Föstudagur 03.05.2013 - 20:46 - 4 ummæli

Ekki fréttir um stjórnmál.

Sannarlega er ég sammála þeim í Bjartri framtíð og öðrum sem hafa lagt áherslu á að nauðsynlegt er að breyta umræðuhefðinni í stjórnmálum.

Það er nú samt örugglega hægara sagt en gert – rétt eins og flest annað sem horfir til bóta.

Ég orða þetta þannig vegna þess að þetta er verkefni sem stjórnmálamennirnir ráða ekki við einir – frekar en flest annað.

Stjórnmálamenn eru nefnilega hluti af þjóðfélaginu en ekki eitthvað einangrað fyrirbrigði mannfólks, sem getur ákveðið að hlutirnir séu á einn veg aða annan. Nú veit ég að einhverjir hugsa: Jæja, ætlar kerlingin nú að fara að afsaka sig og sína, skjóta sér undan ábyrgð og segja að allt sé öðrum að kenna en henni og hennar líkum?

Trúi því hver sem vill en svo er alls ekki.

Auðvitað er stjórnmálamenningin að miklu leyti á ábyrgð stjórnmálamanna. Þeir sem fjalla um stjórnmál, greina og matreiða verða þó einnig að líta í eign barm.

Nú fara fram viðræður á milli forystu stjórnmálaflokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það er ljóst að formaður Framsóknarflokksins sem hefur umboðið vill ekki flana að neinu. Hann vill ræða málin og finna út hverjir eiga samleið.

Að sjálfsögðu getur það tekið nokkra daga og að sjálfsögðu vill maðurinn ekki gera það í beinni útsendingu.

Fréttamiðillinn sem ég nota mest, Ríksútvarpið, virðist samt hafa lítinn skilning eða allavega skrítinn skilning á þessu.  Ef ég vissi ekki betur þá héldi ég að menn væru að lýsa einhvers konar síðastaleik.

Sigmundur Davíð er‘ann og svo klukkar hann fólk. Sá sem hann klukkar verður‘ann samt ekki, en halda mætti að sá safnaði stigum. Sigmundur Davíð hleypur stigann, Bjarni faðmar samflokksmenn og Katrín Jak. drekkur kaffi. – Þessar fréttir eru fluttar aftur og aftur.

Sigmundur og Bjarni tala saman í meira en klukkutíma og svei mér jafnvel lengur en tvo. Katrín og Sigmundur tala saman í símann – og það að kvöldi til.  Spennan er yfirþyrmandi.

Af hverju í ósköpunum fær fólkið ekki frið til að vinna vinnuna sína?.  Sigmundur hefur sagt að sér liggi ekki lífið á.

Hvaðan kemur þessi árátta fréttamanna að lýsa stjórnmálunum alltaf eins og kappleik. ,,Hér ríkir mikil spenna“ er líklegast sú setning sem oftast heyrist í fréttum frá Alþingi.  Sjaldan er talað um málefni.

Stjórnmálamenn þurfa vissulega að taka sig á, en það þurfa fréttamennirnir líka. Það er ekki frétt að einn komi inn um aðaldyr með kaffibolla og annar fari út um bakdyr með engan kaffibolla.

Fréttin af viðræðunum er að Sigmundur Davíð virðist leggja höfuð áherslu að finna einhvern sem er tilbúinn að fara með honum í Framsóknarleiðangurinn sem hann boðaði fyrir kosningar, og enginn virðist hafa gefið sig fram – ekki enn sem komið er að minnsta kosti.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Réttmæt og ágæt lýsing á þeirri dapurlegu fjölmiðlun sem viðgengst á Íslandi.

  • Íþróttafréttir eru þægilegar, styggja engan. Þar er rúv á heimavelli.

  • Benedikt Jónsson

    Eins og talað útúr mínu hjarta. Íslenskir frétta- og blaðamenn eru alltaf að leita að sensasjón og skúbbi, en forðast eins og heitan eldinn að miðla upplýsingum og greina þær. Af hverju er þetta lið ekki sent í læri til BBC eða annarra alvöru fjölmiðla?

  • Valgerdur, eg verd nu ad vidurkenna eitt. Eg tilheyri kynslodinni sem thekkir ekkert annad en ad stjorn se myndud strax eftir kosningar. I naestum viku hofum vid haft starfandi umbodslausa stjorn. Thannig thetta er athyglisvert og nytt fyrir mer.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is