Föstudagur 23.08.2013 - 15:31 - Rita ummæli

Árnastofnun á leiðinni heim.

Málefni Árnastofnunar munu eftir allt saman ekki heyra undir forsætisráðuneytið. Það mun hafa orðið niðurstaða af fundi forstöðumanns stofnunarinnar og forsætisráðherra. Málefni stofnunarinnar standa samt enn hjarta forsætisráðherra nær.

Gárungar segja að ætlunin hafi verið að flytja einungis ,,vörslustofnanir”  (lesendur fyrirgefa vonandi þetta orðskrípi)  frá menntamálaráðuneyti til forsætisráðuneytis með forsetaúrskurðinum, sem gefinn var út um leið og ríkisstjórnin var mynduð.  Þeir sem hripuðu niður úrskurðinn hafi ekki vitað, eða verið búnir að gleyma að Árnastofnun gætir ekki bara handritanna, heldur er hún ein merkasta rannsóknarstofnun Háskóla Íslands og er í rauninni einn af hornsteinum Háskólans.

Það er ánægjulegt að misskilningur af þessu tagi sé leiðréttur og ekki síður ánægjulegt að Árnastofnun sé komin heim, eða í það minnsta á leiðinni heim.

Auðvitað er það ekki á valdi forsætisráðherrans eins að flytja málefni stofanna á milli ráðuneyta það verður að gera með formlegum hætti. Þó vissulega virðist ýmislegt benda til þess að ráðherrarnir haldi að þeir einir ákveði hina ólíklegustu hluti án þess að fara eftir formlegum leiðum.

Á síðasta kjörtímabili var lögum um stjórnarráðið breytt og auðveldara er nú en áður var að breyta starfsemi ráðuneyta. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið æskileg breyting. Ég viðurkenni hins vegar fúslega að það kom mér á óvart að ríkisstjórnin skyldi á fyrsta fundi sínum nýta lögin svo rækilega sem raun bar vitni.

Undrun mín var kannski ekki síst vegna þess að stjórnarandstaðan hafði á sínum tíma allt á hornum sér varðandi breytingarnar á lögunum og ef ég man rétt fóru tugir klukkutíma í að ræða þær í þinginu. Auðvitað var það samt bara barnaskapur minn að láta þetta koma mér  á óvart. Ég mátti vita að stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili snerist ekki um málefni, hún snerist um völd eða kannski öllu heldur, endurheimt valda.

Rannsóknarskýrslur Alþingis eru lýsing á ótrúlegum og oft óboðlegum vinnubrögðum stjórnvalda. Ríkisstjórnarflokkarnir – gömlu valdaflokkarnir – virðast ekkert hafa lært og böðlast nú um í stjórnkerfinu eins og aldrei fyrr að því er virðist til að leggja upp efni í nýjar skýrslur.

Stjórnskipunarlög og reglur er varða starfsemi hins opinbera eru sett til þess að breyskir menn og konur geti ekki farið með málefni sem varða okkur öll að eigin geðþótta. Við hljótum nú að vænta forsetaúrskurðar um nýja skipan Árnastofnunar í stjórnkerfinu. Spennandi að vita hvort fleira þurfi að leiðrétta – svona eftir nánari umhugsun.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is