Fimmtudagur 8.2.2018 - 12:31 - FB ummæli ()

Björgum óbyggðum þjóðarspítala STRAX frá Hringbraut

Megin forsendur fyrir upphaflegu staðarvali nýja þjóðarsjúkrahússins á Hringbraut sem ráðamenn kappkostað að lofa, hrynja nú eins og spilaborgir. Umferðarsamgöngubætur vestur í bæ á nú að redda langt eftir á með ærnum tilkostnaði m.a. nýjum stokk undir Hlíðarhverfið við Miklubraut til að koma fólki í vinnuna á morgnana og heim aftur á kvöldin ásamt Borgarlínu fyrir yfir 100 milljarða króna, en ekki fyrr en 5-10 árum eftir að fyrirhuguð framkvæmdum á að vara lokið við meðferðarkjarna LSH, 2023. Kosningaloforð vel að merkja og þá enn frekari aðgangshindranir næstu 10-15 árin.

Nú stefnir sömuleiðis í að Reykjavíkurflugvöllur fari á sama tímabili, jafnvel fyrr. Fyrirhugaðir þyrlusjúkraflutningar á pallinn á nýja spítalann á Hringbraut eru hins vegar þegar í algjöru uppnámi af fyrirséðum öryggisaðstæðum. Það eru ófá sjúkraflugin (með flugvélum eða þyrlum) á mínum starfsferli sem hver mínúta skippti öllu máli. Meira en helmings aukning hefur orið á slíkum flugum sl. 5 ár og samtals telja sjúkraflugin yfir 1000 á ári hér á landi.

Hvað á þessi Hringbrautarvitleysa eiginlega að ganga langt hjá ríki og borg og þar sem ennþá má endurmeta stöðuna og ræða?  Hættuleg umræða að sumra mati en þar sem hægri höndin virðist aldrei vita hvað sú vinstri gerir. Afleiðingarnar heimskulegar úr því sem komið er og stefna í að verða jafnvel skelfilegar. Óheyrilegur sokkinn fjárfestingarkostnaður sem meðal annars er líka vegna framkvæmdaóhagræðis á nýjum og ónýtum húsum á þröngri lóðinni.

Alþingi hefur nú sent Samtökum betri spítala á betri stað (SBSBS) beðni um umsögn á þingsályktunarfrumvarpi hvort ekki eigi að endurmeta staðarvalið á þjóðarsjúkrahúsinu ásamt fleiri samtökum sem láta sér málið mikið varða (Þingmál no. 88). Vonandi þannig samtök sjúkraflutningsmanna og heilbrigðisstarfsfólks líka. Nú er lag að bjarga málum áður en allt verður um seinan.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.1.2018 - 09:18 - FB ummæli ()

Lendingarleyfi fyrir Flug 101- Hringbraut

Samgöngustofa samþykkti varanlega lokun Neyðarbrautarinnar (rauða brautin) 2017 og byggingaframkvæmdir eru þegar hafnar við NA endann á gömlu Valslóðinni við Vatnsmýrina

Þau voru ófá tilfellin þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) björguð öllu eins og sagt er og sem kom fram í fyrsta uppgjörinu á árinu 1991 í grein í Læknablaðinu 1994, 5 árum eftir að þyrlusjúkraflug hófst hjá Landhelgisgæslunni (LHG) 1986. Á sama tíma var góð aðstaða sköpuð við hlið Borgarspítalans til lendinga með opnum svæðum úr þremur megin áttum. Flugið þjónaði miðunum út af landinu og ekki síst alvarlegustu slysunum af landsbyggðinni. Niðurstaða rannsóknarinnar var að um 40% sjúkraflutninga með þyrlunum voru taldir mjög mikilvægir, m.t.t. alvarleika og tíma í flutningi áður en sjúklingur komst á sjúkrahús til að fá viðeigandi meðferð (oftast skurðaðgerðir og gjörgæslu). Neyðarútköll þyrlusveitar LHF hefur síðan þetta var nær þrefaldast og eru nú tæplega 300 á ári, þar af yfir helmingur vegna slasaðra eða sjúkra. Aukning á útköllum eru greinilega tengd erlendum ferðamönnum og þar sem aukningin mælist um 66% á aðeins 5 árum. Þau þyrftu að margra mati og sem best þekkja til, að vera töluvert fleiri ef vel ætti að vera. Um ágæti og öryggi sjúkraflutninganna efast held ég enginn um í dag og enn má bæta með annarri þyrlubakvakt sem er til umræðu og jafnvel léttari sjúkraþyrlum fyrir styttri flutninga. Þyrluaðflug mun hins vegar alltaf verða mjög varhugavert yfir lágreista spítalaþorpinu í Þingholtunum. Þar verður engin aðstaða til nauðalendinga á opnum svæðum og í raun hrikaleg þróun hvað varðar öryggi heimkomunnar á bráðaspítalann og ólíku saman að jafna við aðstæður í Fossvoginum í dag.

Hugsanlegar aðflugsbrautir fyrir sjúkraþyrlur að þyrlupalli á Nýjum Landspítala á Hringbraut.

Í byggingaáformunum við Hringbraut þar sem megin markmiðið er að flytja alla bráðaþjónustu sjúkrahúsa Reykjavíkur undir eitt og sama þakið eftir 5 ár, er nú ráðgerður þylupallur (helipad) á þaki sjálfs rannsóknarhússins og sem er einn viðkvæmasti hluti spítlastarfseminnar, næst meðferðarkjarnanum (áætlun frá 2011). Flugmálayfirvöld gera kröfu um að notaðar verði þyrlur af afkastagetu 1 vegna lélegra aðflugsskilyrða við spítalann (2- 3 mótora þyrlur) og sem geta haldið hæð ef vélabilun verður í einum mótor. Þegar upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir aðeins um 10 lendingum á ári í neyð! Allir geta hins vegar séð fyrir sér hvað gerist ef slík þyrla hlekkist á einhverja hluta vegna í sem næst daglegum sjúkraflutningum í allskonar veðrum og þar sem hver þyrla getur jafnast á við á þyngd fullhlaðins grjótflutningabíls (15-20 tonn). Alltaf þyrfti hins vegar að tryggja plan B – öryggisplan- við aðstæður sem reglubundið sjúkraþyrluflug krefst og krafa ætti að vera varðandi byggingaframkvæmdir við nýjan þjóðarspítala. Þar sem kostur er á opnum svæðum til nauðlendinga, í að- og fráflugsstefnum pallsins.

Árið 2012 var hins vegar ákveðið að loka neyðarbrautinni svokölluðu og sem þjónað gat samkvæmt hugmyndum í hönnun þyrlupallsins, sem ein aðflugsbraut fyrir sjúkraþyrlurnar. Byggingaframkvæmdir hófust eins á Valslóðinni við NA enda gömlu brautarinnar eins og deiliskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir og hindrunarhringnum þannig endanlega lokað umhverfis spítalann. Ekkert nýtt áhættumat hefur heldur verið gert síðan, eftir því sem ég best veit. Þannig afskaplega heimskulegt og hættulegt aðeins plan A yfir Þingholtin og nágrenni nú verð ég að segja.

Öryggi bráðastarfseminnar og aðgengið að henni á nýju þjóðarsjúkrahúsi, skiptir auðvitað líka miklu máli fyrir þjóðaröryggið í framtíðinni. Málið nú snýst þannig ekki aðeins um vanda bráðaflutninga með sjúkrabílum vegna umferðarþunga til miðborgarinnar á annatímum, heldur einnig að öruggum lendingaraðstæðum fyrir sjúkraþyrlurnar við sjúkrahúsið. Eins mætti nefna nálægð flugvallar við spítalann fyrir venjulegt sjúkraflug og sem er í hálfgerðu uppnámi. Allt voru þetta meginforsendur fyrir staðarvali við Hringbraut fyrir 15-20 árum, allt til ársins 2012. Alls munu sjúkraflug nú vera hins vegar um 1000 á ári og þar af tæplega 200 með þyrlum LHG eins og áður sagði. Þörf fyrir þyrlusjúkraflug á eins eftir að stóraukast hér á landi ef að líkum lætur. Byggingaáformin nú og aðstaða til þyrlulendinga við nýtt aðalbráðasjúkrahús landsins þarf því að taka mið af þeirri þróun, en ekki öfugt. Málið verður eingöngu leyst með betra staðarvali fyrir Nýja Landspítalann á opnu svæði, helst sem mest miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu öllu. Já ráðherra, en getur þú nú gefið leyfi til nauðlendingar á Hringbrautarmálinu öllu og umræða síðustu daga um endurskoðun á staðarvali ber með sér  m.a. á Alþingi, eða ætlar þú að taka áhættuna, þrátt fyrir skynsemina og öll viðvörunarljósin nú?

Í grein sem Jakob Ólafsson flugstjóri LHG skrifaði á Vísir 2012 segir m.a. Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut frá apríl 2004 er í 10. kafla fjallað um samgöngur við LSH og þar segir m.a.: „Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti, að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs“  Þetta sama ár 2012 var forsenda sjúkraflugsins skyndilega felld úr gildi og Jakob skrifar skrifar „Síðan verða blikur á lofti, ný stjórnvöld taka við og skipt er út nefnd um Landspítalaverkefnið. Áherslur þessara nýju stjórnarherra eru að að losa sig við Reykjavíkurflugvöll með öllum ráðum og láta sem öryggi og hagsmunir landsbyggðarinnar séu þeim óviðkomandi.“.. „Ef þyrlupallar eru settir á nýjar spítalabyggingar er gert ráð fyrir rúmum öryggissvæðum til nauðlendinga við aðflug og brottflug þyrlna að pallinum því ef bilun verður í gírkössum eða stélskrúfu þyrlu við aðflug eða brottflug að þyrlupallinum hefur þyrluáhöfnin afar lítið svigrúm til að beina þyrlunni að heppilegum lendingarstað, aðeins það rými sem er nánast beint fyrir neðan þyrluna er í boði til nauðlendingar og því gæti skapast almannahætta við brotlendingu þyrlu á sjúkrahússvæðinu, í nálægri byggð eða á umferðargötu. Miðað við framtíðarskipulag Landspítalasvæðisins er gert ráð fyrir þéttri byggð og umferðaræðum í nágrenni spítalans og því slík öryggissvæði ekki í boði.“ Fyrir áhugasama þá er tenging á hönnunarskýrslu þyrlupallsins á Nýjum Landspítala við Hringbraut hér fyrir neðan sem gaman væri að fá skoðun á frá flugmönnum/fagmönnum sem og sérfræðingum í umhverfisaðstæðum.

Venjuleg sýn á Nýjum Landspítala á Hringbraut eftir 5-10n ár.

 

https://drive.google.com/open?id=0B91EwWZv2AGmb3JOcEZBRTdLUmc http://www.hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/75933/1/L1994-02-80-F5.pdf

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.1.2018 - 10:25 - FB ummæli ()

Eins og pökkuð síld í púðurtunnu.

Tæp öld er síðan gamli Landspítalinn var tekinn í notkun og í ár er aldarafmæli Læknafélag Íslands sem læknar halda hátíðlega upp á. Gamli spítalinn er löngu orðinn of lítill og úr sér genginn eins og við öll vitum. Fyrir löngu var tímabært að huga að nýjum spítala á sem bestum stað og sem gæti sameinað alla bráðastafsemi sameinaðs spítala á einum stað. Eins til að tryggja sem best aðgengi fyrir sjúklinga, bráðaflutninga og sjúkraþyrluflug sem hefur aukist um 66% á sl. 5 árum. Aðflæðis og fráflæðisvandi spítalastarfseminnar hefur aldrei verið jafn mikill og stöðugt yfirflæði á bráðamóttökur, á sama tíma og árlegur niðurskurður hefur verið á fjárveitingum þess opinbera til heilbrigðisþjónustunnar og byggingu hjúkrunarrýma miðað við þörf.

Loks á að fara að hefja framkvæmdir síðar á árinu við byggingu Nýs Landspítala eftir tæplega tveggja ártuga undirbúning sem mjög hefur verið gagnrýndur m.t.t. undirbúningsvinnu og staðarvals. Öllum ætti þó í dag að vera ljóst að Nýja þjóðarspítalanum var valinn kolvitlaus staður á gömlu Hringbrautarlóðinni og sem fyrirséð er að gagnast muni bæði stutt og illa. Hvergi á tregðulögmálið betur við í stjórnsýslunni en hér, enda sjálft Alþingi heilaþvegið þegar það lagði endanlega blessun sína á þennan gamla og úrhelta pólitíska kreppugjörning 2015, og sem var í raun ákveðinn hrunárið 2008.

Þegar við flest kaupum hús eða íbúð, sem við gerum kannski einu sinni á ævinni, viljum við ekki um leið kaupa köttinn í sekknum. Við gerum það a.m.k. ekki vel upplýst. Sama á auðvitað við um hús okkar allra, nýjan þjóðarspítala. Við (þjóðin) ættum auðvitað að vanda vel valið. Ekki aðeins að hluta nýtt hús sem hentar illa, með síðan óheyrilegum kostnaði vegna endurbóta eldra húsnæðis og hættulegu skipulagi m.t.t. umhverfis og aðgengis. Mikill meirihluti starfsmanna og heilbrigðisstarfsfólks veit þetta og vildi því annan og betri kost. Reyndar þjóðin öll og fyrri skoðanakannanir sýna sl. ár. Samt skal „þvinga kaupin í gegn“, sama hvað hver segir og afsalið tilbúið til undirskirftar.

Nú ættum við því að hætta við kaupin. Spýta í lófana og nálgast málið allt með ferskri nútímalegri hugsun. Tafirnar hafa hins vegar kostað sitt og verða að skrifast á umbjóðendur. Nýr þjóðarspítali á nýjum góðum stað þarf hins vegar ekki að taka lengri tíma í byggingu en framkvæmdir sem fyrirhugaðar er í heild sinni nú á Hringbrautarlóðinni og ef hendur verða látnar standa fram úr ermum. Nágrannþjóðir okkar hafa leyst álíka vandamál á 7-10 árum. Huga þarf hins vegar strax að fjármögnun og nauðsynlegum bráðlausnum hvað varðar hjúkrunarrými sérstaklega. Eins að tryggja mönnun heilbrigðisstarfsstétta sem er mesti vandinn í dag og sumar spítaladeildir hálf lokaðar.

Það er löngu ljóst að aðal samgönguás höfuðborgarsvæðisins liggur mikið austar en við fyrirhugað byggingasvæði við Hringbrautina og þar sem auk þess miklu auðveldara og ódýrara er að koma við nauðsynlegum samgöngubótum vegna fyrirséðar aukinnar umferðar í framtíðinni. Mikilvægt er að létta hins vegar eins og kostur er umferðarþungann vestur í bæ. Yfir 90% höfuðborgabúa búa austan Hringbrautar, ekki í kringum eða vestar og ef frá eru taldir túristar og hótelgestir miðborgar Reykjavíkur. Raunverulegir íbúar, mikið austar, sunnar, norðar og í nágrannabyggðum. Af hverju í ósköpunum erum við þá að búa til þetta heimatilbúna vandamál með staðsetningu þjóðarspítalans og sem aðeins einstakar milljónahöfuðborgir heimsins standa frammi fyrir vegna mikils íbúafjölda og skorts á lóðum? Af öllum þjóðum, á Íslandi? Algjörlega fyrirséð stórvandamál í aðgengi sjúklinga og starfsfólks að stærsta vinnustað landsins og einni mikilvægustu heilbrigðisöryggisþjónustunni í framtíðinni. Þangað sem leiðir okkar þó flestra liggur á öllum tímabilum á ævinnar og örlagastundu.

Allt er þetta orðið til vegna vegna einkennilegrar hagsmunagæslu sem unnið hafa að verkefninu á Hringbraut og sem ekki hefur mátt ræða sl. ár opinberlega! Byggt á gjörólíkum plönum og forsendum frá því fyrir aldarmót sem eru löngu brostin og sem voru þó byggð á veikum grunni fyrir. Á síðustu árum ætti hinsvegar flestum að vera vandinn augljós. Skera verður t.d. niður bílaaðgengi að spítalanum um helming og verulegar aðgangshindranir einnig augljósar á sjúkraflutningum. Þrönga spítalalóðin í gamla miðbænum skerðir auk þess heilsusamlegt fallegt nærumhverfi fyrir sjúklinga og starfsfólk sem flestar þjóðir leggja orðið mikla áherslu á, í skipulagi nýrra nútímalegra spítala. Lagnakerfi og skólpmál (sem er okkur sérstaklega ofarlega í huga í dag) tengt spítalanum eru óleyst og dýr úrlausnarefni. Í lítilli miðborg þar sem umferðaöngþveiti veldur þegar miklu þjóðhagslegu tapi vegna umferðatafa og mikilli mengun, flesta daga ársins.

Hagkvæmasti og ódýrasti byggingarmátinn er auðvitað háar byggingar, frekar en ranghalar um allt. Á sem opnustum svæðum og sem truflar sem minnst umhverfið og fyrri starfsemi á byggingartíma. Eins að skapa sem bestu stækkunarmöguleika, rekstrarhagkvæmni og þróun síðar. Hagræði sem samtökin SBSBS hafa reiknað út með sölu eldri eigna, upp 100 milljarða króna og sem gæti jafnvel borgað niður byggingakostnað nýs þjóðarspítala á hálfri öld samanborið nú við útreikninga á framkvæmdakostnaði að lokum við Hringbraut.

Skipulagið á Hringbraut skapar að lokum mikla stórslysahættu við kjarnastarfsemina spítalans vegna staðsetningar á þyrlupalli á 5 hæð þaks rannsóknarhús, á milli allra bygginganna á lóðinni. Það ætti hvert mannsbarn að geta séð og þar sem gera má ráð fyrir þörf á sjúkraflugi nær daglega á 15-20 tonna stórum, a.m.k. 2 mótora þyrlum vegna krafa flugmálayfirvalda og skorts á opnum öryggissvæðum í kringum spítalann. Í öllum veðrum yfir Þingholtið og sem verður ennþá mikilvægara ef Reykjavíkurflugvöllur verður að lokum látinn víkja. Eins stóraukinn ferðamannafjöldi í landinu og slysatíðni a þjóðvegum landsins sl. ár. Algjört sjálfskaparvíti þannig allt saman vil ég segja og að lokum sokkinn kostnaður fyrir þjóðarbúið upp á hundruð milljarða króna og við neyðumst að lokum til að hugsa allt dæmið upp á nýtt. Mál sem virðist hafa verið algjörlega bannað að endurskoða í stjórnsýslunni og fréttabann jafnvel lagt á umfjöllun í ríkisfjölmiðlum sl. ár!!!

Gleðilegt ár kæru lesendur og „Guð blessi Ísland“.  Ættum við nú samt ekki frekar að leggja öll spilin á borðið. Við getum ennþá unnið „þennan leik“. Ræðum málið betur áður en allt verður um seinan og allar fyrri skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi þjóðarvilja til. Sá leikur er a.m.k. aldrei tapaður.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.1.2018 - 21:23 - FB ummæli ()

Alpagangan í Albaníu sumarið 2017

Áð fyrir Arapi tindinn góða

Gönguferðir á fjöll erlendis í framandi og ólíku menningarumhverfi, er mikil upplifun og ævintýri. Ný viðmið í ólíkar áttir og sem aðeins næst með heimamönnum í fjöllunum, þorpunum og jafnvel stórborgunum. Með öruggri íslenskri og erlendri farastjórn nýtist tíminn best. Ferð sem síðan færir út okkar eigin landamæri ef svo má segja og skilning á ólíkri menningu og náttúruundrum heimsins. Öll viljum við getað samsvarað okkur aðeins meira með sögunni. Til hvatningar fyrir okkur sjálf og framtíðina.

Gamla myndin okkar af Albaníu

Ein slík ferð stóð upp úr minningum ársins, sumarið 2017. Ferð okkar hjóna með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og frábærum hópi íslenskra ferðafélaga um albönsku alpana. Menningarferð ekkert síður en göngu- og ökuferð þvert yfir landið með viðkomu á mögum stöðum, jafnvel alla leið til Kósóvó í Króatíu. Gegnum ólíkar borgir og fjallaþorp og að lokum með ríkmannlegri kynningu á höfuðborginni Tírana síðust tvo dagana. Þar kynntumst við einni áhrifaríkustu sögu Evrópu frá miðöldum og síðan sögu kúgunar í valdatíð einræðisstjórnar kommúnista eftir seinni heimstyrjöldina, allt til ársins 1984. Albanía var þá orðið fátækasta ríki Evrópu, en sem síðan er hægt og rólega er að rísa upp og þjóðin aftur orðin stolt af sér og reynslunni ríkari. Þjóð sem einu sinni var einskonar Norður-Kórea norðursins, vegna spillingar og kúgun valdhafanna gegn eigin þjóð og sem lagði allt í hræðsluáróður kjarnorku- og stríðsógnar. Þar sem tíminn stóð í stað varðaði innviðauppbyggingu í næstum hálfa öld, en reynir nú að endurbyggja til nútímakrafna. Nokkuð sem jafnvel mætti horfa til hér á landi, hjá einni ríkustu þjóð veraldar. Hraðbrautir lagðar þótt enn vanti mikið upp á bílakostinn og menning og menntun farin að blómstra. Á fáum stöðum í Evrópu eru ferðamenn jafn hjartanlega velkomnir.

Á leið niður í Valbone dalinn

Passlega krefjandi dagsgöngur um stórfengleg fjöll og fjallgarða norður-albönsku alpanna og þess á milli í djúpum dölum þjóðgarðanna, var frábær upplifun. Leiðsögnin var undir stjórn albanska vinar okkar Al-Ben sem var með okkur allan tímann. Uppfullur af fróðleik um allt sem sneri bæði að landi og þjóð og virtist innsti koppur í búri staðarmanna, hvar sem við komum. Næturgististaðirnir voru góðir, fullt fæði fylgdi með allan tímann og óteljandi heimsóknir farnar á albanska matsölustaði. Ég kemst ekki hjá því að nefna sjávarréttarstað sem við heimsóttum í Tírana næst síðasta daginn. Besta sjávarréttarstað sem ég hef komið á og þar sem úrvalið á mismuandni sjávarréttum var óteljandi. Rækjur, humar, krossfiskur og kolkrabbi eins og hver gat í sig látið. Ferskt og beint upp úr sjónum.

Erfiði-Björn unninn

Göngur í sumarhita og sól á þessum slóðum geta verið krefjandi fyrir kaldan landann. Þó ekki um of ef passað er að drekka nóg og gæta vel að saltbúskapnum. Nokkuð sem undirritaður fékk að reyna á eigin lærvöðvum í einni af lengri göngunum upp á fjallið Arabi í um 2.200 metra hæð. Reynsla sem hlaut að koma að fyrr eða síðar á göngum sem þessum og sem ég er í raun bara þakklátur að hafa fengið að kynnast. Göngurnar hentuðu reyndar allar sæmilega vönu göngufólki, vel útbúnu til gönguferða eins og við erum vön hér heima á sumrin. Ferðir sem gefa ekki heldur rétta upplifun fjallanna nema þú sért í þeirra innsta faðmi og sem reynir sæmilega á þitt eigið þrek og tilfinningar.

Hnetusmakk í Valbone

Fyrir utan fjöllin stórkostlegu og skógi vaxna djúpu dalina, var birtan einstök og blá. Smá hitamistur sem gaf fjöllunum í fjarska öll litbrigði blámans og sem við þykjumst þekkja betur en flestir aðrir. Hvítir vind- og vatnsrofnir sandsteinar  (lime stones) með hrikalegum klöppum í jafnvel öllum litbrigðum. Annars konar lágróðri og allskonar trjám og þar sem einhver möguleiki var á annað borð að festa rætur. Jafnvel beint út úr klöppunum. Vegirnir yfir suma fjallgarðanna voru heldur engu líkir og sem settu sveitavegina okkar í hálfgerðan lúxusflokk. Skemmtileg og spennandi upplifun líka að fá að prófa og finna á eigin skinni. Grjótið á veginum og stálið í harðgerðu gömlu fjallabílum albönsku jeppagarpanna sem keyrðu okkur.

Kvöldstund í Tírana

Tindarnir Arabi og Erfiði-Björn standa samt upp úr sem og gestrisnin í Albaníu og fegurð þjóðgarðanna í Thethi og Valbone. Takk fyrir mig, Íslenskir fjallaleiðsögumenn sem skipulögðu ferðina fyrir okkur Íslendingana, Al-Ben og Albanía öll. Ég er góðri reynslu ríkari og Gleðilegt ár.

 

Vináttuvottur frá Al-Ben, leiðsögumanninum okkar í Albaníu sem kom í heimsókn til Íslands í haust.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · útivist

Miðvikudagur 10.1.2018 - 12:58 - FB ummæli ()

Besta gull hafsins

Fyrir tæpum 7 árum skrifaði ég grein (hér fyrir neðan) um lýsið okkar og þegar ennþá var algengt að fleygja slóginu úr fisknum í hafið, þótt einstaka sjómaður hafi safnaði lifrinni í bala til sölu. Í dag er allt þorskalýsi frá LÝSI hf. nú unnið úr íslenskri fiskilifur (þorski og ufsa) sem brædd er í Þorlákshöfn og sem nægir innanlandsmarkaði og gott betur. Góður árangur það. En sennilega má gera betur og óvíst er hvað er enn hent mikið af slógi í sjóinn og sem ekki er til góðrar eftirbreitni er varðar sjálfbærnissjónarmiðin. D vítamínskorturinn hjá landanum er hins vegar aftur kominn til umræðu og sem best er að taka með ráðlögðum dagskömmtum af d vítamínbættu lýsi.

Sennilega líður helmingur þjóðarinnar D-vítamínskort miðað við fyrri rannsóknir og nýjar alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar. Einhverstaðar hefur verið slakað á ráðleggingum og árvekni almennings í þessum efnum. Fiskiolían með sínum ríkulegu Ómega 3 fitusýrum, er eitt besta fæðuefni sem til er, ekki síst á tímum óhollustu í skyndibitafæðuvali, mikilli sykurneyslu og síðar offitusjúkdómunum (sykursýki og æðasjúkdómum) og hárri tíðni gigtarsjúkdóma hjá þjóðinni. Tími er því kominn að blása aftur í herlúðrana og þar sem heilsugæslan ætti að gegna lykil hlutverki í ráðleggingum og mælingum á D-vítamíni í blóði ef klíniskur grunur getur bent til skortseinkenna. Gott lýsi A, D og jafnvel E vítamínbætt daglega, getur svo sannarlega bætt okkur að einhverju leiti skaðann.

Seint verður sagt að hunangið drjúpi af hverju strái hér á landi um þessar mundir (2011). Þó má segja að annað hunang, gullið og fljótandi en sem við viljum ekki sjá, fari forgörðum í stórum stíl í hafið þaðan sem það spratt upp. Líka eitt af því nauðsynlegasta til að við gátum lifað heilbrigðu lífi um aldir við erfiðar aðstæður. D-vítamínið og sem er okkur jafn mikilvægt og sólin er nausynlegt öllu lífi á jörðinni. Nokkuð sem skýrt getur ýmislegt sem misfarist hefur í okkar heilbrigðismálum á undanförnum árum og kostar svo lítið.

Sólin er enda lítil hér norðurslóðum, ekki síst þar sem við búum og hún er oft varla lítið meira en smá sýnishorn og ljósgeisli. Nokkuð sem við bara litum framhjá eins og sumum öðrum einföldum staðreyndum lífsins. Líka fæðu sem unga fólkið fór að líta sem ógeðslega í samanburði við allan skyndimatinn sem við buðum þeim, innmat úr dýrum og fiski þar sem mesta D-vítamínið er að finna. Ekki síst í lifrinni. Sem við gátum líka bætt okkur upp upp í fljótandi formi með lýsi með öllum ómega fiskifitusýrunum sem er okkur líka nauðsynlegt til mótvægis við kólesterólið sem stundum storknar nánast í æðum okkar. Við sváfum heldur betur á verðinum. ..Vanda branda nú skal högg á hendi detta.

Í dag vantar helming Íslendinga D-vítamínið tilfinnalega, eins og umræður síðastliðna daga bera vel með sér. Vítamín sem er ekkert síður hormón en bætiefni fyrir okkur sem ekki höfum sólina. Lífsnauðsynlegt fyrir alla starfemi líkamans. Ekki bara fyrir beinin svo þau endist okkur til gamals aldurs, heldur líka til að þau bogni ekki hjá börnum og brotni ekki af minnsta tilefni hjá fullorðnum. Líka til að við fáum síður vöðva- og taugahrörnunarsjúkdóma, alvarlegar sýkingar og sjúkdóma í ónæmiskerfið. Gegn sleni og slappleika, jafnvel þunglyndi og kranbbameinum. Vítamín sem hjálpar okkur líka að halda blóðþrýstingnum og blóðsykrinum niðri. Allt hlutir sem nú loks fá athygli sem ber.

Nú verða vonandi kaflaskil í heilsuverndinni. Látum umræðuna okkur að kenningu verða. Hættum að henda lifrinni og slóginu úr fiskinum okkar í sjóinn. Dýrmætri afurð sem við eigum að vera stolt af að hafa nóg af. Förum að nýta hana betur sem íslenskt lýsi. Okkar dýrmætu afurð með öllum ómega fitusýrunum og A og D-vítamíninu. Vítamínbætum síðan lýsið eins og við þörfnumst. Pössum alltaf upp á D-vítamínið í framtíðinni, ekki síst fyrir unga fólkið.“

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Föstudagur 8.12.2017 - 14:35 - FB ummæli ()

Jólasteikin á næsta ári?

Mikil umræða hefur verið um matvælaóöryggi tengt nýföllnum dómi EFTA og að flytja megi inn ferskt kjöt til landsins. Mál sem Samtök verslunar- og þjónustu (SVÞ) hefur t.d. barist fyrir og endurtekið er í fréttum 365 miðla. Ekki var í dómnum sérstakt tillit tekið til sérstöðu Íslands vegna smitsjúkdómavarnarsjónarmiða og sem hefur verið laust við marga dýrasmitsjúkdóma sem eru landlægir í Evrópu. Eins miklu fátíðari sýkingar á borð við kamphýlóbaktersýkingar og salmonellusýkingar. Ekki heldur nýjum sýklalyfjaónæmum stofnum í sameiginlegri sýklaflóru manna og dýra (E.coli og klasakokkum) víða erlendis sem valdið geta síðan tilfallandi sýkingum, innvortis í okkur og í sárum. Fryst kjöt í ákveðinn tíma heftir vöxt allra þessara baktería og drepur jafnvel að einhverju marki (sérstklega kamphýlóbakter). Aðalmálið er þó að fryst kjöt smitar minna frá sér í flutningi frosið, samanborið við ferskt og blóðugar umbúðir t.d leka. Mestar áhyggjur manna í dag er samt smithætta á kamphýlóbaktersýkingum með kjúklingum erlendis frá. Svipað má reyndar segja um hugsanlegt salmonellu-smit með erlendum eggjum sem ekki þekkist hér á landi. Varðandi framtíðarlýðheilsu skiptir eins miklu máli að halda sýklalyfjaþolnum bakterístofnum í flóru erlendra sláturdýra sem mest frá okkar íslensku normalflóru (ESBL E. coli og klasakokkunum MÓSA (MRSA)) og gert hefur verið grein fyrir í fyrri pistlum. Um allar þessar hættur þarf enginn að efast þótt stjórnvöld kjósi e.t.v. að meta hagsmuni SVÞ og svokallaða neytendahagsmuni mt.t. valfrelsis meiri en lýðheilsuna. Með nýjum lögum og reglugerðum sem sniðin eru þá að evrópskum neytendalögum og nú er boðað.

Dæmi um markaðssvindl með hrossakjöt í nautahakk. Comigel hneykslið sem skók Evrópu 2013.

Annað og sem hefur fengið minni umræðu, er gæði kjötsins og framleiðsluaðferðir sem breytist reyndar ekki hvort sem kjötið er slet ferskt eða frosið. Í mörgum og vonandi flestum tilvikum (>60%) er hægt að treysta upprunamerkingu kjötsins. Útflutningslandið er þannig oft aðeins skráð (og við treystum misvel), en þar sem varan getur hafa farið gegnum marga milliliði frá fjarlægari löndum. Þannig hafa komið upp mörg hneykslismál í Evrópu á sl. árum. Flestir muna eftir „hrossakjötsfárinu“ fyrir 4 árum og þar sem upplýst var að hrossakjöti var blandað við nautakjötshakk og selt sem slíkt. En meiri spurningar vöknuðu við hvaða aðstæður hrossakjötið kom upprunalega. Í sumum tilvikum reyndist um sjálfdauðar skepnur (jafnvel asnar og dráttarhestar) og í einu tilviki komst upp að hrossakjötið var upprunnið úr hrossum í Frakklandi sem höfðu verið slátruð eftir not í lyfjatilraunum og til framleiðslu bóluefna. Eftirlitið í Evrópu brást m.t.t. neytendahagsmuna. Dýrin höfðu stundum fengið allskonar lyfjameðferðir og jafnvel útsett fyrir eiturefni t.d. skordýraeitur og þungmálma í fóðri og umhverfi. Hættuleg efni sem alls ekki eru ætluð í dýraeldi og þaðan af síður til manneldis. Hormónar og sýklalyf eru hins vegar viðurkennd vaxtar/þyngdaraukandi meðferð í eldi alidýra víða og sem finnst að lokum í kjötinu auðvitað einnig.

Það er því ekki að furða að maður spyrji sig um gæði erlendrar matvöru sem getur litið fjarska girnilega út á yfirborðinu í kjötborðinu og kostað jafnvel minna en það íslenska og við treystum vel upprunanum. Getum við ekki sætt okkur við að kaupa kjötið a.m.k. frosið? Það er reyndar rétt að svokallað gæðaeftirlit með matvöru er víða í Evrópu miklu betra en hér heima. Aðallega vegna fjársveltis eftirlitsstofnana og skorts á mannafla. Traustið á íslenskum framleiðendum og eftirlit með sjálfri framleiðslunni hefur verið látið nægja og sem á síðustu árum hefur skilað góðum árangri er varðar sýklalyfjanotkun í dýraeldi, salmonellusmit og kamphýlóbaktersmit. Síðan er jafnvel aðeins hárfín lína eftir, að dýrasmitvarnir á lifandi dýrum verði aflagðar hér á landi að kröfu annarra Evrópuþjóða og að eigendur geti þá bara ferðast með gæludýrin sín og hross að vild yfir öll landamæri. Það er því furðulegt af öllu þessu sögðu, að Evrópureglugerðir skulu einar vera látnar ráða ferðinni. Í sennilega mikilvægasta neyslu- og lýðheilsumáli okkar, smitvörnunum, og þegar sýnt er að við höfum svo miklu að tapa.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 6.12.2017 - 16:41 - FB ummæli ()

Í upphafi aðventu á Ströndum 2017

Þjóðvegurinn um Þröskulda

Dvelst nú á Ströndum í upphafi aðventu, nánar tiltekið á Hólmavík. Og sjaldan bregst veðrið þegar ég kem norður. Illfært var yfir Þröskulda og allt á kafi i snjó og gengur síðan á með norðanstormum. Á Ströndum eru hins vegar galdrar. Þeim hef ég kynnst nokkrum sinnum og eins og góðum vættum sem halda verndarhendi yfir fólkið sem hér býr og samgöngur. Eða kannski er þetta bara til marks um góða mannlífið og samheldnina sem hér ríkir. Í Árneshreppi fyrir norðan er ófært á ökutækjum fleiri mánuði á vetri hverjum. Að vísu reynt er að halda uppi lágmarks áætlunarflugi á Gjögur einu sinni í viku. Ríkisstyrkt þjónusta fyrir enn minni sveitabyggð og þar sem útlit er fyrir að barnaskólinn verði aðeins rekin til áramóta. Í 110 km fjarlægð frá Hólmavík og sinna þarf læknishjálp í neyð. Reyndar er farið þangað mánaðarlega, á snjósleða ef því er að skipta og þar sem ekki er talið svara kostnaði að halda vegunum opnum með snjóruðningi. Í brothættri byggð sem er nú á fallandi fæti.

Tíkin mín á Kálfanesfjalli

Á Ströndum gengur lífið annars sinn vanagang, hvernig sem viðrar. Í raun lítið sem ekkert breyst þá tvo áratugi sem ég hef komið til starfa á Hólmavík. Starfsfólkið á heilsugæslunni og sjúkrahúsinu meira og minna það sama. Tíminn stendur eins og í stað og sem er einstök upplifun í hraða þéttbýlisins aðra daga og deilur um keisarans skegg. Auðvitað er það á ábyrgð landsstjórnarinnar hverju sinni að halda landinu sem mest í byggð. Með byggðarpólitíkinni sem við öll og Alþingi mörkum. Að skapa atvinnutækifæri sem víðast á landsbyggðinni og þar sem jafnvel búið er að ræna fiskveiðikvótanum frá íbúunum. Eða þannig hefur það að minnsta kosti verið. Innviðauppbygging sem hefur margborgað sig fyrir menninguna og þjóðarhag og ef vænta má sama uppgangs í ferðamennsku á komandi árum og verið hefur sl. ár. Hvergi eru ferðamennirnir ánægðari en úti á landi, í fallegu umhverfi og umhverfi sem segir söguna. Nú sitja opinberar samgöngur og almenn opinber þjónustan hins vegar víða eftir úti á landi. Á Hólmavík og í Innra-Djúpi er til að mynda ekki neinir nothæfir flugvellir fyrir sjúkraflug lengur.

Á sama tíma tekur höfuðborgin sjálf upp gjörólíka stefnu miðað við markmið almennrar byggðarstefnu á landsbyggðinni og miðsetur sína megin atvinnustarfsemi sem mest í miðbæinn. Á kostnað kostnað uppbyggingu úthverfa og góðra samgangna fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Þetta má glöggt sjá í skipulagsáformunum tengt Nýjum Landspítala nú á Hringbrautarlóð, stærsta vinnustað landsins. Í miðborg sem er þegar sprungin m.t.t. umferðarálags. Þar sem er fyrir meira en nóg af atvinnutækifærum og uppbygging í ferðamannaþjónustu og hótelrekstrar ætlar aldrei enda að taka. Fyrirséðar þannig óþarfar mengandi daglegar umferðatafir og síðan aðgangshindranir að nauðsynlegustu þjónustunni í náinni framtíð. Óskiljanlegur gjörningur þegar horft er til almannaheilla og heilbrigðisöryggis.

Skynsöm „byggðarstefna“ virðist þannig alls ekki eiga við í nærumhverfi Íslendinga á sjálfu höfuðborgarsvæðinu ef marka má áætlanir dagsins. Hagrætt í þágu sérhagsmunahópa, ekki heildarinnar og ekki má einu sinni ræða í ríkisútvarpi allra landsmanna (RÚV). Í dag sé ég hins vegar raunhæfa innviðauppbyggingu og mest er talað um þessa daganna, betur en flesta aðra daga „í bænum“. Ég er líka afskaplega þakklátur að fá að njóta upphaf aðventunnar á Ströndum. Langt frá álaginu á bráðamóttöku þjóðarsjúkrahússins í höfuðborginni sem bíður mín og ég hef tengst sterkum böndum sl. 35 ár. Að vísu gerir dvölin mig á Ströndum stundum aðeins dapran og þurfa að vera fjarri mínum nánustu. Tímabundin einvera á góðum stað getur þó verið skapandi og skerpir heildarsýnina. Hvergi sé ég heldur  mitt heldur fegurra, að vori, sumri, hausti og nú aftur að vetri. Þar sem ný ævintýri verða til á hverjum degi.   Gleðilega aðventu 

Fullt ofurtungl á Hólmavík í fyrrakvöld

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Þriðjudagur 28.11.2017 - 16:47 - FB ummæli ()

Hin tilbúna gerviveröld – sýklabúin og mósar á íhlutum – í okkur og á.

Sennilega gera ekki allir sér grein fyrir þeim tímamótum sem við stöndum frammi fyrir varðandi öryggi sýklalyfjameðferða okkar og fjallað hefur verið um í síðustu pistlum. Sýklalyfjaópnæmi helstu sýkingarvalda okkar er ein helsta heilbrigðisvá nútímans að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO og sem tengist óhóflegri notkun sýklalyfja. Sýklarnir hafa þróað með sér vörn gegn sýklalyfjaþrýstingnum og eru enn að. Í Bandaríkjunum til að mynda eru um þrjár milljónir sjúklinga að fást við vandann árlega, margir á sjúkrahúsum, og dauðsföll sem rakin til sýkinganna um 24.000 talsins. Hér á landi höfum við verið heppin, enda fámenn þjóð og nýir stofnar hafa ógreiðari aðgang að okkur en í flestum öðrum löndum. Mikið hreint vatn, kalt veðurfar og strjálbýli, auk þess sem óvíða hefur mælst minni notkun sýklalyfja í landbúnaði. Sýklalyfjanotkun meðal manna, einkum ungra barna og gamalmenna, er þó sérstakt áhyggjuefni og sem mælst hefur meiri en á hinum Norðurlöndunum.

Notkun sýklalyfja auka alltaf líkur á að við gripum nýjar sýklalyfjaónæmar flórubakteríur úr umhverfisflórunni og þegar okkar eigin eldri flóra nær ekki að veita nægjanlega mótspyrnu. Þannig segir saga að við höfum fengið yfir okkur tvo faraldra sýklalyfjaónæmra pneumókokka sl 2-3 áratugi og sem jafnframt er algengasta flórubakterían í nefkoki barna. Allt að 20% íslenskra barna hafa þá smitast af sýklalyfjaónæmum pneumókokkum. Flest eftir undangengnar sýklalyfjameðferðir. Sum sýktust af þessum sýklalyfjaónæmu stofnum og þurftu að fá sterkustu sýklalyf í æð á barnadeild LSH sem völ var á. Um var að ræða nokkur hundruð börn og sem a.ö.l. voru frísk og með sýkingar sem auðveldlega hefði verið hægt að meðhöndlaða áður með gömlu góðu sýklalyfjunum (penicillín og skyldum lyfjum).

Önnur flórubaktería sem gjarnan er í nefi okkar manna og á húð, eru klasakokkarnir (Staphylococcus aureus og S. epidermidis). Þeir eru jafnframt algengasti sárasýkill ungra sem aldra. Tvær gerðir sýklalyfjaónæmra S. aureus, svokallaðir MÓSAR (MRSA) hafa orðið til og þróast á sl. áratugi. Spítala-mósinn er reyndar ónæmur fyrir flestum og stundum öllum sýklalyfjum sem til eru en Samfélags-mósinn er ónæmur fyrir penicillínlyfjum og stundum öðrum sýklalyfjum einnig. Spítla-mósinn er sú sýklalyfjaþolna baktería sem heilbrigðisstarfsfólk hræðast hvað mest, einkum, á hátæknisjúkrahúsum og þar sem veikustu sjúklingarnir liggja. Samfélags-mósinn finnst orðið hins vegar víða meðal almennings erlendis og veldur þar sárasýkingum og ein tegund hefur t.d. tengst svínarækt í Danmörku og þar sem sýklalyf eru mikið notuð í landbúnaði.

Um 80% svínakjöts á markaði í Danmörku hefur þannig greinst með samfélags-mósa og rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjungur svínabænda bera sýkilinn í nefflórunni. Hér ætla ég hins vegar að gera betri grein fyrir alvarleika málsins sem tengist sýklabúum (svokölluðum biofilmum) klasakokka eftir nýfallinn EFTA dómsúrskurð og þeim vanda sem við stöndum hugsanlega frammi fyrir þegar MÓSAR berast með fersku innflutti kjöti erlendis frá til landsins. Að lokum í kjötborð verslunarinnar, í eldhúsin og okkar eignin flóru og barnanna. Ekki verður hér heldur fjallað nánar um aðrar jafnvel meiri hættur eins og stórauknar líkur matareitrunarsýkla eins og Kamphyplóbakter (sennilega alvarlegasta ógnin í dag) og dreifingu sýklalyfjaþolinna E. coli (ESBL) með fersku innflutti kjöti. Eins annarra sýkla og veira sem borist geta með fersku kjöti erlendis frá og valdið geta sjúkdómum í mönnum og dýrum og við höfum að mestu verið laus við.

Sýklabú (biofilms) er einskonar sambýli sýkla, gjarnan af sömu tegund, sem þeir gera með ákveðinni verkaskiptingu sín á milli. Flestir þekkja fyrirbærið „biofilms“ tengt þekju sem myndast gjarnan í botni og köntum vatnsdalla heimilisdýra og sem erfitt getur verið að þrífa. Algengustu staðirnir í líkamanum eru þar sem blóðrásin er tæp. Algengt er að finna sýklabú t.d. á tönnum og jafnvel tannholdi heilbrigðra. Eins á hjartalokum sem eru gallaðar eða skemmdar eða í öðrum örvef. Klasakokkar (eins og nafnið ber með sér) eru algengastir sýkla sem mynda slík bú (ákveðin samlíking með mauraþúfum eða býflugnabúum). Sýklarnir mynda sterka varnarhúð efst í búinu og þaðan sem árásarsýklar eru síðan sendir út af örkinni til að nema ný lönd. Út um allan líkamann (sjá skýringarmynd að ofan) ef því er að skipta. Sýklar í millilögum sjá hins vegar t.d. um næringarforða og loftrásir, m.a. til sýkla sem eru að fjölga sér í búinu og jafnvel til þeirra sem liggja dýpst í dvala. Sýklalyfin ná ógjarnan í dýpstu lög búsins (kostar a.m.k. langar og strangar sýklalyfjameðferðir til að uppræta). Erfiðast verður að ná til sýklalyfjaónæmu sýklanna.

Í dag beinist athygli manna síðan mest í þessu samhengi að aðskotahlutum hverskonar, í okkur og á. Stálhlutir og málmar eru síður gjarnir að hlaða á sig biofilmum en plasthlutir. Þar má nefna t.d. þvagleggi og dren sem eru lengi óhreyfð í líkamanum, svo og æðaleggir hverskonar, jafnvel gangráðsþræðir. Þúsundir Íslendinga eru með gerviliði hverskonar af illri nauðsyn og sem eru sem betur fer oftast úr málmi. Algengustu og lang stærstu plastíhlutirnir í dag eru hins vegar brjóstaimplöntin í allt að tugþúsund íslenskra kvenna. Enginn veit reyndar í raun hvað konurnar (stúlkurnar) eru margar vegna persónuleyndarákvæða hjá lýtalæknum. Ekki einu sinni landlæknir. Íhlutir sem vega í þyngd allt að 1% af líkamsþyngd kvennanna. Við bætist lekaáhætta sílikons úr gervibrjóstskelinni með aldrinum og þar sem sýklar komast í innihaldið. Eins á sílikonið sem lekið hefur út í aðliggjandi eitla. Jafnvel á rif og í millirifjavöðva. Mál sem vakti mikla athygli þegar PIP-púðamálið/hneykslið var í algleymingi fyrir 3 árum og í ljós kom að meirihluti púðanna lak eða tærðist upp á 10 ára tímabili.

Almennt er talið að milli 3-80% brjóstaimplanta sýkist með tímananum miðað við erlendar rannsóknir í dag (vantar eins upplýsingar á Íslandi) og sennilega eru biofilmurnar sem hafa hægt um sig mikið vantaldar. Ef  við reiknum með um 10% klínískra sýkinga á einhverjum tímapunkti í lífi kvennana, má reikna með þúsundum sýkinga á Íslandi. Eins og nú stefnir í með innflutta samfélags-mósa, hugsanlega hundruð mósa-sýkingar bara tengt implöntum í brjóstum kvenna og sem gerir alla meðferðir mjög erfiðar. Sýkingar sem kalla síðan á skurðaðgerðir til að fjarlæga aðskotahlutinn og síðan strangar sýklalyfjameðferðir sem virka jafnvel takmarkað. Álag sem hlýst af þessu og löngum sýklalyfjameðferðum, kallar síðan á enn meira ójafnvægi í sýklaflórunni okkar og nánasta nærumhverfi. Allir ættu að sjá í hvaða óefni getur stefnt með slíkar ísetningar gervihluta í líkamann og auknu sýklalyfjaónæmi sýkla eins og klasakokka og sem nú stefnir í að verði jafnvel fluttir inn með fersku kjöti. Pólitíkin og stjórnsýslan er óráðin, en sem ræðst af mannanna hugverkum í nafni framfara. En við spilum aldrei með sjálf lögmálin, nema ef vera skyldi markaðslögmálin, og þaðan af síður sjálfa móður náttúru.

 https://www.frontiersin.org/articles/10.3389/fcimb.2015.00001/full

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Sunnudagur 26.11.2017 - 08:10 - FB ummæli ()

Liggur ferskkjöts-söluspurningin stóra eftir EFTA dómsúrskurðinn, hjá vísindunum eða í markaðshyggjunni?

Það er ekki nema rúm hálf öld síðan sýklalyf fóru að vera aðgengileg og í raun ekki fyrr en í seinni heimstyrjöldinni sem þau voru verksmiðjuframleidd, þá fyrst fyrir hermenn bandamanna okkar. Eitt sterkasta vopnið í heimsvánni á þeim tíma. Rúmlega tíu árum fyrr hafði Alexander Flemming tekist að einangra penicillín úr sveppaskánum og er uppgötvuninni oft líkt við stærsta kraftaverk læknisfræðinnar og sem átti eftir að lengja meðalaldur mannkyns um áratugi. Eftir mikið streð og erfiði tókst Alexander í fyrstu að einangra aðeins nokkur grömm af hreinu penicillíni. Þegar Flemming var búinn að skrifa vísindagrein um vikni lyfsins, leituðu bresk yfirvöld strax til hans vegna lögregluþjóns sem var deyjandi af sýktum sárum eftir hundaárás og bit í London, sennilega klasakokkasýking í bland við aðrar. Vel að merkja að þá virkaði hreint penicillín á flestar bakteríur, en sem við vitum í dag að margar hverjar eru orðnar jafnvel alveg ónæmar fyrir sýklalyfjum. Streptókokkar (algengustu sýkingavalda loftvega), klasakokkar (algengustu sýkingavalda sára), E.coli (algengustu sýkingarvalda meltingakerfisins og þvagfæra) en sem eru líka hluti af okkar eðlilegu flóru og allt er í lagi.

Alexander lét af hendi allt penicillínið sem hann átti tiltækt, 2 grömm og sem samvarar um tveimur töflum í dag og var því dreift í nokkra skammta í æð lögreglumannsins. Lögreglumaðurinn fékk góðan bata á fyrstu 2-3 dögunum, en grömmin tvö nægðu því miður ekki. Lögreglumanninum hrakað því fljótt aftur og lést stuttu síðar af völdum sýkingarinnar. Það var bara ekki til meira penicillín í heiminum! Nokkrum áratugum síðar og penicillínið var orðið verksmiðjuframleitt og ofnotað þá líka við hverslags sýkingum (oft veirusýkingum), varaði Flemming við að sýklarnir gætu myndað ónæmi fyrir sýklalyfjunum. Ekki síst er orsökin nú talin vera mikil notkun sýklalyfja í landbúnaði og kjötrækt í mörgum heimsálfum og sem er þa meira notað en við sýkingum mannfólksins. Staðreyndirnar tala síðan sínu máli og jafnvel flestar flórubakteríurnar orðnar ónæmar í sumum tilvikum fyrir algengustu og jafnvel öllum nýju sýklalyfjunum sem við höfum yfir að ráða. Ber hér í ljósi umræðunnar sl. vikur að nefna þær helstu og sem geta borist auðveldlega með innfluttum matvælum, aðallega hrámeti og fersku kjöti erlendis frá og þar sem þessir sýklar eru orðnir algengir. ESLB (sýklalyfjaþolnar E.coli) og MÓSI (aðallega svokallaða Samfélags eða Svína-MÓSI). Allt að 80% erlends fersk kjöts getur þannig verið smitað af þessari dýraflóru og sem getur smitast auðveldlega í okkar íslensku flóru mannanna, einkum til þeirra sem veikastir eru fyrir. Svo ekki sé talað um matareitrunarbakteríur eins og Kamphylóbakter sem víða eru miklu algengari en hér á landi og eftirlit með innflutningi í molum. Síðan jafnvel í dýrin okkar.

Sagan segir okkur hversu verðmæt sýklalyfin eru og þótt mörg ný sýklalyf hafi verið framleidd síðan, sum af stofni penicillíns, önnur ekki, að þá hafa eins og áður sagði engin ný lyf unnið upp á móti vanda vaxandi sýklalyfjaónæmis helstu sýkingavaldanna. Því þarf að fara vel með sýklalyfin í dag og nota ávalt þau þröngvirkustu sem kostur er á í byrjun og minnka þannig hættuna á flórusmit ónæmra stofna til annarra. Sýklyfin eru jú enn sterkustu vopn læknisfræðinnar ennþá daginn í dag, ekki síst tengt hátæknilæknisþjónustunni á spítölunum.

Stjórnvöld þurfa að skilja vandann tengt nýjum lögum og reglugerðum er varðar innflutning ferskrar matvöru og sem geta borið með sér sýklalyfjaþolnar/ónæmar bakteríur til landsins. Eins og læknarnir semja skýrar klínískar leiðbeiningar um skynsamlega notkun syklalyfja og um allt sem snýr að hreinlæti. Heilbrigðiskerfið og skipulag þjónustunnar þarf að taka mið af þessu. Að lyfjamálin/meðferðir standi traustari fótum og að ekki sé verið að flytja inn tilbúinn vanda tengt sýklalyfjaónæminu erlendis frá. Óháð okkar eigin notkun sýklalyfja og sem mætti vera minni, en sem óvíða í veröldinni mælist minni í landbúnaði. Væri nú a.m.k. ekki skynsamlegt að leyfa vafanum að njóta rannsóknarefans, lýðheilsunnar og dýraheilbrigðis á Íslandi vegna?

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5746

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 20.11.2017 - 12:50 - FB ummæli ()

Samfélagsmósar í hráu kjöti og sárasýkingum

Alþjóðavika WHO um árvekni í notkun sýklalyfja var 13-19. nóvember 2017. Á sama tíma voru lagleg höft brotin á Íslandi með EFTA dómúrskurði (á lágmarkskröfum íslenskra heilbrigðisyfirvalda að hrátt kjöt væri amk. flutt og geymt frosið í lágmarkstíma fyrir sölu á neytendamarkaði). Jafnvel þótt ekki nærri alltaf sé hægt að treysta raunverulegri upprunavottun kjötsins í Evrópu vegna margra milliliða, aðeins útflutningslandinu tengt útflutningsvottorði!!

Klasakokkar (Staphylococcus aureus) valda langflestum sárasýkingum meðal mannfólks og dýra. Þeir eru hluti normalflóru nefsins hjá flestum okkar. Þúsundir einstaklinga þurfa að leita til Bráðadeildar LSH til sýklalyfjagjafar í æð vegna slíkra alvarlegra sýkinga og þar sem við höfum hingað til getað treyst vel á breiðvirkari penicillín (methicillin) með góðum árangri. Fátt hef ég þakkað meira í mínu starfi á bráðamóttökunni sem læknir en yfirleitt góðu næmi klasakokkanna fyrir lyfjunum okkar. Víða erlendis er þessu ekki svona vel farið og þegar penicillín ónæmir klasakokkar (MÓSAR) (ensk. MRSA) eiga í hlut. Hlutfall slíkra sýkinga geta verið tugir prósenta af öllum klasakokkasýkingum á vissum staðbundnum svæðum. Einkum á þetta við um þar sem uppruni sýkinga er í þéttu sambýli og á íþróttastöðum þar sem hreinlæti er ábótavant (á við um allar klasakokkasýkingar t.d. frá gervigrasvöllum og tengt óhreinum íþróttafatnaði).

Einstaka sinnum koma MÓSA sýkingar til kasta okkar á Bráðamóttökunni og þar sem rekja má orsök t.d. þátttöku íþróttafólks og annarra, erlendis frá. Oft greinast þessar sýkingar seint og illa og þegar fyrri lyfjameðferðir hafa brugðist. Alvarlegast er þegar slíkar sýkingar valda blóðeitrunum og sýkja aðskotahluti í líkamanum (t.d. gerviliði og brjósta-implönt). Jafnvel á hjartalokunum sem minnir þá á gigtsóttina til forna og þegar engin sýklalyf voru til. Klasakokkarnir geta enda myndað sýklabú (biofilms) á aðskotahlutum hverskonar sem síðan bíða færis og sérhæfingar til sýklaárásar út um allann líkamann.

Alvarlegustu stofnar MÓSA hafa orðið til í spítalaumhverfinu og eru, það sem kallað er fjölónæmir, ónæmir fyrir ekki aðeins breiðvirkum penicillínlýfjum heldur einnig flestum öðrum flokkum breiðvirkra sýklalyfja. Þeir hafa náð að dreifast til flestra sjúkrahúsa nágrannalandanna sl. áratugi. Spítala-MÓSARNIR hafa samt ekki náð að festa rótum hér heima, en berast af og til með sjúklingum erlendis frá, tengt þá oftast spítalavist erlendis. Meðhöndlun slíkra sjúklinga kallar á mjög dýrar og langar sýklalyfjameðferðir og stranga einangrun viðkomandi innan spítalanna.

Ef einstaklingar leita á Bráðamóttökuna og aðrar sjúkrastofnanir hér á landi og sem dvalist hafa á súkrastofnunum erlendis, ber að leita að smiti MÓSA með sýnatökum úr nefi og hálsi, jafnvel úr endaþarmi. Á meðan beðið er niðurstaðana fyrsta sólarhringinn ber að viðhalda einangrun eins og kostur er. Allir sjá hvaða óhagræði, óþægindi og kostnaður hlýst af þessu sem er þó engan veginn samanburðarhæfur og ef smit verður til annarra sjúklinga og starfsfólks í spítlaumhverfinu.

Tilfelli MÓSA (MRSA) í Danmörku 2007-2017 (Statens Serum Institut)

Samfélags-MÓSAR eru sem betur fer ekki þekktir í okkar almennu manna- og dýraklasakokkaflóru á Íslandi og sýkingar tengdir þeim sem betur fer sjaldséðar hér á landi. Þessu er öðruvísi farið í öðrum löndum þar sem hlutfall slíkra sýkinga getur verið allt að 40% af öllum klasakokkasýkingum. Upphafleg uppspretta slíkra sýkla er að hluta í landbúnaði tengt dýraeldi og kjötrækt og þar sem sýklalyfjanotkun er sumstaðar mikil. Allt að 80% fersk svínakjöts til manneldis hefur þannig mælst smitað af Samfélags-MÓSUM í Danmörku og rannsóknir hafa sýnt að allt að þriðjungur svínabænda þar bera MÓSA í nefi. Þanning komnir í normalflóruna þeirra og sem smitast geta auðveldlega líka til annarra. Í Danmörku einni greinast um 4000 tilfelli MÓSA-sýkinga/smita á ári hverju (svipað og allar alvarlegar sárasýkngar af öllum toga hér á landi)…

Að flytja inn ferskt kjöt erlendis frá, smitað af sýklalyfjaþolnum flórubakteríum dýrsins sem slátrað hefur verið og beint í kjörborð kaupmannsins er álíka og sérpanta slíkan ófögnuð og ógn við lýðheilsuna í sérútbúnum neytendaumbúðum. Helsta vörn okkar á Íslandi og annar staðar hefur verið að halda sýklalyfjanotkun niðri meðal manna og í landbúnaði, m.a. þá til að auðvelda ekki sýklalyfjþolnum bakteríunum útbreiðslu. Vel hefur tekist til í landbúnaðinum hér á landi þar sem sýklalyfjanotkunin mælist ein sú minnsta í heiminum. Þökk sé líka hreinu landi, vatni og einangrun Íslands í miðju Atlandshafi og þar sem fyrri athuganir sýna að framleiði eina bestu og hreinustu matvöru í heimi. Sýklalyfjanotkun manna hefur hins vegar verið meiri en á hinum Norðurlöndunum og sem því miður greiða þá leið sýklalyfjaþolinna bakteria í flóruna okkar.

Nú ógna markaðslögmálin og auðveldur flutningar á ferskvöru sérstöðu okkar og forskoti á flestar þjóðir. Fyrri rannsókir á öðrum sýklalyfjaónæmum flórubaktetíum, pneumókokkum í öndunarvegi barna fyrir um tveimur ártugum, sýna ótrúlega hraða og mikla útbreiðslu meðal barna (allt að 20%) og háa tíðni alvarlegra sýkinga og sem aðeins var hægt að meðhöndla með sterkustu sýklalyfjum í æð á Barnadeild Hringsins. Snúum nú bökum saman í vörninni gegn m.a. MÓSUNUM með stórbættu eftirliti á allri innfluttri hrávöru (kjöti, eggjum og grænmeti). Látum Samfélags-MÓSANA ekki ráða ferðinni í markaðsherferð verslunar og þjónustu (SVÞ) hér á landi og þá síðar hugsanlega stóraukinni tíðni alvarlegra sárasýkinga vegna MÓSA næstu áratugina. Gróðsjónarmið verslunarinnar þá gegn hugsanlega dýrmætustu hagsmunum neytendanna, lýðheilsunni og þar sem hagsmunir ættu að vera sameiginlegir. Gleymum ekki að landbúnaðarmál og innflutningsmál eru samofin heilbrigðismálunum sem nú eru í forgangi hjá stjórnvöldum, til allrar hamingju.

Barnadeild Landspítalans 27. Mars 1993, Dagens Nyheter -Ingen vanlig antibiotika hjälper- „Beauty and the Beast“.  Barnadeild Landspítalans sem komst í heimsfréttirnar fyrir 20 árum og þegar hundruð barna þurftu að fá sterkustu sýklalyf sem völ var á í æð við erfiðum sýkingum og sem sýnir vel hvað slíkir flórustofnar geta borist fljótt út í normalflóruna okkar, við réttar aðstæður. Þróun sem hélt áfram næsta áratuginn og var vegna Spænsk-íslenska 6B stofns fjöónæmra pneumókokka og kom upphaflega að því er talið er frá Spáni og sem náði gríðarlegri útbreiðslu meðal íslenskra barna (sem allt að 20% barna báru í nefkokflórunni sinni um árabil).

http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5746

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1662147/?t=558539903&_t=1511184842.82

http://www.bbl.is/frettir/frettir/erum-ad-taka-rosalega-ahaettu/15246/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/11/14/serstadan_tapast_med_bakteriunum/

…fyrir mig og mína.

Já, svínslegt heilbrigði Baktus bróðir

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is