Fimmtudagur 23.2.2017 - 13:38 - FB ummæli ()

Ræða forsetafrúarinnar á konudaginn

Á konudaginn, síðast liðinn sunnudag, flutti forsetafrú Íslands, frú Eliza Jean Reid, ræðu við guðsþjónustu í Garðabæ og var guðsþjónustunni útvarpað. Ræða forsetafrúarinnar var með bestu ræðum sem ég hef heyrt og hef ég þó heyrt margar góðar ræður um dagana. Ræðan var efnismikil, einlæg og skemmtileg með lærdómsríkum samlíkingum og ábendingum sem bæði konur og karlar geta lært mikið af. Hins vegar hef ég hvergi séð minnst einu orði á þessa merku ræðu sem enn má hlusta á í Sarpinum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/gudsthjonusta-i-vidalinskirkju/20170219. Vil ég benda hugsandi fólki á að hlusta á ræðu forsetafrúar Íslands, frú Eliza Jean Reid.

 

 

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 3.2.2017 - 14:42 - FB ummæli ()

Öld öfganna

Bókin Age of Extremes eftir Eric Hobsbawm kom út á ensku árið 1994 og í íslenskri þýðingu 1999 og var nefnd Öld öfganna, saga heimsins á 20.öld.  Eric Hobsbawm fæddist í Alexandríu 1917 – á dögum breska heimsveldisins, en ólst upp í Vínarborg og Berlín.  Hann var af gyðingaættum og í Berlín varð hann vitni að valdatöku Hitlers 1933.  Þá fluttist hann til Bretlands, las sagnfræði við King´s College í Cambridge, mótaðist af Maxrisma og varð einn af stofnendum tímaritsins Past and Present 1952 sem hafði mikil áhrif á viðhorf í sagnfræði.  Hobsbawm kenndi lengi sagnfræði við London University og voru einkunnarorð hans: „Hlutverk sagnfræðinga er að muna það sem aðrir gleyma.“

Tuttugasta öld er mesta framfaraskeið í sögu mannkyns en um leið skeið mestu grimmdarverka sem sögu fara af, öld glundroða, örbyrgðar og siðleysis, öld göfugra hugsjóna, menningafreka og mikilla lífsgæða hjá hluta jarðarbúa en hungurs og dauða hjá íbúum þriðja heimsins.  Öldin var einnig öld grimmdarverka og þjóðarmorða sem eiga sér fáar hliðstæður.  Háð voru langvinn stríð þar sem drepnir voru mun fleiri óbreyttir borgarar, konur og börn, en hermenn.

Öld andstæðna og grimmdar

Nú er risin ný öld sem margir hafa bundið vonir við.  Enn eru þó háð grimmileg stríð og réttur einstaklinga fyrir borð borinn.  Fleiri eru nú á flótta undan harðrétti, rangsleitni og fátækt en nokkru sinni.  Þá vekur tilhneiging í stjórnmálum meðal voldugustu þjóða heims ugg í brjósti, nú síðast framferði Trumps í Bandaríkjunum, og aukið fylgi öfgaflokka í Þýskalandi, Frakklandi og Austurríki – að ekki sé talað um framferði Rússlands undir stjórn Pútíns, en í því landi hefur misrétti og yfirgangur viðgengist frá ómunatíð.  Alþýðulýðveldið Kína, þar sem býr fimmtungur jarðarbúa, er farið að haga sér í samræmi við reglur auðvaldsins, auk þess sem tilhneiging til að leggja undir sig lönd og þjóðir hefur einkennt stjórn Kína lengi.

Kenningar um frið og bræðralag

Kristin trú, gyðingdómur og Íslam, sem merkir „friður”, boða frið og bræðralag – frið á jörðu.  Fimm reglur búddismans að góðu líferni kveða á um, að ekki skuli drepa, ekki stela og ekki ljúga, eins og í öðrum megintrúarbrögðum heimsins.  Engu að síður standa samtök kristinna manna, gyðinga – að ekki sé talað um samtök múslíma – fyrir og ofbeldi og manndrápum víða um heim, þótt alls staðar séu þar minnihlutahópar öfgamanna á ferð.

Sameinuðu þjóðirnar

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.  Markmið með stofnun þeirra var að varðveita frið og öryggi, efla vinsamlega sambúð þjóða byggða á virðingu fyrir jafnrétti og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og þjóða, koma á samvinnu um lausn alþjóðavandamála og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða.

Sameinuðu þjóðirnar ráða ekki sjálfar yfir herliði og þurfa aðildarríkin því að bjóða fram herlið og aðra aðstoð.  Öryggisráðið mælir með aðgerðum til lausnar deilum milli ríkja – eða átökum innan ríkja – og getur ákveðið að senda friðargæslulið á átakasvæði.  Ráðið getur einnig falið ríkjum að beita þvingunaraðgerðum, efnahagslegum refsiaðgerðum eða gripið til sameiginlegra hernaðaraðgerða gegn árásaraðila.

Neitunarvald

Fimm ríki, sigurvegarar í síðari heimsstyrjöldinni, gegndu lykilhlutverki við stofnun Sameinuðu þjóðanna: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Sovétríkin.  Höfundar sáttmála Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að þessi fimm ríki héldu áfram að tryggja frið í heiminum og fengu þær því fastasæti í Öryggisráðinu.  Auk þess var ákveðið að þau fengju neitunarvald í ráðinu, þannig að ef eitthvert þeirra greiddi atkvæði gegn tillögum um aðgerðir, gæti ráðið ekki samþykkt tillöguna.  Þetta neitunarvald hefur verið gagnrýnt, enda reynst Akkillesarhæll í starfi samtakanna, og í tvo áratugi hefur verið reynt að finna leið til þess að höggva á þennan Gordíonshnút, en lítið hefur gengið, einkum vegna áhrifa frá voldugum vopnasölum heimsins.

Margir telja skipan í Öryggisráðið, valdamestu stofnun Sameinuðu þjóðanna, endurspegli úrelta heimsmynd.  M.a. hafi ríki Evrópu meiri völd en ríki annarra heimsálfa.  Þriðjungur fulltrúa í Öryggisráðinu kemur frá Evrópu, enda þótt ríki þar séu aðeins fimmtungur aðildarríkjanna 193.  Auk fastafulltrúa Kína í ráðinu eru aðeins tveir fulltrúar frá Asíu, kjörnir til tveggja ára.  Ríki Afríku eiga engan fastafulltrúa en þrír fulltrúar þaðan eru kjörnir til tveggja ára. Afríka og Asía eiga því aðeins sex fulltrúa í Öryggisráðinu þótt ríki í þessum heimsálfum séu helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Menning, listir og mannúð

Þrátt fyrir misrétti, manndráp og ofbeldi blómstrar menning og listir um allan heim: myndlist, bókmenntir, leiklist að ógleymdri fjölbreyttri tónlist af ýmsu tagi.  Auk þess vinna mannúðarsamtök og samtök sjálfboðsliða ómetanlegt starf víða um heim.  Þá hefur menntun aukist á öllum sviðum og tækni opnað nýjar leiðir í atvinnulífi, framleiðslu og tómstundum.  Komin er fram tækni sem á eftir að leysa flestan þann vanda sem stafar af hlýnun jarðar, en hitasveiflur á jörðinni eru ekki nýtt fyrirbæri.

Á Íslandi vex upp kynslóð sem er betur menntuð en nokkur fyrri kynslóð á þessu kalda landi, sem var eitt fátækasta land í Evrópu fyrir einni öld en er nú með ríkustu þjóða heims.  Því má segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.  Við lifum því enn á öld öfganna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.1.2017 - 19:05 - FB ummæli ()

Umboðsmaður eldri borgara

Brýna nauðsyn ber til þess að Alþingi stofni þegar í stað embætti umboðsmanns eldri borgara. Til þess liggja margar ástæður.  Í fyrsta lagi er aðbúnaði og umönnun aldraðra í mörgu ábótavant hér á landi, enda þótt víða sé vel unnið og af fagmennsku.  Í öðru lagi segir umönnun aldraðra mikið um menningarástand þjóðar á sama hátt og umönnun barna.  Í þriðja lagi hafa þeir, sem nú eru aldraðir, skapað velferðarríkið Ísland sem er meðal fremstu velferðarríkja heims, en fyrir 200 árum var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu.  Í fjórða lagi þarf með þessu að skapa virðingu fyrir eldra fólki, virðingu sem byggð er á skilningi, en víða skortir mjög þennan skilning.

Samtök eldri borgara í Danmörku, Ældre Sagen, hefur gert kröfu um að stofnað verði embætti umboðsmanns eldri borgara og bent á umboðsmann barna þar í landi.  Svipað er uppi á teningnum hjá norsku samtökum eldri borgara, Seniorsaken, sem stofnuð voru með það að markmiði að vinna gegn mismunun og fordómum, sem eldri borgarar verða fyrir þar í landi, eldrediskriminring, og neikvæðri afstöðu til elda fólks.  Auk þess leggja samtökin mikla áherslu á að tryggja góða heilsuþjónustu fyrir eldri borgara, þar sem borin er tilhlýðileg virðing fyrir gömlu fólki, en á það skorti víða í Noregi.  Ennfremur leggja samtökin áherslu á að reistar verði hentugar íbúðir fyrir aldraða, en 60% aldraðra í Noregi vilja búa í íbúðasamstæðum fyrir aldrað fólk með svipuðu sniði og Grund er að reisa í Mörkinni við Suðurlandsbraut í Reykjavík sem sérstaklega eru hannaðar með þarfir aldraðra í huga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.11.2016 - 12:36 - FB ummæli ()

Ráðstefna um framtíð íslenskrar tungu

16da þ.m. var Dagur íslenskrar tungu haldinn víðs vegar um land á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.  Á þessum degi hafa Móðurmálsverðlaunin verið veitt frá 1996 og aðrar viðukenningar þeim til handa sem stuðlað hafa að vexti og viðgangi elstu lifandi þjóðtungu Evrópu.

19da nóvember var haldin afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni 200 ára afmælis félagsins sem stofnað var í Kaupmannahöfn og var „einn hinn mesti atburður í sögu íslenzkra mennta, því að hún táknar gagnger umskipti í viðhorfi manna gagnvart íslenzkri tungu og bókmenntum síðari alda,” eins og Þorkell Jóhannesson segir í Sögu Íslendinga.

Á afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags töluðu Guðni Th. Jóhannesson forseti, Jón Sigurðsson forseti Bókmenntafélagsina og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.  Allir gerðu stöðu íslenskrar tungu og framtíð að umræðuefni. Jón Sigurðsson ræddi sérstaklega um framtíð tungunnar í stafrænum heimi og sagði, að þegar Bókmenntafélagið var stofnað hefði íslensk tunga verið í hættu og þá – eins og nú – hefðu margir haft áhyggjur af stöðu og framtíð tungunnar. Stofnendum félagsins hefði verið ljóst að sérstaða íslenskrar menningar – sjálf líftaugin í sögu þjóðarinnar – væri fólgin í óslitnu samhengi tungu og bókmennta frá upphafi og yfir þessu samhengi þyrfti að vaka. Yfir streymdi í vaxandi mæli margvíslegt efni á erlendum tungum í ýmsum myndum. Gæfa Íslendinga hefði verið að varðveita forna skáldskaparhefð og málið væri dýrmætasti þáttur íslenskrar menningar og um leið einn áhrifaríkasti hvati þeirrar endurreisnar á nítjándu og tuttugustu öld sem að lokum leiddi til sjálfstæðis. „Tungumálinu megum við ekki týna – því að þá týnum við okkur sjálfum”, sagði forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og hélt áfram:

Nú er í vændum að viðmót hvers konar véla og tækja sem beita þarf daglega verði þannig úr garði gert, að það taki við fyrirmælum á mæltu máli. Eigi íslenskt mál að verða gjaldgengt í þeim samskiptum þarf að koma upp íslenskum máltæknigrunni til að tengja talað mál við tölvur. Vísir að slíkum grunni er til hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Google vegna þess að íslenskir starfsmenn hafa séð til þess að íslenskan er eina fámennistungumálið sem komið hefur verið fyrir í máltæknigrunni þar á bæ. … Áætlað hefur verið að það kosti á annan miljarð króna að smíða nothæfan máltæknigrunn fyrir íslensku. Tíminn er naumur og næstu þrjú til fjögur ár geta ráðið úrslitum um framtíð íslenskunnar á þessum vettvangi. Til þess að koma þessu í kring þarf samstillt átak hins opinbera og atvinnulífs og allra þeirra sem láta sér annt um framtíð tungunnar. Bókmenntafélagið hyggst kveðja til ráðstefnu á næsta ári sem flesta er láta sig framtíð íslenskunnar varða til þess að stilla saman krafta í slíku átaki. Íslensk málnefnd hefur lagt  sérstaka áherslu á mikilvægi máltækni fyrir framtíð íslensku í stafrænum heimi. Íslendingar þurfa að fjárfesta myndarlega í eigin móðurmáli. Framtíð íslenskrar tungu er ekki einkamál Íslendinga. Hverfi hún, hverfur heill menningarheimur. Forvígismenn Bókmenntafélagsins á nítjándu öld sýndu og sönnuðu að íslenska gat dafnað mitt í tækni- og samskiptabyltingu þeirrar aldar. Núlifandi kynslóð þarf að sýna og sanna að íslensk tunga geti blómstrað mitt í stafrænni byltingu á okkar öld – og þeirri næstu.

Undir þessi orð Jóns Sigurðssonar, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, skal tekið. Þetta er aðkallandi verkefni fyrir íslenska menningu og líf íslenskrar tungu.

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 16.11.2016 - 12:34 - FB ummæli ()

Fegursta vísa á íslensku

Stundum getur verið gaman að spyrja spurninga sem ekkert rétt svar er til við – jafnvel ekkert svar.  Á dögunum spurði ég nokkra karla og konur, hver væri að þeirra dómi fegursta vísa sem ort hefði verið á íslenska tungu.  Engin frekari skýring var gefin á því, við hvað átt væri með orðinu fagur. Ekki þurfti heldur að rökstyðja svarið.  Einu gilti hvort um væri að ræða stöku, erindi úr litlu ljóði eða úr löngu kvæði.

Svör bárust frá flestum, sem spurðir voru.  Þar af voru tvær vísur eftir Skáld-Rósu eða Vatnsenda-Rósu, Rósu Guðmundsdóttur sem fæddist 1795 í Hörgárdal og ólst þar upp, bjó allvíða og lést 1855, tæplega sextug að aldri.  Hún á sér afar merka sögu, átakasögu, sem ekki verður rakin hér. Ekki er vitað til hvers eða hverra hún orti þessar vísur, enda önnur saga.  Báðar þessar vísur bárust frá konum.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tal’ og allt hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

Langt er síðan sá ég hann,

sannlega fríður var hann,

allt sem prýða mátti einn mann

mest af lýðum bar hann.

 

Þriðja vísan sem birt verður að þessu sinni barst einnig frá konu.  Vísan er eftir Árna Böðvarsson rímnaskáld sem fæddur var í Staðarsveit 1713 og dáinn 1776.  Langafi hans var séra Ketill Jörundarsonar að Hvammi í Hvammssveit, móðurfaðir Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara, en móðir hans Ólöf Árnadattir, systurdóttir Jóns biskups Vídalíns.  Árni Magnússon og Árni Böðvarsson voru því skyldir að öðrum og þriðja, en Jón Vídalín ömmubróðir hans.  Árni Böðvarsson varð stúdent frá Hólum í Hjaltadal 1732 en bjó lengst af á Snæfellsnesi, kenndur við Akra á Mýrum.  Árni var dæmdur fyrir hórdómsbrot með giftri konu og skildi við konu sína. En til seinni konu sinnar, Ingveldar Gísladóttur, orti hann þriðju vísuna sem barst og hér verður birt:

 

Ætt’ eg ekki vífaval

von á þínum fundum,

leiðin eftir Langadal

löng mér þætti á stundum.

Til Ingunnar, konu sinnar, orti Árni stöku sem fangar hugann og á heima í þessu safni:

 

Þú ert út’ við eyjar blár,

eg er sestur að Dröngum.

Blóminn fagur kvenna klár,

kalla eg löngum

– kalla eg til þín löngum.

 

En á degi íslenskrar tungu, afmæli sveitunga míns og félaga Jónasar Hallgrímssonar, ætla ég að birta það ljóð hans, sem hefur hrifið mig einna mest og er einna torskildast allra kvæða hans og ljóða, kvæðið Alsnjóa, sem hann orti í Sórey á Sjálandi 1844:

 

Eilífur snjór í augu mín

út og suður og vestur skín,

samur og samur inn og austur,

einstaklingur! vertu nú hraustur.

 

Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór,

hjartavörðurinn gengur rór

og stendur sig á blæju breiðri,

býr þar nú undir jörð í heiðri.

 

Víst er þér, móðir! annt um oss;

aumingja jörð með þungan kross,

ber sig það allt í ljósi lita,

lífið og dauðann, kulda’ og hita.

 

Flokkar: Menning og listir

Föstudagur 11.11.2016 - 18:51 - FB ummæli ()

Framtíð ferðamála á Íslandi

Fróðlegt var að lesa viðtal við Dag Eggertsson arkítekt í Fréttatímanum 10da þ.m., en Dagur hefur búið í Noregi í 30 ár og rekur arkítektastofu í Ósló og Bodö.  Eftir ferðalag um Ísland í sumar segir hann að vakning sé í gangi varðandi ferðaþjónustu á landinu, en greinilega sé verið að vinna af miklum vanefnum og í miklum flýti, bygingum hróflað upp, sem stundum líta þokkalega út en eru á kolvitlausum stað, byrgja fyrir útsýni eða eru á stað sem myndar ekki nægilega góðar gönguleiðir og eru í raun að skemma landslagið.

 

Ferðamannavegir

Dagur Eggertsson nefnir að fyrir teimur áratugum hafi norska vegagerðin hrundið af stað verkefninu „ferðamannavegir” til að skapa aðlaðandi umhverfi við vegi landsins og laða ferðamenn að minna fjölförnum svæðum og ekki síst að gera ferðalagið ánægjulegra og skapa öryggi.  Hafist var handa að skipuleggja áningarstaði, salernisaðstöðu og gera útsýnisstaði með reglulegu millibili og arkítektar og landslagsarkítektar fengnir til að túlka staðhætti og laga mannvirki að umhverfinu.  Hafi verið efnt til samkeppni víða og niðurstöður vakið athyglu vía og fengið alþjóðleg hönnunarverðlaun.

Verkefnið „ferðamannavegir” var ekki upphaflega hugsað sem fjárfesting í hönnun en vegirnir séu nú orðnir með þeim vinsælustu í Noregi og ferðamenn upplifa náttúruna og mannvirkin í náttúrunni.  Upphaflega hagfi þetta verið hjávegir yfir fjöll og hálendið’ og djúpa dali og firði og áður ókunnum stöðum gefið.  Síðan voru fleiri áningarstaðir hannaðir á fjölfarnari stöðum þar sem fólk hafði hætt lífi sínu við að taka myndir af klettum og fjöllum.  Arkítektastofa Dags Eggertssonar hefur hannað útsýnispall við stöðuvatn í Seljord í Norður Noregi en samkvæmt þjóðsögum búa í vatninu sæskrímsli, eins og þekkt er úr íslenskum þjoðsögum.  Auk þess hefur arkítektastofa Dags hannað brú með listhúsi yfir eina straumhörðustu á í Noregi þar sem njóta má veitinga um leið og nátturan er skoðuð.

 

Átaks er þörf – strax

Viðtalið við Dag Eggertsson er afar fróðlegt og mættum við Ísleningar – eða öllu heldur verðum við Íslendingar að læra af þessu starfi frænda okkar Norðmanna, ef okkur er einhver alvara að fá hingað til lands erlenda ferðamenn áfram og halda í þá miklu fjölgun ferðamanna sem orðið hefur – og verður lyftistöng, en þá verður ný ríkisstjórn, yfirvöld ferðamála, starfsmenn í ferðaiðnaði, sveitarfélög og landeigendur að taka höndum saman og finna færar leiðir, en hætta að tala í austur og vestur um tittlingaskít.

Flokkar: Stjónmál

Sunnudagur 9.10.2016 - 16:20 - FB ummæli ()

Tónlist og stjórnmál

Í gærkvöldi hlustaði ég á Stockholms Symfoniorkester flytja eftirlætistónverk mitt -„fullkomnasta tónverk sögunnar“ – sjöttu sinfóníu Ludwigs van Beethovens, Pastoralsinfóníuna, sveitasinfóníuna, sem samin er 1808 og flumflutt í Vínarborg 22. desember 1808.

Meðan ég hlustaði á þetta „fullkomnasta tónverk sögunnar“, fór ég að hugsa um ferilinn: snilli tónskáldsins, menntun og hæfileika hljóðfæraleikaranna, fjölbreytileika hljóðfæranna, þessara frábæru smíðisgripa, elju og áhuga flytjenda og hrifningu áheyrenda.

Allt í einu fór ég í huganum að bera saman tónlist og stjórnmál heimsins – í víðasta skilnigi þess orðs – sem einkennast af svikum, undirferli, sýndarmennsku og á eftir öllu saman rekur auðvaldið sem hefur það eitt markmið að auka arð af kapítali, eignast peninga, fela og stela, og þetta hefur leitt til misréttis og yfirgangs og skelfinga sem engin orð fá lýst – en flestir þekkja.

Þótt mér sé vel ljóst að fátækleg orð eins og þessi hafi lítil áhrif, vekja þau vonandi til umhugsunar um hvað það er sem gerir líf okkar þess virði að því sé lifað. Það eru ekki peningar, því síður undirferli og svik, heldur vinátta, kærleikur og fegurð náttúrunnar og list.

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 22.9.2016 - 13:36 - FB ummæli ()

Glæpir gegn mannkyni og morð á saklausu fólk

 

Hörmulegt er að horfa upp á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki hvern dag sem guð gefur yfir. Þótt mannskepnan hafi frá örófi alda sýnt illmennsku og mannfyrirlitningu og saklaust fólk hafi þurft að þola ofbeldi og yfirgang valdsmanna, hafa glæpir gegn mannkyni og morð á saklausu fólki ekki verið daglegt brauð á borðum okkar fyrr en síðustu ár – vegna fréttaflutnings sem ekki lýtur boðum og bönnum valdhafanna.

Stóra spurningin er: Hvers vegna geta Sameinuðu þjóðirnar, Evrópubandalagið, Bandaríki Norður Ameríku, Rússland, Þýskaland, Bretland, Frakkland, Indland og Kína ekkert gert. Hvers vegna í ósköpunum er ekki bundinn endir á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki sem við verðum vitni að hvern dag? Þarf heimurinn áfram að horfa upp á vannærð og deyjandi börn í Afríku og Asíu, vegalausa flóttamenn, bjargarlausar og svívirtar konur og ráðþrota flóttamenn? Hvar liggur hundurinn grafinn? Kann enginn af stífbónuðum stjórnmálamönnum ráð til þess að binda endi á þessa óþverra skömm – eða vilja þeir ekki eða geta þeir ekki hamlað gegn glæpum gegn mannkyni og morðum á saklausu fólki? Eeða eru það ef til vill allt önnur öfl en lýðræðislega kjörnir fulltrúar fóksins –eins og kallað er – sem ráða gangi heimsins, auðmenn og vopnaframleiðendur sem svífast einskis í auðsöfnun sinni?

 

Næturvörðurinn

Ríkissjónvarpið sýnir þessar vikurnar þáttaröð sem nefnd er á íslensku Næturvörðurinn, á ensku The Night Manager – tvírætt heiti sem e.t.v. mætti þýða „sá sem ræður nóttinni, myrkrinu”. Þættirnir eru byggðir á sakamálasögu eftir hinn frábæra rithöfund John le Carré, sem er dulnefni enska rithöfundarins Davids John Moore, en hann skrifaði skamálasögur á sínum tíma sem fjölluðu um samskipti vesturs og austurs á dögum kalda stríðsins og byggði þar á sögulegum heimildum.

Litlum vafa er undirorpið að John le Carré byggir frásögn sína á staðreyndum: spillingu innan stjórnmálanna og ofurvöld vopnaframleiðenda. Ef ekki kæmu til stríðsvopn og önnur manndrápstæki vopnaframleiðenda – hvar í flokki sem þá er að finna – gætu ofbeldismenn heimsins ekki staðið fyrir þessum glæpum gegn mannkyni og morðum á saklausu fólki.

Svarið til Sameinuðu þjóðanna, Evrópubandalagsins Bandaríka Norður Ameríku, Rússlands, Þýskalands, Bretlands, Frakklands, Indlands og Kína er því: Stöðvið alla vopnaframleiðslu til að binda enda á glæpi gegn mannkyni og morð á saklausu fólki og notið fjármagnið til þess að auka matvælaframleiðslu, bæta heilsugæslu, mennta fólk og efla lýðræði: rétt fólks til þess að ráða sér sjálft í skjóli þekkingar.

Flokkar: Stjónmál

Fimmtudagur 11.8.2016 - 10:02 - FB ummæli ()

Ein þjóð – ein tunga

Lengi hefur verið vitnað í orð Snorra Hjartarsonar: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein”, orða Jónasar um „Ástkæra ylhýra málið” og orða Einars Benediktssonar: „Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu.” Þá er haft eftir Sigurði Nordal: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku“. Þessi ummæli lýsa viðhorfi margra.

Úlfar Bragason skrifar í Fréttabréfi Stofnunar Sigurðar Nordals 2, 2000:

Íslendingum er tamt að líta svo á að þjóðerni þeirra sé falið í tungumálinu og þeim bókmenntum sem á því hafa verið ritaðar. Íslensk málrækt hefur því oft snúist upp í málvernd, íhaldsemi og þröngsýni. Þegar verst gegnir þola menn ekki annað tungutak en sitt eigið og skiptir þá litlu hvort það er betra en annarra. Þetta viðhorf hefur síðan meðvitað eða ómeðvitað bitnað á útlendingum sem hafa viljað læra málið. Gengið er út frá því að þeim muni varla eða aldrei takast að ná valdi á því enda sé íslenskan svo erfitt mál. Að vísu verða menn að viðurkenna að dæmin sýna annað en einatt er litið á þau sem undantekningar.

Viðhorf Íslendinga til eigin tungu hefur valdið því að mikla einbeitni hefur þurft hjá erlendu fólki sem hefur viljað læra málið. Erfitt hefur reynst að finna kennsluefni við hæfi og framboð á kennslu hefur verið lítið. Þessi viðhorf landsmanna gera líka erlendu fólki erfitt fyrir að setjast að á Íslandi því það hættir seint að vera utangarðs í málsamfélaginu enda allt of lítið hjálpað til að nema málið.

Undanfarnar vikur hefur Veðurstofa Íslands látið tvo útlendinga – sennilega nýbúa – lesa veðurfréttir annan veifið. Framtak Veðurstofunnar er sannarlega umhugsunarvert: að leyfa starfsmönnum, sem hafa lagt á sig það erfiði að ná tökum á þessu flókna máli, að lesa veðurfréttir. Ef til vill má líta á þetta frumlega framtak sem tilraun til að sýna nýbúum virðingu og vekja athygli á mikilvægi málsins í samfélaginu – þessu samfélagi á Íslandi sem er ekki lengur einsleitt og einangrað heldur hefur færst nær hringiðu umheimsins með flóknu tungumálakerfi sínu, átökum og tortryggni.

Á hinum Norðurlöndum hefur það ekki gerst – að því best er vitað – að nýbúar hafi fengið að koma fram í útvarpi eða sjónvarpi með þessum hætti. Í Noregi eru tvö ríkismál og fjölmargar mállýskur og í norska ríkisútvarpinu NRK, bæði útvarpi og sjónvarpi, eru þessar mallýskur virtar. Í BBC má heyra margs konar ensku, eins og lesendur vita. En erlendir málhafar fá ekki inni við fréttalestur í NRK eða BBC né annars staðar sem vitað er til.

Framtak Veðurstofunnar er sannrelega umhugsunarvert og til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það ber að rækta íslenska tungu sem þjóðtungu landsmanna hvaðan sem þeir eru upprunnir, enda er það samdóma álit nýbúa á Íslandi – eins og víðast hvar annars staðar – að til þess að geta tekið þátt í lífi og starfi samfélagsins verði þeir að læra þjóðtunguna.

Flokkar: Menning og listir

Mánudagur 1.8.2016 - 18:29 - FB ummæli ()

„Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?

 

Fróðlegt er að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gær. Fyrirsögnin er: „Veistu af hvers konar völdum, menn vankast snemma af?” Fyrirsögnin endurómar upphafsorð þýðingar Steingríms Thorsteinssonar á ljóði Heinrichs Heine, Loreley:

Eg veit ekki af hvers konar völdum

svo viknandi dapur eg er.

Ef til vill hefði höfundur Reykjavíkurbréfs átt að nota orð skáldbróður síns ómenguð, því að þau virðast lýsa mun betur hug hans og efni bréfsins.

Fyrsti kafli bréfsins heitir „Þreytt fyrir tímann”. Þar segir:

Væntanlega er mest að marka það sem gerist í opnum, upplýstum og lýðræðislegum þjóðfélögum. Varla er nýjabrum lýðræðisins fokið út í veður og vind. Þetta er glænýtt fyrirkomulag. En þó virðist óneytanlega á því þreytueinkenni. Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Rétt er að benda á orðin: „Afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.” Síðar segir höfundur:

Stór hluti jarðarbúa hefur ekki enn fengið að kynnast lýðræðinu, nema af afspurn. … Mannréttindasáttmálar eru til og manréttindadómstólar, en því fer fjarri að heimurinn allur lúti þeim. Sumir gera það meira á orði en borði, en aðrir alls ekki og komast upp með það. En hvernig stendur á því, að einmitt þar sem lýðræðislegar leikreglur eru í heiðri hafðar, sé álitið á leiðtogunum sem almenningur hefur sjálfur valið svona lítið.

Höfundur Reykjavíkurbréfsins svarar spurningunni þannig, að almenningi sé „löngu orðið ljóst að ekkert sé að marka” orð leiðtoganna.

Lýðræðislegir valdamenn hafa nokkur völd, þótt misjafnt sé eftir löndum. Í létt – lýðræðisríkjum, sem óþarft er að nefna, geta völd manna verið býsna mikil. Helsta ástæða þess er sú að jafnvægi vantar. Það skortir öfl sem veita valdhöfunum aðhald. Þar má nefna öfluga stjórnarandstöðu, frjálsa fjölmiðla, gagnsæja stjórnsýslu og á lokastogi dómstólana.

Þetta eru eftirtektarverð orð Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins, en það blað hefur ekki talist til frjálsra fjölmiðla. Jafnvægi í stjórnmálum á Íslandi má lýsa með því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn nær 55 ár af 72 árum lýðveldistímans – eða nær 8 ár af hverjum 10 árum. Hefur enginn flokkur á Vesturlöndum átt viðlíka fylgi – og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar 2009 þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs .

Einu fulltrúar fólksins í kerfinu

Áður en höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins víkur að lokum að hinu „ólýðræðislega sambandi í álfunni” – Evrópusambandinu – segir hann: „Enn sem fyrr eru þó stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu.” Þessi orð lýsa takmörkuðum skilningi á nútíma lýðræði og gamaldags og úreltri afstöðu. Að vísu er ekki ljóst við hvað höfundur á með orðinu „stjórnmálamenn”, en það virðist merkja fulltrúar á Alþingi, alþingismenn og ráðherrar. Í nútíma lýðræðisríki á almenningur fjölmarga fulltrúa. Í dag ber að nefna forseta Íslands, sem telur mikilsverðasta hlutverk sitt að hlusta á og þjóna almenningi, umboðsmann Alþingis, umboðsmenn barna, sveitarstjórnarmenn og kennara, svo nokkur dæmi séu tekin, auk þess sem stjórnarskrá lýðveldisins og lög veita almenningi tryggingu.

Lokaorð Reykjavíkurbréfs gærdagsins skjóta síðan skökku við, að enn sem fyrr séu stjórnmálamenn einu fulltrúar fólksins í kerfinu. Lokaorðin hljóða þannig í Drottins nafni: „Fyrst að stjórnmálamenn hafa sjálfviljugir svipt sig völdum að mestu, gerir þá nokkuð til þótt við kjósum t.d. Pírata, sem enginn veit fyrir hvað standa.” Þessi orð bera svip þess sem höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fordæmdi í upphafi: að afstaða stjórnmálamanna í lýðræðislöndum er blanda af áhugaleysi, tortryggni og fullkominni andúð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is