Mánudagur 28.5.2012 - 12:19 - 6 ummæli

Persónuleikapróf á forsetaframbjóðendur

Ég nefndi einhvern tíma þá hugmynd að frambjóðendur til þings þyrftu að taka próf til að sýna fram á hæfni til að sitja á þingi. Þetta þyrfti ekki að vera erfitt eða strangt, svona rétt til að sía burt þá sem eru fullkomlega ófærir um rökhugsun og fleira þess háttar. Ég var nú kannski ekki að tala í fullri alvöru og bætti við vangaveltum um siðferði og heiðarleika…

En eftir að fylgjast með störfum þingins á síðustu dögum þá er þetta kannski ekki svo galið.

Og í ljósi þess hvernig baráttan um forsetaembættið er að þróast þá er kannski tími til að hugsa þetta í alvöru.

Fyrirtæki nota í auknum mæli persónuleikapróf til að meta umsækjendur um mikilvæg störf.

Ég legg til að við látum frambjóðendur til forseta taka viðurkennt persónuleikapróf – og birtum opinberlega – áður en við ráðum í starfið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð:

Sunnudagur 27.5.2012 - 11:00 - 17 ummæli

Bænir og órannsakanlegir vegir

Nú er ég trúlaus og hef ekki mikla trú á bænum. Eða réttara sagt enga. En svo eru auðvitað margir sem nota bænina sem einhvers konar hugleiðingu, svona til að staldra við og hugsa vel til ættingja og vina. Sem svo sem gerir engum neitt.

En það er nokkuð ljóst að bænir breyta engu. Það er beðið fyrir mörgum sem eru litlu bættari og aðrir sem enginn biður fyrir komast vel frá öllu. Svar þeirra sem trúa á mátt bænarinnar er að vegir guðs séu órannsakanlegir.

En til hvers þá að vera að biðja til guðlegrar veru ef vegir hennar eru órannsakanlegir?

Ef vinur eða ættingi er í vandræðum – segjum alvarlega veikur og við dauðans dyr – og þér finnst bænin koma til greina þá átt þú tvö möguleika og það eru tvær mögulegar útkomur, fjórar leiðir alls

 • þú biður og viðkomandi sleppur lifandi
 • þú biður en viðkomandi deyr
 • þú biður ekki og viðkomandi sleppur lifandi
 • þú biður ekki og viðkomandi deyr

Nú hafa rannsóknir ekki sýnt neinn mun á afkomumöguleikum þeirra sem beðið er fyrir og afkomumöguleikum annarra. Jafnvel þvert á móti virðist þeim sem beðið er fyrir ganga eitthvað verr. Ég veit ekki af hverju það gæti verið, kannski leggur fólk minna á sig sem trúir á utanaðkomandi aðstoð.

Enda ef vegir guðanna eru órannsakanlegir þá hefur bænin engin áhrif og er í sjálfu sér tilgangslausa. Nema kannski fín sl0kun fyrir þann sem sest niður og tekur sér nokkrar mínútur.

Fyndnast var þó kannski að sjá svar eins kristins tímarits við því þegar rannsókn sýndi að þeir sem beðið var fyrir virtist ganga verr að ná sér eftir uppskurð en þeim sem ekki var beðið fyrir. Þeir töldu þetta gott dæmi um hversu góður guð væri, þeas. að hjálpa líka þeim sem ekki er beðið fyrir. Sem aftur kemur í sama stað niður, bænir eru tilgangslausar. Nema kannski sem fín hugleiðsla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Föstudagur 25.5.2012 - 14:37 - Slökkt á athugasemdum við Þökk sé rokklækni Wim

Þökk sé rokklækni Wim

Við Fræbbblar tókum þátt í Rokk í Reykjavík 2.0 í gær (fimmtudagskvöld) á Gauknum. Belgíski íslandstónlistardellukallinn og læknirinn Wim Van Hooste skipulagði þetta í tilefni af fertugsafmælinu og þrítugsafmæli Rokk í Reykjavík.

Þetta var eitt af þessum ógleymanlegu kvöldum og kannski fáránlegt að reyna að segja frá í bloggfærslu. Eitthvað var tekið upp og kannski segja þær upptökur betri sögu.

En kvöldið hófst á Bartónum, uþb. 10 manns tónuðu á dansgólfinu undir hjá einum sem fór með stutta rímu. Búið. „brilljant“ upphaf á kvöldinu.

Sudden Weather Change voru frábærir, spila reyndar einhverja óskilgreinda tegund af tónlist sem ég að öllu jöfnu hefði ekkert sérstaklega gaman af, en þeir eru góð undantekning, það er einhver „sjarmi“ yfir þeim og þeir gera þetta þetta einstaklega vel.

Morðingjarnir voru bæði þéttir og stórskemmtilegir, eins og alltaf, ótrúlega öflug þriggja manna hljómsveit.

Æla voru stórskemmtileg(ir), höfðu sjálfir einhverjar áhyggjur af mistökum, en það vantaði ekkert upp á skemmtunina og kraftinn.

Það er allt of langt síðan ég sá Hellvar, aðeins að hluta á Airwaves og svo þar áður með trommuheila. Þau hafa alltaf verið flott en fyrir minn (skrýtna) smekk eru þau miklu betri með alvöru trommara. Nýja platan er frábær og þau voru verulega góð í gær.

Heiða náði svo „silfurverðlaunum“ í videósamkeppninni fyrir útgáfu sína af Fræbbblalaginu, „Gotta Go“, úr Rokk í Reykjavík. Ég hef aldrei verið sérstaklega sáttur við lagið í Rokk í Reykjavík og útgáfa Heiðu er miklu betri en okkar.

Bodies mættu svo sem leynigestir, þó flesta hafi sennilega grunað hvað var í uppsiglingu. Einn af hápunktum kvöldsins, sem voru reyndar nokkuð margir, var að sjá „Where Are The Bodies?“, held að ég skrökvi engu að þetta sé í fyrsta skipti í tæp 30 ár sem þeir spila lagið. En eins og þeir hefðu spilað það síðast í fyrradag.

Mosi frændi mætti svo eftir ekki-hlé og ekki síður skemmtilegir, útgáfan af lagi Q4U, „Creeps“, svolítið skrýtin í upphafi en vann svakalega vel á þegar á leið.

Dr. Gunni mætti næst, þeas. hljómsveitin, og nú fara lýsingarorðin að verða vandfundin, þeas. ef ég á ekki stöðugt að vera að endurtaka mig. En flottir hljómleikar hjá þeim og topp útgáfa af „Stórir strákar fá raflost“.

Q4U voru svo með nýtt efni að mestu, sem hljómar mjög vel. Ég heyrði reyndar megnið af þessu inn í „baksviðsherbergi“, við Fræbbblar vorum aðeins að undirbúa okkur, en sem sagt, mjög spenntur að heyra nýja plötu. Ellý kvartaði reyndar undan að heyra ekki vel í sér, jafnvel ekki þegar hún fór út í sal, en það vantaði ekkert upp á að ég heyrði í henni.

Við Fræbbblar spiluðum svo að mestu gamalt efni og enduðum á nokkrum annarra manna lögum. En hálf blásarasveit Ojba Rasta mætti og spilaði í „Lover Please“ og „A Message To You, Rudy“. Guðjón söng bakraddir í „CBGB’s“ og Kristín stökk upp á svið í síðustu lögunum.

Við vorum mjög sátt, gekk vel og mjög gaman. En ég læt aðra um að dæma. Til dæmis Hrafn Gunnlaugsson, sem skrifaði:

Fórum á Gaukinn að hlusta á Fræææææbbbblana – það er eitthvað við þessa hljómsveit sem fær mann til að gleyma stað og stund og láta flutninginn taka sig á flug – trúlega er Valli einhver einstæðasti rokkari sem við höfum átt – ótrúlega skemmtilegt. Fræbbblarnir. Punk og aftur pönk, eina bylting sögunnar sem hefur ekki étið börnin sín.

Flokkar: Menning og listir · Tónlist

Þriðjudagur 22.5.2012 - 16:00 - 4 ummæli

Rokkjavík 2

Ég verð að fá að halda áfram að fjalla um skemmtilega hugmynd Belgíska læknisins Wim Van Hooste – þeas. að halda hljómleika í tilefni af 30 ára afmæli Rokk í Reykjavík – sem er um það bil að verða að veruleika á Gauk á Stöng, næsta fimmtudag, 24. maí 2012.

Dagskráin verður:

20:00 Rímur
20:05 Sudden Weather Change
20:40 Morðingjarnir
21:15 Æla
21:50 Hellvar
22:15 Hlé: Sigurvegari úr Videó samkeppni kynntir – Spjall frá Wim Van Hooste
22:30 Mosi frændi
23:05 Dr. Gunni
23:40 Q4U
00:15 Fræbbblarnir
01:00 (lýkur)

Og ég veit af að minnsta kosti einu óvæntu atriði sem ég lofaði að segja ekki frá.

Fyrir áhugasama þá verður prógram okkar Fræbbbla byggt á gömlu efni að mestu leyti, væntanlega:

 1. Ljóð
 2. Police & Thieves
 3. CBGB‘s
 4. Nekrófíll í Paradís
 5. Þúsund ár
 6. Lover Please
 7. A Message To You, Rudy
 8. Bjór
 9. Hippar
 10. Judge A Pope Just By The Cover
 11. Æskuminning
 12. Í nótt

Með þeim fyrirvara að eitthvað gæti breyst ef tímaáætlun stenst ekki.

Helgi Briem verður fjarverandi á bassann en ný endur-inngengir meðlimir spila, Þorsteinn Hallgrímsson á bassa og Ríkharður H. Friðriksson á gítar.

Þá eigum við von á að hluti blásarasveitar hinnar frábæru Ojba Rasta detti inn í eitt eða tvö lög með okkur.

Flokkar: Menning og listir · Tónlist
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Miðvikudagur 16.5.2012 - 15:25 - 4 ummæli

Skattur á auðtrúaða

Það er oft sagt að lottó og önnur fjárhættuspil séu skattur á þá sem kunna ekki að reikna.

Á sama hátt má segja að kukl-, hjávísinda-, heilunar-, detox-, álfa-, miðla-, drauga- og hómopataiðnaðurinn sé skattur á þá sem eru auðtrúa.

Það var ágætis samantekt á þessu í DV um daginn.

Það er nefnilega þannig að ef ekki er hægt að sýna fram á með hlutlausum tilraunum að eitthvað virki – þá er lang líklegasta skýringin sú að það virkar ekki.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.5.2012 - 21:44 - 5 ummæli

Blogg eða blöð

Ég var að ræða við fræðimann áðan um ákveðið deilumál, sem skiptir ekki máli. Hann taldi sig hafa fært rök fyrir sinni skoðun sem enginn hefði hrakið. Ég benti á að ég hefði þvert á móti hrakið þessi rök vel og vandlega. Hvar spurði hann. Nú í bloggfærslu.

Það þótti honum fullkomlega verðlaust. Að þetta hafi ekki verið prentað í gamal dags prentmiðlum þýddi að skoðanirnar voru nánast verðlausar.

Ég er á því að skoðanir eigi að meta eftir því hversu góð rök eru færð fyrir þeim. Ekki eftir því hver heldur þeim fram. Og þaðan af síður hvort þær hafa birst í einhverjum prentmiðlum eða ekki. Það er ekki endilega staðfesting á því að skoðanir séu einhvers virði að þær fáist birtar í prentmiðlun.

En kannski sendi ég einhverju blaðinu viðkomandi grein til birtingar. Þá hljóta skoðanir mínar að vera rosalega mikils virði. Að minnsta kosti í huga einhverra…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.5.2012 - 21:35 - Lokað fyrir ummæli

Til hamingju HK

Ég á víst varla að kalla mig Kópavogsbúa eftir að hafa búið 29 ár í Reykjavík. En mitt lið er Breiðablik og mér fannst frábært þegar liðið náði loksins Íslandsmeistaratitli í karlaflokki 2010. Og einhvern veginn er ég alltaf Kópavogsbúi þegar kemur að íþróttunum og er nýlega farinn að æfa Karate hjá Breiðabliki þrátt fyrir háan aldur, þannig séð. En ég hef aldrei samþykkt þennan ríg milli Kópavogsfélaganna. Þegar ég vann fyrir Breiðablik í fótboltanum hafði ég meiri áhuga á samstarfi og mér fannst frábært að Kópavogur ætti tvö lið í efstu deild karla í fótbolta.

Nú var HK að færa Kópavogsbúum fyrsta Íslandsmeistaratitil bæjarins í handbolta. Frábært. Til hamingju HK!

Flokkar: Íþróttir

Sunnudagur 6.5.2012 - 14:12 - Lokað fyrir ummæli

Gullbrúðkaupsafmæliskveðjur

Ég þarf rétt að fá að óska tengdaforeldrunum til hamingjum með gullbrúðkaupsafmælið í dag.. Fimmtíu ár.

Þá eigum við Iðunn 29 ára brúðkaupsafmæli í dag.

Það var eiginlega nokkuð klókt hjá okkur að velja sama dag fyrir tæpum þrjátíu árum. Við höfum haldið saman upp á daginn nánast á hverju ári (fyrir utan 2-3 skipti þegar einhver er ekki á landinu) og átt virkilega góða brúðkaupsafmælisdaga saman.

Og kannski er við hæfi að óska mér sjálfum til hamingju með að hafa kynnst þessari frábæru fjölskyldu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 4.5.2012 - 14:19 - 26 ummæli

Gagnrýni eða bannárátta

Mikið rosalega er þreytandi að mega aldrei hafa skoðanir á einu eða neinu án þess að fá stöðugt á sig „þú vilt bara banna og þú vilt ritskoða“..

Ég man ekki til að hafa viljað banna heimskulega hluti. Þvert á móti finnst mér mikilvægt að (fullorðið) fólk hafi fullt frelsi til að taka heimskulegar ákvarðanir svo framarlega sem þær bitna ekki (úr hófi) á öðrum. En á meðan ég greiði fyrir hluti, ýmist beint eða í formi skatta, þá vil ég hafa eitthvað um það að segja hvernig þeim fjármunum er varið. Ég vil fá að hafa skoðun án þess að fá svona skítkast til baka.

Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvort þeir – sem gera þessar athugasemdir, ýmist í athugasemdakerfinu hér eða í eigin bloggfærslum – eru raunverulega svona treggáfaðir („með rökhugsunarlega áskorun“?) eða hvort þetta er hrein „sandkassa“ (bið krakka sem hafa gaman af sandkössum afsökunar)  illkvittni til að vera með skítkast.

Ég skrifaði um daginn færslu þar sem ég velti upp því hvort RÚV ætti að sýna mynd sem stenst illa skoðun. Aðallega gerði ég athugasemd við kynningu RÚV á myndinni og sem betur fer tók RÚV mark á þessu og breytti kynningunni.

Viðbrögðin hafa að lang mestu leyti verið jákvæð en það eru alltaf nokkrir sem koma með „þú vilt bara fá að ráða því einn hvað er sannleikur“ og „þú vilt banna allt á YouTube sem þér hentar ekki“ – þeas. ef ég leyfi mér að sameina nokkrar athugasemdir.

Ég velti því sem sagt fyrir mér hver tilgangurinn er með svona athugasemdum. Einhverjar hugmyndir?

Flokkar: Dægurmál

Föstudagur 4.5.2012 - 09:38 - 37 ummæli

Spurning til Valitor

Mig langar að beina opinni spurningu til Valitors, fyrst þeir svara ekki beinum fyrirspurnum frá mér.

Forsagan er að ég keypti gallaða vöru, eða réttara sagt, ég fékk afhenta aðra vöru en ég var að kaupa.

Ég reyndi að skila, en söluaðilinni harðneitaði að taka til baka, sagði ýmist að ég hefði fengið það sem ég átti að fá, eða að hann hefði aldrei sagt að ákveðin atriði ættu að vera til staðar. Ég læt vera að fara út í smáatriði, en ég á reyndar mjög skondna upptöku af sölumanninum að reyna að ljúga sig út úr þessu.

Nú var ekki sjálfgefið hvað rétt væri að gera. Ég hafði greitt með Visa korti frá Valitor og hringdi í þjónustuver Valitors og fékk þau svör að ég yrði að skila vörunni til að eiga möguleika á endurgreiðslu. Það er rétt að taka fram að engu var lofað og tekið fram að þetta gæti orðið erfitt. En viðkomandi starfsmaður ráðlagði okkur samt að skila vörunni þrátt fyrir að ljóst væri að við fengjum ekki kvittun fyrir skilunum.

Ég ákvað að láta á þetta reyna og tók upp „video“ á símann þegar ég afhenti vöruna.

Þegar á reyndi var vonlaust að fá endurgreiðslu. Upptökur af svikunum skipta engu máli og það eitt skiptir máli að við skrifuðum undir sölunótuna.

Það sem mér finnst verra er að Valitor tekur enga ábyrgð á þeirri ráðgjöf að segja okkur að skila vörunni til að eiga möguleika á endurgreiðslu, þegar fullljóst var að við ættum enga möguleika á endurgreiðslu nema fá kvittun.

Nokkrar fyrirspurnir hafa engu skilað nema fara fram hjá þessu aðalatriði og síðustu tveimur fyrirspurnum hafa þeir ekki látið svo lítið að svara. Sú seinni var, „fannst ykkur þetta eðlileg ráðgjöf og mynduð þið veita okkur sömu ráð ef við lentum aftur í þessari stöðu?“.

Mig langar rosalega að fá svar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is