Föstudagur 28.02.2014 - 19:38 - 2 ummæli

Er bannað að skipta um skoðun ?

Er ekki allt í lagi að skipta um skoðun ? Jú, auðvitað er bæði sjálfsagt og eðlilegt að gera það.  Ef þú ert að vasast í stjórnmálum þá skiptir hins vegar svolitlu máli hvernig og hvenær þú gerir það. Það skiptir líka máli, þó það þyki kannski svolítið skrítið, um hvaða skoðun þú skiptir.

Það er síður en svo ámælisvert að einhverjir sem einhvern tímann töldu að skoða ætti hvort heillavænlegt væri að Íslendingar tækju upp Evru hafi skipt um skoðun í þeim efnum. Mér finnst að vísu nokkuð óskiljanlegt að menn láti af þeirri skoðun, en að það sé ámælisvert, nei alls ekki.

Það er heldur ekki ámælisvert þó einhverjir sem einhvern tímann töldu að aðild að Evrópusambandinu gæti verið valkostur fyrir íslenska þjóð, telji það ekki lengur. Ég er að vísu annarrar skoðunar, en ég get ekki og hef ekkert leyfi til að hallmæla öðrum fyrir það.

Auðvitað er hægt og getur jafnvel verið svolítið freistandi að rifja upp, núa mönnum um nasir eða hvað við viljum kalla það að þeir hafi eitt sinn verið á annarri skoðun en þeir eru núna. En það hefur lítið upp á sig annað en að einhvers konar stríðini, sem getur auðvitað verið skemmtileg og staðið fyrir sínu.

Lofi fólk því hins vegar fyrir kosningar að taka ekki einhverjar ákvarðanir án þess að spyrja fyrst í öðrum kosningum þá finnst mér óheiðarlegt og um leið ámælisvert efna ekki til þeirra kosninga – m.ö.o. það er óheiðarlegt og ámælisvert að svíkja slíkt loforð. Mér finnst líka bæði óheiðarlegt og ámælisvert að snúa út úr því sem var sagt eða lofað.

Af skoðanakönnun sem birt var í morgun er ekki annað að sjá en að ég sé ekki ein um þessa skoðun. Áttatíuogtvö prósent þeirra sem spurð voru vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum um aðild að Evrópusambandinu eða slíta þeim.

Það er ekki endilega vegna þess að allt þetta fólk vilji að viðræðunum sé haldið áfram. Einhverjir geta sannarlega verið á móti því. Einhverjir vilja ábyggilega að þær séu settar á ís og enn aðrir að þeim sé slítið. En fólk vill vera spurt. Allt annað eru svik sérstaklega auðvitað við þau sem kusu sjálfstæðis- eða framsóknarflokk í síðustu kosningum.

En þetta eru líka svik við okkur hin. Þetta eru svik við það fólk sem vonaði og hélt að stjórnmál af þessu tagi heyrðu fortíðinni til.  Búsáhaldabyltingin var nefnilega ekki bara um að ríkisstjórnin sem þá sat færi frá, hún var krafa um breytta stjórnarhætti.

Hún var krafa um að við sem sækjumst eftir trausti til að starfa fyrir fólkið í landinu okkur stöndum við það sem við segjum. Krafa um að við misförum ekki með valdið sem okkur er falið. Seljum ekki banka í hendur vildarvina, horfum ekki í hina áttina þegar þegar vildarvinir stefna fjárhag ríkisins í hættu. Krafa um að hlustað sé jafnt á Jón og séra Jón.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð veltu sumir því fyrir sér hvort ekki væri óheppilegt að enginn ráðherranna hefði setið í ríkisstjórn fyrr. Hvort ekki væri óheppilegt að enginn ,,með reynslu” sæti við það borð.  Ég var annarrar skoðunar, hélt að það gæti einmitt verið bráðhollt að nýir siðir og venjur mynduðust við það borð. Nú held ég að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Einhver ,,með reynslu” hefði líkast til bent á að sá tími er löngu liðinn að forsætisráðherra hafi skúffu fulla af peningum, sem hann úthluti úr hátt í tvöhundruð milljónum að eigin geðþótta. Einhver ,,með reynslu” hefði kannski líka bent á að aldrei fyrr hefur setið ríkisstjórn sem hefur lofað fólki því að það yrði spurt áður en eitthvað yrði gert.

Kannski er það bara af því að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið fyrr að viðbrögðin við svikunum koma ríkisstjórninni á óvart. Kannski er það þess vegna sem þau halda að gömlu útúrsnúningaviðbrögðin dugi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Rafn Guðmundsson

  yfirleitt er EKKERT mál að skipta um skoðun EN að skipta um skoðun á að ‘ALMENNINGUR’ fái að ráða er í besta falli ……..

 • Það er ekki leyfilegt að skipta um skoðun á lýðræðinu í svokölluðu lýðræðisríki. annað hvort er lýðræði eða ekki.
  Veit ekki um neitt þar á milli.
  Lýðræði var lofað sem er reyndar bara sjálfsagt þar fyrir utan.
  Það á líka við um nýju Stjórnarskránna.
  Í mínum huga er það óþarfa kostnaður að greiða athvæði um neitt annað en niðurstöðu samningana, því fyrr er ekkert raunverulega vitað til að greiða athvæði um. Þann hátt hafa allar aðrar þjóðir gert, sem hafa sótt um.
  Þar fyrir utan er ekkert annað til í stöðuni okkar, ef við viljum hafa sambærilega framtíð svipað og okkar nágrannar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is