Laugardagur 12.1.2013 - 10:00 - Lokað fyrir ummæli

Rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Grein mín sem birtist í Morgunblaðinu í morgun:

Talið er að um 90% Íslendinga sem starfa á almennum markaði vinni hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Aðgerðir stjórnmálamanna hafa ekki í nægjanlega ríkum mæli beinst að því að skapa þessum fyrirtækjum ásættanlegt rekstrarumhverfi. Of mikil áhersla hefur verið lögð á stóru fyrirtækin sem eru í raun örfá hér á Íslandi. Stórfyrirtækin eru nauðsynleg en þau eiga ekki að fá alla athygli stjórnmálanna. Leggja verður mun meiri áherslu á þau litlu og meðalstóru en nú er gert.

Ísland hefur undirgengist miklar kvaðir með samningnum um hið evrópska efnahagssvæði. Eftirlitsþátturinn er umfangsmikill og margbrotinn. Reglugerðir eru flóknar og dýrar í framkvæmd. Tafsamt og dýrt er að afla opinberra leyfa og uppfylla skilyrði. Svona mætti lengi telja. Íslendingar hafa einnig sjálfir leitt í lög og sett í reglugerðir kröfur sem enn þyngja rekstrarumhverfið. Hvaða vit er t.d. í því að það þurfi 13 leyfi og mikinn eftirlitskostnað ef einyrki vill fara út í skelrækt eða af hverju þarf fullkomna slátrunaraðstöðu og ómælt eftirlit ef bóndi vill slátra búpeningi sínum heima á býli. Það hlítur að vera hægt að fara einhvern milliveg frá því sem nú er.

Einyrki sem þarf, til að mynda, að leita réttar síns gagnvart skattayfirvöldum þarf að nýta sér þjónustu endurskoðenda og lögfræðinga sem hafa þann aðal starfa að sinna stórfyrirtækum. Kostnaðurinn er slíkur að aflafé einyrkjast hverfur eins og dögg fyrir sólu. Af hverju eru gerðar nærri sömu kröfur til ársreikninga litla fyrirtækisins og þess stóra. Af hverju þarf það að uppfylla sömu bókhaldsreglur með tilheyrandi kostnaði? Af hverju þarf litla fyrirtækið að lúta sömu eftilitsreglum og það stóra? Það er eitthvað bogið við hvernig við Íslendingar höfum komið hlutunum fyrir varðandi litlu fyrirtæki sem mynda flest störf og greiða hæstu launin.

Annars þáttur er skattlagning lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Tryggingagjaldið sem nú, nemur rúmum 8% af launum, er mjög íþyngjandi fyrir litlu fyrirtæki en einnig þau mannaflsfreku sem oftar en ekki starfa í nýsköpunargreinum. Þar á ég t.d. við hugbúnaðarfyrirtæki sem oft greiða há laun en eru með hlutfalslega litlar tekjur. Af hverju ætti fjárfestir sem ætlar sér að fjárfesta ekki fremur að beina sjónum sínum að fyrirtæki sem er frekt á fjármagn en síður á starfsmenn til að sleppa við skattlagningu sem er með öllu óháð afkomu félagsins eins og tryggingagjaldið er?

Skattaívilnanir vegna hlutafjárkaupa gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að hvetja til fjárfestingar. Hugsanlega væri ráð að um sérstaka ívilnun væri að ræða þegar fjárfest er í hlutafé lítilla og millistórra fyrirtækja. Þannig myndum við styrkja grunn þeirra og hvetja þau áfram.

Mín skoðun er sú að það þurfi að taka rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja til gagngerrar endurskoðunar. Þar starfa flestir og þar er uppspretta vel launaðra starfa framtíðarinnar. Með því er ég ekki að segja að stórfyrirtækin eigi að verða útundan heldur að það verði að sinna þeim litlu a.m.k. til jafns.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.1.2013 - 22:38 - Lokað fyrir ummæli

Smáverktakar

Grein mín sem birtist í DV í gær:

Í kjölfar bankahrunsins 2008 drógust verklegar framkvæmdir í landinu mjög saman. Einkafyrirtæki voru ekki í stöðu til þess að fjárfesta þar sem eigið fé þeirra hvarf á örskotsstundu vegna hækkunar lána sem oftar en ekki mátti rekja til hruns krónunnar og verðbólgunnar sem leiddi þar af. Jafnframt drógust tekjur fyrirtækjanna mun hraðar saman en kostnaður sem leiddi til tapreksturs. Á sama tíma og þetta gerðist drógu stjórnvöld úr öllum verklegum framkvæmdum í landinu. Afleiðingarnar af þessu öllu saman eru þær að undanfarið hafa fjárfestingar verið minni en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum.

Ein er sú atvinnugrein sem orðið hefur sérstaklega illa út úr hruninu. Vélavinnuverktakar, sem oftar en ekki eru einyrkjar, hafa mátt þola mikla tekjuskerðinugu. Það hefur leitt til þess að verktakarnir geta illa staðið í skilum með lánin sem stökkbreyttust við gengisfallið. Nú hefur komið á daginn að mörg þessara lána voru ólögleg eins og gengislánadómur Hæstaréttar sumarið 2010 leiddi í ljós. En ekki nóg með það, vaxtadómurinn frá því í fyrra sýndi að ólögmætir vextir voru innheimtir af þessum lánum. Nú eru niðurstöður fyrstu endurreikningarnir að birtast og er ég viss um að það er mörgum kærkomin sending.

Lánastofnanir fóru almennt þá leið stöðva aðfarir vegna lána sem vafi lék á hvort væru ólögmæt eða ekki. Það þótti eðlilegt að þar sem réttaróviss ríkti þá skildi það talið skuldaranum í hag að óvéfengjanleg niðurstaða lægi fyrir með dómi áður en til alvarlegra aðgerða væri gripið – kringumstæðurnar vegna hrunsins væru svo sérstakar að annað væri ekki forsvarnlegt. Einhver misbrestur varð þó á þessu og þekkjum við öll sögurnar sem sprottið hafa að aðgerðum Dróma, se m er í raun þrotabú SPRON, gagnvart heimilunum.

Eðli máls samkvæmt fjármagna verktakar atvinnutæki sín með lánum, að lang mestu leiti hjá eignaleigufyrirtækjum. Svo virðist vera sem stærsta fyrirtækið sem lánaði til tækjakaupa – Lýsing – gangi fram af mikilli óbilgirni gagnvart viðskiptavinum sínum. Fyrirtækið virðist ekki hafa í heiðri þá meginreglu að þar sem réttaróvissa ríkir skuli gæta meðalhófs og ganga fram með varúð líkt og flestar aðrar lánastofnanir hafa gert. Sögur heyrast af því að atvinnutæki séu tekin í skjóli nætur og aflahæfi þannig algjörlega tekið af viðkomandi verktökum. Þetta gerist þrátt fyrir að vitað sé að staða þeirra margra verður allt önnur eftir að búið verður að endurreikna lán þeirra. Þetta er vítavert!

Nú er svo komið að stór hluti atvinnutækja smáverktakanna hefur verið tekinn og seldur úr landi. Oft með algjörlega réttmætum hætti en oft með ósanngjörnum og jafnvel vafasömum hætti. Það er kannski seint í rassinn gripið en ég er þeirrar skoðunar að stöðva verði þessa ósvinnu án tafar og láta þá sem búa við óvissu vegna dómsmála njóta vafans.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.1.2013 - 20:16 - Lokað fyrir ummæli

Um hagvöxt…

Videoblogg um landsframleiðslu og hagvöxt ársins 2012…

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.12.2012 - 16:26 - Lokað fyrir ummæli

Norðurslóðir

Grein mín um Norðurslóðir sem birtist í Morgunblaðinu í morgun:

Talið er að um 30% náttúruauðlinda jarðar séu norðan Heimskautsbaugs. Með hlýnun jarðar munu skipaleiðir opnast norðaustur og norðvestur fyrir meginlöndin. Þessar tvær staðreyndir  hafa leitt til þess að áhugi stórveldanna á Norðurslóðum hefur ekki einungis kviknað heldur hefur þróunin síðustu 3 til 4 árin orðið sú að þau leggja sérstaka áherslu á svæðið. Koma Ísdrekans hingað til lands síðastliðið sumar er ekki tilviljun. Heimsókn Hillary Clinton til Grænlands ekki heldur. Né stofnun sendiherraembættis Norðuslóða í Singapúr fyrr á árinu. Svo fátt eitt sé nefnt.

Mikil tækifæri bíða

Þróunin á Norðurslóðum býður upp á gríðarlega möguleika fyrir Íslendinga – en aðeins ef við grípum tækifærin og þau liggja einkum í þrennu:

Í fyrsta lagi fer þjónusta við fyrirtæki sem hyggjast nýta náttúruauðlindir Norðurhjarans sífellt vaxandi og ef fram heldur sem horfir mun hún verða mikil að umfangi. Talið er að jörð á Grænlandi sé gríðarlega rík af málmum sem nýta megi á hagkvæman hátt. Sá böggul fylgir þó skammrifi að innviðir til að þjónusta námafyrirtæki eru ekki fyrir hendi á Grænlandi nema að litlu leyti. Jafnframt er erfitt að koma þeim við þar sem landið er gríðarstórt og þakið íshellu eins og allir vita. Ísland hentar aftur á móti vel til að þjónusta þessa starfsemi. Undanfarin 20 ár hafa flugvélar sem stunda bergmálsmælingar t.a.m. verið gerðar út frá Akureyri, auk þess sem stór hluti vöru- og sjúkraflutninga með flugi til Grænlands eru stundaðar þaðan. Hafnaraðstaða fyrir norðan og austan er góð og öll þjónusta fyrir hendi. Olíuleit við austur Grænland, á  Drekasvæðinu og jafnvel Gammasvæðinu þegar fram í sækir mun krefjast mikilla aðfanga og þjónustu. Þetta tækifæri eiga Íslendingar að nýta sér. Jafnframt eru miklar fiskiauðlindir undir ísnum sem nýta má í framtíðinni. Það var því ekki klókt hjá atvinnumálaráðherranum þegar hann lokaði á landanir grænlenskra skipa síðasta sumar. Viðbrögð Grænlendinga voru að semja við Kínverja um að senda verksmiðjuskip á svæðið til að taka við aflanum. Vonandi verður hægt að snúa ofan af þessari einfeldningslegu ákvörðun ráðherrans í lok apríl á næsta ári.

Í öðru lagi virðast möguleikar til umskipunar varnings frá Asíu og N-Ameríku innan seilingar eins og koma Ísdrekans bar með sér. Bráðnun íss leiðir til þess að siglingaleiðir til Asíu norðan við Rússland stytta leiðir fyrir varning gríðarlega. Þessa staðreynd eiga Íslendingar að nýta sér. Finnafjörður er t.a.m. ákjósanlegur staður fyrir umskipunarhöfn. Þar er aðdjúpt og nægt landrými. Sveitarfélög á svæðinu hafa undirbúið þessa hugmynd vel en stuðning vantar algjörlega frá stjórnvöldum. Mikilvægt er að grípa gæsina og hefja undirbúning og markaðssetningu hugmyndarinnar með nauðsynlegum stuðningi stjórnvalda. Lítil sveitarfélög hafa ekki bolmagn til þess ein. Þá er vert að minnast á að einkafyrirtæki á Akureyri sem og á landsvísu hafa bundist samtökum um að markaðssetja Eyjafjörð sem valkost fyrir þjónustumiðstöð á Norðurslóðum, án þess að til þess hafi komið opinber stuðningur. Hugurinn til þessa merkilega verkefnis breytist vonandi í lok apríl á næsta ári.

Í þriðja lagi gefur þróunin á Norðurslóðum mikil tækifæri í geo-pólitískum skilningi. Bæði hvað varðar öryggi á svæðinu og þá aðstöðu sem Íslendingar komast í gagnvart stórþjóðunum. Hér eru sameiginlegir hagsmunir Bandaríkjanna og Íslands augljósir. Í öryggismálum er borðleggjandi að miðstöð björgunar á Norðurslóðum ætti að vera staðsett á Íslandi og þá náttúrulega á Akureyri og Egilsstöðum. Í tengslum við það mætti hugsa sér að Landhelgisgæslan væri e.t.v. betur staðsett þar en á SV-horninu. Það vantar öryggisstuðning við flug og skipasiglingar á svæðinu. Þá er nokkuð augljóst að vilji borgaryfirvalda til að banna hernaðartengd tæki og tól innan borgarmarkanna útilokar Reykjavík frá verkefninu. Utanríkisráðuneytið hefur hér mikið verk að vinna og ætt að gefa því mun meiri vikt en ESB gæluverkefnum í ljósi gríðarlegra hagsmuna Íslands til langrar framtíðar. Vonandi breytist það í lok apríl á næsta ári.

Rannsóknir á Norðurslóðum

Það voru framsýnir einstaklingar sem stóðu að stofnun Vilhjálms Stefánssonar um norðurslóðarannsóknir fyrir 15 árum síðan. Þekking á Norðurslóðum er orðin umtalsverð á Íslandi og er talið að um 80 manns starfi á Akureyri við rannsóknir á svæðinu og reki þaðan alþjóðleg verkefni, s.s. PAME og CAFF. Ísland er fámennt land og eðli máls samkvæmt eru fjármunir af skornum skammti. Því skýtur það skökku við að Alþjóðastofnun HÍ og Félagsvísindadeild HÍ skuli ætla að setja á stofn rannsóknarstofu á norðurslóðamálum. Það þynnir út það góða starf sem nú er unnið á sviðinu og leiðir til þess að slagkraftur okkar verður minni en ella. Það er einföld staðreynd í rannsóknum að þekking á jafn víðfermu málefni byggist upp með stærðinni. Því eigum við Íslendingar ekki að dreifa kröftunum. Við eigum að nota takmarkaða fjármuni á einum stað en ekki mörgum. Alþjóðastofnun eins ágæt og hún er gæti stuðlað að öflun gagnlegrar þekkingar á öðrum sviðum. Það er ómögulegt að hún hramsi til sín takmarkaða sjóði sem beinast að rannsóknum á Norðurslóðum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 13:26 - Lokað fyrir ummæli

Blekkingar í skammdeginu

Grein mín sem birtist í Fréttablaðinu í morgun:

Hann var brattur fyrrverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hér í blaðinu í gær þegar hann tíundar stórkostlegan árangur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Í bland við gamla sveitarómantík og ljóðlínur hrærir hann hagtölum sem standast ekki neina skoðun. Hann segir ríkisstjórnina – þá helst hann sjálfur einn og óstuddur ef marka má ummæli hans í Viðskiptablaðinu á dögunum – hafa snúið fjárlagahallanum úr 216 milljarða halla árið 2008 í áætlaðan 2-4 milljarða halla á næsta ári. Það er vel að verki staðið ef rétt væri.

Árið 2008 var hallinn á rekstri ríkissjóðs um 24 milljarðar króna. Við þá tölu bættust síðan óreglulegir liðir – einsskiptistap – sem námu um 192 milljörðum króna. Þessa gríðarlegu upphæð má að mestu rekja til þess að kröfur á viðskiptabankana sem voru að handveði í endurhverfum viðskiptum í Seðlabankanum töpuðust að stórum hluta í hruninu.

Svipuð staða er uppi á teningnum hvað varðar fjárlög næsta árs þótt smærri sé. Ríkisjóður áætlar að þurfa að greiða 13 milljarða til að styrkja eigið fé Íbúðalánasjóðs vegna taps sem annars vegar má rekja til þess að margir lántakendur geta ekki staðið við lán sín og hins vegar til þess að sjóðurinn getur ekki greitt upp skuldbindingar sínar þegar íbúðareigendur greiða upp lán við sjóðinn. Það myndar neikvæðan vaxtamun fyrir sjóðinn. Íbúðalánasjóður hefur tapað miklum fjármunum vegna þess.

Fjármálaráðherrann fyrrverandi segir að þar sem 13 milljarðarnir muni mynda eigið fé í Íbúðalánasjóði þá séu þetta ekki útgjöld fyrir ríkisjóð og því bæti framlagið ekki við halla ríkissjóðs. Það er óneitanlega frumleg nálgun.

Nú er það svo í bókhaldi að þar sem er kreditfærsla þá er debitfærslan ekki langt undan. Tap Íbúðalánasjóðs þarf að færa til gjalda hjá ríkisjóði. Svo einfalt er það.

Augljóst er að færsla ríkissjóð í bókhaldi vegna taps Íbúðalánasjóðs er algjörlega sambærileg við færsluna sem gerð var vegna taps Seðlabankans. Hallinn á ríkissjóði á næsta ári verður því 15 til 17 milljarðar ekki 2 til 4 milljarðar þegar sömu uppgjörsaðferð er beitt og notuð var árið 2008. En þetta er bara byrjunin.

Áætlaður munur á eignum og skulbindingum A-deildar LSR nemur um 54 milljörðum króna. Þetta gat myndaðist vegna taps lífeyrissjóðsins. Það þarf að fjármagna og eðlilegt væri að gera ráð fyrir tapinu í fjárlögum. Ef það er gert verður hallinn á fjárlögum 69 til 71 milljarður á næsta ári en ekki 2 til 4 milljarðar.

Hér er ekki tekið tillit til þess hér að útgjaldaþrýstingurinn á ríkissjóð er gríðarlegur. Engar líkur eru því á að ríkisútgjöld á næsta ári verði þau sem að er stefnt. Það er ekki hægt lengur að svelta heilbrigðisstarfsmenn, löggæsluna og aðra grunnþjónustu eins og nú er gert. Jafnframt er ekki tekið tillit til þess að um 373 milljarða vantar í B-deild LSR. Ég er reyndar ósammála þeim sem segja að taka þurfi tillit til þessarar upphæðar í fjárlögum þar sem B-deild LSR byggir á gegnumstreymisfyrirkomulagi – þeir sem eru á vinnumarkaði borga lífeyri fyrir hina eldri.

Ég er þeirrar skoðunar að fjárlög næsta árs séu blekking og eigi miklu mun meira skylt við grískt bókhald en þau vönduðu fjárlög sem ráðherrann gumar af. Það er mikilvægt að sópa ekki vandanum undir teppið eins og nú er gert. Það vita búmennirnir sem hafast við í gangnakofunum á haustin. En það sem ég sakna helst úr grein ráðherrans er að skáldskapurinn skuli ekki vera í bundnu máli. Það hefði verið viðeigandi fyrst ráðherrann kaus að láta þekktar ljóðlínur fylgja.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.12.2012 - 13:17 - Lokað fyrir ummæli

Fjárlagafrumvarpið

Grein mín um fjárlögin sem birtist í DV í morgun:

Undanfarna daga hafa fjárlögin fyrir næsta ár verið til umræðu í þinginu – sitt sýnist hverjum. Stjórnarliðar segja að nú sé botninum náð og að viðspyrnan sé hafin. Þeir segja frumvarpið bera vott um stórkostlegan árangur ríkisstjórnarinnar. En er það virkilega svo?

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að halli ríkisjóðs verði rétt um 1.200 milljónir á næsta ári sem væri vel ásættanleg niðurstaða ef hún væri í einhverju samræmi við veruleikann. Til að ná fram þeirri niðurstöðu er því sleppt að taka tillit til 13 milljarða framlags til Íbúðalánasjóðs, 57 milljarða vegna A-deildar lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, 2,6 milljarðar vegna fjárfestingarverkefna sem þarf að ráðast í að Bakka, a.m.k. 500 milljónir vegna löggæslu í landinu sem er komin á hættulegt stig og framlag til heilbrigðiskerfisins sem hleypur á hundruðum milljóna. Þá er ótalið um 400 milljarða gat vegna B-deildar lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.

Tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er einnig í molum. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 2,5% og að hann verði af hluta drifinn af fjárfestingum í nýjum hátæknisjúkrahúsi sem ekki er gert ráð fyrir í útgjöldum og stóriðju í Helguvík sem óvíst er að nokkuð verði af. Lægri hagvöxtur gefur minni tekjur fyrir ríkissjóð og leiðir til hærri gjalda vegna atvinnuleysis. Þá er á tekjuhlið gert ráð fyrir nærri 8 milljarða arðgreiðslum ríkisfyrirtækja og tekna vegna sölu eigna.

Samantekið má sjá að forsendur fjárlagafrumvarpsins eiga sér ekki nokkra stoð í raunveruleikanum. Þar er sópað undir teppið augljósum útgjöldum og allar tekjur ýktar. Þetta er alvarlegt vegna þess að mikilvægasta verkefni stjórnmálanna í dag er að ná tökum á ríkissjóði og greiða niður skuldir. Skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs eru núna um 2.000 milljarðar króna og þarf  ríkisjóður að borgar nærri 90 milljarða í vexti af þeim. Vaxtaútgjöld ríkissjóðs er núna næst stærsti útgjaldaliðurinn á eftir heilbrigðiskerfinu.

Ríkistjórnin kynnti fyrir skemmstu fjárfestingaráætlun sína við lúðraþyt og englasöng. Þar mætti búast við að inni væru verkefni sem myndu skila tekjum til framtíðar eins og fjárfestingar eiga að gera. Öðru nær! Í töflunni má finna fjárfestingar þær sem ráðast á í á næsta ári og dæmi nú hver fyrir sig.

Fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar
Fjárfesting  Milljónir kr.
Öryggisfangelsi á Hólmsheiði

1.000

Bygging húss íslenskra fræða

800

Sýning fyrir Náttúruminjasafn Íslands

500

Uppbygging á ferðamannastöðum

500

Kvikmyndasjóður

470

Ný Vestmannaeyjaferja

463

Bygging þekkingaseturs á Kirkjubæjarklaustri

290

Grænkun íslenskra fyrirtækja

280

Uppbygging innviða friðlýstra svæða

250

Húsafriðunarsjóður

200

Netríkið Ísland

200

Viðhald og endurbætur á Landeyjahöfn

177

Græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana

150

Bókmenntasjóður

70

Grænar fjárfestingar

50

Orkuskipti í skipum

50

Hönnunarsjóður

45

Myndlistarsjóður

45

Tónlistarsjóður

35

Atvinnuleikhópar

20

Útflutningssjóður

20

Handverkssjóður

15

Samtals:

5.630

Fjárlagafrumvarp er mikilvægasta frumvarp hverrar ríkisstjórnar. Þetta frumvarp er í skötulíki og ber þess vott að kosningar eru í nánd. Seðlabankinn hefur sérstaklega varað við slíku frumvarpi og ASÍ og SA bent á að þetta frumvarp sé verðbólgufrumvarp sem leiða muni til hækkunar á lánum heimilanna og leiða til hærri vaxta.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.11.2012 - 11:42 - Lokað fyrir ummæli

Um atvinnuleysi…

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.11.2012 - 12:52 - Lokað fyrir ummæli

Að steðjar vá

Grein mín um gjaldeyrishöftin úr Morgunblaðinu frá síðustu helgi:

Það er með miklum þunga sem ég skrifa þessi orð. Undanfarnar vikur hafa komið fram trúverðugir aðilar sem bent hafa á þá miklu hættu sem felst í að við Íslendingar undirgöngumst að fullu þær kröfur sem erlendir aðilar eiga á þjóð okkar. Mér hefur fundist sem ekki gæti fulls skilnings hjá stjórnvöldum og sumum embættismönnum á þeim hættum sem nú steðja að Íslandi – því þessi skrif.

Vandamálið

Vandamálið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir er að landið framleiðir ekki nægan gjaldeyri til að standa undir skuldbindingum gangvart erlendum kröfuhöfum og jöklabréfaeigendum. Skuldbindingarnar nema í dag um 1.200 milljörðum króna og við eigum ekki gjaldeyrir til að mæta þeim. Gjaldeyrisforðinn (sem er tekinn að láni) og jákvæður viðskiptajöfnuður standa sennilega undir greiðslum sem tengjast afborgunum af erlendum lánum atvinnulífsins og opinberra aðila næstu ár – en rétt svo. Til að borga kröfuhöfum þyrftum við að hafa í handraðanum á næstu árum um 1.200 milljarða króna aukalega í erlendum gjaldeyri. Við þá upphæð bætast síðan árlega um 70 milljarða vextir og arður af hlutbréfum í bönkunum. Upphæðin fer því hækkandi eftir því sem tíminn líður bak við gjaldeyrishöft.

Skuldbindingarnar tengjast annars vegar skilanefndum gömlu bankanna og hins vegar jöklabréfunum. Kröfuhafar munu að öðru óbreyttu fá greiddar eignir skilanefndanna eftir að bankarnir gömlu hafa gert nauðarsamninga og fara í gjaldþrotaskipti. Eignirnar sem þrotabúin munu skipta milli kröfuhafa eru m.a. reiðufé (innstæður), skuldabréf milli gamla og nýja Landsbanka og hlutafé í Íslandsbanka og Arion. Eignir sem oft eru kenndar við jöklabréfin eru reiðufé í bönkum og ríkiskuldabréf. Talið að um 60% þeirra séu í eign sömu aðila og eiga kröfur á gömlu bankana. Aðrar eignir gömlu bankanna eru í erlendum gjaldmiðlum, rúmlega 11 milljarðar evra (um 1.800 milljarðar króna), en ég mun ekki fjalla um þær hér. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að ekki eigi að greiða þær eignir út í gjaldeyri, a.m.k. að sinni, heldur loka bak við gjaldeyrishöft. Þessar eignir gætu síðar reynst lykilinn að lausn haftanna.

Gjaldeyrishöftin

Lög um takmarkanir á hreyfingum fjármagns úr landi ná núna til jöklabréfanna og nemur upphæð þeirra um 1/3 þess fjár sem hér er um rætt. Aðrar skuldbindingar, sem eru á forræði skilanefndanna, eru undanþegnar gjaldeyrishöftum. Útgreiðslur úr þrotabúunum eru hinsvegar háðar reglum sem Seðlabankanum var með lögum falið að setja. Um 2/3 upphæðarinnar er því settur undir reglugerðarákvörðun Seðlabankans sem hlýtur að teljast í meira lagi óheppilegt í ljósi hinna gríðarlegu hagsmuna sem undir eru fyrir alla Íslendinga. Slíkar ákvarðanir eiga kjörnir fulltrúar að taka – ekki embættismenn.

Þetta er ekki endurfjármögnunarvandamál

Fram til þess hafa stjórnvöld að mestu litið á vandamálið sem hér er lýst sem endurfjármögunarvanda. Við þyrftum einfaldlega að fá lánað fé erlendis, losa erlenda aðila út og síðan yrðu lánin greidd til baka á næstu árum og áratugum. Sú leið gengur hinsvegar ekki upp. Jafnframt eru hugmyndir, m.a. ég hef lagt þær fram, sem byggja á að ríkið skipti á krónum og skuldabréfum í erlendri mynt óráð – gleymum þeim.

Viðskiptaafgangur landsins, þ.e. munurinn á inn- og útflutningi og nettó vaxtagreiðslum til útlanda, stendur tæpast undir afborgunum og vöxtum sem við þegar þurfum að standa í skilum með, hvað þá stendur hann undir því að borga af höfuðstól og vöxtum krafna erlendra kröfuhafa. Hugsanlega væri þó hægt að greiða upphæðina til baka með því að auka viðskiptaafgang landsins en þá þyrfti að veikja gengi krónunnar gríðarlega, sennilega um 20-30%, allt þar til lánin hefðu verið greidd upp. Lífskjör myndu versna eftir því. Í mínum huga er sú leið algjörlega ófær. Hún myndi leiða til efnahagslegrar gjöreyðingar og fólksflótta. Þetta eru stór orð en því miður sönn. Til samanburðar var fyrsta útgáfa Icesave „ekki nema“ 470 milljarðar króna þegar Alþingi samþykkti kröfuna og sú síðasta um 30 milljarðar. Óþarft er að taka fram að erlend lán til framkvæmda yrðu með öllu útilokuð við þessar kringumstæður vegna skuldastöðu landsins.

Mun nær er því að tala um vandamálið sem endurgreiðsluvanda. Við eigum ekki gjaldeyri og við munum ekki framleiða nægan gjaldeyri til að standa undir því að greiða höfuðstól, vexti og vaxtavexti af 1.200 milljörðum króna til erlendra kröfuhafa.

En af hverju ekki að loka krónurnar inni í fjárfestingum á Íslandi?     

Af og til hafa komið fram hugmyndir um að breyta krónunum umræddu í framkvæmdafé á Íslandi. Erlendir kröfuhafar myndu einfaldlega fjármagna banka, ríki, sveitarfélög og opinber fyrirtæki jafnframt því sem þeir gætu gerst hluthafar í íslensku atvinnulífi. Í mínum huga er það ekki heillandi tilhugsun að erlendir kröfuhafar eignist íslenskt atvinnulíf og íslenskar skuldir. Þá værum við sannarlega orðnir þrælar erlendra fjármagnseigenda sem hefðu allt aðra hagsmuni en Íslendinga að leiðarljósi. Gagnlegt er að líta til reynslu Finna af sambærilegum kringumstæðum en þeir misstu eignarhald á fyrirtækjum eins og Nokia fyrir óverulegar upphæðir í kreppunni þar í landi í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Ekki er enn gróið um heilt vegna þess. Jafnframt er hollt að hafa í huga vægi Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulíf, en margir hafa kvartað undan fyrirferð hans. Sjóðurinn er um 40 sinnum minni en sú upphæð sem hér er um rætt. Menn geta rétt gert sér í hugarlund hvort Íslendingar yrðu sáttir með það að erlendir aðilar ættu nær allt atvinnulíf á Íslandi. Kannski er það óþarft, en ég vil þó taka fram að ég er almennt mjög fylgjandi erlendri fjárfestingu á öllum sviðum íslensks atvinnulífs. En sú fjárfesting verður að vera í réttu hlutfalli við það sem Íslendingar sjálfir fjárfesta. Aldrei næst sátt um annað.

En hvað er til ráða?      

Mín skoðun er sú að nálgast verði málið af mikill varúð og að ekki verði rasað um ráð fram í neinum ákvörðunum. Jafnframt er mikilvægt að efla samstöðu meðal þjóðarinnar um hvað skuli gera. En til þess þarf ráðrúm. Því legg ég til eftirfarandi skref sem stjórnmálaflokkarnir ættu auðveldlega að geta náð saman um í ljósi hinna miklu hagsmuna:

  1. Gjaldeyrishöft verði hert og framlengd til þess að ná utan um allar eignir skilanefndanna. Hvort heldur sem er þær erlendu eða innlendu.
  2. Þær eignir sem eru á innlánsreikningum og flokkast undir skilanefndir og aflandskrónur verði settar inn á reikninga sem ekki bera vexti. Jafnframt verði allar eignir kröfuhafanna sem breytast munu í reiðufé á næstunni settar inn á þessa reikninga.
  3. Gerð verði nákvæm grein fyrir stöðunni: Hverjar eru skuldbindingar Íslendinga nákvæmlega? Hvernig verður endurgreiðslum af erlendum skuldum háttað í framtíðinni? Hver er líklegasta sviðsmynd varðandi gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á næstu árum? Hvað ráða Íslendingar við mikinn viðskiptaafgang án þess að stofna sér í efnahagslega hættu?
  4. Lýst verði yfir því að gjaldeyrishöft sem snúa að almenningi og fyrirtækum sem ekki stunda spákaupmennsku verði afnumin innan skamms.

Hér er reyndar komin upp sú sérstaka staða að senda þarf tvöföld skilaboð. Annars vegar að það sé verið að herða gjaldeyrishöft til muna en um leið að það eigi að aflétta þeim á allan almenning og fyrirtæki. Það er vandasamt verk að setja þá yfirlýsingu fram á trúverðugan hátt en óumflýjanlegt. Því þarf samstöðu.

Eftir að þessi skref hafa verið stigin þarf að taka ákvörðun um hvernig losa skuli innilokaðar eignir erlendra aðila úr gildrunni, eignir sem nema allt að 3.000 milljörðum króna. Sú ákvörðun verður að taka mið af greiðslugetu þjóðarinnar til framtíðar með hagsmuni hennar í fyrirrúmi. Ráðamenn eiga eingöngu að huga um hagsmuni Íslendinga – kröfuhafar hugsa um sína.  Það má ekki endurtaka Icesave-ævintýrið og undirgangast hvað sem. Sennilega þarf að afskrifa stóran hluta eignanna og það mun kalla á viðbrögð erlendra aðila. Lögsóknir, hótanir og hræðsluáróður munu einkenna alla þá umræðu. En hvað er það miðað við hagsmuni þjóðarinnar okkar?

Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir alvarleika málsins, því fyrr getum við horft óttalaus til framtíðar. Við brugðumst rétt við hruni bankanna og ég óska að við berum gæfu til að bregðast rétt við þessari vá.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.11.2012 - 18:00 - Lokað fyrir ummæli

Um skattahækkanir ríkistjórnarinnar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.1.2012 - 09:54 - Lokað fyrir ummæli

Víst hefur skattbyrði allra þyngst…

Grein mín í Fréttablaðinu í morgun. Greinin er andsvar við grein fjármálaráðherra sem birtist í gær :

Víst hefur skattbyrðin þyngst

Á þriðjudaginn birti ég hér í blaðinu grein þar sem því er haldið fram að tekjuskattbyrði allra hafi þyngst milli áranna 2009 og 2012 þvert á það sem stjórnarliðar hafa haldið fram. Í gær svaraði fjármálaráðherra mér og sagði að ég hefði gert einföld mistök og þ.a.l. væri ályktun mín röng. Blaðafulltrúi ríkistjórnarinnar vísaði einnig í greinina, aftur hér í blaðinu, og sagði fjármálaráðherra hafa hrakið fullyrðingar mínar. En er það virkilega svo?

Ég og fjármálaráðherra eru sammála um að skattbyrði þeirra tekjuhærri hafi þyngst. Ég geri mig reyndar sekan um einfalda villu í útreikningum á skattbyrði þeirra tekjuhæstu og gengst ég við henni. En villan leiðir til þess að skattbyrði þeirra tekjuhærri er ýkt hjá mér. En það skiptir engu máli fyrir niðurstöðu mína um að skattbyrði allra launþega hafi þyngst.

Deilan stendur um hvort að tekjuskattbyrðin hafi þyngst á þá tekjulægri. Ég segi að hún hafi þyngst en fjármálaráðherra að hún sé léttari. En af hverju skildum við fjármálaráðherra leggja ólíkan skilning í málið? Eins og fyrri daginn er við því einfalt svar. Fjármálaráðherra gerir í samanburði sínum ráð fyrir óverðbættum persónufrádrætti sem er rangt að gera. Auðvitað á að nota persónufrádráttinn eins og hann er í raun (46.532 kr.) og bera saman við þann sem hefði verið ef lögunum frá 2009 hefði verið fylgt (48.932 kr.). Aftenging laganna um verðtryggingu persónufrádráttar jók á skattabyrðina hjá öllum skattgreiðendum og bætti nýjum við. Um það er ekki deilt.

Til að varpa ljósi á málið þá er rétt að skoða þann hluta tekjudreifingarinnar þar sem ég og ráðherrann erum ósammála – neðsta skattþrepið. Samkvæmt upplýsingum af vef Ríkisskattstjóra var staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda 37,2% árið 2009 en 37,34% í fyrsta skattþrepi (af fyrstu 230.000 kr.) árið 2012. Persónufrádráttur á mánuði er 46.532 kr. í ár en ætti að vera 48.932 kr. ef lögunum frá 2009 hefði verið fylgt. Um það snýst m.a. deilan við Öryrkjabandalagið. Með þessar upplýsingar að vopni er hægt að skoða skattbyrðina (skatta sem hlutfall af launum) í fyrsta skattþrepi á línuriti.

Eins og sést á myndinni er skattbyrðin þyngri í neðsta skattþrepinu nú en verið hefði ef lögunum frá 2009 hefði verið fylgt. Því stenst fullyrðing mín frá á mánudag fullkomlega. Þeir sem eru í neðsta þrepinu greiða hærri skatta nú miðað við sömu nafnlaun. Um efri skattþrepin er ekki deilt. Þeir tekjuhærri búa við mun þyngri skattbyrði. Reyndar ætti með réttu að bera saman raunstærðir en ekki nafnstærðir launa í samanburði sem þessum en það myndi gera myndina enn verri, fjármálaráðherra í óhag. En gefum henni smá slaka í bili.

Hitt er annað mál að af ráðstöfunartekjum eftir tekjuskatt er miklu mun meira tekið í óbeina skatta nú en áður. Þannig hefur t.a.m. virðisaukaskattur, eldsneytisskattar, bifreiðagjöld, áfengis- og tóbaksgjöld og erfðafjárskattar verið hækkaðir til muna og nýjir skattar eins orkuskattar (sturtuskatturinn), auðlegðarskattur, kolefnaskattar og skattar á gengisreikninga verið innleiddir.

Það byrjar ekki vel hjá nýjum fjármálaráðherra. Eitt er að gera smávægilega klaufavillu sem engin áhrif hefur á megin niðurstöðuna. Annað er að hagræða sannleikanum sér í vil. Sannleikurinn er nefnilega sá að skattbyrði allra hefur þyngst jafnt og þétt frá 2009 vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is