Fimmtudagur 11.07.2013 - 19:13 - 3 ummæli

Um forsetann og veiðileyfagjaldið.

Ekki kom ákvörðun forsetans um veiðigjöldin á óvart. Forsetinn er ekkert ólíkindatól, hann er sjálfum sér samkvæmur um að gera það sem honum sýnist þegar honum sýnist.

Blaðamannafundur forsetans kom hins vegar nokkuð á óvart. Hingað til hefur mér fundist forsetinn gæta þess að tala ekki niður til fólksins í landinu, þó hann hafi á stundum talað niður til stjórnvalda og löggjafans.

Nú lýsti hann undrun sinni á því að einhverjum hefði dottið í hug að hann mundi ekki staðfesta lögin. Það var ekki nokkur ástæða til að ætla það, samt tók hann á móti þeim sem stóðu að undirskriftasöfnunni á Bessastöðum, þó hann hefði alveg getað látið þá skila undirskriftunum á skrifstofuna. Svona er nú forsetinn alþýðlegur, mátti á honum skilja.

Forsetinn er fyrrverandi fjármálaráðherra, sagð´ann og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði svo hann veit hvað hann er að gera. Ég er nú ekki alveg viss um að það sé vottorð upp á óskeikulleik að hafa gegnt hvoru tveggja virðulegum embættum, en látum það liggja á milli hluta.

Ummæli forsetans við forsvarsmenn undirskriftasöfnunnar um að ekki hafi verið hávær mótmæli við lækkun veiðigjaldsins eru mér umhugsunarefni. Í sama anda voru ummælin á blaðamannafundinum um stuttan ræðutíma um málið í þinginu.

Er forsetinn að mæla bót þeirri stjórnmálamenningu sem ríkti hér á síðasta kjörtímabili? Stjórnarandstaðan beitti málþófi í flestum málum, ekki bara í Icesave og stjórnarskrármálinu. Það jók ekki virðingu Alþingis.

Í einu orðinu tala forsetinn og ríkjandi stjórnvöld um víðtæka sátt og hinu orðinu er ekki nógu mikill hamagangur í andmælum.

Vissulega breytir veiðigjaldið ekki fiskveiðistjórnunarkerfinu, til þess þarf róttækari aðgerðir. Með veiðileyfagjaldinu fær eigandi auðlindarinnar, þjóðin, þó brot af arðinum af hagnýtingu hennar.

Um og yfir 70 % þjóðarinnar er á móti lækkun veiðigjaldsins og kvótakerfinu eins og það er útfært.

Í orðaforða forsetans og hinna nýju valdhafa er „víðtæk sátt“ að 70 % þjóðarinnar láti í minni pokann fyrir skoðunum forsetans og sérhagsmunaafla innan Sjálfstæðis- og Framskóknarflokks.

Grein birt í Fréttablaðinu í morgun 11. júli 2013

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

 • Haukur Kristinsson

  Forseta ræfillinn hefur ekkert lært, Davíð Oddsson hefur ekkert lært, 4-Flokkurinn hefur ekkert lært.
  Þjóðin er mergsogin og villuráfandi. Samfélagið virðist vera of fámennt fyrir siðaða og eðlilega stjórnskipan, því í eigu örfárra manna. Pétur Þríhross og félagar hans. En það er erfitt að bíta í hönd sem brauðfæðir. „Erst kommt das Fressen, dann kommt die Moral“, sagði Brecht.
  Segja má að klakinn sé eitt krummaskuð með fjölmiðla sem reka áróður höfðingjanna og flestir innbyggjarar lafandi hræddir við hagsmuna klíkurnar sem fjármagnið og völdin hafa.

  Of margir svíkja sjálfan sig til að þóknast öðrum.

 • Ykkar baby.

  Krafa ykkar um að forsetinn hafnaði fjölmiðlalögum 2004 gaf honum færi á þessari valdatöku.

  Það hefði ekki gerst án stuðnings ykkar, án þessa póltíska ofsa og blinda haturs.

  Í stað þess að þingið sameinaðist um að koma í veg fyrir þessa ótrúlegu valdatöku kölluðuð þið einræði yfir þjóðina.

  Já það er rétt:

  „Of margir svíkja sjálfan sig til að þóknast öðrum.“

 • Þorleifur H. Gunnarss.

  Það má svo sannarlega segja það, að þetta sé „bad karma“ fyrir vinstraliðið með Samfylkinguna í broddi fylkingar.

  Vinstraliðið kom þessu af stað þegar fjölmiðlalögin svokölluðu enduðu á borði forsetans árð 2004.

  Síðan hefur þessi bjúgverpill sem vinstraliðið kastaði þá, marg sinnis komið í hausinn á því.

  Og nú átti að blóðmjólka, og jafnvel slátra einu mjólkurkúnni með stórhækkuðum veiðigjöldum.

  Stórhækkuð veiðigjöld sem vinstraliðið kallar „sanngjarn arður til þjóðarinnar“ hefði drepið minni útgerðir í landinu, en gert stærstu útgerðirnar ennþá stærri.
  Þetta hefði þýtt fjöldaatvinnuleysi í mörgum sjávarplássum á landsbyggðinni og verðið enn ein aðförin að landsbyggðinni í boði vinstriaflanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is