Þriðjudagur 01.05.2012 - 11:51 - Lokað fyrir ummæli

Á RÚV að sýna svona rugl?

Ég sé að RÚV hefur sett mynd á dagskrá hjá sér á miðvikudagskvöld (2. maí) sem þeir kynna sem „Heimildamynd um nýjar uppgötvanir sem breyta skilningi fólks á því hvernig á að halda heilsu og kraftaverkalækningar sem ekki er hægt að útskýra með hefðbundnum vísindum.“

Nú má RÚV eins og aðrar sjónvarpsstöðvar sýna hvaða rugl sem er mín vegna. Eða kannski ekki. Kannski á að gera meiri kröfur til ríkisrekinnar sjónvarpsstöðvar. En burtséð frá því.

Hvernig dettur mönnum þarna á bæ að kynna svona þvælu sem „heimildamynd“? Það hefur aldrei verið sýnt fram á með nokkrum hætti að einhvers konar kraftaverkalækningar hafi í einu einasta tilfelli virkað. Aldrei. Þess vegna er einfaldlega ekki hægt að gera „heimildamynd“ um þetta.

Nú má fólk trúa hvaða vitleysu sem er mín vegna og taka heimskulegar ákvarðanir um eigin heilsu. Mín vegna. En ég geri athugasemdir við að breiða út trú á einhverja dómsdags vitleysu. Og ég er eiginlega verulega reiður að sjá hvernig almannafé er varið í svona bábiljur.

Þetta stuðar mig kannski sérstaklega vegna þess að ég hef talsvert kynnst og unnið með starfsmönnum RÚV og sjaldan séð annað en mikinn vilja til að vinna af fagmennsku.

Nokkrar spurningar:

 1. Gerir RÚV engar kröfur til innihalds þess sem er sýnt?
 2. Eru engar viðmiðanir um hvað má kalla heimildamynd?
 3. Horfði einhver á þessa mynd áður en ákveðið var að taka hana til sýninga?
 4. Kynnti einhver sér gagnrýni á myndina áður en ákveðið var að setja hana á dagskrá?

Það má sjá gagnrýni á myndina hér http://www.sciencebasedmedicine.org/index.php/the-living-matrix-a-movie-promoting-energy-medicine-beliefs/

Eins og í mörgum svona „heimildamyndum“ þá er öllu grautað saman, engar sannanir fyrir fullyrðingum sem þar eru settar fram. Ekkert hefur verið prófað. Engar tilraunar hafa farið fram. Þetta eru samhengislausar „reynslusögur“ án nokkurra staðfestinga. Listinn yfir rangfærslur er ótrúlega langur, ýmist fullyrt án sannana eða beinlínis fullyrt eitthvað sem löngu hefur verið afsannað.

Af hverju er mér ekki sama? Jú, þetta er nefnilega ekki bara áróður fyrir heimsku. Þetta er beinlínis lífshættulegt.

Svo er fjallað um þetta hér http://www.vantru.is/2012/05/02/13.30/

Flokkar: Dægurmál

«
»

Ummæli (115)

 • Jón Örn Marinósson

  Ég tek undir þessa gagnrýni þína. Það stangast í öllum greinum á við lögbundið ábyrgðarhlutverk Ríkisútvarpsins að kynna þátt um bábiljur og skottulækningar sem heimildarþátt um raunveruleg vísindi. Þættir af þessu tagi varpa rýrð á læknavísindin og á þau raunverulegu kraftaverk sem hafa verið unnin í nafni læknavísindanna.

 • Kolbeinn Óttarsson Proppé

  Nákvæmlega. Er ekki við hæfi að rifja upp orð Johns Lydon um dauða Ari Up?

  „She knew she had cancer and she deliberately ignored it and went for lunatic left-wing crackpot theories. And that will kill you stone dead. Every single time. If you want to survive something as curable as breast cancer, do not go to the far-out loonies. But, ultimately, those are decisions Arianna made herself and some of us in the family think it was almost suicide.“

  • Steve Jobs er svo nýlegra dæmi..

   • Já ég er með annað dæmi með föður minn sem var með sama krabbamein og Steve Jobs og hann fór í hefðbunda lyfjameðferð hann var dáinn innan 6 mán úr lungnabólgu vegna lyfja. Svo það var kuklið hjá hinum hefðmunda krabbameinslæknir sem fór með hann.

    • Ég samhryggist þér með föður þinn. Ég veit ekki hversu vel þú þekkir sögu Steve Jobs, hann var með mjög sjaldgæfa tegund af krabbameini í brisi, það er að öllu jöfnu erfitt að lækna krabbamein í brisi, en þá tegund sem Jobs var með hefur oft tekist að lækna. Það er hins vegar ekki þannig að hægt sé að kalla það „kukl“ þó læknum mistakist að eiga við svona erfiðan sjúkdóm. Það sem skiptir máli er að oft hefur þeim tekist á meðan engin staðfest dæmi eru um að fólk hafi læknast með kukli.

   • Æ sorry ætlaði ekki að svara þessu var að sjá á þú ert meðlimur siðmennt og vantrú, þá er þetta ekki svara vert.

    • Býst við að þetta sé kristilegt viðhorf?

    • Ég samhryggist föður þínum en heldurðu að hann hefði átt betri líkur ef hann hefði ekki farið í meðferð?

     Það er því miður leið staðreynd að þau krabbameinslyf sem við notum í dag er jafngildi sprengjuárás á miðborg til að ná einum hryðjuverkamanni. Þau fara illa með líkamann en er ill nauðsyn til að sporna við útbreiðslu.

     Síðustu áratugi hefur samt verið stanslaus þróun í að búa til lyf sem er fær um að ráðast beint á æxlin og svelta þau, án þess að skemma nærliggjandi vef en gallinn við þau að þau virka ekki á móti öllum gerðum af æxlum og því er mun meiri vinna eftir til að þau lyf verði að raunhæfum kosti.

    • Er þetta ekki „ad hominum“ rökvillan fræga, en sívinsæla? Það skiptir þig meira máli í hvaða félögum ég er meðlimur en hvað ég segi.

 • Ólafur Ágúst

  Meh, fyrst að nútímalæknavísindi eru búin að taka þróun úr sambandi (lúserar deyja ekki frekar en klárir) – þá er ágætt að til séu idjótafilterar fyrir samfélagið, eins og; hómópatalyf og fleira sem er „allra meina bót“

  Styð allar svona kynningar á útvarp sögu og ekki verra ef Rúv tekur þátt líka

  • OK, sjónarmið út af fyrir sig, svona eitthvað í ætt við Darwin verðlaunin – en kannski þarf að minnsta kosti nóg af gagnrýni til að hægt sé að taka ákvörðun.

   • Darwin verðlaunin eru skemmtilegri en óskarinn í mínum huga.
    Því að í hvert sinn sem einhver vinnur veit maður að það er einni manneskju minna sem hefði líklegast trúað á að borða gras lækni alnæmi og krabbamein

  • Enda vitum við öll hversu skotheld vísindi mannkynbótafræði eru, og hversu miklum árangri þau hafa skilað. Vona þú drepist í bruna, með bestu kveðju

   • Ólafur Ágúst

    asdf

    Einn sem hlustar á útvarp sögu 🙂

   • Ólafur Ágúst

    P.s þróunn og mannkynbótafræði eru ekki sami hluturinn. (eitt að leyfa fólki að kála sjálfu sér með eigin heimsku, og annað að kála öðru fólki útaf heimsku)

    (en annars var þetta bara spaug, gáfnaljós)

   • Það er enginn að tala um mannkynbótafræði, amk. ekki ef ég skil Ólaf rétt, ekki frekar en þú ert (vona ég) bókstaflega að óska honum dauða í bruna – reyndar væri ég alveg til að þú slepptir svona orðalagi. En Ólafur er (held ég) einungis að benda á afleiðingar þess að kaupa svona vitleysu..

 • Ari matthíasson

  Við skulum vona að RUV verði engum að bana með sýningu þessarar myndar. Það er þó ekki sjálfgefið.

  • Myndin virðist reyndar svo skelfilega léleg að kannski er óþarfi að ætla einhverjum að taka þetta alvarlega.. en það þarf ekki nema einn einstakling sem kaupir þetta og sleppir læknismeðferð.

 • Guðmundur

  Alveg sammála þessu, en hugmyndir þínar um hvað má kalla heimildarmynd og hvað ekki virðast miðast við svolítið þröngt svið. Enda er ekkert sem segir að skoðanir sem settar eru fram í heimildarmynd þurfi að vera sannar, fyrir utan að það eru til alls kyns undirflokkar heimildarmynda. Svo er auðvitað spurning hvort það eigi frekar að skilgreina þessa umræddu heimildarmynd sem „mockumentary

  • Er það? Má ekki gera þær kröfur til heimildamynda að þær byggi á heimildum og staðreyndum? Ég myndi svo sem ekki gera athugasemdir við að kalla eitthvað heimildamynd sem kynnir (eitthvað sem mér finnast) undarlegar skoðanir, svo framarlega sem þær eru ekki kynntar sem staðreyndir og svo framarlega sem önnur sjónarmið eru kynnt.

   Kannski er þetta léleg (eða jafnvel góð) grínmynd…

   • Guðmundur

    Tja, það fer einmitt eftir því hvernig maður skilgreinir heimildarmyndir (documentaries). Íslenska heitið býður raunar upp á þrengri merkingu en enska heitið, það er ágætis umræða um skilgreininguna á Wikipedia. Okkar hugmyndir um heimildarmyndir byggjast á myndum BBC, því það er einfaldlega það sem hér er oftast sýnt. Þessi mynd virðist standa nær myndum eins og Zeitgeist og What the bleep do we know, sem eru flokkaðar sem heimildarmyndir þrátt fyrir að tilgangurinn með þeim sé frekar að koma á framfæri persónulegri (og vafasamri) skoðun en að fræða og komast að sannleikanum. Triumph of the Will e. Riefenstahl flokkast líka sem heimildarmynd, svo dæmi sé tekið.

    En það er auðvitað algjörlega annað mál…

    • Ég kannski legg meira upp úr hvað orðin segja, hvort sem er „heimildamynd“ eða „documentary“. „Bleep“ er einmitt gott dæmi um takmarkalausa þvælu sem pakkað er inn til að láta líta út fyrir að vera heimildamynd. Ég geri þá kröfu að heimildamyndir byggi á heimildum, geri greinarmun á staðreyndum og skoðunum, kynni báðar hliðar á umdeildum atriðum og vísi einmitt í staðfestar heimildir fyrir því sem þar er haldið fram. Ef við gerum ekki svona lágmarkskröfur þá verður hugtakið merkingarlaust og gildir um hvað sem er.

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Þú ert sem sagt ekki tilbúinn til að horfa á myndina sjálfur og mynda þér þína eggin skoðun?

  Viltu fremur láta krítik á hana nægja?

  • Það er ekkert til sem heitir „heimildamynd um kraftaverkalækningar“ því það eru engar heimildir um kraftaverkalækningar. Þar fyrir utan held ég að ég láti nægja upptalningu á vitleysunni sem er haldið þar fram til að spara mér tíma – þetta er svona ágæt aðferð til að velja og hafna, ég hef ekki tíma til að grandskoða hvaða vitleysu sem er sjálfur. Það er einfaldlega svo mikið offramboð af þvælu að þó ég hætti að vinna og gerði ekkert annað kæmist ég ekki nema yfir brot af því. Þannig að… nei.

 • Ófeigur Freysson

  Algerlega sammála. Ég held að ríkissjónvarpið sé eitthvað að misskilja hlutverk sitt með að sýna svona rugl sem heimildarmynd.

 • Það er er til rit um kraftaverkalækningar. Það er Biblían. Og fullt af fólki sem hefur orðið vitni að þeim.

  • Það að hafa orðið vitni að einhverju sem fólk telur kraftaverk er auðvitað marklaust. Það er bæði auðvelt að blekkja, það er auðvelt að láta blekkjast og enn auðveldara að skálda frásagnir af kraftaverkum fyrir einhverjum öldum. Það er einfaldlega ekki eitt einasta staðfest dæmi í veraldarsögunni um kraftaverkalækningu.

 • Páll Jónsson

  Hvað er þetta Valgarður, hvernig getur þú efast um sérfræðiþekkingu viðmælenda sem heita nöfnum eins og „Adam Dreamhealer“?

 • Arnar Magnússon

  Benni ef trúarbrögð væru rétt væri bara einn trú og eitt trúarrit ekki kóraninn,tóran og svo framvegs.

  Svo ætti frekar að sýna Enemies of reason í sjónvarpinu.

 • Eru ekki heimildir fyrir biblíunni? Eru ekki heimilir fyrir öllu sem getið er um í þessari heimildarmynd. Ég þarf engan Martein Mosdal til að segja mér hverju ég á að trúa eða ekki. Ég vil fá að kynnast sem flestum sjónarmiðum, og vega og meta sjálfur.

  • Nei, það eru ekki staðfestar heimildir í biblíunni, þetta eru sögur, oftar en ekki skrifaðar hundrað árum eftir að atburðir eiga að hafa gerst.

   Og nei, það er málið með þessa „heimildamynd“, hún fullyrðir út og suður án heimilda. Þess vegna er ég að kvarta. Bara bútur sem RÚV er að sýna til kynna myndina sýnir mann segja að ef einhver telur sig geta læknað sig af banvænum sjúkdóm, þá geti hann það.

   Það er allt í lagi að kynna „sjónarmið“ – en það á ekki að rugla þeim saman við staðreyndir eins og þessi mynd gerir.

  • Þegar ég var í sagnfræði í Háskólanum spurði ég einn prófessorinn í sakleysi mínu hvort Biblína væri tekin gild sem heimildarrit. Hann brosti til mín vorkunnsamlega og sagði að svo væri ekki. Hún væri ekki tekin alvarlega fremur en aðrar skáldsögur. Síðan hef ég lesið margt um þessi mál og er þessum ágæta prófessor hjartanlega sammála.

 • Það er skuggalegt hversu nálægt við erum miðaldahugsun, stutt í kerlingabækur og kukl. Ég er á þeirri skoðun að meginverkefni skóla landsins, á öllum stigum, eigi að vera að kenna gagnrýna hugsun, rökfræði og vísindalega efahyggju. Þegar þeim grunni hefur verið náð er fyrst hægt að ræða málin og skoða heiminn betur.

 • Það væri hægt að líta á þessa mynd sem heimildamynd um fólkið sjálft sem kemur fram í myndinni og telur sig geta læknað aðra eða sjálfa sig með kukli og aðferðirnar sem þær beita. Út af fyrir sig væri það áhugaverð heimildamynd þar sem skuggalega margir (meira að segja á hinu menntaða og upplýsta Íslandi) aðhyllast kukl og hjávísindi sbr. forsíðu síðasta Fréttatíma. En fyrst myndin setur efnið fram sem raunverulegar staðreyndir og tekur afstöðu með „kraftaverkalækningunum“ er ekki hægt að líta þeim augum á myndina.

  Það ætti að vera fyrir neðan virðingu RÚV að sýna svona rugl á meðan það er mjög mikið framboð af vönduðum heimildamyndum um efnið í boði.

 • Ásdís Jónsdóttir

  RÚV sýnir reyndar töluvert af mjög áhugaverðum heimildamyndum um ýmis efni, en það er líka sumt mjög einkennilegt sem sýnt er. Allskonar kuklarar og allrameinabótasölumenn hafa líka greiðan aðgang að sumum þáttum í útvarpinu til að kynna vörur sínar og mættu sumir þáttastjórnendur vanda betur valið á viðmælendum sínum.

 • Helgi Viðar

  Valgarður, mér finnst að þú ættir að horfa á myndina áður en þú ferð að tjá þig um hana, annað lýsir bara fordómum.

  Heimildarmynd þýðir oft bara að myndin sé ekki leikin.

  • Eins og ég sagði áður þá tel ég mig hafa ég nægar upplýsingar, ég hef ekki tíma til að horfa á hverja einustu vitleysu sem er til enda.

   Þetta eru ekki fordómar. Ég hef séð hluta af henni, ekki mikið, og kynningin sem sjónvarpið sýnir er auðvitað nægilega staðfeseting. Þá hef ég ítarlegri upplýsingar frá mörgum aðilum sem ég treysti, passa við það sem ég hef séð og þeirra gagnrýni hefur ekki verið svarað. En aðallega nægir mér að eitthvað skuli kallað heimildamynd sem fjallar um „kraftaverkalækningar“.

   Ég er ekki sammála þessari skilgreiningu þinni á heimildamynd og geri amk. aðrar kröfur – eins og fram hefur komið.

   • Helgi Viðar

    Myndin fjallar um óhefðbundnar lækningar. Ég man ekki til þess að talað sé um „yfirnáttúru“ eða „kraftaverk“ í myndinni þó að einhverjir kunni að skilja málið þannig.

    Varla viltu að myndin sé kölluð „fræðslumynd“, eða hvað viltu kalla svona myndir?

    • Það stendur orðrétt í kynningu RÚV „Heimildamynd um nýjar uppgötvanir sem breyta skilningi fólks á því hvernig á að halda heilsu og kraftaverkalækningar sem ekki er hægt að útskýra með hefðbundnum vísindum“ – svona ef þú hefðir nú fyrir að lesa færsluna áður en þú sendir inn athugasemdir.

     Ætli „gamanmynd“, „satíra“ eða „gjörningur“ væri ekki helst við hæfi, nema hvað að þeir sem gera myndina eru varla að meina þetta sem grín.

     „Auglýsing“ eða „áróður“ eru kannski nær lagi.

     • Helgi Viðar

      Valgarður þú ert ekki einu sinni búinn að sjá myndina!

      „Kraftaverkalækningar“ eru orð RÚV, enda var ég að vísa til myndarinnar en ekki til lýsingar RÚV á henni.

      Maður nokkur að nafni Njáll Torfason framkvæmdi eftirfarandi gjörning 1993.

      http://www.mbl.is/greinasafn/grein/116768/

      Vísindin geta ekki skýrt þetta. Hann segir sjálfur að allir menn hafi þenna hæfileika, en hjá honum sé hann virkari en hjá öðrum svona eins og að sumir hafa góða söngrödd frá náttúrunnar hendi aðrir lélega svo notuð séu hans eigin orð.

      Myndin sýnst miklu ferkar um hæfilega og þekkingu sem nýta má til lækninga frekar en „Guð“, „Kraftaverk“ og „Yfirnáttúru“.

      • Ekki í heild – og búinn að skýra hvers vegna. Mér ofbauð kjaftæðið í því sem ég sá.

       Kraftaverkalækningar eru orð RÚV og ég er að gagnrýna RÚV. Aftur, ef þú værir til í að hafa fyrir að lesa færsluna mína áður en þú setur inn athugasemdir.

       Myndin býður upp á hreint og klárt kjaftæði eins og augljóst er af þeim bútum sem sýndir eru til að kynna hana – og enn skýrar ef maður lítur á aðra búta úr henni. Hún setur fram fullyrðingar sem eru ýmist ósannaðar eða hefur verið sannað að eru rangar. Þetta nægir mér til að dæma hana sem kjaftæði.

       Og fyrir alla muni hlífðu mér við þessu „vísindin geta ekki skýrt þetta“ og einhverjum reynslusögum og „eigin orð“ einhverra sem fullyrða eitthvað út í loftið, það er ekkert yfirnáttúrulegt við að geta dregið bíl, hvaða rugl er þetta?? Þeir sem telja sig hafa yfirnáttúrulega hæfileika geta einfaldlega haft fyrir því að fá það staðfest.

       Ertu búinn að lesa greinina sem ég vísaði til? Eða ertu að gera athugasemd við að ég horfi ekki á alla myndina á meðan þú sjálfur lest ekki færsluna mína og kynnir þér ekki gagnrýni á myndina?

 • Helgi Viðar

  Hér er linkur á heimildamynd úr þýska sjónvarpinu sem heitir „Scheller als das Auge“. Þar er reynt að varpa ljósi á eitt og annað sem mönnu hefur gengið illa að skýra. Notaðar eru háhraðamyndavélar sem taka 1000 myndir á sekúndu. Í miðri myndinn er fjallað um kínverska munka sem framkvæma atriði sem vísindunum hefur ekki tekist að skýra þrátt fyrir hraðamyndirnar.

  http://www.zdf.de/ZDFmediathek/beitrag/video/1589610/Schneller-als-das-Auge—Superzeitlupe-2?setTime=10

  • Það er eitt og annað sem vísindunum hefur ekki tekist að skýra, en það þýðir ekki að skýringarnar liggi í einhverri yfirnáttúru. Ég ætla að bíða með að eyða tíma í að horfa á þessa mynd þar til framleiðendurnir hafa sótt milljón dollarana (plús) til Randi. Það er í rauninni ágætis „test“, ef menn hafa í rauninni eitthvað fram að færa í þessari umræðu og telja sig geta sýnt fram á einhverja yfirnáttúru þá er það ágætis byrjun. Ef ekki, þá er einfaldlega um óvönduð vinnubrögð og/eða blekkingar að ræða.

  • Var eitthvað annað þarna heldur en bara að kasta einhverri pílu í gegnum gler? Ég satt best að segja sá ekki alveg hvað var svona svakalega dularfullt.

 • Jóhann Ingi

  Helgi Viðar: Það er hægt að horfa á myndina á veraldarvefnum, og ég reikna með því að Valgarður hafi gert einmitt það áður en hann ritaði þennan pistil.

  En ég er sammála. RÚV er ekki beint að hjálpa til með að koma gagnrýnni hugsun að í samfélaginu. Vísindalegt læsi ætti að geta afskrifað þetta kukl á núll-einni, en einhverjir sauðhausar munu eflaust dásama þetta.

  • Helgi Viðar

   Jóhann Ingi: Valgarður hlýtur að geta svarað fyrir sjáfan sig.

 • Eigum við ekki að breyta hugtakinu heymildarmynd, í sannaðar heymiladamyndir? Eða kannski vísindalega sannaðar heimildamyndir? Eruð þið sjálfskipaðir eftirlitsmenn sannleikans.

  • Nei, helst ekki, „heimildamynd“ er fínt hugtak og þarf enga endurskilgreiningu.

   Ég vil ógjarnan að skattpeningunum mínum sé eytt í að predika lífshættulegt bull. Og hef fullan rétt á að láta heyra í mér án einhvers skætings.

   Myndir þú sitja þegjandi hjá ef RÚV sýndi „heimildamynd“ þar sem fullt af fólk kæmi fram og fullyrti að það væri ekkert að því að gleypa blásýru?

 • Ég léti mér það í léttu rúmi liggja. Ég hef aldrei litið svo á, að RÚV sé hinn eini sanni boðberi sannaleikans. Mér stæði hins vegar ekki á sama, ef vísindaakademían kæmi fram með slíka fullyrðingu, því þá væri það orðið „heilagur sannleikur“

  • Þá erum við ósammála. Ég er ekki að tala um eina boðbera sannleika hvað þá „heilagan sannleik“. Ég er að tala um að vera ekki að nota almannafé í að kynna hrein og klár ósannindi sem einhvern sannleika.

 • Helgi Viðar

  Hvað segir þú um þetta Valgarður, er þetta bara rugl og kjaftæði?

  Það var fjöldi fólks sem horfti á þetta í Kapplakrika.

  „Ég batt ofurtaug í bílinn og í straujárn sem ég festi við skinnið á mér með einbeitingu. Eftir nokkra stund fór bíllinn af stað og í tveimur áföngum tókst mér að draga hann 12 metra. Þetta er í fyrsta skipti sem svona bíldráttur er framkvæmdur í heiminum, þannig að þetta fer trúlega í Heimsmetabók Guinnes,“ sagði Njáll.

  Þetta stríðir gegn náttúrulögmálunum eins og við þekkjum þau sennilega bara vegna þess að við þekkjum þau ekki til hlýtar.

  • Ertu í alvörunni að halda því fram að þetta sé eitthvað yfirnáttúrulegt? Eða ertu að fíflast í mér?? Þú getur ekki verið svona einfaldur. „Fjöldi fólks að horfa“ og „trúlega“ í heimsmetabók. Eða ekki. Ekki veit ég til að þetta hafi farið þangað. Dettur þér nokkuð í hug möguleg skýring?? Þetta stríðir ekki gegn einu eða neinu, hvað þá náttúrulögmálum.

   Ertu alveg tómur þegar kemur að „töfrabrögðum“ (þú veist, ekki alvöru galdrar, heldur sýningar), og afhjúpunum á svindli? Aldrei horft á Derren Brown eða Penn & Teller?

   • Helgi Viðar

    Ég er ekkert að fíflast í þér Valgarður. Maðurinn setti straujárn á bringuna á sér standandi og það hélst þar þótt það hefði átt að detta í gólfið. Þetta var sýnt í sjónvarpi fyrir mörgum árum.

    Í þessu tilfelli bindur hann taug í bíl og síðan í straujárnið en straujárnið liggur að húðinni á bringunni, enginn bönd, engin festing. Þannig togar hann 830 kg. bíl 12 metra. Það þýðir togkraft upp á tugi kílóa án sýnilegrar skýringar. Gerist annars svona lagað á hverjum degi?

    • Úff… þú verður að fyrirgefa, en… þú getur ekki verið svona einfaldur, vinur minn lék þetta með straujárnið eftir á sínum tíma og hafði ekki mikið fyrir, einföld brella. Horfðu á Penn & Teller eða Derren Brown, þeir sýna hvernig fólk er blekkt.

     • Helgi Viðar

      Hvað segir þú Valgarður, dróst þú bíl á bringunni með straujárni?

      Hvað segir þú þá um þennan, manstu eftir honum? Voru þetta bara sjónhverfingar eða eitthvað sem hver sem er getur?

      Lestu vandlega. Ekki endilega yfirnáttúrulegt en óútskýranlegt.
      http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3203208

      Kjarni myndarinnar The Living Matrix er að líkaminn sé í eðli sínu orka og því læknanlegur á orkusviðinu. Það skýrir hvernig hin svokölluðu kraftaverk eiga sér stað. Sem sagt náttúrlegt en ekki yfirnáttúrulegt.

      • Eins og ég sagði áðan þá lék félagi minn þetta „festa málm við líkamann“ eftir, ekki ég og ekki að draga bíl. Aftur mættirðu eyða aðeins meira tíma í að lesa áður en þú skrifar athugasemdir, það myndi spara okkur báðum tíma.

       Fór þetta í Heimsmetabók Guinness? Ef ekki, dettur þér ekkert í hug sem skýrir hvers vegna þessu var hafnað?

       Ég bendi í þriðja skipti á ágætar skýringar á svona sjónhverfingum, Penn & Teller og Derren Brown.

       Annars máttu hætta að dæla inn tenglum á einhverja undarlegar fréttir. Þar til einhver þeirra sækir staðfestingu til Randi, þá gef ég þetta frá mér sem hreint kjaftæði.

       „Læknanlegur á orkusviðinu“ er kannski ágætis samnefnari fyrir bullið í kuklgeiranum. Það er nákvæmlega núll sannanleg tilfelli um svona lækningar í allri veraldarsögunni. Ef eitthvað væri mögulega hæft í þessu rugli þá væri hægt að sýna fram á þetta með tilraunum. Það hefur ekki verið gert. Vegna þess að það er ekki hægt. Vegna þess að þetta er innihaldslaus þvæla til að féfletta fáfróða einstaklinga.

       Og mér finnst til skammar að RÚV sé að púkka upp á þetta.

 • Valgarður. Ert þú að tala um sannleikan – samkvæmt þinni visku eða einhverra annarra? Hvert er viðmiðið á sannleika.

  • Nei, ég er að tala um að í þessari mynd eru fullyrðingar sem standast ekki skoðun. Ef einhver heldur því fram að lyfjameðferð virki aðeins í 9% tilfella og aðeins ef viðkomandi trúir því sjálfur þá stangast það á við þekktar staðreyndir. Og er þar af leiðandi ekki satt. Og sá sem heldur því fram er klárlega að segja ósatt. Þetta er nú ekki flókið. Þetta er ekki spurning um visku einhverra eða viðmið á sannleika.

 • Ég vil taka það fram, að ég er ekki búinn að sjá þessa heimildamynd. Mér sýnist samt að ég tæki nú ekki mikið mark á því sem kemur fram í henni. Það þýðir samt ekki að hana megi ekki sýna á RUV frekar en markt annað kjaftæðið.

 • Hannes Þórisson

  Eitthvað mikið að í umræðu fréttamiðla um þessi mál í dag. Fyrst kom Fréttatíminn með viðtal við konu sem þakkaði blómadroppum eða eitthvað fyrir sína lækningu en hljóp yfir það að hefðbundin meðferð hafði verið notuð.

  Svo kemur þessi mynd sem ætti að hafa Penn og Teller með innskot á svona 3-4 mín fresti.

  Hvað næst? Fillipeyskir galdrlæknar opni krabbameinsdeild í Kringlun?

 • Fyrir 3-4 árum kom hingað til lands náungi sem boðaði kenningu sína um „super foods“, þ.e. mat sem er súperhollur, nánast allra meina bót. Enn einn manneldisgúrúinn (kauptu bókina, skráðu þig á námskeiðið). Honum var umsvifalaust boðið í Kastljós þar sem ekki bara einn heldur tveir dagskrárgerðarmenn létu hann blaðra um þetta og hlustuðu með andakt. Ég held að Smartland Mörtu Maríu á mbl.is sé vandari að virðingu sinni en þetta.

  • Það hafa líka dottið inn sölumenna sem selja alls konar þvætting um virkni líkamans og lækningaráð byggð á einhverri heimatilbúinni speki. Því miður hafa þeir fengið fráleita athygli fjölmiðla sem auglýsa þetta gagnrýnislaust. Það er ekki eins og það sé erfitt að finna upplýsingar um hversu mikið rugl þetta er.

 • Um að gera að vara við svona rugli; Fólk er jafnvel að drepa sig á þessu, eins og kona um daginn sem svelti sig til bana á Breatharian megrunarkúrnum sem gengur út á að lifa á sólskini og lofti.
  Ég þarf ekki að minnast á hallelúja-lækningarnar… er það nokkuð 😉

 • Ég held nú að menn séu nú fullfærir um að meta hvort um heimsku er að ræða,fyrst skulu nú menn horfa á myndina og skammast síðan en ekki öfugt .

  • Það eru því miður allt of mörg dæmi um að fólk telur ákveðinn gæðastimpil að RÚV skuli sýna myndina. Það eru nægar upplýsingar fyrir hendi til að afgreiða myndina sem rökleysu.

 • Steve jobs sannaði að svona bull drepur.

  Hann neitaði að hlusta á lækna sem vildu að hann færi STRAX í krabbameins meðferð og sögðu honum að þeir GÆTU læknað meinið en hann NEITAÐI og ákvað að fara að borða jurtir og drekka te og alls konar „náttúrulegar“ lækningar.

  Á endanum þegar hann kom og sagði að þetta væri ekki að virka sögðu læknar að það væri OF SEINT að bjarga honum enda var meinið komið út um allan kroppinn.

  Einn mesti snillingur heimsins drap sig með eigin heimsku.
  Kannski öfugmæli en svona endaði þetta nú

 • Fólk er sífellt að drepa sig á hinu og þessu og læknar og lyf drepa vafalaust fólk í hrönnum.

  Hef ekki séð þessa mynd en sé að hún er að seeda vel á piratebay og ætla að dánlóda hana. Hún virðist fá frekar jákvæða umfjöllun þar sem ég hef athugað það. Það er líka ákveðin histería í gangi sem ætti að mæla með henni frekar en hitt.

  • Sem sagt ef einhver varar þig við að drekka eitur, sérstaklega ef margir gera það, þá hleypur þú til og prófar – af því að „histería“ verður til að þú tekur öfuga ákvörðun. Heldurðu virkilega að það segi eitthvað til um gildi fullyrðinganna í myndinni hvort hún fær jákvæða umfjöllun á einhverri sjóræningasíðu??

 • Helgi Ingólfsson

  Ég er sammála þeirri gagnrýni þinni, Valgarður, að miklar líkur séu á því að um hégiljur og bábiljur sé að ræða í umræddri mynd (þótt ég ætli að bíða með endanlegan dóm þar að lútandi, uns ég hef horft á myndina).

  Hins vegar er ég ekki sammála þeirri forsjárhyggju, sem þú hvetur til, að RUV eigi ekki að sýna myndina af þeim ástæðum, sem þú tilgreinir. Ég tel að upplýst nútímafólk sjái hæglega í gegnum slíka mynd, ef hún reynist tómt þrugl, og auk þess finnst mér að fólk eigi að fá tækifæri til að dæma sjálft um gildi kvikmynda, sem og þeirra lækninga sem það kjósi, ef þeim eru kynntir allir valkostir. Rök þín hér fyrir því að RUV ætti ekki að sýna umrædda kvikmynd – að hún sé illa unnin sem heimildamynd, birti óæskileg viðhorf og sé í stuttu máli „rugl“ – eru nákvæmlega sömu rök og ég man að sumir frjálshyggjumenn notuðu gegn sýningu kvikmyndarinnar „Zeitgeist“ (fyrstu) á RUV, enda var sú mynd unnin af vanefnum svo að skorti á heimildavinnuna, sumar tengingar voru langsóttar og hugmyndafræðin umdeild. Samt held ég að í dag efist fáir um að „Zeitgeist“ hafi haft heilmikið samfélagslegt gildi, þótt umdeild sé. Sú kvikmynd hefði þó ekki verið sýnd á RUV, ef fáeinir þröngsýnir menn, sem afskrifuðu hana fyrirfram sem lélega heimildamynd og rugl, hefðu fengið að ráða.

  (Og til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég ekki á neinn hátt að bera saman myndirnar Zeitgeist og Living Matrix, enda hef ég enga forsendu til þess, þar sem ég hef ekki séð síðastnefndu myndina. Ég er bara að benda á að svipuð rök komu fram meðal tiltekinna andstæðinga hugmyndafræði viðkomandi myndar ÁÐUR en hún var sýnd.)

  Að mínu hyggjuviti stendur RUV sig vel, ef stofnunin sýnir myndir sem vekja umtal og umræðu. Mér sýnist ofangreindur umræðuhali, með sínum ólíku viðhorfum, einmitt endurspegla að RUV er með fingurna á púlsinum hér. Þessi færsla, og umræðurnar í kringum hana, hefur líklega leitt til að mun fleiri munu horfa á þessa mynd en ella. Þannig hefur færsla þín, Valgarður, gert heilmikið til að auglýsa myndina, til góðs eða ills. (Líklega hefði ég ekki nennt að leggja mig eftir henni nema vegna umræðna hér.)

  Það er því mín skoðun að RUV eigi tvímælalaust að sýna þessa mynd, sem og fleiri myndir af þessum toga, þó ekki væri nema til að sýna hvernig misvitrar kenningar grassera í dag. Hins vegar tek ég heilshugar undir að kynningartexta myndarinnar hefði mátt tóna verulega niður af hálfu RUV og ekki setja hann fram í þessu afdráttarlausu formi staðhæfingar, sem hann er á.

  • Það var nú reyndar kynningin á myndinni sem var kveikjan að færslunni. Ég held að RÚV hafi einmitt hafnað myndum á vafasamari forsendum.

   Það taka það margir sem gæðastimpil að RÚV sýni eitthvað. Ég myndi kannski ekki vera að rífast ef myndin væri kynnt sem umdeild mynd og einhver umræða færi fram.

   En mér finnst reyndar eðlilegra að miða við að ef mynd er stútfull af ósönnuðum og beinlínis röngum fullyrðingum án þess að kynna andstæð sjónarmið, þá á mynd ekki erindi hjá RÚV. En, það er rétt, við myndum kannski missa af einhverju forvitnilegu…

 • Steve Jobs er einmitt viðmiðið við þessar óhefðbundnu læknigar skv umræðunni hérna.
  Vissulega má taka það til greina að mörg afrek hafa verið unninn í hinni nútíma læknisfræði en þess a móti hefur sú fræði einnig orðið að risa stórum iðnaði sem notar alla sýna krafta í að þagga niður í allri annari fræði sem er ekki skv þeirra hugsjón. T.d má benda á geðlækningar sem hafa það ráð að skrifa út pillur fyrir sjúklingana án þess að vinna að rót vandans. Geðlæknar hafa átt í kappi við að greina sem flest í hinu mannlega eðli sem einhverskonar „geðsjúkdóm“ eins og einbeytingarleysi kallast athygisbrestur (A.D.D/A.D.HD) og að vera misludnur er kallað Geðhvarfarsýki (Bipolar Disorder) eitthvað sem flestir ættu að kannast við við hið daglega amstur sem mannverur.
  Sama gildir um læknisfræðina það er aðeins ein leið í að lækna sig og það er þeirra leið og engin önnur. Undirritaður getur vottað annað til að nefna á ferðlagi mínu í Asíu veiktist ég illa af beinbrunasótt sem er ekki ólík veiki og malaría. Ég las mig vel til um veikina og skv öllum þeim læknartirum sem ég las var allstaðar fullyrt um að engin lækning væri við slíkri veiki. Við betri athugun fann ég að í Malasíu hafi lengi vel notir ensími úr papaya ávextinum gegn slíkri veiki, ég hafði engu að tapa og varð mér út um þannig og útkoman var sú að ég var orðinn full frískur sólahring eftir inntöku slíkra ensíma. Hvort sem það voru skottulæknigar eður ey fannst mér þröngsýnin útfrá hinum hefðbundu læknisfræðum vera svo gífurleg og þeirra rök voru að það væru ekki til neinar rannsóknir yfir að með inntöku á slíkum „skottu“ lyfjum bæri árangur. Það vekur upp spurningar um hversu opinn slík stétt sú er fyrir öður en þeirra eigin fræðum? Ég er ekki einsdæmi um að hafa fengið lækningu af beinbrunasótt með slíkum „skottulækningum“.
  Þó svo að ég hafi ekki séð The Living Matrix er hún eflaust gagnrýnisverð ásamt flesum heimildarmydum sem bera áróður í sér, t.d má nefna Zeitgeist sem var sýnd ekki fyrir svo löngu á sömu stöð og ætti höfundi að vera kunnugt um þá mynd.
  Að alhæfa um að upplýsingar um að allt sem komi fram í þessari mynd sé kjaftæði er djúpt í árina tekið án þess að hafa nein rök gegn því annað að þykjast geta stuðst við hina almennu lækisfræði. Það lyggja fyrir heill hellingur af bókum um samsettningu mataræðis og heilbrygði sem styða væntanlega eitthvað úr þessari heimildarmynd sem hafa þó ekki hinn svokallaða rannsónar stympil, hvort sem það eru skottulæningar eður ey hafa slíkar aðferðir veitt árangur. Þetta er í raunini ekki flókið mál, ef einstaklingur verður fyrir því að fá sykursýki gefur það nánast augaleið hver valdurinn af því sé og hver er lausinin við slíku,? Taka lyf eða endurskoða mataræðið sem var valdurinn af sykursýki?
  Er þó óupplýstur um myndina sjálfa en mun þó kannski lýta yfir hana einn daginn

  • Ég er ekki að halda því fram að læknavísindin séu fullkomin eða komin á einhvern leiðarenda og hafi svör við öllum spurningum. Það er auðvitað fullt af dæmum um mistök og eflaust margt þar sem mætti fara betur. Það þýðir ekki að lausnin liggi í einhverjum óstaðfestum lækningum. Það ætti til dæmis að vera auðvelt að prófa þetta ensími sem þú nefnir. Og ég sagði nú ekki að allt sem kæmi fram í myndinni væri kjaftæði en það er af nógu að taka. Þá held ég að það sé ekki í neinni andstöðu við þekkingu að gott mataræði hefur góð áhrif á heilsu, þvert á móti held ég að það sé það fyrsta sem læknar benda á…

   Ég þekki Zeitgeist myndirnar, en skil ekki alveg hvert þú ert að fara með athyglisbresti og geðhvarfasýki..

  • Már Egilsson

   @ Pétur
   Sæll. Þú þyrftir að kynna þér betur vísindalega aðferðafræði. Vísindin gera ákveðnar kröfur til þess að menn geti sagt að milli tveggja breyta séu líklega orsakatengsl. Sönn vísindi byggja sem betur fer á sterkari grunni en þú lýsir þarna í sögunni um papaya ávöxtinn. Annars værum við nú ekki að eiga samskipti í gegnum internetið.
   Þú virðist líka vera gífurlega fáfróður um geðsjúkdóma. Hljómar eins og þú hafir aldrei hitt manneskju í geðhæð/geðlægð sem er greind með geðhvarfasjúkdóm.

 • Veistu hver Reynir Þröstur Leósson var, betur þekktur sem Reynir Sterki ?

  Myndirðu segja að það sé líka bull og kjaftæði sem hann gerði ?

  • Ég man eftir Reyni og hef enga trú á að hann hafi haft yfirnáttúrlega hæfileika – og sá aldrei neina sönnun þess efnis.

   • Reynir Þröstur Leósson? Hann hét hét Reynir ÖRN, strákar mínir…

   • Helgi Viðar

    Hér koma skýringar Reynis á því hvaðan hann fær krafta sína. Trúi því hver sem vill.

    Í lok myndskeiðsins slítur hann sex tonna keðju án þess að hafa mikið fyrir því. Auðvitað alveg eðlilegt.

    http://www.youtube.com/watch?v=qmyNbuvGIAI

    Afrek hans þar sem hann braust út úr rammgerðum öryggisklefa upp á Keflavíkurflugvelli fór í Heimsmetabók Guinness.

    • Reynir var eflaust sterkur, það þarf enga yfirnáttúru til.. hvað sem hann hefur sjálfur haldið. En, svo ég endurtaki, kíktu á góðar skýringar.. og sendu mér athugasemd þegar Randi hefur þurft að greiða.

 • Mikið veistu lítið Pétur ef þessi orð eru lýsandi fyrir það sem þú veist.

  ,,Geðlæknar hafa átt í kappi við að greina sem flest í hinu mannlega eðli sem einhverskonar „geðsjúkdóm“ eins og einbeytingarleysi kallast athygisbrestur (A.D.D/A.D.HD) og að vera misludnur er kallað Geðhvarfarsýki (Bipolar Disorder) eitthvað sem flestir ættu að kannast við við hið daglega amstur sem mannverur.“

  Held þú ættir nú bara að snúa þér að einhverju öðru. Þér dettur örugglega eitthvað sniðugt í hug.

  Gangi þér vel kveðja Gestur

 • Tja, sjúkdómar og stríð skapa óneitanlega gríðarleg viðskiptatækifæri með óhugnanlega álagningu. Þannig að það hefur líklega verið vaxandi hvati fyrir bísnessmenn að skapa aukin viðskipti á þessum arðvænlegu sviðum. Maður hlýtur að álykta sem svo. Varla hafa þeir verið að vinna að því að leggja niður eigin gróðaveg. Mér finnst að þurfi að skoða terrorævintýri, stríðslygar og sjúkdómaframleiðslu og lyfjafjafir í þessu ljósi.

  • Ég er ekki viss um að ég skilji þetta alveg, en vissulega eru dæmi um óhóflega álagningu lyfja. En þess þá heldur að vanda valið og taka aðeins það sem hefur verið sýnt fram á að virki. Fyrir mitt leyti vil ég frekar borga of mikið fyrir lyf sem virkar en sull sem hefur engin áhrif. En ég get tekið undir að það mætti margt betur fara. Hins vegar er kukliðnaðurinn risavaxinn og ekki síður varhugaverður.

 • Guðjón Valgarðsson er með mikilvægan link á gagnauga.is

  Cancer industry total fraud exposed: Nearly all \’scientific\’ studies fail to be replicated

  http://www.naturalnews.com/035616_cancer_industry_scientific_fraud_studies.html

  • Við Guðjón erum sammála um margt, en mér finnst hann stundum gera of litlar kröfur í greinavali og ekki lesa með nægilega gagnrýnu hugarfari. Ég held að hann kynni svona greinar þó oftast sem eitthvað til að skoða sem möguleika, ekki sem einhvern sannleik.

  • Páll Jónsson

   Þetta er nú frekar villandi tengill hjá þér.

   Þegar maður kynnir sér þessa rannsókn þá kemur í ljós að aðalumkvörtunarefnið er alls ekki eitthvað „Cancer industry total fraud“, heldur þvert á móti að grunnrannsóknir hjá virtum háskólum séu ekki nógu vandaðar, m.a. vegna þess að þær eru ekki alltaf tvíblindar líkt og rannsóknir lyfjafyrirtækja.

   Það er í raun verið að hvetja til þess að háskólar taki sér „the Cancer Industry“ til fyrirmyndar.

   • Það er því miður oft þannig að fólk les greinar á hlaupum og misskilur innihaldið, stundum ræður óskhyggjan. Eins og sést á nokkrum athugasemdum hér þá er lesskilningur heldur ekki sterkasta hlið þeirra sem trúa á bábiljur.

 • gamli góði laglausi pönkarinn búinn að reisa musteri smáborgaramennskunar

  • Svona „málefnalegar“ athugasemdir styrkja mig alltaf í því að ég sé að gera eitthvað rétt. Þegar menn hafa ekki betra fram að færa en uppnefni og skæting þá eru góðar líkur á að ég hafi rétt fyrir mér.

 • Þakka kærlega fyrir að benda mér á þessa mynd, annars hefði ég eflaust misst af henni. Mjög athyglisvert, margt sem þarna kom fram. Það er þröngsýn og dapurleg lífskoðun að trúa því að aðeins megi útskýra lífið útfrá minnstu einingum þess, sameindum og að lífverur séu ekkert annað en vélar samsettar úr þessum einingum.

  • Lítið við því að gera. Það eru sem betur fer fleiri sem hafa þakkað fyrir að vara við þessu kjaftæði og taka þessu gagnrýnu hugarfari. Það er nákvæmlega ekkert dapurlegt við að vera raunsær, hvað þá þröngsýni.

 • Ég er ansi hræddur um að við séum það sem við trúum.

 • Halldór

  hahahahaha. Er þá Valgarður bara skoðanafasisti að hætti Vantrúar eftir allt….. Já við skulum bara loka RUV og loka Youtube og setja upp internetsíur fyrir allt sem stenst ekki vísindalega og óskeikula gagnrýni hans. hahahahahahahahaha.

  En fyrst þú ert kominn í þessa deild valgarður, hví ekki að segja bara þorra almennings hálfvita strax, þú ert æðislegur, veist allt, kannt allt og trúir engu nema einhver gæi í slopp hafi testað það þúsund sinnum í tilraunaglasi.

  Ferlega er heimur þinn lítill, og smámenni stækka hann ekki

  • Ég kann alltaf vel að meta svona útúrnúninga og uppnefni. Það eru aðferðir þeirra sem eru rökþrota og hafa ekkert fram að færa. Ég talaði aldrei um að loka RÚV, hvað þá YouTube, menn mega setja hvaða rugl sem er á YouTube mín vegna. En ég geri aðrar kröfur til RÚV, amk. á meðan ég þarf að borga fyrir reksturinn.

   En RÚV fær plús fyrir að taka vel á móti gagnrýninni og birta.

   PS. Ég held að þessi athugasemd slái einhvers konar met í rökvillum á fjölda setninga. Má ég nota þetta annars staðar?

 • Ása Björk

  Mikið er gott að einhver er vakandi fyrir þessu.
  Skulum vona að fólk sem horfði á þessa mynd gerði það með gagnrýni en ekki trúgirni.

 • Kári. Þú segir. „Einn mesti snillingur heimsins drap sig með eigin heimsku. Kemur þér ekki til hugar að fréttir af hans málum gætu verið helber lygi. Við vitum harla lítið um hans baráttu. Allavega skýtur það skökku við, að mesti snillingur heimsins sé einfaldlega heimskur.

  • Það kemur fram í ævisögu Steve Jobs að hann „dauðsá“ eftir þessu, bókstaflega, og hans barátta er ansi vel skjalfest. Þú ert varla sami „Benni“ og nefndir hér fyrr Biblíuna sem gott heimildarit, er það? En gefur þér að sagan af Steve Jobs geti verið „helber lygi“ án þess að hafa fyrir því að kanna málið. Hann hafði vissulega ákveðna hæfileika, en mesti snillingur heims er nú kannski frekar langsótt.

 • Helgi Viðar

  Jæja, þá er ég búinn að horfa á myndina í annað sinn og lesa gagnrýnina á hana. Auðvitað tekur maður mörgu þarna með fyrirvara og setur spurningamerki við sumar fullyrðingar.

  Í myndinni eru nokkrar reynslusögur og kynntar kenningar/hugmyndir tengdar þeim. Sumt af því er stutt ágætis rökum þó ekki sé haldið fram að það sé sannað. Lögð er áhersla á að viðhorf sjúklings til sjúkdóms skipti miklu máli hvað bata varðar. Það atriði er viðurkennt af mörgum læknum, þó sjálfsagt hafi ekkert sannað í þeim efnum.

  Það af þessu sem er á rökum reist hlýtur að skýrast frekar í framtíðinni, annað hlýtur að fara í glatkistuna.

  Sé enga sérstaka ástæðu til að sýna ekki þessa mynd.

  • Þarna eru samt ansi margar fullyrðingar sem standast ekki skoðun. Og ágætis rök geta hljómað vel fyrir þeim sem ekki eru vakandi fyrir rökleysum. Aðrar fullyrðingarnar hafa klárlega verið afsannaðar. Og hvers vegna ekki að gera tilraun og sýna fram á fullyrðingarnar? Stundum flókið, en sumt hefði nú mátt afgreiða á einfaldan hátt.

 • Andri Pétur Torfason

  Þetta er svipað og þegar það er talað um biblíuna sem heimild. Sögurnar í myndinni eru heimildir og fólk velur hvort það trúir þeim eða ekki. Flestir sjá nú að þarna eru töluvert margir óvissuþættir en það þýðir ekki að þetta sé endilega allt bull. It is what it is. 🙂

  • Það er ekkert að því að líta á sögurnar fólks sem heimild um hvernig það upplifir hluti. En þarna er allt of mikið af rangfærslum innan um til að þetta geti talist boðlegt og tilgangurinn klárlega að skilja fólk eftir með það að mögulega sé eitthvað til í þessu. En þetta er reyndar svo illa gert að væntanlega hafa flestir séð í gegnum þetta. Og mínar ábendingar, sem og annarra óþarfar.

 • Hin vísindalega aðferð mun vinsa út ruglið á endanum. Flestir þeir sem töluðu í þættinum í gær voru raungreinamenntaðir á sviði lífeðlisfræði og læknifræði, margir með doktorsgráður. Slíkir aðilar eru fullmeðvitaðir um aðferðafræði vísinda. Ef ekki er hægt að útfæra prófanlegar tilgátur úr frá kenningunni mun hún falla í gleymskunnar dá. Við skulum heldur ekki gleyma því að ýmsar aðferðir og lyf hafa verið þróuð úr einhverju sem áður var ósannað og óprófað. En það er full ástæða til að standa vörð um arfleifð Descartes og annarra hugsuða endurreisnarinnar sem bundu enda á galdrabrennur og skiluðu okkur þeim lífsgæðum sem við höfum í dag. Ég tek t.d. eftir því að ágætlega gefið og menntað fólk stekkur til og kaupir Lottó í sömu sjoppu og hæsti vinningur fékkst síðast. Það er stutt í alvarlegar ályktunarrökvillur, confirmation bias, vanskilning á nauðsynlegum og nægjalegum skilyrðum, o.fl. o.fl.

  • Já, vonandi síast þetta fljótt og vel.

   En ég varð nú ekki var við að þessir raungreinamenntuðu menn notuðu vísindalegar aðferðir til að velja og hafna því sem þeir héldu fram. Það sem verra er, þarna voru fullyrðingar sem standast ekki skoðun. Ég hef svo sem ekki nennt að eltast við að skoða hvað er á bak við gráðurnar, en það er þekkt td. úr bólusetningarhræðsluherferðinni að fólk titlar sig „lækna“ og ýmist annað án þess að hafa nokkra menntun.

 • Sævar Finnbogason

  Valli, það liggur við að ég segi amen eftir efninu 🙂

 • Það er nú fullt af titluðu fólki í kringum bólusetningabullið. Ég tek því ekkert síður með fyrirvara, sem kemur frá titlatoguðum.

  • Nei, amk. þeir sem eru hvað mest áberandi skreyta sig með heimatilbúnum titlum eða gráðum sem hafa ekkert með læknisfræði að gera.

   • Getum við þá ekki talað um nútíma læknisfræði sem hálfgert kukl þar sem hún byggist í auknum mæli á erfðafræði?

    • nú sé ég ekki samhengið, ég veit ekki í hvaða mæli hún byggir á erfðafræði, hvað þá að að það væri merki um kukl, þó svo væri

     • Við skulum segja að erfðamengjafræði, tilraunir og framleiðsla á lyfjum til lækninga líkist að koma höndum á dropa af kvikasilfri með berum fingrum.

      Að læknar með háskólagráðu frá virtum háskóla, en ekki með heimatilbúnum titlum eða gráður, séu orðnir að skottulæknum vegna kunnáttuleysis í erfðafræði og tækju blindandi trú á þá sem mötuðu þá af niðurstöðum „galdraerfðamengjafræði“ gætu ekki kallast kuklarar?

      Sumir trúa á endalausa möguleika mannsins og vísinda hans, meðal annars til að gera líf mannkyns ódauðlegt.

      Þá eru vísindi líklega orðin guðleg?

      • Ég er eitthvað tregur, amk. ekki klár á hvað þú ert að tala um, hvaða háskóla, eða hversu útbreytt þetta er.

       Í sjálfu sér geri ég engar athugasemdir við að menn leiti nýrra leiða. Það sem skiptir máli er að vera ekki að fullyrða að eitthvað virki, eða sé sannað nema búið sé að sýna fram á það með tilraunum. Og auðvitað… að ekki sé verið að fullyrða hluti sem hafa verið afsannaðir.

       En Sævar var búinn að segja „Amen“… eigum við ekki að láta þetta nægja að sinni?

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is