Mánudagur 19.08.2013 - 21:43 - 5 ummæli

Ríkisstjórn á fullu

Sumir segja að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt síðan hún tók við.   Ég get nú ekki verið sammála því. Það er mikil óþolinmæði að ætlast til að árangur eða afleiðingar þess sem ákveðið er skili sér strax.

Það á til dæmis við um ánægjulega ákvörðun um að styrkja ungu afrekskonuna Anitu. Styrkurinn auðveldar henni undirbúning undir Olympíuleikana 2016. Vonandi gengur henni sem allra best í íþrótt sinni. Ríkisstjórnin á heiður skilinn fyrir að bregðast fljótt við í þeim efnum.

Þar með er nú reyndar upp talið það sem mér finnst ánægjulegt við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. En það breytir því ekki að ýmislegt hefur verið gert.

Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að lækka virðisaukaskatt á hótelgistingu. Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að lækka veiðigjald á útgerðina. Samtals þýðir þetta nálægt 12 milljarða lækkun á tekjum ríkisins á þessu ári og því næsta frá því sem áður hafði verið áætlað.

Ef ekki má skattleggja atvinnuvegina þá verður að skattleggja einstaklinga í staðinn, nú eða skera niður opinbera þjónustu. Þar er náttúrlega allt undir eins formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur margsinnis sagt okkur. – Afleiðingarnar eða árangurinn af þessum ákvörðunum eiga eftir að koma í ljós.

Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að bæta kjör ellilífeyrisþega. Það vill reyndar þannig til að þessi ákvörðun kemur bara þeim sem skást hafa það að einhverjum notum, en kannski er það bara allt í lagi –eða hvað ?

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og skiptir þá engu máli að ákvörðun Alþingis um aðildarviðræðurnar standi óhögguð.  Enginn veit samt hvort eða hvernig Evrópusambandinu hefur verið kynnt þessi nýja afstaða íslensku þjóðarinnar.

Er það kannski þannig að ráðamennirnir telji að í viðskiptum við önnur lönd geti þeir í kaffi- eða kokkteilboðum einfaldlega sagt að að nú hafi þeir ekki lengur hug á þessu eða hinu og séu barasta hættir þessu samningabrölti. – Halda þeir að einhverjir muni taka þjóð sem þannig stendur að málum alvarlega.

Sannarlega er ég fegin því að utanríkisráðherranum hugnaðist starfsemi Sameinuðu þjóðanna þegar hann kynntist henni nánar. Annars hefði hann kannski sagt einhverjum þar að okkur þætti fremur lítið til SÞ koma og við værum bara hætt í bröltinu þar.

Óneitanlega vaknar spurning um hvernig við ætlum að standa að þróunaraðstoð á meðan stjórnarmeirihlutinn er við völd. Formaður fjárlaganefndar hefur vakið athygli fyrir að vera á móti því – já endurtekið vera á móti því – að við leggjum peninga til þróunaraðstoðar. Og hún er náttúrlega með allt undir, eins og við öll vitum.

Ríkisstjórnin situr ekki aðgerðalaus. Ríkisstjórnin er að undirbúa fjárlagafrumvarpið  – niðurskurðinn og skattalækkanirnar. Fella niður hæsta skattþrepið og afnema auðlegðarskattinn ef marka má það sem ráðamennirnir hafa sagt um þá skattheimtu.

Kjaradómur leiðrétti laun forstöðumanna ríkisstofnanna. Leiðréttingin mun hafa numið meira en 10 % af launum. Menn skulu þó ekki horfa til þess í kjarasamningum segja ráðamenn. Rétt eins og þeir sem lægri hafa launin hafi ekkert látið af hendi rakna til að við héldum sjó eftir hrunið. Skert starfshlutfall, minni atvinna, atvinnuleysi er það ekki neitt ? Þarf ekki að leiðrétta það ?

Eftir hrun hefur jöfnuður aukist á Íslandi. Nú skal breyta því aftur, eins og reyndar öllu, snúa aftur til fyrri vegar.

Skýrslan um Íbúðalánasjóð vakti upp leiðar endurminningar. Endurminningar um lestur skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið. Báðar skýrslurnar bera vitni afleitum stjórnaháttum.

Enginn ber ábyrgð. Skýrslan um efnahagshrunið og aðdraganda þess var ,,stemmningsskýrsla” segir nú einn þeirra sem gegndi lykilembætti fyrir hrun. Öllu  má nafn gefa !

Ballið er rétt að byrja. Ríkisstjórnin er ekki aðgerðalaus.

Orð eru til alls fyrst og þau benda sannarlega ekki til þess að við getum verið áhyggjulaus. Lánshæfi ríkissjóðs hefur versnað, það lýsir engu nema barnaskap þeirra sem eru við stjórnvölin að halda að mótmæli – bréf frá ráðherrum eða aðstoðarmönnum þeirra breyti einhverju um það.

Mikið vildi ég óska að ríkisstjórnin væri aðgerðalaus – það skiptir nefnilega máli hvað er gert.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

 • Haukur Kristinsson

  Jæja, það leynist þó lífsmark með stjórnarandstöðunni.

 • Helgi Viðar

  Aðalsportið hjá þessari ríkisstjórn er að drulla yfir að sem sú fyrri gerði.

 • Þorsteinn Jón Óskarsson

  Já mikið víst. Við hittumst öll á kirkjugarðsballinu í haust.

 • Karl Löve

  Valgerður er ein af örfáum manneskjum sem ég ber virðingu fyrir á Alþingi. Vel orðað hjá þér frú mín góð.
  Þú hefðir mátt ala hann bróðir þinn betur upp þegar þið voruð krakkar..;-) (grín)

 • Kristján Loftur Bjarnason

  Ég er ekki sammála þér að Gunnar hefði sagt SÞ að hann væri hættur í bröltinu þessu er ekki hægt að líkja við aðstæður. ESB atkvæðagreiðsla og við sjáum ekki peningana brenna í eldinum Þjóðinn ræður. Ekki þarf að borga meiri laun fyrir nefndir ef þjóðinn segir nei ! en ef hún segir já þá höldum við áfram fyrir þjóðarbúið hvort sem það er ég aðhiyllist neinu en það er persónuleg ákvörðun mín til ykkar.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is