Fimmtudagur 26.10.2017 - 13:42 - FB ummæli ()

Frábær leiksýning sem á erindi til allra

 

Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit Henriks Ibsens Óvinur fólksins í leikgerð og þýðingu Grétu Kristínar Ómarsdóttur og Unu Þorleifsdóttur, sem er leikstjóri.  Er leikgerðin allverulega stytt en kemur ekki að sök.  Leikmynd og búninga gerði Eva Signý Berger og tónlist og hljóðmynd Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristinn Gauti Einarsson.

Leikritið heitir á norsku En folkefiende og er skrifað árið 1882 og var í fyrri þýðingu á íslensku nefnt Þjóðníðingur.  Bandaríski rithöfundurinn Arthur Miller gerði leikgerð af verkinu á sjötta áratug síðustu aldar og kallaði það An Enemy of the People, sem hlaut mikla athygli, enda var þetta á tímum ofsókna í Bandaríkjunum á hendur róttæku fólki, svo kölluðum MacCarthy tímanum.

Leikritið Óvinur fólksins er eitt frægasta verk Henriks Ibsens.  Verkið fjallar um átök í smábæ í Noregi.  Þar hafa verið stofnuð heilsuböð sem draga að sér fólk víðs vegar að og eru böðin orðin undirstaða atvinnulífs og velmegunar í bænum.  Hins vegar kemur í ljós að vatnið í böðunum er mengað, eitrað, frá verksmiðju sem rekin hefur verið í bænum þrjá mannsaldra.  Bæjarstjórinn, Katrín Stokkmann, sem leikin er af Sólveigu Arnarsdóttur, vill leyna menguninni og reyna að finna leiðir til þess að bjarga böðunum og bæjarsamfélaginu, en bróðir hennar, læknirinn Tómas Stokkmann, sem Björn Hlynur Hallsson leikur, vill upplýsa almenning um málið.  Skiptist fólk í tvær andstæðar fylkingar sem takast á, en margir skipta um skoðanir og sumir oftar en einu sinni.  Einn er sá sem ekki skiptir um skoðun og það er læknirinn og vísindamaðurinn sem vill berjast fyrir lýðræði og sannleika.

Verkið lýsir á áhrifamikinn hátt hverjir hafa vald yfir sannleikanum og hvernig má skrumskæla lýðræðið.  Lokaorð verksins eru orð Tómasar Stokkmanns: „Ég gerði nýja uppgötvun. Þegar maður berst fyrir sannleikanum, þarf maður að standa einn.  Og sterkasti maður heims er sá sem þorir að standa einn.  Ég er sá maður.  Ég er sterkasti maður heims.”  Á norsku hljóða lokaorð Stokkmanns: „Den sterkeste mann i verden, det er han som står mest alene.”

Hljóðmyndin er afar áhrifamikil og leikmyndin frábær, sýnir hinn lokaða heim iðnaðarsamfélagsins með járnmöstrum og byggingum úr stáli.  Verkið kallast á við samtíma okkar þar sem takast á gróðahyggja og mengun annars vegar og hins vegar krafa um valddreifingu, velsæld og mannvirðingu.

Þessi sýning Þjóðleikhússins á leikritinu Óvinur fólksins er ein áhrifamesta sýning sem blekberi hefur séð um langan tíma og leiðir í ljós, að óvinir fólksins í samtímanum eru margir.

 

 

Flokkar: Menning og listir

Laugardagur 7.10.2017 - 09:22 - FB ummæli ()

Snjalltæki og íslensk tunga

Samskipti Íslendinga við snjalltæki verða íslenskri tungu ekki að falli. Unnt er að nýta tækni sem gerir samskiptin auðveld og einföld. Það sýnir frábært starf íslensku starfsmanna Google sem getið var um í fréttum á dögunum. Það eru aðrir þættir sem gætu orðið þessu elsta tungumáli Evrópu að falli.

Þá ber að hafa í huga, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð hafa aldrei verið öflugri svo og kvikmyndagerð og gerð útvarps- og sjónvarpsþátta og nú síðast rapp á íslensku.

Vandaðar bækur um fjölbreytt efni hafa verið gefnar út undanfarna áratugi og fleiri njóta kennslu í íslensku máli, málnotkun, bókmenntum og sögu þjóðarinnar en áður. Rannsóknir eru stundaðar á íslensku máli, málnotkun, bókmenntum, sagfræði, félagsvísindum, mannfræði og heimspeki í skjóli háskóla á Íslandi og annarra rannsóknarstofnana.

Nýyrðasmíð er öflugri en nokkru sinni og hafa bæði einstaklingar, stofnanir – og fyrirtæki atvinnulífsins tekið þátt í því málræktarstarfi auk þess sem Íslensk málnefnd og Íslensk málstöð vinna mikilsvert starf. Það er því annað en fall íslenskrar tungu sem þarf að óttast meira á landinu kalda.

 

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 7.9.2017 - 12:28 - FB ummæli ()

Skólar á nýrri öld

Enn hafa umræður orðið um styttingu náms í framhaldsskólum. Sýnist þar sitt hverjum, eins og eðlilegt er, en málefnaleg skoðanaskipti eru undirstaða framfara í lýðræðislandi. Það sem hins vegar hefur einkennt þessar róttæku breytingar, er að menntamálayfirvöld hafa lítið rætt breytingarnar og lítið samráð haft við skólana – skólastjóra og kennara – að ekki sé talað um nemendur og foreldra.

Skólanám

Eins og lesendur þekkja, eru fjögur skólastig í landinu: leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar. Hér verður einkum rætt um framhaldsskólastigið, þótt flest sem hér er sagt eigi við öll skólastigin fjögur.

Framhaldsskólar eru nú 37 talsins, þar af sjö „viðurkenndir einkaskólar”, eins og það er orðað. Öllum þessum framhaldsskólum er samkvæmt lögum ætlað að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum einum nám við hæfi og búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám.

Nám í framhaldsskólunum er margbreytilegt og skólarnir af þeim sökum afar ólíkir. Skipta má framhaldsskólunum 37 í tvo meginhópa. Annars vegar eru bóknámsskólar, sem bera allir nafnið menntaskóli og hafa að meginhlutverki að búa nemendur undir sérhæft háskólanám. Hins vegar eru fjölbrautaskólar sem bjóða upp á un fjölbreyttara nám, bæði á bóknámsbrautum, listnámsbrautum og verknámsbrautum, s.s. málabraut, húsasmiðabraut, rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut, snyrtibraut, tölvubraut og íþróttabraut.

Ljóst er af þessu að íslenskum framhaldsskólanemendum gefst kostur á að velja ólíkar námsleiðir sem veita undirbúning og réttindi á sviði almenns náms, listnáms, bóknáms og starfsnáms. Þá lýkur náminu með mismunandi námsgráðum, svo sem framhaldsskólaprófi, prófi til starfsréttinda, stúdentsprófi og iðnmeistaraprófi. Lýsingar á námsbrautum framhaldsskólastigi taka mið af þessum fjölbreytileika og þurfa að mæta kröfum annarra skólastiga og atvinnulífsins, auk þess að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.

Kröfur til framhaldsskóla

Miklu skiptir að framhaldsskólar uppfylli þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að láta nemendum líða vel, sem er algert grundvallarskilyrði.  Í öðru lagi að koma nemendum til þroska og búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Í þriðja lagi ber skólunum í upphafi nýrrar aldar að nýta tækni og þekkingu við kennslu og nám.  Einkum ber að gera nemendum kleift að nota samskiptatækni, sem stöðugt fleygir fram, til þess að afla sér þekkingar. Með því eru nemendur gerðir ábyrgir fyrir námi sínu, en eru ekki undir smásjá „heyrara” – kennara sem kanna hvort nemandinn hafi lesið heima en kenna minna.

Fyrir hálfri öld sagði nemandi við Menntaskólann á Akureyri að „heimanám ætti ekki að þekkjast í betri skólum”.  Með því átti hann við að líta bæri á skólanám sem vinnu nemenda sem lyki á eðlilegum vinnutíma en námið hengi ekki yfir þeim allan sólarhringinn, því að nemendur í framhaldsskólum vildu og vilja flestir geta sinnt öðru en náminu einu, s.s. hollu tómstundastarfi, íþróttum og listum.

Ný öld

Með nýrri tækni á nýrri öld breytast skólarnir.  Ekki síst breytist starf kennara og vinna nemenda. Stjórnvöld þurfa nú að gera áætlun um framtíð skólanna, bæði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla –og háskóla. Samræða þarf að hefjast milli þeirra sem eiga hlut að máli: kennara, skólastjóra, nemenda, foreldra, ríkis og sveitarfélaga, þannig að ný áætlun um nýtt skólakerfi á nýrri öld liggi fyrir innan fimm ára. Áætlun með skýr markmið er nauðsyn til þess að tryggja samfellu í menntakerfi landsins og efla bæði bókmenntun og verkmenntun í landinu.

 

Flokkar: Menning og listir

Föstudagur 28.7.2017 - 09:38 - FB ummæli ()

Misgerðir sem ekki verða fyrirgefnar

Sumar misgerðir verða ekki fyrirgefnar, hvorki samfélagslega né trúarlega. Verstar af þessum misgerðum, sem ekki er unnt að fyrirgefa, er ofbeldi gegn börnum, einkum kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg misnotkun barna, þótt annað ofbeldi svo sem skammir og barsmíðar.  Ofbeldi gegn konum – og „for den sags skyld” ofbeldi gegn okkur körlum – svo og hvers konar líkamsmeiðingar á fólki, af sumum taldar til íþrótta, eru skammarlegar, en allt ofbeldi er framið vegna siðblindu og í sumum tilvikum vegna geðbilunar.

Hernaðarofbeldi, sem í flestum tilvikum á rætur að rekja til gróðafíknar kapítalista og við heyrum af úti í hinum stóra heimi, bitnar ávallt á saklausu fólki, einkum konum og börnum, og eru þyngri en tárum taki og eru einnig misgerðir sem ekki er unnt að fyrirgefa. Hernaðarofbeldi – eins og allt annað ofbeldi – er ein grundvallarmynd valdabaráttu siðblindra stjórnvalda þar sem valdasjónarmið ráða.

Kristileg fyrirgefning

Í grein 16. apríl 2013, sem nefnd er „Fyrirgefning – ekki alltaf svarið”, spyr Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, hvort fyrirgefningarlíkan Nýja testamentisins sé gagnlegt í dag – og hún segir:

Ég tel það. Sérstaklega held ég að þeir sem vinna með einstaklingum sem brotið hefur verið á, svo sem þolendum ýmiss konar ofbeldis, andlegs, líkamlegs og kynferðislegs, geti haft visst gagn af því að styðjast við það. Valdasjónarmið þau sem koma fram í því eru þrátt fyrir allt alls ekki fjarri okkar veruleika. Öll tengsl okkar við annað fólk eru valdatengsl ef því er að skipta. Í ofbeldisaðstæðum nær annar aðilinn valdi yfir hinum og í krafti þess valds getur hann beitt ofbeldi. Að losna undan sálrænu valdi persónu sem hefur meitt mann og sært er mjög erfitt og tal um fyrirgefningu hjálpar ekki alltaf í þeim aðstæðum. Ef gerandinn hvorki viðurkennir verknað sinn né reynir að bæta fyrir brot sitt skyldum við, með vísan í Nýja testamentið, sleppa öllu tali um fyrirgefningu. Þótt fyrirgefningin sé okkur kristnum kær er fyrirgefning ekki alltaf svarið.

Bent skal á að kristin fyrirgefning er að dómi prófessorsins í guðfræðilegri siðfræði ekki alltaf svar við ofbeldi – og til sé annað svar. Auk þess ber að hafa í huga á þessum síðustu og verstu tímum, hafa menn, sem kallaðir eru löglærðir og hafa gegnt dómarastörfum við Hæstarétt Íslands, mæla með uppreist æru brotamanna, sem gerst hafa sekir um kynferðisleg ofbeldi og misnotkun á börnum og telja uppreist brotamanna eftir slíkar misgerðir til mannréttinda. Þarna skortir eitthvað á skilning, siðferði og heiðarleika.

Skóggangur

Í lögum íslenska þjóðveldisins eru ákvæði um hegningar við alvarlegustu brot. Þyngsta refsing, sem lögin gerðu ráð fyrir, var svo nefndur skóggangur, ævilöng útlegð úr landinu – brottrekstur úr mannlegu samfélagi. Ef til vill væri ekki úr vegi að huga að því aftur að taka aftur upp einhvers konar skóggangsdóm yfir brotamönnum sem gerast sekir um kynferðisleg ofbeldi gegn börnum og annað skelfilegt ofbeldi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.6.2017 - 19:12 - FB ummæli ()

Prins Henrik og Danmark

Det var en stor oplevelse for mig som en islandsk royalist, født under kong Christian den X, i går at se DRs „direkte” genudsendelse af prinsesse Margrethe og greve Henri de Monpezats bryllup den 10. juni 1967. Ikke mindst var det indtagende at se tronfølgerens kærlighed til den smukke grev, der lyste fra hendes øjne og i hendes smil.

Det har derimod længe undret mig på hvilken måde mange af mine danske venner i tidens løb har snakket om Hans Kongelige Højhed Prins Henriks danske sprog. Min medlidenhed har en smule med at gøre, at han og jeg har tre ting til fælles. For det første er vi begge to født på „fandens fødselsdag” den 11. juni. For det andet har vi været gift i over 50 år med vores egne Margrethe, han med Danmarks tronfølger, nuværende dronning af Danmark, jeg med min Eggertsdóttir, mor til seks børn. For det tredje har vi begge to måttet opleve at være „fremmedarbejdere” i kongeriget Danmark, greve Henri de Monpezat som „ansat” i et halvt århundrede i det danske kongehus, jeg tjenende i fire år som leder i afdeling for uddannelse og kultur i Nordisk Ministerråds Sekretariat.

De fire år i København – og mange gange siden – har jeg hørt dem som har dansk som modersmål, snakke om hvor dårlig dansk grev Henri de Monpezat taler og hvor dårligt sprogøre han har. Da har jeg funderet over hvor godt fransk eller islandsk de taler. Dette blev jeg mindet om da jeg i går hørte DRs kvindelige TV vært nævne navnet på Islands præsident i år 1967, Ásgeir Ásgeirsson, som sandelig er et vanskelig navn at udtale hvor det forekommer lange diftonger og tryk på første stavelse. Ingen Islænding ville have forstået TV værtindens udtale af præsidentens navn. Man skal ikke kaste sten i et glashus. Og greve Henri de Monpezat har gjort alt hvad han kunne for at tjene det dejlige Danmark.

Reykjavík, 11. juni 2017

Tryggvi Gíslason

 

Sent til Berlingske og Jyllandsposten

Flokkar: Menning og listir

Miðvikudagur 31.5.2017 - 12:29 - FB ummæli ()

Framtíð íslenskrar tungu

Undanfarið hefur allmikið verið rætt og ritað um ensk heiti íslenskra fyrirtækja. Ástæðan er sú, að síðara hluta maímánaðar tók Flugfélag Íslands upp nafnið Air Iceland Connect. Um árabil notaði félagið nafnið Air Iceland, en með því að bæta við orðinu Connect sýnum við tengingu við íslenska náttúru og erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland. Þetta er lýsandi nafn og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á alþjóðamarkaði, eins og haft er eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Air Iceland Connect.

Samkeppni á alþjóðamarkaði

Naumast þarf að fara í grafgötur um, að íslensk fyrirtækni og stofnanir taka aukinn þátt í samkeppni á alþjóðamarkaði þar sem tungumálið er enska. Ekkert óeðlilegt er að íslensk fyrirtæki á alþjóðamarkaði noti ensk heiti til þess að vekja á sér athygli. Leyfi ég mér að fullyrða, að ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum ógna ekki framtíð íslenskrar tungu, eins og þráfaldlega er gefið í skyn. Aðrir þættir vega þar þyngra svo sem minnkandi bóklestur ungs fólks, tölvuleikir á ensku sem valda því að börn og unglingar tala orðið ensku sín á milli. Afstaða stjórnvalda til menntamála og léleg kjör kennara er mun meiri ógn við íslenska tungu en ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum. Jafnvel óskýr framburður, sem vinnur gegn gagnsæi málsins og getur breytt málkerfinu, veldur meiri hættu en Air Iceland Connect. Röng notkun orða og orðatiltækja og orðfæð er miklu alvarlegri ógn við framtíð tungunnar en Air Iceland Connect. Lítill skilningur ákveðins hóps Íslendinga á málrækt er einnig ógn við framtíð íslenskrar tungu, en hafa ber í huga að það er vegna íslenskrar  tungu erum við sjálfstæð þjóð í eigin landi.

Dómsdagsspá

Lengi hefur verið efast um gildi íslenskrar tungu og henni spáð dauða. Árið 1754 kom út í Kaupmannahöfn ritið TYRO JURIS edur Barn í Lögum eftir Svein lögmann Sölvason. Þar segir hann, að heppilegra sé að nota orð úr dönsku en íslensku þegar ritað er um lögfræði á íslensku. Bjarni Jónsson, rektor Skálholtsskóla, lagði til í bréfi til Landsnefndarinnar fyrri árið 1771 að íslenska yrði lögð niður og danska tekin upp eða með hans orðum – á dönsku: „Jeg anseer det ikke alene unyttigt men og desuden meget skadeligt, at man skal beholde det islandske Sprog.” Í upphafi velmektardaga frjálshyggju í lok síðustu aldar var lagt til að íslenska yrði lögð niður og enska tekin upp í staðinn.

Sterk staða íslenskrar tungu

Þrátt fyrir þetta er raunin sú, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Á þetta m.a. rætur að rekja til þess, að málið hefur verið sveigt að nýjum viðfangsefnum og breyttu menningarumahverfi. Ritun skáldsagna og leikrita, ljóðagerð og vísnasöngur og vönduð bókaútgáfu hefur aldrei verið öflugri en undanfarna áratugi og nýstárlega auglýsingagerð í útvarpi og sjónvarpi hafa auðgað tunguna þar sem orðið hafa til orðaleikir og íslensk fyndni sem áður voru óþekktir í málinu – að ógleymdu rappi á íslensku. Engu að síður eru ýmis viðgangsefni sem bíða úrlausnar svo sem notkun íslensku í stafrænu umhverfi.

Flest bendir því til, að íslenska, þetta forna beygingarmál, geti áfram gegnt hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Hins vegar hefði mátt finna betra enskt nafn á Flugfélag Íslands en Air Iceland Connect.

 

Flokkar: Stjónmál

Miðvikudagur 31.5.2017 - 12:20 - FB ummæli ()

Framtíð íslenskrar tungu

Undanfarið hefur allmikið verið rætt og ritað um ensk heiti íslenskra fyrirtækja. Ástæðan er sú, að síðara hluta maímánaðar tók Flugfélag Íslands upp nafnið Air Iceland Connect. Um árabil notaði félagið nafnið Air Iceland, en með því að bæta við orðinu Connect sýnum við tengingu við íslenska náttúru og erlenda áfangastaði á borð við Grænland, Skotland og Norður-Írland. Þetta er lýsandi nafn og við erum sannfærð um að þetta muni leiða til sterkara vörumerkis á alþjóðamarkaði, eins og haft er eftir Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Air Iceland Connect.

Naumast þarf að fara í grafgötur um, að íslensk fyrirtækni og stofnanir taka aukinn þátt í samkeppni á alþjóðamarkaði þar sem tungumálið er enska. Ekkert óeðlilegt er að íslensk fyrirtæki á alþjóðamarkaði noti ensk heiti til þess að vekja á sér athygli. Leyfi ég mér að fullyrða, að ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum ógna ekki framtíð íslenskrar tungu, eins og þráfaldlega er gefið í skyn. Aðrir þættir vega þar þyngra svo sem minnkandi bóklestur ungs fólks, tölvuleikir á ensku sem valda því að börn og unglingar tala orðið ensku sín á milli. Afstaða stjórnvalda til menntamála og léleg kjör kennara er mun meiri ógn við íslenska tungu en ensk heiti á íslenskum fyrirtækjum. Jafnvel óskýr framburður, sem vinnur gegn gagnsæi málsins og getur breytt málkerfinu, veldur meiri hættu en Air Iceland Connect. Röng notkun orða og orðatiltækja og orðfæð er miklu alvarlegri ógn við framtíð tungunnar en Air Iceland Connect. Lítill skilningur ákveðins hóps Íslendinga á málrækt er einnig ógn við framtíð íslenskrar tungu, en hafa ber í huga að það er vegna íslenskrar  tungu erum við sjálfstæð þjóð í eigin landi.

Dómsdagsspá

Lengi hefur verið efast um gildi íslenskrar tungu og henni spáð dauða. Árið 1754 kom út í Kaupmannahöfn ritið TYRO JURIS edur Barn í Lögum eftir Svein lögmann Sölvason. Þar segir hann, að heppilegra sé að nota orð úr dönsku en íslensku þegar ritað er um lögfræði á íslensku. Bjarni Jónsson, rektor Skálholtsskóla, lagði til í bréfi til Landsnefndarinnar fyrri árið 1771 að íslenska yrði lögð niður og danska tekin upp eða með hans orðum – á dönsku: „Jeg anseer det ikke alene unyttigt men og desuden meget skadeligt, at man skal beholde det islandske Sprog.” Í upphafi velmektardaga frjálshyggju í lok síðustu aldar var lagt til að íslenska yrði lögð niður og enska tekin upp í staðinn.

Sterk staða íslenskrar tungu

Þrátt fyrir þetta er raunin sú, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Á þetta m.a. rætur að rekja til þess, að málið hefur verið sveigt að nýjum viðfangsefnum og breyttu menningarumahverfi. Ritun skáldsagna og leikrita, ljóðagerð og vísnasöngur og vönduð bókaútgáfu hefur aldrei verið öflugri en undanfarna áratugi og nýstárlega auglýsingagerð í útvarpi og sjónvarpi hafa auðgað tunguna þar sem orðið hafa til orðaleikir og íslensk fyndni sem áður voru óþekktir í málinu – að ógleymdu rappi á íslensku. Engu að síður eru ýmis viðgangsefni sem bíða úrlausnar svo sem notkun íslensku í stafrænu umhverfi.

Flest bendir því til, að íslenska, þetta forna beygingarmál, geti áfram gegnt hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Hins vegar hefði mátt finna betra enskt nafn á Flugfélag Íslands en Air Iceland Connect.

 

Flokkar: Menning og listir

Mánudagur 10.4.2017 - 12:46 - FB ummæli ()

Mannvonska eða skilningsleysi

Með fárra daga millibili fáum við að heyra í fjölmiðlum að dvalarheimili á Akureyri og í Reykjavík geta ekki leyft gömlum hjónum að búa saman síðust ár ævikvöldsins vegna þess að matsreglur leyfa ekki slíkt.

Ekki veit ég hvaða orð á að hafa yfir þetta: skilningsleysi, virðingarleysi, tillitsleysi, heimska eða mannvonska. Kostnaður við að leyfa gömlum hjónum, sem búð hafa saman í sextíu ár, að dveljast tvo saman í litlu herbergi á dvalarheimili fyrir aldraða er lítill sem enginn. Sú mótbára, að kostnaður leyfi þetta ekki, heldur því ekki í þetta skipti.

Alþingi og ríkisstjórn á að skammast sín og skipa málum þannig að við gömul hjón getum dvalist saman síðustu ár okkar, ef við óskum þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.2.2017 - 13:38 - FB ummæli ()

Ræða forsetafrúarinnar á konudaginn

Á konudaginn, síðast liðinn sunnudag, flutti forsetafrú Íslands, frú Eliza Jean Reid, ræðu við guðsþjónustu í Garðabæ og var guðsþjónustunni útvarpað. Ræða forsetafrúarinnar var með bestu ræðum sem ég hef heyrt og hef ég þó heyrt margar góðar ræður um dagana. Ræðan var efnismikil, einlæg og skemmtileg með lærdómsríkum samlíkingum og ábendingum sem bæði konur og karlar geta lært mikið af. Hins vegar hef ég hvergi séð minnst einu orði á þessa merku ræðu sem enn má hlusta á í Sarpinum: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/gudsthjonusta-i-vidalinskirkju/20170219. Vil ég benda hugsandi fólki á að hlusta á ræðu forsetafrúar Íslands, frú Eliza Jean Reid.

 

 

Flokkar: Stjónmál

Föstudagur 3.2.2017 - 14:42 - FB ummæli ()

Öld öfganna

Bókin Age of Extremes eftir Eric Hobsbawm kom út á ensku árið 1994 og í íslenskri þýðingu 1999 og var nefnd Öld öfganna, saga heimsins á 20.öld.  Eric Hobsbawm fæddist í Alexandríu 1917 – á dögum breska heimsveldisins, en ólst upp í Vínarborg og Berlín.  Hann var af gyðingaættum og í Berlín varð hann vitni að valdatöku Hitlers 1933.  Þá fluttist hann til Bretlands, las sagnfræði við King´s College í Cambridge, mótaðist af Maxrisma og varð einn af stofnendum tímaritsins Past and Present 1952 sem hafði mikil áhrif á viðhorf í sagnfræði.  Hobsbawm kenndi lengi sagnfræði við London University og voru einkunnarorð hans: „Hlutverk sagnfræðinga er að muna það sem aðrir gleyma.“

Tuttugasta öld er mesta framfaraskeið í sögu mannkyns en um leið skeið mestu grimmdarverka sem sögu fara af, öld glundroða, örbyrgðar og siðleysis, öld göfugra hugsjóna, menningafreka og mikilla lífsgæða hjá hluta jarðarbúa en hungurs og dauða hjá íbúum þriðja heimsins.  Öldin var einnig öld grimmdarverka og þjóðarmorða sem eiga sér fáar hliðstæður.  Háð voru langvinn stríð þar sem drepnir voru mun fleiri óbreyttir borgarar, konur og börn, en hermenn.

Öld andstæðna og grimmdar

Nú er risin ný öld sem margir hafa bundið vonir við.  Enn eru þó háð grimmileg stríð og réttur einstaklinga fyrir borð borinn.  Fleiri eru nú á flótta undan harðrétti, rangsleitni og fátækt en nokkru sinni.  Þá vekur tilhneiging í stjórnmálum meðal voldugustu þjóða heims ugg í brjósti, nú síðast framferði Trumps í Bandaríkjunum, og aukið fylgi öfgaflokka í Þýskalandi, Frakklandi og Austurríki – að ekki sé talað um framferði Rússlands undir stjórn Pútíns, en í því landi hefur misrétti og yfirgangur viðgengist frá ómunatíð.  Alþýðulýðveldið Kína, þar sem býr fimmtungur jarðarbúa, er farið að haga sér í samræmi við reglur auðvaldsins, auk þess sem tilhneiging til að leggja undir sig lönd og þjóðir hefur einkennt stjórn Kína lengi.

Kenningar um frið og bræðralag

Kristin trú, gyðingdómur og Íslam, sem merkir „friður”, boða frið og bræðralag – frið á jörðu.  Fimm reglur búddismans að góðu líferni kveða á um, að ekki skuli drepa, ekki stela og ekki ljúga, eins og í öðrum megintrúarbrögðum heimsins.  Engu að síður standa samtök kristinna manna, gyðinga – að ekki sé talað um samtök múslíma – fyrir og ofbeldi og manndrápum víða um heim, þótt alls staðar séu þar minnihlutahópar öfgamanna á ferð.

Sameinuðu þjóðirnar

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.  Markmið með stofnun þeirra var að varðveita frið og öryggi, efla vinsamlega sambúð þjóða byggða á virðingu fyrir jafnrétti og sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og þjóða, koma á samvinnu um lausn alþjóðavandamála og stuðla að virðingu fyrir mannréttindum án tillits til kynþáttar, kyns, tungu eða trúarbragða.

Sameinuðu þjóðirnar ráða ekki sjálfar yfir herliði og þurfa aðildarríkin því að bjóða fram herlið og aðra aðstoð.  Öryggisráðið mælir með aðgerðum til lausnar deilum milli ríkja – eða átökum innan ríkja – og getur ákveðið að senda friðargæslulið á átakasvæði.  Ráðið getur einnig falið ríkjum að beita þvingunaraðgerðum, efnahagslegum refsiaðgerðum eða gripið til sameiginlegra hernaðaraðgerða gegn árásaraðila.

Neitunarvald

Fimm ríki, sigurvegarar í síðari heimsstyrjöldinni, gegndu lykilhlutverki við stofnun Sameinuðu þjóðanna: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Sovétríkin.  Höfundar sáttmála Sameinuðu þjóðanna gerðu ráð fyrir að þessi fimm ríki héldu áfram að tryggja frið í heiminum og fengu þær því fastasæti í Öryggisráðinu.  Auk þess var ákveðið að þau fengju neitunarvald í ráðinu, þannig að ef eitthvert þeirra greiddi atkvæði gegn tillögum um aðgerðir, gæti ráðið ekki samþykkt tillöguna.  Þetta neitunarvald hefur verið gagnrýnt, enda reynst Akkillesarhæll í starfi samtakanna, og í tvo áratugi hefur verið reynt að finna leið til þess að höggva á þennan Gordíonshnút, en lítið hefur gengið, einkum vegna áhrifa frá voldugum vopnasölum heimsins.

Margir telja skipan í Öryggisráðið, valdamestu stofnun Sameinuðu þjóðanna, endurspegli úrelta heimsmynd.  M.a. hafi ríki Evrópu meiri völd en ríki annarra heimsálfa.  Þriðjungur fulltrúa í Öryggisráðinu kemur frá Evrópu, enda þótt ríki þar séu aðeins fimmtungur aðildarríkjanna 193.  Auk fastafulltrúa Kína í ráðinu eru aðeins tveir fulltrúar frá Asíu, kjörnir til tveggja ára.  Ríki Afríku eiga engan fastafulltrúa en þrír fulltrúar þaðan eru kjörnir til tveggja ára. Afríka og Asía eiga því aðeins sex fulltrúa í Öryggisráðinu þótt ríki í þessum heimsálfum séu helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Menning, listir og mannúð

Þrátt fyrir misrétti, manndráp og ofbeldi blómstrar menning og listir um allan heim: myndlist, bókmenntir, leiklist að ógleymdri fjölbreyttri tónlist af ýmsu tagi.  Auk þess vinna mannúðarsamtök og samtök sjálfboðsliða ómetanlegt starf víða um heim.  Þá hefur menntun aukist á öllum sviðum og tækni opnað nýjar leiðir í atvinnulífi, framleiðslu og tómstundum.  Komin er fram tækni sem á eftir að leysa flestan þann vanda sem stafar af hlýnun jarðar, en hitasveiflur á jörðinni eru ekki nýtt fyrirbæri.

Á Íslandi vex upp kynslóð sem er betur menntuð en nokkur fyrri kynslóð á þessu kalda landi, sem var eitt fátækasta land í Evrópu fyrir einni öld en er nú með ríkustu þjóða heims.  Því má segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.  Við lifum því enn á öld öfganna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is