Sunnudagur 7.1.2018 - 13:11 - FB ummæli ()

Söguleg sáttastjórn eða hvað er vinstri hugsun?

 

Myndun ríkisstjórnarinnar hefur kallað fram margs konar hugleiðingar um eðli hennar og tækifæri. Hástemmdustu heilabrotin vitnuðu í nýsköpunarstjórnina sem e.k. sáttastjórn, enda sátu í þeirri stjórn  fulltrúar stjórnmálahreyfinga, sem mestar breytingar vildu gera á íslensku samfélagi ásamt þeim sem ekki vildu gera miklar ef nokkrar breytingar. Sáttin fólst aðallega í því að eyða sameiginlega peningum sem safnast höfðu saman erlendis í stríðinu. Þeir áttu að fara í uppbyggingu atvinnulífsins. Svo rækilega var gengið til verks að ekki liðu mörg ár þar til gjaldeyrisforðinn var uppurinn og  við tók áratuga efnahagslegur vandræðagangur, sem snerist  að miklu leyti um gjaldeyrisskort og „rétta“ skráningu  krónunnar. Rétt skráning var það gengi sem sjávarútvegurinn gat sætt sig við, sem var ekki endilega sama gengi og afkoma almennings þoldi. Skipting þjóðartekna var stærsta átakamálið milli vinstri og hægri. Þá gerðu  vinstri menn sér enn grein fyrir því að krónan var valdatæki ráðandi stétta, sem með gengisfellingu  flytur tekjur frá almenningi til atvinnuvega. Megin ágreiningurinn var þó um utanríkismál, sem leiddu síðar til stjórnarrofs. Þegar nú er sagt að mestu andstæður íslenskra stjórnmála  hafi náð saman um nýja stjórn, er rétt að staldra við. Er það svo ? Ekki fer ætíð saman sjálfsmynd og veruleiki. Er ekki eitthvað bogið við þessa skörpu aðgreiningu milli vinstri og hægri ?

Sameiginleg meginstefna

Það fór ekki fram hjá þeim  sem fylgdust með kosningabaráttunni  að allir flokkar voru með keimlíkar áherslu á sviði velferðar-,heilbrigðis- og menntamála. Því liggur nokkuð ljóst fyrir að þar verður enginn óleysanlegur ágreiningur. Fé til samneyslu skyldi auka. Mestur ágreiningur var um  hvernig afla ætti fjár til að borga brúsann.  Slík minni háttar mál leysast. Þetta hefðu einu sinni þótt tíðindi. Hefðbundin hægri stefna hefur átt í vök að verjast í álfunnu. Viðhorf almennings, og þar með flokkanna, hefur þróast í átt til kratískra sjónarmiða. Fátækt, sjúkdómar, fáfræði og ólæsi eru á undanhaldi í heiminum. Kratar um allan heim lögðu metnað sinn í að vinna bug á fyrrnefndum samfélagsmeinum. Árangurinn er sýnilegur.Stjórnmál í álfunni hafa, hvað þetta snertir, færst til vinstri. Réttindi einstaklinga eru lögfest og tryggð, því þó  misbrestir séu á framkvæmd þeirra , þá eru þau ekki lengur dregin í efa. Margt óbeitið eins og kynferðisleg valdbeiting og margháttuð kynþátta- og þjóðernishyggja eru þó enn sprelllifandi á meðal okkar. Vestræn þjóðfélög eru þó flest  það þroskuð, að sjaldan er lengur gripið til nakins, óbeislaðs valds til að kúga einstaklinga eða hópa til undirgefni.  Það sem eftir lifir af einbeittri hægri stefnu er þessi  eitraðra þjóðernishyggja, sem nú ríður yfir og brýtur niður samstöðu og samvinnu þjóða. Einnig markast viðskipti og fjármál enn af frjálshyggju. Margs konar markaðsátrúnaður og fortakslítil einkavæðing með ójöfnuð sem eðlilega, sjálfsagða og jafnvel æskilega afleiðingu eru enn efst á dagskrá.

Hvað er að vera til vinstri ?

Með því að sú  staðreynd að vinstri hugmyndafræði sé orðin óaðskiljanlegur hluti af pólitískum hugmyndaheimi vesturlandabúa, þá vatnast út umtalverður munur hefðbundinnar hægri og vinstri stefnu. Því hlýtur það að vera rökrétt að velta því fyrir sér, hvað það tákni nú til dags að vera til vinstri. Fyrrum var það að taka ætíð afstöðu með okkar minnsta bróður. Það nær ekki að fanga fjölbreytileika  kratasamfélags nútímans. Kannski  megi skilgreina vinstri hyggju sem næmi fyrir breytingarkrafti sögulegrar þróunar. Hafa sannfæringu fyrir því að hægt sé að bæta ásigkomulag þjóða og þar með mankyns með því að hafa að leiðarljósi nokkur skilyrðislaus meginstef. Við höfum þekkt þau lengi. Þau eru frelsi, jafnrétti og bræðralag auk ný tilkominnar náttúru- og loftlagsverndar. Vinstri hyggja er ástríðufull hugarsýn sem metur framfarir  á mælikvarða þessara meginstefa, í gagnrýninni, skynsamlegri rökhugsun.  Vinstri hyggja ver réttarríkið, félagslegt markaðskerfi og þingbundið lýðræði. Án þessara stofnana eru frelsi, jafnrétti og mannréttindi í bráðri hættu. Sá sem vill veikja eða leggja fyrrnefndar stofnanir af, er ekki vinstri maður. Hægri flokkar víða um heim gera nú atlögu að sjálfstæði dómstóla. Við finnum einnig óþef af því hér heima. Stöðug gagnrýnin sýn og kröfur um umbætur á samfélagskerfinu, sem standast fyrrnefnd megin viðmið eru dæmi um vinstrihyggju. Það er ekki vinstri stefna að neita  að jafna  kosningarrétt eða víkja sér undan því að beita rökhyggju á samfélagsleg vandkvæði eða skekkjur. Alþjóðahyggja jafnaðarmanna, sem hefur frelsi, jafnrétti og bræðralag að leiðarljósi, er dæmi um vinstri bræðralagshugsun sem markvisst er reynt að brjóta niður með sérhyggju þjóðernisrembings. Bræðralag er samstaða – solidarítet. Því er þjóðernisstefna ekki vinstri hyggja.

Hvar er umbótahugsunin ?

Í hverju er þá tímamótasátt þessarar ríkisstjórnar fólgin ?  Áþreifanlegustu ósættin innan stjórnarinnar eru annars vegar NATO, sem hljómar hjá VG eins og hver önnur síbylja, sem engum eyrum nær. Hins vegar eru það einkavæðing, umhverfis- og loftslagsmál. Þrátt fyrir stórslys á Bakka og afskiptaleysi af ofbeit, er VG ljósárum á undan hinum stjórnarflokkunum í umhverfismálum. Þar eru andstæðurnar skarpastar. Ef VG tekst að sætta Framsókn og Sjálfstæðisflokk við núverandi stefnu sína í þessum málaflokki, þá eru það vissulega þakkarverð vatnaskil. Því miður er hægri slagsíða á VG í flestu því sem snertir breytingar á kerfislægum skekkjum þjóðfélagsins. Það er ekki vinstri hugsun að halda landbúnaði í heljargreipum sem engum gagnast. Það ber ekki vott um vinstri hyggju að tryggja yfirstéttinni  kverkartök á afkomu  vinnandi fólks með því að ríghalda í öflugasta valdatæki hennar, íslensku krónuna. Það er ekki vinstri hyggja að viðhalda sádíarabísku fyrirkomulagi á auðlindaarðinum. Það er ekki vinstri hyggja að berjast gegn ESB eins og nýjum alþjóðlegum óvini. Ekkert er eins fjarri því að teljast til vinstri eins og að vilja viðhalda óbreyttri samfélasgerð.  Innan ríkisstjórnarinnar virðist traust samstaða um að ekki sé þörf á kerfisbótum á samfélaginu. Þar er því ekki um mikinn ágreining að ræða. Frans páfi sagði,að  það væri álíka auðvelt að koma á endurbótum í Róm (Vatíkaninu) eins og að hreinsa egypska Sphinxinn með tannbursta. Skyldi það eiga við  fleiri ríki en Vatíkanið ?

Birtist í Fbl. 4.jan.s.l.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.1.2018 - 19:53 - FB ummæli ()

Eftirlit á brauðfótum

 

 

Á upphafsárum nýfrjálshyggjunnar  reið alda fordæmingar á opinberu eftirliti yfir land og lýð. Í stað eftirlitsstofnunar var starfsemin uppnefnd eftirlitsiðnaður, sem átti að gefa í skyn að það sem þarna færi fram, væri  atvinnustarfsemi, en ekki opinber þjónusta. Starfsemin var talin allt of dýr, fánýt og væri verkefni einkaaðila. Þjónustan sögð þvælast  fyrir skjóthyggjumönnum  sem þurftu að hafa hraðan á. Stofnanir sem höfðu það hlutverk að verja borgarana og veita aðhald voru gerðar að óvinum  atvinnulífsins, sem sóuðu skattpeningum almennings. Um þær lék neikvætt umtal; þær áttu í vök að verjast. Þeir sem voru á öndverðum meiði og töldu  eftirlit nauðsynlegt til að styrkja heilbrigða  viðskiptahætti og vernda  almenning gegn misgjörðum, urðu úti í því gjörningaveðri sem svokölluð stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins stóð fyrir. Tíminn leið. Að stjórnartaumum komu ríkisstjórnir sem voru brennimerktar nýfrjálshyggju, sem gefa vildu  flest viðskiptasvið  og  margar mannlegar athafnir markaðinum á vald. Aðeins alfrjáls og óheftur markaður væri hin sanna árangursviðmiðun samfélagsins. Hann myndi leiða frelsi og farsæld yfir mannfólkið. Við tók hömlulaus markaðsátrúnaður,  altekinn skjótgróðahyggju. Þetta urðu  grunngildi íslensks samfélags. Án þeirra ekkert algert hrun. Síðan hafa fyrrnefnd gildi að vísu bliknað, en eru þó enn fyrirferðamiki.

Löggildingarstofan aflögð

Ekki skorti að okkur hafði verið talin trú um að eftirlit væri haft með umsvifum fjármálastofnana áratuginn fyrir hrun. Fylgst væri glöggt með framferði þeirra. Við þyrftum ekkert að óttast. Fjármálaeftirlitið væri á verði. Þegar við kaupum eldsneyti á bílana okkar eða matvæli eftir vog, þá  treystum við því að mælar bensínstöðvanna séu réttir svo og vogir verslananna. Til að fylgjast með að svo væri  var Löggildingastofan sett á stofn. Það fyrirkomulag var síðar ekki talið henta vinnubrögðum  frjáls  markaðaðar. Verkefnum stofunnar gætu einkaaðilar sinnt. Þeir sem selja vöru skyldu sjálfir sjá til þess að mælarnir væru í lagi. Löggildingastofan var því lögð niður. Nú eru „mælaeftirlitsmenn“ trúnaðar- og starfsmenn olíufélaganna ! Ekki alls fyrir löngu vöktu fjölmiðlar  athygli okkar á meðferð fiðurfugla og svína. Sýndar voru heldur óskemmtilegar myndir af vannærðum, grind horuðum og illa útlítandi dýrum sem virtust pínd áfram til að „framleiða“ matvæli ofan í okkur. Þegar Matvælaeftirlitsstofnunin var spurð álits virtist hún koma af fjöllum. Stofnunin  hafði, því miður, ekki fylgst með þessu. Þar á bæ hörmuðu menn atvikið og lofuðu bót og betrun.Þessi stofnun var og er undirstofnun landbúnaðarráðuneytisins, sem er hagsmunagæslustofnun framleiðenda landbúnaðavara. Það gefur auga leið að slík stofnun er ekki að hnýsast ofaní „innri mál“ framleiðenda. Þegar verið var að festa núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í sessi var það talið  eitt af úrslita atriðum að landaður afli yrð alls staðar viktaður með sama hætti, væri það ekki gert yrðu aflatölur óvissar og ekki samanburðarhæfar. Fiskistofu var falið að sjá til þess að svo yrði. Nú kemur í ljós að ekkert eftirlit er með því hvernig útgerðarmnenn haga viktun. Stofnunin virðist hafa fengið á sig brotsjó og glatað starfshæfni sinni, þökk sé fruntalegri aðför ráðherra að henni. útgerðarmönnum  virðist í sjálfsvald sett, hvaða aflatölur þeir gefa upp. Eftirlitið er ónýtt.

Mældu rétt, strákur !

Mýmörgum dæmum mætti bæta hér við, sem sýna hryggðarmynd opinberrar eftirlitsstarfsemi  hérlendis. Því miður hefur þetta ekki gerst óvart, heldur er þetta hluti af þeirri pólitísku hugmyndafræði, sem telur eftirlit skaðlegt.  Í löndum með þroskað viðskiptasiðferði skiptir viðurkennt eftirlit miklu máli, því mikið er í húfi fyrir atvinnulífið. Ef ekkert er að marka hve  mikill afli kemur upp úr sjónum, þá er sjálft fisveiðstjórnkerfið í hættu. Ef við glötum yfirsýn yfir aflamagnið þá vitum við ekkert um sjálfbærni kerfisins. Sjálftaka gæti orðið ríkjandi. Af fenginni reynslu er ekki líklegt að mikið traust ríki í garð slíks  fyrirkomulags. Sömu sögu má segja um önnur þau svið sem skipta almenning máli að aðhald sé virkt. Við viljum að lög og reglur séu virtar. Höfum komið á fót margs konar stofnunum til að fylgjast með að farið sé eftir þeim. Þegar þessar stofnanir bregðast í ríkum mæli þá er voðinn vís. Gagnvart slíkum kerfisbresti er almenningur varnarlítill.

Upphaflega birt í Fbl. 30.11.2017

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.8.2017 - 18:50 - FB ummæli ()

Enn um spesíur Júdasar

Það er þakkar- og lofsvert þegar forystufólk sveitarstjórna eða aðrir ráðamenn taka þátt í opinni umræðu um samfélagsleg álitamál.  Sú umræða getur vissulega stundum lent á villigötum. Bæði er það svo, að skoðanir okkar á álitamálum eiga það til að mótast af ólíkum hagsmunum eða áhugamálum, hins vegar ganga menn út frá ólíkum forsendum. Grein Péturs G. Markan, sveitarstjóra og formanns Fjórðungasambands Vestfirðinga ( Fréttabl. 3.7. s.l.) var gott innlegg í  samræður um umdeilt mál. Pétur tekur til umfjöllunar grein eftir mig (Fréttabl. 19.6.s.l.) sem fjallaði að meginmáli um niðurstöðu loftslagsskýrslu hagfræðistofnunar HÍ. Samtímis birtust  greinargerðir heimssamtaka um afleitt ástand jarðarinnar bæði hvað varðar búsvæði villtra dýra sem og útblástur gróðurhúsalofttegunda. Ákvörðun bandaríkjaforseta um að ganga útúr Parísarsamkomulaginu bættist við. Kveikja greinar minnar voru  þó viljayfirlýsingar sem komu  frá framkvæmdaaðilum laxasjóeldis víðs vegar um land. Þar voru tíunduð áform um stóraukið laxeldi í fjörðum þriggja landsfjórðunga. Nú átti að kýla á það, eins og okkur Íslendingum er einum lagið.

Er skortur á matvælum ?

Við skulum staldra við. Vantar  okkur eða heiminn meira af matvælum ? Á tíundu hverri sekúndu deyr barn úr hungri, þrátt fyrir að næg matvæli séu í heiminum til að fæða milli 10 og 12 milljarða jarðarbúa,  en þar búa nú um 7,5 mrð. manns. 800 millj. lifa við örbyrgð, þótt óhemju fjármagn  fari á milli fjármálakerfa í leit að arðbærri fjárfestingu;  ekki til að seðja hungur. Með þetta í huga ákveða  dugnaðarmenn í Noregi og Íslandi að stíga stórt skref  og auka framleiðslu á eldislaxi um verulegt  magn. Íslenskir sauðfjárbændur ætla á sama tíma að senda frosið lambakjöt alla leið til Kína. Skyldi þetta hvort tveggja draga úr kolefnisspori okkar ? Öll framleiðsla  og allir flutningar menga ; auka á það sem fyrir er. Þar er laxeldið engin undantekning. Deila má þar um magntölur ekki eðli. Vonandi tekst í framtíðinni að bæta tækni og aga umgengni og draga þar með úr umhverfisslysum.  Það eykur vissulega  mengun og hitastig jarðar að auka framleiðslu á matvælum, sem þar að auki er nóg til af, bæði hérlendis og í heimunum. Þar erum við þjóða kappsömust .

Vísindaniðurstöður hundsaðar

Meðhöndlun ráðamanna á vísindalegum niðurstöðum, þegar að auðlindahagsmunum kemur, er undantekningarlítið svarað með þögn. Orri heitinn Vigfússon sagði mér margar sögur af vinnu sinni til verndar villtum laxastofnum í N-Atlantshafi . Ég las bréf hans til stjórnmálamanna víðvegar á norðurhveli sem og á Íslandi. Þótt stórmerkt starf hans hafi í upphafi snúist um uppkaup á laxanetalögnum í sjó, færðist barátta hans yfir á verndun villtra laxa og silunga.Þar voru virkjanaáform í neðri Þjórsá og hröð uppbygging laxeldis í sjókvíum mesta ógnunin. Orri var afar vandur að vinnu sinni. Hann studdi málflutning sinn með margrýndum niðurstöðum heimsþekktra vísindamanna, þar sem því var við komið, eða með reynslu af öðrum svæðum, þar sem það átti við.Niðurstaða hans í samtali við mig var dapurleg.Hann sagði það virtist litlu máli skipta hve vandaðar skýrslur væru unnar og sendar, og þar væru íslenskir ráðamenn engin undantekning, lítið mark væri tekið á þeim, væru þær yfirhöfuð lesnar. Hugarfarið gagnvart auðlindum landsins væri einsleitt. Iðnaðarnýting nánast hvað sem það kostaði.

Sjálfbær auðlindastjórnun

Á einu sviði auðlindanýtingar höfum við  brotið blað. Fiskveiðistjórnunarkerfið, með sínum göllum, tryggir arðbæra og um leið sjálfbæra nýtingu fiskimiðanna. Viðbrögð og athafnir vestfirskra útgerðarmanna  á sínum tíma við nýju kerfi voru skelfileg fyrir fjórðunginn. Aðalatriðið virtist vera að brjóta þetta nýja kerfi niður, hvað sem það kostaði. Jafnvel viðbótar úthlutun aflamarks gat ekki komið vitinu fyrir þá. Afleiðingarnar eru augljósar. Fjórðungurinn braut  sjálfan sig niður. Nú á að treysta á laxeldi. Pétur fullyrðir að það sé umhverfisvænt. Upplýsingar mínar segja aðra sögu. Úrgangurinn úr kvíunum fer eða síast út í hafið – hvert ætti hann annað að fara ?  Þá er það á allra vitorði að leyfisveitingar þar til bærra opinberra stofnana byggjast oft meir á velvilja stjórnenda stofnanana til væntanlegrar starfsemi en á hlutlægu, gagnrýnu umhverfismati. Því miður. Það gildir ekki bara um laxeldi. Ætla Vestfirðingar að leika aftur sama leikinn nú og í árdaga kvótakerfisins, með öðrum formerkjum ?

Niðurgreidd náttúruspjöll og mengun

Allt fram á síðustu ár hefur þjóðin einnig verið fullvissuð um að virkjanir spilltu lítið og stóriðjan mengaði ekki. Reynslan hefur kennt okkur annað.Stóriðjan skyuldi færa okkur björg í bú. Landsvirkjun hefur til skamms tíma verið með bágborna eiginfjárstöðu eftir sextíu ára orkusölu til stóriðju. Stóriðjufyrirtækin sjálf skilja lítið annað eftir en laun þeirra sem þar vinna. Já, ég fullyrti að líkt væri á komið með laxeldið. Hinn raunverulegi virðisauki sem myndast á seinni vinnslustigum yrði eftir erlendis. Þar að auki hefur  stóriðja notið mikillar opinberrar fyrirgreiðslu í aðstöðu og niðurgreiðslu bæði í orkuverði og sköttum. Því er haldið dyggilega áfram á Húsavík.  Allt þetta laxeldisbrambolt er réttlætt með atvinnusköpun. Í landinu er þó meira en næg atvinna. Ný (óþarfa) atvinnusköpun verður þó fyrir miklum hnekki ef fórnarkostnaðurinn er meiri en ávinningurinn. Við sem af veikum mætti erum að benda  á að verjast þurfi  frekari átroðslu á náttúruna, lítum svo á að hún megi ekki við frekari ágengni. Við megum ekki með neinu móti halda starfi Geirmundar heljarskinns áfram. Jörðin og landið okkar  eru komin að eigin þolmörkum. Það var inngangurinn að grein minni og inntak um leið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.8.2017 - 18:38 - FB ummæli ()

Júdasar í jökulfjörðum

Þröstur Ólafsson

 

„Sonur sæll, þú veist ekki af hve litlu viti einni þjóð er stjórnað“, á Axel Oxenstierna, ríkiskanslari Svíþjóðar undir Gústav Waasa að hafa sagt. Verandi sjálfur annar valdamesti maður ríkisins um átatuga skeið, getur hann varla hafa haft alla aðra en sjálfan sig í huga. Mig rámaði í þessi orð við birtingu loftlagsskýrslu Hagfræðideildar Háskólans.Í kjölfar skýrslunnar birtust fréttir um stórtæk laxeldisáform bæði fyrir vestan og austan.  Hugurinn reikaði um frækilegan afrekalista okkar í umhverfis-, loftlags- og auðlindamálum: ríkisstyrkta offramleiðslu lambakjöts, með tilheyrandi gróðureyðingu; náttúruspillandi uppistöðulóna fyrir orkuver sem framlmagn til mengandi stóriðju, sem sárlítinn virðisauka skilur eftir hérlendis; auk hamslausrar framræslu mýra. Þá hefur getuleysi ráðamanna undanfarinna ára til að ná tökum á átroðningi ferðafólks verið aumkunarvert. Upptalningin er ekki tæmandi. Umhverfismál okkar Íslendinga fá  niðurlægjandi falleinkunn í skýrslunni, sama á hvaða mælikvarða er vegið. Við gerum sáralítið til að koma í veg fyrir fjölmengandi starfsemi á láði, í legi og í lofti. Þvert á móti. Framsýnt vit ráðamanna þjóðarinnar hefur lengi virst af skornum skammti. Náttúrvernd og loftslagsmál eru örlagamál heimsbyggðarinnar.

Hagsmunabundin stjórnsýsla

Eitt að því sem ríkisstjórn Jóhönnu  gerði og miðaði að því að ná víðtækari framtíðarsýn og sterkari stjórnsýslu var að sameina örsmá, vanmegnug  hagsmunatengd ráðuneyti í stærri heildir. Fyrsta verk ríkisstjórnar B+D-flokkanna var hins vegar að færa það að hluta til baka og veikja þar með  stjórnsýslu ríkisins. Nú heldur ný ríkisstjórn þessu skemmdarstarfi áfram og endurreisir  gamla úrelta dómsmálaráðuneytið. Vakin er athygli á þessu, því ein að ástæðum skelfilegs ástands í umhverfis- og loftlagsmálum okkar er vanburða stjórnsýsla samfara pólitísku áhugaleysi. Um þverbak keyrði þegar Sigurður Ingi, í upphafi ráðherradóms síns,ógilti  nokkrar mikilvægar ráðstafanir í umhverfis- og náttúruverndarmálum sem búið var að ná samkomulagi um. Þetta gerði hann í nafni síns græna flokks. Það sagði allt um þau örlög sem biðu umhverfismálanna í þáverandi ríkisstjórn. Það sem eftir lifði stjórnartíma hennar lagðist alger sljóleiki og drómi yfir og um þennan málaflokk. Með nýjum ráðherra berast nú ferskir og uppörfandi vindar úr umhverfisráðuneytinu. Óvissa er þó, um styrk  ráðherrans til að ná fram umdeildum en brýnum málum;  starfsgetu þessa litla ráðuneytis og um metnað ríkisstjórnarinnar, þegar á hólminn er komið.

Vits er þörf

Mér brá ekki sérlega þegar virtur, fyrrverandi forseti  alþingis tók að sér formennsku í hagsmunasamtökum sem miða að því að fylla sem flesta firði landsins  mengandi laxeldi. Það er eðlilegt starfsframhald þeirra þingmanna, sem líta á hagsmunagæslu fyrir sérhópa sem megin tilganginn með þingsetu sinni.Það er öfugsnúið að þingmenn skuli eyða meiri tíma í að finna leiðir til að arðræna auðlindir þjóðarinnar en vernda þær og varðveita. Ég neita  því þó ekki, að ég bjóst við meiri metnaði. Ég hafði líka vænst þess að við lærðum af mistökum  Norðmanna, en létum þá ekki ginna okkur enn einu sinni á foraðið. Dugði ekki að Norðmenn nánast útrýmdu hvölum við Íslandsstrendur og gengu af síldinni dauðri. Er nú komið að því að spilla hreinleika íslenskra fjarða ? Það vita allir sem vilja, að sáralítill virðisauki verður eftir hérlendis af þessari starfsemi en bæði útgjöld og langvarandi mengun. Við eigum Íslendingar mikla náttúruperlu sem við nefnum Friðland á Hornströndum. Þessi hluti landsins hefur verið friðaður um áratuga skeið. Land, vatn og sjór eru þar hrein og ómenguð. Frárennsli frá byggð er hverfandi og engin  véknúin umferð. Nú skal bundinn hér endir á. Framkvæmdastjóri eins laxeldisfyrirtækisins tjáði sig í blaðaviðtali um hve ákjósanlegt væri að hefja laxeldi í Jökulfjörðum. Mig hryllti við. Gefa ágengni og fégræðgi engin grið ? Er hamsleysi okkar gagnvart náttúru landsins óstöðvandi ? Nú reynir á vilja og metnað ráðamanna. Ætla alþingi og ríkisstjórn að sitja aðgerðarlaus hjá eða koma í veg fyrir ósómann ? Vonandi tilheyrir það fortíðinni að þjóðinni  sé stjórnað af litlu og skammsýnu viti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.5.2017 - 21:51 - FB ummæli ()

Krónan, ferðmenn og dýrtíðin

 

Fyrir fáum dögum birtist frétt sem greindi frá því að þýskar ferðaskrifstofur hefðu afturkallað pantanir í  orlofsferðir hingað til lands. Uppgefin ástæða var hve dýrt væri að dvelja hélendis eftir að gengi krónunnar styrktist. Það kemur engum á óvart sem hér býr. Ísland er ekki bara „stórasta land í heimi“ , heldur eitt það dýrasta. Framfærslukostnaður hér er  hár, ekki bara fyrir útlendinga,heldur einnig fyrir venjulegt fólk, sem lifa þarf af þokkalegum launum.Um vanda þess er minna talað, en meira um erlenda ferðamenn sem hætta við ferðir hingað. Það ætti að vera megin markmið íslenskra stjórnmála að vinna almenningi það gagn, að  hann geti framfleytt fjölskyldu sinni skammlaust. Eitt af því er að búa við sterka og stöðuga krónu. Þannig verður framfærsla íslensks almennings léttari. Á meðan íslenskir framleiðendur og seljendur vöru og þjónustu lækka ekki verð sitt vegna styrkingu krónunnar, þá verður fylgifiskurinn sá, að það verður dýrara fyrir erlendra ferðamanna að dvelja hér. Því miður höfum við séð það gagnstæða; verð á innlendri þjónustu til erlendra ferðamanna hefur hækkað samfara styrkingu krónunnar, svo ekki sé minnst á þá fádæma ósvífni að bjóða tvöfalt verð, annars vegar til Íslendinga  hins vegar til útlendinga. Þeir alþingismenn sem biðja um veikari krónu og óbreyttan vask, ættu þess í stað að einbeita sér að því að knýja á um að þjónustuaðilar – líka á landsbyggðiunni – lækki  verð sitt.

Aðhald af sterkum gjaldmiðli

Þótt myndarlegur fjöldi erlendra ferðamanna sé keppikefli, og hafi reist efnahag landsins við, er staðreyndin samt sú að skyndileg innkoma þeirra í íslenskt atvinnulíf hefur valdið ójafnvægi. Þar sem of margir frambjóðendur  vöru og þjónustu hafa nýtt sér sterklega aukna eftirspurn til verðhækkana, hefur það einnig bitnað á íslenskum almenningi. Íslenskir stjórnmálamenn eru einkar lagnir við að leysa afmörkuð verkefni, en eru klaufar þegar stóra samhengið blasir við. Þá kikna margir þeirra undan sérhagsmunum hjá atkvæðisþungum kjósendum. Í umræðum um þessi mál heyrast stundum þau rök frá aðilum í ferðaþjónustu að launahækkanir hafi  neytt þá til að hækka verðið.Sterkt gengi veitir þá holt aðhald, léttir á umfram eftirspurn og neyðir til hagræðingar. Þótt sá sem þetta ritar telji óraunhæft og skaðlegt fyrir íslenskt efnahagslíf og almenning að búa til lengdar við örmyntina íslensku krónuna, þá blasir sú staðreynd við, að ekki er í bráð pólitískur vilji til að gera þar á neinar breytingar.Krónan mun sveiflast og ekki endilega alltaf í takt við almannaheill. Sterkur gjaldmiðill er besta ráðið gegn óarðbærum  fyrirtækjum og greinum, sem ekki geta borgað lífvænleg laun.Hann er sá agi sem dugar, nema enn verði gripið til einhvers konar niðurgreiðslna. Þar skarar landbúnaðurinn fram úr öðrum óarðbærum atvinnugreinum. Það innra ójafnvægi sem hann skapar, veikir grunn krónunnar til að gagnast sem alvöru gjaldmiðill. Örmyntir þurfa heilsteyptan bakgrunn.

Tekjuþörf ríkissjóð

Mishár virðisaukaskattur og undanþágur hafa löngum viðgengist. Landbúnaðarvörur,sum menningarstarfsemi og ferðaþjónustan hafa notið slíkra vildarkjara frá skattlögum. Ferðþjónstan er orðin stærsti atvinnuvegur landsins. Fátt bendir til annars en áframhaldandi velgengni þar  á bæ og því óþarfi að óttast  mikla fækkun fyrirtækja. Það er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að niðurgreiða þess starfsemi lengur. Þegar þar við bætist að tekjuþröng ríkissjóðs er öllum ljós og þörfin á auknum  framlögum um allt samneyslukerfið er æpandi.  Náttúruperlurnar,mjólkurkýr ferðamennskunnar drabbast niður. Stærsta  atvinnugrein landsmanna má ekki skorast undan. Hærri ríkistekna er þörf.Í morgunbænakveri flestra hægri flokka stendur að opinberi geirinn megi ekki vera stór. Gott og vel. Fræðilegar athuganir sýna þó, að  það er ekki endilega stærð opinbera geirans  í hagkerfinu sem er vandamál, heldur opinber skuldasöfnun og langvarandi halli á ríkissjóði. Mörg þeirra ríkja sem hvað hæst  hafa hlutfall opinberrar þjónustu eru jafnframt þau efnahagslega öflugustu. Við byggjum aldrei upp sterkt og réttsýnt samfélag nema því fylgi öflugt,  samkeppnishæft atvinnu- og menningarlíf og myndarleg  samneysla með sterkan, stöðugan gjaldmiðil.

Birtist í Fréttabl. 19. maí s.l.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.5.2017 - 20:08 - FB ummæli ()

Nú er vonandi lag

 

Mikið er fárast yfir ákvörðun HB Granda um að sameina bolfiskvinnslu fyrirtækisins í Reykjavík. Stór orð falla um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og frjálsu framsali kennt oftast kennt um. Á árunum 1984-1986, þegar aflamarkskerfið var í smíðum tók sá, sem þessar línur ritar þátt í vinnu nefndar sem m.a. ræddi og gerði tillögu um hvar binda ætti aflamarksheimildir. Mikill meirihluti  nefndarmanna var þeirrar skoðunar að festa ætti þær alfarið við skip. Ég lagði til að skipta ætti  þeim upp,bæði milli skipa og fiskvinnslustöðva, hvort tveggja í samræmi við afla- eða  vinnslureynslu síðustu ára. Þótt megin tilgangur kerfisins væri að draga úr sókn þurfti jafnframt að hanna fiskveiðikerfi sem ýtti undir afkomubata í greininni. Öllum átti að vera ljóst að hagræðing þýddi fækkun skipa og samþjöppun aflaheimilda. Enginn sem umfjallaði og horfði á málið með opnum augum gat blekkt sig bak við vanþekkingu. Ljóst var að kerfið myndi leiða til fækkunar útgerða og aflaheimildir myndu flytjast milli útgerðstaða og landshluta. Tillaga mín hefði eflaust dregið eitthvað úr hagræðingarferlinu og viðspyrna fiskvinnslustaða víðs vegar um land orðið raunhæfari. Þessir staðir hefðu fengið mikilvægt vopn í hendur. Lögin voru síðan samþykkt án nokkurrar tilvísunar til kvótabindingar í landi. Ítrasta hagræðingakrafa réð ferð. Það var vissuleg mikilvægt sjónarmið.

Samþjöppun aflaheimilda

Þessum umbyltingarþætti fiskveiðistjórnunarkerfisins er enn ekki lokið, heldur ekki samþjöppun aflaheimilda.Þetta á því ekki að koma stjórnmálamönnum í opna skjöldu. Samþjöppun vinnslu og veiða er kjarninn í fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þeir sem reka upp ramakvein nú, hafa ekki skilið kerfið. Það breytir því ekki að þessar tilfærslur koma ætíð afar ill niður á þeim sem fyrir þeim verða. Þau eru varnarlaus. Þau hafa engin vopn nem ályktanir og yfirlýsingar, eins áhrifaríkar og þær eru, þegar rekstrarhagsmunir eru annars vegar. Mannanna lögum  geta menn þó alltaf breytt. Komin er ágæt reynsla á kerfið. Það hefur virkað eins og því var ætlað.Þegar það var sett á,voru ástæður þær að mikilvægir fiskistofnar voru að hruni komnir. Afkoma útgerða var slæm. Heildar skuldir þeirra voru á þessum árum vel yfir 200 m.kr. Án samþjöppunar aflaheimilda hefðu þær flestar orðið gjaldþrota. Vegna mikilvægi sjávarútvegs í afkomu þjóðarinnar skipti það öllu að um leið og heildaraflamark var lækkað um nokkur hundruð þúsund tonn, varð að hanna kerfi sem sneri þessu við, og það hratt. Einbeitingin á hagræði var því skiljanleg – já, nauðsynleg.

Umbylting veiða og vinnslu

Fiskveiðstjórnunarkerfið hefur umbylt  veiðum og vinnslu sjávarafurða. Útgerðarfyrirtækin eru orðið afar stöndug og greiða eigendum sínum myndarlegan arð. Þau ráða yfir gjöfulum aflaheimildum hér heima og ráðskast jafnvel með fiskveiðiheimildir út um heim. Þau standa nú fjárhagslega styrkari fótum en sams konar evrópsk fyrirtæki. Þótt margir útgerðmenn hafa leitt fyrirtæki sín farsællega gegnum þessi ár, þá er það ekki rekstrarsnilld útgerðamanna, sem mestu máli hefur skipt. Það er hafið yfir allan vafa að fiskveiðistjórnunarkerfið eigi þar lang stærsta hluta að máli.  Sjávarútvegurinn dvelur ekki lengur á bráðamóttöku .Fiskurinn  í sjónum kring um landið er í eigu íslensku þjóðarinnar. Ekkert er eðlilegra en að þjóðin fái alvöru gjald fyrir að heimila að miðin séu nýtt. Allir borga fyrir að fá að nýta annarra eign og það án beintengingar við afkomu. Fólk þarf að borga húsleigu þótt afkoman þess sé bágborin. Laxveiðileyfið verður að borga, þótt ekkert veiðist. Þetta er megin regla. Þegar svonefnd tvíhöfðanefnd var að störfum 1992/3 voru bæði fyrrnefnd atriði , auðlindagjald og lágmarks binding aflaheinmilda við vinnslustaði  sett á dagskrá. Þeim var að lokum báðum ýtt útaf borðinu, því ekki náðist samkomulag  þar um. Þetta eru enn þau tvö atriði sem mest koma í veg fyrir að sátt náist um kerfið. Nú er vonandi lag.

Birtist i Mbl. 18. 5. s.l.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.3.2017 - 14:21 - FB ummæli ()

Ævintýraheimar Styrmis

 

Við erum áhorfendur að tilraun ákveðinna hægri afla til gera grundvallar breytingar á þeirri skipan heimsviðskipta og varnarmála sem hefur verið við lýði í öllum aðalatriðum allt frá miðri síðustu öld. Fyrirkomulag sem fært hefur okkar heimshluta bæði velmegun og frið. Þótt gagnrýna megi frjáls heimsviðskipti og fjölþjóðlega viðskiptasamninga á ýmsa vegu, þá hefur þetta kerfi fært mannkyninu meiri hagvöxt og jafnað hnattræn lífskjör betur en nokkurt annað þekkt viðskiptakerfi. Sú atlaga sem nú er gerð að þessari skipan kemur frá BNA,því ríki sem frá upphafi hefur  verið í fararbroddi og helsta stuðningsríki frjálsra viðskiptahátta. Einnig þannig getur byltingin líka étið börnin sín. Við lestur síðasta pistils Styrmis Gunnarssonar (Umræðan, Mbl.18.mars) er ljóst að hann telur bæði NATO og ESB vera á útleið. Því þurfi Íslendingar að huga að framtíðarskipan bæði varnar- og viðskiptamála. Okkur hefur sannarlega farnast vel bæði í NATO og í EES, sem er megin farvegur samninga okkar við Evrópu. Við ættum því að leggja þeim lið sem vilja halda í og styrkja báðar stofnanirnar. Hann gleymir því hins vegar að án ESB er ekkert  EES. Samningurinn um EES er við ESB, þ.e. Brussel, ekki við Berlín

Framtíð NATO.

Framtíð NATO er vissulega óviss. Þótt Bandaríkin beri  þar höfuð og herðar yfir önnur lönd, þá eiga þau jafn mikið undir hernaðarlegri samstöðu við Evrópuríkin sem öfugt. Án aðstöðu í Evrópu eru BNA sjálf í langtum erfiðari stöðu til að verjast árás úr austri. Lendi Evrópa undir rússneskt áhrifasvæði þrengist mjög fyrir dyrum hjá Bandaríkjamönnum. Þeir þurfa því ekkert síður á NATO að halda. Það er fyrirsláttur eða vanþekking að segja Evrópuþjóðirnar skulda NATO, hvað þá BNA. Gert var samkomulag í Wales 2014 um að þær myndu hækka framlag sitt smám saman í 2% og ná því í síðasta lagi árið 2024. Málflutningur Trumps er því harla ómerkilegur. Sú tortryggni sem þessi málatilbúnaður veldur hefur ýtt undir hugmyndir innan ESB um sameiginlegar varnir. Ef BNA dregur úr skuldbindingum sínum gagnvart  NATO, munu Evrópuþjóðirnar ekki horfa aðgerðarlausar  á vaxandi umsvif og hernaðaruppbyggingu Rússa. Staða okkar Íslendinga á að vera sú að styrkja NATO. Í þessu sambandi var olnbogaskot Styrmis á Valhöll athyglisvert. Ef sameiginlegar tilraunir til þess skila ekki tilætluðum árangri, og trumpistar ná undirtökunum,eigum við aðeins þann kost að tengjast Evrópuríkjunum nánar varnarlega. Ævintýralegar vangaveltur um varnarbandalag með fjórum/fimm smáríkjum við Vestur Atlantshaf,  eru ekki þess virði að hugleiða þær af alvöru.

ESB örend ?

Vandi Styrmis, gömlu flokkanna (B+D) og VG er sá að þeir vilja sjá ESB feigt. Þrátt fyrir EES virðast þeir fyrrnefndu líta á ESB sem pestargemling, sem forðast beri. Þar ná þeir að snerta fingur Trumps. Af skrifum Styrmis virðist hann hafa verið viðstaddur andlát ESB. Hér er hættuleg óskhyggja á ferð. Ekki ósvipuð þeirri og mótaði hugsun margra um endalok Rússlands sem stórveldis, áratuginn eftir hrun Sovétríkjanna. ESB mun ganga í endurnýjun lífdaganna, all mikið breytt en samhuga um meginmál. Þessi fullyrðing  byggir á því að forystumenn Evrópuríkja eiga einskis annars úrkosta , því hagsmunir þjóða þeirra eiga svo mikið undir því, að samningsbundin heildasamstaða og reglur ríki í álfunni, svo ekki sé talað um þá fjármuni sem til þeirra streyma frá Brussel.  Svo notuð sé útslitin taltugga úr herbúðum B+D og VG flokkanna, þá sjá  þjóðirnar hag sínum betur borgið innan ESB en utan. Þjóðverjar munu leggja flest í sölurnar til að halda bandalaginu saman, breyta sumum þáttum þess en dýpka aðra. Berlín verður vissulega valdaleg þungamiðja, en ákvarðanirnar verða að lokum teknar í Brussel.

Heft eða frjáls viðskipti

Endalok fjölþjóðlegra samninga og alþjóðalegra reglna er stefna sem smáþjóðir um allan heim óttast. Þær fyllast geig yfir því að verið sé að taka fyrstu skrefin aftur á bak úr kerfi hnattrænna samninga í formi frjálsra verslunarhátta í átt að  tvíhliða viðskiptasamningum. Í þannig umhverfi  munu allar þjóðir ota sínum tota og takast á, og þeir sterku munu ná bestu kjörum á kostnað þeirra sem ekki ráða við þá. Það þarf ekki nema mjög yfirborðskenda þekkingu á sögu álfunnar síðustu 150 ára til að sjá hvernig slík togstreita verður leyst á endanum. Norð-vestur bandalag Styrmis er álíka loftlaus þakkompa og Steingrímur Sigfússon villtist inní við upphaf ferils síns sem fjármálaráðherra Jóhönnu. Veikasti hlekkurinn í óskhyggju Styrmis sú von hans að ESB líði undir lok. Þar deilir hann ósk sinni með bæði  Trump og Pútín. En ESB mun verða til og eflast. Afar ólíklegt er að fleiri þjóðir yfirgefi  bandalagið.  Við munum að lokum ekki komast hjá því að verða að taka afstöðu til inngöngu í ESB, ef við viljum halda í þau fríðindi sem EES veitir okkur. Það verður hinn raunhæfi valkostur,ekki fimm ríkja ævitýrabandalag Styrmis. Því við munum hvorki  geta né vilja vera viðskiptalega, pólitískt , varnarlega né menningarlega ein á báti.

Birtist í Mbl.22.03.2017

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.3.2017 - 12:33 - FB ummæli ()

Brexit, ESB og Ísland

 

Tvíeykið Bannon/ Trump hefur sagt, að þeir vilji veikja ESB og helst koma því á kné. Í þeirra augum var og er hnattvæðingin forsending,  sem kveða þurfi niður. Framtíðarsýn þeirra á NATO hefur verið keimlík. Með því telja þeir sig geta endurvakið BNA sem einsleitt forysturíki, ekki bara á Vesturlöndum heldur um heim allan. Þeir telja að BNA séu sterkari án bandamanna. Það er skoðun sem taka verður mark á. Ef þeir framfylgja henni, munu  verða miklar breytingar á áhrifa- og valdastöðu ríkja á næstu árum. Fyrir okkur Íslendinga er óvissan ekkert fagnaðarefni, hvorki viðskiptalega né hvað öryggi landsins varðar. Velgengni okkar og uggleysi, hefur og mun áfram, hvíla á nánu samstarfi við norrænar og vestrænar vina- og lýðræðisþjóðir. Því nánari og samtvinnaðri  sem félagsskapur þeirra er, þeim mun betra fyrir okkur, að því tilskyldu að við tökum þátt í því líka. Sérhver einangrun leiðir til stöðnunar á einstaka eða mörgum sviðum. Sundrung og pólitísk spenna milli þjóða í álfunni er þekkt ólyfjan sem of oft hefur leitt til  opinna átaka. Það er okkur síst til framdráttar. Öll sundrung veikir auðlegð þjóða, einnig okkar. Við þurfum samfellu,traust og samstarf.

Er Brexit tækifæri ?

Mér brá því óneitanlega þegar ég heyrði  bæði Lilju  fyrrv. utanríkisráðherra og Guðlaug Þór, þann núverandi segja að Brexit ákvörðunin fæli í sér  fjölmörg tækifæri fyrir Ísland. Sem sagt góð tíðindi. Vonandi var þetta bara innantóm taltugga, gerð til að þóknast harðbalanum í eigin flokkum. Raunskoðun gefur allt aðra niðurstöðu. Eftir útgönguna mun það taki Breta mörg ár að semja um nýja viðskiptasamninga við nánast alla heimsbyggðina. Sjálfir munu þeir þurfa að breyta  yfir 20.000 lögum og reglugerðum í aðdraganda og  í eftirmála útgöngunnar. Halda hinir galvösku utanríkisráðherrar að Ísland verði fyrst í röðinni, þegar kemur að því að semja um nýjan viðskiptasamning ? Hvað gerist eftir að Bretar eru gengnir út og enginn nýr viðskiptasamningur við þá er í gildi ? Bara vinna við einn  fríverslunarsamning með nýjum stöðlum og regluverki tekur langan tíma. Brexit  gengur ekki út á það að auðvelda innflutning, heldur öfugt. Nei, útganga Breta úr sameiginlega markaðnum eru slæmar fréttir fyrir okkur, hvernig sem á það er litið. Þröngsýn og þvermóðskuleg  andúð á ESB er ekki það sem við þurfum á að halda nú.

Álfa deilandi smáríkja ?

Hér heyrast sjónarmið svipuð þeirra  Bannons/Trumps . Sterkir kjarnar bæði innan Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, en einnig í VG, vilja sjá ESB leysast upp í þjóðríki  gömlu Evrópu, þar sem hver og einn otar þeim tota sem hann megnar. Í þess konar heimi  verða þeir sterkustu ofan á.Bæði NATO og ESB eru tilorðin undir keimlíkum sólarmerkjum; til að halda Þjóðverjum niðri en Rússum úti. ESB átti að tryggja litlu þjóðunum sanngjarna viðskiptahætti og þátttöku í framþróun álfunnar, en  hernaðarlegu öryggi frá NATO. Þess vegna þyrptust nýfrjálsu austur evrópsku þjóðirnar allar beint  í faðmlag ESB g NATO. Sú ákvörðun þeirra að ganga í ESB hefur fært þeim ómæld tækifæri, fjárhaglega aðstoð og nýjar vandaðar lagasetningar á fjölmörgum sviðum. ESB er nefnilega ekki bara samstarf um sameiginlegan evrópskan innri markað. Þetta snýst um samstöðu og sameiginlega lausn á málum sem snerta mörg þjóðríki. Við höfum t.d. fengið frá Brussel mörg vönduð lög s.s. á sviði neytendamála, vinnuverndarmála, félagsmála og umhverfismála. Því miður verður að viðurkennast, að flest þau lög sem koma frá alþingi eru hvorki eins vönduð né  eins vel unnin.

 Meginstraumar eða sérleiðir ?

Þeim atvinnugreinum, sem standa  utan áhrifasviðs sameiginlega markaðsins, hefur hnignað, í besta falli staðið í stað. Það á t.d. bæði við um  byggingarstarfsemi og  landbúnað. Sjálfstæð íslensk lög og  reglugerðir um byggingamál  gera byggingar hér mun dýrari, en ef við tækjum upp byggingareglugerðir  frá Norðurlöndum . Af hverju þurfum við sjálfstætt lyfjaeftirlit ? Hér ættu að fást sömu  lyf og t.d. í Danmörku. Við erum að loka okkur frá meginstraumum í nafni sjálfstæðis og fullveldis , hugtök sem þjóðin þarf að endurmeta í  gjörbreyttum heimi. Uppskrúfuð fullveldis ímynd  og sérhagsmunir hindra okkur í að þroska samfélag okkar og auðvelda þeim lífsbaráttuna sem á brattan þurfa að sækja. Þótt umsókn um aðild að ESB sé ekki forgangsmál í svipinn, þá er það okkur mikið hagsmunamál að halda sem bestu sambandi við ESB. Það er váleg blekking að þykjast vera stórveldi sem geti gengið á milli  ávaxtagarða þjóðanna og valið þaðan það ljúffengasta, ekki síst þegar slík óskhyggja kemur  frá fólki, sem situr eða hefur setið í stóli utanríkisráðherra.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.1.2017 - 20:27 - FB ummæli ()

Landbúnaður á villigötum

 

Aldrei fór það svo, að stjórnkerfi  landbúnaðarins megnaði ekki að koma mér á óvart, hélt  þó að sá brunnur væri þurrausinn. Slíkur hefur fjárausturinn verið; svo mögnuð hefur umframframleiðslan orðið;  jafn læstu hefur kerfinu verið haldið og því staurblint á afkomu almennings . Viðskiptaleg einokun og einangrun íslenskrar matvælaframleiðslu er slík að frekar illaþokkuð iðnaðarframleiðsla  á eggjum og kjúklingum er hér seld á uppsprengdu  verði. Öll atvinnustarfsemi þarfnast samkeppni ef hún á að þroskast, einnig landbúnaður, enda ber íslenskur landbúnaður stöðnuninni og ofdekri vitni. Allt þetta hefur verið þekkt og þolað.  Jafnvel sú fáranlega þversögn hefur verið gjaldgeng, að jafn erfitt landbúnaðarland sem Ísland er, sem býður eigin þegnum dýrustu matvæli, geti með hinni hendinni flutt út matvæli á ódýra samkeppnismarkaði. Íslendingum er ekki bara skylt að borða dýrasta matinn, heldur eru þeir skyldaðir til að borga að auki lambakjöt ofan í  velmegandi útlendinga. Það verður ekki annað sagt en þeir  sem þessu stjórna séu örlátir, a.m.k. á annarra fé.

Ósjálfráð meðvirkni

Það sem kom á óvart var ósjálfráð meðvirkni ríkisstjórnarinnar þegar hún, skömmu fyrir jólin, lagði til að auka fé til erlendrar markaðssetningar á landbúnaðarvörum, einkum lambakjöti. Þar á bæ eru menn svo næmir fyrir kenjum og offrekju kerfisins, að  óþarfi er að biðja um viðbótarfé, það kemur af sjálfu sér. Það kannaðist nefnilega enginn við að hafa beðið um þessar 100 m.kr. Markaðsnefndin segist ekki hafa beðið um þetta. Skyldu það hafa verið pólitísku bændahöfðingjarnir á alþingi ? Á meðan forstjóri Landspítalans  talar um neyðarástand ; meðan ekki má manna lögregluna nægilega ; meðan vegakerfið er víða í lamasessi ; meðan heilsugæslan er á horriminni ; meðan hluti aldraðra lifir við sultarkjör – þá er fé ausið í tilgangslausan útflutning á lambakjöti.Einu rökin voru að verð á lambakjöti mætti ekki lækka  hér heima, bara erlendis ! Það er göfug gjafmildi. Þessi pólitísku heljartök sem landbúnaðurinn hefur á löggjafanum eru afkvæmi tærandi dreifbýlishyggju og misvægis atkvæða, sem er smánarblettur á íslensku lýðræði. Þó ný ríkisstjórn  kæmi engu öðru í verk en jafna atkvæðavægið, þá væri það umtalverður áfangi. Jöfnun gildi atkvæða er grundvallar réttlætismál og jafnframt forsenda þess, að skynsemin (brjóstvitið) öðlist eðlilegan sess við úrlausn mála á alþingi.

Óráðsía offramleiðslunnar

Svo er það þessi hvimleiða regla um framboð og eftirspurn. Ríkisstýrð hagkerfi eða framleiðslugreinar hafa tilhneigingu til að líta fram hjá henni. Hún bankar þó uppá að lokum.  Hér halda menn áfram offramleiðslu og hvetja til aukningar með þá glapræðis  tálsýn að leiðarljósi, að nú fari erlendir markaðir að opnast. Hvað skyldi vera búið að eyða mörgum milljörðum í sjálfsblekkjandi markaðsaðgerðir vestan hafs s.l. hálfa öld ? Það brást. Nú er einblínt á Kína, því ekki má undir neinum kringumstæðum draga úr framleiðslunni. Hér heima er öllum ráðum beitt  til að þrengja svo kosti íslenskra neytenda að framhjá lambakjötinu sé torleiði. Hvað skyldi ráða því að bændaforystan hafi valið þráláta offramleiðslu sem meginreglu við stýringu á framboði lambakjöts, og komist upp með það ? Ekki er það eftirtekjan hvað þá umhyggjan fyrir afkomu bænda. Hún er og verður rýr þrátt fyrir fjáraustrið af almannafé. Launhelgi þjóðarinnar á sauðkindinni hjálpar þar eflaust til. Til eru þó aðrar árangursríkar leiðir. Í framhaldi af setningu aflamarksreglu í sjávarútvegi og lögfestingu kvótakerfisins (1985), var gerð tilraun með að kvótasetja landbúnaðarframleiðsluna. Hugmyndin var sú að aðlaga framleiðsluna að heimamarkaði. Þetta var skynsamleg nálgun sem smámsaman hefði  bætt afkomu búanna um leið og þeim hefði fækkað, sbr. þróunina í sjávarútvegi. Samdráttur er nefnilega árangursríkasta aðferðin við að draga úr offramleiðslu. Þessi tilraun fékk ekki að þróast.Bændaforystan gafst fljótlega upp á leið skynseminnar en valdi slóð óráðsíunnar. Hún var studd af stjórnmálaflokkum sem studdu og styrktust af misvægi atkvæða. Vituð þér enn, eða hvað ?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.12.2016 - 18:40 - FB ummæli ()

Af frelsi annarra

Á síðastliðnu ári ritaði ég nokkrar greinar hér í Fréttablaðið, þar sem ég reyndi að rekja söguslóð og ráða í þróun þeirra samfélagsgilda sem einkenna vestræna samfélagsmódelið. Frelsi einstaklingsins, lýðræði, virðing fyrir lögum og rétti, mannréttindi, valddreifing og markaðsbúskapur svo nokkur séu nefnd. Samflétting allra þessara gilda mynda þann vef sem vestrænt lýðræðisskipulag er ofið úr. Af þessum gildum er frelsi einstaklingsins það sem mestum ljóma stafar af. Frelsið hefur meira aðdráttarafl en öll önnur vestræn gildi, en á erfitt uppdráttar án þess að hin fylgi með. Það tók aldir að draga einstaklinginn undan oki fordóma, gera hann sjálfstæðan gagnvart trúarbrögðum, veraldlegum yfirvöldum  og að lokum gagnvart sjálfum sér. Þetta snerist allt um  myndugan, frjálsan einstkling. Frelsið hefur verið rauði þráðurinn í mótunarferli vestræns samfélags. Lengi vel var tekist á og barist um hvað hefði undirtökin, einveldi, stjórnveldi eða lýðveldi. Það er í raun ekki fyrr en Bandaríkin, með þátttöku sinni í fyrri heimsstyrjöldinni, taka af allan vafa um að þau ætla að standa vörð um vestrænt, frjálslynt lýðræði og verða forystuþjóð þess.

Beygur um afdrif frelsisins

Síðan þá er liðin heil, misfarsæl öld. Lengst af var óttinn um afturhvarf til verri tíma með í för. Öflugar einræðishreyfingar sóttust eftir heimsyfirráðum langt fram yfir miðja síðustu öld. Fasista- , nasista- og kommúnistahreyfingar lögðu til atlögu við vestrænt lýðræði og reyndu að leggja það að velli. Óttinn á Vesturlöndum við að þessar ofbeldisstefnur myndu ná undirtökum var lengi mikill og ríkjandi fram eftir síðustu öld. Með þátttöku í tveimur heimsstyrjöldum og einu köldu stríði, réðu Bandaríkin úrslitum um að Vestrið sigraði. Eftir hrun Berlínarmúrsins og síðan Sovétríkjanna leit  svo út, sem vestrænt frjálslynt lýðræði hefði lagt allar andstefnur sínar að velli. Hræðslan við að glata frelsinu, sem sameinað hafði vestræn ríki, vék fyrir bjartsýni um sigurgöngu frelsisins um alla framtíð. Engin öflug hugmyndfræði  eða hervætt stórveldi virtist geta ógnað því. Viðskiptahindranir voru fjarlægðar, samfélögin opnuð í frjálsræðis átt ; samstarf og aðlöðun  þjóðanna gerð greiðfærari. Hnattvæðingin hélt innreið sína, en hún er í reynd ekki annað en aukið frelsi til að flytja viðskipti, framleiðslu, vinnuafl, þjónustu og fjármagn á milli landa og heimsálfa. Samfélagsleg áhrif hennar urðu einkum þau að flytja fjármagn og framleiðslu frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs. Þetta jók tekjur í austri og suðri en færði sumum vestrænum ríkjum atvinnuleysi, en jafnframt ódýrari neysluvörur.

Óttinn við frelsið

Það var ekki hvað síst af ótta við að missa frelsið, að forysturíki Vestursins hóf herferð til að útbreiða vestræna  samfélagsmódelið, með frelsið að leiðarljósi.  Ríkisstjórnir sem lögðust á sveif með Vesturlöndum voru styrktar. Róttækar vinstri hreyfingar voru ofsóttar og gengið var milli bols og höfuð á ríkisstjórnum sem  bandarísk stjórnvöld töldu vera ógnun við frelsið, ekki hvað síst við hið frjálsa framtak. Aftökur, limlestingar og stríð voru sett á dagskrá til varnar þessu frelsi. Þrátt fyrir  mörg óhæfuverkin tókst ætíð að vinna meirihlutann til fylgis við vestræn grunngildi. Markaðskerfið, með öllum þess vanköntum og veikleikum, var ríkisstýrðum hagkerfum yfirsterkara og árangursríkara. Síðan kom árásin á tvíburaturnana. Þá breyttist flest. Í hugum fólks verða djúpstæð umskipti. Jafnframt því að óttast hefndarverk og að glata eigin frelsi, fer almenningur að hræðast frelsið sjálft. Frelsið opnar landamæri og opnar framandi fólki ný heimkynni; það hrindir burtu  viðskiptahindrunum og eykur samkeppni heimafyrir. Frjálst fólk má berjast fyrir réttindum kvenna, hinsegin fólks , hörundslitaðra og minnihluta hópa. Eina leiðin til að hindra þetta er að takmarka eða afnema frelsið. Nei, það er ekki sitt eigið frelsi sem fólk óttast, það nýtur þess. Það er hrætt við frelsi annarra, og berst því  gegn því.Frelsið, sem er aðall Vesturlanda, er orðið mörgum ógnvekjandi. Við breiðum það ekki lengur út, heldur takmökum það. Kannski litum við alltaf á frelsið sem frelsi okkar,til að gera það sem okkur sýnist. Með kosningu Trumps vex óttinn við, að hann muni  hefjast handa við að takmarka frelsið í höfuðvígi þess, Bandaríkjunum. Hann mun trauðla afnema lýðræðið,en hann ætlar að leggja af þetta frjálslynda, umburðarlynda og veraldaropna vestræna lýðræði. Þessi pólitísku veðrahvörf frá hægri eru ógnvænleg. Bretland er á svipaðri vegferð. Víða í löndum Vestur-Evrópu setja hægri lýðskrumarar fram sömu kröfurnar; úthýsum frjálslyndi og umburðarlyndi. Frjálslynt, opið og upplýst  lýðræði, sem er kjarni frelsisins, virðist orðið vegavillt og vinafátt. Sic transit gloria mundi.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is