Milljón á mann

25. mars, 2009

Ég velti fyrir mér hvaða viðtökur sú hugmynd gæti fengið að lofa því að allir Íslendingar fái senda milljón krónur í beinhörðum peningum ef tiltekinn flokkur kæmist til valda? Vissulega yrðu fáir til að slá hendinni á móti slíku, en sem betur fer er líklegt að flestir átti sig á að slíkar töfralausnir eru skammgóður vermir.

Hið sama gildir um hugmyndir um niðurfellingu skulda. Vera má að umræðan sé góð, en þá fyrst og fremst til þess að menn átti sig á því að svona töfralausnir eru ekki líklegar til árangurs – heldur geta þær einmitt kallað yfir þjóðina ennþá meiri vandræði. Ekki síst ef horft er til lengri tíma og við hugsum um hvernig viðhorf þjóðarinnar til eigna og skulda þarf að breytast. Ef þau skilaboð verða send út frá stjórnvöldum að fólk geti átt von á slíkri syndaaflausn ef það er óheppið eða óskynsamt í fjármálum þá er hætt við að fáir sjái sérstakan akkur í því að hafa borð fyrir báru þegar næsti uppgangur verður í efnahagslífinu.

Samkvæmt tölum Seðlabankans um stöðu heimilanna kemur í ljós að um 20% heimila hafi nú neikvæða eiginfjárstöðu. Þar segir einnig að reynslan sýni að 90% heimila í Bandaríkjunum, sem þannig er ástatt um, nái þrátt fyrir það að vinna sig út úr vandanum, halda húsnæði sínu og forðast gjaldþrot. Ennfremur kemur fram að vandinn er langmestur hjá þeim sem skulda yfir 50 milljónir í húsum sínum og hafa tekið erlend lán. Þetta er auðvitað mjög erfið staða og líklegt er að einhver heimili þurfi að fara í gegnum mjög erfiða tíma á næstunni. Mestu skiptir að stuðla að því að sem flestir geti komist í gegnum þá erfiðleika sem við þeim blasa og munu bankar og aðrir kröfuhafar þurfa að afskrifa skuldir og lengja í lánum til að stuðla að því. Hins vegar er óhjákvæmilegt að einhver heimili þurfi að fara í gegnum gjaldþrot og mikilvægt er að þær fjölskyldur fái tækifæri til þess að byggja upp eign á ný sem fyrst og að tekið verði tillit til þess að þeir sem verða gjaldþrota í þessari kreppu eru ekki endilega glannar, heldur hafa aðstæður verið ákaflega óvenjulegar.

Það var hins vegar ofurtrú á flóknar töfralausnir sem leiddi heiminn inn í núverandi fjármálakreppu, og það er hæpið að halda að einfaldar töfralausnir dugi til að koma okkur úr henni.


Góð niðurstaða í prófkjöri

16. mars, 2009

Þá er prófkjörið í Reykjavík loks búið. Eftir mikla og skemmtilega kosningabaráttu er niðurstaðan ljós. Ég náði 9. sæti og Erla Ósk í því 8. Við tvö lentum í sætunum beint fyrir neðan sitjandi þingmenn flokksins. 29 gáfu kost á sér í prófkjörinu og því er ég býsna  stoltur yfir að hafa náð níunda sætinu.

Ég er reyndar ekki síður glaður yfir árangri Erlu Óskar heldur en mínum eigin. Við unnum mjög mikið saman í aðdraganda prófkjörsins, enda eigum við marga sameiginlega vini og stuðningsmenn.

Í aðdraganda kjörsins talaði ég við  fjöldann allan af nýju fólki. Ég gaf út bækling þar sem ég geri grein fyrir pólitískum hugmyndum mínum en fyrst og fremst naut ég þess til botns að vinna með því ótrúlega duglega og kraftmikla fólki sem vildi hjálpa mér að komast á þing. Vel á annað  hundrað manns kom að undirbúningnum með einum eða öðrum hætti og það var aldrei dauð mínúta á kosningamiðstöðinni. Ég er innilega þakklátur fyrir þennan stuðning og eins þeirra sem mættu á kjörstað og völdu mig á listann. Kosningavinna er nefnilega bæði skemmtileg og gefandi og hefur þann kost að þegar á hólminn er komið er unnt að mæla árangurinn með áþreifanlegum hætti.

Það er mikil endurnýjun á listanum. Illugi Gunnarsson fékk frábæra kosningu í fyrsta sætið og mun leiða lista flokksins í öðru kjördæminum og Guðlaugur Þór í hinu. Sitjandi þingmenn hafa fæstir verið mjög lengi á þingi og ég veit að í þeim hópi er fólk sem er líklegt til að ná góðum árangri við að afla flokknum fylgis fyrir þingkosningarnar.

Það er ótrúleg gæfa fyrir mig að hafa eignast mikinn fjölda af góðum vinum í gegnum tíðina og það kemur mér sífellt á óvart hversu mikið  langlundargeð  þeir hafa fyrir pólitísku stússi mínu. Ég sendi þeim öllum mínar innilegustu þakkir fyrir ómetanlegan og ógleymanlegan stuðning.


Lygasögu líkt

11. mars, 2009

Ef einhver hefði árið 1994 reynt að telja mér trú um að meðal stærstu fyrirtækja Íslands fimmtán árum síðar yrðu tölvuleikjarisi og nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir gerviútlimi fyrir alþjóðamarkað, þá hefði ég líklegast tekið þeim upplýsingum með miklum fyrirvara. Ef einhver hefði sagt mér að skipulagðar hópferðir yrðu farnar frá gjörvallri Evrópu til að skoða slóðir íslenskra glæpasagna þá hefði ég örugglega litið á það sem skrítlu. Það sama gildir um að íslenskur hönnuður yrði farinn að græða á að flytja út lukkudýr fyrir erlend íþróttalið. Útslagið hefði svo líklegast verið ef sá hinn sami hefði sagt mér að íslenskir kvikmyndaframleiðendur myndu reyna að stöðva dreifingu á einum vinsælasta sjónvarpsþætti veraldar vegna stuldar á íslenskum hugmyndum! Þetta hefði allt talist vera lygasögu líkt.

Í dag er þetta þó sá veruleiki sem við Íslendingar búum við. Það hefur tekist að umbreyta hugviti og krafti þjóðarinnar í áþreifanleg verðmæti með slíkum hætti að fólk um heim allan nýtur góðs af. Þetta frumkvöðlaeðli okkar er ekki síðri auðlind en fiskurinn í sjónum eða fallvötnin á hálendinu. Það er því sorglegt að hið opinbera skuli ekki virkja þá auðlind af viðlíka kappi og hinar. Tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi leynast enda víða í kreppu.

Eins og ég hef áður minnst á í bloggi ætti hið opinbera að gera allt sem í þess valdi stendur til að ýta undir slíka verðmætasköpun og ryðja hindrunum úr vegi frumkvöðlanna. Síðan þurfum við reglulega að minna hvort annað á að undirstöður samfélagsins eru þrátt fyrir allt traustar. Bölmóður getur nefnilega reynst okkur mun skæðari óvinur til lengri tíma litið en efnahagslægðin.


Fyrirgefðu, ég skil ekki

10. mars, 2009

Hin svokölluðu matsfyrirtæki í fjármálageiranum hafa á undanförnum árum komist á allra vitorð. Þetta eru enda mjög valdamiklar stofnanir. Þau orð, umsagnir og einkunnir sem fyrirtækin Standard & Poor´s, Fitch og Moody´s hafa látið frá sér fara hefur verið tekið sem stóradómi á markaði – nánast guðspjalli. Það er hins vegar ljóst að þegar efnahagshrun heimsins verður skoðað þá mun ábyrgð þessara fyrirtækja verða í sérstöku kastljósi. Hin svokölluðu undirmálslán, og þeir skuldabréfavafningar sem úr þeim voru þræddir, voru stimpluð og blessuð af matsfyrirtækjunum og þar með drógu fáir í efa að um öruggar og traustar fjárfestingar væri að ræða. Sannleikurinn var hins vegar allt annar og verri eins og komið hefur í ljós.

Í kjölfar hruns Enron í Bandaríkjunum var meðal annars gerð sú breyting að endurskoðunarfyrirtækjum var bannað að stunda jafnframt umfangsmikla rekstrarráðgjöf hjá sömu fyrirtækjum og þau endurskoðuðu. Ástæðan er sú að traust þarf að ríkja á mat endurskoðenda á ársreikningi, en ef endurskoðandinn veitir jafnframt ráðgjöf um er líklegra að hann hleypi í gegn vafasömum aðferðum til þess að láta ráðgjöf sína líta betur út. Matsfyrirtækin voru í svipaðri stöðu varðandi skuldabréfavafningana. Áður en þau tóku að sér að meta líkurnar á því að eigendur skuldabréfanna fengju endurgreitt, tóku þau að sér að ráðleggja fjárfestingarbönkum um hvernig ætti að setja þá saman. Það er augljóslega erfitt að gefa falleinkunn fyrir verkefni sem maður bæði leggur fram og leysir sjálfur – og þess vegna fengu þessir skuldabréfavafningar oftast nær  besta mögulega gæðastimpil frá matsfyrirtækjunum.

En vandinn er að fáir drógu þetta allt saman í efa. Orð matsfyrirtækjanna voru svo þung á metunum að nánast enginn andæfði – og öll talnaleikfimin var svo yfirþyrmandi flókin að fáir treystu sér til þess að reyna að hugsa sig til botns í henni. Í nýlegum þætti á BBC lýsti David Kotok, fjárfestir, því þannig að fjárfestar hefðu afsalað sér sjálfstæðri hugsun, af því flækjan var svo mikil, og kosið að treysta snillingunum í matsfyrirtækjunum nánast í blindni.

En hvað ef matsfyrirtækin skildu ekkert heldur? Getur það verið að allir hinir hámenntuðu og þaulvönu sérfræðingar fjárfestingarfyrirtækjanna hafi haft svo lítið sjálfstraut að enginn hafi þorað að standa upp á fundum þar sem herlegheitin voru kynnt og spurt: „Fyrirgefðu, en ég bara hreinlega skil þetta ekki?“

Það er rétt sem Einstein sagði að það eigi að útskýra hluti á eins einföldu máli og hægt er – en þó ekki einfaldara en svo. En fjármálaleikfimi sem byggist á þeirri grundvallarforsendu að launalaust fólk standi skil á himinháum lánum um alla framtíð, og að fasteignaverð geti endalaust hækkað, ætti að hafa vakið upp spurningar.

Það er því einn ágætur lærdómur sem draga má af því sem gerst hefur í hagkerfi heimsins á síðustu árum. Hann er sá að betra sé að líta út fyrir að vera vitlaus áður en maður samþykkir fáránlega hugmynd heldur en eftir að hún hefur valdið manni stórtjóni.


Ríkið „skapar“ störf

7. mars, 2009

Atvinnuleysi hefur aukist hratt á Íslandi undanfarna mánuði og krafan um að ríkið grípi til aðgerða verður því sífellt háværari. Í gær birtust fréttir þess efnis að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögur sem ætlað er að skapa 4000 ársverk á næstu misserum. Í sem stystu máli merkir þetta að ríkið hefur ákveðið hvar verðmætasköpun 4000 einstaklinga mun fara fram á næstunni; í byggingariðnaði, gróðursetningu og orkuiðnaði svo dæmi séu nefnd.

Það er synd ef uppbyggingin sem framundan er á að vera á forsendum stjórnmálamanna, en ekki fólksins í landinu. Í stað þess að sætta sig við að ríkisvaldið handstýri hagkerfinu ætti krafan að vera sú að einkaframtið fái að njóta sín. Atvinnuleysi er hrikalegt böl en atvinnubótavinna er heldur ekki góð. Þegar ríkisvaldið „skapar“ störf með þessum hætti leggur það út í samkeppni við atvinnulífið um vinnuafl. Það getur því haft þau þveröfugu áhrif að tefja fyrir raunverulegri endurreisn atvinnulífsins.

Tækifæri til nýsköpunar eru til staðar, ekki síst nú þegar lágt gengi krónunnar skapar kjörskilyrði fyrir útflutning og mikið af hæfileikaríku og vel menntuðu fólki er án atvinnu. Hlutverk ríkisins gagnvart atvinnulífinu á fyrst og fremst að snúast um það að skapa hagstæð skilyrði til að einkageirinn geti búið til störf, ekki að búa til fimm ára áætlanir um ársverk.

Það þarf að ryðja hindrunum úr vegi þeirra einstaklinga sem vilja stofna til eigin fyrirtækjarekstrar og skapa þeim hagkvæmt skattaumhverfi. Þá þarf að breyta reglum um reiknað endurgjald  svo frumkvöðlar þurfi ekki að reikna sér hærri laun en þeir geta í raun reiknað sér og minnka samskipti smárra fyrirtækja við opinbera eftirlitsaðila. Síðan er nauðsynlegt að gera bæði bankana og hlutabréfamarkaðinn virka og létta þannig óvissunni af framtíðarfjármögnun fyrirtækjanna.

Þegar atvinnusköpun er að frumkvæði kraftmikilla einstaklinga er tryggt að ný störf verði til á sviðum þar sem Íslendingar hafa mest fram að færa. Þar af leiðandi sköpum við meiri verðmæti til framtíðar fyrir þjóðarbúið en nokkur ríkisáætlun um ársverk gæti nokkru sinni gert.


Kennum fjármálalæsi

6. mars, 2009

Efnahagslægðin sem nú gengur yfir heiminn á sér enga eina skýra orsök. Hún á sér bæði djúpar og flóknar rætur í óteljandi samverkandi þáttum sem kvíslast víða. Nánast engin leið er að henda reiður á atburðarásinni.

Til að flækja málin enn frekar stíga síðan fram óteljandi sérfræðingar sem hver og einn reynir að skýra hrunið  á sinn hátt með flóknum hugtökum. Fæstir hafa nokkrar forsendur til að meta sannleiksgildi skýringanna. Það endar því með því að flestir hætta að hlusta á það sem sérfræðingarnir segja og byrja að finna til vanmáttar gagnvart framvindunni sem er í gangi. Mörgum myndi áreiðanlega líða betur ef þeir gætu sjálfir lagt mælistiku á þær efnahagslegu ákvarðanir sem teknar eru og þyrftu ekki að treysta á missaga sérfræðinga.

Til að svo megi verða þarf menntakerfið að búa fólk undir þáttöku í samfélaginu með mun hagnýtari kennslu en nú er. Sé fimmtán ára grunnskólanemi valinn af handahófi er líklegra að hann viti hver þjóðtrúin er í Kákasuslöndunum en hvað verðbólga er eða hvernig hún er mæld. Fimmtán ára grunnskólanemi er líklegri til að geta sagt í smáatriðum frá loftslagsbeltum og vindakerfum jarðar en hafa nokkra hugmynd um hvað bindiskylda eða stýrivextir eru.

Nám í grunnhagfræði, fjármálafræði eða lögfræði er ekki skylda á nokkru skólastigi. Hins vegar liggja heilu námskrárnar fyrir um rýni í aðstæður íslenskra ungmenna í sveitum fyrr á öldum og hvernig má setja hitafar fram á loftslagsriti. Það er ekki þar með sagt að slík kennsla sé ekki góðra gjalda verð, en þessi forgangsröðun hlýtur að teljast ansi skökk. Það ætti frekar að vera tilgangur menntakerfisins að fólk með grunnskólapróf skilji kvöldfréttatímann, en að það geti þulið upp meðalúrkomu í gömlu Sovétlýðveldunum.


Skurðarhnífurinn og fallöxin

5. mars, 2009

Þensla og samdráttur ríkisumsvifa hafa tilhneigingu til að fylgja sveiflum á almennum markaði í trássi við það sem æskilegast væri. Í góðæri auka fyrirtæki við hagnað sinn, ný fyrirtæki verða til og störfum á vinnumarkaði fjölgar. Þegar svoleiðis árar ætti hið opinbera síst af öllu að stækka við sig og keppa við einkaaðila um mannauðinn í landinu, þó það sé auðvitað freistandi þegar allt flóir í skatttekjum. Þvert á móti ætti ríkið að nýta tækifærið til að hagræða rekstri og fækka starfsmönnum þegar einkageirinn getur gripið slakann. Þannig verður ríkið betur í stakk búið þegar hægir síðan á vexti einkageirans.

Að niðurskurður ríkisins skuli bætast ofan á algjört hrun hagkerfisins er ömurleg staðreynd. Stjórnmálamenn sem taka sæti á þingi og í ríkisstjórn eftir kosningar þurfa að draga lærdóm af þeim mistökum sem fólust í ofþenslu ríkisins í góðærinu. Agi og hugrekki eru lykilatriði ef þróun ríkisrekstrarins á að vera með þeim hætti sem hér er lýst. Ef stjórnmálamenn sýna ekki þann aga og hugrekki sem nauðsynleg eru til að beita skurðarhnífnum þegar vel árar, þá fellur fallöxi á hagkerfið þegar illa árar. Ríkisumsvif hafa nefnilega skýlausa tilhneigingu til að þenjast út af eigin mætti þegar enginn þorir að taka í taumana þar til þenslan verður loks kerfinu um megn.

Stjórnmálamenn þurfa ekki síður að halda um stjórnartaumana í skattheimtunni, enda hefur hún sömu tilhneigingu til að vaxa fram úr sjálfri sér þegar aginn er lítill. Hafa þarf í huga að skattheimtan tryggir ríkinu ekki aðeins tekjur, heldur sendir einnig ákveðin skilaboð til launamanna. Skilaboðin þurfa að vera rétt.

Við þurfum að haga skattheimtu þannig á næstu árum að dugnaður, frumkvæði og heiðarleiki sé verðlaunaður í íslensku samfélagi. Við eigum að verðlauna dugnað með því að halda tekjusköttum eins lágum og kostur er. Við eigum að verðlauna frumkvæði með því að tryggja nýsköpunarstarfsemi eins hagstætt skattaumhverfi og kostur er. Og við eigum að verðlauna heiðarleika með því að leggja áherslu á einfalt, gagnsætt og skilvirkt skattkerfi. Það skiptir öllu fyrir okkur Íslendinga nú að sambandið milli framlags og ávinnings verði sem mest.


Jaðarsamfélag öfga og ofbeldis

4. mars, 2009

Tómstundir Íslendinga hafa nokkuð komist í hámæli í þessari viku. Pókerspilarar fögnuðu þegar ákæruvaldið gaf skýrt til kynna að svokallaður mótapóker stangast ekki á við íslensk lög. Áhugamenn um hnefaleika urðu hins vegar fyrir áfalli þegar í ljós kom að ungur afreksmaður í greininni hafði gerst sekur um fólskulega árás á skólafélaga sinn í Sandgerði. Hnefaleikar og pókerspil eiga það þó sameiginlegt að talsverður styr hefur lengi staðið um greinarnar, enda lítt þóknanlegar í augum sumra.

Talsmenn forræðishyggju hafa því beitt sér fyrir því að greinarnar verði alfarið bannaðar með lögum. Rökin eru yfirleitt á þá leið að fólkið í landinu sé hvorki nógu skynsamt né ábyrgt til að umgangast áhættuíþróttir af þeirri varúð sem æskileg er. Því sé það skylda þingmannanna sem betur vita að gæta þjóðarinnar eins og barns í reifum. Eins og ég lýsti áður í pistli hér á síðunni bera þessi viðhorf virðingu ráðamanna fyrir kjósendum sínum afar ófagurt vitni.

Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, dró til að mynda þá víðtæku ályktun af árásinni í Sandgerði að lögleiðing hnefaleika árið 2002 hefðu verið mistök. Hún minntist ekki einu orði á þau hundruð ungmenna sem æfa hnefaleika af hreysti og sýna íþróttinni þá virðingu sem hún á skilið. Í hennar huga trompar eitt ömurlegt jaðartilvik allt það jákvæða sem íþróttin hefur alið af sér.

Þegar áföll ríða yfir og skaði hlýst af, líkt og raunin var með líkamsárásina í Sandgerði, eru það of oft viðbrögð ráðamanna að bregðast við með offorsi – jafnvel þó um einsdæmi sé að ræða. Þegar slíkt viðgengst verður hættan sú að samfélagsgerðin fari að taka mið af öfgum og jaðartilfellum í stað þess eðlilega gildismats sem flest okkar telja sjálfsagt.

Langfæstum finnst ásættanlegt að ráðast á samborgara sína með hnefahöggum, og langfæstum finnst eðlilegt að leggja mikla peninga undir í fjárhættuspilum í von um skyndigróða. Þótt fjárhættuspil geti orðið böl hjá sumum þá réttlætir það ekki heldur að öllum séu þau bönnuð. Lögleiðing eða lögbann pókers eða hnefaleika breytir ekki grunngildum samfélagsins, en það að taka völdin af almenningi um svo smávægileg mál er hins vegar lítilsvirðing við fólk. Þegar stjórnmálamenn koma fram við almenning eins og þeir séu fullorðið fólk að vanda um fyrir börnum þá koma þeir upp um þá hrokafullu afstöðu sem þeir hafa til fólks.


Ekki tími fyrir látalæti

3. mars, 2009

Venjulega snýst stjórnmálabarátta um að frambjóðendur reyna að draga sem greinilegastar línur milli sín og annarra. Þetta verður til þess að átakalínur geta myndast um smávægileg mál ef það er einungis í þeim sem ósætti er að finna. Önnur aðferð stjórnmálamanna er afbaka stefnu annarra til þess að láta líta út fyrir að ósætti sé um hluti sem menn eru raunverulega sammála um.

Dæmi um hið fyrrnefnda er til dæmis rifrildi bandarískra stjórnmálamanna um hvernig bregðast eigi við því tjáningarformi að brenna fánann. Dæmi um hið síðarnefnda er til dæmis tilraunir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins til að gefa til kynna að flokkurinn sé andsnúinn félagslegu öryggisneti þegar bæði málflutningur og aðgerðir flokksins sýna fram á allt annð. Sjálfstæðismenn gerast stundum sekir um sama leik þegar  við gefum til kynna að allir aðrir flokkar vilji ríkisvæða allt atvinnulífið. Staðreyndin er sú að þótt trúin á einkaframtakið sé einörðust meðal sjálfstæðismanna þá hafa flestir aðrir flokkar gert sér grein fyrir því að frjálst og einkarekið atvinnulíf skapar meiri verðmæti og nýjungar heldur en ríkið.

Á næstu misserum megum við Íslendingar ekki við því að láta stjórnmálaumræðuna fara í þannig farveg. Viðfangsefni dagsins eru raunveruleg. Undanfarin ár hafa stjórnmálamenn haft úr svo miklu að moða að deiluefnin hafa nánast einvörðungu snúist um hvernig skipta beri kökunni. Nú þurfum við hins vegar að huga að algjörum grundvallaratriðum – eins og því hvernig við komum þeim fyrirtækjum, sem bankarnir eignast vegna gjaldþrota, aftur í eigu einstaklinga. Líklega eru flestir sammála um að ekki gangi til lengdar að í atvinnulífinu sé allt morandi í ríkisfyrirtækjum sem keppa við einkafyrirtæki. Stjórnmálamenn þurfa að einbeita sér að því að komast að því um hvað þeir eru sammála, en hamast ekki stöðugt við að finna nýja hluti til að rífast um.

Í góðærinu gátu stjórnmálin oft verið lítilfjörleg og það skipti ekki miklu máli. Sá tími er liðinn á Íslandi. Fólk hefur ekki þolinmæði fyrir því ef stjórnmálamenn eru uppteknari við að „spila leikinn“ heldur en að starfa í einlægni við að taka á þeim vandamálum sem eru uppi.


Þá fyrst yrði allt vitlaust

2. mars, 2009

Umræður innan Sjálfstæðisflokksins á vegum endurreisnarnefndarinnar eru líklega opinskárri og hreinskiptnari heldur en margir áttu von á. Sérstaklega held ég að fólki utan Sjálfstæðisflokksins komi á óvart hversu harða gagnrýni þar er að finna á forystu flokksins og margt af því sem flokkurinn ber á ábyrgð á.

Þeirri mynd er gjarnan haldið að fólki að Sjálfstæðisflokkurinn sé sérstaklega ólýðræðislegur og að innan hans séu óþægilegar raddir barðar niður með harðri hendi. Sem betur fer er þetta ekki rétt. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins eru til dæmis virkilega lýðræðisleg samkoma þar sem alls kyns kverúlantar og uppreisnarmenn fá sama svigrúm eins og hinir ráðsettu til þess að tjá sig – og stundum hafa þeir sigur. Fundir eru haldnir í Valhöll nánast daglega og allir sem þangað koma þekkja að þar er yfirleitt ekki verið að skafa af hlutunum. Sjálfur hefði ég ekki þrifist innan Sjálfstæðisflokksins nema vegna þess að ég hef alltaf talið mig geta sagt það sem mér býr í brjósti. Þess vegna finnst mér vera þess virði að vinna innan flokksins að þeim hugsjónum sem ég trúi á.

Þegar þessi umræða stendur sem hæst berast tíðindi af þeirri ráðstöfun Samfylkingarinnar að bjóða fram Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherraefni. Vera má að algjör sátt sé um þetta innan Samfylkingarinnar en allir sannir lýðræðissinnar vita að formreglur lýðræðisins eru kjölfestan í sönnu lýðræði. Umboðslausar ákvarðanir eru ólýðræðislegar jafnvel þótt um þær ríki sátt. Formfestan tryggir rétt kjósenda til þess að gera athugasemdir og hafa áhrif á ákvarðanir. Almennir flokksmenn í Samfylkingunni, jafnvel þeir sem eru sáttir við að Jóhanna sé forsætisráðherraefni, ættu að velta vandlega fyrir sér hvers lags lýðræði það er sem gerir formanni flokksins kleift að framselja leiðtogahlutverk sitt að eigin geðþótta með þessum hætti.

Í Sjálfstæðisflokknum er ég hræddur um að uppi yrði fótur og fit ef eitthvað álíka yrði reynt. Þá fyrst yrði allt vitlaust.