Kjósum opið og frjálst Ísland

24. apríl, 2009

Kunningi minn spáði því í gær að sagnfræðingar framtíðarinnar muni horfa til þessara stuttu kosningabaráttu í algjörri forundran yfir því hvaða mál séu efst á baugi. Ég hallast að því að þetta sé rétt. Stóru málin sem við ættum að vera að ræða um hafa því miður ekki komist nægilega hátt í umræðunni því hneykslunaralda og ásökunaræðið hefur náð að tröllríða öllu í baráttunni.

En hver eru aðalmálin. Að mínum dómi skiptir öllu máli að tryggja að Íslendingar viti hvaða stefnu komandi stjórnvöld hafa til þess mikla verkefnis að koma íslenskum atvinnurekstri úr umsjá ríkisbankanna og yfir til einkaaðila – eða hvort almenn samstaða sé um það. Getur verið að vinstri flokkarnir hafi í hyggju að halda bókabúðum, bílaumboðum, ritfangaumboðum og fleiru í ríkiseigu? Getur verið að vinstri mönnum þyki það heppilegt að láta einhver slík fyrirtæki lúta pólitískum eða menningarlegum markmiðum í samkeppni við þau einkafyrirtæki sem eftir eru á markaði? Mér finnst þetta eðlilegar spurningar því enn hef ég ekki heyrt almennilega skýrt frá því hvernig standi til að tryggja að almennt athafnalíf verði áfram í höndum einkaaðila.

Kosningarnar á morgun snúast um framtíðina. Þótt ótrúlegt megi virðast þá á þetta ennþá meira við nú en áður – ástæðan er það ástand sem er uppi í samfélaginu. Undanfarnar kosningar hafa farið fram í umhverfi stöðugleika, en nú þegar mikið rót er á öllu þá má ætla að næstu ríkisstjórnir hafi mikilvægu mótunarhlutverki að gegna. Þeir sem trúa því að Ísland eigi að vera opið og frjálst samfélag þurfa að styðja Sjálfstæðisflokkinn. Viljinn til þess að refsa flokknum fyrir það sem gerst hefur í fortíðinni þurfa líka að hugsa um framtíðina. Það þarf gæta þess að refsingin yfir því sem gerðist hitti ekki íslenskt samfélag fyrir í formi aukinna hafta og lokaðra samfélagi.


Oddný og Ólína hugsa í takt

21. apríl, 2009

Það er greinilegt að Samfylkingin ætlar ekki bara að ganga í takt í kosningabaráttunni. Svo virðist sem frambjóðendur hennar og talsmenn hafi komið sér upp lagi til þess að hugsa í takt og skrifa í takt. Sjálfstæð hugsun þeirra Ólínu Þorvarðardóttur og Oddnýjar Sturludóttur kemur fram á bloggsíðum þeirra. Þær ákveða báðar í gær að bregðast af vandlætingu og þröngsýni við þeim hugmyndum Sjálfstæðismanna að líklegt sé að aðstæður bjóði nú upp á möguleika til þess að taka einhliða upp evru, og njóta stuðnings frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að efla trúverðugleika þeirrar leiðar. Þær hafa báðar fengið hugljómun um að vitna í grein úr Financial Times, sem hvorug greinir þó nánar frá. Ólína segir:

Sú hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega óraunhæf enda varpað fram undir lok kosningabaráttunnar til þess eins að breiða yfir innbyrgðis klofning Sjálfstæðisflokksins og andstöðu hans við áherslr stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda sem vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar.

Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið í raun hafnað af Evrópusambandinu sm óraunhæfri. Sama hefur evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hæutast til um samnngaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.

Og Oddný segir:

Óneitanlega læðist að konu sá grunur að útspil íhaldsins sé einvörðungu til að hylja þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er í andstöðu við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda. Launafólk og atvinnurekendur vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar. Sjálfstæðisflokkur skilar auðu.

En þetta er þó ekkert nýtt. Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið, einhliða upptöku evru, í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur Evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.

Það er auðvitað ágætt að málflutningurinn sé í takt, þótt þetta sé kannski fullmikið af hinu góða. Stærra vandamál er hins vegar það offors sem Samfylkingin beitir til þess að reyna að halda þeirri hugmynd að þjóðinni að aðild að Evrópusambandinu sé eini valkostur Íslands í gjaldmiðlamálum fyrir utan núverandi kerfi. Staðreyndin er sú að ástandið í heiminum, og kannski einkum á Íslandi, kallar á nýjar lausnir og óhefðbundnar. Í slíkum aðstæðum er best að byrja á því að henda gömlum kreddum og reyna að hugsa sjálfstætt.


Tökum upp Bandaríkjadal

14. apríl, 2009

Taka þarf upp alþjóðlega, gjaldgenga mynt sem lögeyri á Íslandi hið fyrsta svo milliríkjaviðskipti geti átt sér stað með eðlilegum, óþvinguðum og óheftum hætti. Ísland þarf að vera opið og frjálst til þess að skapa skilyrði til verðmætasköpunar. Því miður er þróunin í þveröfuga átt og er þar einkum um að kenna tilraunum  til þess að halda íslensku krónunni við í skjóli strangra gjaldeyrishafta. Nokkuð breið samstaða virðist ríkja í íslensku samfélagi um að heppilegt væri að taka upp nýjan gjaldmiðil og  því er mikilvægt að stjórnvöld, hvernig sem þau eru skipuð, grípi til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að  svo megi verða.

Vandi þjóðarinnar er ærinn og þarfnast úrlausnar strax. Fyrirtækin geta ekki þrifist til lengdar undir oki gjaldeyrishafta og erfitt er fyrir ný fyrirtæki  að hasla sér völl við þær  aðstæður. Vandinn vex með hverjum degi sem núverandi ástand varir. Yrði afráðið að taka upp evru með aðild að myntbandalagi Evrópu þyrfti að uppfylla svokölluð Maastricht-skilyrði sem kveða á um ýmis atriði, sem snerta til dæmis skuldastöðu hins opinbera, fjárlagahalla og vaxtastig. Á næstu árum á Íslandi verður mjög erfitt eða ómögulegt að uppfylla þau skilyrði, og því er myndi evran langt því frá leysa þann vanda sem nú steðjar að íslenska hagkerfinu. Haftakrónan mun leiða íslenska þjóð langt aftur í tímann áður en upptaka evru væri möguleg með aðild að myntbandalagi Evrópu. Þetta þurfum við að horfast í augu við.

Tökum upp Bandaríkjadal
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna samþykkti fyrir skemmstu ályktun þess efnis að nú þegar verði hafið samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að taka upp Bandaríkjadal í viðskiptum á Íslandi. Nýleg dæmi eru þess efnis að sjóðurinn hafi aðstoðað þjóðir við slíkar aðgerðir – hví ætti hann ekki að hjálpa Íslandi? Í kvöldfréttum sjónvarps í liðinni viku sagðist fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lagt nokkrar leiðir til við íslensk stjórnvöld til að bæta úr stöðunni sem upp væri komin vegna hriplekra gjaldeyrishafta. Áhugavert væri að vita hvað fastafulltrúinn hafði í huga annað en hert höft, sem gera noktun á íslensku krónunni nánast óheimila.

Tvöfalt gengi
Nýsamþykkt gjaldeyrishöft, sem meðal annars banna útflytjendum að kaupa krónur í erlendum bönkum til heimflutnings, undirstrika hversu vonlaus staðan í gjaldeyrismálum Íslandi er. Á meðan gengi gjaldmiðilsins fær ekki að ráðast á markaði munu stjórnvöld þurfa að grípa til sífellt harðari aðgerða til þess að verja gervigengið í Seðlabankanum. Þær aðgerðir fela annars vegar í sér höft og hins vegar fjárútlát, vegna þess að Seðlabankinn þarf að niðurgreiða íslensku krónuna á innlendum markaði til að halda genginu of háu. Krónan er síðan skráð mun lægra erlendis. Mismunurinn sem verður til milli þessara tveggja fölsku gengisskráninga er síðan sóun eða tjón.

100 þúsund á mann?
Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands hefur gjaldeyrisforði hans skroppið umtalsvert saman á síðustu mánuðum. Stærstur hluti þeirrar minnkunar er vegna styrkingar krónunnar samkvæmt útreikningum Seðlabankans. En sé leiðrétt fyrir gengisstyrkingunni má áætla að Seðlabankinn noti 2-4 milljarða á mánuði í að kaupa krónur. Haldi þetta út heilt ár lætur nærri að kostnaðurinn við  þessar æfingar nemi á  bilinu 100 – 150 þúsund krónur á hvernig Íslending. Þá má geta þess að til samanburðar að tekjuskattshækkanatillögur VG myndu skila 4-7 milljörðum á ári í ríkiskassann og myndu því  duga í tvo til þrjá mánuði til þess að halda gervigenginu uppi.

Upptaka Bandaríkjadals á Íslandi gæti lagt grundvöll að endurreisn landsins án þess dragbíts sem haftakrónan er. Dalurinn myndi leysa gjaldeyrisvandamálið strax, en ekki eftir nokkur ár eins og innganga í myntbandalag Evrópu myndi gera. Ennfremur er ljóst að afnám haftakrónunnar og upptaka Bandaríkjadals gera Íslandi auðveldara að uppfylla Maastricht skilyrðin og ætti þessi leið því að vera fagnaðarefni fyrir þá sem hafa áhuga á því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

Greinin birtist áður í Fréttablaðinu


Fræðimannsskikkjan felld

1. apríl, 2009

Ég hef oftsinnis tekið málstað Baldur Þórhallssonar þegar fólk hefur haldið því fram að hann stundaði erindisrekstur en ekki fræðistörf. Ég sat í kúrsi hjá honum í Háskólanum og fannst hann afburðagóður kennari og hef reyndar haft mjög mikið álit á manninum.

Það kom mér því algjörlega í opna skjöldu að sjá að orðrómurinn um að hann tæki sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík væri sannur. Þetta veldur mér vonbrigðum því ég hef mikið álit á Baldri. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að hann hefur í mörg ár komið fram og rætt stjórnmál og látið sem hann sé hlutlaus en þráðurinn milli hans og Samfylkingarinnar virðist ekki hafa verið lengri en svo að nú er búið að draga hann inn á framboðslista.

Það getur vel verið að Baldri takist að samræma  það í huga sér að hann hafi þangað til í  dag verið hlutlaus skýrandi atburðarásar en í dag þátttakandi með hagsmuni af því að tilteknum flokki gangi vel. Sjálfum finnst mér þetta hins vegar ekki geta farið vel saman. Mér finnst raunar að Baldur Þórhallsson þurfi að útskýra fyrir fólki sem hefur treyst honum sem sjálfstæðri rödd hvernig í veröldinni hann fékk það af sér að gera ekki grein fyrir flokkspólitískum skoðunum sínum fyrr.