Þriðjudagur 23.04.2013 - 17:53 - 8 ummæli

Rústabjörgun eða flórmokstur ?

Ef vel væri á stjórnmálaumræða fyrst og fremst að snúast um framtíðina.  Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að ég fell iðulega í þá gryfju þessa dagana að fjalla um fortíðina.

Stundum er nefnilega engu líkara en fólk hafi gleymt hvernig ástandið var fyrir fjórum árum þegar nýr þingmeirihluti varð til á Alþingi og ný ríkisstjórn var mynduð

Þjóðfélagið var á barmi gjaldþrots. Bankakerfið hrundi og tók allt efnahagskerfið með sér í fallinu. Fyrst um sinn jafnvel óvist hvort gjaldeyrir fengist fyrir lyfjum hvað þá öðru sem er okkur mannfólkinu minna nauðsynlegt.

Starfi ríkisstjórnarinnar hefur ýmist verið líkt við rústabjörgun eða flórmokstur. Fyrra orðið virðist mér vísa til þess að í efnahagslífinu hafi orðið einhverskonar náttúruhamfarir, eitthvað sem enginn mannlegur máttur gat ráðið við eða forðað. Seinna orðið vísar til þess að illa hafi verið gengið um og að viðfangsefni stjórnmálanna síðustu fjögur árin hafi verið þrífa eftir slæma umgengi í efnahagslífinu í mörg ár.

Af lestri skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis verður varla annað ráðið en að réttara sé að nota síðara orðið en hið fyrra. Verkefni stjórnmálanna og ríkisstjórnarinnar undanfarið kjörtímabil hafi sem sagt verið flórmokstur en ekki rústabjörgun.

Auðvitað er svona leikur að orðum ekki einhlítur. Það er t.d. ljóst að hag heimila og fyrirtækja verður miklu frekar líkt við að hafa lent í hamförum en að hafa runnið og dottið í flórinn. Ég hef svo sem aldrei dottið í flór en ég tel mig vita að af því verður enginn marinn og blár og bein brotna ekki.

Hagur heimila og fyrirtækja rústaðist – fyrirtæki og heimili eru marin og blá. Sóðaskapur stjórnmálanna birtist heimilum og fyrirtækjum sem hamfarir.

Þó fjögur og hálft ár séu liðin frá því ósköpin dundu yfir og mikið hafi áunnist við að reisa efnahagslífið við þá er enn mikið verk óunnið. Fjögur og hálft ár eru einfaldlega ekki nægur tími til að ljúka verkinu.

Vafalaust hefði mátt gera ýmsa hluti öðruvísi en gert var, þannig er það alltaf þegar horft er yfir veg.

Fjárlagahallinn var minnkaður úr 217 milljörðum í 3,6 milljarða.  Í þessum niðurskurði var reynt að hlífa heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu umfram annan ríkisrekstur.

Skattar voru hækkaðir. Skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hefur þyngst, en skattbyrði þeirra sem lægri hafa tekjurnar hefur lést.  Ójöfnuður ráðstöfunartekna er nú helmingi minni en hann var árið 2007.  Það ár var vitleysan mest og líka ójöfnuðurinn.

Ýmislegt hefur verið gert til að reyna að létta undir með heimilunum. Hundrað milljarðar í vaxta- og barnabætur. Tvöhundruð milljarðar vegna breytinga á gengilánum og með 110 % leiðinni. – Samt er þetta ekki nóg. Þess vegna þarf að gera meira fyrir þau sem réðust í húsnæðiskaup síðustu árin fyrir hrun. Þá var fasteignaverð í hæstum hæðum. Húsnæðið hefur fallið í verði og lánin stökkbreyst. Hrakfarir þessa hóps eru meiri en annarra og þess vegna þarf nú að líta sérstaklega til þess hvernig hægt er lina fjárhagslegan sársauka þessa fólks.

Öll þurfum við að átta okkur á því að við erum öll verr sett en við vorum fyrir hrun. Við – og ég á þá við þjóðfélagið allt – héldum veislu fyrir peninga sem við áttum ekki. Það er auðvitað ekki hægt, ekki einu sinni í stuttan tíma hvað þá til lengdar. Þeir tímar koma ekki aftur á næstu árum og kannski ekki áratugum.

Við þurfum líka  að átta okkur á því að það er lítill vandi að standa þannig að málum að gera þann árangur sem náðst hefur að engu. Nú vilja þeir komast til valda sem héldu ekki við vegum og veittu ekki fjármunum til tækjakaupa á spítölum meðan peningarnir voru til. Og þeir láta sem ófarirnar sem hér urðu hafi verið þeim óviðkomandi.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að kjósendur ætli að veita sérhagsmunaflokkunum slíkt brautargengi að þeir ráði hér lögum og lofum næstu árin.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Haukur Kristinsson

  Pistlar Valgerðar Bjarna minna á að ekki sé öll von úti um alvöru flokk social democrata, jafnaðarmanna, í okkar framsjalla-bananlýðveldi.

 • Meira en 100 breytingar á sköttum á heimili og fyrirtæki.

  Engar breytingar á sköttum á banka og slitastjórnir.

  Norræn velferðarstjórn!

  Meira að segja Árni Þór Sigurðsson viðurkennir að stjórn sósíalista og „jafnaðarmanna“ hafi gengið erinda fjármagnsins en hundsað kröfur um að heimilunum yrði komið til varnar.

  Endalausar skattahækkanir á heimlin og fyrirtækin.

  Engar á bankaauðvaldið.

  Kaupmáttur heimilanna þurrkaður út með endalausum hækkunum á sköttum og opinberum gjöldum.

  Á meðan hagnast bankar um milljarða og starfsfólk fær bónusa fyrir að ganga að heimilunum og öðrum skuldurum.

  Það verður grafskrift þessarar hörmulegu ríkisstjórnar.

  Samfylkingin hefur verið í stjórn í sex ár, frá 2007.

  Hvernig hefur hagur ykkar breyst?

  Hvernig finnst ykkur hafa gengið?

 • Depurð flórmokarans nístir í merg og bein og laun heimsins eru vanþakklæti og fáir njóta eldanna og allt það en að gleyma skjaldborginni um heimilin var ófyrirgefanlegt og náðarhögg fyrstu vinstri stjórnarinnar sem náði með harmkvælum að klára heilt kjörtímabil. Fari hún í friði.

 • Þið misstuð allan trúverðugleika þegar þið reynduð að koma Icesavesamningnum hans Svavars í gegnum þingið. Hvernig í ósköpunum datt ykkur í hug að gera Íslandi þetta?

 • Haukur Kristinsson

  Karl (22:18). Dýrasti Icesave samningurinn var sá sem lagður var upp á vegum ríkistjórnar Geirs Haarde og sem Bjarni Ben mælti fyrir á Alþingi fyrir árslok 2008 (um 13,4% af vergri landsframleiðslu).
  Kostnaður fyrri Svavars-samningsins, sem ýmsir hægri róttæklingar hafa útmáð sem „afleik aldarinnar“ var rétt rúmlega helmingur af Haarde-Mathiesen samningum, en „Ex-convict“ Baldur Guðlaugsson var formaður þeirrar samninganefndar.
  Icesave IIB kostaði minna en helmingur af tapi Seðlabanka Davíðs, vegna ástabréfa-lánanna til banka, sem hann sagðist eftirá hafa vitað að væru á leið í þrot.
  Buchheit-samningurinn hefði einungis kostað ríkissjóð 2,8% af vergri landsframleiðslu eins árs.

 • Haukur það var engin Icesave samningur gerður á vegum ríkisstjórnar Gaeirs Haarde, ef samningur hefði verið gerður þá hefði hann þurft að fara fyrir Alþingi – og það var aldrei gert.

  Svavarssamningurinn var aftur á móti lagður fyrir þingið og þingmenn Samfylkingarinnar voru tilbúnir að skrifa undir hann ólesinn.

  Buchheit samningurinn hefði mátt samþykkja enda skipti hann litlu til eða frá. Svavarssamningurinn var aftur á móti efnahagslegar hamfarir með áætluðum álögum (frá Fjármálaráðuneytinu) uppá 450 milljarða í erlendum gjaldeyri.

 • Samfylkingin er búin að vera við stjórn í sex ár og sigld skútunni nánastí þrot. Einkennilegt að hrósa sér af þessum „árangi“.

  Framtíðarsýn um að flytja stöðuleikann inn frá Evrópu er tálsýn sem allir sjá í gegnum. Upptaka evru tekur t.d 7-10 ár.

  ES Virðingarvert er að hafa opið fyrir athugasemdir.

 • SF bjargaði ´fjármagnseigendum og leysti útrásarvíkinga úr snörum.
  Heimilin sita eftir í „umsátri“ í stað „skjaldborgar“ og svo eru þau hissa að við skulum ætla að kjósa með heimilum okkar!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is