Þriðjudagur 9.4.2013 - 15:43 - 1 ummæli

Endurnýttur inngangur

 

Hér fer á eftir inngangur minn í þætti Rásar 2 með frambjóðendum í Reykjavík – norður 8. apríl 2013

 Velferð og jöfnuður eru, hafa  verið og munu alltaf verða lykilatriði í  stefnu okkar jafnaðarmanna. Þess vegna var eins og frekast var unnt að staðinn vörður um heilbrigðis- og menntakerfið þegar halli ríkssjóðs var lækkaður  úr 230 milljörðum í 3.6 milljarða á fjórum árum.

Þess vegna var skattbyrðin aukin á þá sem hafa háar tekjur og lækkuð á þá sem hafa lágar tekjur.

Þess vegna höfum við hækkað barnabætur og húsaleigubætur.

Allir  – sem vilja –  vita að mikið hefur verið gert til að draga úr skuldavanda heimilanna.  Nú standa eftir tveir hópar. Þeir sem tóku verðtryggð lán á síðustu árum fyrir hrun og lánsveðshópurinn svokallaði. Það þarf að leysa úr vanda þessa fólks.

En við megum ekki einblína á skuldavandann einnig þarf að huga að þeim sem eru í greiðsluvanda, það eru þeir sem lægstar hafa tekjurnar.

Þess vegna er það fagnaðarefni að byrjað er að innleiða nýtt húsnæðisbótakerfi  þar sem ekki verður gert upp á milli þeirra sem eiga og leigja húsnæði.

Við megum ekki vera svo upptekin af fortíðinni að við horfum ekki til framtíðar. 

Það var gleðileg tilbreyting á fundi um húsnæðismál  í síðustu viku að samhljómur virtist vera á milli allra stjórnmálaflokka um endurskoðun á húsnæðiskerfinu.

Fleira skiptir máli.

Ef efnt er til þjóðaratkvæðagreiðslu,  þá ber stjórnmálamönnum að fara eftir niðurstöðunni. Þess vegna verður að halda áfram þeirri miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin við nýja stjórnarskrá. 

Uppgjörið við hrunið er nefnilega ekki bara mælt í peningum heldur líka í umgengni stjórnmálamanna við fólkið í landinu

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.3.2013 - 16:54 - 10 ummæli

Allt snýst þetta um völd.

Það er ósatt sem sagt er að alltaf hafi verið sátt um breytingar á stjórnskipan eða stjórnarskrá hér á landi.  Þessi ósannindi hafa dunið á okkur undanfarin misseri. Ef ósannindi eru endurtekin nógu oft fer fólk að trúa þeim.

Það var engin eining upp úr aldamótunum þegar stjórnskipaninni var breytt og við fengum heimastjórn.

Og  það var ekki eining um hvernig staðið skyldi að lýðveldisstofnuninni 1944 – það var ekki fyrr en í febrúar það ár að lögskilnaðarmenn létu af andstöðu sinni.

En það var vissulega eining um að breyta engu í stjórnarskránni 1944 öðru en þvi sem leiddi af lýðveldisstofnunni.  Það var til þess að lýðveldisstofnunin yrði ekki í skugga deilna, en forkólfarnir voru einnig sammála um að endurskoða þyrfti stjórnarskrána.

Síðan hefur verið erfitt um samkomulag um að breyta nokkru í henni þrátt fyrir margar stjórnarskrárnefndir. Mannréttindakafla var vissulega bætt við árið 1995. Þá tóku þrjár umræður í þinginu 7 klukkustundir og 15 mínútur – 7 klukkustundir og 15 mínútur. Ég nefndi þetta við reyndan  félaga sem benti mér á að lengi hefði verið unnið að málinu – gott ef ekki tvö ár.  Það hafa væntanlega verið fimm eða sjö gráklæddir karlar ásamt sérfræðinefnd sem borðað hafa saman einu sinni í mánuði í ráðherrabústaðnum.

Nú nægja ekki stjórnlaganefnd, 950 manna þjóðfundur, stjórnlagaráð og tvennar kosningar til að breyta stjórnarskránni. Í fyrri kosningunum buðu meira en 500 manns sig fram til stjórnlagaráðs.  Áhugi fólks kom held ég öllum á óvart.

Í síðari kosningunum lýstu 67 % því yfir að þau vildu stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðsins.

Mér finnst það sýna nokkra fjarlægð milli þings og þjóðar, að Alþingi – og ég tek fram að ég átti sæti í nefndinni sem stóð að ályktuninni – nefndi  ekki mannréttindakaflann í þingsályktuninni um breytingar á stjórnarkránni.

Þjóðfundurinn lagði hins vegar mikið upp úr þeim gildum og stjórnlagaráðið komst að þeirri niðurstöðu að þar þyrfti líka að taka til hendinni. – en mörgum finnst það enn hinn mesti óþarfi.

Það er ósatt að ekki hafi verið hlustað á sérfræðinga. Margir þeirra eru einfaldlega andvígir tillögunum sem unnið er með og það er rétt að tillögurnar halda sér að mestu leyti.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga ekki við í okkar stjórnskipulagi er sagt, en enginn hefur getað sagt mér hvers vegna.

Hvers vegna eru menn andvígir því að auka völd þingsins á kostnað valda ríkisstjórnar. – Hefur sterk ríkisstjórn og aumt þing reynst okkur svo vel ?

Hvers vegna má ekki festa aukin mannréttindi í stjórnarskrá. Hvers vegna má ekki setja ákvæði um menningar- og náttúrverðmæti í stjórnarskrá og hvers vegna ekki ákvæði um um náttúru Íslands og nýtingu náttúrugæða. – Enginn hefur getað sagt mér hvers vegna.

Og loks ákvæðið um náttúruauðlindir séu í þjóðareign, ætlum við líka að heykjast á því. Það er vilji 87 % þjóðarinnar og allir stjórnmálaflokkar sem öllu vilja  ráða segjast styðja  að slíkt ákvæði verði í stjórnarskrá. – Hvað er í veginum ? 

Þetta er allt spurning um völd. Það eru valdastéttir í öllum þjóðfélögum líka í okkar litla þjóðfélagi. Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem hafa völd, embættismenn og fræðimenn hafa völd. Valdastéttirnar vilja ekki sleppa takinu, þær telja sig til þess fallnar að ráða ráðum okkar.

Það er helst á þeim að skilja að venjulegt fólk að hafi hvorki vit né vilja til að ráða ráðum sínum sjálft. Valdastéttirnar vilja ekki sleppa takinu, það er einfalt. Þess vegna er tillögunum svona illa tekið. – Kannski má bara orða þetta svo að það er kominn köttur í ból bjarnar og það skal aldrei verða segir björninn. 

Ég held að það sé bráðnauðsynlegt í kjölfar þeirra þjóðfélagslegu hamfara sem við höfum gengið í gegnum  að hrista ærlega upp í þessum valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Ný stjórnarskrá mundi gera það.

Þó sagt sé í hátíðaræðum að stjórnarksrá eigi að koma frá fólkinu, þá má það ekki verða svo. Hún á að vera skilgetið afkvæmi stjórnmálaflokka, lögfræðinga og annarra valdstétta í þjóðfélaginu.

Og þó það sé meirihluti á Alþingi fyrir stjórnarskrárfrumvarpinu þá kemst það ekki til atkvæða.

Það er kallað ofbeldi að stytta umræðutíma og menn vilja ekki beita ofbeldi. En minnihlutanum er leyft að beita meirihlutann ofbeldi. Þetta er jafna sem ég skil ekki og ræð þess vegna ekki við að leysa.

Og nú fer tíminn að verða naumur, ekki er hægt að vera svo glámskyggn að viðurkenna það ekki.

Ósk mín er auðvitað að málinu ljúki á þessu þingi og geta barist fyrir því að nýja stjórnarskráin verði samþykkt á nýju þingi. Ef sú ósk mín rætist ekki þá er það besta sem hægt er að gera að lofa því að vinna áfram að því að farið verði að þjóðarvilja sem fram kom í kosningunum 20. október og heita því að leggja mitt til þess að svo verði.

Umheimurinn dáist að því hvernig staðið hefur verið að breytingunum. Hvernig stjórnmálamenn slepptu takinu og hvernig tillögurnar urðu til. Stjórnarskrá 21. aldarinnar sagði einn sérfræðingurinn. 

En við höldum áfram að vera kotungar, það hefur lengi staðið okkur fyrir þrifum að hugsa og haga okkur eins og kotungar. – Mikið vildi ég óska að nú á síðustu dögum þingsins réttum við úr bakinu og sýndum dug okkar til að koma þessu mikilsverða máli í höfn.

Ræða flutt á Ingólfstorgi 16.mars 2013 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.3.2013 - 19:47 - 34 ummæli

Mér er ómögulegt að þegja.

Ég hef aldrei skilið almennilega af hverju Agli Helgasyni, góðkunningja mínum og sjónvarpsmanni er svona í nöp við tillögurnar um stjórnarskrána og alla vinnuna sem hefur unnin hefur verið. Mér finnst hann einhvern veginn tala niður til þess alls.

Það kemur mér ekki á óvart að þeim sem finnst þeir hafi átt að vera kvaddir til vinnunar, sem sumir reyndar voru kallaðir, séu fúlir, en segi aftur og skrifa að afstaða Egils hefur alltaf komið mér skrýtilega fyrir sjónir.

Nú lætur hann að því liggja að Árna Páli sé ekki hjálpað mikið þegar Samfylkingarfólk er ekki á eitt sátt um tillögur formannsins okkar í málinu. Ég ætla nú rétt að vona að formannaskiptin í Samfylkingunni þýði ekki að við megum ekki hafa skiptar skoðanir í þessu máli sem öðrum.

Það er látið að því liggja að við sem höfum unnið að málinu fyrir Samfylkinguna í þinginu hefðum betur verið fyrr á ferðinni.  Auðvitað hefði það verið betra, en það hefði engu breytt.

Tillögur stjórnlagráðsins hafa legið fyrir í bráðum tvö ár. Ótal steinar hafi verið lagðir í götu þessa ferils, sem mér finnst mjög merkilegur.

Fáein dæmi:

Spurt hefur verið – af hverju fjallaði þingið ekki um frumvarp til stjórnskipunarlaga veturinn 2011 – 2012?  Svar: það var gert á ótal fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.  Þangað kom fjöldi gesta, sumir voru gagnrýnir aðrir ekki. Auðvitað kom ekki til greina að freista þess að frumvarpið yrði samþykkt á því þingi. Vegna þess að um leið og það hefði verið samþykkt hefði þurft að rjúfa þing.

Spurt hefur verið – af hverju hófst umfjöllun um frumvarpið ekki fyrr í vetur.  Svar: Vegna þess að Sjálfstæðisflokki með nokkurri aðstoð frá Framsókn tókst að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram fór 20. október færi fram 30. Júní, eins og lagt var til.

Spurt hefur verið – af hverju var ekki leitað til Feneyjanefndarinnar fyrr.  Svar:  Vegna þess að réttara þótti að ganga úr skugga um hug fólksins í landinu til tillagnanna áður en leitað væri álits erlendra sérfræðinga.

Nú er því haldið fram að við höfum geymt umfjöllun um að stjórnskipanina þangað til álit Feneyjanefndar lægi fyrir. Það er ekki alls kostar rétt. Nefndin ákvað að leggja ekki fram breytingatillögur við tvo kafla: þ.e. um forseta Íslands og um ráðherra og ríksstjórn þar til álitið lægi fyrir.

Þeir sem nenna að kynna sér tillögur sem nú liggja fyrir sjá að við þessa kafla leggur meiri hluti nefndarinnar fram 8 – átta – breytingatillögur.

Feneyjanefndin benti á að staða eða völd ríksstjórnar gagnvart þinginu væri mun veikari í frumvarpinu en í núverandi stjórnskipan. Það er alveg hárrétt, enda var það ætlun stjórnlagaráðsins að auka völd Alþingis og minnka völd ríkisstjórnar – og draga þannig úr foringjaræði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri almennt samkomulag um að foringjaræði það sem ríkti hér fyrir hrun og árum þar á undan hafi ekki verið íslensku þjóðfélagi heilsusamlegt.

Kannski er það einhver misskilningur hjá mér, ef til vill sakna menn stjórnunarstíls Davíðs og Halldórs.

Bent var á að forsætisráðherra væri veikasti hlekkurinn ekki síst vegna þess að skv. tillögum stjórnlagaráðsins hafði forsætisráðherrann ekki þingrofsheimild. Því er lagt til að forsætisráðherra geti farið fram á traustsyfirlýsingu og fái hann hana ekki og þingið kemur sér ekki saman um nýjan forsætisráðherra þá ber að rjúfa þing. – Þannig er staða ríksstjórnar nokkuð styrkt gagnvart þinginu.

Hvernig á að svara þeim segja nú að rétt sé að fresta málunum enn um sinn vegna þess að þeir eru óánægðir með einstakar greinar. Það veit ég svei mér þá ekki, sérstaklega þegar það er gjarnan sama fólkið og mælir fyrir sátt og gegn sundurlyndi.

Sumir eru á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en fleiri með. Sumir eru á móti jöfnum atkvæðisrétti, en fleiri með. Sumir eru á móti persónukjöri, en fleiri með.

Engar kúvendingar voru gerðar á tillögum stjórnlagaráðsins nú á síðustu vikum. Þeir, sem segja að það hafi verið fullbúið of seint, tala annað hvort gegn betri vitund eða af vankunnáttu.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þeim sem hefur ekki þóknast meðferð þessa máls, hafa verið sannfærð um að þeim tækist að stoppa það með einhverjum brögðum. Að aftur yrði horfið til þess háttalags að ráða ráðum í hádegisverðum í ráðherrabústaðnum.

Það skiptir mig engu hvort það er ný kynslóð stjórnmálaforingja eða gömul sem standa að slíkum vinnubrögðum, ég aðhyllist þau vinnubrögð sem hafa verið höfð við þá vinnu sem nú er alveg á síðustu metrunum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.1.2013 - 00:20 - 8 ummæli

Kjósum formann sem talar skýrt

Margt Samfylkingarfólk virðist felmtri slegið vegna ákvörðunarinnar um að hægja á samningagerðinni við Evrópusambandið fram yfir kosningar.

Meginatriðin í ákvörðuninni eru þessi:

  • Vinnu frestað við gerð samningsafstöðu í fjórum köflum, þar á meðal sjávarútvegs- og landbúnaðarköflum. Þetta eru erfiðustu kaflarnir og þeir sem þekkja til samningaviðræðna vita að erfiðustu málin eru alltaf afgreidd síðast.
  • Íslenska samninganefndin og framkvæmdastjórn ESB halda áfram viðræðum sem standa yfir um 16 kafla. Þau hin sömu hefja viðræður um 2 kafla þar sem samningsafstaða liggur fyrir.
  • Engin ríkjaráðstefna í mars.
  • Engar pólitiskar ákvarðanir teknar fyrr en eftir kosningar.

Megin máli skiptir að samningaviðræðurnar eru nú í vari. Krafa var um að leggja þær á ís á þann veg að sérstaka ákvörðun hefði þurft til að hefja þær aftur eftir kosningar.

Nú skiptir máli að áfram verði haldið vel á spöðunum. Við Samfylkingarfólk ætlum að vera áfram í forystu fyrir þessu áríðandi máli og við ætlum líka að kjósa okkur nýjan formann.

Það skiptir máli að afstaða formannsins sé skýr og afdráttarlaus. Árni Páll er klár á því að við megum ekki loka á þá kosti sem við eigum í samvinnu við aðrar þjóðir.

Hann er líka klár á því forsenda þess að við getum náð hér aftur lífskjörum sem við sættum okkur sæmilega við er að losna við krónuna. Því krónan er ónýt.

Evran er leiðin út úr ógöngum. Við getum ekki tekið upp evruna nema við klárum samninginn um aðild að Evrópusambandinu – samning sem þjóðin greiðir atkvæði sitt.

Ég hvet fólk til að hlusta á röksemdafærslu formannsefnisins fyrir hvað það skiptir miklu máli fyrir heimilin og fyrirtækin að laun, tekjur og skuldir séu í sömu mynt. Hvað það skiptir miklu máli að ekki verði lengur hægt að lækka kaupgjald í landinu með gengisfellingum.

Árni Páll talar mannamál  – það mun skipta máli þegar við fylkjum liði fyrir kosningar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.11.2012 - 23:44 - 23 ummæli

Strjórnarskrá fólksins skotin í kaf.

Fræðasamfélagið stóð fyrir málþingi um stjórnarskrárgerðina í Háskóla Íslands í hádeginu á föstudag. Forsetinn var mættur og allt, sannarlega engin plebbasamkoma enda liður í fundaröð sem Lagadeild Háskóla Íslands, Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands standa að í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Svo vægt sé til orða tekið finnst  þessum fræðimönnunum allt sem gert hefur verið vitlaust- ég held svei mér þá arfavitlaust.  Enda var gerð stjórnarskrárinnar færð fá elítunni  til fólksins, hvort heldur í háskólum eða stjórnmálum.

Hér á eftir reyni ég að gera grein fyrir því sem fram kom á málþinginu.

Tóm vitleysa.

Þjóðfundurinn var tóm vitleysa, þar sat bara eitthvert fólk sem sagði það sem því finnst (eða fannst). Það  sem fólkið sagði var svo tekið saman og unnið úr því, en það er bara eitthvað i excel-skjali engar meiri háttar rannsóknir og fólkið óupplýst og vissi ekkert um hvað það er að tala.

Stjórnlaganefndin reyndi að vinna eitthvað úr þeirri vitleysu, en umfjöllunin var mjög almenn og litlar greiningar, enda voru ekki allir í nefndinni laga- eða stjórnmálafræðiprófessorar, heldur kannski hámenntuð í öðrum greinum.

Stjórnlaganefndin setti fram tvær tillögur að nýrri stjórnarskrá, sem dæmi um hvernig gera mætti stjórnarskrá.

Var það kannski höfuðsynd stjórnlagaráðsins að taka ekki aðra hvora þeirra og segja:  já og amen? – Ég er hrædd um að fræðingarnir í Háskólanum hefðu ekki verið á einu máli um það.

Stjórnlaga hvað ?

Kastaði nú tólfunum!  Boðað var til kosninga til stjórnlagaþings – og það var bara persónukjör. Áttar fólk sig ekki á því að stjórnmálaflokkarnir eru alfa og omega,  án þeirra hefur fávíst fólk sem gengur til kosninga enga hugmynd um hvað það  á – eða er –  að kjósa. – Afleiðingin: bara eitthvert fólk var kosið – viðstaddir á málþingi í dag lögðu það svo út sem geimverur hefðu verið valdar á þessa einstöku samkomu. Gleymum ekki að meira en 500 manns buðu sig fram, þrátt fyrir fyrirlitninguna sem gamla valdastéttin sýndi hugmyndinni.

Allir verða að njóta sannmælis. Prófessor Björg Thorarensen var afdráttarlaus: Alþingi hafði leyfi til að skipa stjórnlagaráð, eftir ógildingu kosninga til stjórnlagaþings. Einn viðstaddra á málþinginu vildi halda því fram að Alþingi hefði gert sig sekt um valdarán.

Og tillögurnar, úff.

Jæja, þá kemur að þessum arfavitlausu tillögum stjórnlagaráðs. Kemur ekki þetta fólk saman og leggur til ýmislegt án þess að leggjast í félagsfræðilegar rannsóknir. Persónukjör:  mörg þúsund svör á fræðimanna google. Hvaða áhrif hafði persónukjör í Brasilíu  ? spurði fræðimaðurinn. Af hverju í Brasilíu en ekki í nágrannaríkjunum ? Jú, af því að stjórnmálamenning hér er líkari þeirri í Brasilíu, en nágrannalöndunum, svaraði fræðimaðurinn. Hefur hann rannsakað það ,spyr ég, ég bið hann um að senda mér niðurstöðurnar.

Svo er það náttúrlega alveg fáránlegt að gera tillögur í stjórnarskrá um þjóðaratkvæði – það er lagt til að hverfa frá norrænu þingræði, sagði prófessorinn. Það skiptir hann engu að þingræði er lykilatriði í stjórnskipaninni samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs, þar er skýrar að orði kveðið en í nú er.

Vel má vera að prófessornum finnist ekki rétt að breyta neinu í þessum efnum fyrst aðrar norrænar þjóðir hafa ekki gert það (ég held samt að Finnland hafi einmitt gert það – en ekki deili ég við prófessora í því).

Ég hélt að prófessorar ættu að horfa til þess mögulega, vinna að þróun en ekki halda að í það sem er eða var. Fílabeinsturninn gerði þeim kleift að horfa vítt og kannski þyrfti stundum að toga þá niður á jörðina. – Ég vona alla vega að hin íhaldssama sýn prófessoranna í dag endurspegli  ekki viðhorf kollega þeirra í vísindum og því sem hefur verið kallað skapandi greinar. Ef svo er blasir ekkert við nema stöðnun.

Fólkið þaggar niður í okkur sem vitum !

Svo að endingu þessi arfavitlausa þjóaratkvæðagreiðsla. Hún var ótímabær og ó- allt. Hvaða vitleysa er það eiginlega að spyrja þjóðina.  Jú hún var til þess gerð að þagga niður í þeim sem voru ósammála tillögum stjórnlagaráðsins eða öllu ferlinu, í mínum huga var ekki alveg ljóst hvort átt var við.

Prófessorinn sem segir að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn, telur það tilraun til þöggunar að spyrja fólk.  – Prófessorarnir einir hafa vit. Svo má þjóðin segja já eða nei, ef ég skildi þetta rétt.

Ég veit svo sem ekki hvort það skiptir máli, en tveir af fjórum málshefjendum á málþinginu áttu setu í sérfræðinefnd stjórnarskrárnefndar sem ekki tókst að ljúka verkefninu – en það tókst stjórnlagaráðinu, við skulum sko ekki gleyma því.

Öll verðum við að vanda okkur í þessu mikla verkefni bæði í orði og æði. Við gerum það í þinginu og fræðimennirnir í fílabeinsturninum verða að gera það líka.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2012 - 18:10 - 4 ummæli

Fólkið á að ráða – það er lýðræði.

1. Um hvað snýst þetta allt saman ?

2. Er þetta ekki allt of flókið ?

3. Hefur fólk eitthvert vit á þessu ?

4. Verður nokkuð farið eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar ? ´

Svörin eru í sömu röð: 

1. Þetta snýst um hvort stjórnarskránni er skipað af öllu  fólki eða einhverjum útvöldum.

 2. Nei.

3. Já við vitum öll hvað við viljum.

 4. Já.

Spurningarnar eru á mannamáli og auðskiljanlegar . Engin vandkvæði eru á því að túlka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.  Já þýðir já og nei þýðir nei.

Við stöndum á tímamótum. Fólkinu í landinu er gefinn kostur á að segja skoðun sína á tillögum að nýrri stjórnarskrá. Hingað til hefur verið litið á það sem einkamál stjórnmálamanna/Alþingis  og lögfræðinga. 

Heildarendurskoðun á þessu grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar og undirstöðu laga hefur ekki tekist til þessa. Stjórnlagaráðinu tókst það. Kannski er það vitnisburður um að stjórnmálamenn og lögfræðingar eigi að halda sig til hlés hvað þessi efni varðar.

Margir hafa allt á hornum sér varðandi þá aðferð er notuð. Gæti það verið vegna þess að í gegnum árin hefur orðið til í landinu hópur fólks sem telur sig betur til þess fallið að ráða ráðum okkar og hafa vit fyrir okkur en við getum öll í sameiningu?  

Það er bráðnauðsynlegt í kjölfar þeirra þjóðfélagslegu hamfara sem við höfum gengið í gegnum  að hrista upp í valdahlutföllum þjóðfélagsins.  Nú er tækifæri.

Núna er tækifæri fyrir fólk að sýna hug sinn til þeirrar vinnu sem það sjálft hefur unnið á Þjóðfundi og í Stjórnlagaráði. Allir kjósendur hafa tækifæri, ekki einungis einhverjir útvaldir eða sjálfskipaðir.

Spurningarnar fimm sem fylgja meginspurningunni eru um róttækar breytingar á stjórnarháttum okkar. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður því hvort þessar róttæku breytingar verða lagðar fram í frumvarpi sem lagt verður fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskrá. –

 Hvað er lýðræði ? Svar: Fólkið á að ráða.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.10.2012 - 13:40 - 6 ummæli

Sæti 1 eða 2 í prófkjöri Samfylkingarínnar í Reykjavík.

Í gær samþykkti fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík að halda prófkjör dagana 16 og 17 nóvember. Þeir sem eru skráðir í Samfylkinguna viku fyrir kjördag hafa atkvæðisrétt.

Ég ætla að bjóða mig fram í 1. og 2. sæti, sem jafngildir því  að sækjast eftir að leiða lista í öðru hvoru kjördæminu.

Allir alþingismenn þurfa að hafa áhyggjur af því hve lítið traust fólk ber til Alþingis. Ég vil leggja mig fram um að þetta breytist. Ég held að til þess að svo verði þurfi stjórnmálamenningin að breytast. Þar þurfa fleiri að koma að en stjórnmálamennirnir. Fjölmiðlafólk, hagsmunasamtök og allur almenningur getur hjálpað til. Kannski er hægt að finna einhverja aðferð til að ráðgast um þetta. Gaman væri að heyra ef fólk hefur hugmyndir um hvernig megi fara að þessu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.4.2012 - 21:07 - 7 ummæli

Klíkan og kjötkatlarnir

Getur klíkusamfélagið enn komið okkur á óvart ? Já, svei  mér þá það gerðist á laugardaginn. Nú mega íslenskir réttkjörnir ráðamenn ekki stoppa við Kerið og sýna gestum okkar, þjóðarinnar, mikilfengna náttúruna.

Eigendur náttúruperlurnar eru í stjórnarandstöðu. Eigendunum er illa við að ráða ekki. Eigendurnir vilja komast aftur að kjötkötlunum, svo þeir geti haldið áfram að verja sérhagsmunina.

Líklega er enginn stjórnmálaflokkur á landinu sem talar meira um sátt en stærri stjórnarandsöðuflokkurinn. Sáttin þeirra gengur út á að allt verði áfram eftir þeirra höfði eins og það hefur verið langa lengi.

Tillögur þeirra í öllum málum ganga út á að kosið verði, vegna þess að þau halda að þá komist þau aftur að. Það fer hins vegar minna fyrir því hvað þau ætla að gera ef þau komast að.

Ef marka má hátíðadagskrá á fundi Samtaka atvinnulífsins, sem lítur helst út fyrir að vera sérdeild í stærri stjórnarandstöðuflokknum, þá vilja menn hverfa til starfshátta sem tíðkuðust í landinu áður en efnahagslífið hér á landi fór fjandans til.

Þá var í tísku að gera grín að eftirlitsiðnaðinum, það er enn í tísku. Þá blómstraði hér öflugt fjármállíf sem atvinnulífið dásamaði – en var í raun allt tómt svindl og svínarí.

Hverjar urðu afleiðingarnar. Við þekkjum þær öll. Hærri skattar, minni kaupmáttur, hærri afborganir af lánum og gjaldeyrishöft. Það er sannarlega undarlegt að sitja og hlusta á atvinnurekendur sem vilja láta líta á sig sem ábyrgt afl í þjóðfélaginu tala eins og allt sé þetta ríkisstjórninni að kenna.

Fólk veit betur. Fólk veit hvað olli hruninu. Fól veit að það var óábyrg stjórn efnahagslífsins, óábyrg hegðun atvinnurekenda og óábyrg hegðun margra heimila – kannski ekki skrítið,  því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Til að komast aftur á réttan kjöl þurfum við ábyrga efnahagsstjórn, ábyrga  stjórn heimilanna og ábyrga stjórn atvinnuveganna. Því miður virðist sem við höfum einungis það tvennt sem fyrst var upp talið. Kann það góðri lukku að stýra ?

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í morgun 25. april 2012

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.4.2012 - 18:10 - 17 ummæli

Þegar klíkuveldið þvælist fyrir

Þegar minni hluti Alþingis stöðvar blygðunarlaust að vilji meiri hlutans nái fram að ganga, rétt eins og gerðist með framgang tillögu um þjóðaratkvæði um tillögur stjórnlagaráðsins um daginn er rétt að skoða málið.

Og hver er skýringin. Málið var ekki fullunnið,segja þau. Það er einfaldlega rangt. Málið snerist um að spyrja fólkið í landinu hvort það telji að nota eigi tillögu stjórnlagaráðsins sem grundvöll að gerð frumvarps til stjórnskipunarlaga sem lagt verður fyrir Alþingi næsta haust. – Er eitthvað dularfullt við þá spurningu?

Af hverju þarf að spyrja að því? Það er kannski ekki nema von að einhver spyrji þeirrar spurningar. Svarið er: vegna þess að Alþingi á næsta leik. Vegna þess að á Alþingi er fólk sem vill ekki byggja á tillögum stjórnlagaráðsins. Á Alþingi er fólk sem segir að frumvarp stjórnlagaráðsins eigi allt að fara í tætarann eins og að orði er komist og aðrir segjast andvígir 114 greinum frumvarpsins – sem er einmitt 114 greinar.

Klíkuveldið vill nefnilega hafa gamla háttinn á og fá útvalda til starfa. Útvaldir voru í stjórnlaganefndinni, sem vann úr tillögum þjóðfundarins. Stjórnlaganefndin dró saman afrakstur vinnu sem varðar stjórnarskrána og unnin hefur verið á umliðnum árum – stórmerkileg og umfangsmikil skýrsla. Stjórnlaganefndin birti tvær hugmyndir að nýrri stjórnarskrá – dæmi A og dæmiB.

Stjórnlagaráðið – 25 manns – vann úr öllu þessu efni og skilaði einni tillögu. Hún er ekki tæknilega fullkomin, en í henni er flott og nútímaleg heildstæð hugsun. Það er afstaða til þeirrar hugsunar sem við viljum leita til fólksins í landinu með.

Viljum við mannréttindakafla sem gerir meiri kröfur en sá sem samþykktur var 1995 ? – fyrir 17 árum. Viljum við að mannréttindakaflinn sé fyrsti kaflinn í stjórnarskránni ? Hva – skiptir það einhverju máli, spyr kannski einhver. Já, mannréttindi eru þá efst á blaði, það hefur táknrætt gildi, er svarið við því.

Þau sem ekki vilja endurskrifa heldur endurskoða stjórnarskrána vilja engar æfingar af þessu tagi. Þau vilja tala um málskotsréttinn, eins og hann sé upphaf og endir alls. Þau vilja deila um hvort ráðherrar eigi að vera á þingi, eins og það sé upphaf og endir alls. – En þetta eru svo sem ágiskanir, efnislega hafa þau sem ekki vilja leita ráða hjá fólkinu, ekkert lagt fram. Yfirlýsingar þeirra standa: annars vegar allt í tætarann og hins vegar athugasemdir við 114 greinar.

Að standa vörð um hagsmuni hinna fáu

Svo eru það hinar spurningarnar sem átti að spyrja. Viltu að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign ? Séreignaréttar lögfræðingar framsóknar  og  sjálfstæðis  taka auðvitað andköf, nú skal þjóðnýta allt steini léttara. Það er auðvitað miklu fleira fólk sem lætur sér ekki detta í hug að þessi einfalda spurning jafngildi því að allt milli himins og jarðar verði lýst þjóðareign.

En gott og vel það var sjálfsagt að gera þetta skýrara fyrir þá sem sífellt verja hagsmuni stóreignamanna og kjósa að snúa út úr öllu sem fyrir þá er lagt. Því var lagt til að breyta spurningunni -lagt til að bæta við orðunum –sem ekki eru í einkaeign. Spurningin hljóðaði því svona: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Í tillögum stjórnlagaráðsins er þjóðkirkjunnar ekki getið. Því var lagt til að spyrja þeirra einföldu spurningar hvort fólk vildi að sú stofnun hefði hinn sama sess í nýrri stjórnarskrá. Það er ábyggilega mörgum mikils virði, en hve mörgum ? Er ekki sjálfsagt að leita svara við því ? Klíkuveldið kaus að láta sem þeir skildu ekki hvers vegna var spurt. Eða ég vona alla vega að það hafi verið látalæti.

Framsókn og sjálfstæði hafa einnig áhyggjur af því hvað verði um landsbyggðarþingmenn ef öll atkvæði á landinu vega jafnt. Ja, ég segi nú ekki annað að það boðar ekki gott um samkomulag um stjórnarskrá yfirhöfuð ef áhyggjurnar snúast um landsbyggðarþingmenn. Væri ekki nær að reyna að ná fram þeirri breytingu að þingmenn lítu á sig sem málsvara fólks alls staðar af landinu, í stað þess að einblína að hagsmuni einstakra kjördæma.

Auðvitað þurfa lögfræðingar að koma að gerð stjórnarskrár. Stjórnarskráin er undristaðan hún verður því að standast lagatæknilega skoðun (ef þannig má að orði komast), um það er engin spurning. Lögfræðingar eiga hins vegar engan rétt fram yfir okkur hin um hvað stendur í stjórnarskránni, hvert er efni hennar og innihald. Við gerð stjórnarskráinnar eiga þeir að vera tæknimenn en ekki hugmyndasmiðir.

Af vinnu við stjórnarskrártillögurnar í vetur er augljóst að áhrifamikið fólk telur sig hæfara en aðra til að fást við það veigamikla verkefni sem smíði nýrrar stjórnarskrár er. Það hefur allt á hornum sér í tillögum stjórnlagaráðsins.

Þau sem aðhillast klíkuveldið höfðu betur þegar þau komu í veg fyrir afgreiðslu þingsályktunarinnar þann 29.mars. Það mun hins vegar ekki koma í veg fyrir að áfram verður unnið með tillögur stjórnalagaráðsins.

Áttum okkur á því að andstaðan er ekki bara í þessu máli. Andstaðan er við allar breytingar. Klíkuveldið vill engu breyta, ekki stjórnarráðinu, ekki fiskveiðistjórninni, ekki stjórnarskránni og ekki vinnubrögðunum- bara alls engu. Um það snýst baráttan.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.1.2012 - 19:42 - 4 ummæli

Haleljúakór eða umræðu, hvort viljum við ?

Því verður seint haldið fram að það skorti þjóðmálaumræðu á ljósvakamiðlunum. Um áramót fer eðlilega mest fyrir henni. Þá bætast ávörp fyrirmanna og Kryddsíldin við helgarskammtinn.

Sjálfsagt finnst okkur öllum umræðan misviturleg og  –skemmtileg. Það er eins gengur. Mér finnst Gunnar Smári skemmtilegur og yfirleitt hafa skynsamlegt til málanna að leggja, ella yrði ég vafalaust oft pirruð. Er þá vísað til dálætisins sem þáttastjórnendur hafa á þeim ágæta manni.

Samfylkingin

Breytingar á ríkisstjórn og flokksstjórnarfundur  Samfylkingarinnar næstsíðasta dag ársins hafa verið nokkuð til umræðu. Stundum er eins og þeir sem skýra frá því sem þar fór fram hafi ekki verið á fundinum. Það er reyndar rétt í sumum tilfellum. Í öðrum tilfelluum virðist eins og fólk hafi ekki verið á sama fundi og ég.

Vissulega komu fram skiptar skoðanir um tillöguna að breytingu á ríkisstjórninni. Það er ekkert nema hollt að fólk segi skoðun sína. Það er ekkert nema eðlilegt að áherslumunur sé í þessum efnum sem öðrum.

Í orði er kallað eftir umræðu um öll mál, þegar umræðan er ekki jafn samhljóma  og haleljakór, þá tala álitsgjafarnir um flokkadrætti – þeim finnst það meira spennandi en að fólk tali sig til niðurstöðu. En það var einmitt það sem gerðist á flokksstjórnarfundinum. Í lok hans var atkvæðagreiðsla (leynileg) um tillöguna sem lá fyrir fundinum, og hún var samþykkt með 80 % atkvæðanna. Varla verður það kallað naumt á munum.

Mannaskipti í ríkisstjórn eru eðlileg. Þegar fækka á ráðuneytum þurfa einhverjir að víkja. Við getum öll haft okkar skoðanir á því hverjir það eigi að vera. En það skiptir ekki höfuðmáli og við eigum alls ekki að láta álitsgjafa komast upp með að reyna að telja fólki trú um að það hafi einhverja dýpri merkingu.

Sumt sem kemur fram í umræðunni er reyndar næstum hlægilegt. Mér heyrðist á einhverjum að það væri hið versta mál að vera með fyrrverandi ráðherra í þingsalnum – áður hefði mönnum af því tagi verið skóflað til útlanda. Ég trúi samt ekki öðru en mér hafi misheyrst, eða er til fólk sem telur að þau sem verið hafa ráðherrar þurfi sérstaka meðferð allt sitt líf eftir það. Er til fólk sem saknar þess tíma ? – Þá er nú eins gott að sjá til þess að engin verði ráðherra yngri en fimmtíu og fimm eða sextug  – eða hvað ?

Og við megum heldur ekki láta eins og það sé bara í pólitíkinni sem breytingar verða á högum fólks. Það verður alls staðar í atvinnulífinu, hvort heldur í ríkis- eða einkafyrirtækjum. – Það er vissulega ekki venjuleg vinna að stunda pólitík, en ekki láta hvarfla að okkur að heimur stjórnmálamannsins sé harðari en annarra.

Forsetinn og stjórnarskráin.

Í sumar verður efnt til forsetakosninga. Sumir álitsgjafar láta sem það sé mikil óvissa í kringum forsetaembættið, vegna þess að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá liggja fyrir. Það er engin óvissa um það, nýi forsetinn mun starfa samkvæmt stjórnarskránni.

Ef Alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskránni á að rjúfa þing og boða til kosninga. Þess vegna er ljóst að frumvarp verður ekki lagt fyrir þingið fyrr en næsta vetur – þar eð kosningar verða ekki fyrr en 2013.

Og jafnvel þó Alþingi lýsti nú vilja sínum í þessu efni, þá er ekkert víst að nýtt þing yrði sömu skoðunar, en svo þarf að vera til að breyta stjórnarskránni. Svo má líka segja sem svo að ef það verður siðvenja að forsetar sitji í sextán ár, þá gæti þótt ástæða til að breyta stjórnarskrá á þeim tíma, þó því sé svo sem ekki spáð.

Ljóst er að á undanförnum sextán árum hefur hugur sumra staðið til þess að breyta stjórnarskrá þó árangur hafi ekki orðið.  Að lokum skulum við ekki gleyma því að gamli forsetinn hefur sannarlega breytt eðli embættisins og þurfti hann ekki breytingu á stjórnarskránni til þess. – Ég blæs því á að stjórnarskráin þurfi að þvælast fyrir forsetaframbjóðendum eða kjósendum.

Og hvað þá með tillögur stjórnlagaráðsins spyrja álitsgjafar hver annan. Eru þær bara gleymdar? Eru þær bara í salti ? Hafa stjórnmálaflokkarnir engan áhuga á þeim ? Ég velti stundum fyrir mér af hverju við sem vinnum með tillögurnar í þinginu erum ekki spurð. En svo nenni ég ekki að eyða tíma í slíkar vangaveltur og held bara áfram að puða.

Ég velti líka fyrir mér hver á að halda uppi umræðunni um tillögur stjórnlagaráðsins. Fræðasamfélagið hefur staðið fyrir nokkrum málþingum um valda þætti. Ríkisútvarpið hefur einnig staðið sig nokkuð vel í kynningu á tillögunum og á örugglega eftir að halda því áfram.

Gerð stjórnarskrárinnar var vissulega útvistað á hinn bóginn eru leikreglurnar þær að Alþingi ber lokaábyrgðina. Það er ekki hægt að ætlast til annars en að alþingismenn fái að kynna sér tillögurnar í þaula. Alþingismenn eru nefnilega ekki bara í vinnu hjá þjóðinni, þeir verða einnig að vita hvað þeir leggja til, það á alltaf við en ekki síst við þegar stjórnarskráin er til meðferðar. 

ps. Get ekki neitað mér um kvarta yfir því að Egill vinur minn Helgason skuli ekki leiðrétta viðmælanda sem heldur því fram að lífeyrisréttindum alþingismanna hafi ekki verið breytt frá því að eftirlaunaósóminn var leiddur í lög.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is