Miðvikudagur 14.03.2012 - 20:01 - Lokað fyrir ummæli

Rokk í Reykjavík „aftur“

Belginn Wim Van Hooste er að skipuleggja Rokk í Reykjavík afmælishátíð 24. maí næstkomandi á Gauknum.

Því miður stendur svo illa á að við Fræbbblar getum ekki tekið þátt, Helgi bassaleikari verður fjarverandi vegna útskriftar sonarins í útlandinu. Mögulega taka einhverjir okkar þátt, svona til að sýna lit.

En það er ekkert leyndarmál að Fræbbblar vorum mjög ósáttir við okkar þátt í Rokk í Reykjavík myndinni á sínum tíma.

En að okkur frátöldum er myndin vel heppnuð og gefur nokkuð góða mynd af andrúmsloftinu eins og það var.

Það eru margar ástæður fyrir því að svona illa tókst til. Bæði fannst okkur ekki mikill áhugi hjá framleiðendum, sem lögðu mikla vinnu í aðrar hljómsveitir, en létu nægja að mynda okkur á hljómleikum og grípa viðtal. Kannski var það vegna þess að við vorum að einhverju leyti utanveltu í þessum hóp.

En þeir mættu á Hótel Borg á föstudagskvöldi og satt að segja gekk ágætlega framan af. En hóteleigendur (rekstaraðilar) voru stöðugt að trufla okkur og heimta að við lækkuðum svo hótelgestir gætu sofið. Á endanum gafst Stebbi upp og hætti þessari vitleysu. En við vildum vera með og Maggi (Utangarðsmenn, Bodies, Egó og fleiri) hljóp í skarðið og spilaði nokkur lög með okkur. Hann hafði hjálpað til þegar Stebbi fótbraut sig á Akureyri, þekkti lögin ágætlega og var auðvitað fanta góður trommari.

Upptökurnar tókust svo sem ágætlega. En þetta voru ekki Fræbbblarnir. Þannig að það var ákveðið að reyna aftur. En það var lítill tími til stefnu. Við vorum að fara til Oslóar að spila og myndatökum var að ljúka.

Neyðarúrræðið var að setja upp hljómleika í Fellahelli á sunnudagseftirmiðdegi. Við vorum ekkert sérstaklega vel stemmdir á sunnudeginum. Ekki bætti úr skák að Guðmundur sendibílstjóri steinsofnaði. Með græjurnar í bílnum. Og engir farsímar. Að lokum mætti hann og við settum upp í fljótheitum og spiluðum nokkur lög. Vorum pirraðir og viðtölin á eftir ekkert sérstaklega vel heppnað. Svo ekki sé meira sagt.

En, ég veit ekki hverjir aðrir mæta þarna en það eru meiri upplýsingar á http://reykjavikrocks.blogspot.com/ og http://icelandicmusic.blogspot.com/. Og meira seinna…

Flokkar: Menning og listir · Tónlist
Efnisorð: ,

«
»

Ummæli (1)

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is