Miðvikudagur 13.9.2017 - 22:31 - FB ummæli ()

Vatnsmýrar-heimaskítsmát

Samgöngustofa samþykkti varanlega lokun neyðarbrautarinnar 27.6.2017 (rauða brautin) og þar sem byggingaframkvæmdir eru þegar hafnar við NA endann (á gömu Valslóðinni). Hvernig getur Ríkisstjórn Íslands, framkvæmdaráð LSH og Reykjavíkurborg skipulagt Nýtt Þjóðarsjúkrahús til framtíðar sem tryggir ekki einu sinni öruggt aðgengi neyðarflutinga úr lofti (með öruggu aðflugi fyrir þyrlur á spítalann og sjúkraflugi til nærliggjandi flugvallar)?

Eftir að leyfi fékkst hjá flugmálayfirvöldum og hönnun þyrlupalls var lokið 2011, var ákveðið (2012) að loka neyðarbrautinni og byggja upp á Valslóðinni. Forsendu fyrir áframhaldandi nálægð við Reykjavíkurflugvöll var jafnframt kippt út úr skipulagi fyrir Nýjan Landspítala sama ár af kröfu Reykjavíkurborgar og sem upphaflega var ein meginforsenda fyrir staðarvali á Hringbraut upp úr aldarmótunum síðustu.

Í nýrri skýrslu samgöngumálaráðherra um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem kom út í vikunni segir meðal annars: „Ef loka á Reykja­víkurflugvelli árið 2024 þarf að gera ráðstafanir varðandi aðflug þyrla að Landspítalanum sérstaklega varðandi skipulag og notkun lands í Vatnsmýrinni.“

Skipulag Vatnsmýrarinnar hjá Reykjavíkurborg (2010-2030) og staðsetning þyrlupalls á Nýjum Landspítala við Hringbraut (gamla neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar horfin).

Ekkert nýtt áhættumat hefur hins vegar enn farið fram eftir árið 2012 vegna breyttra aðstæðna í Vatnsmýrinni þegar í dag og sjúkraþyrluflugið. Lokun neyðarbrautar og um leið aðal-aðflugsbrautar fyrir þyrlur að Nýjum Landspítala og byggingaframkvæmdir á Valslóðinni sem lokar síðustu aðkomuleiðinni næst spítalanum. Flestar þjóðir reyna hins vegar að tryggja 2-3 opnar aðflugsbrautir í hönnun nýrra þjóðarspítala eins og t.d. í Árósum í Danmörku.

Þyrlusjúkraflug eru þegar í ár hátt í 200 á ári, en upphaflegar áætlanir um not á þyrlupallinum við Nýjan Landspítalann voru aðeins áætlaðar milli 4-10 og aðeins í brýnni neyð! Áætlað mat fyrir þörf á þyrlusjúkraflugi er hins vegar áætlað milli 300-600 flug af landinu öllu ef vel á að vera og þar sem hver mínúta getur skipt máli að koma sjúklingi á bráðsjúkrahús. Eins er um 700 venjuleg sjúkraflug og tíminn skiptir oft líka miklu máli, ekki síst í tíma aksturs til og frá flugvöllum.

Léttar sjúkraþyrlur sem nú eru mikið í umræðunni til slíkrar þarfar ásamt þyrlum LHG og bent er á á í nýrri skýrslu fagráðs um sjúkraflutninga með þyrlum, hafa ekki leyfi flugmálayfirvalda til að lenda á þyrlupallinum á þaki Nýja Landspítalans við Hringbraut. Aðeins öflugar 2-3 mótora þyrlur sem geta haldið sér á lofti ef einn mótor bilar og vegna slæmra aðstæðna og ekkert opið svæði á jörðu niðri til nauðarlendinga. „Miðað er við að þyrlur sem noti pall séu í afkastagetu 1, þ.e. þyrla sem hefur þá afkastagetu að ef markhreyfill verður óvirkur þá geti hún lent á flugtaksstöðvunarsvæðinu eða haldið fluginu örugglega áfram til viðeigandi lendingarstaðar eftir því hvenær hreyfillinn verður óvirkur!“ En auðvitað geta allar þyrlur bilað alvarlega, ekki síst í slæmum veðrum. Pallurinn auk þess aðeins á 5 hæð við hlið sjálfs meðferðarkjarna spítalans. Lendingar munu auk þess valda mikilli truflun rétt við hliðina á kjarnastarfseminni vegna hávaða og mengunar.

Borgarstjóri Reykjavíkur var þess vegna beinlínis kjánalegur og í raun heimaskítsmát í Kastljósþætti vikunnar og þegar hann ræddi m.a um fyrirhuguð óleyfileg not léttari þyrla að þyrlupalli Nýs Landspítalans í framtíðinni. Um svipað leyti og núverandi áætlanir gera ráð fyrir að meðferðarkjarni NLSH verður kominn í gagnið og byggingaframkvæmdir hefjast að fullu í Vatnsmýrinni eins og hann óskar og Reykjavíkurflugvöllur farinn. En auðvitað gæti líka Nýr Landspítali verið á mikið betri stað, allra hluta vegna og við öll unnið taflið.

Draumsýn SPITAL-hósins á Hringbraut og þar sem framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.8.2017 - 11:48 - FB ummæli ()

Nýja þjóðarbyrgið okkar!

Kommúnistar og einræðisherrann Enver Hoxha stjórnaði Albaníu með járnhnefa frá 1944-1985. Fólkið svalt, beitt miklu harðræði og heilaþvegið í lokin með kaldastríðsáróðri. Ritskoðun var algjör og í raun aðeins ríkisfjölmiðlar leyfðir sem þóknuðust stjórnvöldum. Þegar Hoxha féll frá var „skilgreind þjóðarsorg“ þótt þjóðin hafi ekki enn borið þessu tímabili bætur, nú 26 árum síðar og enn eitt hið fátækasta í Evrópu. Eitt af því sem Hoxha lagði mesta áherslu á var að byggja mörg neðanjarðarbyrgi í haginn fyrir kommúnista í „væntanlegu kjarnorkustríði“. Í Tírana sjálfri eru tvö borgar-neðanajarðarbyrgi sem hýsa átti fleiri hundruð manna hvort, sem og alla stjórnsýslu í marga mánuði og sem byggð voru á árunum 1974-1985. Lítil borgarsamfélög neðanjarðar með þröngum og löngum milligöngum milli rýma sem þjóna áttu líka fjölskyldum, með skólastofum, leikhúsi og sjúkrahúsi. Verkefnið varð eitt það dýrasta af öllum opinberum framkvæmdum í sögu þjóðarinnar. Í vikunni heimsótti ég annað neðanjarðarbyrgið rétt í útjaðri Tírana, á Bunk’art I sýningunni nánar tiltekið.

Ég komst ekki hjá því að hugsa heim. Um heilaþvottinn og fjölmiðlabannið varðandi byggingu Nýs Landspítala sl. ár. Dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar en sem mörgum finnst misráðin m.t.t. hagkvæmni, staðsetningar og þrengsla og þar sem stjórnvöld hafa haldið sig við sömu upphaflegu forsendurnar frá því í lok síðustu aldar þrátt fyrir gjörbreyttar forsendur. Tók meðfylgjandi mynd af sjálfum mér á sýningunni af þessu tilefni og þótt auðvitað sé engan veginn saman að jafna ástandinu og harðræðinu í Albaníu þá daga og hér heima á Íslandi nú. En samt. Meðal annars hvað varðar þöggun ríkisfjölmiðla á hugsanlega mjög óhagkvæmum byggingaráformum og staðsetningu nýja þjóðarspítalans í gamla miðbænum. Hálfgerðu þjóðarbyrgi í nútímalegum skilningi sem leysa mætti á mikið hagkvæmari og ódýrari máta á góðum stað, í opnu og fallegu umhverfi.

https://www.theguardian.com/…/albania-tirana-bunkers

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 26.8.2017 - 12:05 - FB ummæli ()

Allur pakkinn í Albaníu

Á göngu milli Thethi og Valbona þjóðgarðanna.

 

Nú í lok ágúst fórum við hjónin í gönguferð á albönsku alpana með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Um einstaka upplifun var að ræða, bæði er varðar göngur í stórbrotnu umhverfi með frábærri leiðsögn og kynningu á lífsstíl, sögu og menningu albönsku þjóðarinnar. Þótt aðeins hafi verið um 10 daga ferð að ræða, náðum við að ferðast víða um norðurhluta Albaníu frá Tírana, með viðkomu í Kosovo. Keyrðum mikið á miklu verri fjallvegum en við eigum að venjast í eldgömlum rútum. Gengum um 90 km og á fjögur fjöll og fjallaskörð á aðeins 6 dögum, oft í töluverðum hita og sól, með heildarhækkun samtals hátt í 7000 metra.

Ferðasagan í frábærum hópi íslenskra ferðafélaga og albanskra leiðsögumanna verður skráð í áföngum. Upplifunin er enda enn í þúsundum brotum og kristöllum. Nú er ég alsæll að vera komin heim með allar minningarnar. Við sem hópur stóðum þétt saman gegn allskonar áskorunum og sem komu sífellt á óvart. Ofþornun á göngu þar sem vatnið gat verið vanfundið og svæsin hópsýking af magapest, var sennilega það sem reyndi mest á þolrifin. Langar voru hinsvegar göngurnar í óbyggðum fjallanna og þar sem hættur gátu falist við hvert fótmál ef óvarlega var farið. Eingin met samt slegin, en vináttu-ávingurinn þeim mun meiri. Áminningar um leið hvað heilsan skiptir okkur alltaf miklu máli. Allt til að fá að geta fengið að njóta lífsins til hins ýtrasta og ævintýra í fjöllum á framandi slóðum. Í landi sem er nú eitt hið fátækasta í Evrópu af veraldlegum gæðum og þar til fyrir þremur áratugum eitt það einangraðasta í heiminum vegna harðstjórnar. Sannarlega þó ekki af allri mannkynssögunni að dæma og sem endurtekur sig í sífellu eftir duttlungum og valdagræðgi okkar mannanna á mismunandi stöðum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · útivist

Fimmtudagur 17.8.2017 - 19:43 - FB ummæli ()

Grýtti vegurinn upp í Efstaleitið

Hlutverk ríkisútvarpsins ætti að vera öllum augljóst. Hvernig má það þá vera að RÚV vinni beinlínis kerfisbundið gegn megin hagsmunum þjóðarinnar og sem snýr að eftirliti með stjórn heilbrigðismála. Allir vita í hvaða kreppu þau hafa verið sl. áratugi og mikilvægi þess að fjármunum ríkisins sé sem best varið. Meðal annars til skapa sem mest réttlæti og jöfnun meðal þegnanna. Á tímum þegar flestir stjórnmálamennirnir og jafnvel Alþingi telja að hámarki sé náð í fjárútlátum til heilbrigðismálanna sem hlutfall af ríkistekjum og aukin einkavæðingin sé ein lausnin. Svipað sögu má sennilega segja um öll velferðarmálin.

RÚV hefur sl. ár neitað að miðla upplýsingum um hugsanlega skynsamlegri nýtingu fjármagns til heilbrigðiskerfisins og forgangsröðunar. Ákalli fjöldasamtaka eins og SBSBS sem hafa engra sérstakra eiginhagsmuna að gæta, hafa verið hundsuð og að þau þóknist ekki stjórnvöldum sem hafa ákveðið annað. Rökum hefur m.a. vart verið svarað þrátt fyrir mögulega hundruð milljarða króna hagræðingu í nýjum þjóðarspítala á miklu betri stað en ákveðið hefur verið. Sama á við um uppbyggingu í þjónustu heilsugæslunnar og minnkuðu álagi á bráðaþjónustur. Eins sem snýr jafnvel að bráðaflutningum bráðveikra og slasaðra í framtíðinni. Um betra skipulag lyfjamála og skynsamlegri notkun lyfja þegar jafnvel lífsnauðsynleg ódýrustu lyfin eru ekki til mánuðum saman í landinu. Allt sem skrifað hefur verið um en ekki virðist mega ræða opinberlega í kjölinn. Þjónustuna við langveika, aldraða og geðsjúka þekkja síðan allir. Mál sem reyndar fréttastofa RÚV tekur stundum upp eins og til að toppa tindana í fjölmiðlaumræðunni og sanna sig, en án þess að ganga sjált á fjöllin. Ásakar síðan göngufólkið sjálft, heilbrigðisstarfsmenn, þegar mistök verða. Í langvarandi raunniðurskurði og manneklu og leita mætti vel skýringa á í grasrótinni sjálfri fyrir fjölmiðli allra landsmanna!

Fréttastíll fréttamiðils sem þrífst mest á æsifréttum dagsins, getur vart talist mjög marktækur upplýsinga-og ríkisfjölmiðill. Ekkert frekar þótt hann fylli fréttatímana sína af erlendum innfluttum fréttum. Alvarlegast er samt meðvitaða ákvörunin um þöggun og sem snýr að bestu framtíðarlausn okkar allra.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.8.2017 - 18:31 - FB ummæli ()

Myndir frá Steingrímsfirði á Ströndum

Nokkrar myndir frá sl. vikum mínum á Ströndum (Hólmavík og nágrenni). Njótið helgarinnar kæru lesendur og vondandi verður helgin stórslysalaus (smellið á myndirnar til að fá fulla skjástærð)

 

 

Kópanes við Hólmavík.

Hólmavík og Háafell í Djúpi.

Skeljavík við Hólmavík.

Kleifar, Drangsnes og Grímsey.

 

 

Hólmavík, gamli bærinn og smábátahöfnin.

Túnahverfið á Hólmavík.

Steingrímsfjörður

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · útivist

Föstudagur 4.8.2017 - 13:55 - FB ummæli ()

Á móti rauðu ljósi, en bara um verslunarmannahelgina?

Er stundum í lagi að keyra yfir gatnamót á móti rauðu ljósi? Jafnvel auka umferðarhraðann til að greiða fyrir umferð á þjóðvegunum, bara þessa einu helgi?
Ferjan Akranes hefur leyfi Samgöngustofu til tilraunafarþegasiglingar í 6 mánuði sem er skilyrt milli hafna Reykjavíkur og Akranes.

Af því það er þjóðhátíð nú í Eyjum að þá grípur samgöngumálaráðherra fram fyrir hendur forstjóra Samgöngustofu sem áréttað hefur skýrt að leyfið gildir ekki fyrir farþegasiglingar til Eyja og þar sem innsiglingin getur verið mjög varasöm, sem og hún getur verið einnig í Landeyjum. A.m.k. gjörólík því sem aðstæður eru í Reykjavíkurhöfn og á Akranesi, auk þess sem Akranesferjan er tvíbitna og því væntanlega með ólíka eiginleika í slæmum sjó.

Er stundum ástæða að gefa eftir með lög og reglur eina helgi og leyfa eins og nú fyrirvaralaust nýja tilraunafarþegaflutninga með á annað hundrað farþega (mest ungmenni) á nýjum og varasömum slóðum, bara að því að er þjóðhátíð í Eyjum og slá um leið rækilega á hendur eftirlitsaðilans sem vinnur sitt verk af kostgætni og sem hafði úttalað sig um áhættumatið?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · útivist

Laugardagur 29.7.2017 - 16:45 - FB ummæli ()

Kreppta hjálparhöndin þegar mest á reynir!

Fyrir helgi lenti amerísk skúta með 3 mönnum innanborðs í miklum sjávarháska. Fékk á sig brotsjó, snerist og hvolfdi svo mastur brotnaði og skútan fylltist af vatni. Skipsverjar höfðu löngu áður náð að senda út neyðarkall. Leitarflugvél LHG var í útleigu erlendis. Reiða þurfti sig því á hjálp flugmálastofnunar og flugvélar Isavia til leitarinnar. Tókst þeim giftusamlega að miða út skútuna frá neyðarsendingum. Skútan var rúmlega 200 sjómílur SV af landinu og of langt í burtu til að þyrlur LHG gætu náð til hennar. Hún var síðan við að sökkva, stjórnlaus og rafmagnslaus þegar skipsverjum á hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni sem statt var 40 sjómílum frá slysstað tókst að bjarga áhöfninni um 7 tímum eftir slysið og áhöfnin komin í björgunarbáta.

Hér fyrir ofan er mynd af einni af 17 glænýjum AW101 þyrlum norsku strandgæslunnar sem þeir eru nú að fá afhendar, eina af annarri og sem ætlaðar eru m.a. til erfiðari sjúkraflutninga, sérútbúnar fyrir flug norðurslóðum með fullkomnum nauðsynlegum tækjabúnaði til leitar og björgunar. Þær eru með umtalsvert meiri flughraða 277km/klst og hafa flugþol í allt að 7 klst. og þannig langdrægni til flugs allt að 350 sjómílur á haf út og fullkominn afísingabúnað. Tvær slíkar höfðu Íslendingar pantað með Norðmönnum fyrir kreppuna 2008, en hættu síðan við árið 2012 og sem Norðmenn tóku þá pöntunina yfir. Norðmenn reka yfir 20 bækistöðvar fyrir þyrlurnar víðsvegar um allt landið, auk reksturs léttari sjúkraþyrla fyrir styttri flutninga innanlands. Auk þess auðvitað þyrlur sem lögregla og her hefur yfir að ráða.

Hvað ætlum við Íslendingar að trassa lengi nauðsynlega innviðauppbyggingu gagnvart mikilvægustu öryggisþáttum landsins. Heyrst hefur að LHG fái fljótlega þrjár nýlegri þyrlur í stað þeirra þriggja sem nú eru í langtímaleigu. Eingin fjölgun á þyrlukosti þannig hugsuð og hin fullkomna leitarflugvél þeirra, TF-Sif ennþá í útleigu erlendis vegna fjárhagsstöðu og almennra fjárhagsskuldbindinga LHG. Heilbrigðisþjónustan úti á landi hefur nánast verið hin sama sl. áratugi og margir flugvellir lokaðir vegna viðhaldsleysis og því ónothæfir til sjúkraflugs. Fjölgun erlendra ferðamanna teljast í milljónum og þannig  margfaldast sl. ár um land allt sem og umferðarþunginn.

Betur fór en á horfðist um tíma með björgunina í vikunni og eiga þeir sem að henni stóðu hrós skilið. Sennilega hefði hún samt tekið helmingi styttri tíma og verið öruggari á allan hátt ef við hefðum yfir að ráða svipuðum þyrlum og Norðmenn. Er ekki kominn tími til að stjórnvöld láti af kreppustefnu sinni í innviðauppbyggingunni og nýr raunveruleiki blasir við. Gott efnahagsástand en miklu meira álag og óvissa með alla neyðarþjónustu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 28.7.2017 - 00:53 - FB ummæli ()

Lyfjaskorturinn og hin ógnvænlega þróun

Nú mætti af fyrirsögninni halda að verið væri að fara með ýkjur. Nokkur dæmi hafa reyndar komið upp þar sem ekki hefur fengist nauðsynleg lyf fyrir einstaka einstaklinga, vegna kostnaðar og þá oftast um að ræða svokölluð spítalalyf eða undanþágulyf á almennum markaði. Nei hér og nú ætla ég að ræða um algengustu lífsbjargandi lyfin sem gagnast flestum, oft líka þau ódýrustu og afleiðingarnar fyrir þjóðfélagið þegar þau vantar og sem auðvitað er á ábyrgð stjórnvalda.

Sl. mánuð hefur ekki fengist algengasta og þröngvirkasta lyfið við klasakokkasýkingum (S. aureus). Algengasta sýkingarvaldi mannkyns, t.d. varðandi húðsýkingar, sýkingum tengt aðskotahlutum í húð eða sýkingum í brjóstum kvenna. Nánar tiltekið Staklox (dicloxacillín). Læknar hafa því þurft að notast við breiðvirkari lyf sem gagnast síður við einfaldar og næmar sýkingar. Þannig einstaklingi jafnvel til tjóns eða til seinkaðs bata og sem stuðlar síðan að vaxandi þróun sýklalyfjaónæmis og dreifingu sýklalyfjaónæmra sýkingarvalda. Eins annarra en sjálfra klasakokkanna.

Nú er þetta svo sem ekki einstakt tilvik. Endurtekið vantar lyf sem stundum ekkert lyf kemur í staðinn fyrir. Oftar þó að nota má mikið sterkari og dýrari lyf. Hér nefni ég bara lyf í flokki sýklalyfja, en svipað á við um aðra lyfjaflokka. Í næstum ár fyrir 3 árum fékkst ekki algeng sýklalyfjablanda, amoxicillin í mixtúruformi fyrir börn. Notast þurfti því við sterkari lyfjablöndur og sem stuðla að þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna meðal barna og sem geta m.a. valdið alvarlegustu eyrnabólgunum og lungnabólgunum. Augmentin og Zitromax nánar tiltekið.

Árið 2009 skrifaði ég um lyfjaskortinn í landinu. Að hluta mátti kannski kenna þá hruninu um. Ekki í dag og sagan er samt söm við sig og síst skárri. Algengust augndropar við sýkingum í augum, einkum barna, fengust ekki í nokkra mánuði í vetur. Notast varð við miklu sterkari augndropa í staðinn. Skortur (alger vöntun) sem oftast skellur á án fyrirvara og þar sem innflytjendur eða framleiðendur standa sig ekki í stykkinu og ónógar langtímabyrgðir til í landinu. Lyfjastofnun ber fyrst og fremst ábyrgð á skráningu og sölu lyfja, ekki innflutningi og vísar ábyrgðinni frá sér. Ábyrgðin hlýtur því að vera alþingis, heilbrigðisyfirvalda (ráðherra) og landlæknis. Með núverandi lögum um frjálsa sölu og innflutning lyfja í apótekum með skilyrðum svo sem skráningu og lyfseðalskyldu. Markaðurinn síðan bara látinn ráða ferðinni.

Vandamálið er sérstaklega alvarlegra hvað sýklalyfin varðar og þar sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) leggur ríka áherslu á skynsamlega notkun sýklalyfja meðal manna og til notkunar í landbúnaði. Mælst er til að nota ávalt þröngvirkustu lyf sem völ er á, á réttum forsendum, til að sporna gegn alvarlegust heilbrigðisvá samtímans að þeirra mati og flestra sem til þekkja. Sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda okkar og þar sem útlit er fyrir að lyfin, jafnvel breiðvirkustu sýklalyfin virki ekki lengur og nýlega var í fréttum tengt meðhöndluna á lekanda erlendis. Það hlýtur því að skjóta skökku við að læknum á Íslandi sé ekki gefinn kostur á að nota rétt lyf, heldur „breiðvirkari lyf“ sem virka stundum síður á næmustu stofnana og sem stuðlar þannig að hraðari þróun og dreifingu sýklalyfjaónæmra stofna út í samfélagið.

Að lokum. Það er ekki nema rúm hálf öld síðan sýklalyf fóru að vera aðgengileg og í raun ekki fyrr en í seinni heimstyrjöldinni sem þau voru verksmiðjuframleidd, þá fyrst fyrir hermenn bandamanna okkar. Eitt sterkasta vopnið í heimsvánni á þeim tíma. Rúmlega tíu árum fyrr hafði Alexander Fleming tekist að einangra penicillín úr sveppaskánum og er uppgötvuninni oft líkt við stærsta kraftaverk læknisfræðinnar og sem átti síðar eftir að lengja meðalaldur mannkyns um áratugi. Eftir mikið streð og tíma tókst Alexander í fyrstu að einangra 2 grömm af hreinu penicillíni og sem jafngildir í dag tveimur töflum sem oft eru gefnar t.d. við streptókokkahálsbólgu. Það vildi svo til að bresk yfirvöld leituðu til hans vegna lögregluþjóns sem var deyjandi af sýkingum í sárum sem hann hafði fengið eftir hundaárás í London. Alexander lét penicillínið sitt af hendi og dreifði því í nokkra skammta í æð lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn fékk fljótt skjótan bata á fyrstu 2-3 dögunum, en grömmin tvö nægðu ekki til að klára að ráða niðurlögum sýkingarinnar. Lögreglumanninum hrakað því fljótt aftur og lést af sýktu sárunum. Það var ekki til meira penicillín.

Sagan segir okkur kannski aðeins hversu verðmæt sýklalyfin eru okkur enn í dag og þótt mörg ný sýklalyf hafi verið framleidd síðan, sum af stofni penicillíns, önnur ekki, að þá hafa ný lyf engan veginn unnið upp á móti vanda vaxandi sýklalyfjaónæmis í heiminum sl. áratugi. Því þarf að fara vel með þau og nota ávalt þau þröngvirkustu sem kostur er á í byrjun. Sterkustu vopn læknisfræðinnar ennþá daginn í dag, ekki síst tengt hátæknilæknisþjónustunni á spítölunum, en líka úti í samfélaginu. Og stjórnvöld þurfa að skilja þetta jafnvel og læknarnir og semja lög og reglugerðir rétt svo lyfjamálin standi traustari fótum. A.m.k. til að algengustu lífsnauðsynlegustu lyfin séu til fyrir sem flesta.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.7.2017 - 08:36 - FB ummæli ()

Stopult skólp, á alla vegu

Herlev sjúkrahúsið í Kaupmannahöfn (myndin tekin frá skólphreinsistöðinni nýju í vetur)

Vegna umræðunnar um skólphreinsislysið stóra hjá borginni sl. mánuð og sem uppgötvaðist fyrir tilviljun. Góð skólpkerfi hafa verið meginforsenda bætts almenns heilbrigðis íbúa stórborga um aldir og sem í raun allt stendur og fellur með varðandi smitsjúkdómana og fyrri drepsóttir mannkynssögunnar.

Fulltrúar í borgarstjórn mættu gjarnan leggja fyrirspurn til borgarstjórnar og Dags, hvernig menn hafi hugsað sér skólpfrárennsli og sótthreinsun á því frá Nýjum Landspítala í framtíðinni og sem virðist eiga að veita beint í almennu skólpgatnaveituna og sem er úr sér gengin í gamla miðbænum! Það voru gerðar strangar kröfur um skólpreinsitöð við nýja hótelið í Reykjahlíð við Mývatn vegna viðkvæms lífríkis sem þar er að finna í vatninu. Ekki þegar hins vegar kemur að framkvæmdum nú við þjóðarsjúkrahúsið nýja og þar með hugsanlega heilbrigði höfuðborgabúanna sjálfra!

Við hönnun á nýjum sjúkrahúsum eins og t.d. í Herlev í Danmörku nú og þar sem verið er að reisa stóran nýjan meðferðarkjarna, var sér skóphreinsistöð byggð fyrir spítalann og sem kostar sennilega hátt í tug milljarða króna. Þetta er gert vegna hugsanlegrar dreifingar á ónæmum smitsjúkdómavöldum í umhverfið, ekki síst sýklalyfjaþolnum saurbakteríum og veirum sem borist getur með líkamsvessum og saur sýktra einstaklinga í almennar skólplagnir og síðan í umhverfið. Þegar nýr þjóðarspítali er byggður á Íslandi þarf auðvitað að hugsa líka til allra enda og sem erfitt verður að gera eftir á og skaðinn skeður.

Helst þyrfti allt skólp frá Nýjum Landspítala, hvar svo sem hann verður byggður, að vera aðskilið frá almennu skólpkerfi höfuðborgarinnar, auk sótthreinsistöðvar og sem verður mjög erfitt og kostnaðarsamt að koma fyrir á Hringbrautinni en miklu auðveldara og kostnaðarminna á besta stað.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 4.7.2017 - 12:14 - FB ummæli ()

Vatnsmýraráhættan í dag

Þyrluflutningar eins og þeir eru hugsaðir við Nýjan Landspítala við Hringbraut, valda mikilli áhættu við spítalann og nánasta umhverfi og ef eitthvað fer úrskeiðis. Ekki er hægt að hugsa til enda ef 20 tonna þyrlu hlekkist á við meðferðarkjarnann eða yfir íbúabyggðinni þar í kring og ekkert svæði er til nauðlendinga og nú eru áformað. Forsendur fyrir pallinum og þá aðeins fyrir þyrlur í afkastagetuflokki I (2-3 mótora þyrlur) vegna erfiðara aðstæðna, miðuðu þó við a.m.k. eitt opið svæði, einskonar „aðflugsbraut“, S-V við spítalann. Yfir neyðarbrautina svokölluðu sem nú er búið að loka varanlega og yfir Valslóðina sem þegar er farið að byggja á.

Eftir að leyfi fékkst hjá flugmálayfirvöldum og hönnun þyrlupalls var lokið 2011, var ákveðið 2012 að loka neyðarbrautinni og byggja upp á Valslóðinni! Ekkert nýtt áhættumat fór fram eða stendur til vegna þyrluflugsins sérstaklega. Forsendu fyrir áframhaldandi nálægð við Reykjavíkurflugvöll var jafnframt kippt út úr skipulagi fyrir Nýjan Landspítala og sem upphaflega var ein meginforsenda fyrir staðarvalinu á Hringbraut um aldarmótin síðustu!

Nú er mikið rætt um léttari þyrlur sem væru til að mynda staðsettar í öllum landsfjórðungum, til að byrja með á Suðurlandi. Slíkar þyrlur gætu líka mikið minnkað álag við dreifbýlisheilbrigðisþjónustu, m.a. í héruðum þar sem aðeins er t.d. einn læknir/hjúkrunarfræðingur og einn sjúkrabíll og langar leiðir að fara. Auk þeirrar staðreyndar að nothæfum flugvöllum víða um land hefur farið fækkandi sl. áratugi vegna viðhaldsleysis og bleytu (malarvellir), en sem voru áður notaðir við venjulegt sjúkraflug. Það hlýtur að skjóta skökku við að framtíðarsjúkrahúsið sem nú er áætlað að byggja sé alls ekki hannað til að taka á móti nema í versta falli litlum hluta þeirra allt að 600 bráðsjúkraflutninga sem áætluð þörf er á í dag með jafnvel léttari sjúkraþyrlum, auk þess aðgangur að venjubundnu sjúkraflugi er í uppnámi (um 700 flug á ári).

Með öllu er óásættanlegt að framtíðarþjóðarsjúkrahúsið okkar og aðal bráðasjúkrahús landsins sem enn er aðeins til á teikniborðinu, skuli ekki gera ráð fyrir þörfinni á almennri móttöku sjúkraflutninga með þyrlum af landsbyggðinni. Þar sem auðveldlega skilið getur á milli lífs og dauða og ef óþarfa tafir verða á sjúkraflutningum á aðal bráðasjúkrahús landsins og ekki má einu sinni ræða á RÚV.

Af hverju hugsanlega flugvallarlausan kreppuspítala fram á næstu öld?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is