Föstudagur 7.3.2014 - 17:36 - 2 ummæli

Flóttinn mikli

Augljóst er að viðbrögð fólks við gerræðistillögu utanríksráðherrans um að slíta samningaviðræðum við Evrópusambandið kom forystumönnum ríkisstjórnarinnar í opna skjöldu. Þeir eru því á harða hlaupum undan eigin orðum og gjörðum. 

Forystumenn ríkisstjórnarinnar eiga í erfiðleikum með að muna hverju þeir lofuðu. Þeir fiska upp orð eins og ómöguleiki og framfylgjanlegt til að segja að þeir geti ekki farið að vilja meirihluta fólks. – Þetta áttu þeir að sjá fyrir. Og láta innantóm loforð eiga sig.

Svo þvarga þeir um hvort hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort einhver sé bundinn af henni og af hverju var ekki löngu búið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki mjög gagnlegt í umræðunni, en hentar þeim sem eru á flótta undan sjálfum sér.

Strax við upphaf klúðursins sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að áður en hægt yrði að halda þjóðaratkvæðgreiðslu þyrfti að breyta stjórnarskránni. Forsætisráðherrann, formaður Framsóknarflokksins, endurtók þennan vísdóm nú í vikunni.

Ætla þeir að beita sér fyrir breytingu á stjórnarskránni ? Trúir því einhver að þeir ætli að gera það ?Treystir einhver loforðum þessara manna ?

Svo er það röksemdin að ekki hafi verið samþykkt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsóknin var lögð fram. Látum vera að samkvæmt fyrri röksemdinni um ákvæðið í stjórnarskránni er illskiljanlegt hvernig það átti að vera hægt, það er nú svo að menn grípa til þess sem hendi er næst.

Fyrir kosningar 2009 var það skýr stefna Samfylkingarinnar að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu og að þegar samningur lægi fyrir yrði hann borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er bjargföst skoðun mín að okkur er betur borgið í sem nánustu samstarfi við aðrar þjóðir en með mikilmennskutilburðum eins og þeim að við eigum að hafa allan heiminn undir, semja við Kínverja, Indverja, austur og vestur.  Samningurinn um EES var heillaspor. En við erum skör lægra en samstarfsríkin sem eru innan ESB. Við höfum ekki aðgang að fundunum þar sem ákvarðanir sem við innleiðum í okkar löggjöf eru teknar.

Það er í besta falli barnaskapur að halda því fram að við getum aukið áhrif okkar með því að fjölga starfsfólki í Brussel. Sjáið norsku skýrsluna um áhrif Norðmanna, sem eru með her manns í Brussel, hangandi á hurðarhúnum leitandi frétta af fundum sem þeim er ekki boðið á.

Umræðan um Evrópusambandið eðli þess og starfshætti er og hefur verið með þeim hætti að fólk getur ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvort okkur er betur borgið innan þess eða utan nema að samningur liggi fyrir. Það var mín skoðun árið 2009 og sú skoðun hefur bara styrkst undanfarna daga.

Þess vegna var fráleitt að leysa innanflokksdeilur Sjálfstæðisflokksins með því að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um að leggja fram umsókn sumarið 2009. Þeir verða að leysa sínar deilur sjálfir, þurftu það þá og þurfa það nú. 

Grein sem birtist í DV í dag 7.mars.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 28.2.2014 - 19:38 - 2 ummæli

Er bannað að skipta um skoðun ?

Er ekki allt í lagi að skipta um skoðun ? Jú, auðvitað er bæði sjálfsagt og eðlilegt að gera það.  Ef þú ert að vasast í stjórnmálum þá skiptir hins vegar svolitlu máli hvernig og hvenær þú gerir það. Það skiptir líka máli, þó það þyki kannski svolítið skrítið, um hvaða skoðun þú skiptir.

Það er síður en svo ámælisvert að einhverjir sem einhvern tímann töldu að skoða ætti hvort heillavænlegt væri að Íslendingar tækju upp Evru hafi skipt um skoðun í þeim efnum. Mér finnst að vísu nokkuð óskiljanlegt að menn láti af þeirri skoðun, en að það sé ámælisvert, nei alls ekki.

Það er heldur ekki ámælisvert þó einhverjir sem einhvern tímann töldu að aðild að Evrópusambandinu gæti verið valkostur fyrir íslenska þjóð, telji það ekki lengur. Ég er að vísu annarrar skoðunar, en ég get ekki og hef ekkert leyfi til að hallmæla öðrum fyrir það.

Auðvitað er hægt og getur jafnvel verið svolítið freistandi að rifja upp, núa mönnum um nasir eða hvað við viljum kalla það að þeir hafi eitt sinn verið á annarri skoðun en þeir eru núna. En það hefur lítið upp á sig annað en að einhvers konar stríðini, sem getur auðvitað verið skemmtileg og staðið fyrir sínu.

Lofi fólk því hins vegar fyrir kosningar að taka ekki einhverjar ákvarðanir án þess að spyrja fyrst í öðrum kosningum þá finnst mér óheiðarlegt og um leið ámælisvert efna ekki til þeirra kosninga – m.ö.o. það er óheiðarlegt og ámælisvert að svíkja slíkt loforð. Mér finnst líka bæði óheiðarlegt og ámælisvert að snúa út úr því sem var sagt eða lofað.

Af skoðanakönnun sem birt var í morgun er ekki annað að sjá en að ég sé ekki ein um þessa skoðun. Áttatíuogtvö prósent þeirra sem spurð voru vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram viðræðum um aðild að Evrópusambandinu eða slíta þeim.

Það er ekki endilega vegna þess að allt þetta fólk vilji að viðræðunum sé haldið áfram. Einhverjir geta sannarlega verið á móti því. Einhverjir vilja ábyggilega að þær séu settar á ís og enn aðrir að þeim sé slítið. En fólk vill vera spurt. Allt annað eru svik sérstaklega auðvitað við þau sem kusu sjálfstæðis- eða framsóknarflokk í síðustu kosningum.

En þetta eru líka svik við okkur hin. Þetta eru svik við það fólk sem vonaði og hélt að stjórnmál af þessu tagi heyrðu fortíðinni til.  Búsáhaldabyltingin var nefnilega ekki bara um að ríkisstjórnin sem þá sat færi frá, hún var krafa um breytta stjórnarhætti.

Hún var krafa um að við sem sækjumst eftir trausti til að starfa fyrir fólkið í landinu okkur stöndum við það sem við segjum. Krafa um að við misförum ekki með valdið sem okkur er falið. Seljum ekki banka í hendur vildarvina, horfum ekki í hina áttina þegar þegar vildarvinir stefna fjárhag ríkisins í hættu. Krafa um að hlustað sé jafnt á Jón og séra Jón.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð veltu sumir því fyrir sér hvort ekki væri óheppilegt að enginn ráðherranna hefði setið í ríkisstjórn fyrr. Hvort ekki væri óheppilegt að enginn ,,með reynslu” sæti við það borð.  Ég var annarrar skoðunar, hélt að það gæti einmitt verið bráðhollt að nýir siðir og venjur mynduðust við það borð. Nú held ég að ég hafi haft rangt fyrir mér.

Einhver ,,með reynslu” hefði líkast til bent á að sá tími er löngu liðinn að forsætisráðherra hafi skúffu fulla af peningum, sem hann úthluti úr hátt í tvöhundruð milljónum að eigin geðþótta. Einhver ,,með reynslu” hefði kannski líka bent á að aldrei fyrr hefur setið ríkisstjórn sem hefur lofað fólki því að það yrði spurt áður en eitthvað yrði gert.

Kannski er það bara af því að slíkt loforð hefur aldrei verið gefið fyrr að viðbrögðin við svikunum koma ríkisstjórninni á óvart. Kannski er það þess vegna sem þau halda að gömlu útúrsnúningaviðbrögðin dugi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.12.2013 - 09:06 - 9 ummæli

Gerðist ekkert hér ?

Í umræðum um stjórnmál þessa dagana virðist stundum eins og að verkefnin sem glímt var við á síðasta kjörtímabili hafi verið ósköp venjuleg. Í sölum Alþingis má gjarnan heyra þreytuandvarp þegar rifjað er upp að haustið  2008 rambaði íslenska ríkið á barmi gjaldþrots. Sú var hins vegar staðreyndin og verkefni síðustu ríkisstjórnar var að moka þann flór. Sannarlega vanþakklátt hlutverk.

Í útvarpsþætti um helgina sagði varaformaður sjálfstæðisflokksins eitthvað á þá leið að síðasta kjörtímabil hefði verið erfitt fyrir alla flokka á Alþingi. Þetta var svar við staðhæfingu um að stjórnarandstaðan hefði þá verið einstaklega óbilgjörn og óvægin.

Þetta situr í mér og ég velti fyrir mér hvað var svona erfitt fyrir stjórnarandstöðuna á síðasta kjörtímabili. Eina niðurstaðan sem ég kemst að er sú, að það hafi verið erfitt að vera í stjórnarandstöðu. Með öðrum orðum: Það var bara erfitt að vera ekki við stjórnvölinn.

Enda var það líka svo að á síðasta kjörtímabili lagði stjórnarandstaðan höfuðáherslu á að tefja fyrir þingstörfum og koma í veg fyrir að mál næðu fram að ganga. Enda er það líka svo að þegar rætt um hvernig  gera hefði átt hlutina á síðasta kjörtímabili þá er svarið ávallt að það hefði átt að fara þá leið sem sjálfstæðisflokkurinn lagði til.

Það hefði átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en umsókn um aðild að Evrópusambandinu var lögð fram. Bíðum nú við, hvers vegna ? Til þess að sjálfstæðismenn gætu barist gegn því og umsóknin hefði aldrei verið lögð fram.

Það hefði ekki átt að ráðast í heildarendurskoðun á stjórnarskránni eins og stjórnlagaráð lagði til og tveir þriðju hlutar kjósenda samþykktu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Bíðum nú við, hver vegna? Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn vildi það ekki, að minnsta kosti ekki á meðan hann var ekki við stjórnvölinn.

Það hefði ekki átt að taka upp þrepaskiptan tekjuskatt. Bíðum við, hvers vegna ekki ? Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn er á móti þrepaskiptum tekjuskatti. Vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn er því andvígur að þeir sem meira hafa leggi meira til samfélagsþjónustunnar en þeir sem minna hafa.

Það þurfti að lækka veiðigjaldið frá því sem ákveðið hafði verið. Verndarenglar ríkisstjórnarflokkanna eru nefnilega þeir sem nýta auðlindina og þeir vilja auðvitað helst ekkert borga og ef þeir þurfa að borga þá sem minnst.

Það þurfti nánast að rústa fjárfestingaráætlun sem samþykkt hafði verið. Fjárfestingaráætlun sem horfði til framtíðar. Fjárfestingaráætlun sem styður við rannsókn og þróun, skapandi greinar, tónlist og listir.  Einhversstaðar á leiðinni er þó eins og einhverjir hafi áttað sig og áætluninni var nánast rústað en ekki alveg.

Stjórnarflokkarnir telja að fjármagnið deilist miklu betur og þá væntanlega nýtist miklu betur ef hlutur ríkisins er sem minnstur. Þess vegna eiga atvinnuvegir sem blómstra hvort heldur sjávarútvegur eða ferðaþjónusta að greiða sem minnst til samfélagsins. – (En samfélagið á samt sem áður að sjá til þess að göngustígar séu saltaðir og sandaðir svo ferðamennirnir brjóti sig ekki.)

Þau voru líka þessarar skoðunar á velmegunarárunum, í góðærinu, eða hvað þau vilja kalla þensluárin fyrir hrun. Þeirrar skoðunar að lítið þyrfti að fylgjast með markaðnum. Þau uppnefndu stofnanir sem ætlað var að fylgjast með því að farið væri að leikreglum á markaðnum og töluðu um eftirlitsiðnað.

Þau móðgast ef bent er á að skattabreytingar þeirra gagnast mest þeim sem hæst hafa launin. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skerða bætur öryrkja og lífeyrisþega í upphafi síðasta kjörtímabils. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skera niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Þau láta sem menn hafi gert það að gamni sínu að skuldsetja ríkissjóð svo vaxtagreiðslur nema nú tugum milljarða. – Allt var þetta samt nauðsynlegt til að bjarga ríkissjóði og þjóðfélagi sem þau höfðu stjórnað í átján ár.

Sem betur fer er þó ekki svartnættið framundan. Sól fer hækkandi og vonandi tekst að leysa vandamál  sem verða á vegi okkar og örugglega verður líka eitthvað að gleðjast yfir.

Kjarasamningar hafa tekist á almennum vinnumarkaði, ekki verður þeim um kennt ef verðbólguhjólið fer af stað. Nú hljóta atvinnurekendur að sýna að þeir standa undir ábyrgð. Stýra fyrirtækjunum þannig að framleiðni aukist og verðhækkanir og launskrið hlaupi ekki út í verðlagið.

Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að afnema gjaldeyrishöftin. Þau leiða til ójöfnuðar og bjóða spillingu heim. Von mín er að áður en langt um líður komi fram tillögur um hvernig leysa má þetta mikla og áríðandi verkefni.

Gleðilegt ár!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.8.2013 - 15:31 - Rita ummæli

Árnastofnun á leiðinni heim.

Málefni Árnastofnunar munu eftir allt saman ekki heyra undir forsætisráðuneytið. Það mun hafa orðið niðurstaða af fundi forstöðumanns stofnunarinnar og forsætisráðherra. Málefni stofnunarinnar standa samt enn hjarta forsætisráðherra nær.

Gárungar segja að ætlunin hafi verið að flytja einungis ,,vörslustofnanir”  (lesendur fyrirgefa vonandi þetta orðskrípi)  frá menntamálaráðuneyti til forsætisráðuneytis með forsetaúrskurðinum, sem gefinn var út um leið og ríkisstjórnin var mynduð.  Þeir sem hripuðu niður úrskurðinn hafi ekki vitað, eða verið búnir að gleyma að Árnastofnun gætir ekki bara handritanna, heldur er hún ein merkasta rannsóknarstofnun Háskóla Íslands og er í rauninni einn af hornsteinum Háskólans.

Það er ánægjulegt að misskilningur af þessu tagi sé leiðréttur og ekki síður ánægjulegt að Árnastofnun sé komin heim, eða í það minnsta á leiðinni heim.

Auðvitað er það ekki á valdi forsætisráðherrans eins að flytja málefni stofanna á milli ráðuneyta það verður að gera með formlegum hætti. Þó vissulega virðist ýmislegt benda til þess að ráðherrarnir haldi að þeir einir ákveði hina ólíklegustu hluti án þess að fara eftir formlegum leiðum.

Á síðasta kjörtímabili var lögum um stjórnarráðið breytt og auðveldara er nú en áður var að breyta starfsemi ráðuneyta. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið æskileg breyting. Ég viðurkenni hins vegar fúslega að það kom mér á óvart að ríkisstjórnin skyldi á fyrsta fundi sínum nýta lögin svo rækilega sem raun bar vitni.

Undrun mín var kannski ekki síst vegna þess að stjórnarandstaðan hafði á sínum tíma allt á hornum sér varðandi breytingarnar á lögunum og ef ég man rétt fóru tugir klukkutíma í að ræða þær í þinginu. Auðvitað var það samt bara barnaskapur minn að láta þetta koma mér  á óvart. Ég mátti vita að stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili snerist ekki um málefni, hún snerist um völd eða kannski öllu heldur, endurheimt valda.

Rannsóknarskýrslur Alþingis eru lýsing á ótrúlegum og oft óboðlegum vinnubrögðum stjórnvalda. Ríkisstjórnarflokkarnir – gömlu valdaflokkarnir – virðast ekkert hafa lært og böðlast nú um í stjórnkerfinu eins og aldrei fyrr að því er virðist til að leggja upp efni í nýjar skýrslur.

Stjórnskipunarlög og reglur er varða starfsemi hins opinbera eru sett til þess að breyskir menn og konur geti ekki farið með málefni sem varða okkur öll að eigin geðþótta. Við hljótum nú að vænta forsetaúrskurðar um nýja skipan Árnastofnunar í stjórnkerfinu. Spennandi að vita hvort fleira þurfi að leiðrétta – svona eftir nánari umhugsun.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2013 - 21:43 - 5 ummæli

Ríkisstjórn á fullu

Sumir segja að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt síðan hún tók við.   Ég get nú ekki verið sammála því. Það er mikil óþolinmæði að ætlast til að árangur eða afleiðingar þess sem ákveðið er skili sér strax.

Það á til dæmis við um ánægjulega ákvörðun um að styrkja ungu afrekskonuna Anitu. Styrkurinn auðveldar henni undirbúning undir Olympíuleikana 2016. Vonandi gengur henni sem allra best í íþrótt sinni. Ríkisstjórnin á heiður skilinn fyrir að bregðast fljótt við í þeim efnum.

Þar með er nú reyndar upp talið það sem mér finnst ánægjulegt við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. En það breytir því ekki að ýmislegt hefur verið gert.

Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að lækka virðisaukaskatt á hótelgistingu. Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að lækka veiðigjald á útgerðina. Samtals þýðir þetta nálægt 12 milljarða lækkun á tekjum ríkisins á þessu ári og því næsta frá því sem áður hafði verið áætlað.

Ef ekki má skattleggja atvinnuvegina þá verður að skattleggja einstaklinga í staðinn, nú eða skera niður opinbera þjónustu. Þar er náttúrlega allt undir eins formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur margsinnis sagt okkur. – Afleiðingarnar eða árangurinn af þessum ákvörðunum eiga eftir að koma í ljós.

Ríkisstjórnin lagði til og þingið samþykkti að bæta kjör ellilífeyrisþega. Það vill reyndar þannig til að þessi ákvörðun kemur bara þeim sem skást hafa það að einhverjum notum, en kannski er það bara allt í lagi –eða hvað ?

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið og skiptir þá engu máli að ákvörðun Alþingis um aðildarviðræðurnar standi óhögguð.  Enginn veit samt hvort eða hvernig Evrópusambandinu hefur verið kynnt þessi nýja afstaða íslensku þjóðarinnar.

Er það kannski þannig að ráðamennirnir telji að í viðskiptum við önnur lönd geti þeir í kaffi- eða kokkteilboðum einfaldlega sagt að að nú hafi þeir ekki lengur hug á þessu eða hinu og séu barasta hættir þessu samningabrölti. – Halda þeir að einhverjir muni taka þjóð sem þannig stendur að málum alvarlega.

Sannarlega er ég fegin því að utanríkisráðherranum hugnaðist starfsemi Sameinuðu þjóðanna þegar hann kynntist henni nánar. Annars hefði hann kannski sagt einhverjum þar að okkur þætti fremur lítið til SÞ koma og við værum bara hætt í bröltinu þar.

Óneitanlega vaknar spurning um hvernig við ætlum að standa að þróunaraðstoð á meðan stjórnarmeirihlutinn er við völd. Formaður fjárlaganefndar hefur vakið athygli fyrir að vera á móti því – já endurtekið vera á móti því – að við leggjum peninga til þróunaraðstoðar. Og hún er náttúrlega með allt undir, eins og við öll vitum.

Ríkisstjórnin situr ekki aðgerðalaus. Ríkisstjórnin er að undirbúa fjárlagafrumvarpið  – niðurskurðinn og skattalækkanirnar. Fella niður hæsta skattþrepið og afnema auðlegðarskattinn ef marka má það sem ráðamennirnir hafa sagt um þá skattheimtu.

Kjaradómur leiðrétti laun forstöðumanna ríkisstofnanna. Leiðréttingin mun hafa numið meira en 10 % af launum. Menn skulu þó ekki horfa til þess í kjarasamningum segja ráðamenn. Rétt eins og þeir sem lægri hafa launin hafi ekkert látið af hendi rakna til að við héldum sjó eftir hrunið. Skert starfshlutfall, minni atvinna, atvinnuleysi er það ekki neitt ? Þarf ekki að leiðrétta það ?

Eftir hrun hefur jöfnuður aukist á Íslandi. Nú skal breyta því aftur, eins og reyndar öllu, snúa aftur til fyrri vegar.

Skýrslan um Íbúðalánasjóð vakti upp leiðar endurminningar. Endurminningar um lestur skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um efnahagshrunið. Báðar skýrslurnar bera vitni afleitum stjórnaháttum.

Enginn ber ábyrgð. Skýrslan um efnahagshrunið og aðdraganda þess var ,,stemmningsskýrsla” segir nú einn þeirra sem gegndi lykilembætti fyrir hrun. Öllu  má nafn gefa !

Ballið er rétt að byrja. Ríkisstjórnin er ekki aðgerðalaus.

Orð eru til alls fyrst og þau benda sannarlega ekki til þess að við getum verið áhyggjulaus. Lánshæfi ríkissjóðs hefur versnað, það lýsir engu nema barnaskap þeirra sem eru við stjórnvölin að halda að mótmæli – bréf frá ráðherrum eða aðstoðarmönnum þeirra breyti einhverju um það.

Mikið vildi ég óska að ríkisstjórnin væri aðgerðalaus – það skiptir nefnilega máli hvað er gert.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.7.2013 - 19:13 - 3 ummæli

Um forsetann og veiðileyfagjaldið.

Ekki kom ákvörðun forsetans um veiðigjöldin á óvart. Forsetinn er ekkert ólíkindatól, hann er sjálfum sér samkvæmur um að gera það sem honum sýnist þegar honum sýnist.

Blaðamannafundur forsetans kom hins vegar nokkuð á óvart. Hingað til hefur mér fundist forsetinn gæta þess að tala ekki niður til fólksins í landinu, þó hann hafi á stundum talað niður til stjórnvalda og löggjafans.

Nú lýsti hann undrun sinni á því að einhverjum hefði dottið í hug að hann mundi ekki staðfesta lögin. Það var ekki nokkur ástæða til að ætla það, samt tók hann á móti þeim sem stóðu að undirskriftasöfnunni á Bessastöðum, þó hann hefði alveg getað látið þá skila undirskriftunum á skrifstofuna. Svona er nú forsetinn alþýðlegur, mátti á honum skilja.

Forsetinn er fyrrverandi fjármálaráðherra, sagð´ann og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði svo hann veit hvað hann er að gera. Ég er nú ekki alveg viss um að það sé vottorð upp á óskeikulleik að hafa gegnt hvoru tveggja virðulegum embættum, en látum það liggja á milli hluta.

Ummæli forsetans við forsvarsmenn undirskriftasöfnunnar um að ekki hafi verið hávær mótmæli við lækkun veiðigjaldsins eru mér umhugsunarefni. Í sama anda voru ummælin á blaðamannafundinum um stuttan ræðutíma um málið í þinginu.

Er forsetinn að mæla bót þeirri stjórnmálamenningu sem ríkti hér á síðasta kjörtímabili? Stjórnarandstaðan beitti málþófi í flestum málum, ekki bara í Icesave og stjórnarskrármálinu. Það jók ekki virðingu Alþingis.

Í einu orðinu tala forsetinn og ríkjandi stjórnvöld um víðtæka sátt og hinu orðinu er ekki nógu mikill hamagangur í andmælum.

Vissulega breytir veiðigjaldið ekki fiskveiðistjórnunarkerfinu, til þess þarf róttækari aðgerðir. Með veiðileyfagjaldinu fær eigandi auðlindarinnar, þjóðin, þó brot af arðinum af hagnýtingu hennar.

Um og yfir 70 % þjóðarinnar er á móti lækkun veiðigjaldsins og kvótakerfinu eins og það er útfært.

Í orðaforða forsetans og hinna nýju valdhafa er „víðtæk sátt“ að 70 % þjóðarinnar láti í minni pokann fyrir skoðunum forsetans og sérhagsmunaafla innan Sjálfstæðis- og Framskóknarflokks.

Grein birt í Fréttablaðinu í morgun 11. júli 2013

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.5.2013 - 23:06 - 13 ummæli

Tveggjamannatal !

Formenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks halda áfram spjalli sínu. Í dag ræddu þeir skuldamálin. Mér heyrðist helst á aðstoðarmanni annars þeirra að sérstaklega hafi þeir ætlað að ræða skuldir ríkissjóðs en líka skuldir heimilanna.

Formennirnir hafa nú setið að skrafi í tæpa viku og eftir því sem best verður skilið eru þeir að safna gögnum. – Mér finnst að fréttamenn ættu að finna út fyrir okkur hvaða gögnum þeir eru að safna.

Varla eru þeir að safna upplýsingum um ríkissjóð. Fyrir kosningar lofaði annar þeirra að lækka skatta. Varla hefur hann gert það án þess að vita um stöðu ríkissjóðs. Varla hefur hann gert það án þess að gera sér grein fyrir að ríkið greiðir á hverju ári 90 milljarða í vaxtagreiðslur.

Getur verið að þeir séu að safna gögnum um skuldamál heimilanna ? Fyrir kosningar lofaði annar þeirra að færa skuldir heimilanna niður um 300 milljarða eða þar um bil. Getur verið að hann hafi gert það án þess að vita hvernig ? Getur verið að hann hafi gert það án þess að kunna galdraformúluna ?

Mér finnst líka forvitnilegt hvað formennirnir skrafa um á meðan gögnum er safnað. Ég hef mikla samúð og skilning á því að menn verða að fá tíma til að vinna verk, tíma til að skrafa. En tæp vika er nokkuð langur tími án þess að nokkur vísbending sé um hvort vænta megi árangurs af spjallinu.

Óneitanlega er líka nokkuð sérkennilegt að formennirnir sitji einir á spjalli.

Oddvitaræði eða foringjaræði hefur einkennt stjórnmál hér að landi undanfarna áratugi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er felldur áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum.

Ef spjallið ber árangur eru líkur á að 36 alþingismönnum verði boðið að borðinu í næstu viku. Munu þeir þá geta lagt eitthvað til málanna eða verða formennirnir búnir að bindast fastmælum um hvernig kaupin eiga að gerast á eyrinni.

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskipan var hlutverk þingsins við stjórnarmyndun stóreflt. Samkvæmt tillögunum á þingið að kjósa forsætisráðherra. Við slíkt fyrirkomulag væri að ég held óhugsandi að halda þingmönnum algerlega utan við viðræður um stjórnarmyndun og sitja á tveggja manna spjalli svo dögum skipti.

Varnaðarorð eins og þau sem fram komu í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar mega sín lítils. Foringjar, oddvitar, formenn eða hvaða nafni þeir nefnast fellur foringja- eða oddvitaræði vel. Til að breyta hegðun þeirra þarf að breyta kerfinu. – Því miður hefur það ekki tekist enn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.5.2013 - 20:46 - 4 ummæli

Ekki fréttir um stjórnmál.

Sannarlega er ég sammála þeim í Bjartri framtíð og öðrum sem hafa lagt áherslu á að nauðsynlegt er að breyta umræðuhefðinni í stjórnmálum.

Það er nú samt örugglega hægara sagt en gert – rétt eins og flest annað sem horfir til bóta.

Ég orða þetta þannig vegna þess að þetta er verkefni sem stjórnmálamennirnir ráða ekki við einir – frekar en flest annað.

Stjórnmálamenn eru nefnilega hluti af þjóðfélaginu en ekki eitthvað einangrað fyrirbrigði mannfólks, sem getur ákveðið að hlutirnir séu á einn veg aða annan. Nú veit ég að einhverjir hugsa: Jæja, ætlar kerlingin nú að fara að afsaka sig og sína, skjóta sér undan ábyrgð og segja að allt sé öðrum að kenna en henni og hennar líkum?

Trúi því hver sem vill en svo er alls ekki.

Auðvitað er stjórnmálamenningin að miklu leyti á ábyrgð stjórnmálamanna. Þeir sem fjalla um stjórnmál, greina og matreiða verða þó einnig að líta í eign barm.

Nú fara fram viðræður á milli forystu stjórnmálaflokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Það er ljóst að formaður Framsóknarflokksins sem hefur umboðið vill ekki flana að neinu. Hann vill ræða málin og finna út hverjir eiga samleið.

Að sjálfsögðu getur það tekið nokkra daga og að sjálfsögðu vill maðurinn ekki gera það í beinni útsendingu.

Fréttamiðillinn sem ég nota mest, Ríksútvarpið, virðist samt hafa lítinn skilning eða allavega skrítinn skilning á þessu.  Ef ég vissi ekki betur þá héldi ég að menn væru að lýsa einhvers konar síðastaleik.

Sigmundur Davíð er‘ann og svo klukkar hann fólk. Sá sem hann klukkar verður‘ann samt ekki, en halda mætti að sá safnaði stigum. Sigmundur Davíð hleypur stigann, Bjarni faðmar samflokksmenn og Katrín Jak. drekkur kaffi. – Þessar fréttir eru fluttar aftur og aftur.

Sigmundur og Bjarni tala saman í meira en klukkutíma og svei mér jafnvel lengur en tvo. Katrín og Sigmundur tala saman í símann – og það að kvöldi til.  Spennan er yfirþyrmandi.

Af hverju í ósköpunum fær fólkið ekki frið til að vinna vinnuna sína?.  Sigmundur hefur sagt að sér liggi ekki lífið á.

Hvaðan kemur þessi árátta fréttamanna að lýsa stjórnmálunum alltaf eins og kappleik. ,,Hér ríkir mikil spenna“ er líklegast sú setning sem oftast heyrist í fréttum frá Alþingi.  Sjaldan er talað um málefni.

Stjórnmálamenn þurfa vissulega að taka sig á, en það þurfa fréttamennirnir líka. Það er ekki frétt að einn komi inn um aðaldyr með kaffibolla og annar fari út um bakdyr með engan kaffibolla.

Fréttin af viðræðunum er að Sigmundur Davíð virðist leggja höfuð áherslu að finna einhvern sem er tilbúinn að fara með honum í Framsóknarleiðangurinn sem hann boðaði fyrir kosningar, og enginn virðist hafa gefið sig fram – ekki enn sem komið er að minnsta kosti.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 01:02 - 2 ummæli

Feimni við valdið – mistök sem ekki verða endurtekin.

Í október síðastliðinn, nánar tiltekið þann tuttugasta var þjóðaratkvæðagreiðsla.  Helmingur þjóðarinnar mætti og 73 % sögðust vilja nýja stjórnarskrá byggða á tillögum stjórnlagaráðsins.

Stjórnmálaflokkarnir sem nú skora hæst í skoðanakönnunum virða vilja fólksins  að vetturgi. Þeir þykjast betur til þess fallnir að semja stjórnarskrá en fólkið í landinu.

Það er óþarfi að endurskrifa eða endurbæta mannréttindakaflann, er sagt. Það er víst vegna þess að það er svo stutt síðan honum var bætt við stjórnarskrána. – Það eru átján ár, kannski finnst rúmlega fertugum það stuttur tími – ég rúmlega sextug skil að það er langur tími. Fólkið sem kosið var á stjórnlagaþing, í kosningum sem ekki tengdust stjórnmálaflokkum, komst að þeirri niðurstöðu að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar væri gamaldags.

Að einhver sé á annarri skoðun en atvinnustjórnmálamenn skiptir Framsókn og Sjálfstæðisflokk engu. Þau eru vön að ráða  og áfram skulum við ráða án þess að spyrja fólkið. Spyrjum bara hvað þeim finnst í Valhöll og á Hverfisgötunni. – Fyrst og síðast: engar breytingar nema á okkar vakt.

Þau ætla að afnema veiðigjaldið og halda áfram að berjast gegn því að það verði staðfest í stjórnarskrá að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar.  13 milljarðar sem koma af veiðigjaldinu þurfa þá að koma annars staðar frá – hvaðan ? Hvað ætla þeir að skera niður til að hafa efni á því ?

Þau ætla að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þau ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það einhvern tímann á kjörtímabilinu. Tvær spurningar vakna. Í fyrsta lagi verður atkvæðagreiðslan haldin?  Í öðru lagi verður farið eftir henni ? – Hvernig er hægt að treysta þessu fólki til að fara að þjóðaratkvæðagreiðslum ?

Sagt er að Samfylkingin hafi svikið í stjórnarskrármálinu. Það er ósatt.  Samfylkingin leiddi málið á þingi í öflugu samstarfi við Vinstri græna og Hreyfinguna.  – Andstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var hreint og beint ótrúleg. Þeir reyndu ýmist að þegja eða hóta því að tala bara til að koma í veg fyrir að málið kæmi til afgreiðslu. – Af hverju. Jú, vegna þess að þau voru ekki í bílstjórasætinu. Ekkert skyldi gert – engar framfarir skyldu leyfðar í landinu, af því að þau voru ekki í bílstjórasætinu.

Þau sem stjórnuðu landinu á þann veg að það lá við þjóðargjaldþroti haustið 2008.  – Lesið skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis þar er öll sagan sögð. – Og nú er hætta á að þessi öfl taki aftur við stjórn landsins.

Svo skrítið sem það hljómar, þá held ég að skýringu á örlögum stjórnarskrármálsins á þinginu sé að finna í því að stjórnarflokkarnir – við í Samfylkingunni og Vinstri græn – voru feimnir við valdið.

Auðvitað er það göfug hugsun að keyra ekki breytingar á stjórnarskrá í gegnum þing með naumum meiriluta. Að mínu mati var það hins vegar ekki rétt hugsun. Við hefðum átt að láta reyna á að ná þó ekki væri nema ákvæði um þjóðareign á auðlindum í gegn. Við hefðum jafnvel átt að láta keyra okkur upp á sker með það ákvæði. Hafa nafnakall, láta öllum vera ljóst hver voru með og hver á móti.

Ég er sammála Bjartri framtíð, það þarf að breyta stjórnmálamenningunni. Ég er sammála Brigittu það þarf að breyta þingsköpunum. Þangað til okkur hefur tekist hvort tveggja, megum við ekki vera feimin við valdið.

Það voru stóru mistökin held ég að vera feimin við valdið. Þau mistök verða ekki gerð aftur. Um leið og það er sagt má ekki gleyma því hve vald er vandmeðfarið. Eins og í lífinu öllu verður að finna þar jafnvægi. Þá má ekki og á ekki að misbeita valdi, en þeim sem falin er forsjá á einhverju mega hins vegar ekki vera hrædd við að nota valdið þegar það á við.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.4.2013 - 17:53 - 8 ummæli

Rústabjörgun eða flórmokstur ?

Ef vel væri á stjórnmálaumræða fyrst og fremst að snúast um framtíðina.  Ég skal vera fyrst til að viðurkenna að ég fell iðulega í þá gryfju þessa dagana að fjalla um fortíðina.

Stundum er nefnilega engu líkara en fólk hafi gleymt hvernig ástandið var fyrir fjórum árum þegar nýr þingmeirihluti varð til á Alþingi og ný ríkisstjórn var mynduð

Þjóðfélagið var á barmi gjaldþrots. Bankakerfið hrundi og tók allt efnahagskerfið með sér í fallinu. Fyrst um sinn jafnvel óvist hvort gjaldeyrir fengist fyrir lyfjum hvað þá öðru sem er okkur mannfólkinu minna nauðsynlegt.

Starfi ríkisstjórnarinnar hefur ýmist verið líkt við rústabjörgun eða flórmokstur. Fyrra orðið virðist mér vísa til þess að í efnahagslífinu hafi orðið einhverskonar náttúruhamfarir, eitthvað sem enginn mannlegur máttur gat ráðið við eða forðað. Seinna orðið vísar til þess að illa hafi verið gengið um og að viðfangsefni stjórnmálanna síðustu fjögur árin hafi verið þrífa eftir slæma umgengi í efnahagslífinu í mörg ár.

Af lestri skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis verður varla annað ráðið en að réttara sé að nota síðara orðið en hið fyrra. Verkefni stjórnmálanna og ríkisstjórnarinnar undanfarið kjörtímabil hafi sem sagt verið flórmokstur en ekki rústabjörgun.

Auðvitað er svona leikur að orðum ekki einhlítur. Það er t.d. ljóst að hag heimila og fyrirtækja verður miklu frekar líkt við að hafa lent í hamförum en að hafa runnið og dottið í flórinn. Ég hef svo sem aldrei dottið í flór en ég tel mig vita að af því verður enginn marinn og blár og bein brotna ekki.

Hagur heimila og fyrirtækja rústaðist – fyrirtæki og heimili eru marin og blá. Sóðaskapur stjórnmálanna birtist heimilum og fyrirtækjum sem hamfarir.

Þó fjögur og hálft ár séu liðin frá því ósköpin dundu yfir og mikið hafi áunnist við að reisa efnahagslífið við þá er enn mikið verk óunnið. Fjögur og hálft ár eru einfaldlega ekki nægur tími til að ljúka verkinu.

Vafalaust hefði mátt gera ýmsa hluti öðruvísi en gert var, þannig er það alltaf þegar horft er yfir veg.

Fjárlagahallinn var minnkaður úr 217 milljörðum í 3,6 milljarða.  Í þessum niðurskurði var reynt að hlífa heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu umfram annan ríkisrekstur.

Skattar voru hækkaðir. Skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar hefur þyngst, en skattbyrði þeirra sem lægri hafa tekjurnar hefur lést.  Ójöfnuður ráðstöfunartekna er nú helmingi minni en hann var árið 2007.  Það ár var vitleysan mest og líka ójöfnuðurinn.

Ýmislegt hefur verið gert til að reyna að létta undir með heimilunum. Hundrað milljarðar í vaxta- og barnabætur. Tvöhundruð milljarðar vegna breytinga á gengilánum og með 110 % leiðinni. – Samt er þetta ekki nóg. Þess vegna þarf að gera meira fyrir þau sem réðust í húsnæðiskaup síðustu árin fyrir hrun. Þá var fasteignaverð í hæstum hæðum. Húsnæðið hefur fallið í verði og lánin stökkbreyst. Hrakfarir þessa hóps eru meiri en annarra og þess vegna þarf nú að líta sérstaklega til þess hvernig hægt er lina fjárhagslegan sársauka þessa fólks.

Öll þurfum við að átta okkur á því að við erum öll verr sett en við vorum fyrir hrun. Við – og ég á þá við þjóðfélagið allt – héldum veislu fyrir peninga sem við áttum ekki. Það er auðvitað ekki hægt, ekki einu sinni í stuttan tíma hvað þá til lengdar. Þeir tímar koma ekki aftur á næstu árum og kannski ekki áratugum.

Við þurfum líka  að átta okkur á því að það er lítill vandi að standa þannig að málum að gera þann árangur sem náðst hefur að engu. Nú vilja þeir komast til valda sem héldu ekki við vegum og veittu ekki fjármunum til tækjakaupa á spítölum meðan peningarnir voru til. Og þeir láta sem ófarirnar sem hér urðu hafi verið þeim óviðkomandi.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að kjósendur ætli að veita sérhagsmunaflokkunum slíkt brautargengi að þeir ráði hér lögum og lofum næstu árin.

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is