Miðvikudagur 10.5.2017 - 23:14 - FB ummæli ()

Heilbrigðiskerfið á krossgötum

Menn fara mikinn núna á síðustu vikum um hin ýmsu  mál í tengslum við heilbrigðiskerfið, einkarekstur, einkasjúkrahús, Landspítala á heljarþröm og heilsugæslu í vanda. Lítið nýtt að frétta, meira og minna skotgrafahernaður og yfirlýsingagleði bæði rökstudd sem og ekki. Sjaldan hefur eitt fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum fengið jafn mikla umfjöllun og hin umtalaða Klíník í Ármúlanum, fín auglýsing þrátt fyrir erfiða umræðu. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða framtíðarskipulag mála og komast vonandi að niðurstöðu í framhaldi, ofangreint er líklega eitt form af slíku. Hagsmunir sjúklinga hljóta að vera í fyrirrúmi og að þeir upplifi að sú þjónusta sem þeim er veitt sé góð, hagkvæm og í takti við væntingar greiðandans sem getur verið einstaklingurinn sjálfur, ríkið eða báðir sameiginlega. Það væri kannski fyrsta skrefið að skilgreina það betur en verið hefur og byrja á réttum enda. Ekki kvarta og kveina yfir því ástandi sem nú ríkir í heilbrigðiskerfinu vitandi vits að menn hafa hreinlega gert uppá bak í því að tækla framtíðarvanda þess líkt og öldrun þjóðarinnar, mönnunarvanda heilbrigðisstétta og að skilgreina betur en gert hefur verið hver geri hvað í heilbrigðisþjónustunni og láti þá fé fylgja þeim áætlunum. Þar eru pólitíkin, fagfélög heilbrigðisstétta, þjónustuaðilar, eftirlitsaðilar og kaupendur heilbrigðisþjónustu ekki að tala nægilega saman svo vel sé og allir eiga sína sök. Lögum það og komumst uppúr þessum skotgröfum, sá sem líður fyrir þrasið er sjúklingurinn, hann á að vera í öndvegi, en gleymist æði oft því miður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.4.2017 - 23:44 - FB ummæli ()

Ekki hlustað

Niðurstöður úr skýrslu Ríkisendurskoðunar eru um margt áhugaverðar. Það kemur svosem ekki á óvart að það sé eitt og annað gagnrýnt.   Það sem stingur þó óneitanlega í stúf er það að í skýrslu sömu stofnunar 15 árum fyrr eru tíunduð sömu vandamál að stórum hluta og eru enn til staðar í dag. Strútshegðunarmynstur stjórnmálamanna og þá einnig í þessu tilviki stjórnenda heilsugæslunnar virðist töluvert og raunar algerlega ámælisvert að það séu liðin 15 ár og Ríkisendurskoðun beini sömu tilmælum enn og aftur og ítrekar þau. Það er greinilega ekki hlustað, amk ekki nægjanlega né brugðist við. Er nema von að kerfið hafi ekki funkerað ??

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.4.2017 - 10:54 - FB ummæli ()

Öldrunarþjónusta, hvernig á að leysa vandann?

Við heyrum nær daglega fréttir af því að það gangi erfiðlega að útskrifa aldraða sjúklinga sem eru búnir að ljúka meðferð á Landspítala. Orðið fráflæðivandi er oft notað í þessu samhengi. Þar er verið að vísa til þess að það vantar pláss og úrræði í öldrunarþjónustunni til að taka við þessum einstaklingum. Fyrir utan þennan vanda Landspítala eru fjölmargir aldraðir einstaklingar sem eru í þörf fyrir slík úrræði fastir heima hjá sér. Aukin heimahjúkrun og þjónusta í heimahúsi er liður í því að draga úr slíkri þörf, sem er vel en betur má ef duga skal. Við vitum að vandinn er ekki að leysast nógu hratt, nýtt sjúkrahús verður ekki plássmeira en það gamla, rúmum fjölgar lítið sem ekkert og áætlanir gera ráð fyrir árinu 2023 eða síðar í fullri notkun. Við höfum ekki þann tíma og vandinn verður áfram til staðar nema tekið verði af skarið í uppbyggingu í öldrunargeiranum. Við heyrum af nýjum hjúkrunarheimilum, en það tekur mörg ár að byggja þau og jafnvel þegar þau verða komin í fullan rekstur duga þau ekki til að leysa þann vanda sem við glímum þegar við. Of fá pláss eru skipulögð inn í allra næstu ár. Þarna kemur bersýnilega í ljós strútshegðun stjórnmálamanna. Ég átta mig vel á þvi að það eru alltaf einhverjir sem vilja meira fé til sinna málaflokka, heilbrigðismálin voru sett á oddinn í síðustu kosningum en við erum ekki að sjá efndir þeirra loforða ennþá því miður. Tökum Vaðlaheiðargöng sem hluta af kolrangri forgangsröðun fjármuna, nokkur hjúkrunarheimili þar í fjárveitingum svo dæmi séu tekin. Þá má spyrja hvort það séu til leiðir til að leysa úr þessu, eflaust klóra menn sér í hausnum í ráðuneytinu með það, en ég ætla að leggja til grundvallarbreytingu í öldrunarþjónustu. Í stað þess kerfis sem við fylgjum í dag sem byggir á greiðslum til hjúkrunarheimila og stofnana vegna þeirra skilgreindu plássa sem þau reka ætti að skilgreina að fé fylgi sjúklingi. Hjúkrunarheimili í dag hvort heldur sem þau eru rekin af sveitarfélagi, sjálfseignarstofnun eða einkaaðilum búa öll við það að þeim er ómögulegt að stækka eða bæta þjónustuna þar sem þau eru á því sem næst föstum ramma fjárveitinga. Mun eðlilegra væri að fjármunirnir fylgdu sjúklingnum og þeirri þörf sem hann er skilgreindur með líkt og er núna í heilsugæslunni. Þannig myndi vandinn að vissu leyti leysast að sjálfu sér. Það yrði þá hvati til staðar að búa svo í haginn að einstaklingar þyrftu ekki að bíða jafnvel mánuðum saman eftir eðlilegri þjónustu. Landspítali myndi geta útskrifað sjúklinga með eðlilegum hætti og flæði þeirra væri tryggt. Nú þegar liggur fyrir rammasamningur um þessa þjónustu, búið er að skilgreina verð, umfang og eftirlitið. Ráðherra ber einn ákvörðun um að opna inn á þann samning, sem ekki hefur verið gert fyrir neinn af ofangreindum rekstraraðilum. Það er því dagljóst að það er pólitísk ákvörðun að láta sjúklinga liggja á göngum Landspítala. Búið er að bjóða margar lausnir á vandanum en allar verið daufheyrðar í raun og ekki er búið að ná utan um vandann ennþá. Sú ákvörðun að láta fé fylgja sjúklingi samanber í heilsugæslu væri líklega best til þess fallin að bæði bæta aðgengi aldraðra að eðlilegri þjónustu hvort heldur sem það væri á hjúkrunarheimili eða í heimahúsi. Hinn aldraði og fjölskylda hans myndi stýra að vissu leyti þeirri þjónustu sem viðkomandi yrði veitt og það væri samkeppni um að þjónusta hann og tryggt að úrræði væru í boði. Núverandi ástand gengur ekki lengur, kostnaðurinn við hvern aldraðan er þekkt stærð, hún fer ekki neitt. Það að láta sjúklingana liggja á göngum Landspítala eða í heimahúsi með mjög skerta getu og tilheyrandi vinnutapi ættingja við að sinna umönnum er algerlega óviðunandi ástand og mun dýrara en að bjóða þeim í úrræði við hæfi. Stjórnmálamenn með heilbrigðisráðherra fremstan í flokki þurfa að breyta þessu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.4.2017 - 10:40 - FB ummæli ()

Óbragð sætuefnanna

Það er vel þekkt að nota sætuefni til að bragðbæta matvæli og sérstaklega til að minnka sykurinnihald. Því hefur verið haldið fram að með því sé verið að gera betur en með hinum hefbundna sykri sem hefur auðvitað verið bölvað í hástert á undanförnum árum. Fituskerðing matvæla og að bragðbæta með gerviefnum virðist þó vera að koma illilega í bakið á okkur hvað varðar lífsstílssjúkdómana. Nýlegar rannsóknir gefa tilefni til að halda að efnaskiptavandi jafnvel aukist við notkun sætuefna. Vísindamenn við háskólann í Washington vilja meina að notkun þeirra auki fremur en hitt fitusöfnun og hafa sýnt fram á það með rannsóknum. Vitanlega þarf fleiri rannsóknir til staðfestingar en segja má að reynist þetta á rökum reist skapi diet drykkir og gervisæta fremur vanda en að leysa hann. Þannig að ef maður slettir á unglingamál er það vitanlega „sjúklega hallærislegt“ að fitna af því að drekka eða neyta vöru sem eru notuð sætuefni í, þar er algert öfugmæli í markaðssetningunni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.4.2017 - 23:23 - FB ummæli ()

Matseðill í stað lyfseðils

Það hefur verið gríðarlega mikil umræða um mataræði á síðustu árum í tengslum við heilsu og heilbrigði. Þá ekki síst þegar verið er að ræða svokallaða lífsstílssjúkdóma og vitum við að það getur skipt sköpum hvers konar fæðu einstaklingar taka til sín. Margvísleg æði hafa gripið um sig og kúrar sem fólk hleypur á eftir og nær mismiklum eða jafnvel engum árangri koma og fara. Sumir ganga í endurnýjun lífdaga og það mataræði sem hefur undanfarið fengið mesta athygli er einmitt að hluta til í slíku ferli og kallast lág-kolvetna, há-fitu mataræði (LCHF = Low Carb High Fat). Heilmikið er enn rifist um það sem og önnur viðlíka, má segja að líklega eru ekki enn öll kurl komin til grafar og til að gæta sanngirni eru fræðimenn á öndverðum meiði. Leiðbeiningar hafa ekki breyst svo mikið og klóra menn sér í hausnum og vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga með að gefa ráðleggingar til sjúklinga sinna. Ég er sannfærður um það að ekki er ein lausn á þessum vanda og að einstaklingsbundin nálgun hljóti að verða niðurstaðan í framtíðinni. Til þess þurfum við nákvæmari mælingar, genaprófíl einstaklings, þarmaflóru hans og sitthvað fleira sem gerir stöðuna flókna en spennandi um leið. Ég er viss um það að við munum koma okkur saman  um það að nota aðrar aðferðir en við höfum gert hingað til. Ein af þeim nýjungum í meðferð sjúklinga mun verða matseðill í stað lyfseðils. Vísindaleg nálgun á einstaklinginn um það hvernig honum geti farnast best, ekki one size fits all nálgun. Það er alveg ljóst í mínum huga að ekki frekar en að sömu lyfjaskammtar dugi jafn vel fyrir alla, eða skilgreind þjálfun skili jafn miklum árangri fyrir alla, þá hentar ekki sama mataræði öllum. Það ætti því að vinna hörðum höndum að því að þróa matseðil líkt og hreyfiseðil eða hinn gamla lyfseðil sem meðferðarmöguleika og form í læknisþjónustu framtíðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.3.2017 - 15:47 - FB ummæli ()

Eyjublogg

Jæja, viti menn, nú er ég farinn að skrifa blogg hér á Eyjunni. Hef nú reyndar ritað nokkra pistlana í gegnum tíðina hingað og þangað. Nú vil ég gjarnan breyta aðeins til og hafa tækifæri til að ræða jafnvel málefni eða það sem brennur þá og þegar. Heilbrigðispólitík og heilbrigðisþjónustan eru mér augljóslega hugleikin sem lækni, ekki síður en ýmis önnur málefni. Það verður gaman að taka þátt í þessum vettvangi. Þakka ykkur fyrir að fylgjast með..

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is