Skurðarhnífurinn og fallöxin

5. mars, 2009

Þensla og samdráttur ríkisumsvifa hafa tilhneigingu til að fylgja sveiflum á almennum markaði í trássi við það sem æskilegast væri. Í góðæri auka fyrirtæki við hagnað sinn, ný fyrirtæki verða til og störfum á vinnumarkaði fjölgar. Þegar svoleiðis árar ætti hið opinbera síst af öllu að stækka við sig og keppa við einkaaðila um mannauðinn í landinu, þó það sé auðvitað freistandi þegar allt flóir í skatttekjum. Þvert á móti ætti ríkið að nýta tækifærið til að hagræða rekstri og fækka starfsmönnum þegar einkageirinn getur gripið slakann. Þannig verður ríkið betur í stakk búið þegar hægir síðan á vexti einkageirans.

Að niðurskurður ríkisins skuli bætast ofan á algjört hrun hagkerfisins er ömurleg staðreynd. Stjórnmálamenn sem taka sæti á þingi og í ríkisstjórn eftir kosningar þurfa að draga lærdóm af þeim mistökum sem fólust í ofþenslu ríkisins í góðærinu. Agi og hugrekki eru lykilatriði ef þróun ríkisrekstrarins á að vera með þeim hætti sem hér er lýst. Ef stjórnmálamenn sýna ekki þann aga og hugrekki sem nauðsynleg eru til að beita skurðarhnífnum þegar vel árar, þá fellur fallöxi á hagkerfið þegar illa árar. Ríkisumsvif hafa nefnilega skýlausa tilhneigingu til að þenjast út af eigin mætti þegar enginn þorir að taka í taumana þar til þenslan verður loks kerfinu um megn.

Stjórnmálamenn þurfa ekki síður að halda um stjórnartaumana í skattheimtunni, enda hefur hún sömu tilhneigingu til að vaxa fram úr sjálfri sér þegar aginn er lítill. Hafa þarf í huga að skattheimtan tryggir ríkinu ekki aðeins tekjur, heldur sendir einnig ákveðin skilaboð til launamanna. Skilaboðin þurfa að vera rétt.

Við þurfum að haga skattheimtu þannig á næstu árum að dugnaður, frumkvæði og heiðarleiki sé verðlaunaður í íslensku samfélagi. Við eigum að verðlauna dugnað með því að halda tekjusköttum eins lágum og kostur er. Við eigum að verðlauna frumkvæði með því að tryggja nýsköpunarstarfsemi eins hagstætt skattaumhverfi og kostur er. Og við eigum að verðlauna heiðarleika með því að leggja áherslu á einfalt, gagnsætt og skilvirkt skattkerfi. Það skiptir öllu fyrir okkur Íslendinga nú að sambandið milli framlags og ávinnings verði sem mest.


Sérlög samkynhneigðra

1. mars, 2009

Ég hef ekki farið í bíó lengi og á eftir að sjá meirihluta myndanna sem voru fyrirferðarmestar á Óskarsverðlaunahátíðinni. Ég hef þó heyrt talað meira um eina þeirra en hinar; myndina Milk með Sean Penn. Myndin gerist á 8. áratugnum og segir frá stjórnmálamanninum Harvey Milk, samkynhneigðum San Franciscobúa sem varð fyrsti homminn til að ná kjöri í opinbert embætti í Bandaríkjunum.

Ég las mig aðeins til um Milk. Ævisaga hans er lituð af því ótrúlega mótlæti og fordómum sem samkynhneigðir mættu fyrir aðeins 30 til 40 árum. Ein mikilvægasta orrusta Milks á ferli sínum sem stjórnmálamaður var þegar hann barðist gegn hinu alræmda „frumvarpi sex“ sem íhaldsmaðurinn John Briggs lagði fram. Frumvarpið hefði gert opinberum skólum skylt að reka alla samkynhneigða kennara og aðra sem sýndu málstað þeirra stuðning – til þess að hommarnir myndu ekki misnota börnin og innræta þeim kynvillu! Milk sigraði sem betur fer að lokum og frumvarpið varð ekki að lögum, þó sigurinn hafi reyndar verið naumur.

Heimurinn hefur batnað mikið og hratt frá því að frumvarp sex var lagt fram og nú þurfa samkynhneigðir hvorki að fela kynhneigð sína né skammast sín fyrir hana, hvorki í Bandaríkjunum né víðast hvar um heiminn. Á Íslandi er umburðarlyndið orðið þvílíkt að flestum þykir kynhneigð fólks engu skipta og hlæja að kjánum eins og John Briggs sem lagði fram kennarafrumvarpið – sem betur fer.

Íslensk löggjöf skýtur því mjög skökku við. Það hlýtur að teljast í hæsta máta undarlegt að samkynhneigðum sé gert að fylgja öðrum lögum en gagnkynhneigðum, en þannig er staðan einfaldlega á Íslandi í dag. Það þótti semsagt þvílíkur grundvallarmunur á ást tveggja einstaklinga af sama kyni og gagnstæðu að löggjafin útbjó lög um staðfesta samvist árið 1996 til að ná utan um hjúskap þeirra. Það þótti ekki við hæfi að sömu reglur giltu einfaldlega um fólk sem elskar hvort annað, hvers kyns svo sem það er.

Það þarf að stíga síðasta skrefið í átt til fullkomins jafnréttis og virðingar fyrir einstaklingnum og sameina lög um staðfesta samvist og hjúskaparlög. Það eiga allir að standa jafnir fyrir leikreglum samfélagsins, hvort sem um er að ræða homma, lesbíur eða gagnkynhneigða. Það er einfaldlega ekki  löggjafans að gera upp á milli einstaklinga sem unnast.


Fullkomið gagnsæi í Hugmyndaráðuneytinu

22. febrúar, 2009

Hjálmar Gíslason, frumkvöðull hjá Datamarket, flutti vægast sagt áhugaverðan fyrirlestur hjá Hugmyndaráðuneytinu í gær. Í raun var þetta töluverð uppljómun því honum tókst að setja fram á einstaklega skýran hátt hugmyndir sínar um fullkomið gagnsæi í viðskiptum og stjórnsýslu. Eins og ég fjallaði um í síðasta bloggi er gagnsæi einmitt ein grundvallarforsenda þess að markaðsskipulagið sé réttlátt og hagkvæmt.

Meðal þess sem kom fram hjá honum er sú staðreynd að reglur um upplýsingagjöf á markaði eru settar fyrir mörgum áratugum og miðast við tækni sem kemst ekki nálægt því sem við búum við í dag. Þetta er sambærilegt við að hraðatakmarkanir á vegum væru ennþá miðaðar við hestvagna. Nú ættu fyrirtæki nánast að geta gefið upp rauntímaupplýsingar um stöðu sína þannig að fjárfestar, starfsmenn og hugsanlega viðskiptavinir hefðu sem fullkomnastar upplýsingar um allt ástand fyrirtækisins. Þar með væri mögulegt fyrir viðkomandi aðila að taka raunverulega upplýstar ákvarðanir.

Þessar hugmyndir eru róttækar miðað við núverandi fyrirkomulag og því sem fólk hefur vanist. Líklega finnst mörgum sem rekið hafa fyrirtæki það vera óþægileg tilhugsun að hleypa hverjum sem er í allar mögulegar upplýsingar sem snúa að rekstrinum. Það eru ekki skrýtin fyrstu viðbrögð, enda gengur margt á í fyrirtækjum sem ekki er venja að bera á borð almennings. Ef öll fyrirtæki fylgdu hins vegar sambærilegum gagnsæisreglum er þó víst að venjulegt fyrirtæki, sem stendur í eðlilegum rekstri, þarf ekki að óttast hvernig hlutirnir líti út. Ef fyrirtæki óttast að skapa vantraust eða taugaveiklun með að gefa út vondar fréttir eða upplýsingar sem benda til veikleika, þá myndi slíkt lagast ef allir fylgdu sömu reglum því smám saman myndu menn venjast þeirri hugsun að öll fyrirtæki þurfa að glíma við bakslög í rekstrinum og að engin ástæða er til að fara af hjörunum yfir því. Þannig myndi færri vandamálum verða sópað undir teppi – en slík vinnubrögð eru sennilega stór hluti af þeim vanda sem kominn er upp í fjármálakerfi heimsins.

Kreppan í heiminum býður upp á tækifæri ti að skapa betra umhverfi í fyrirtækjarekstri og stjórnsýslu. Ef okkur tekst að stýra þróuninni í rétta átt þá verður hægt að byggja upp heilbrigðara efnhagslíf.