Laugardagur 29.7.2017 - 16:45 - FB ummæli ()

Kreppta hjálparhöndin þegar mest á reynir!

Fyrir helgi lenti amerísk skúta með 3 mönnum innanborðs í miklum sjávarháska. Fékk á sig brotsjó, snerist og hvolfdi svo mastur brotnaði og skútan fylltist af vatni. Skipsverjar höfðu löngu áður náð að senda út neyðarkall. Leitarflugvél LHG var í útleigu erlendis. Reiða þurfti sig því á hjálp flugmálastofnunar og flugvélar Isavia til leitarinnar. Tókst þeim giftusamlega að miða út skútuna frá neyðarsendingum. Skútan var rúmlega 200 sjómílur SV af landinu og of langt í burtu til að þyrlur LHG gætu náð til hennar. Hún var síðan við að sökkva, stjórnlaus og rafmagnslaus þegar skipsverjum á hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni sem statt var 40 sjómílum frá slysstað tókst að bjarga áhöfninni um 7 tímum eftir slysið og áhöfnin komin í björgunarbáta.

Hér fyrir ofan er mynd af einni af 17 glænýjum AW101 þyrlum norsku strandgæslunnar sem þeir eru nú að fá afhendar, eina af annarri og sem ætlaðar eru m.a. til erfiðari sjúkraflutninga, sérútbúnar fyrir flug norðurslóðum með fullkomnum nauðsynlegum tækjabúnaði til leitar og björgunar. Þær eru með umtalsvert meiri flughraða 277km/klst og hafa flugþol í allt að 7 klst. og þannig langdrægni til flugs allt að 350 sjómílur á haf út og fullkominn afísingabúnað. Tvær slíkar höfðu Íslendingar pantað með Norðmönnum fyrir kreppuna 2008, en hættu síðan við árið 2012 og sem Norðmenn tóku þá pöntunina yfir. Norðmenn reka yfir 20 bækistöðvar fyrir þyrlurnar víðsvegar um allt landið, auk reksturs léttari sjúkraþyrla fyrir styttri flutninga innanlands. Auk þess auðvitað þyrlur sem lögregla og her hefur yfir að ráða.

Hvað ætlum við Íslendingar að trassa lengi nauðsynlega innviðauppbyggingu gagnvart mikilvægustu öryggisþáttum landsins. Heyrst hefur að LHG fái fljótlega þrjár nýlegri þyrlur í stað þeirra þriggja sem nú eru í langtímaleigu. Eingin fjölgun á þyrlukosti þannig hugsuð og hin fullkomna leitarflugvél þeirra, TF-Sif ennþá í útleigu erlendis vegna fjárhagsstöðu og almennra fjárhagsskuldbindinga LHG. Heilbrigðisþjónustan úti á landi hefur nánast verið hin sama sl. áratugi og margir flugvellir lokaðir vegna viðhaldsleysis og því ónothæfir til sjúkraflugs. Fjölgun erlendra ferðamanna teljast í milljónum og þannig  margfaldast sl. ár um land allt sem og umferðarþunginn.

Betur fór en á horfðist um tíma með björgunina í vikunni og eiga þeir sem að henni stóðu hrós skilið. Sennilega hefði hún samt tekið helmingi styttri tíma og verið öruggari á allan hátt ef við hefðum yfir að ráða svipuðum þyrlum og Norðmenn. Er ekki kominn tími til að stjórnvöld láti af kreppustefnu sinni í innviðauppbyggingunni og nýr raunveruleiki blasir við. Gott efnahagsástand en miklu meira álag og óvissa með alla neyðarþjónustu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.7.2017 - 00:53 - FB ummæli ()

Lyfjaskorturinn og hin ógnvænlega þróun

Nú mætti af fyrirsögninni halda að verið væri að fara með ýkjur. Nokkur dæmi hafa reyndar komið upp þar sem ekki hefur fengist nauðsynleg lyf fyrir einstaka einstaklinga, vegna kostnaðar og þá oftast um að ræða svokölluð spítalalyf eða undanþágulyf á almennum markaði. Nei hér og nú ætla ég að ræða um algengustu lífsbjargandi lyfin sem gagnast flestum, oft líka þau ódýrustu og afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið þegar þau vantar og sem auðvitað er á ábyrgð stjórnvalda.

Sl. mánuð hefur ekki fengist algengasta og þröngvirkasta lyfið við klasakokkasýkingum (S. aureus). Algengasta sýkingarvaldi mannkyns, t.d. varðandi húðsýkingar, sýkingum tengt aðskotahlutum í húð eða sýkingum í brjóstum kvenna. Nánar tiltekið Staklox (dicloxacillín). Læknar hafa því þurft að notast við breiðvirkari lyf sem gagnast síður við einfaldar og næmar sýkingar. Þannig einstaklingi jafnvel til tjóns eða til seinkaðs bata og sem stuðlar síðan að vaxandi þróun sýklalyfjaónæmis og dreifingu sýklalyfjaónæmra sýkingarvalda. Eins annarra en sjálfra klasakokkanna.

Nú er þetta svo sem ekki einstakt tilvik. Endurtekið vantar lyf sem stundum ekkert lyf kemur í staðinn fyrir. Oftar þó að nota má mikið sterkari og dýrari lyf. Hér nefni ég bara lyf í flokki sýklalyfja, en svipað á við um aðra lyfjaflokka. Í næstum ár fyrir 3 árum fékkst ekki algeng sýklalyfjablanda, amoxicillin í mixtúruformi fyrir börn. Notast þurfti því við sterkari lyfjablöndur og sem stuðla að þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna meðal barna og sem geta m.a. valdið alvarlegustu eyrnabólgunum og lungnabólgunum. Augmentin og Zitromax nánar tiltekið.

Árið 2009 skrifaði ég um lyfjaskortinn í landinu. Að hluta mátti kannski kenna þá hruninu um. Ekki í dag og sagan er samt söm við sig og síst skárri. Algengust augndropar við sýkingum í augum, einkum barna, fengust ekki í nokkra mánuði í vetur. Notast varð við miklu sterkari augndropa í staðinn. Skortur (alger vöntun) sem oftast skellur á án fyrirvara og þar sem innflytjendur eða framleiðendur standa sig ekki í stykkinu og ónógar langtímabyrgðir til í landinu. Lyfjastofnun ber fyrst og fremst ábyrgð á skráningu og sölu lyfja, ekki innflutningi og vísar ábyrgðinni frá sér. Ábyrgðin hlýtur því að vera alþingis, heilbrigðisyfirvalda (ráðherra) og landlæknis. Með núverandi lögum um frjálsa sölu og innflutning lyfja í apótekum með skilyrðum svo sem skráningu og lyfseðalskyldu. Markaðurinn síðan bara látinn ráða ferðinni.

Vandamálið er sérstaklega alvarlegra hvað sýklalyfin varðar og þar sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) leggur ríka áherslu á skynsamlega notkun sýklalyfja meðal manna og til notkunar í landbúnaði. Mælst er til að nota ávalt þröngvirkustu lyf sem völ er á, á réttum forsendum, til að sporna gegn alvarlegust heilbrigðisvá samtímans að þeirra mati og flestra sem til þekkja. Sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda okkar og þar sem útlit er fyrir að lyfin, jafnvel breiðvirkustu sýklalyfin virki ekki lengur og nýlega var í fréttum tengt meðhöndluna á lekanda erlendis. Það hlýtur því að skjóta skökku við að læknum á Íslandi sé ekki gefinn kostur á að nota rétt lyf, heldur „breiðvirkari lyf“ sem virka stundum síður á næmustu stofnana og sem stuðlar þannig að hraðari þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna út í samfélagið.

Að lokum. Það er ekki nema rúm hálf öld síðan sýklalyf fóru að vera aðgengileg og í raun ekki fyrr en í seinni heimstyrjöldinni sem þau voru verksmiðjuframleidd, þá fyrst fyrir hermenn bandamanna okkar. Eitt sterkasta vopnið í heimsvánni á þeim tíma. Rúmlega tíu árum fyrr hafði Alexander Fleming tekist að einangra penicillín úr sveppaskánum og er uppgötvuninni oft líkt við stærsta kraftaverk læknisfræðinnar og sem átti síðar eftir að lengja meðalaldur mannkyns um áratugi. Eftir mikið streð og tíma tókst Alexander í fyrstu að einangra 2 grömm af hreinu penicillíni og sem jafngildir í dag tveimur töflum sem oft eru gefnar t.d. við streptókokkahálsbólgu. Það vildi svo til að bresk yfirvöld leituðu til hans vegna lögregluþjóns sem var deyjandi af sýkingum í sárum sem hann hafði fengið eftir hundaárás í London. Alexander lét penicillínið sitt af hendi og dreifði því í nokkra skammta í æð lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn fékk fljótt skjótan bata á fyrstu 2-3 dögunum, en grömmin tvö nægðu ekki til að klára að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Lögreglumanninum hrakað því fljótt aftur og lést af sýktu sárunum. Það var ekki til meira penicillín.

Sagan segir okkur kannski aðeins hversu verðmæt sýklalyfin eru okkur enn í dag og þótt mörg ný sýklalyf hafi verið framleidd síðan, sum af stofni penicillíns, önnur ekki, að þá hafa ný lyf engan veginn unnið upp á móti vanda vaxandi sýklalyfjaónæmis í heiminum sl. áratugi. Því þarf að fara vel með þau og nota ávalt þau þröngvirkustu sem kostur er á í byrjun. Sterkustu vopn læknisfræðinnar ennþá daginn í dag, ekki síst tengt hátæknilæknisþjónustunni á spítölunum, en líka úti í samfélaginu. Og stjórnvöld þurfa að skilja þetta jafnvel og læknarnir og semja lög og reglugerðir rétt svo lyfjamálin standi traustari fótum. A.m.k. til að algengustu lífsnauðsynlegustu lyfin séu til fyrir sem flesta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.7.2017 - 08:36 - FB ummæli ()

Stopult skólp, á alla vegu

Herlev sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn (myndin tekin frá skólphreinsistöðinni nýju í vetur)

Vegna umræðunnar um skólphreinsislysið stóra hjá borginni sl. mánuð og sem uppgötvaðist fyrir tilviljun. Góð skólpkerfi hafa verið meginforsenda bætts almenns heilbrigðis íbúa stórborga um aldir og sem í raun allt stendur og fellur með varðandi smitsjúkdómana og fyrri drepsóttir mannkynssögunnar.

Fulltrúar í borgarstjórn mættu gjarnan leggja fyrirspurn til borgarstjórnar og Dags, hvernig menn hafi hugsað sér skólpfrárennsli og sótthreinsun á því frá Nýjum Landspítala í framtíðinni og sem virðist eiga að veita beint í almennu skólpgatnaveituna og sem er úr sér gengin í gamla miðbænum! Það voru gerðar strangar kröfur um skólpreinsitöð við nýja hótelið í Reykjahlíð við Mývatn vegna viðkvæms lífríkis sem þar er að finna í vatninu. Ekki þegar hins vegar kemur að framkvæmdum nú við þjóðarsjúkrahúsið nýja og þar með hugsanlega heilbrigði höfuðborgabúanna sjálfra!

Við hönnun á nýjum sjúkrahúsum eins og t.d. í Herlev í Danmörku nú og þar sem verið er að reisa stóran nýjan meðferðarkjarna, var sér skóphreinsistöð byggð fyrir spítalann og sem kostar sennilega hátt í tug milljarða króna. Þetta er gert vegna hugsanlegrar dreifingar á ónæmum smitsjúkdómavöldum í umhverfið, ekki síst sýklalyfjaþolnum saurbakteríum og veirum sem borist getur með líkamsvessum og saur sýktra einstaklinga í almennar skólplagnir og síðan í umhverfið. Þegar nýr þjóðarspítali er byggður á Íslandi þarf auðvitað að hugsa líka til allra enda og sem erfitt verður að gera eftir á og skaðinn skeður.

Helst þyrfti allt skólp frá Nýjum Landspítala, hvar svo sem hann verður byggður, að vera aðskilið frá almennu skólpkerfi höfuðborgarinnar, auk sótthreinsistöðvar og sem verður mjög erfitt og kostnaðarsamt að koma fyrir á Hringbrautinni en miklu auðveldara og kostnaðarminna á besta stað.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.7.2017 - 12:14 - FB ummæli ()

Vatnsmýraráhættan í dag

Þyrluflutningar eins og þeir eru hugsaðir við Nýjan Landspítala við Hringbraut, valda mikilli áhættu við spítalann og nánasta umhverfi og ef eitthvað fer úrskeiðis. Ekki er hægt að hugsa til enda ef 20 tonna þyrlu hlekkist á við meðferðarkjarnann eða yfir íbúabyggðinni þar í kring og ekkert svæði er til nauðlendinga og nú eru áformað. Forsendur fyrir pallinum og þá aðeins fyrir þyrlur í afkastagetuflokki I (2-3 mótora þyrlur) vegna erfiðara aðstæðna, miðuðu þó við a.m.k. eitt opið svæði, einskonar „aðflugsbraut“, S-V við spítalann. Yfir neyðarbrautina svokölluðu sem nú er búið að loka varanlega og yfir Valslóðina sem þegar er farið að byggja á.

Eftir að leyfi fékkst hjá flugmálayfirvöldum og hönnun þyrlupalls var lokið 2011, var ákveðið 2012 að loka neyðarbrautinni og byggja upp á Valslóðinni! Ekkert nýtt áhættumat fór fram eða stendur til vegna þyrluflugsins sérstaklega. Forsendu fyrir áframhaldandi nálægð við Reykjavíkurflugvöll var jafnframt kippt út úr skipulagi fyrir Nýjan Landspítala og sem upphaflega var ein meginforsenda fyrir staðarvalinu á Hringbraut um aldarmótin síðustu!

Nú er mikið rætt um léttari þyrlur sem væru til að mynda staðsettar í öllum landsfjórðungum, til að byrja með á Suðurlandi. Slíkar þyrlur gætu líka mikið minnkað álag við dreifbýlisheilbrigðisþjónustu, m.a. í héruðum þar sem aðeins er t.d. einn læknir/hjúkrunarfræðingur og einn sjúkrabíll og langar leiðir að fara. Auk þeirrar staðreyndar að nothæfum flugvöllum víða um land hefur farið fækkandi sl. áratugi vegna viðhaldsleysis og bleytu (malarvellir), en sem voru áður notaðir við venjulegt sjúkraflug. Það hlýtur að skjóta skökku við að framtíðarsjúkrahúsið sem nú er áætlað að byggja sé alls ekki hannað til að taka á móti nema í versta falli litlum hluta þeirra allt að 600 bráðsjúkraflutninga sem áætluð þörf er á í dag með jafnvel léttari sjúkraþyrlum, auk þess aðgangur að venjubundnu sjúkraflugi er í uppnámi (um 700 flug á ári).

Með öllu er óásættanlegt að framtíðarþjóðarsjúkrahúsið okkar og aðal bráðasjúkrahús landsins sem enn er aðeins til á teikniborðinu, skuli ekki gera ráð fyrir þörfinni á almennri móttöku sjúkraflutninga með þyrlum af landsbyggðinni. Þar sem auðveldlega skilið getur á milli lífs og dauða og ef óþarfa tafir verða á sjúkraflutningum á aðal bráðasjúkrahús landsins og ekki má einu sinni ræða á RÚV.

Af hverju hugsanlega flugvallarlausan kreppuspítala fram á næstu öld?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.6.2017 - 12:38 - FB ummæli ()

Af hverju hugsanlega flugvallarlausan kreppuspítala fram á næstu öld?

Nýr Landspítali við Hringbraut eins og áætlað er eftir rúm 10 ár (2023-2030) og Östfold-Kalnes sykehus í Noregi (85.000 fm fyrir um 300.000 íbúa) sem opnaði 2015, 7 árum eftir að ákvörðun um bygginguna var tekin.

Öll viljum við nú góðan og nútímanlegan þjóðarspítala eftir áratuga ömurlegar aðstæður og langa bið. Tæplega öld er liðin síðan gamli Landspítalinn var hannaður og síðan byggður á Hringbrautinni, þá á besta stað. Síðan fleiri minni vegna vaxandi þarfar, síðast Borgarspítalinn í Fossvogi 1960. Höfuðborgin stækkað enda tugfalt sem og allt höfuðborgarsvæðið.
Fyrir fjármálahrunið 2008 var búið að teikna nýjan veglegri Landspítala eftir áratuga þref um ágæti sameiningar spítalanna undir einu þaki ef svo má segja. Hagræðing í rekstri og stjórnun var boðorðið en spítalanum valinn staður aftur á Hringbraut, mörgum til mikillar furðu. Samt með loforðum um miklu stærri lóð en honum er ætlað í dag og sem lá niður fyrir nýju Miklubrautina, auk upphaflega miklu stærri spítala með fleiri sjúkrarúmum en nú er áætlað. Nauðsynleg umferðamannvirki, Miklubrautina í stokk og nýja stofnbraut um Hlíðarfót voru meðal aðal forsenda staðarvalsins, ásamt auðvitað nálægðar við sjálfan Reykjavíkurflugvöll.

Kreppuspítalinn, miklu minni en upphaflegar áætlanir upp úr aldarmótunum gerðu ráð fyrir og endurnýjun á um 60.000 fermetrum á eldra húsnæði, varð samt niðurstaðan 2008-2012 og sem Alþingi samþykkti endanlega fyrir 2 árum. Forsendunum um umferðamannvirkin og Reykjavíkurflugvöll hins vegar kippt út af kröfu Reykjavíkurborgar, auk þess sem lóðin til framtíðarbyggingar, neðan nýju Miklubrautarinnar, var afturkölluð.

Heildarfjöldi sjúkrarýma eftir byggingu nýja kreppuspítalans verður rétt svipaður og við höfum þegar nú yfir að ráða, um 700 pláss, en þar sem eftirspurnin eykst árlega um 1.7% á ári. Reka verður því sjúkrahúsið í Fossvogi áfram og sameiningarhugsjónin, einn spítali undir einu þaki, fallin. Aðgengi verður auk þess stórlega skert á Hringbrautinni vegna fyrirsjáanlegra umferðahindrana og sjúkraflutningar með sjúkraflugi mikið lengdur með fyrirhuguðum nýjum flugvelli utan höfuðborgarsvæðisins. Allt að daglegir sjúkraflutningar hins vegar með þyrlum LHG á þyrlupall 5 hæðar spítalans stórhættulegir nánustu íbúabyggð og í raun kjarnastarfsemi spítalans sjálfs.

Vissulega verða vissar aðstæður mikið bættar miðað við sem nú er innan dyra á nýjum meðferðarkjarna á Hringbraut til að byrja með (bráðalækningar og skurðstofur sem og aðbúnaður sjúklinga á vissan hátt). En hversu lengi og hvað mega mistökin kosta okkur ef síðan eftir einn til tvo áratugi verður hvort sem er að byrja skipulagningu á endanlegu framtíðarsjúkrahúsi upp á nýtt sem uppfyllir allar kröfur um slíka framkvæmd. Bara fyrsti áfangi framkvæmda nú meðferðarkjarninn með rannsóknabyggingu er áætlaður um 50 milljarðar króna. Hækkar sennilega a.m.k. Um 20% og reynslan sýnir við illa undirbúin verk. Heildarkostnaður með endurnýjun á eldra húsnæði sem er víða ónýtt eða myglað fer væntanlega ekki undir 100-150 milljarða króna. Og allar þessar framkvæmdir á eins óhagkvæman máta og hugast getur í gamla miðbænum.

Nágrannaþjóðir okkar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð byggja gjarnan nýja fullkomna spítala á opnum og góðum svæðum fyrir töluvert lægri upphæð og sem endast munu mikið lengur. Með tryggu aðgengi fyrir alla og sjúkraþyrlur, auk mikið manneskjulegra umhverfi til útiveru og með teknu tilliti til sérþarfa sjúklinga. Einnig með nýjum nútímalegum lagnakerfum sem hugsuð eru frá byrjun og ekki er einu sinni til plön um ennþá í fjáráætlunum á Hringbraut.

SBSBS hafa síðan reiknað út að bara hagræðingarkostir við að byggja á sem hagkvæmastan máta á opnu svæði og reka vel hannaðan spítala sem mest undir einu þaki á besta stað (miðað við fastar fjárveitingar til LSH um 70 milljarðar á ári, eins og þær eru í dag), geti borgað upp byggingakostnaðinn á „besta stað“ með lántöku upp á 100 milljarða króna, á rúmlega hálfri öld.

Er ekki fyrir löngu kominn tími á að stjórnvöld og Alþingi hugsi málið allt upp á nýtt, áður en lengra er haldið og ólánsframkvæmdirnar hefjast fyrir alvöru á Hringbrautinni. Í stað þess að stinga hausnum endalaust í sandinn og hugsa í þverpólitískum kreppu- og vinagreiðalausnum á mesta hagsældartíma Íslandsögunnar. Betri spítala á besta stað (LSH-BSBS) á innan við 10 árum eins og nágrannaþjóðirnar gera og forða þjóðinni þannig frá mestu skipulagsmistökum sögunnar. Á því sem átti að heita þjóðargjöfin mikla og sem skiptir okkur öll miklu máli þegar mest á reynir.

Samgöngustofa hefur nú samþykkt varanlega lokun neyðarbrautarinnar 27.6.2017 (rauða brautin) og þar sem byggingaframkvæmdir eru þegar hafnar við NA endann (á gömu Valslóðinni). Hvernig getur Ríkisstjórn Íslands og framkvæmdaráð LSH skipulagt Nýtt Þjóðarsjúkrahús til framtíðar sem tryggir ekki einu sinni lágmarks aðgang til spítalans fyrir neyðarflutinga úr lofti (hvorki með sjúkraflugi eða þyrlum) og byggt hefur verðið yfir neyðarbrautina og jafnvel Vatnsmýrina alla !!!!!

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.6.2017 - 15:46 - FB ummæli ()

Byssurnar kalla, en RÚV þaggar!

Hryðjuverkaógn kann að vera raunveruleg á Íslandi. Ein leiðin er að láta lögregluna nú vopnvæðast, svona til öryggis. Sumum finnst þessi viðbrögð helst til yfirdrifin og sem kallar á blendin viðbrögð almennings og fjölmiðla. Aðeins þurfti mat örfárra til slíkra aðgerða og að ganga þurfti alla leið með byssurnar að vopni.

Aðrar ógnir sem kostað geta jafnvel stórslys, mikinn mannskaða og eyðileggingu á okkar mikilvægustu mannvirkjum og koma má nú í veg fyrir með betri skipulagningu verkefna, fá minni athygli. Ógnir sem er ekki vilji að ræða hjá fjölmiðlum og sem gæta hagsmuna eiganda sinna og stjórnmálaafla. Af eigin reynslu og eftir ítrekaðar athugasemdir og skrif ber mér sem íslensku ríkisborgara og heilbrigðisstarfsmanni til áratuga að nefna s+erstklega ríkisfjölmiðil allra landsmanna, RÚV.

Fréttastofa RÚV hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að þagga niður efasemdir um staðsetningu Nýs Landspítala á Hringbraut sl. 2 ár og sem Alþing Íslands lagði blessun sína yfir. Meirihluti landsmanna og heilbrigðisstarfsfólks er á allt öðru máli og hefur sl. ár kallað eftir nýrri staðarvalsathugun, öryggis okkar allra vegna, betra aðgengis og skynsamlegri fjárfestingingu á þjóðargjöfinni okkar stærstu á öldinni. Það hlýtur að vekja upp stórar spurningar að ríkisfjölmiðill skuli geta farið með slíkt einræðisvald gegn þjóðarhagsmunum. Samtökin Betri spítali á besta stað (SBSBS) sem tæplega 10.000 manns styðja, hafa árangurslaust einnig reynt að ná eyrum fréttastofunnar. Ritstjóri Kastljóssins staðfesti hins vegar með bréfi til undirritaðs fyrir tveimur árum að stjórnendur stofnunarinnar liti svo á að ekki megi ræða Hringbrautarmálið frekar eða „rugga bátnum“.

Alvarlegast er að ekki megi einu sinni ræða öryggisþættina eins og öruggt sjúkraflug til spítalans og sem eru nú um 1000 á ári og fer sífellt fjölgandi. Aðallega vegna vaxandi ferðamannafjölda og mikillar aukningar í tíðni alvarlegra umferðarslysa á vegum landsins eða í óbyggðum. Ekki heldur örugga aðkomu sjúkraþyrluflugs til nýja spítalans eftir 2022 og þar sem megin forsendur upphaflegrar áætlunar um þyrlupall við spítalann á 5 hæð eru löngu brostnar og nýtt áhættumat vantar. Eina opna aðflugssvæðið (Neyðarbrautin) sem eftir er, er þegar verið að byggja á (gömlu Valslóðinni) og íbúabyggð jafnvel skipulögð í Vatnsmýrinni allri, í framtíðinni. Miklu fleiri sjúkraflug eru nú en áætlanir voru um til ársins 2012 og þegar neyðarbrautinni var lokað. Bara þyrluflugin nálgast um 300 á ári (meira en helmingur mikið slasaðir eða bráðveikir) og þar sem fyrri áætlanir um hönnun gerðu aðeins ráð fyrir um 10-20 þyrlulendingum við spítalann á ári.

Hver þyrla Landhelgisgæslunnar er um 15 tonn og ekki er erfitt að ímynda sér slysahættuna ef slíku farartæki hlekkist á. Vegna erfiðra aðstæðna á Hringbraut er gerð krafa um jafnvel enn stærri og fullkomnari þyrlur en LHG hefur nú yfir að ráða. Hinsvegar er hvergi gert ráð fyrir plani B, opnum svæðum til nauðlendinga og þaðan af síður öruggum aðflugsbrautum og alls staðar í heiminum er gert ráð fyrir í hönnun nútímalegra spítala, ekki síst aðalbráðasjúkrahúsa landanna. Því öllum þyrlum getur auðveldlega hlekkst á, ekki síst í misjöfnum veðrum eins og á Íslandi í miðri íbúa- og spítalabyggð.

Meðvituð þöggun RÚV á málinu öllu er sérstakt áhyggjuefni, ekki síst á öryggissjónarmiðum og sem í raun varðar þjóðaröryggi. Fyrirsjáanleg og hugsanlegri stórslysaógn í miðbænum og við aðalsjúkrahús landsins, sem stjórnvöld og alþingi hafa skapað á hreint ótrúlegan skipulagsmáta, gegn þjóðinni sjálfri. Ógn sem auðvitað er ekki brugðist við með vopnvæðingu lögreglu gegn utanaðkomandi hugsanlegum hryðjuverkaöflum eða þöggun, heldur opinni umræðu. Þar sem RÚV ætti að geta leikið eitt stærsta hlutverkið og ef allt væri í lagi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.5.2017 - 11:30 - FB ummæli ()

Hver vill velja nýjum þjóðarspítala hugsanlega versta stað?

Gamli Landspítalinn (1930) var tilbúinn þegar íbúabyggð í Reykjavík nálgaðist hámark vestan Hringbrautar rétt um 1930 (um 30.000 íbúar, en sem eru í dag aðeins um 15.000). Síðan hefur íbúabyggð í Reykjavík aukist stöðugt austan Hringbrautar, í dag um 120.000 íbúar. Nýjan Landspítala á samt að reisa á sama stað við Hringbrautina og hugsaður var besti staður fyrir gamla Landspítalann fyrir meira en öld síðan og staðarvalið ákveðið 1902. Löngu síðar (1962) var síðan Borgarspítali byggður auðvitað mikið austar í höfuðborginni, nánar tiltekið í Fossvogi þar sem var þá nóg pláss og gott aðgengi.

Skipulag Vatnsmýrarinnar hjá Reykjavíkurborg (2010-2030) og staðsetning þyrlupalls á Nýjum Landspítala við Hringbraut (gamla neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar horfin). Raunveruleikinn sem blasir við í náinni framtíð og þegar menn eru uppteknir af umræðunni af sjálfkeyrandi rafmagnsbílum, uppbyggingu í Vatnsmýrinni og Borgarlínunni!

Aðal forsendur staðarvals Nýs Landspítala á Hringbraut upp úr aldarmótunum 2000, var nálægðin við Reykjavíkurflugvöll og fyrirhuguð ný nauðsynleg umferðamannvirki. Miklubrautina m.a. í stokk og ný stofnbraut vestur-austur um Hlíðarfót í Öskjuhlíð (áætlaður kostnaður upp á um 30 milljarða króna). Báðar þessar forsendur voru hins vegar lagðar til hliðar 2012 og flugvöllurinn nú hugsanlega á förum vegna vöntunar á byggingarlandi fyrir miðborg Reykjavíkur. Mikil óvissa er hins vegar þegar í dag að hægt verði að loka Landspítalanum í Fossvogi eins og upphaflegar sparnaðaráætlanir gengu út á, vegna fyrirséðs skorts á hjúkrunarplássum. Raunveruleikinn nú um óhagræðið og aukakostnað sem blasir við okkur í náinni framtíð varðandi Nýjan Landspítala og borgarskipulagið, en þegar menn eru meira uppteknir af umræðunni á sjálfkeyrandi rafmagnsbílum framtíðarinnar og frekari uppbyggingu og sóknarfærum í Vatnsmýrinni.

Byggingaáformin halda bara áfram eins og ekkert sé og án umræðu og gagnrýni ýmissa aðila (m.a. SBSBS sl. 4 ár). Ekkert tillit er tekið til aðgengishindrana fyrir sjúklinga og aðstandendur. Reiknað er reyndar með að meirihlut starfsfólks búi í miðbænum og geti gengið eða hjólað í vinnuna! Ekkert tillit heldur um öryggi sjúkraflugs af landsbyggðinni og ef Reykjavíkurflugvöllur lokar alveg (neyðarbrautin þegar lokuð). Uppbygging þegar reyndar hafin á Valslóð og nágrenni við NA enda gömlu neyðarbrautarinnar í Vatnsmýrinni. Eins er fyrirséð mikið óöryggi varðandi bráðasjúkraflug með þyrlum LHG til spítalans. Ekkert nýtt áhættumat var gert eftir lokun neyðarbrautarinnar sem var líka upphaflega hugsuð sem aðflugsbraut í hönnun þyrlupalls á 5. hæð við nýja meðferðarkjarnann.

Byggingaráformin nú á þröngri Landspítalalóðinni (2018-2023) eru eins óhagkvæm og hugsast getur til lengri framtíðar og auk þess mjög truflandi fyrir spítalastarfsemi og alla umferð í miðbæinn. Eins er varðar endurnýjunarframkvæmdir síðar (2023-2030) á yfir 60.000 fermetrum eldra húsnæðis og sem margt hvert er þegar hálf ónýtt í dag og farið að mygla. – Hugmyndir um nýja Borgarlínu í framtíðinni og sem Reykjavíkurborg er mest umhugað að kynna til mikilvægis miðborgarsvæðisins í atvinnu- og þjónustuppbyggingu, eykur auðvitað ekkert síður á mikilvægi úthverfa Reykjavíkursvæðisins og tengingu þeirra innbyrðis, til almennrar atvinnuuppbyggingar og íbúðaþróunar á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Auðvitað ætti þegar verið búið að finna þjóðarspítalanum besta stað, hvað þá á mesta hagsældartímabili Íslandssögunnar. Eins og manni fyndist reyndar alltaf sjálfsagt og forfeður okkar gerðu reyndar í mikilli fátækt fyrir rúmri öld síðan! Sorglegast er þó þöggunin á málinu sl. ár og sem ekki hefur mátt ræða á Alþingi eða ríkisfjölmiðlunum vegna fyrri ákvarðana og hreppapólitíkur þvert á flokka ríkis og borgar. Hugsanlega ein mestu mistök Íslandsögunnar í ríkisframkvæmd vegna forsendubresta sem ættu að vera öllum augljós í dag og verkið samt ekki einu sinni hafið.

Nýja Kalnes-sjúkrahúsið í Noregi á næstum rauntíma

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 16.5.2017 - 10:15 - FB ummæli ()

Strútseðlið og stórslysaforvarnir stjórnvalda

Myndir af alvarlegum umferðarslysum á þjóðvegunum eru að verða ansi algengar í fjölmiðlunum nú strax í upphafi sumars. Milljónir ferðamanna síðan væntanlegir til landsins næsta árið og sem sem keyra að meðaltali tæplega 300 kílómetra hver. Reiknað var um 30% aukningu á ferðamannastraumnum í ár, reynslan var 60% í apríl sl. Mikil fjölgun verður auk þess á komum skemmtiferðaskipa í sumar sem áætlað að verði nú á þriðja hundrað talsins (með hátt í hálf milljón ferðamanna). Allt þetta myndi undir eðlilegum kringumstæðum hafa kallað á aukna lögreglu- og heilbrigðisþjónustu, ekki síst úti á landi þar sem þjónustan hefur hins vegar nánast staðið í stað sl. áratug og á Bráðmóttöku LSH sem hefur verið gjörsamlega yfirhlaðin af verkefnum lengi.

Skipta tölur einhverju máli fyrir stjórnvöld? Svo er ekki að sjá.  „Árið 2014 slösuðust 123 erlendir ferðamenn í umferðinni hér á landi. 21 alvarlega. Árið 2015 tæplega tvöfaldaðist heildarfjöldi slasaðra í þessum hópi. 213 slösuðust. 26 alvarlega og fimm létust. Á síðasta ári var heildarfjöldi slasaðra 223. 47 alvarlega og tveir létust. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafa 50 erlendir ferðamenn slasast í umferðinni. 43 þeirra lítið en 7 alvarlega. Þróunin er því ansi slæm það sem af er ári hvað slasaða ferðamenn varðar og ef fram fer sem horfir er áætlað að 370 erlendir ferðamenn slasist í umferðinni á þessu ári.“

Fréttir berast af svo miklu álagi að sjúkraflutningsmenn á Blönduósi eru búnir að segja upp störfum. Hver heilvita maður og ekki síst stjórnvöld hefðu átt að vera búin að sjá að styrkja þyrfti alla þessa innviðaþjónustu fyrir löngu. Örugga sjúkraflutninga, landleiðina og flugleiðina m.a. með þyrlum LHG, læknis- og hjúkrunarhjálp í héraði og starfsemi Bráðamóttöku LSH sem og löggæslu og björgunarsveitanna.

Búast má við hörmungarástandi víða um landi í sumar og haust þar sem slysin verða og að hjálp berist seint og illa í mörgum tilvikum. Litlar sem engar aðgerðaráætlanir eru til, t.d. ef rútuslys verða í mesta dreifbýlinu og treysta verður fyrst og fremst á björgunarsveitir í næstu nágranabyggð. Stjórnvöld hóta nú auk þess að skera þurfi þjónustuna jafnvel niður út á landi til að geta haft efni á að byggja þjóðarspítalann okkar, reyndar á versta og óhagkvæmasta stað í lokaðri miðborginni. Stinga bara hausnum í sandinn og hlaupa síðan frá ábyrgðinni og þar sem sjá má vel að stórslysins verða.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.4.2017 - 11:44 - FB ummæli ()

Þjóðarskömmin nýja á Hringbraut

 

Mikið hefur verið rætt og skrifað um það sem betur hefði mátt fara í stjórnsýsluákvörðunum rétt upp úr aldarmótunum síðustu og þegar ákvarðanir voru teknar um staðsetningu sameinaðs þjóðarsjúkrahúss á Hringbraut. Oft virðast sérhagsmunir verið látnir ráða á kostnað almannahagsmuna og sem öllum er ljóst í dag er varðar t.d. bankakerfið. Rannsóknarskýrsla Alþingis eftir hrunið og fleiri, hafa bent á að í raun hefði þurft að gera álíka skýrslu um alla aðra stjórnsýslu og varðaði ákvarðanir í stærstu hagsmunamálum þjóðarinnar. Ákvarðanir sem ætla mætti að gætu hafa ráðist af sérhagsmunum einstaklinga, félaga og jafnvel höfuðborgarinnar sjálfrar, á kostnað stórhöfuðborgarsvæðisins alls og landbyggðarinnar.

Í kynningu á niðurstöðum vinnuhóps sem fjallaði um siðferði og starfshætti við fall íslensku bankanna í Rannsóknaskýrslu Alþingis kemur einmitt fram að eitt af því sem varð okkur að falli er virðingarleysi okkar fyrir lögum og reglum. Þetta virðingarleysi var ekki einungis ríkjandi innan bankanna heldur virðist það vera hluti af þjóðarsálinni. Í niðurlagi skýrslunnar segir: . . . „vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhóps um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, er varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum að beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins“.

Myndin hér að ofan er af Babylonsturninum og þegar menn byggðu vegna sérhagsmuna eftir „syndaflóðið mikla“. Endalausan háan turn upp til himins til að ná sem best tali af Guði en sem tók síðan sífeldum breytingum á aldanna rás. Gamla testamentið segir að Guð hafi að lokum séð hverslags endæmis vitleysa þetta hafi verið og þöggun og eiginhagsmunasemi hafi ráðið för byggingarinnar sem virtist stjórnlaus. Hann tók því þá ákvörðun að dreifa mannkyninu um allar heimsins jarðir frá Babylon til að fólk fengi að tala ólík tungumál og tryggja því skoðanafrelsi.

Ákvörðun um Nýjan Landspítala og staðsetnngu á sér meira en tveggja áratuga sögu. Fyrrum stjórnendur hafa viðurkennt að í raun hafi geðþóttaákvörðun og trú hagsmunaaðila innan sjálfs spítalans, Háskóla Íslands og borgarinnar ráðið mest för, frekar en hugsanalega betri staðsetning austar í borginni til að uppfylla meginmarkmið sameiningar spítalanna. Í dag, tæpum tveimur aratugum síðar er öllum þessi rök mikið betur ljós. Ekki hefur samt mátt hreifa við þeirri hugmynd að endurskoða staðsetninguna frá grunni og margt breyst í höfuðborginni (ekki einu sinni með gagnrýnni umfjöllun hjá sjálfum ríkisfjölmiðlinum, RÚV). Þannig hugsanlega mikið hagkvæmari byggingar- og rekstrarform á betri stað kastað fyrir róða. Sjálfskaparvíti og hugsanleg mestu mistök aldarinnar í ríkisframkvæmd og jafnframt sú dýrasta.

Mestu ókosti framkvæmda við Hringbraut má finna í ótal greinum sem skrifaðar hafa verið um málið og birtar opinberlega, m.a. á fésbókarsíðu Samtaka um betri spítala á besta stað (SBSBS) sl. ár og vert að rifja upp áður en sjálfar framkvæmdirnar hefjast eftir eitt ár og ekki verður aftur snúið. Enn er nýs Alþingis valið að endurskoða þjóðargjöfina miklu sem skoðanakannir sýna að þjóðin vill ekki fá eins og ráðgert er, með þöggunina samt að vopni gegn sér:

1) Framkvæmdir á besta hugsanlegum stað kostar þjóðarbúið allt að 100 milljörðum minna næstu hálfa öldina ef allt er talið með og SBSBS hafa látið reikna, en byggingaráformin nú við Hringbraut gera ráð fyrir. Söluhagnaður eldri bygginga við Hringbraut og í Fossvogi, hagkvæmari byggingamáti og síðan hagkvæmari rekstur spítala á betri stað að mestu undir einu þaki skýrir þann mun miðað við árlegar fjárveitingar til Landspítalans í dag (um 70 milljarða króna á ári). Rekstarhagnður þá m.a. geta staðið undir lántökukostnaði og gott betur á nýjum stað, en ekki við Hringbraut með smjörklípuaðferðinni frá Alþingi.

2) Endurnýjunarkostnaður á 60.000 fermetrum í eldra húsnæði er stórkostlega vanáætlaður í dag á Hringbraut (um 110.000 krónur á fm2) og sem er reiknaður aðeins um fimmtungur af nýbyggingakostnaði þrátt fyrir að vera meira eða minna ónýtt og heilsuspillandi. Breytingar á lagnakerfi miðbæjarins er heldur ekki fullreiknað í dæmið í dag. Áætla má að nauðsynlegt nýtt skolplagkerfi eitt og sér fyrir spítalann og sem þarf að vera aðskilið almenningsskolpkerfinu með sótthreinsistöð verði mikið dýrara að koma fyrir í gamla miðbænum en opnum og góðum stað.

3) Tryggja má nýjum spítala á betri stað nægt rými til stækkunarmöguleika í framtíðinni, m.a. vegna vaxandi íbúafjölda og hratt vaxandi þörf heilbrigðisþjónustu vegna ferðamannastraumsins til landsins og sem á eftir að aukast mikið. Í raun er ekkert slíkt svæði í boði á Hringbrautarlóð. Eins fyrir byggingar í nátengdri starfsemi svo sem fyrir nám heilbrigðisstétta, vísindastarfsemi, líf- og lyfjaiðnað. Hönnun og byggingakostnaður nýs læknagarðs við Hringbraut sem kostað verður af HÍ er óreiknaður í dag og má ætla að verði mikið dýrari á Hringbraut en við nnýjan spítala á besta stað. Þegar í dag telja stjórnendur spítalans og formaður læknaráðs Landspítala að halda þurfi áfram rekstri gamla Borgarspítalans (Landspítala í Fossvogi) vegna ónógra sjúkraplássa eftir að framkvæmdum lýkur á Hringbraut og þannig ein megin forsenda sameiningar í upphafi brostin!

4) Tryggja má öruggari sjúkraflutninga og örugga aðkomu sjúkraþyrluflugs á betri stað og sem á eftir að stóraukast í framtíðinni. Aðstaða sem verður alls ófullnægjandi á Hringibrautarlóðinni og sem kosta mun þar að auki tugi milljarða króna aukalega að útfæra og reka (mikið dýrari þyrlukostur LHG). Nýtt áhættumat vantar vegna lokunar neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar og byggðar á Valslóð eftir 2012. Bráðasjúkrahús landsins þá þannig með ófullnægjandi og óöruggt aðgengi frá láði og lofti varðandi sjúkraflutninga, svo ekki sé talað um ef Reykjavíkurflugvöllur verður látinn fara í náinni framtíð og stefnt virðist að hjá borginni. Ein af helstu forsendum upphaflegs staðarvals um aldarmótin ásamt nauðsynlegum umferðarmannvirkjum fyrir tugi milljarða króna (Miklubraut í stokk og nýja braut um Hlíðarfót) sem hvortveggja var aflagt sem aðalforsendur hjá ríki og borg árið 2012. Aðalbygging HÍ í Vatnsmýrinni stendur þá ein eftir.

5) Framkvæmdir á besta stað á opnu svæði má klára á 5-7 árum eftir 1-2 ára undirbúningstíma eins og gert hefur verið víða erlendis (t.d. í Danmörku og Noregi) og þannig jafnvel á undan áætluðum lokum Hringbrautaframkvæmda um 2030. Framkvæmdum við 1. áfanga nýbyggingaframkvæmda (meðferðar- og rannsóknarkjarna) á þröngu Hringbrautarlóðinni sem nú er áætlað að ljúka 2022-2023, mun auk þess skaða starfsemina sem fyrir er og valda miklu ónæði fyrir sjúklinga á öllum byggingatímanum. Hanna mætti um leið mikið sjúklingavænni spítala en áætlað er á Hringbraut samanber nýja Hilleröd spítalann í Danmörku og sem sinnir þörfum samtímans, ekki síst með tilliti til sóttvarna og sál- of félagslegra þátta.

6) Tryggja má mikið meira jafnræði í atvinnutækifærum og aðgengi allra íbúa á höfuðborgarsvæðisins að stærsta vinnustað landsins með betri staðsetningu nýs Landspítala mikið austar en nú er í gamla miðbæ Reykjavíkur og sem ætti ekki að vera sérhagsmunamál 101-102 Reykjavíkur og sem sprungið hefur út á alla kanta á allra síðustu árum, aðallega vegna túrisma. Í dag búa þannig aðeins um 15.000 íbúar Reykjavíkur vestan austurenda Hringbrautar, en um 120.000 austan við (vart meirihlutinn í Hlíðarhverfinu!). Tryggja mætti mikið öruggara og betra aðgengi sjúklinga, náms- og starfsfólks af höfuðborgarsvæðinu öllu með minni tilkostnaði í akstri og byggingu umferðamannvirkja með betri staðsetningu Nýs Landspítala, enda helstu umferðarásar í dag staðsettir mikið austar í borginni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.4.2017 - 11:36 - FB ummæli ()

Misráðnar forvarnir?

Skrifa þennan pistil í tilefni nýs frumvarps Pírata um reglur á lausasölu rafretta (veipa) með ákveðnum skilyrðum. Hef áður látið í ljós álit mitt á drögum að frumvarpi heilbrigðisráðherra sem vill setja veipur undir tóbaksvarnalög, sem og áróðurs Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) gegn veipunum í nýliðnum Mottumarsi, einu helsta hjálparlyfi tóbaksreykingamannsins sem gengið hefur illa að hætta reykingum.

Um 400 manns deyja árlega tengt tóbaksreykingum í dag, þar af tæplega 200 úr lungnakrabbameinunum einum og sem eru í 90% tilvika tengd tóbaksreykingum með dánarhlutfalli um 76% miðað við uppl. krabbameinsskráar Íslands árin 2011-2015. Heimilislæknar reyna að komast að sem bestri forvarnarlausn fyrir skjólstæðing sinn með rökum sem hann skilur og sem á við hverju sinni. Ef reykingarmanninum tekst að hætta reykingum með hjálp veipa í 10% tilvika sem heimilislæknir t.d. ráðleggur (sumar rannsóknir sýna þó allt að 70% árangur), geta veipur bjargað sennilega um 20-40 manns frá dauða á ári hverju.

Að gefinni þessari staðreynd og að ungt fólk (unglingar) sem byrji að veipa í fikti (jafnvel án níkótíns) leiðist út í tóbaksreykingar í aðeins innan við 1% tilfella síðar, má reikna árangur frjálsra sölu rafretta gegn dauðsföllum af völdum krabbameina, betri en hugsanlega árangur skimunar fyrir ristilkrabbameinum með ristilspeglun allra Íslendinga 55 ára og eldri í framtíðinni. Ekki slæmur árangur það, vonandi á lokametrum tóbaksreykinga í landinu fyrir harðasta hópinn. Þar sem veipur hafa hins vegar verið bannaðar í sölu til ungs fólks eins og í Danmörku hafa nýlegar tölur sýnt allt að 15% aukningu í tóbaksreykingatíðni. Boð og bönn geta því verið varhugaverð í þessu samhengi og auðvitað þarf að fylgjast náið áfram með hugsanlegri skaðsemi veipugufa á lungun.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is