Skál fyrir frelsinu

27. febrúar, 2009

Árvissa skemmtun ber að þann fyrsta mars á ári hverju þegar afmæli bjórsins er fagnað. Fjöldinn allur af fólki safnast fyrir á öldurhúsum um land allt og fær sér einn kaldan af tilefni dagsins. Enn fleiri skemmta sér síðan konunglega við að rifja upp þær umræður sem áttu sér stað í þinginu áður en sala bjórs var heimiluð. Hérna er örlítið brot af því besta:

„Ég óttast að áfengt öl, sérstaklega léttara ölið, geti orðið fyrsta sporið inn á braut vímuefnanna.“
-Steingrímur J. Sigfússon

„En mér dettur í hug það sem Bismarck sagði: Ef þetta mál á að ganga fram, þá er það verra en glæpur. Það er heimska.“
-Sverrir Hermannsson

 Ég hef til viðbótar pólitískar ástæður fyrir því að ég vil ekki standa að breytingum hvorki í áfengismálum né annarsstaðar sem gera fólkið óvirkara og sljórra gagnvart umhverfi sínu. Það tel ég að stóraukin neysla bjórs, jafnvel þó að eitthvað dragi úr neyslu annarra áfengistegunda, muni gera.“
-Steingrímur J. Sigfússon

„Ég bið menn einnig að hugsa um þá fjölmörgu sem liggja á sjúkrahúsum vegna slysa og niðurbrots á öðrum sviðum vegna áfengisneyslu og hugsa til þess að verði þetta bjórfrv. samþykkt hefjast hér nýir tímar sem verða áreiðanlega til skaða fyrir þjóðina, fyrir heimilin, fyrir hvern einasta einstakling sem hér lifir.“
-Karl Steinar Guðnason

Okkur sem alist hafa upp að mestu eftir að sala bjórs var heimiluð finnst þessi umræða auðvitað æði skrautleg. Að á þingi hafi setið fólk sem taldi í fullri alvöru að áfengt öl gæti spillt þjóðfélaginu á þann veg að hér yrðu einhverskonar tímamót sem yrðu til skaða fyrir þjóðina alla. Það var og.

Þó flestir hlæi að þessum ummælum nú tuttugu árum eftir að þau voru látin falla, þá birtast í þeim sjónarmið sem enn eru uppi í stjórnmálum nútímans; að hópur þingmanna sé betur til þess fallinn að taka ákvarðanir sem varða einstaklinginn en hann sjálfur. Að fólkið í þjóðfélaginu hafi ekki þá skynsemi að bera til að axla ábyrgð á frelsinu sem því er veitt og taka ákvarðanir fyrir sjálft sig. Slík sjónarmið bera virðingu ráðamanna fyrir kjósendum sínum fremur ófagurt vitni.

Það er því full ástæða til að skála ekki aðeins fyrir tvítugsafmæli bjórsins um helgina, heldur einnig fyrir því að sjónarmið frelsis og virðingar fyrir einstaklingnum hafi sigrað forræðishyggju og ofsahræðslu ráðamanna fyrir tuttugu árum síðan. Ég vona að sú sigurganga haldi áfram. Skál!


Ísland til sölu?

25. febrúar, 2009

Ýmsar hugmyndir hafa vaknað eftir hrun bankanna um hvernig unnt sé að endurheimta traust alþjóðlegra fjárfesta á Íslandi. Þetta er auðvitað mikið verkefni enda er ljóst að erlendar bankastofnanir hafa tapað mjög miklu á hruni bankanna. Lausn Íslendinga fólst í því að klippa algjörlega á þessar skuldir og veita erlendu kröfuhöfunum rétt til þess að sækja í þrotabú erlendu hluta bankanna. Vitaskuld hefur þetta valdið gremju og deilum hjá þessum erlendu kröfuhöfum, sem eiga yfir tíu þúsund milljarða króna hagsmuna að gæta í þessu efni. Hins vegar má segja að Íslendingar hafi gripið til neyðarréttar því umfang vandans sem hér varð í haust er sennilega einsdæmi á friðartímum. Helsta markmiðið stjórnvalda við þær aðstæður var að standa vörð um hagsmuni Íslendinga og tryggja að daglegt líf færi sem minnst úr skorðum vegna hruns fjármálakerfisins.

Hugmyndir um að afhenda erlendum kröfuhöfum hlut í íslensku bönkunum, væntanlega fyrst og fremst eigendum verðlausra skuldabréfa í bönkunum, hafa verið töluvert í umræðunni um hríð. Kosturinn við þá aðgerð er talin vera að róa þennan hóp og koma hugsanlega í veg fyrir ýmis málaferli sem óhjákvæmilega kunna að hljótast af setningu neyðarlaganna í haust. En þessi aðferð hefur einnig ókosti í för með sér. Helsti gallinn er sá að með slíkri aðgerð er hætt við að þar með væri verið að færa erlendum aðilum mikil ítök í nánast öllu íslensku atvinnulífi – því staða íslenskra fyrirtækja er svo slæm um þessar mundir að flest þeirra eru nánast á forræði bankanna.

Þar sem hagsmunir Íslendinga af því að halda eignarhaldi á íslensku atvinnulífi eru gríðarlegir kemur ekki til greina að afhenda hinum erlendu kröfuhöfum ráðandi hlut í íslensku bönkunum. Það kann hins vegar að koma til greina að nota mögulega hlutdeild í bönkunum til þess að greiða fyrir því að skapa frið um alþjóðleg viðskipti Íslendinga. Þó bera að hafa í huga að gríðarlega miklar breytingar eru að verða á fjármálakerfi heimsins og í því umróti væri best ef erlendir kröfuhafar sættu sig við að það áhættufé sem þeir lögðu í alþjóðlega starfsemi íslensku bankanna sé glatað.

Það hlýtur að vera markmið okkar að tryggja sem fyrst nægilegan stöðugleika til þess að verðmætasköpun og eignamyndun standi undir þeirri fjárfestingu sem hér er og að Íslendingar geti eignast og byggt upp lífvænleg fyrirtæki. Þá geta Íslendingar aftur keypt þau fyrirtæki sem nú hafa fallið í hendur ríkisins í gegnum ríkisbankana. Það er óásættanlegt ef íslenskar eignir verða seldar erlendum fjárfestum á brunaútsölu vegna seinagangs við að koma bankakerfinu aftur í starfhæft ástand.


Hringekjur í bönkunum

24. febrúar, 2009

Eitt af því erfiðasta sem fólk gerir er að horfast í augu við eigin mistök, sérstaklega mistök sem valda öðrum tjóni. Margir eru í þeim sporum nú að standa andspænis því að margt sem þeir trúðu staðfastlega hafi verið byggt á sandi. Eigendur fyrirtækja telja sig eflaust marga vera illa svikna af ráðleggingum bankanna um erlend lán og skuldsettar yfirtökur eða auknar lántökur. Að sama skapi hlýtur að vera erfitt fyrir starfsmenn bankanna að taka yfirvegaðar og kaldar ákvarðanir þegar málin snerta þeirra eigin ráðleggingar og tilhneigingin að reyna að reyna að redda vonlausum málum er líklega sterk hjá mörgum.

Af þessum sökum ættu bankarnir að leggja sérstaka áherslu á að tryggja að þeir sem hafa átt í löngu sambandi við ákveðna kúnna þurfi ekki að eiga við sömu mál nú þegar efnahagskerfið er vægast sagt breytt frá því sem var fyrir nokkrum misserum. Þetta er bæði starfsmönnunum sjálfum og viðskiptavinum bankanna fyrir bestu – en umfram allt væri það fallið til þess að draga úr því tjóni sem efnahagshrunið hefur valdið.

Reyndar veit ég til þess að ýmislegt hefur þegar verið gert til þess að draga úr þessum vanda en málið er að eftirlit getur aldrei komið í staðinn fyrir traust. Þess vegna yrði það til þess að auka hraða í bankakerfinu ef stjórnendur og eigendur bankanna gætu treyst því að starfsmenn væru ekki tilfinningalega tengdir þeim verkefnum sem þeir þurfa að sjá um.

Til þess að draga úr áhrifum þessa hefur mér dottið í hug að starfsmenn bankanna, sem unnið hafa að fyrirtækjaútlánum, verði fluttir til í starfi. Annað hvort innan bankanna eða milli bankanna og gætu þar með komið að málum án þess að bera þann bagga að finnast þeir hafa átt þátt í því hversu illa er komið fyrir tilteknum fyrirtækjum. Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það bæti ákvarðanatöku í bönkum ef starfsmönnum í útlánadeildum er róterað með þessum hætti. Þetta kemur meðal annars fram í rannsókn þriggja hagfræðinga í Bandaríkjunum sem hægt er að nálgast hér.

Ekki verður ráðið við mannlegt eðli. Það er hlutverk þeirra sem fara með völd að sníða stjórnskipun og kerfi þannig að vankantar okkar valdi ekki of miklum skaða. Það er ekki við einstaklingana að sakast þótt þeir eigi erfitt með að slíta sig tilfinningalega frá verkefnum sem þeim þykir vænt um  - en yfirveguð ákvarðanataka er samt sem áður nauðsynleg, ekki síst við aðstæður eins og núna þegar mikil verðmæti eru í hættu.


Fullkomið gagnsæi í Hugmyndaráðuneytinu

22. febrúar, 2009

Hjálmar Gíslason, frumkvöðull hjá Datamarket, flutti vægast sagt áhugaverðan fyrirlestur hjá Hugmyndaráðuneytinu í gær. Í raun var þetta töluverð uppljómun því honum tókst að setja fram á einstaklega skýran hátt hugmyndir sínar um fullkomið gagnsæi í viðskiptum og stjórnsýslu. Eins og ég fjallaði um í síðasta bloggi er gagnsæi einmitt ein grundvallarforsenda þess að markaðsskipulagið sé réttlátt og hagkvæmt.

Meðal þess sem kom fram hjá honum er sú staðreynd að reglur um upplýsingagjöf á markaði eru settar fyrir mörgum áratugum og miðast við tækni sem kemst ekki nálægt því sem við búum við í dag. Þetta er sambærilegt við að hraðatakmarkanir á vegum væru ennþá miðaðar við hestvagna. Nú ættu fyrirtæki nánast að geta gefið upp rauntímaupplýsingar um stöðu sína þannig að fjárfestar, starfsmenn og hugsanlega viðskiptavinir hefðu sem fullkomnastar upplýsingar um allt ástand fyrirtækisins. Þar með væri mögulegt fyrir viðkomandi aðila að taka raunverulega upplýstar ákvarðanir.

Þessar hugmyndir eru róttækar miðað við núverandi fyrirkomulag og því sem fólk hefur vanist. Líklega finnst mörgum sem rekið hafa fyrirtæki það vera óþægileg tilhugsun að hleypa hverjum sem er í allar mögulegar upplýsingar sem snúa að rekstrinum. Það eru ekki skrýtin fyrstu viðbrögð, enda gengur margt á í fyrirtækjum sem ekki er venja að bera á borð almennings. Ef öll fyrirtæki fylgdu hins vegar sambærilegum gagnsæisreglum er þó víst að venjulegt fyrirtæki, sem stendur í eðlilegum rekstri, þarf ekki að óttast hvernig hlutirnir líti út. Ef fyrirtæki óttast að skapa vantraust eða taugaveiklun með að gefa út vondar fréttir eða upplýsingar sem benda til veikleika, þá myndi slíkt lagast ef allir fylgdu sömu reglum því smám saman myndu menn venjast þeirri hugsun að öll fyrirtæki þurfa að glíma við bakslög í rekstrinum og að engin ástæða er til að fara af hjörunum yfir því. Þannig myndi færri vandamálum verða sópað undir teppi – en slík vinnubrögð eru sennilega stór hluti af þeim vanda sem kominn er upp í fjármálakerfi heimsins.

Kreppan í heiminum býður upp á tækifæri ti að skapa betra umhverfi í fyrirtækjarekstri og stjórnsýslu. Ef okkur tekst að stýra þróuninni í rétta átt þá verður hægt að byggja upp heilbrigðara efnhagslíf.


Frjálshyggja og feluleikir

20. febrúar, 2009

Rökin fyrir yfirburðum frjáls markaðar eru kennd í hagfræði og þeir eru fáir hagfræðingarnir sem efast um að almennt séð þá sé frjáls markaður heppilegasta þjóðskipulagið til þess að skapa efnahagsleg verðmæti. Frjálshyggjumönnum finnst hins vegar frelsið vera réttindi í sjálfu sér og myndu styðja frjálst þjóðskipulag jafnvel þótt hægt væri að sýna fram á að unnt væri að framleiða meiri efnhagsleg verðmæti með öðrum hætti. Frjálshyggjan snýst nefnilega ekki um peninga heldur um mannréttindi.

Til þess að frjálst markaðshagkerfi sé í senn réttlátt og hagkvæmt þurfa að koma til nokkur skilyrði. Eitt þeirra er jafnt aðgengi að upplýsingum. Þetta er í raun augljóst því ef mikill munur er á aðgengi fólks á upplýsingum þá skapast hætta á því að einhverjir geti níðst á viðskiptafélögum sínum í krafti þess. Sem betur fer þýðir þetta ekki að allir þurfi að vita allt um alla – flestar upplýsingar, til dæmis um gæði vöru og áreiðanleika, ættu að endurspeglast í verðinu. En þegar um mjög flókna vöru er að ræða, eins og hlutabréf og fleiri fjármálagjörninga, þá er enn mikilvægara að tryggja að allar upplýsingar liggi fyrir og að hagsmunaaðilar geti ekki blekkt almenning eða fegrað stöðu sína um of. Um margt má segja að þetta hafi brugðist nú. Fjármálafyrirtæki heimsins hafa farið í feluleiki á síðustu árum og eftir sitja fjárfestar og almenningur með sárt ennið.

Margt í þjóðskipulaginu þarfnast þess vegna endurskoðunar. Þetta á við um heim allan – ekki bara á Íslandi. Fyrirtæki, ekki síst fjármálastofnanir, hafa getað gengið á lagið gagnvart almenningi en flest höfum við látið okkur fátt um finnast, því efnislegi ábatinn hefur virst svo mikill. Það er mannlegt eðli að spyrja lítið hvaðan gott kemur, en orðatiltækið „If it looks too good to be true, it probably is“ sannar sig oftast á endanum.

Það er erfitt að gera sér almennilega grein fyrir umfangi þeirra efnahagsbreytinga sem nú eru að verða í heiminum. Tölurnar eru miklu hærri en mögulegt er að átta sig á og velta í tilvikum flestra landa í kringum okkar dágóðum hluta af landsframleiðslu. Útgjöld ríkissjóða nágrannalandanna eru gríðarleg og alls ekki er víst að þau muni skila sér til baka, enda á enn eftir að sjá fyrir endann á þegar skuldafyllerí síðustu ára verður gert upp. Þá skiptir miklu máli að vandamálin séu rétt skilgreind og að við ruglum ekki saman einkennum vandans og orsök hans. Afleiðingar sem við horfum upp á eru dæmi um þegar rof verður milli ábyrgðar og ábata – menn uppskera meira en þeir sá um langa hríð en eyðileggja með áfergju sinni akurinn. Verkefnið núna er að koma þjóðfélagsskipulagi markaðsfrelsis aftur í eðlilegt horf.

Skortur á opinberum eftirlitsstofnunum er ekki ástæða þess hversu illa er komið fyrir í fjármálakerfi heimsins. Þær eru vitaskuld nauðsynlegar og þurfa að vera öflugar. Ástæðan er sú að hið ótrúlega víðfema og yfirgripsmikla regluverk sem gildir um fjármálamarkaði um allan heim hefur í raun veitt fyrirtækjum skjól og tækifæri til þess að vera í feluleik með starfsemi sína. Með því að beita fyrir sig flóknum reiknikúnstum og lagaklækjum hafa fyrirtæki komist hjá því – á fullkomlega löglegan hátt þá – að bera á borð fyrir almenning þær upplýsingar sem raunverulega skipta máli.

Feluleikur með upplýsingar er mikið mein á frjálsum markaði. Verkefni stjórnmálanna nú er að standa vörð um frjálst markaðsskipulag en til þess þarf að gæta að því að nægilega sterkir hagsmunir og skýrar reglur gildi til þess að tryggt sé að fyrirtæki á markaði og fjármálafyrirtæki geti ekki gefið upp kolranga mynd af þeirri áhættu sem þau taka á kostnað hluthafa og skattgreiðenda.


Erfiðir tímar og atvinnuþref

19. febrúar, 2009

Ljóðlínurnar úr Maístjörnunni eftir Halldór Laxness, sem ég vísa til að ofan, hafa líkega ekki haft beina skírskotun til minnar kynslóðar áður. Fólk á mínu reki (ég er 32 ára) hefur hingað til lifað við kjöraðstæður þar sem nær allir hafa getað fengið góða vinnu sem í senn hefur séð fólki farborða og fólk hefur leyft sér að gera líka kröfu um að vinna sé skemmtileg og veiti jafnvel lífsfyllingu. Hingað til hafa erfiðir tímar hjá þessum lánsömu kynslóðum sennilega falist í því að þurfa að bíða eftir að nýi bíllinn þeirra komi í umboðið og atvinnuþrefið helst staðið um að velja á milli margra góðra möguleika.

Nú er þessu háttað öðruvísi. Mörg símtöl mín við vini mína hefjast á umræðum um hvort þeir hafi misst vinnu, og það er algengt í kringum mig að vel menntað, duglegt og hæfileikaríkt fólk gangi um án atvinnu. Flestir vina minna hafa reyndar verið skynsamir og/eða heppnir á síðustu árum og ekki reist sér hurðarás um öxl í fjármálum eða orðið fyrir óvæntum skakkaföllum. Engu að síður eru margir kvíðnir.

Það er heldur ekki langt síðan það hefði þótt dularfullt ef fullfrískur maður hefði ekki vinnu á Íslandi. Nú er það skyndilega breytt. Að sama skapi munu viðhorf til fjárhagserfiðleika og gjaldþrots breytast á næstu misserum. Ég get ímyndað mér að þegar ég frétti af því að einhver vinur minn sé gjaldþrota á næstu árum muni það aldrei hvarfla að mér að viðkomandi hafi verið glanni eða óráðsíumaður. Aðstæðurnar munu einfaldlega breyta viðhorfum þjóðarinnar til hvors tveggja – tímabundins atvinnuleysis og fjárhagserfiðleika.

Ef við berum gæfu til þess að skapa fyrirtækjum lífvænleg skilyrði til vaxtar þá geta þessar aðstæður leitt af sér ný tækifæri. Spennandi fyrirtæki geta nú náð í mikinn fjölda úrvalsstarfsmanna á eðlilegri launum heldur en verið hefur á meðan bankarnir skekktu markaðinn.

Vandinn núna er hins vegar að bankarnir eru í ríkiseigu og mjög erfitt er fyrir starfsmenn og stjórnendur að veita nýjum fyrirtækjum og hugmyndum brautargengi með lánafyrirgreiðslu og ráðgjöf. Þetta er vægast sagt bagalegt – og í raun það sem mikilvægast er að breyta svo við komum fótunum undir okkur á ný. Mikil hætta er á því nú að stjórnmálamenn komist upp með að reyna að gera ríkið, eða ríkisstofnanir, að útunganarstöðvum fyrir nýsköpun og ný atvinnutækifæri. Atvinnulíf sem byggist upp á slíkum forsendum er ekki líklegt til að standast samkeppni til langframa.

Mér varð hugsað til greinar sem ég skrifaði á Deigluna fyrir nokkrum árum um tilraunir evrópskra stjórnmálamanna til að skapa mótvægi við Google á leitarvélamarkaðnum. Þar segir m.a.:

Reyndar sagði einn frumkvöðullinn að líkurnar á því að Evrópumenn smíði samkeppnishæfa leitarvél hafi minnkað en ekki aukist við að Frakkland og Þýskland dæli tugmilljörðum af opinberu fé í Quearo verkefnið. Ástæðan er sú að framþróun í tölvuheiminum treystir ógjarnan á mikla fjárfestingu í upphafi. Yfirleitt eru það nokkrir áhugasamir krakkar með sæmilegan tölvubúnað, nóg af hyggjuviti, fullt af pizzum og kóki, sem breyta heiminum. En þegar stjórnmálamenn í stórveldum ákveða að gerast hugmyndafræðingar nýsköpunar er voðinn vís. Ekki einasta er líklegast að þeir muni tapa samkeppninni heldur dregur framtak á borð við Quaero úr líkum á því að vösk smáfyrirtæki nái að afla sér rekstrartekna.

Þetta held ég að við þurfum að hafa í huga nú þegar fólk vill sjá hraðvirkar og stórvirkar lausnir við þeim vanda sem uppi er. Lausnir sem byggjast á því að stjórnmálamenn fari of nálægt fjármögnun fyrirtækja er ekki rétta leiðin. Uppruni verðmæta í samfélaginu er hjá einstaklingunum og í atorku þeirra. Rekstur sem stofnað er til í krafti niðurgreiðslu, styrkja eða annarrar forgjafar er ekki líklegri til þess að standast í samkeppni heldur en sá rekstur sem stofnendur þurfa að berjast fyrir á að koma á fót á frjálsum markaði – ekki síst þegar erfiðleikar eru uppi. Enda hefur sagan sýnt að niðursveiflur og kreppur geta verið kjörtími til að byggja upp stöndug fyrirtæki.


Prófkjörsblogg

18. febrúar, 2009

Það er auðvitað engin tilviljun að ég opni þetta blogg nú skömmu fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Rúm vika er síðan ég tilkynnti að ég ætla mér að taka þátt í því og mun óska eftir 4. sæti í prófkjörinu. Það þýðir í raun að ég óska eftir að vera í öðru sæti á öðrum hvorum lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Svona ákvörðun felur í sér að maður vilji koma hugsunum sínum og hugðarefnum á framfæri og á síðustu misserum hefur Eyjan orðið helsti vettvangur pólitískrar umræðu á netinu. Ég er því mjög þakklátur að fá að koma inn á þennan vettvang – og ætla sannarlega ekki að takmarka skrif mín við þennan stutta tíma sem er fram að prófkjörinu.

Það er þörf fyrir breytingar á Íslandi. Sérstaklega tel ég mikla þörf á því að þjóðin losni við þá heift sem alltof oft einkennir stjórnmál á Íslandi. Við þær aðstæður sem nú eru uppi höfum við ekki tíma til þess að vera í þykjustuleik og persónulegum kítingum. Alþingi á ekki að vera vettvangur fyrir málfundaræfingar. Ég held að þjóðin hafi ákaflega litla þolinmæði fyrir slíku.

Eðli máls samkvæmt er líklegt að uppistaðan í skrifum mínum tengist stjórnmálaáhuga mínum með einum eða öðrum hætti. Það verður þó ekki algjör einstefna. Mér finnst skemmtilegast að lesa blogg þar sem fjallað er á frjálslegan og hispurslausan hátt um sem fjölbreyttasta þætti samfélagsins  og þess vegna ætla ég að skrifa um hvaðeina sem vekur áhuga minn.

Samhliða prófkjörinu hef ég opnað síðuna thorlindur.is sem er framboðssíða mín og þar mun ég setja inn þessa pistla sem birtast hér og ýmislegt annað.