Föstudagur 26.04.2013 - 01:02 - 2 ummæli

Feimni við valdið – mistök sem ekki verða endurtekin.

Í október síðastliðinn, nánar tiltekið þann tuttugasta var þjóðaratkvæðagreiðsla.  Helmingur þjóðarinnar mætti og 73 % sögðust vilja nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðsins.

Stjórnmálaflokkarnir sem nú skora hæst í skoðanakönnunum virða vilja fólksins  að vetturgi. Þeir þykjast betur til þess fallnir að semja stjórnarskrá en fólkið í landinu.

Það er óþarfi að endurskrifa eða endurbæta mannréttindakaflann, er sagt. Það er víst vegna þess að það er svo stutt síðan honum var bætt við stjórnarskrána. – Það eru átján ár, kannski finnst rúmlega fertugum það stuttur tími – ég rúmlega sextug skil að það er langur tími. Fólkið sem kosið var á stjórnlagaþing, í kosningum sem ekki tengdust stjórnmálaflokkum, komst að þeirri niðurstöðu að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar væri gamaldags.

Að einhver sé á annarri skoðun en atvinnustjórnmálamenn skiptir Framsókn og Sjálfstæðisflokk engu. Þau eru vön að ráða  og áfram skulum við ráða án þess að spyrja fólkið. Spyrjum bara hvað þeim finnst í Valhöll og á Hverfisgötunni. – Fyrst og síðast: engar breytingar nema á okkar vakt.

Þau ætla að afnema veiðigjaldið og halda áfram að berjast gegn því að það verði staðfest í stjórnarskrá að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar.  13 milljarðar sem koma af veiðigjaldinu þurfa þá að koma annars staðar frá – hvaðan ? Hvað ætla þeir að skera niður til að hafa efni á því ?

Þau ætla að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þau ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það einhvern tímann á kjörtímabilinu. Tvær spurningar vakna. Í fyrsta lagi verður atkvæðagreiðslan haldin?  Í öðru lagi verður farið eftir henni ? – Hvernig er hægt að treysta þessu fólki til að fara að þjóðaratkvæðagreiðslum ?

Sagt er að Samfylkingin hafi svikið í stjórnarskrármálinu. Það er ósatt.  Samfylkingin leiddi málið á þingi í öflugu samstarfi við Vinstri græna og Hreyfinguna.  – Andstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var hreint og beint ótrúleg. Þeir reyndu ýmist að þegja eða hóta því að tala bara til að koma í veg fyrir að málið kæmi til afgreiðslu. – Af hverju. Jú, vegna þess að þau voru ekki í bílstjórasætinu. Ekkert skyldi gert – engar framfarir skyldu leyfðar í landinu, af því að þau voru ekki í bílstjórasætinu.

Þau sem stjórnuðu landinu á þann veg að það lá við þjóðargjaldþroti haustið 2008.  – Lesið skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar er öll sagan sögð. – Og nú er hætta á að þessi öfl taki aftur við stjórn landsins.

Svo skrítið sem það hljómar, þá held ég að skýringu á örlögum stjórnarskrármálsins á þinginu sé að finna í því að stjórnarflokkarnir – við í Samfylkingunni og Vinstri græn – voru feimnir við valdið.

Auðvitað er það göfug hugsun að keyra ekki breytingar á stjórnarskrá í gegnum þing með naumum meiriluta. Að mínu mati var það hins vegar ekki rétt hugsun. Við hefðum átt að láta reyna á að ná þó ekki væri nema ákvæði um þjóðareign á auðlindum í gegn. Við hefðum jafnvel átt að láta keyra okkur upp á sker með það ákvæði. Hafa nafnakall, láta öllum vera ljóst hver voru með og hver á móti.

Ég er sammála Bjartri framtíð, það þarf að breyta stjórnmálamenningunni. Ég er sammála Brigittu það þarf að breyta þingsköpunum. Þangað til okkur hefur tekist hvort tveggja, megum við ekki vera feimin við valdið.

Það voru stóru mistökin held ég að vera feimin við valdið. Þau mistök verða ekki gerð aftur. Um leið og það er sagt má ekki gleyma því hve vald er vandmeðfarið. Eins og í lífinu öllu verður að finna þar jafnvægi. Þá má ekki og á ekki að misbeita valdi, en þeim sem falin er forsjá á einhverju mega hins vegar ekki vera hrædd við að nota valdið þegar það á við.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

 • Þórður Eggert Viðarsson

  Að ná hvorki stjórnarskrármálinu né stóra kvótafrumvarpinu í gegn er aumingjaskapur, leyfi mér að nota það orð.
  Til hvers að hafa meirihluta og vilja ekki nota hann. Til hvers halda þingmenn að þeir séu kosnir? Til að breyta hlutum EKKI til batnaðar?

  Að koma núna, kortéri fyrir kosningar og aula þessu á blað er fyrir neðan allar hellur!!
  Tækifæri vinstri stjórnar er farið og sporin sem hún markaði eru dauf, aðallega sundurlyndi og hringlandaháttur sem stendur upp úr í minningunni hjá kjósendum, því miður.

  Mun ekki kjósa núverandi stjórnarflokka í bráð!

 • Heldur seint í rassinn gripið, það er fullreynt.
  Get ekki hugsað mér nú né nokkurntímann aftur að kjósa fjórflokkinn aftur þar er bara samtryggingin og spillingin uppmáluð.
  Svona fyrir utan þig og nokkra aðra.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is