Þriðjudagur 31.12.2013 - 09:06 - 9 ummæli

Gerðist ekkert hér ?

Í umræðum um stjórnmál þessa dagana virðist stundum eins og að verkefnin sem glímt var við á síðasta kjörtímabili hafi verið ósköp venjuleg. Í sölum Alþingis má gjarnan heyra þreytuandvarp þegar rifjað er upp að haustið  2008 rambaði íslenska ríkið á barmi gjaldþrots. Sú var hins vegar staðreyndin og verkefni síðustu ríkisstjórnar var að moka þann flór. Sannarlega vanþakklátt hlutverk.

Í útvarpsþætti um helgina sagði varaformaður sjálfstæðisflokksins eitthvað á þá leið að síðasta kjörtímabil hefði verið erfitt fyrir alla flokka á Alþingi. Þetta var svar við staðhæfingu um að stjórnarandstaðan hefði þá verið einstaklega óbilgjörn og óvægin.

Þetta situr í mér og ég velti fyrir mér hvað var svona erfitt fyrir stjórnarandstöðuna á síðasta kjörtímabili. Eina niðurstaðan sem ég kemst að er sú, að það hafi verið erfitt að vera í stjórnarandstöðu. Með öðrum orðum: Það var bara erfitt að vera ekki við stjórnvölinn.

Enda var það líka svo að á síðasta kjörtímabili lagði stjórnarandstaðan höfuðáherslu á að tefja fyrir þingstörfum og koma í veg fyrir að mál næðu fram að ganga. Enda er það líka svo að þegar rætt um hvernig  gera hefði átt hlutina á síðasta kjörtímabili þá er svarið ávallt að það hefði átt að fara þá leið sem sjálfstæðisflokkurinn lagði til.

Það hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsókn um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram. Bíðum nú við, hvers vegna ? Til þess að sjálfstæðismenn gætu barist gegn því og umsóknin hefði aldrei verið lögð fram.

Það hefði ekki átt að ráðast í heildarendurskoðun á stjórnarskránni eins og stjórnlagaráð lagði til og tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Bíðum nú við, hver vegna? Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn vildi það ekki, að minnsta kosti ekki á meðan hann var ekki við stjórnvölinn.

Það hefði ekki átt að taka upp þrepaskiptan tekjuskatt. Bíðum við, hvers vegna ekki ? Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn er á móti þrepaskiptum tekjuskatti. Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn er því andvígur að þeir sem meira hafa leggi meira til samfélagsþjónustunnar en þeir sem minna hafa.

Það þurfti að lækka veiðigjaldið frá því sem ákveðið hafði verið. Verndarenglar ríkisstjórnarflokkanna eru nefnilega þeir sem nýta auðlindina og þeir vilja auðvitað helst ekkert borga og ef þeir þurfa að borga þá sem minnst.

Það þurfti nánast að rústa fjárfestingaráætlun sem samþykkt hafði verið. Fjárfestingaráætlun sem horfði til framtíðar. Fjárfestingaráætlun sem styður við rannsókn og þróun, skapandi greinar, tónlist og listir.  Einhversstaðar á leiðinni er þó eins og einhverjir hafi áttað sig og áætluninni var nánast rústað en ekki alveg.

Stjórnarflokkarnir telja að fjármagnið deilist miklu betur og þá væntanlega nýtist miklu betur ef hlutur ríkisins er sem minnstur. Þess vegna eiga atvinnuvegir sem blómstra hvort heldur sjávarútvegur eða ferðaþjónusta að greiða sem minnst til samfélagsins. – (En samfélagið á samt sem áður að sjá til þess að göngustígar séu saltaðir og sandaðir svo ferðamennirnir brjóti sig ekki.)

Þau voru líka þessarar skoðunar á velmegunarárunum, í góðærinu, eða hvað þau vilja kalla þensluárin fyrir hrun. Þeirrar skoðunar að lítið þyrfti að fylgjast með markaðnum. Þau uppnefndu stofnanir sem ætlað var að fylgjast með því að farið væri að leikreglum á markaðnum og töluðu um eftirlitsiðnað.

Þau móðgast ef bent er á að skattabreytingar þeirra gagnast mest þeim sem hæst hafa launin. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skerða bætur öryrkja og lífeyrisþega í upphafi síðasta kjörtímabils. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skera niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skuldsetja ríkissjóð svo vaxtagreiðslur nema nú tugum milljarða. – Allt var þetta samt nauðsynlegt til að bjarga ríkissjóði og þjóðfélagi sem þau höfðu stjórnað í átján ár.

Sem betur fer er þó ekki svartnættið framundan. Sól fer hækkandi og vonandi tekst að leysa vandamál  sem verða á vegi okkar og örugglega verður líka eitthvað að gleðjast yfir.

Kjarasamningar hafa tekist á almennum vinnumarkaði, ekki verður þeim um kennt ef verðbólguhjólið fer af stað. Nú hljóta atvinnurekendur að sýna að þeir standa undir ábyrgð. Stýra fyrirtækjunum þannig að framleiðni aukist og verðhækkanir og launskrið hlaupi ekki út í verðlagið.

Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að afnema gjaldeyrishöftin. Þau leiða til ójöfnuðar og bjóða spillingu heim. Von mín er að áður en langt um líður komi fram tillögur um hvernig leysa má þetta mikla og áríðandi verkefni.

Gleðilegt ár!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Haukur Kristinsson

  Góð samantekt Valgerður, þörf lesning.

  Gleðilegt ár og kveðja frá Sviss.

 • Sigurður Hr. Sigurðsson

  Að hafa stundað málþóf gegn ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá er skammarlegt. Þar fóru fremst í flokki ráðherrarnir Ragnheiður Elín, Gunnar Bragi og Sigurður Ingi. Svo ekki sé nú minnst á núverandi formann fjárlaganefndar.

  Að virða ekki afgerandi niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslunni er enn verra, bæði óheiðarlegt og andlýðræðislegt.

  Gleðilegt ár!

 • Þór Saari

  Það voru Árni Páll, Kristján Möller og Ragnheiður Ásta Pétursdóttir forseti Alþingis ásamt Guðmudi Steingrímssyni sem höfðu forgöngu um að slátra nýju stjórnarskránni sem hafði verið samþykkt af miklum meirhluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einsdæmi í sögu vestræns lýðræðis.

 • Andlýðræðisleg hegðun einskorðast ekki við þennan eina flokk, hún skýtur reglulega upp kollinum hjá öllum gömlu flokkunum þegar það á við. Þannig fá átakastjórnmálin, sem Íslendingar eru svo vanir að fyrirlíta, að lifa góðu lífi. Á meðan nálgast efnahagsskúta Íslands óðfluga bjargbrún en ef hún fer fram af brúninni eignast tiltölulega fáir flestar auðlindir landsins. Þar með myndi Ísland missa efnahagslegt sjálfstæði sitt til frambúðar.

  Enn er tími til stefnu til að komast hjá því. Hver veit hvað nýtt ár hefur í för með sér?

  Gleðilegt nýtt ár!

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Frábært yfirlit. Takk Valgerður.

 • Svanur Kristjánsson

  Gleðilegt nýtt ár Valgerður Bjarnadóttir. Takk fyrir þennan fína pistil. Þin
  góðu störf í þágu þjóðarinnar – ekki síst í stjórnarskrármálinu – munu lengi verða í minnum höfð. Gott að vita af þér á Alþingi.

 • Hvílík þvæla.

 • Gísli Tryggvason

  Þór Saari, nú hvað segirðu? Vildu þá Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn bara samþykkja en ÁPA og Kristján Möller og þau voru á móti?
  Kannski að þessi afstaða þín og fleiri geri það að verkum að nú sitjum við uppi með Framsóknaríhaldið sem hlaut minnihluta atkvæða í kosningum en samt aukinn meirihluta þingmanna þar sem 12 % duttu dauð.
  Ég vona að þú náir þessu einhverntímann. Vinstra- og miðjufólk verður amk að vit á að standa saman á ögurstundu ef gömlu valdaflokkarnir eiga ekki að sitja að öllum völdum með tilheyrandi sérhagsmunapoti og ráni á auðlindum þjóðarinnar.

 • Benedikt Jónsson

  Gísli Tryggvason. Nákvæmlega. Tek undir hvert orð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is