Föstudagur 07.03.2014 - 17:36 - 2 ummæli

Flóttinn mikli

Augljóst er að viðbrögð fólks við gerræðistillögu utanríksráðherrans um að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið kom forystumönnum ríkisstjórnarinnar í opna skjöldu. Þeir eru því á harða hlaupum undan eigin orðum og gjörðum. 

Forystumenn ríkisstjórnarinnar eiga í erfiðleikum með að muna hverju þeir lofuðu. Þeir fiska upp orð eins og ómöguleiki og framfylgjanlegt til að segja að þeir geti ekki farið að vilja meirihluta fólks. – Þetta áttu þeir að sjá fyrir. Og láta innantóm loforð eiga sig.

Svo þvarga þeir um hvort hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort einhver sé bundinn af henni og af hverju var ekki löngu búið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki mjög gagnlegt í umræðunni, en hentar þeim sem eru á flótta undan sjálfum sér.

Strax við upphaf klúðursins sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að áður en hægt yrði að halda þjóðaratkvæðgreiðslu þyrfti að breyta stjórnarskránni. Forsætisráðherrann, formaður Framsóknarflokksins, endurtók þennan vísdóm nú í vikunni.

Ætla þeir að beita sér fyrir breytingu á stjórnarskránni ? Trúir því einhver að þeir ætli að gera það ?Treystir einhver loforðum þessara manna ?

Svo er það röksemdin að ekki hafi verið samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin var lögð fram. Látum vera að samkvæmt fyrri röksemdinni um ákvæðið í stjórnarskránni er illskiljanlegt hvernig það átti að vera hægt, það er nú svo að menn grípa til þess sem hendi er næst.

Fyrir kosningar 2009 var það skýr stefna Samfylkingarinnar að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu og að þegar samningur lægi fyrir yrði hann borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er bjargföst skoðun mín að okkur er betur borgið í sem nánustu samstarfi við aðrar þjóðir en með mikilmennskutilburðum eins og þeim að við eigum að hafa allan heiminn undir, semja við Kínverja, Indverja, austur og vestur.  Samningurinn um EES var heillaspor. En við erum skör lægra en samstarfsríkin sem eru innan ESB. Við höfum ekki aðgang að fundunum þar sem ákvarðanir sem við innleiðum í okkar löggjöf eru teknar.

Það er í besta falli barnaskapur að halda því fram að við getum aukið áhrif okkar með því að fjölga starfsfólki í Brussel. Sjáið norsku skýrsluna um áhrif Norðmanna, sem eru með her manns í Brussel, hangandi á hurðarhúnum leitandi frétta af fundum sem þeim er ekki boðið á.

Umræðan um Evrópusambandið eðli þess og starfshætti er og hefur verið með þeim hætti að fólk getur ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvort okkur er betur borgið innan þess eða utan nema að samningur liggi fyrir. Það var mín skoðun árið 2009 og sú skoðun hefur bara styrkst undanfarna daga.

Þess vegna var fráleitt að leysa innanflokksdeilur Sjálfstæðisflokksins með því að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um að leggja fram umsókn sumarið 2009. Þeir verða að leysa sínar deilur sjálfir, þurftu það þá og þurfa það nú. 

Grein sem birtist í DV í dag 7.mars.

Flokkar: Óflokkað

«

Ummæli (2)

  • Rafn Guðmundsson

    flott grein Valgerður

  • Áslaug Ragnars

    Prýðileg grein. Vek athygli á því að nú örlar í fyrsta sinn á því sem kalla má alvöru umræðu. Málflutningur þeirra sem tjá sig er mun hófstillari en við höfum átt að venjast og þeir sem hafa haft hæst hafa sig ekki í frammi nú. Þetta er byrjunin á því að komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is