ofvaxið bankakerfi. Hvernig er staðan hjá þeim?

 • Mér var bent á þessi svör á Alþingi frá júní 2011 við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur um Maastricht-skilyrðin: http://www.althingi.is/altext/139/s/1715.html

  Þarna kemur ýmislegt athyglisvert fram. Um verðbólguna er sagt: „Framkvæmdastjórn ESB spáir 3% verðbólgu á Íslandi árið 2011. Á sama tíma er því spáð að verðbólga verði 1,63% í þeim þremur ríkjum ESB þar sem hún er minnst. Gangi þetta eftir næst skilyrðið með tilliti til ársins 2011.“ Nánari samanburð á verðbólgu á Íslandi og Maastricht-viðmiðinu má sjá hér: http://data.is/xlagIm

  Varðandi vextina segir: „Ef staðan væri tekin nú væri miðað við vexti í Tékklandi, Írlandi og Svíþjóð. Meðallangtímavextir í þeim þremur ríkjum eru 5,8%. Vaxtaviðmið Maastricht-skilyrða væri því 7,8%. Langtímavextir ríkissjóðs eru hins vegar nú um 7,3%.“

  Þegar fjallað er um opinberar skuldir í svarinu fæ ég ekki séð að skuldir vegna gjaldeyrisforða séu dregnar frá, eins og ég tel rökrétt að gera. Ef það væri gert, næðum við skuldaviðmiðinu auðveldlega.

 • Höskuldur Einarsson

  Bragi
  19.2 2012 @ 22:39

  Jú það er rétt að SI er að kroppa í gjaldeyrishöftin en ég er ekki að sjá þau hverfa í bráð það verða líklega alltaf einhverskonar höft meðan við notum krónu.
  (síðast þegar við settum höft á voru þau í kringum 50 ár, áttu að vera í nokkra mánuði).

  Krónan hefur fallið um 80% sem er svona meira hrun en að gengið sé að síga. Það er rétt að verðbólgan er kannski ekki há miðað allt þetta gengis fall en það verður líka að líta á það að það er mikil samdráttur í þjóðfélaginu.

  Ég sagði ekki að fella gengið hefði enga kosti heldur að kostirnir við að fella gengið eru færri en afleiðingarnar til lengi tíma litið í verðtryggðu umhverfi.

  Við megum ekki gleyma því að okkar ráðamenn fóru um allan heim og reyndu að fá lán til að bjarga bankakerfinu okkar en við vorum svo heppinn að engin vildi lána okkur.
  En engu að síður eru skuldir okkar miklar af þessu hruni t.d. fall SI, jöklabréf, Icesave fyrir utan ýmislegt annað.

  Það má einnig minna á það að það er kreppa í heiminum og það sleppa fáir undan henni .
  Löndin voru misvel undirbúin þessu áfalli og margir búa við erfiðleika en ég held að fáir eigi við jafn stórt vandamál að etja og við Íslendingar að stórum hluta vegna krónunar.

  Við vorum fyrst að falla þó svo að það sé aðeins farið að rofa aðeins til hjá okkur þá er ennþá langt í land og mörg stór mál óleyst sem margir hreinlega horfa fram hjá t.d. framtíðar gjaldmiðill.

  Vinur minn er Íri og hann segir mér að þeir séu búnir að fjármagna bankakerfið hjá sér en að vísu þarf almenningur að borga þær skuldir en stórt vandamál hjá þeim sé rúmlega 13% atvinnuleysi en að öðru leiti þá gangi lífið sinn vanagang. Það verður líka að horfa á að þeir losna við mörg vandamál sem fylgja krónunni okkar.

 • Hjalti Atlason

  Væri ekki nær að beina sjónum sínum að raunverulegum skaðvöldum hrunsins, ríkistryggðum fjárfestingabönkum í einkaeigu.
  Þeir munu setja okkur aftur á hausinn hvort sem við erum með evru eða krónu. Hvernig stendur á því að tæpum fjórum árum eftir hrun leika þeir ennþá lausum hala með nánast sama lagaumhverfi?

 • Veit ekki hverslagt kjáni þú ert Vilhjálmur en ég get alveg sagt þér að fyrir mér ertu ekki merkilegur pappír. Þú ert eins og hross með leppa fyrir báðum augum til að sjá ekki nema það sem þér er ætlað að sjá. Ómerkingur algjörlegla fyrir mér.

  • Gott að það sé á hreinu, Ásthildur. Bestu kveðjur og þakkir fyrir að lesa pistilinn.

  • Kári Harðarson

   Ásthildur, þú ert ekki að gera þínum málstað neitt gagn með svona árásum. „Stick to the point“ og láttu ekki skapið hlaupa með þig í gönur.

 • VIlli. Hefur þú ekki veitt því athygli að þ.e. að rætast þ.s. ég spáði fyrir tveim árum, að þeir myndu herða reglurnar um evru-aðild?

  Látum okkur sjá „Stability Pact“.

  Sannarlega hefur Merkel ekki enn tekist að koma honum inn í sáttmála sambandsins, en hún ætlar sér að klára það atriði innan nk. 5 ára.

  Svo er það svo óskapleg bjartsýni að miða við 2016 – að manni er hlátur í huga.

  Hef alltaf sagt að 15-20 ár sé raunhæft viðmið.

  Að sjálfsögðu felur aðild að evru ekki í sér stöðugleika fyrir Ísland, fremur en fyrir Grikkland eða Portúgal.

  Enda leysir evruaðild ekki okkar helstu vandamál, sem er hakerfisóstöðugleiki sem sprettur út frá framleiðsluhagkerfinu, sem við lifum á megni til.

  Megin breytingin væri að gera það erfiðara, að aðlagast þeim sveiflum sem það framkallar, sem gæti þvert á móti leitt til enn stærri eða öfgakenndari hagsveifla hér, þ.e. dýpri kreppa og stærri bóla þess á milli.

  Auðvitað sú áhætta, að við lendum í gríska eða portúgalska vandanum, þ.e. að útfl. hnigni vegna þess að laun hækka upp í ósamkeppnisfært horf, sem framkallar viðskiptahalla sem endar í skuldakreppu, svo hyldjúp kreppa í kjölfarið

  Raunveruleg hætta, fáæktargilda eins og sú sem Grikkl. virðist stefna hraðbyri í.

 • Höskuldur Einarsson – – síðast er ég gáði sýndist mér munur á gengi jan. 2008 og jan 2012 gagnvart evru vera rúml. 40%.

  80% er taka sem ég kannast ekki við að hafa heyrt áður.

  Kv.

 • Vilhjálmur Þorsteinsson – – Villi, við verðum augljóslega með mun meiri verðbólgu hérlendis áfram, meðan við beitum þeirri aðferð í kjarasamningum, að hækka alltaf skv. sömu prósentu.

  Síðan eru það sveiflurnar í úfl. atvinnuvegunum, sem yfirborga þegar þeim vegnar vel sem veldur einnig víxlverkan launa og verðlags.

  En ég fæ ekki séð að víxlverkan launa og verðlags, virki með öðrum hætti hér „locally“ innan evru.

  Stórlega efast að „local“ verðbólga verði umtalsvert lægri, sem ég reikna með að muni spila rullu með bankavexti hérlendis. Svo skilst mér að lífeyrissjóðirnir séi megin kaupendur skuldabréfa bankanna, ríkisins einnig, en þeir þurfa eins og þekkt er maðalávöxtun 3,5% raunvexti.

  Það verður dálítill vaxtamúr hér, nema bankarnir geti útvegað sér fé með ódýrari hætti annars staðar.

  En þá sjá menn, að Ísland er með óstöðugt hagkerfi. Hefur alltaf haft slíkt hagkerfi. Mun áfram hafa slíkt óstöðugt hagkerfi áfram – þ.s. það eru sömu atvinnuvegir.

  Þetta þíðir að hagkerfið hefur verulegar tekjusveiflur, sem hríslast innan hagkerfisins skilar sér í tekjusveiflum þeirra sem starfa innan þess, þetta skiptir máli því tekjusveiflur eru einnig sveiflur í greiðslugetu.

  Lán til aðila starfandi á Ísalndi, verða því áfram – ég myndi segja – verulega áhættusamari en til aðila innan Tékklands, sem er mun stöðugara hagkerfi vegna þess að þess framleiðsluþættir eru það.

  Það þíði vegna þess að ákvörðun um vexti sníst um áhættumat, að aðilar á Íslandi muni áfram vera knúnir til að borga umtalsvert áhættuálag, – – þá meina ég aðila sem hafa megintekjur innan ísl. hagkerfisins.

  Annað getur því gild um ísl. fyrirtæki með verulegan hl. starfsemi í öðrum löndum, þá væntanlega taka bankar mið af því ef sú starfsemi er í áhættuminni hagkerfum, og slíkir aðilar væntanlega fá hagstæðari fyrirgreiðslu.

  Þ.s. ég er að segja, er að ég sé enga byltingu í vaxtakjörum fyrir aðila á Íslandi, eintaklinga – sem hafa megintekjur frá ísl. hagkerfinu.

  Auðvitað er þetta dálítil akademísk umræða, þ.s. við eurm að tala um evru eftir svona 15-20 ár.

  Kv.

  Kv.

 • „Vaxtagjöld ríkissjóðs hefðu t.d. verið miklu lægra hlutfall af VLF.“

  Hefur farið framhjá þér að vaxtagjöld Grikkl,, Portúgals, Spánar og Ítalíu hafa hækkað nokkuð? Við fall bankanna hækkuðu skuldir ríkisins umtalsvert, sem má treysta að hefði hækað þau einnig – tja, töluvert.

  „Vandinn var ofris krónunnar og síðan snjóhengja viðskiptahalla. Hjá hvoru tveggja hefði mátt komast með evru.“

  Það held ég sé ekki rétt hjá þér. Málið er að þú gleymir því að það var stórfelldur viðskiptahalli í öllum jaðarríkjum Evrópu á sl. áratug. Þar komu til „auðsáhrif“/“wealth effects“ af ódýrari evrulánum. En lægri vextir þíða að hver og einn hefur efni á stærra láni. Þetta skapaði umtalsverða aukningu skuldasetninga almennings – eins og varð hér,

  Þá erum við að tala um aukna eftirspurn eftir húsnæði bólukenndur í sumum landanna, aukna neyslu mikið til tekin út á skuldsetningu – – þetta framkallaði viðskiptahalla í öllum jaðarlöndunum.

  Sannarlega framkallaði ofris krónunnar viðskiptahalla – en það gerði einnig lækkaður lántökukostnaður í jaðarríkjum evrusvæðis.

  Í þeim öllum í dag, hefur orðið hressilegur samdráttur í neyslu, kringum 20% ekki óalgengt. Almenningur farinn að greiða niður – en alveg eins og hér, verður neysla mörg ár á eftir tiltölulega lítil. Timburmenn.

  Atvinnuleysi er meira en á Íslandi í þeim öllum.

  Ég er viss að það sama hefði gerst og á Írlandi, að hér hefði skapst öflug neyslubóla, ásamt mikilli aukningu í eftirspurn eftir húsnæði. Og svo eftir fall bankanna, mjög sambærilegir skuldatimburmenn og við búum við í dag.

  Kv.

 • Hrekkjalómur

  Það er mjög athyglisvert að lesa athugasemdir við þennan vandaða og rökfasta pistil Vilhjálms. Þeir sem ekki eru sammála honum nota flestir gífur- og fúkyrði. En Vilhjálmur svarar af prúðmennsku með rökum. Mikið væri nú gaman ef aðdáendur krónunnar hefðu vit á því sama og gætu svarað með rökum, af prúðmennsku. En ég held þeir eigi nefnilega erfitt með það því rökin fyrir því að halda krónunni eru ruglinglseg, veik eða hreinlega engin. Þess vegna grípa menn til fúkyrða.

  Hrekkjalómur

 • Þórhallur Kristjánsson

  Það virðist vera þannig að nóg er að uppfylla mastrict skilyrðin einusinni þegar verið er að sækja um evruna en síðan er ekkert farið eftir þeim.

  Það eru nánast engin ríki í ESB sem uppfylla mastrict skilyrðin. Ef ríkin hefðu farið eftir mastrict skilyrðunum þá væri engin skuldakreppa í evrópu.

  Ef Ísland hefði verið með evru fyrir fyrir hrunið þá eru allar líkur á því að ESB hefði sett eins mikið af skuldum bankanna yfir á ríkið eins og mögulegt væri.

  Þá væri núna verið að undirbúa að selja Landsvirkjun og fleiri opinber fyrirtæki upp í skuldir. Þetta er verið að gera í öðrum ESB skuldugum löndum eins og Írlandi og Grikklandi.

  Það er eins og evran sé nokkurskonar gildra. Til þess að fá að taka hana upp þarf að uppfylla ströng mastrict skilyrði og síðan lána stóru löndin litlu löndunum peninga eins og enginn sé morgundagurinn. Þegar skuldirnar eru orðnar óviðráðanlegar þá eru þjóðirnar komnar í skuldafangelsi og nánast búnar að missa sjálfstæðið.

  Það er vel hægt að nota krónuna áfram ef vilji er til þess. Það sem þarf að gera er að breyta um peningastefnu og láta krónuna stýrast af viðskiptajöfnuði en ekki með verðbólgumarkmiði og frjálsum markaði.

  Þegar viðskiptajöfnuðurinn er núll og skuldirnar í jafnvægi þá er krónan rétt skráð. Þegar krónan er rétt skráð þá stillir hún af þann lífsstandard sem landið ræður við. Ef menn vilja hafa krónuna sterkari þá er verið að eyða um efni fram. Það gengur ekki til lengdar eins og kom í ljós fyrir hrun.

 • Einar Hansson

  Frábær samantekt og mjög sönn.
  Sést einna best á mótrökum Ásthildar Cecil Þórðardóttur.

 • Fólk eins og Ásthildur Cesil stimplar sig gjörsamlega út úr umræðunni með svona dónaskap og þvættingi. Fólk með svona sóðaskap getur skolað úr sínum botnlanga á Barnalandi eða athugasemdakerfi DV.is, en ekki þar sem reynt er að stunda vitræna samræðu. Skora á þig, Vilhjálmur, að eyða hennar athugasemd út.

  • Ég er ýmsu vanur, Hansi, og kippi mér ekkert upp við svona lagað. Sannast sagna á ég í meiri erfiðleikum með langlokurnar frá Einari Birni; þær hafa þann ókost að kæfa aðra umræðu með sinni tröllslegu lengd, þéttu hugsanaþoku og útpældu leiðindum.

   • Ásgeir Brynjar Torfason

    Þrjár þverhandarþykktir er hámarkslengd kommenta hjá Krugman, lengri athugasemdum er eytt.

    Þakka annars ágæta samantekt. Lifi enn í þeirri veiku von að þegar að meirihlutanum verður ljóst að eina raunhæfa leiðin til að losna við verðtryggðu húsnæðislánin er stöðugur gjaldmiðill og þar með upptaka evru – að þá verði aðildarumsókn samþykkt. Umræðan hér á þræðinum og röksemdir krónufólks og innilokunarsinna eru frekar ruglingsleg og það hefur virkað vel hingað til til að láta meirihlutann komast að rangri niðurstöðu. Það eru valin sundurlaus og einstök atriði héðan og þaðan til að sýna fram á heildarmynd sem ekki stenst.

    Söðugleikinn byggist á kjöfestu (stability needs a stabilizer sagði Kindleberger) og hún fæst með evru, aðild að ESB og aðgengi að ECB, annars mun litla þjóðarskútan halda áfram að rugga og vagga stolt stórsjónum á.

 • Láttu ekki svona Villi. Einar Björn er frábær penni og spádómar hans enn betri. Hann spáði því t.d í október að Evran myndi ekki lifa út árið sjálfsagt verið aðeins of snemma á ferðinni enda mun evran ekki lita til sumars samkvæmt nýjustu spám hans. Svo er voða fínt að sletta svolítið eins og hann iðulega gerir það ber með sér að viðkomandi sé vel lesin á önnur tungumál og skilji hlutina á dýpri hátt en aðrir.

 • Vilhjálmur Þorsteinsson:

  Lánin hafa ekki stökkbreyst jafn mikið úti, satt er það, enda er unnið í því að almenningur fái leiðréttingar á sínum lánum hér innanlands. Kaupmáttur heimila hefur ekki ENN lækkað jafn mikið eins og gerðist hratt hérna, enn og aftur, vegna gengisins. Aðlögunin í gegnum vinnumarkað er miklu lengra ferli og þú getur búist við að sjá lækkandi raunlaun á evrusvæðinu á næstu misserum. Evrusinnar kjósa alltaf að líta framhjá því. Hvað finnst þér um hroðalegar atvinnuleysistölur í jaðarríkjum evrusvæðisins, er það út af því að fyrirtækin hafa efni á að hafa starfsfólk í vinnu? Við skulum ekki blekkja okkur.

  Hér varð allsherjarhrun og mörg atriði hefðu mátt fara mun betur, enginn neitar því. Það sem skilur á milli er að fólk kennir krónunni um það eða ekki. Þeir sem kenna krónunni alfarið um hrunið hér heima hljóta einfaldlega að vera á þeirri skoðun að evran eigi sök á öllum vandræðum á evrusvæðinu núna, ekki satt?

  Möguleikar til að færa skuldirnar yfir á ríkissjóð voru hverfandi já, en hvernig heldurðu samt sem áður, í fullri alvöru, að það hefði verið staðið að því ef við hefðum verið með evruna sem gjaldmiðil? Ef við hefðum t.a.m. ábyrgst bankakerfið, telur þú t.d. að atvinnuleysi væri á niðurleið hér í dag? Mér er spurn.

  Skuldavandi eins evrusíkis er ekki tengdur beint skuldavanda annars evruríkis, auðvitað ekki, en það tengist saman með óbeinum hætti. Þjóðverjar og Frakkar tapa t.a.m. gífurlegum fjárhæðum ef Grikkland fer í greiðsluþrot. EFSF og ESM sjóðirnir hafa varla náð að tryggja fjármögnunina með almennilegum hætti, þrátt fyrir loforð um það á síðasta ári, er það ekki rétt hjá mér annars? Það er alltaf rætt um björgunarsjóð en síðan virðist aldrei verða mikið úr því. Draghi hefur sennilega bjargað allsherjarhruni á evrusvæðinu í desember/janúar með ódýru lánunum og von er á fleiri slíkum lánum bráðlega. En ódýru lánin renna ekki á endanum til fyrirtækja sem lánar peningana svo út til almennings. Millibankamarkaðurinn er allt að því frosinn og bankarnir leggja ódýru lánin inn til Seðlabanka Evrópu því bankar þora ekki að lána hver öðrum. Alvarleiki evrusvæðisins má kannski helst sjá í að leiðtogarnir fóru til Kínverja til að biðja um hjálp, en alls óvíst er að utanaðkomandi hjálp muni berast. Eina skynsamlega leiðin út úr þessu er verðbólga en Þjóðverjar eru mjög mótfallnir henni.

  Ég útiloka enga lausn, er alfarið með því að klára þessar blessuðu aðildarviðræður og sjá hvernig samningurinn lítur út. Að útiloka einhvern kost „bara vegna þess“ er kjánalegt, við eigum auðvitað að skoða alla möguleika. Ég er þó á þeirri skoðun að myntsamstarf með m.a. þjóðum sem við eigum lítt sameiginlegt með, sé hreinlega ekki skynsamlegt til lengdar. Evrusinnar margir hverjir halda því fram að svæðið sé hagkvæmt myntsvæði (e. optimal currency area). Ég spyr á móti: Getið þið sýnt mér fram á af hverju þið eruð á þeirri skoðun?

  En sjáum til hvernig málin þróast, það verður mjög spennandi.

 • Hallur Heimisson

  Mér finnst vanta hér inn í þessa umræðu, að ef við hefðum haft Evru fyrir Hrun hefðu bankarnir aldrei orðið að þeim skrýmslum sem þeir voru á þeim tíma, vaxtamunarviðskipti með krónuna hefðu ekki átt sér stað. Efnahagsleg stærð Íslands hefði ráðist af auðlindum þjóðarinnar, ekki fjárglæfrum.

 • Ómar Kristjánsson

  Barði, í því sem þú benir til mín, að a var eg ekkert mín skoðun er eg var að lýsa í fyrri innleggjum. þetta var ykkar skoðun!

  En almennt um þitt viðhorf til Krónunar, að ertu sem sagt að segja að ef hrunið sé tekið út fyrir sviga, að þá hafi krónan, altso, reynst vel?

 • Hallur Heimisson
  20.2 2012 @ 14:09

  Það er ekki rétt. Írskir bankar breyttust í skrímsli og þeir eru hluti af evrusvæðinu. Eftirlit hér innanlands var líka svo ógurlega slakt að það nær engri átt. En hvað segir það um eftirlit á evrusvæðinu ef írskum bönkum er leyft að breytast í skrímsli? Auk þess má nefna að mjög margir bankar standa illa, ef til vill stendur spænska bankakerfið í heild sinni hvað verst. Er það merki um gott eftirlit og góða viðskiptasiði?

  • Ásgeir Brynjar Torfason

   til að skilja vandann í Evrópu núna – í samanburði við ef Ísland hefði evru – þá þurfa menn að gera sér í hugarlund hvernig ástandið væri í Grikklandi, Írlandi, Spáni, Ítalíu og Portúgal ef þau lönd hefðu ekki evru

 • „Ríkið hefði ekki þurft að grípa til nærri því eins umfangsmikilla aðgerða, Jón, ef hér hefði verið evra í hruninu en ekki króna. Vaxtagjöld ríkissjóðs hefðu t.d. verið miklu lægra hlutfall af VLF. Laun opinberra starfsmanna voru lækkuð, einkum með afnámi yfirvinnu- og aukagreiðslna. Grunnvandinn hér var líka alls ekki viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði (innan ríkisreiknings og utan), eins og í Grikklandi og víðar. Vandinn var ofris krónunnar og síðan snjóhengja viðskiptahalla. Hjá hvoru tveggja hefði mátt komast með evru.“

  Þú ert nú vanalega málefnalegri en þetta Villi minn.

  En þegar menn hafa engin svör, þá er gripið til skætings. En ég átti ekki von á því frá þér, en þ.e. langt síðan ég hef sent svör inn á þína síðu, en sjálfsagt getur meira að segja þú í örvæntingu, þegar þér verður ljóst að þú hefur engin mótrök, að grípa til slíks.

  Kv.

 • „Kolbeinn – 20.2 2012 @ 13:07: Þú ert með einn út-úr-snúning einnig. Þú klárt nenntir ekki að veita því nána athygli hvað ég sagði, en þ.s. ég varaði við var stórt gengisfall sem augljós hætta var á.

  Draghi sjálfur segir að aðgerðir hans sem hófust síðla í desember, hafi bjargað Evrópu frá alvarlegri fjármálakrýsu, þ.e. 3. ára lánin frægu, en hann ef þú tókst ekki eftiir þeim fréttum lánaði evr. bönkum 489ma.¢, til alls 521 banka, á 1% vöxtum.

  Ég sé ekki ástæðu til að efast um að Draghi hafi haft réttu að standa, þegar hann segist hafa komið í veg fyrir meiriháttar alvarlega kreppu.

  Eigum við ekki að fagna því, að Draghi brást við á 11. stundu?

 • „Hallur Heimisson, 20.2 2012 @ 14:09, Mér finnst vanta hér inn í þessa umræðu, að ef við hefðum haft Evru fyrir Hrun hefðu bankarnir aldrei orðið að þeim skrýmslum sem þeir voru á þeim tíma, vaxtamunarviðskipti með krónuna hefðu ekki átt sér stað. Efnahagsleg stærð Íslands hefði ráðist af auðlindum þjóðarinnar, ekki fjárglæfrum.“

  Kæri Hallur, bendi á að bankakerfi Kýpur er 7,5 þjóðarframleiðsla að umfangi.

  Hefði það bjargað öllu að bankakerfið hér hefði verið fjórðungi minna?

  Annars er það stórlega íkt að vaxtamunaviðskiptun hafi skipt lykilmáli, enda virðst menn sem benda á þau, ekki gera sér grein fyrir því, að miðað við umfang bankanna – voru þau ekki stór hluti þeirra viðskiptareiknings.

  Síðan stækkuðu þeir í krafti lána ekki síst tekin í þýskum bönkum.

  Þú hefur vonandi heyrt frasann „skuldsett yfirtaka.“

  Þessi aðferð að kaupa fyrirtæki, á mjög háu skuldsetningarhlutfalli, stækka þannig 100% á ári.

  Kv.

 • Áður en við hendum krónunni verðum við að svara hvort við erum tilbúin að taka á næstu kreppu með innri gengisfellingu þar sem fjármunir eru ekki gengisfelldir heldur bara laun gegnum kjarasamninga og stóraukið atvinnuleysi. Það er staðan sem veiku Evruríkin standa frammi fyrir í dag.

  Við verðum að horfast í augu við að það verður ekki verður ekki eintómur dans á rósum fyrir hagkerfi sem hefur 70 ára gengisfellingarpólitík á bakinu að leggja henni í eitt skipti fyrir öll. Ef við ætlum að fara í slíkt verkefni verðum við að reyna að læra af lærdómi gengisfellingarlanda sem hafa farið inn í Evruna á undan okkur.

  • Sem betur fer er sveigjanleiki á vinnumarkaði mikill á Íslandi. Það er góður og mikilvægur eiginleiki og honum eigum við að halda eftir aðild að ESB.

   Ég bendi jafnframt á að í mörgum mikilvægum hátækni- og skapandi greinum er vinnuafl afar hreyfanlegt milli landa; það sama gildir t.d. um lækna og sérhæfða iðnaðarmenn. Um þetta fólk er alþjóðleg samkeppni. Almenn launalækkun í gegn um gengisveikingu veldur því aðallega að þetta fólk fer úr landi. Þarna rekast á hagsmunir mismunandi atvinnugreina, og þá þeim í óhag sem þurfa mest að keppa alþjóðlega um vinnuafl. Það eru jafnframt þær greinar sem við þurfum að efla á næstu árum og áratugum til að veita okkar vel menntaða unga fólki tækifæri við hæfi.

 • Ómar Harðarson

  Þetta er góður pistill og vekur mann til umhugsunar. Í pistlinum slær Vilhjálmur fram staðhæfingunni: „Sveiflur og óstöðugleiki munu ætíð fylgja þessum litla gjaldmiðli eins og nótt fylgir degi, með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur öll.“

  Krónusinnum hefur orðið tíðrætt um það á síðustu misserum að hér þurfi ekki annað en „agaða hagstjórn“ til að koma í veg fyrir þessar sveiflur. Að sumu leyti hafa þeir rétt fyrir sér. Á 10. áratugnum var gerð hér merkileg tilraun með svokölluðum þjóðarsáttarsamningum (man einhver eftir þeim?). Einn megintilgangur þeirra var einmitt að tempra sveiflurnar og ná fram lífskjarabótum án kapphlaups við verðbólguna. Í stórum dráttum gekk þetta eftir, en svo kom að því sem virðist óhjákvæmilegt hérlendis fyrr eða síðar. Krónan þoldi ekki við, ekki voru lengur möguleikar að halda henni stöðugri og fljótandi króna með verðbólguviðmiði var tekin upp í byrjun aldarinnar. Söguna það sem af er þessari öld þarf ekki að rekja.

  Ég er ekki hagfræðimenntaður og veit ekki fyrir víst af hverju hér ættu að vera meiri sveiflur en annars staðar. Tvennt má nefna:
  1. Smæð hagkerfisins: Ein flugvélakaup Icelandair hafa marktæk áhrif á þjóðarframleiðsluna. Þau ættu sömuleiðis að hafa áhrif á framboð og eftirspurn eftir krónum/gjaldeyri. Óreglulegar innspýtingar eða úttökur eru einkennandi fyrir íslenska þjóðarbúið.
  2. Lýðræðisskipulagið. Fyrr eða síðar mun einhver stjórnmálaflokkurinn missa sig og lofa öllu fögru til að halda eða ná völdum. Man einhver eftir Framsókn 2003? Í næstu kosningum verður ekki skortur á flokkum sem munu lofa einhverju fyrir alla. Er því treystandi að kjósendur muni frekar halla sér að þeim sem vilja leysa málin með lagni og af varkárni?

  Það væri örugglega verðugt verkefni fyrir einhvern sem vit hefur á að svara spurningunni hvort íslenska hagkerfið sé náttúrulega óstöðugt eða hvort það sé bara stjórnmálamönnum að kenna. Ef hið síðarnefnda, þá ættum við strax að setja í stjórnarskrá að aðeins skuli velja þá á þing sem hafa agaða hagstjórn á stefnuskránni og auk þess vottaða afreksskrá þar um.

 • Guðni Stefansson

  Mèr finnst gleymast sá eiginleiki gjaldmiðils að hann speglar það hagkerfi sem hann þjónar.
  Gjaldmiðillinn er birtingarmynd hagstjórnar, stjórnar peningamála og snilli eða óráðsíu innan hagkerfisins.

  Sem öryggisventill stóð krónan sig vel, hún féll. Hefðum við haft evru værum við öreigar og í sömu stöðu og grikkir. Hrunið væri nýskollið á og landsvirkjun á leið inn í þýska hagkerfið eða það kínverska eins og Saab.

 • Höskuldur Einarsson

  Það er soltið skrítið að þeir sem eru að tala fyrir því að nota krónuna áfram sem gjaldmiðil nota oft orðið ef ef ef. Benda á að við þurfum betri efnahagsstjórn, klárari og heiðarlegri þingmenn, ekkert kjördæmapot, eyða ekki meira en við öflum (varla hægt að segja að landið sé sjálfbært) og svo framvegis.

  Hvað eigum við að bíða lengi efir því að þessir hlutir komist í gott lag, það er spurning hvort sá tími komi nokkurn tímann meðan við notum krónu sem gjaldmiðil.

  Það má líka benda á að það eru mörg lönd í ESB sem gengur vel þó sumir kjósa alltaf að benda á Grikki þegar þeir tala um ESB.

 • Hannes I. Hallgrímsson

  Eitt er víst að ef Ísland hefði verið með Evruna væri atvinnuleysið hér ekki 7,5% heldur 14-15%.

  Við værum þar að auki með efnahagslegt ástand sem væri mitt á milli þess sem væri á Írlandi og í Grikklandi.
  Þ.e.a.s við værum ekki í góðum málum þrátt fyrir Evru-aðild.

  Þar að auki væru vörum og þjónusta héðan afar dýrar og almennt óhagstætt að stunda virðisskapandi framleiðslu sökum lélegrar samkeppnishæfni landsins þar sem gjaldmiðill landsins, Evra, væri alltof sterk.

  Færri ferðamenn hefðu komið hingað vegna þess að verðlag hér á landi væri hátt eða svipað og í öðrum Evru-löndum og jafnvel hærra vegna fjarlægðar við meginland Evrópu og þar með háan flutningskostnað.

  Nei, Evran er engin töfralausn fyrir Ísland þó svo að einhverjir stæðu betur að vígi með Evru.

 • Hannes I. Hallgrímsson

  Vilhjálmur talar um að hátæknifyrirtæki verði að borga há laun til að halda í gott fólk.

  En hvernig ætlar hann að keppa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði með sitt fyrirtæki CCP sem býður há laun og starfar í landi þar sem að er sterkur gjaldmiðill Evra, sem er hátt skráð?

  Getur hans fyrirtæki CCP keppt við Indversk eða Kínversk fyrirtæki sem bjóða lægri laun og búa við gjaldmiðla sem eru veikari = lægra skráðir, en t.d. Evran?

  Kinverskir og Indverskir forritarar og hönnuðu gera það sama og Íslenskir, en kosta um það bil 10-20% af því sem að Íslenskir forritarar og hönnuðir kosta.

  Hvernig ætlar þú, Vilhjálmur, að keppa við fyrirtæki í þessum löndum þegar Ísland verður komið í ESB og hefur tekið upp hinn sterka gjaldmiðil Evru?

  • CCP greiðir laun á Íslandi í evrum. Það er ákvörðun sem tekin var í kjölfar hrunsins. Það hefði aldrei gengið upp að láta starfsfólk taka á sig kjaraskerðingu með hruni krónunnar; þá hefði erlent starfsfólk flúið til síns heima og íslenskt til keppinauta erlendis.

   Það er athyglisvert að forsvarsmenn Marel, Össurar og CCP eru sammála um að krónan sé hindrun miklu frekar en hjálp – og styðja að hér verði farið í evru.

   • Því miður er CCP, Össur og Marel ekki sú kjölfesta sem heldur þessu landi í hópi ríkustu ríkja heims. Sérhæfð tæknifyrirtæki, sem ná ákveðinni stærð, geta því miður ekki þrifist í litlu landi þar sem skortur á mannafla er augljós. Það er sammerkt með CCP, Össuri og Marel að þau gætu horfið af landinu á morgun öll sem ein án þess að hægt væri að koma í veg fyrir það (alþjóðavæðing), þessi fyrirtæki gætu líka þurkast út á örskömmum tíma vegna samkeppni, breytinga á eignarhaldi, hagræðingar o.s.f o.s.f.

    Við verðum að hugsa um þau fyrirtæki sem hafa rætur í auðlindum landsins og hverfa ekki á einni nóttu ef svo ber undir. Mikið hefur verð horft til Finna og Nokia sem dæmi um það sem gera ætti hér er blákaldur veruleikinn er að Nokia er að verslast upp vegna samkeppni frá Asíu og eftir sitja tómar verksmiðjur í Finnlandi og atvinnulaust fólk sem áður höfðu vel launuð hátæknistörf en þarf núna að víkja vegna betur menntaðra lægra launaðra einstaklinga frá Asíu.

    Upptaka á Evru til að þóknast CCP, Össuri og Marel er ekki raunhæfur kostur, upptaka á dollar væri frekar raunhæfari og mundi styðja auðlindahagkerfið betur en Evran, Staðreyndin er sú að útflutningur frá Íslandi er yfir 50% dollar, 30% Evra og 10% pund. Stærstur hluti hrávörukaupa eru í dollurum.

    Það er löngu tímabært að ræða aðrar lausnir í stað þess að einblína á Evruna sem töfralausn enda er ECB ekki lánveitandi til þrautavara þótt við tækjum upp Evru.

 • Höskuldur Einarsson

  Þegar atvinnuleysis tölur í ESB hafa verið bornar fram í þessari umræðu er oftast bent á Spánn 20%, Írland 13%, Portugal 11% þar sem atvinnuleysi er mikið.

  En það gleymist að segja frá Austurríki, Holland, Lúxemborg þar sem atvinnuleysi er á milli 4% og 5%. Meðal atvinnuleysi í ESB er rúmlega 10%.

  Það eru að minnsta kosti 10 lönd í ESB sem eru með atvinnuleysi undir 10% sem er sama tala og hefur verið á Íslandi síðustu ár þó svo atvinnuleysi hafi minkað aðeins hjá okkur undanfarið.

  Það er mjög skrítið þegar menn treysta sér ekki til að standa við sínar skriftir og skrifa ekki undir réttu nafni þegar farið er í þjóðskrá finnst engin Hannes I. Hallgrímsson

  • Eggert Sigurbergsson

   Það sem verður að hafa í huga er af hvaða atvinnuþátttöku er atvinnuleysið.

   EU27 hefur 10% atvinnuleysi og 64% atvinnuþátttöku (15 til 64ára). Væri mun lægra atvinnuþátttaka ef 64 til 74 ára hópurinn væri tekin með eins og gert er á íslandi.

   Holland hefur 75% atvinnuþátttöku(15 til 64ára) og 5% atvinnuleysi. Holland er helsta útflutnings innflutningshöfn í Evrópu og nýtur ríkulega nálægðar við Þýskaland og Frakkland.

   Lúxemborg er eitt stórt spilavíti og græðir á tá og fingri af bankastarfsemi í ESB.

   Ísland er með 80% atvinnuþáttöku (15 til 74ára) og 6% atvinnuleysi. Ef við stillum af atvinnuleysið við EU27 þá er hér ekkert atvinnuleysi í samanburði við öll lönd Evrópu.

   EU27 er með 24% atvinnuleysi miða við 80% atvinnuþátttöku eins og á Íslandi, Holland væri með 10% atvinnuleysi í samanburði við Ísland, þessi tala væri reyndar mun hærri í raun það sem eftirlaunaaldur er mun lægri í ESB.

 • Hannes I. Hallgrímsson

  Þeim Evru-löndum gengur vel sem eru næst Þýskalandi og eru eiginlega heimamarkaður Þýskalands.

  Evran er fyrst og fremst gjaldmiðill Þýskalands enda sniðin að Þýskum efnahagslegum raunveruleika, en ekki t.d. Grískum hvað þá Íslenskum.

  Svíar eru með sína króna og það eru Tékkar líka, samt sem áður vegnar þessum löndum vel.

  Forsendan fyrir því að löndum vegnar vel er ekki gjaldmiðillinn sem landið notar, heldur efnahagsleg stjórn og stefna í atvinnumálum hjá viðkomandi ríki.

  Ísland er t.d. ekki með neina stefnu í atvinnumálum, og stjórnvöld hafa keppst við að fæla í burtu af pólitískum hugsjónaástæðum þá fáu fjárfesta sem hingað vilja koma.
  Með þessum á að „sanna“ að einungis ESB aðild geti reddað okkur.

  Kínverjar eru t.d. ekki með Evruna, hvað þá Norðmenn eða Sviss, samt sem áður gengur þessum löndum vel efnahagslega.

  Skrýtið. Þetta ætti ekki að vera mögulegt samkvæmt kenningum Evru-sinna.

  • Ég held einmitt að tölurnar og staðreyndirnar sýni að atvinnustig er ekki fall af gjaldmiðlinum sem notaður er. Það er miklu frekar fall af almennri samkeppnishæfni atvinnulífs óháð gervistuðningi gengisfellinga, og svo sveigjanleika vinnumarkaðar. Sá sveigjanleiki er mjög misjafn í ríkjum ESB; til dæmis eru víða mjög strangar reglur um uppsagnir sem valda því að fyrirtæki fastráða ekki fólk fyrr en í fulla hnefana. Ég tel að Ísland með sinn sveigjanlega vinnumarkað verði undir meðaltalinu í atvinnuleysi og raunar held ég að stöðugur gjaldmiðill með lága vexti eigi eftir að minnka atvinnuleysi frá því sem nú er, ef eitthvað.

 • Ómar Kristjánsson

  það eina sem er alveg ljóst og fullvíst er, að krónusinnar telja að krónan hafi reynst vel hérna uppi. Reynst vel. Og þá frá upphafi. Segir allt sem segja þarf.

  þeir telja það sem sagt einn helsta kost krónunnar að hafa, altso, fallið eins og steinn í frjálsu falli eftir að hún var slitin frá dönsku krónunni svo við erum að tala um eitthvað þúsundir prósenta. þeir bara alveg: Vei! Jibbí! Etc.

  þegar mennirnir hafa þetta viðhorf sem kemur fram í nánast öllum inneggjum með einum eða öðrum hætti, þá veit maður að þetta er barasta dýrkun.

  þetta er álíka og þegar heiðnir menn sögðu á sínum tíma, ja, það hefur nú alltaf reynst vel að færa þór fórnir!

 • Hannes I. Hallgrímsson.

  Auðvitað er Kína ekki með Evruna og hvers vegna ættu þeir að vera með hana enda hafa þeir alla burði til þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli.

  Sjálfstæður gjaldmiðill getur haft ýmsa kosti en það er ekki valkostur fyrir dvergríki.

  Árið 1914 slitu Norðmenn, Danir og Svíar því myntsamstarfi sem þau höfðu verið með í nokkra áratugi þar á undan og á þeim tímapunkti voru krónur allra þriggja landanna jafngildar. Nokkrum árum síðar slíta Íslendingar tengingu við dönsku krónuna. Núna ca 100 árum síðar er gildi norsku, sænsku og dönsku krónunnar merklegt nokk í svipuðum hlutföllum og áður. En á sama tíma hefur íslenska krónan fallið ca 99,5% gagnvart hinum myntunum þrátt fyrir það að gjaldeyrishöft voru mun lengur við líði á Íslandi en Á hinum löndunum á þessum 100 árum.

  Þetta segir allt sem segja þarf, Ísland er einfaldlega of lítið hagkerfi og fámenn þjóð til að geta haldið úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Nú er ekki heldur svo að efnahagur á Íslandi sé eitthvað mikið lakari en á hinum norðurlöndunum, þjóðarframleiðsla á mann á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð er nánast sú sama í dag eftir kreppu, Noregur er sem kunnugt er nokkuð ofar hinum löndunum. Gjaldmiðill snýst fyrst og fremst um traust, örmynt mun aldrei ná því trausti sem þarf, það er bara þannig.

  Á meðan við afneitum þessum staðreyndum þá mun gjaldmiðilsútgerð okkar gera ekkert annað en að þvælast fyrir og valda okkur ómældum kostnaði og fyrirhöfn eins og flestir þekkja sem hafa staðið í rekstri.

 • Já ég var örugglega dónaleg, en talaði hreina íslensku. Ég hef ekki stimplað mig út úr neinni umræðu. Það er voða auðvelt að tala yfir fólk með vinsemd í svona tilfelli. En málið er að þið sem eruð hér í miðri elítunni og skiljið ekki mikilvægi sjávarútvegs né landbúnaðar, heldur einblýnið einvörðungu á lærdómsfólk sem hugsanlega sér fyrir sér góðar stöður út í Brussel. Skilur ekki að flestum landsmönnum er nóg boðið af þessu eilífa ESBbrölti. Sjáið bara Grikkland, og ég veit ekki betur en nú séu þjóðverjar að reyna að fá Grikki til að taka upp drökmuna samhliða evru. Ætli það sé ekki fyrsta tilraun til að fá Grikki út? Þeir eru orðnir svo hræddir við ástandið sem þeir ráða greinilega ekkert við. Tek undir með þeim sem hér að framan segja hversu lengi lifir evran?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is