Föstudagur 10.05.2013 - 23:06 - 13 ummæli

Tveggjamannatal !

Formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram spjalli sínu. Í dag ræddu þeir skuldamálin. Mér heyrðist helst á aðstoðarmanni annars þeirra að sérstaklega hafi þeir ætlað að ræða skuldir ríkissjóðs en líka skuldir heimilanna.

Formennirnir hafa nú setið að skrafi í tæpa viku og eftir því sem best verður skilið eru þeir að safna gögnum. – Mér finnst að fréttamenn ættu að finna út fyrir okkur hvaða gögnum þeir eru að safna.

Varla eru þeir að safna upplýsingum um ríkissjóð. Fyrir kosningar lofaði annar þeirra að lækka skatta. Varla hefur hann gert það án þess að vita um stöðu ríkissjóðs. Varla hefur hann gert það án þess að gera sér grein fyrir að ríkið greiðir á hverju ári 90 milljarða í vaxtagreiðslur.

Getur verið að þeir séu að safna gögnum um skuldamál heimilanna ? Fyrir kosningar lofaði annar þeirra að færa skuldir heimilanna niður um 300 milljarða eða þar um bil. Getur verið að hann hafi gert það án þess að vita hvernig ? Getur verið að hann hafi gert það án þess að kunna galdraformúluna ?

Mér finnst líka forvitnilegt hvað formennirnir skrafa um á meðan gögnum er safnað. Ég hef mikla samúð og skilning á því að menn verða að fá tíma til að vinna verk, tíma til að skrafa. En tæp vika er nokkuð langur tími án þess að nokkur vísbending sé um hvort vænta megi árangurs af spjallinu.

Óneitanlega er líka nokkuð sérkennilegt að formennirnir sitji einir á spjalli.

Oddvitaræði eða foringjaræði hefur einkennt stjórnmál hér að landi undanfarna áratugi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er felldur áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum.

Ef spjallið ber árangur eru líkur á að 36 alþingismönnum verði boðið að borðinu í næstu viku. Munu þeir þá geta lagt eitthvað til málanna eða verða formennirnir búnir að bindast fastmælum um hvernig kaupin eiga að gerast á eyrinni.

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskipan var hlutverk þingsins við stjórnarmyndun stóreflt. Samkvæmt tillögunum á þingið að kjósa forsætisráðherra. Við slíkt fyrirkomulag væri að ég held óhugsandi að halda þingmönnum algerlega utan við viðræður um stjórnarmyndun og sitja á tveggja manna spjalli svo dögum skipti.

Varnaðarorð eins og þau sem fram komu í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar mega sín lítils. Foringjar, oddvitar, formenn eða hvaða nafni þeir nefnast fellur foringja- eða oddvitaræði vel. Til að breyta hegðun þeirra þarf að breyta kerfinu. – Því miður hefur það ekki tekist enn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Kristján Elís

  þetta er kjarni málsins. Tveir menn á spjalli, er þetta lýðræðið sem við erum að sækjast eftir?

 • Margret S.

  Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað (höfuðstóllinn) um hundruðir milljarða, held að það séu nú um 500 milljarðar, frá hruni. Þegar það er verið að ræða einhverja leiðréttingu til heimilanna þá finnst mér að þetta þurfi að hafa í huga. Mér finnst ekkert skrítið að formennirnir ræði saman og kanni hvort þeir geti náð saman um málefnin. Ef of margir koma að borðinu fyrstu dagana þá verður þetta bara fuglabjarg. Þið sjáið hvernig alþingi er, fólk gjammandi uppi hvert annað og engin góð málefni ná fram vegna ósamstöðu. Samfylkingin stóð bara með sumum heimilum. Fólk horfði upp á óréttlætið, það var ekki í rétta hópnum til að fá leiðréttingu þótt að það hafi tapað áratuga striti. Þess vegna tapaði SF stórt í kosningunum. Það var mismunun og óréttlætið sem olli því.

 • Talandi um „Oddvitaræði eða foringjaræð“ en það er akkurat eitt af mörgum vondu sem þið náðuð að toppa í þessarri ömurlgegu helfararstjórn. Eintómar hótanir, hatur og sundurlyndi var aðal einkenni á ykkar vinnubrögðum.

 • Þeir gætu til dæmis lækkað þennan fáránlega sykurskatt, og fleiri slíka sem þið settur á í ykkar tíð Valgerður mín. Annars vona ég að eitthvað vitrænt komi út úr þessu, er sammála Margréti hér að ofan, að það er betra að menn tali saman og skoði hvað er í stöðunni, áður en vaðið er lengra. Það er ýmislegt reyndar sem ég óttast við þessa ríkisstjórn eitt af því er sjávarútvegsmálin, en ánægð yfir öðru svo sem að sennilega munu þeir stoppa af ESB umsóknina og komin tími til.
  Ætla samt að þakka þér þín góðu störf, þó þau hafi drukknað í aðgerðum/aðgerðarleysi félaga þinna í ríkisstjórninni.

 • Kári Jónsson

  Við getum þakkað Árna Páli, Katrínu Jakops og Guðmundi Steingríms, að vísu eftir að kvislingar SF og VG sýndu sig á eftirminnanlegan hátt í lok þingsins, þrátt fyrir að allar nefndir þingsins væru búnar að skila vinnu sinni um nýja-stjórnarskrá (við værum komin einu skrefi lengra). Það er pínku klént að tala um foringjaræði í öðrum flokkum, þegar þingflokkar SF og VG greiddu atkvæði með eða sátu hjá við glórulausu útspili ÁPÁ. Hinsvegar er það góðs viti að þú (Valgerður) haldir áfram að vinna að framgangi nýrrar-stjórnarskrár, það er lífsspursmál fyrir almenning á landinu-góða, að öðrum kosti munu búa tvær þjóðir í landinu og það veit EKKI á gott.

 • Anna María

  Góð skrif Valgerður.
  Mig grunar að félagarnir séu í vandræðum. Þeir vita ekkert hvernig þeir eiga að snúa sig út úr kosningaloforðunum. Mig grunar að allar þær lýðræðisumbætur sem reynt var að koma á á síðasta kjörtímabili verði að engu. MIg grunar að næsta yfirlýsing verði að það hafi ÓVÆNT komið í ljós að ekki sé hægt að standa við loforðin um neitt annað en að lækka skattana á þá tekjuhæstu.
  Mig grunar að við fáum engar breytingar á áratugalöngum kvótaþjófnaðinum og mig grunar því miður að við stefnum í annað hrun á allra næstu árum.

 • Sigurður Þorsteinsson

  Valgerður vill að sjálfsögðu að þeir Bjarni og Sigmundur leiti í smiðju hennar hvernig svíka eigi Íslensku þjóðina. Þar er reynslan.

  1. Valgerður lofaði þjóðinn i nýrri stjórnarskrá. Að sjálfsögðu stóð það aldrei til, enda málið lagt fyrir þingið á síðustu dögum þingsins. Í stríði við fræðasamfélagið, allt og alla.

  2. Valgerður lofaði ESB. Aðvitað stóð það aldrei til. Sú vegferð var bara farin til þess að forðast að takast á við aðstefðjandi vanda.

  3. Valgerður sagði stöðu þjóðarbússins afar góða, sem nú kemru í ljós að voru blekkingar. Staðan er háalvarleg og nú kvartar hún undan því að þeir Bjarni og Sigmundur hafi gefið lofoð byggð á röngum upplýsingum síðustu ríkisstjórnar.

  4. Valgerður tók þátt í loforðum um skjaldborg fyrir heimilin í landinu, sem hún síðan tók þátt í að svíkja.

  5. Valgerður samþykkti Svavarssamninginn sem getur vart flokkast undir annað en þjóðníð. Hefði sett Island endanlega á hausinn.

  Var það fleira sem frú Valgerður vildi segja okkur. Ekki meir, ekki meir.

 • Alma Jenný Guðmundsdóttir

  ,,Staðan er slæm“ – segja þeir. Það vissi hver meðalmanneskja að það tæki meira en 4 ár að koma ríkiskassa á blússandi sving eftir 10. stærsta hrun í heimi – ekki miðað við höfðatölu, takið eftir.
  Það hefur eiginlega skelft mig að þeir tveir formenn stjórnmálaflokka, þar sem rekstur fyrirtækja annars hafa lent í tæknilegu gjaldþroti – og tveir aðstoðarmenn sem ég veit ekki til að séu sérstakir reiknimeistarar og ráðgjafar í slíkum vanda, skoði stöðu án þess að kalla til sérfræðinga……. Algerlega út í hött.

  Takk fyrir pistil Valgerður.

 • Kristjan Erlings

  Valgerður?. Það góða er, að þú ert ekki með puttana í því. Er það ekki meira eða minna ástæðan fyrir þínum skrifum að þú vilt hafa með það að gera? Öfund er slæm tilfinning. Hvað vilt þú? Meir af hinu góða eða minna af því vonda?

 • Guðmundur Aðalsteinsson

  Það hefur vantað nafn á fráfanrandi stjórn

  Steini M. kom með HELFARARSTJÓRN það finnst mér passa vel.

 • Sigurður Þorsteinsson

  Guðmundur Aðalsteinsson, þú verður að fylgjast með. Helfararstjórnin er að fara frá… og kemur aldrei aftur.

 • Ragnheiður

  Sigurður þorsteinsson Það eru menn eins og þú sem eruð að eyðileggja athugasemdakerfin. Geurðu ekki fengið þér eitthvað uppbyggilegra að gera þar sem þú hefur ekkert málefnalegt fram að færa.

 • Sigurður

  Það er nú bara þannig Valgerður, að þið endurreistuð allt sem við þurftum að losna við.

  Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn.

  Glæpsamlegt fjármálakerfi, sem engum lögum hlíðir.

  Hlutabréfa og fasteignabólu ásamt því að ykkur tókst að toppa gjaldrot Seðlabankans með því að skuldbinda Landsbankann til að greiða þrotabúinu 300 niljarða króna í erlendri mynt.

  Aðgerð sem ekki nokkur lifandi maður skilur hvernig varð til, og er nú að reka Landsbankann,og reyndar ríkissjóð lóðbeint í greiðsluþrot.

  Vel gert!!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sjö? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is