Nauðsynlegt, mikilvægt, notalegt, lúxus

26. maí, 2009

Þegar skera þarf niður í útgjöldum, hvort sem það er hjá heimili, fyrirtæki, sveitarfélagi eða ríkinu, þarf að forgangsraða. Nauðsynleg verkefni þarfa að standa vörð um. Í tilviki ríkisins er það t.d. löggæsla, kennsla og þjónusta lækna og hjúkrunarfræðinga. Mikilvæg störf eru víða innt af hendi, t.d. í stjórnsýslunni og inni í þeim stofnunum sem sinna menntun og heilbrigðisþjónustu.

Í góðæri leyfir fólk sér líka að eyða í ýmisleg notalegheit og jafnvel lúxus. Það getur verið leiðinlegt – og jafnvel sársaukafullt að skera hann niður – en almenn skynsemi heimilar ekki annað en að slík útgjöld víki fyrir nauðsynjum. Sagt er á ensku: „Money comes and goes, lifestyle comes and stays“ og sannleikurinn í því veldur að þegar harðnar á dalnum líður manni illa að þurfa að hætta við ýmis konar munað sem menn koma sér upp í góðæri. En það þarf að gera fleira en gott þykir.

Ég skrifað nokkrar línur um þetta á Deigluna í dag – og sá svo þessa frétt á Vísi. Mér finnst fréttina á Vísi, þar sem Umferðarráð er að álykta sér staklega um nauðsyn þess að verja starfsemi Umferðarstofu gegn niðurskurði vera ágætt dæmi um ástandið. Umferðarstofa gegnir verkefnum sem gott er að geta sinnt, en líklega eru flestir sammála um að þau verkefni séu ekki eins mikilvæg og t.d. löggæsla. Forvarnir í umferðarmálum eru mikilvægar en líklega eru góð samgöngumannvirki og löggæsla ennþá mikilvægari til að tryggja öryggi heldur en auglýsingar í sjónvarpi. Ég er hins vegar sammála Umferðarráði um að ekki sé gott ef skera þurfi niður í löggæslunni – hins vegar er Umferðarstofa gott dæmi um stofnun sem ríkið ætti að velta fyrir sér hvort ekki megi við niðurskurði.


Svifryki refsað

13. maí, 2009

RÚV sagði frá því í hádegisfréttum að mikið væri af ósoni og svifryki í Reykjavík í dag. Svo sagði:

Einnig að svifryksmengun verði líkleg yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í dag. Mengunin fór yfir mörkin klukkna ellefu í morgun. Þeim sem eru með viðkvæm öndunarfæri er ráðlagt að fara varlaga. Svifryk má samkvæmt lögum fara tólf sinnum yfir mörkin árið 2009.

Nú hlýtur svifrykið að hugsa sinn gang…hvaða refsing bíður þess ef mengunin fer yfir mörkin í þrettán skipti? Verður það hneppt í gæsluvarðhald eða duga sektir? Hver eru sanngjörn viðurlög ef svifryk óhlýðnast lagaboði? Það er vonandi að hið íslenska svifryk sé bæði löghlýðið og vel upplýst bæði um réttindi sín og skyldur…og sé með góðan lögfræðing.