Fimmtudagur 22.6.2017 - 17:14 - Lokað fyrir ummæli

Tíu þúsund krónur

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Már Guðmundsson með tíuþúsund krónu seðil

Fjármálaráðherra er frjór hugmynda. Nýleg hugdetta hans til að halda aftur af skattaundanskotum á Íslandi er að takmarka notkun á reiðufé og beina viðskiptum í meira mæli til kortafyrirtækja sem í dag geta greint hvort þú sért í yfirvigt eða ekki, hvar þú ert og hvert þú ert að fara. Svo má ekki gleyma þeim sem vilja fá frið á öldurhúsum borgarinnar fyrir óendanlegri eftirlitsþörf kortafyrirtækja, banka og fjölmargra greiningaraðila sem vilja vita hvað við erum að gera.

Þjóðverjar vilja fá frið

Það er þekkt í Þýskalandi þessi umræða um seðla og kort. Þjóðverjar vilja fá frið fyrir yfirvöldum og bönkum þegar kemur að því að eiga í viðskiptum og vilja því fremur nota seðla og mynt en annað. Í dag er enn gefin út 500 evru seðill og það þykir nú ekki há fjárhæð sé miðað við svissnenskan franka en þar er til seðill sem er mun verðmætari og nær því að vera allt að 100.000 krónum að verðmæti.

Þetta snýr ekki endilega að svörtu hagkerfi og að koma í veg fyrir skattaundanskot. Þetta snýr að friðhelgi einkalífs og það á því það sama við okkur hér á Íslandi eins og aðra að við viljum fá frið.

Evrusinninn Benedikt Jóhannesson

 

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra

Hver þekkir ekki til áhuga Benedikts Jóhannessonar á evrunni. Hann vill að Íslendingar taki upp evru. Fyrsta baráttumálið hans verður væntanlega, sæki Ísland einhverntíman um aðild, að fá Evrópusambandið ofan af því að gefa út 500 evru seðilinn.

Mér sýnist sem svo að með þær kröfur að leiðarljósi og áeggjan til samninganefnda Íslands muni aðild að Evrópusambandinu ekki verða að veruleika. Benedikt er því nú með sínu óútreiknanlegu hugarflugi sínu að gera endanlega út af við umsókn að Evrópusambandinu þrátt fyrir allt. Það er vel en eftir stendur að vitlausar hugmyndir, hans hvað framangreint varðar, eru alveg jafn skaðlegar Íslendingum eins og þeim sem innan evrusvæðisins búa. Þær eru einnig alveg jafn heimskulegar.

Lækkum skatta og einföldum kerfið

Í stað þess að pína fólk í að drattast með haug af þúsund krónu seðlum á milli staða og þvinga viðkomandi inn í greiðslufyrirkomulag með símum, kortum eða öðru rafrænu á að lækka skatta. Svo á að tryggja að það sem við borgum í skatta sé algjörlega gagnsætt, þ.e. að við getum séð í hvað fjármunirnir fara. Beinum frekar kröftum okkur að þessum lausnum og einföldun skattkerfisins í stað þess að þvinga fólk til viðskipta við þá sem Benedikt Jóhannessyni þóknast.

Ég vil hafa val. Ég vil fá frið fyrir eftirliti með minni neyslu og hegðan. Ég vil hafa frelsi og er viss um að þú lesandi góður ert á sama máli.

Nýtum tæknina við að einfalda kerfið, gera það gagnsærra, rekjanlegt og skilvirkara. Þá mun fleira fólk borga skatta með glöðu geði rétt eins og ég geri nú þegar í dag.

Hins vegar renna á mann tvær grímur ef hluti þess skattfjár fer í að halda uppi annarri eins opinberri þvælu eins og hæstvirtur fjármálaráðherra hefur nú orðið uppvís að.

 

Flokkar: Hagmál · Siðferði · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 7.6.2017 - 13:02 - Lokað fyrir ummæli

Norska krónan

Íslendingar hafa reynt á það að vinna með nágrönnum sínum varðandi eigin velferð. Á öldum áður endaði það með gífurlegri skattlagninu, óhreinu mjöli og afar lélegri þjónustu t.a.m. varðandi skipaflutninga milli meginlands Evrópu og Íslands. Úr varð að við tókum upp eigin mint og urðum að sjálfstæðri þjóð.

Eftir hrun hins íslenska fjármálkerfis urðu margir ofurspekúlantar til þess að missa vatnið og sjá stjörnur þar sem öngvar voru. Í minningu orða þessara ,,snillinga“ er þessi pistill ritaður.

Þróun norsku krónunnar

Eftir hrun hlustuðu margir á það að í Noregi mætti finna paradís. Þar væri allt fljótandi í olíu og menn hreinlega færu í bað í olíu þegar vel lagi á þeim eftir langa skíðagöngu í fögru landslagi norsku hálandanna, inn í dölum og fjarðarbotnum í þessu fallega nágrannalandi okkar Íslendinga. Þeir sem básúnuðu þetta urðu samt eftir heima og eru enn á ríkisjötunni eða búnir að setja enn eitt dagblaðið í gjaldþrot. Óskaplega minnir þetta vel á vinstri menn er segja ósatt en vita betur.

Hver man ekki eftir SÍA leyniskýrslunum kommanna austan járntjaldsins er sögðu eitt en annað var básúnað hér heima um gjallarhorn til almennings? Það er sami kommaþefurinn er fjaðrar þarna úr sósílalisma sófanum setjist maður í hann.

Þróun norsku krónunnar frá janúar 2013 til júní 2017

Þróun norsku krónunnar frá janúar 2013 til júní 2017

Norska krónan hefur fallið um 50% gagnvart íslensku krónunni frá því sem var fyrir 4 árum. Þetta hefur orðið til þess að hingað heim hafa flutt aftur fjölmargir Íslendingar sem hafa fundið landið sitt á ný og áttað sig á að þetta var bara tómt bull í þessu gengi sem þvældi þeim þangað. Jafnvel íslenskir prestar staðsettir í Noregi hafa vitnað til um hve bágt ástandið var þegar Íslendignar komu til Noregs í leit að paradís eftir hrun. Þeir gerðu oftar en ekki kraftaverk fyrir þetta ágæta fólk þegar í engin hús var að venda.

Tökum upp norska krónu sagði prófessorinn

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands

Í frétt á visir.is má lesa, frá því í miðju hruni 15. október 2008, frétt um yfirlýsingar prófessors við Háskóla Íslands að það borgi sig bara að taka upp norska krónu. Það er óhætt að segja að prófessorar og aðrir hámenntaðir snillingar sem og sjálfskipaðir geta farið á límingunum í miðju hruni svo að ráðherrar fylgdu þar fast á eftir, menn sem áttu að stýra skútunni í öllum atganginum.

Einn þingmaður og þáverandi formaður íslenskra afdankaðra kommúnista, Steingrímur J. Sigfússon síðar fjöldamálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fór og hitti jafnvel að máli Kristínu Halvorsen fjármálaráðherra Noregs og þáverandi formann SV í Noregi en SV er Sósíalíski vinstriflokkurinn þar á bæ. Hann gerði sér þangað erindi er gekk út á að kanna hvort Íslendingar gætu ekki tekið upp norsku krónuna.

Norðmenn losuðu sig svo reyndar við hana Kristínu rétt eins og Íslendingar Steingrím eftir hrun vinstrimanna í kosningum er mældu áhuga almennings á vinstri stefnunni.

Þetta kom fram í frétt á Eyjunni 30. janúar 2009 og þar er vitnað í vinstra öfgadagblaðið Klassekampen með eftirfarandi orðum varðandi Steingrím J. Sigfússon þar sem segir;

…að Steingrímur sé nú að taka við embætti fjármálaráðherra á Íslandi og verði hugsanlega orðinn forsætisráðherra Íslands í vor.

Það var og. Þeir vissu betur enda stjórnaði Steingrímur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur allan tímann og kom öllu í tóma vitleysu, reyndi að koma yfir okkur meiri skuldum en skattborgarar Íslands þoldu og svo að taka upp norska krónu sem var vissulega ein önnur vitleysan úr verkfærakassa þessa völdunarsmiðs vandamálanna.

Kanadadollar eða norska krónan?

Síðar, eftir mikið jaml japl og fuður, komu einhverjir prakkarar af hægri væng stjórnmálanna með hugmyndir um kanadískan dollar en Arion banki opinberaði sig, í eigu erlendra vogunarsjóða nú sem fyrr, og sagðist fremur vilja norska krónu en Kanadadollar. Í frétt á Eyjunni frá 26. mars 2012 var fjallað um þetta upphlaup.

Allar þessar pælingar urðu að sérstökum trúarbrögðum, n.k. smátrúarbrögðum, í íslensku hænsnabúi vinstri hreyfingarinnar á Íslandi. Brúneggjavarpið var óheft á þessum tíma þar til að einn refur kom þar inn og tjáði sig opinberlega að Íslendingar ættu að ganga Noregskonungi á hönd eina ferðinna enn.

Ísland 20. fylki Noregs

Eftir að pistlahöfundur hafði náð að losa sig við starra úr þakskegginu verpti einn vel lúsugur í fésbókina beint fyrir framan nefið á íslenskri þjóð. Veffréttamiðillinn Nútíminn birti frétt um málið á vefsetri sínu 24. júlí 2014 þar sem Gunnar Smári Egilsson viðraði vængi sína með tilheyrandi lúsafaraldri um netheima landsmanna. Í sama mund var hann við það að koma öðru dagblaði á laggirnar sem nú er orðið gjaldþrota rétt eins og kenningar hans um að Ísland yrði að 20. fylki Noregs.

Gunnar Smári Egilsson blaðamaður

Gunnar Smári Egilsson blaðamaður ásamt Krispy Kreme auglýsingu – Mynd afrituð af vef Nútímans

Í kjölfarið á þessari yfirlýsingu fékk þessi maður ómælda athygli vinstrielítu Íslands, var kallaður í hvert viðtalið af fætur öðru á meðan aðrir skynsamari voru látnir sitja heima svo skynsemin kæmist örugglega ekki að. Ríkisfréttamiðillinn RÚV lá þar ekki á liði sínu.

Staðan í dag

Það er óþarfi að fjölyrða meira um framangreint efni nema einna helst með langloku um efnhagslega þróun í Noregi og á Íslandi sem og í Evrópusambandinu. Reyndar má minnast á eina grein í Vísbendingu 9. febrúar 2015 eftir núverandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, þar sem hann spyr hvort Íslendingar ættu að taka upp mynt Kúbu, þ.e. kúbverska pesóan. Þar gantast hann aðeins í trúarbrögðum varðandi kanadadollar og norsku krónuna enda sjálfur áhugamaður um evruna sem fallið hefur gagnvart krónunni um rúm 35% fyrir sama tímabil og hér um getur.

Þessi styrking íslensku krónunnar er afar mikilvæg fyrir íslensk heimili og má ætla að þarna spili inn umtalsverður vöxtur ferðaþjónustunnar. Það yrði hrapaleg þróun ef stjórnvöld ætli að eyðileggja þessa jákvæðu þróun með auknum sköttum enda ferðaiðnaðurinn að koma heimilum landsins vel.

Varðandi sjávarútvegin er hann að þróast hratt og líkur eru á að hann standi styrkingu krónunar með breyttum vinnsluaðferðum, öflugri og skilverkari skipakosti sem og tækni sem mun bæta arðsemi í framleiðslunni. Vissulega mun eitthvað gefa eftir en það eru greinar í sjávarútvegi sem ganga mjög vel þrátt fyrir þessa styrkingu.

Vænta má að vandi Seðlabanka Íslands sé nú að spila úr því sem hann hefur, lækka vexti en þó gæta að langtímasveiflum m.a. varðandi íbúðaverðsþróun, vöxt í byggingariðnaði og samspil þróunar varðandi samneyslu og einkaneyslu. Hið opinbera hefur staðið sig bærilega við að draga saman til að þensla valdi ekki óðaverðbólgu. Mikilvægast er að heimilin, fólkið í landi sjái kaupmátt sinn vaxa í virkri samkeppni og í lágu vaxtaumhverfi til lengri tíma.

Nú er svo komið að við vitum að krónan hefur staðið allt baktalið af sér rétt eins og stjórnarskrá lýðveldsisins Íslands.

Áfram íslensk króna !

Áfram Ísland !

Flokkar: Hagmál · Heimspeki · Sagnfræði · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.5.2017 - 16:21 - Lokað fyrir ummæli

Landsréttur og dómaraval

Um langa hríð hefur verið rætt um mikilvægi þess að koma upp millidómsstigi sem yrði e.k. endurskoðunarskrifstofa dómskerfisins á þeim dómum og úrskurðum héraðsdómdómstólanna sem ætlunin er að áfrýja.

Fjölmargir hafa komið að því að mynda samstöðu um nýtt fyrirkomulag. Allir vilja vanda sig vel, t.a.m. við að brjóta ekki jafnréttislög og hæfisskilyrði. Með því að vanda sig má mynda breiða samstöðu um nýjan dómstól og tryggja trúverðugleika hans.

Lögmenn

Lögmannafélagið og fulltrúar þess, þ.e. þess félag sem virðist enn undanþegið félagafrelsi í landinu, virðist ósátt við að ráðherra telji mikilvægt að fjölga konum í dómnum og fjölga þeim, sem þar munu sitja, sem hafa langa dómarareynslu, t.a.m. í sakamálum.

Það að Lögmannafélagið berjist fyrir sína félagsmenn er ekkert óeðlilegt og gerist slíkt einnig hjá fleiri hagsmunahópum. Hins vegar má ætla að löggjafinn hafi með lögum og reglum varðandi val á dómurum gert ráð fyrir því að fulltrúi skattgreiðenda og kjósenda, kjörinn þingmaður sem og skipaður ráðherra fái eitthvað um málið að segja.

Að auki má benda á að stjórn Lögmannafélagsins eru konur í minnihluta þar sem 3 karlar standa vörð um gömul gildi og einn þeirra umsækjandi um dómarastöðuna en var hafnað af ráðherranum sem valdi konu í dóminn í hans stað.

Val dómnefndar á dómurum

Það vekur sérstaka undrun að dómnefndin, sem valdi þá er hún taldi hæfasta, hafi gert fremur lítið úr reynslu af dómarastörfum og valdi aðeins 15 í 15 sæti. Hefði ekki verið hægt að hafa þá hæfu í valinu fleiri? Þeir sem valdir voru skv. frétt visir.is frá 12. þessa mánaðar:

1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
2. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
3. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
4. Eiríkur Jónsson prófessor, við lagadeild Háskóla Íslands
5. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
6. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstréttardómari
7. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
8. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
9. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
10. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
11. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
12. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
13. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
15. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness

Þetta eru 10 karlar og 5 konur.

Landsréttur verði ekki ,,karlaklúbbur“

Í frétt hjá RÚV á vefnum www.ruv.is frá 24. febrúar á þessu ári kom ákall frá minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar að við val á dómurum, þ.e. í meðförum frumvarps um Landsrétt, yrði þannig ákvarðað í lögum að ekki yrði hætta á að Landsréttur yrði að e.k. ,,karlaklúbb“. Lagði minnihlutinn fram breytingatillögu til að tryggja þetta inn í löggjöfina sem meirihlutinn hafnaði. Í fréttinni segir hvað þetta varðar:

Meirihlutinn fellst ekki á breytingartillöguna en leggur áherslu á að ráðherra hafi jafnt kynjahlutfall að markmiði.

Sé miðað við niðurstöðu dómnefndarinnar má ætla að hún hafi farið talsvert á skjön við álit bæði minni- og meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sé litið til þróun málsins á þinginu á sínum tíma. Dómnefndin virðist hafa talið hæfnina fremur byggjast á kynferði og helst karlmennsku en t.d. dómarareynslu viðkomandi. Sama virðist eiga við um fulltrúa Lögmannafélagsins og væntanlega stjórn þess félags.

Hvað með umboðsvanda í svona málum og siðferði þegar barist er fyrir hagsmunum almennings og aukins trúverðugleika dómskerfisins í heildina varðandi val á dómurum?

Að auki segir í framangreindri frétt:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður allsherjarnefndar segir að meirihluta nefndarinnar hafi ekki þótt ráðlegt að bæta við slíkri málsgrein í dómstólalögin án frekari umsagnar og yfirlegu, þar sem það væri skýrt nú þegar að ráðherra skuli fara að jafnréttislögum ef dómnefnd metur tvo eða fleiri jafn hæfa. „Við ákvörðun ráðherra um skipan dómara leggur meirihluti nefndarinnar áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.“

Það er einmitt svo.

Val ráðherra

Svo virðist sem dómnefndin hafi ekki viljað fara að lögum við val á dómurum við hinn nýja Landsrétt eða að eitthvað hafi verið við erindisbréf nefndarinnar að athuga hvað varðar kynjahlutföll og jafnrétti. Ráðherra er kona og ákvað að nýta rétt sinn skv. lögum til þess ekki aðeins að jafna kynjahlutföllinn heldur einnig að fjölga dómurum með reynslu af dómarastörfum.

 1. Aðalsteinn E. Jónasson,
 2. Arnfríður Einarsdóttir,
 3. Ásmundur Helgason,
 4. Davíð Þór Björgvinsson,
 5. Hervör Þorvaldsdóttir,
 6. Ingveldur Einarsdóttir,
 7. Jóhannes Sigurðsson,
 8. Jón Finnbjörnsson,
 9. Kristbjörg Stephensen,
 10. Oddný Mjöll Arnardóttir,
 11. Ragnheiður Bragadóttir,
 12. Ragnheiður Harðardóttir,
 13. Sigurður Tómas Magnússon,
 14. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,
 15. Þorgeir Ingi Njálsson.

Hér eru 8 karlar og 7 konur. Þarf maður fleiri vitnana við?

Sé litið til hlutfallsins er það a.m.k. mun hagstæðara konum svona en sé litið hlutfall kvenna í stjórn Lögmannafélags Íslands.

Dæmi svo hver fyrir sig.

 

Flokkar: Jafnréttismál · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 9.4.2017 - 01:50 - Lokað fyrir ummæli

Hryðjuverk í Svíþjóð

Í gær ákvað einstaklingur, aðeins einn maður, að tilefni væri til þess að ræna stórri bifreið og aka Dottningagötuna, sem við hjónin eitt sinn gengum upp með ásamt kornungum dætrum okkar eftir að hafa verið í Gamla stan. Markmið þessa manns var að drepa eins marga og kostur var á leið sinni í að sprengja öfluga sprengju sem betur fer sprakk ekki. Þarna dóu of margir og meðal þeirra 11 ára stúlkubarn.

Hvað var þessi maður að gera og hver var tilgangurinn? Þessi maður er í fyrsta lagi að leitast við að kljúfa samstöðu vesturveldanna, samstöðu almennings og þá samstöðu sem við sem þjóðir höfum náð að byggja upp síðustu aldir. Hann er ekki einn um það. Þeir sem fremja þessi hryðjuverk gera það einnig að verkum að samlandar þeirra, saklaust fólk sem býr og er af erlendum uppruna í þessum löndum, t.a.m. á norðurlöndunum, verða fyrir aðkasti. Þeir byggja því einnig upp óeiningu er gerir það að verkum að við viljum sum hver helst hætta að hjálpa öðrum eins og saklausu flóttafólki.

Við eigum að halda áfram með líf okkar og taka fólki fagnandi, fólki sem kemur sjálviljugt og vill búa með okkur sem og þeim sem koma hingað sem flóttamenn og af góðum vilja. Sumir segja hryðjuverkamenn geðveika. Svo er ekki. Þeir geðveiku sem og aðrir sem eru veikir vilja alls ekki gera fólki þetta. Þetta er glæpaverk og það á ekki að sjúkdómsvæða til að gera því skónna að þeir sem fremja slíkan voðaverknað eigi í einhverjum erfiðleikum með að búa með okkur frekar en hver annar og það reki viðkomandi til að fremja voðaverk eins og það að drepa saklausa samborgara sína.

Ég kalla eftir auknu öryggi og forvirkum rannsóknarheimildum til handa íslenskri lögreglu. Einnig kalla ég eftir auknu fjármagni til að flýta fyrir hvers kyns hælisumsóknum og til að tryggja að við veljum rétt og gerum gott, hjálpum. Við eigum einnig að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft heimafyrir t.a.m. með þróunarhjálp. Við Íslendingar erum eftirbátar í því efni og erum alls ekki að uppfylla skuldbindingar okkar í þessum efnum. Það er miður.

Við viljum samhliða stuðla að því að okkar sjúklingar hér heima og aldraðir fái góða umönnun og verðum að tryggja það öryggi sem og almennt öryggi þegna m.a. gegn hryðjuverkum. Til þess arna verðum við að stuðla að því að fjármagn renni í þessa liði og lögreglu svo tryggja megi það sem þessum aðilum er gert að standa vörð um með tilvist sinni, þ.e. öryggi.

Ég vil geta farið aftur til Stokkhólms með fjölskylduna og mun gera það. Þar munum við ganga örugg upp Drottningagötuna frá Gamla stan. Ef við hugsum svona og erum áræðin þá sigrum við. Samhliða mun fjölskyldan ávallt greiða til SOS barnaþorpana og óska þess að íslenska ríkið geri það einnig, þ.e. til þróunarhjálpar og nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar svo áfram verði  hlustað með athygli þegar fulltrúar lands og þjóðar kveða sér hljóðs á erlendum vettvangi.

Guð geymi þá sem létust í Stokkhólmi í gær og styrki þá sem eiga þar nú um sárt að binda.

Flokkar: Siðferði · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

Þriðjudagur 4.4.2017 - 10:50 - Lokað fyrir ummæli

Skattahækkun ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustu

Nýlega kynnti forsætisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, að sú grein sem hefur bjargað fjárhag ríkissjóðs síðustu árin eftir hrun og komið, ásamt öðrum, á þeirri hagsæld sem nú ríkir í landinu yrði skattlögð með því að færa hana úr 11% virðisaukaskatti í 22,5% virðisaukaskatt. Jafnframt fylgi þessari einhliða tilkynningu skýring á því að ætlunin sé að ,,einfalda“ skattkerfið en samt að halda enn áfram með 11% skattþrepið. Ekki er séð að það einfaldi mikið fyrir ferðaþjónustuna í landinu en fulltrúar hennar voru ekki kallaðir að borðinu áður en þetta var ákveðið eða leitað ráðgjafa hjá þeim né umsagna. Þetta eru því frekar slæleg vinnubrögð hjá ríkisstjórn Íslands og það er miður.

Úr því sem komið er virðist sem svo að ekki liggi heldur fyrir í hvað fjármagnið fer sem kemur væntanlega í ríkiskassan vegna þessarar skattahækkunar á eina grein. Ég sé ekki að ætlunin sé að hækka skatta eða veiðigjöld á sjávarútveginn samhliða þessum aðgerðum en báðar þessar greinar eru mikilvægar útflutningsgreinar og mega þola talsverða erfiðleika eftir að krónan styrktist. Hvers vegna stendur Sjálfstæðisflokkurinn að skattahækkunum aðeins á ferðamannaiðnaðinn?

Líkur eru á því að ferðaiðnaðurinn hafi ekki staðið eins vel saman og samtök sjávarútvegsfyrirtækja og eigi ekki hauka í horni eins og sá iðnaður allur sem er rótgróinn. Sjálfur er ég á móti skattahækkunum almennt og vil ekki sjá að Sjálfstæðisflokkurinn gangi þarna á undan með þessum aðgerðum.

Reikna má að krónuvextir fari eitthvað lækkandi og á móti komi líklega fram vaxtahækkun á evrusvæðinu á móti á næstunni. Benda allar spár til þess arna. Verði af þessu má ætla að gengið á krónu gagnvart öðrum myntum gefi eitthvað eftir. Það er hugsanlegt að þetta hjálpi til og komi eitthvað á móti skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.

Það sem stendur eftir er samráðsleysið við aðila í ferðaþjónustu. Nú liggur beint við að þessir fjármunir fari aðallega í að styrkja innviðina fyrir ferðaþjónustuna og renni m.a. í samgöngur á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Einnig þarf að bæta heilbrigðisþjónustuna og gæta sérstaklega að því að tryggja að hún sé örugg og fjölbreytt til að sinna megi almenningi og m.a. ferðamönnum betur og þeirri grein sem kom okkur hér á lappirnar eftir að annað gaf sig.

Tryggjum að fjármagnið renni í réttan farveg ef á annað borð verði farið í þessa skattahækkun. Samtök ferðaþjónustunnar þurfa að fá ábyrgðaryfirlýsingu eða gera greinargott samkomulag við ríkisstjórnina um að fjármagni verði ráðstafað, þ.e. fjármagni sem myndast væntanlega vegna þessarar skattahækkunar, í liði sem skipta ferðaþjónustuna mestu máli í dag.

Að lokum vil ég, að öðrum ólöstuðum, færa öllum þeim sem stunda ferðaþjónustu á Íslandi, beint eða óbeint innilega þakkir fyrir að hafa komið íslensku hagkerfi vel og orðið til þess að auka atvinnu á Íslandi, byggt upp af myndarskap grein sem er komin til að vera og þroskast vel í góðum jarðvegi.

Kærar þakkir ferðaþjónustufólk !

Flokkar: Ferðamál · Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 29.3.2017 - 18:40 - Lokað fyrir ummæli

Ný rannsóknarskýrsla um kaup á Búnaðarbanka Íslands

Árið 2003 keyptu aðilar 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Það komu aðilar sem buðu hæst og ríkið seldi þeim bankann fyrir það verð og átti hluti þess m.a. að renna í það að byggja nýjan Landspítala rétt eins og átti að gera með þá fjármuni sem fengust fyrir söluna á hlut ríkisins í Símanum, þ.e. Landsímanum. Ekkert varð úr byggingu á nýjum Landspítala.

Árið 2017 er gefin út skýrsla þar sem lýst er viðskiptafléttu þar sem þýskur banki, sem allir vissu árið 2003 að væri til, hefði verið milligönguaðili um kaup á Búnaðarbanka Íslands en ekki hinn ,,raunverulegi“ framtíðareigandi og ,,kjölfesta“. Mér er spurn hvað ríkinu kemur það við, árið 2003 eða síðar, hverjum þessi þýski banki seldi hlut sinn síðar eftir að hafa keypt hann og íslenska ríkið hafi selt hann?

Það að Ólafur Ólafsson, sem sjálfsagt hefði mátt fara mýkri höndum um verkefnið, hafi staðið að þessari ,,fléttu“ lýsir fremur ákveðinni aðferðafræði í því að gera verðmæti úr engu heldur en að það eigi að vera að karpa um það að hann sé eini skúrkurinn í málinu. Það er vitað að hið opinbera, í þessu tilviki íslenska ríkið, fer yfirleitt illa með fé almennings og kann ekki vel að semja nema hugsanlega þegar kemur að milliríkjasamningum. Það er þó háð því hver mótaðilinn er eins og í öðrum samningum.

Reyndar mátti sjá að ICESAVE samningarnir voru lélegir og eru þeir gott dæmi ef það á að ræða um skelfilega samninga hins opinbera og fulltrúa hins opinbera á Íslandi. Það ber enginn ábyrgð, sem greiddi „JÁ“, á því í dag. Ríkið kann illa að reka eigin stofnanir, eiga í viðskiptum og sinna innkaupum. Því vekur það svo sem enga undrun að Ólafur Ólafsson hafi getað búið til ,,fléttu“ sem leiddi til þess að hann hagnaðist persónulega vel á kaupum þessa þýska banka á 45,8% hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. ,,Fléttan“ gekk því upp og úr varð talsvert viðskiptaveldi. Því er ekki hægt að neita. Þannig gerðust kaupin á Eyrinni við Eyjafjörð hér forðum daga og fátt nýtt þar undir sólinni.

Þó svo að Ólafur Ólafsson kunni að hafa brotið af sér einhvern tíman síðar, t.d. í þessu Al Thani máli,  er ekki séð að hann hafi brotið af sér við kaup þýsks banka á 45,8% hlut í Búnaðarbanka Íslands. Því þykir manni undrum sæta að þegar kemur út skýrsla um klúður íslenska ríkisins og lélegt eftirlit þar á bæ að ergelsinu af því öllu sé velt á einstakling sem er að sitja af sér dóm í dag. Það er vel þekkt orðið að íslenskir viðskiptamenn margir segja ekki allt og ef eitthvað er það helst ósatt. Sama má segja um fjölmarga stjórnmálamenn.

Hvers vegna eru þeir sem að þessu stóðu ekki inntir eftir þessu öllu saman og kannað hvar hundurinn lá þarna grafinn? Ekki kom Ólafur Ólafsson að erindisbréfi þeirrar eins manns nefndar sem nú skilaði af sér og mótaði þannig í hvaða horn yrði leitað upplýsinga. Sagt er að stjórnmálamenn eigi að bera pólitíska ábyrgð og að sumir hafi þegar gert það. En hvað með stöðu dagsins í dag?

Það stendur því eftir að almenningur þarf að geta treyst því nú að þegar vélað er um sölu á Arion banka og sölu á öðrum hlutum á Íslandi sem er í beinu eða óbeinu eignarhaldi ríkisins að vel sé að því staðið. Það er of seint að leita lausna í málum og endurreikna verðmiða þegar áratugir eru liðnir. Erum við Íslendingar í skjóli gagnvart ægivaldi því sem mun taka hér við fjármálakerfinu á næstu misserum?

Það er örðugt að spæla eggið eftir suðu.

Flokkar: Sagnfræði · Siðferði · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 9.3.2017 - 16:35 - Lokað fyrir ummæli

Ragnar Þór Ingólfsson sem formann VR

Í dag og næstu daga, þ.e. til hádegis þriðjudaginn 14 mars nk., standa yfir kosningar hjá Verzlunarmannafélaginu (VR) bæði til stjórnar og til formannsembættis þessa fjölmenna aðildafélags Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Ef þú ert félagsmaður getur þú farið hér beint á vef VR og greitt Ragnari Þór Ingólfssyni atkvæði þitt. Hvers vegna ættir þú að gera það?

Ragnar Þór Ingólfsson sem formann VR

Ragnar Þór Ingólfsson sem formann VR

Að hafa áhrif

Frá hruni fjármálakerfisins hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi lítið lagast ef svo má að orði komast. Það er þegar nánast búið að hreinsa út einn flokk á Alþingi sem hefur stýrt verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðum landsins í áratugi. Í dag og í gegnum verkalýðsfyrirkomulagið hefur lífeyrissjóðum verið stýrt bæði illa og af mörgum einstaklingum án þekkingar á áhættu og ávöxtun.

Þar hafa hagsmunir fremur ráðið för en almenn skynsemi. Hver þekkir þá sögu ekki eftir sífelldar skerðingar á lífeyrisréttindum og blæti fyrir bönkum fyrir hrun? Þú hefur nú tækifæri að breyta og hafa áhrif. Þitt atkvæði gæti hér vegið mun þyngra en atkvæði til Alþingis svo þú hefur virkilega áhrif þegar þú kýst formann VR sem og stjórn. Þetta snýst aðeins um að velja rétt, ekki rangt.

Kjóstu einstakling eins og þig

Með því að kjósa Ragnar Þór Ingólfsson ertu að kjósa einstakling úr grasrótinni, mann með þekkingu og getu til að breyta. Ef þú kýst hann ekki og velur annað hvort að eyða ekki smá tíma í tölvunni við að kjósa eða ákveður að kjósa einhvern annan ertu ekki að breyta nokkrun sköpuðum hlut heldur viðhalda stöðnuðu kerfi sem hefur ekki sýnt að það sé alfarið traustsins vert eða sannað getu sína sem nútíma verkalýðs- og lífeyriskerfi.

Ragnar Þór er rétt eins og þú, starfsmaður verslunar, er verslunarmaður sem þjónustar fram í fingurgóma, heill og ekki bundinn á klafa vinstri eða hægri í íslenskri pólitík. Hann er harður nagli sem og ljúfur drengur. Hann lætur ekki eitthvað óhreint fara í gegnum kerfið óþvegið. Kjóstu því einstakling eins og þig. Hann er ósköp venjulegur félagsmaður sem hefur burði til að verða formaður VR.

Stöðvum samkeppni lífeyrissjóðina við fólkið í landinu

Um þessar mundir standa illa skipaðir, illa áttaðir og fremur fáfróðir stjórnendur lífeyrissjóða í því að keppa við sjóðsfélaga sína um íbúðir á fasteignamarkaði. Nú er þeim heimilt, eftir ákveðinni forskrift þar um, að fjárfesta erlendis og hví nýta þeir ekki krafta sína í að finna tækifæri erlendis í stað þess að keyra upp fasteignaverð hér á landi?

Gamlar tuggur í þessu efni og þröngsýn afstaða til veraldarinnar, heimóttaleg áhættufælni og vanþekking veldur því ásamt klíkumyndun að fremur er fjárfest í kringum vini og vandamenn en í besta kostinum. Það gerðist einnig fyrir hrun fjármálakerfisins. Það þekkja flestir.

Þarna þarf nýja hugsun, ekki hvatvísa heldur skynsama og áræðna er byggir á kunnáttu en ekki kunningjavæðingu. Þar hafa oft komið sér saman ólíkustu aðilar sem leitt hafa saman hesta sína innan vébanda þessa kerfis og sogið þaðan fjármagn sem súrefni að eigin eldi. Þessu ber að breyta og treysti ég Ragnari Þór til þess að vera sú rödd sem þörf er á innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Tími hinna er liðinn. Nú er tækifæri þitt til að fjárfesta skynsamlega í góðum einstakling með því að kjósa Ragnar Þór.

Kynni af Ragnari

Ragnar Þór er þannig maður að honum er fullkomlega treystandi. Hann er gæddur hæfileikum og þekkingu til að setja sig í flókin og viðamikil mál. Hann er með yfirgripsmikla þekkingu á lífeyrismálum og rekstri sem mikilvægt er að hafa þegar kemur að stórri félagasamstæðu sem VR er í raun og sann. Hann er fylginn sér og hefur kosti að bera til að vera leiðtogi, sanngjarn og heill leiðtogi sem virðir jafnrétti í víðum skilningi þess orðs.

Ég hef þekkt Ragnar Þór um langa hríð og kynnst verkum hans, skrifum og einnig áhugamálum í tengslum við hjólaferðir um þvera og endilanga Suðaustur Asíu. Ragnar er vandaður maður og viljasterkur þegar kemur að baráttumálum fyrir almenning, félagsmenn VR og lífeyrisþega.

Sem ungur maður vann ég eilítið fyrir verkalýðshreyfinguna og kynntist fólki sem þar starfaði vel. Ég tefldi oft ungur við Guðmund Jaka og fékk þar fyrst í nefið. Það er enginn Guðmundur Jaki hér í dag og skarð hans verður ekki fyllt nema að við breytum rétt, kjósum rétt. Ég tel að Ragnar Þór sé sá maður sem getur fyllt í skarðið og skiptir engu þó hann taki ekki í nefið. Hann er rétti einstaklingurinn í verkið og af þeirri kynslóð sem á að taka við í dag.

Greiðið Ragnari Þór Ingólfssyni ykkar atkvæði fram til hádegis þriðjudaginn 14. mars næstkomandi og skorið á alla ykkar vini og ættingja að greiða honum atkvæði.

Áfram Ragnar Þór Ingólfsson !

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Verkalýðsmál · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 22.1.2017 - 21:56 - Lokað fyrir ummæli

Af Donald Trump

Embættistaka Donald Trump - 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017

Embættistaka Donald Trump – 45. forseti Bandaríkjanna 20. janúar 2017

Við þekkjum það Íslendingar að fjölmiðlar fara oft óvarlega og bera enga ábyrgð á því sem þeir segja eða gera. Þetta er oft kallað fjórða valdið en það sem þetta vald hefur umfram annað vald í lýðræðislegu þjóðfélagi er að það lýtur öðrum lögmálum en löggjafar-, dóms- og framkvæmdavald. Það virðist ekki bera ábyrgð og þarf ekki að axla ábyrgð. Í lögum er gert ráð fyrir að þingmenn þurfi að svara á fjögurra ára fresti fyrir gjörðir sínar, sama á við ráðherra séu þeir ekki utan þings og svo dómskerfið og dómarar sem má víkja frá störfum ef svo ber undir. Allt er þetta í lögum og tækt að grípa inní. Þetta á ekki við um fjölmiðla og þá er hægt að kaupa og selja, fjárfesta í fréttaskotum og með auglýsingasamningum beinlínis koma að efni sem hentar framleiðendum eða þeim sem hafa efni á að koma einhverju fram. Er þetta eðlilegt? Nei, þetta er ekki alveg eðlilegt. Hvað er til ráða?

Trump og bandarískir fjölmiðar sem og alþjóðapressan

Mynd sem á að sýna mismunandi vinsældir milli Obama og Donald Trumps

Mynd sem á að sýna mismunandi vinsældir milli Obama og Donald Trumps – Mótmælendur hömluðu stuðningsmönnum Donald Trumps að mæta á staðinn.

Flestir þekkja þá umræðu sem verið hefur í gangi varðandi kjör á nýjum forseta í stærsta lýðræðisþjóðfélagi heims, Bandaríkjunum. Þar hefur verið fjallað um að Pútín hafi komið Trump til valda. Einnig hefur verið rætt um að frægar stjörnur demókrata hafi ekki viljað syngja við innsetningu Trumps, sem reyndar er enginn furða, auk þess sem nýleg umfjöllun um mætingu við innsetningu Trumps

þar sem þar er látið í veðri vaka að lítill áhugi hafi verið á Trump og innsetningu hans í embætti forseta Bandaríkjanna. Lítum aðeins á tölurnar.

Samanburðartafla - Obama og Trump

Samanburðartafla – Obama og Trump

Hér í töflunni má sjá að fylgi Demókrata í höfuðborg Bandaríkjanna er 91% og sé tekið tillit til þess að mesta fylgi Trumps er í miðríkjum Bandaríkjanna er ljóst að þeir þurfi, þ.e. stuðningsmenn Trumps, að ferðast um langan veg til að mæta við innsetningu hans en t.d. um eða yfir hálf milljón manns fyrir Obama er sjálfir búa í höfuðborg Bandaríkjanna þar sem athöfnin fer fram. Við svona athafnir mæta margir og taka börn sín jafnvel með. (Heimild með fyrirvara um gæði þeirra upplýsinga: Time, Wikipedia)

Demókratar hafa ekki langt að fara til höfuðborgar Bandaríkjanna

Demókratar hafa ekki langt að fara til höfuðborgar Bandaríkjanna

Sé leiðrétt fyrir þessu kemur í ljós að Trump er að gera betur en Obama gerði við innsetningu hans árið 2013 (Ath. ekki fræðileg rannsókn en segir einhverja sögu engu að síður). Þess ber að geta að rétt áður en Obama var kjörinn sat pistlahöfundur á 17. júní stræti í Berlín og hlustaði á Obama halda ræðu ásamt fjölskyldu sinni og þúsundum íbúa og gesta þar í borg. Óhætt er að segja að þar fór maður sem braut ísinn með því að verða fyrsti forseti Bandaríkjanna sem gat rakið ættir sínar til Afríku. Það þótti tíðindum sæta.

Því var um stórmerkileg tímamót að ræða árið 2009 umfram aðrar innsetningaathafnir forseta í Bandaríkjunum þegar Obama var setturn fyrst í embætti. Þrátt fyrir það nær Trump að hafa langt upp í þær tölur en slær Obama algjörlega út sé miðað við árið 2013 og þá eftir leiðréttingu á gríðarlegu fylgi Demókrata í höfuðborg Bandaríkjanna. Svo má geta þess að gríðarleg mótmæli í borginni urðu til þess að þúsundir stuðningsmanna Trumps gátu ekki mætt við innsetningaathöfnina. Það skekkir myndina vissulega mikið.

Múgæsing fjölmiðla

Stór þáttur í umfjöllun um Donald Trump hefur byggst á því að hann sé með orðum sínum og gjörðum að stuðla að e.k. múgæsingu. RÚV hefur meðal annars lagt meira í orð páfans í Róm þegar þeir leggja blessuðum páfanum sjálfum beinlínis orð í munn og segja hann hafa líkt Trump við Hitler þegar hann sjálfur talaði almennt um málið og hefði það alveg eins geta átt við Pútín en ekki Trump. Það er nú aldeilis guðræknin á þeim bænum.

Hafa því fjölmargir fjölmiðlar víða um heim lagst á eitt í að grafa undan lýðræðislega kjörnum forseta Bandaríkjanna sem aðeins getur stuðlað að því að efla þá sem standa honum andspænis, þ.e. Pútín í Rússlandi, Xi Jinping í Kína og öðrum af þeirra kaliber. Er það sem við viljum?

Trump og Obama

Trump og Obama ásamt glæsilegum eiginkonum sínum

Það eru haldnar kvennagöngur gegn Donald Trump þrátt fyrir að hann hafi misst út úr sér svipuð ummæli og höfð voru eftir Theodore Roosewelt fyrrum forseta Bandaríkjanna en þá átti það við karlmenn, ekki konur. Ekki mæli ég þessum ummælum bót en vil samt benda á vægi umræðunnar konur vs karlar. Þar er farið að halla mikið á og ber að merkja þennan halla sérstaklega þegar kemur að umgengnisrétti feðra á Íslandi og víðar eftir skilnað. Einnig má geta umræðunnar varðandi skólakerfið og unga drengi sem fá þar ekki karlfyrirmyndir til að kenna sér lengur m.a. vegna þess hve öflug kvennastétt kennarastéttin er orðin.

Það má því ætla að fylgismenn Demókrata, og þá með gífurlega háum styrkjum til handa þess flokks og tengsl við fjölmiðla, séu einmitt þeir sem stuðla að múgæsingu en slíkt má einnig rekja til Íslands þar sem vinstri menn eru bæði hávaðasamir en fremur afkastalitlir þegar kemur til kastanna við stjórn ríkissjóðs og á Alþingi. Til þess arna hafa þeir stuðning frá fjölmiðlum sem virðast telja sig hafa vald til að segja hvað sem er án ábyrgðar.

Það eitt sem hægt er að gera er að kalla eftir meiri ábyrgð til handa fjölmiðlum og ber þó að gæta að því að standa vörð um rit-, tjáningar- og prentfrelsi. Þessi ábyrð byggist aðallega á því að við, sem látum okkur umfjöllun sem þessa í léttu rúmi liggja, skrifum sjálf okkar hugrenningar um þessi málefni og birtum almenningi.

Donald Trump 45. forseti Bandaríkjanna

Pistlahöfundur er ekki einhver sérstakur stuðningsmaður Donald Trumps þó margir gætu lagt framangreint efni síðar fram og talið svo hafa verið. Ég hef bara afskaplega litla skoðun á mönnum fyrr en þeir fara að láta verkin tala. Það er mikilvægt að mótmælendur fái að koma sínum málum á framfæri en við verðum samt sem áður að tala um sanngjarnari umræðu sem litast ekki stöðugt af undirliggjandi þörfum viðkomandi til að draga úr vægi lýðræðislegs stjórnkerfis. Slík undirmál munu aðeins leiða til þess að þeir sem hafa engan áhuga á slíku kerfi eflist og þeim megin verði til þeir leiðtogar sem blessaður páfinn í Róm vildi minnast á en RÚV snéri því á eigin veg sem mætti svo sannarlega teljast ámælistvert.

Donald Trump getur beinlínis reynst vel. Það þarf að auka tekjur og atvinnu í Bandaríkjunum. Obama gerði ekkert í því og skilar hann við verra búi en hann tók við. Það er vegna þess að fólk kaus Donald Trump en ekki Hillary Clinton og þrátt fyrir að Hillary hafi hlotið fleiri atkvæði á landsvísu er Donald Trump kosinn skv. þessu kerfi eins og flestir ef ekki allir fyrrum forsetar Bandaríkjanna. Leikreglurnar eru þekktar fyrirfram og þetta urðu úrslitin.

Vilji fólk annað kerfi en þetta er rétt að það standi upp og tjái sig einmitt um það, kanni hvaða hljómgrunn það nýtur og draga svo ályktanir út frá því.

Annars óska ég bandarísku þjóðinni til hamingju með nýjan forseta og megi honum vegna vel í embætti, fara vel með það embætti og megi hann einnig tryggja enn frekar gott samband við Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 10.1.2017 - 10:47 - Lokað fyrir ummæli

Af lágskattasvæðum VG, Pírata og Samfylkingar

Um þessar mundir er mikið rætt um lágskattasvæði og ber Panama þar hæst á Baugi. Fyrir kosningarnar 2013 réð hér ein argasta vinstri stjórn sem uppi hefur verið á vesturlöndum þó víðar væri leitað, jafnvel í Svíþjóð

Lágskattasvæði vinstri manna

Þessi íslenska vinstri ríkisstjórn samþykkti tilskipun frá ESB þess efnis að lágskattasvæði yrðu áfram í seilingarfjarlægð frá íslenskum fjárfestum rétt eins og öðrum fjárfestum innan EES svæðisins.

Hitt stendur eftir að þeim ber, vilji þeir eiga fjármuni og reka fyrirtæki frá lágskattasvæði, að gefa slíkt upp til skatts í heimalandi sínu. Reyndar, sbr. pistil minn frá því í apríl 2016, óskaði Ríkisskattstjóri (RSK) eftir því, þ.e. í umsögn sinni varðandi frumvarpið sem varð síðar að lögum, að Alþingis leitaðist við að setja strangari reglur þar sem dótturfélag á lágskattasvæði yrði skattlagt sér.

Ef vinstri stjórnin hefði, rétt fyrir kosningarnar 2013, farið eftir umsögn RSK varðandi frumvarpið yrði ekki lengur heimilt móðurfélagi á Íslandi að nýta skattalegt tap á Íslandi til frádráttar af hagnaði dótturfélags á viðkomandi lágskattasvæði. Það gerði þessi vinstri stjórn ekki og því er þetta alveg eins og áður var. Að auki afnám vinstri stjórnin svarta lista lágskattasvæða eftir ábendingar um slíkt frá ESB.

Áhangendur ESB á Íslandi, eins og fulltrúar Viðreisnar, ættu að efna til námskeiðahalds hvers vegna heimilt er á Íslandi að eiga fyrirtæki á lágskattasvæðum og hvers vegna það kom til með tilskipun frá ESB. Það að nýta sér töf á birtingu á skýrslu um þetta fyrirbæri til að hefja sig upp í umræðunni er lágkúra af verra taginu. Menn þar á bæ vita betur um tilvist þess arna í íslenskri löggjöf auk vinstri manna er allt þetta hafa samþykkt á Alþingi Íslendinga.

Erindisbréf starfshóps

Í 3. kafla skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, kemur eftirfarandi fram:

Með erindisbréfi dags. 10. júní 2016 skipaði fjármálaráðuneytið starfshóp með það fyrir augum að „leggja mat á umfang fjármagnstilfærslna og eignaumsýslu á aflandssvæðum, þ.e. í ríkjum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði og takmarka miðlun upplýsinga um eignir og tekjur milli landa.“ Enn var áskilið að áætla skyldi „mögulegt tekjutap hins opinbera af slíkum umsvifum.“ Var mælst til þess að starfshópurinn lyki störfum fyrir lok júlímánaðar og legði fram skýrslu sem ráðherra myndi í framhaldinu kynna Alþingi.

Bjarni Benediktsson lagði áherslu á að skýrslan bærist sem fyrst

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar lagði ríka áherslu á að skýrslan kæmi út fyrir lok júlímánaðar 2016 og yrði þar af leiðandi tilbúin tímanlega til umfjöllunar á Alþingi fyrir væntanlegar kosningar og til almennrar birtingar. Hins vegar tókst það ekki. Segir um það í 3. kafla (3.1.) framangreindrar skýrslu.

Enda kom í ljós að meiri tíma þurfti til verksins en ætlað var í upphafi og tókst ekki að skila skýrslu fyrr en nokkuð var liðið á september.

Reyndar kom skýrslan inn í ráðuneytið ekki fyrr en 13. september 2016 eða um einum og hálfum mánuði síðar en áformað var skv. skipunarbréfi frá fjármála- og efnahagsmálaráðherra.

Gefa skýrsluhöfundar eftirfarandi skýringar vegna tafanna.

 • Ítarleg skoðun frum- og lýsigagna
 • Viðtöl við þá er gerst þekkja til aflandsviðskipta
 • Setja upplýsingar í samhengi
 • Ýmis önnur heimildaröflun
 • Sumarleyfi tafði gagnaöflun
 • Tókst ekki af afla skýringa hjá sérfræðingum
 • Gögn bárust þegar langt var liðið á ágústmánuð

Skýrslan átti að birtast fyrr eða fyrir lok júlí 2016

Það kemur skýrt fram í skýrslunni sjálfri að ætlunin var að skila henni snemma eða undir lok júlímánaðar. Tafir urðu sem starfshópurinn hafði ekkert með að gera og hvað þá fjármála- og efnahagsráðherra sem vildi fá skýrsluna sem fyrst svo koma mætti henni til umræðu í þinginu fyrir þinglok. Markmið ráðherrans var að skýrslan fengi vandaða umfjöllun og yfirvegaða. Það sem menn eru hins vegar sammála um er að skýrslan bætir ekki miklu meira við það sem þegar hefur komið fram.

Enginn mælir því hins vegar mót að málið þurfi að rannsaka mun betur og það kemur skýrt fram hjá aðilum stafshópsins, sem skýrsluna unnu, að mun meiri vinnu þarf til svo ná megi betur utan um efnið sem er til umfjöllunnar. Það yrði því baglegt ef þetta efni og þessar áherslur verði undir sökum yfirlætislegrar umræðu þess efnis að skýrslan átti að hafa birst fyrr sem tókst ekki m.a. vegna þess að starfshópurinn vildi vinna verkið betur, eiga fund með sérfræðingi sem kom ekki til landsins fyrr en 21. júlí 2016 og taka saman gögn sem tafðist vegna sumarleyfa. Áður, eða í maí 2016, hafði fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um aðgerðir stjórnvalda til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum.

 1. Erindisbréf barst stafshópnum 10. júní 2016
 2. Fyrsti fundur haldinn 15. júní 2016
 3. Dr. James S. Henry fundar með starfshópnum í hádeginu 21. júlí 2016 eins og kom fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins
 4. Dr. James S. Henry heldur fyrirlestur um efnið í Háskóla Íslands 21. júlí 2016 – The Global Haven Industry: Size, Growth, and Key Impacts
 5. Væntanleg skil skýrslunnar 31. júlí 2016 eða á mánudaginn 1. ágúst 2016
 6. Skýrslan send fjármála- og efnahagsráðuneytinu 13. september 2016
 7. Kynning á skýrslunni 5. október 2016 hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og aðeins 5 virkir dagar til þingloka
 8. Fjórir fundir hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í millitíðinni fyrir þinglok og kosningar
 9. Bjarni Benediktsson í ræðu undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir 10. október 2016: ,,Að öðru leyti hvað varðar aflandsfélög þekkja menn að við höfum lagt hér inn ítrekað tillögur, frumvörp, og ég mun (Forseti hringir.) á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála“. Kom fram á fésbókarsíðu Björns Bjarnasonar 11. janúar 2016. (*)
 10. Þinglok en Sigurður Ingi Jóhannsson las forsetabréf um þingfrestun 13. október 2016
 11. Kosningar til Alþingis 29. október 2016
 12. Bjarni Benediktsson fær fyrstur umboð til stjórnarmyndunar 2. nóvember 2016
 13. Bjarni ræðir við fulltrúa Pírata, VG, Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar
 14. Bjarni slítur viðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð, Óttarr Proppé tekin í sátt sbr. frétt í visir.is 15. nóvember 2016
 15. Þing kallað saman til að ljúka gerð fjárlaga 6. desember 2016
 16. Fjórir fundir í efnahags- og vipskiptanefnd eftir að þing kom aftur saman eftir kosningar
 17. Frestun þingfunda eftir afgreiðslu fjárlagafrumvarps 22. desember 2016
 18. Skýrslan birt á vef fjármálaráðuneytisins 6. janúar 2017
 19. Þrír flokkar samþykkja að mynda stjórn, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn 9. janúar 2017

Enginn var áhuginn að kalla eftir skýrslunni þegar ljóst var að Bjarni minntist á að hún væri til staðar 10. október 2017.

Álagið mikið fyrir kosningar – Óskir stjórnarandstöðunnar um þingrof og kosningar

Álagið fyrir kosningar má lýsa með orðum Svandísar Svavarsdóttur á 164. fundi 145. löggjafaþingsins einmitt þann sama dag og Bjarni Benediktsson fékk kynningu á skýrslunni sem mikið er rætt um í dag, þ.e. 5. október 2016:

Virðulegi forseti. Staðan er sú að nú hefur þetta þing, 145. þing, lokið öllum þeim mikilvægu málum sem rædd voru í apríl. Búið er að ljúka húsnæðismálunum, búið er að ljúka haftamálunum að mestu og hér ættum við að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft og hætta svo. Það er eina málið sem stendur út af, eitt þingmál, að ljúka atkvæðagreiðslu eftir 3. umr. um höft.

Virðulegi forseti. Íslandssögunni lýkur ekki 29. október. Það er ekki þannig. Öll þau mál sem eru hér á dagskrá og sem eru á listanum langa frá núverandi ríkisstjórn eru þeirrar gerðar að nýtt þing getur unnið úr þeim. Það er þannig. Nýtt, lýðræðislega kjörið þing sem hefur raunverulegt umboð til þess, sem núverandi, fráfarandi ríkisstjórn hefur sannarlega ekki.

Virðulegi forseti. Það á að ljúka þessari einu atkvæðagreiðslu og senda þingið heim þannig að allir sitji við sama borð í kosningabaráttu fyrir kosningarnar að þessu sinni.

Hér kemur því fram að Svandís taldi ríkisstjórnina ekki hafa umboð til að mæla fyrir öðrum málum og vildi hún fara heim en ekki ræða neina skýrslu hvort hún hefði vitneskju um hana eður ei. Hún fullyrðir hér sjálf að nýtt þing geti tekið þessi mál að sér. Nú er komið að því og hvers vegna þá að þrátta um hvenær skýrslan kom fram í dagsljósið?

Engar fyrirspurnir um skýrsluna á meðan stjórnarmyndunarviðræður fóru fram

Svo virðist sem aðilar í stjórnarmyndunarviðræðunum, sem flestir áttu að vita af stofnun starfshópsins í júlí 2016, höfðu lítinn sem engan áhuga á að kalla eftir þessari skýrslu eða rannsókn fyrr eða síðar og þá sérstaklega eftir að stjórnarmyndunarviðræðurnar hófust frá og með 2. nóvember 2016 til og með 6. janúar 2017 þegar skýrslan birtist á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þetta vekur sérstaka furðu enda öllum opinbert að starfshópurinn var starfandi fyrir kosningar og átti að skila af sér undir lok júlímánaðar skv. erindisbréfi.

Sjá má hér að vefmiðillinn Kjarninn, þ.e. 16. júní 2016, fylgdist vel með þróun mála og því undarlegt að þingmenn hafi ekki verið vakandi um efnið allan þennan tíma en það er reyndar skýringar á því. Sjá má hér að framan að mikið álag var á Alþingi fyrir kosningar en stjórnarandstaðan þrýsti mjög á um að ákveðin afmörkuð mál, ekki önnur, yrðu tekin fyrir á þinginu, önnur ekki.

Það sætir undrun að þar sem að starfshópurinn hafi verið stofnaður eftir að þingsályktunartillaga þingmanna VG var samþykkt og því í raun og sann að undirlægi þeirra að þeir sjálfir hafi ekki fylgst betur með og kallað eftir skýrslunni þegar þeir höfðu umboð til stjórnarmyndunnar fyrir áramót og jafnvel fyrr. Þeim var það í lófa lagið hefðu þeir á annað borð mikinn áhuga á efninu, þ.e. efni sem varðar lágskattasvæði sem þeir samþykktu sjálfir í lög ásamt breytingum fyrir kosningarnar 2013.

Bætir skýrslan einhverju við?

Skýrslan bætir litlu við sem ekki var þekkt. Vitað var að einhverjir svíkja undan skatti og aðrir ekki. Það sem kemur í ljós er hve lítið starfshópurinn virtist vita um umfangið sem hann tók að sér og leggur hópurinn ríka áherslu á að rannsaka þurfi efnið frekar til að ná betur utan um það og fá heildaryfirsýn. Skýrslan er í raun enn drög að stærra verki að mati starfshópsins.

Hins vegar virðist vanta í skýrsluna hverjir það eru sem standa að baki skattsvikunum og tel ég að skattborgarar á Íslandi bíði eftir þeim lista. Hann birtist ekki í þessar skýrslu enda verkið ekki fullunnið, aðeins komin skýrsla sem skýrsluhöfundar segja sjálfir að sé alls ekki tæmandi. Það má vænta að væri þessi listi birtur yrði hann langefstur á Baugi í umræðunni. Það yrði mikil Viðreisn í því ef menn legðu upp úr með að skýra fyrir almenningi lágskattasvæði og hví þau eru í íslenskri löggjöf. En víst er að á Kaupþingum heimsins þekki margir til lágskattasvæða og skattaundanskota en við hér á Íslandi erum rétt að byrja á því námskeiði þar sem væntanlega verður fjallað um efnisval ESB í íslenska löggjöf.

Svo virðist einnig að dr. James S. Henry hafi í raun komið til landsins til að taka starfshópinn í n.k. endurmenntun á sviði aflandsviðskipta, viðskipta sem eru lögleg eftir að Alþingi Íslendinga samþykkti slíkt, m.t.t. tilskipunar frá ESB, inn í lög um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Því spannar skýrslan efni sem varðar bæði lögleg viðskipti sem og ólögmæt viðskipti. Við þekkjum slíkt hér heima þegar menn svíkja undan sköttum og einnig þegar menn fara að lögum. Því er þetta ekki frétt fyrr en tekið er á þeim sem brjóta af sér enda vitum við öll að mikið er um skattalagabrot frá tímum þeim er við flúðum hingað frá Noregi.

Það sem skýrslan sýnir umfram allt er hve víðæk vanþekking stjórnsýslunnar er, þingheims og almennings á Íslandi á alþjóðaviðskiptum og þeim viðamiklum viðbótum sem innleiddar eru í íslenska löggjöf í formi tilskipanna frá ESB sem Alþingi virðist samþykkja möglunarlaust og greinilega blindandi.

Það lýsir þessu best að þegar breytingar fóru í gegnum þingið fyrir kosningarnar 2013 tók aðeins einn maður til máls umfram framsögumenn en það var Pétur heitinn Blöndal. Hann var líklega eini þingmaðurinn sem vissi ítarlega hvað var á ferðinni þegar þetta rann í gegnum þingið á sínum tíma.

Hvaða þingmenn greiddu götu lágskattasvæða á Alþingi 2013?

Þeir sem greiddu lögmæti lágskattasvæða atkvæði sitt á Alþingi Íslendinga árið 2013 voru eftirtaldir þingmenn sem enn eru á þingi:

 • Birgitta Jónsdóttir
 • Katrín Jakobsdóttir
 • Svandís Svavarsdóttir
 • Steingrímur J. Sigfússon ofl.

Nánar má sjá skammstafanir þeirra er samþykktu lögin:

AtlG, ÁI, ÁPÁ, ÁÞS, ÁsbÓ, ÁRJ, BirgJ, BJJ, BjG, BjarnB, BVG, GuðbH, GÞÞ, GBS, HHj, IllG, JóhS, JBjarn, JRG, KJak, KaJúl, KÞJ, KLM, LMós, LGeir, MT, MÁ, OH, ÓGunn, PHB, REÁ, SII, SF, SJS, SSv, TÞH, UBK, VBj, ÖJ.

(*) Aths. Uppfært 12. janúar 2017 eftir að Björn Bjarnason setti á fésbókarsíðu sína tilvitnun í ræðu Bjarna Benediktssonar frá 10. október 2016 (3 dögum fyrir þinglok og tíminn þá liðinn til að leggja málið fyrir þingi).

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 19.12.2016 - 16:10 - Lokað fyrir ummæli

Jóla- og afmælisandinn hjá RÚV

Það þykir lýsa ljúfum Íslending að óska landa sínum og öðrum til hamingju með afmælið og óska fólki gleðilegra Jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir allt gamalt og gott. Þegar fólk á erfitt, gengur í gegnum erfiðleika, missir ástvini og ættingja syrgjum við með þeim og samhryggjumst náunganum, sýnum skilning og vilja til hjálpar.

Hjá Ríkisúvarpinu (RÚV) virðist þessu öðruvísi farið hjá einhverjum starfsmönnum þar á bæ. Fá þar einhverjir einstaklingar frjálsar hendur til þess að bæði útvarpa og sjónvarpa sínum persónulegum skoðunum og beita sér gagnvart fólki í þessu landi með gögnum sem hvorki sanna sekt né siðferðisbresti nema helst þeirra sem tóku þau saman og fluttu þau á öldum ljósvakans.

100 ára afmæli Framsóknarflokksins

Í tilefni 100 ára afmælisveislu Framsóknarflokksins norðan heiða, sem þar var haldin til að koma á móts við landsbyggðarfólk nú á aðventunni, sendi starfsmaður RÚV skeyti með SMS til fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins og óskaði eftir viðtali. Því skeyti var ekki svarað. Þess í stað ákvað starfsmaður RÚV að skella sér í veisluna óboðinn og óskað þar eftir viðtali við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þingmann flokksins sem hann veitti góðfúslega enda hátíðarstund.

Ég hafði óskað eftir viðtali við hann í tilefni dagsins með SMS-skilaboðum, en engin svör fengið. Við ákváðum því að fara á staðinn og kanna hvort hann myndi veita viðtalið, (Heimild: www.visir.is)

Sjá má hér að þó þingmaðurinn svari ekki skeytinu frá þessum starfsmanni RÚV er ekki þar með sagt að hann hafi ekki lesið það.  Fái fólk heillaóskaskeyti frá RÚV með SMS eða önnur skeyti frá vinum og ættingjum er ekki þar með sagt að það sendi annað skeyti til baka heldur tíðkast fremur að hitta viðkomandi og þakka fyrir skeytið.

Ljóst er hér að starfsmaður RÚV mætti þarna í ,,tilefni dagsins“ en ekki í tilefni nokkurs annars og því undarlegt að það þurfi að spyrja starfsmann yfir 86 ára stofnunar (nú opinbert hlutafélag) og þar af 50 ára sjónvarps hvert erindið er fyrir viðtal þegar ,,tilefnið“ hefur þegar verið gefið upp. Því er það starfsmaðurinn sem greinilega gaf upp hvert tilefni viðtalsins var og á fólk ekki að fara í grafgötur með það.

Hvers vegna ekki spurt út í merka sögu Framsóknarflokksins á þessum tímamótum?

Framsóknarflokkurinn átti 100 ára afmæli 16. desember síðastliðinn og var flokkurinn stofnaður þennan dag árið 1916. Fréttamaður RÚV mætti í veislu í ,,tilefni dagsins“ en tók viðtal er fjallaði alls ekki um ,,tilefni dagsins“. Fréttamaðurinn er fæddur 1983 og er sagður verðlaunaður blaðamaður og því talsvert yngri en Framsóknarflokkurinn en aðeins nokkuð yngri en viðmælandinn.

Þingmaðurinn er fæddur 1975 og settist í stól forsætisráðherra 38 ára sem einn þeirra yngstu í sögu þjóðarinnar. Hermann Jónasson var 37 ára þegar hann varð forsætisráðherra, Ásgeir Ásgeirsson var 38 ára og Tryggvi Þórhallsson einnig 38 ára. Allir þessir menn voru framsóknarmenn. Það er einmitt Framsóknarflokkurinn sem sýnt hefur ungu fólki að innan hans er ungu fólki treyst fyrir æðstu embættum þjóðarinnar. Til samanburðar hafa elstu forsætisráðherrar þjóðarinnar komið úr röðum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, fylkingar sem reyndar aðeins einu sinni hefur náð svo langt á sínum skamma ferli og er nú nánast horfin fyrir vikið.

Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að spyrja út í sögu Framsóknarflokksins af þessu ,,tilefni“ hafi verið ætlunin að mæta af því ,,tilefni“ að flokkurinn var hvorki meira né minna en 100 ára og sá flokkur sem lengst hefur verið í ríkisstjórn á Íslandi?

RÚV hefur verið að halda uppá yfir 50 ára sögu sjónvarpsins með sögubrotum frá 50 ára ferli og nýtt sinn vettvang til að koma slíku á framfæri svo greina má yfirflæði af endursýndu en áhugaverðu efni í ríkisfjölmiðlinum sem vissulega sparar talsverða fjármuni. Hér að neðan má greina frá hvaða flokkur stóð að stofnun RÚV til að upplýsa land og lýð um menningu og svo margt annað fróðlegt, græðandi og gefandi. Leitt er þó að fjármunum þeim sem sparast á afmælisári sjónvarps RÚV er þess í stað varið í að ráðast á sitt eigið fólk og draga þjóðina sundur og saman í ágreiningi sem í raun er lítill og talsvert smáræði.

Mótmæli og mæting ferðamanna við Austurvöll virðist heldur ekki góð mæling á ágreining gagnvart ríkisstjórn sé miðað við síðastliðnar kosningar.

Sigmundur Davíð og saga Framsóknarflokksins í ófáum dráttum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur svo sannarlega sannað sig og gerði það sem fáum hugnaðist að tækist. Hann kallaði eftir hugarfarsbreytingu fyrir kosningarnar 2013 sem miðaði að því að leggja skatt á kröfuhafa hinna föllnu banka með lögmætum hætti og innheimta um 300 milljarða til handa þjóðinni, Íslendingum. Hann gerði gott betur en það eftir að hafa sannfært sjálfstæðismenn um myndun þeirrar stjórnar sem nú situr enn þrátt fyrir ákall vinstri manna um ótímabærar kosningar síðastliðið haust.

Á þeim 100 árum sem Framsóknarflokkurinn hefur dafnað á meðal íslensku þjóðarinnar hefur þessi flokkur setið í ríkisstjórn í 62 ár og á afmæli flokksins var forsætisráðherra þjóðarinnar einmitt úr þessum merka flokki, þ.e. Sigurður Ingi Jóhannsson. Aðeins þetta eitt og sér ætti að gefa fréttamanni RÚV tilefni til fjölmargra spurninga í ,,tilefni dagsins“.

Hér að auki skal stiklað á stóru úr sögu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar sem er samofin:

 • Þróun íslenskra stjórnmála úr sjálfstæðisbaráttu í efnahagsbaráttu og uppbyggingu
 • Fullveldi Íslands 4. janúar 1917 eða fáeinum vikum eftir stofnun Framsóknarflokksins
 • Landverslun stofnuð til að efla utanríkisverslun
 • Kaupfélög stofnuð víða um land
 • Framsóknarflokkurinn lagði mikla áherslu á milliríkjaverslun til að efla framboð á nauðsynjavörum
 • Kreppan mikla á 3. áratug 20. aldarinnar þar sem myndað var bandalag við Alþýðuflokkinn
 • Stofnun Síldabræðslu ríkisins á Siglufirði, stofnun Skipaútgerðar ríkisins, stofnun RÚV, efling Landhelgisgæslunnar var verk Framsóknarflokksins ásamt samstarfsflokki hans
 • Stórsókn í skólamálum með stofnun Héraðsskóla um land allt
 • Stjórn hinna vinnandi stétta eftir alþingiskosningarnar 1934
 • Iðnaður efldur umtalsvert og heildstæðu almannatryggingakerfi komið á
 • Sjálfstæði Íslands í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörk og heimstyrjaldarinnar eftir 1939
 • Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar lagði áherslu á bæta skilyrði sjávarútvegs og gera hann sjálfbærann
 • Efnahagsástandið batnaði og lifði þessi þjóðstjórn til 1942 þegar Ólafur Thors myndaði stjórn (Ólafíu)
 • Stofnun Atlandshafsbandalagsins (NATO) 1949 þar sem Framsóknarflokkurinn klofnaði í afstöðu sinni og Hermann Jónasson sat hjá
 • Kosningabandalag vinstri flokka og stjórn Hermanns Jónassonar 1956 sem var ósamstíga, t.a.m. í utanríkismálum
 • Útfærsla landhelginnar í 12 mílur 1958
 • Ólafur Jóhannesson myndaði stjórn 1971 eftir að Framsóknarflokkurinn hafði verið utan stjórnar í 12 ár og farið aftur í stækkun landhelginnar, nú úr 12 í 50 mílur
 • Árið 1975 var landhelgin svo færð úr 50 mílum í 200 mílur og var þetta gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga en skóp engu að síður miklar deilur við Breta
 • Sættir við Breta 1976 eftir að Íslendingar höfðu slitið stjórnmálasambandi við þá
 • Verðbólgutímabilið 1980-1991 þar sem Framsóknarflokkurinn var í stjórn
 • Efnahagsuppgangur og kerfisbreytingar 1995 þegar Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar
 • Icesave þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var framarlega á meðal jafningja í að krefjast þess að íslenskir skattgreiðendur gengust ekki undir skuldbindingar fyrir einkafyrirtæki sem stefndu í þrot í kjölfar fjármálahruns
 • Endurreisn efnahagslífsins undir forystu Framsóknarflokksins 2013 til dagsins í dag
 • Endurútreikningur og endurgreiðslur til þeirra er fengu ekki leiðréttingar á lánum sínum eftir hrun fjármálakerfisins
 • Álagning skatts og samningar við kröfuhafa föllnu bankanna sem kallaði eftir a.m.k. 300 milljörðum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gat um fyrir kosningarnar 2013 og efndi á liðnu kjörtímabili og gott betur.
 • Nýting fjármuna sem fengust úr höndum kröfuhafa með lögmætri skattlagningu og samningum ráðstafað til að leiðrétta A-hluta lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna, sem hefur verið í umræðunni um árabil, um rúma 100 milljarða
 • Ný fjárlög sem miða nú fremur að því fyrir árið 2017 að skapa ekki verðbólgu en mæta nauðsynlegum umbótum á heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfinu.

Ætla mætti að þetta hafi getað gefið fréttamanni RÚV tilefni til margra spurninga í ,,tilefni dagsins“ á 100 ára afmæli þessara merku stjórnmálasamtaka á Íslandi.

Viðhorf og sátt

Í Suður Afríku ríkti aðskilnaðarstefna lungað úr þeim tíma sem þessi 100 ár hafa varað frá stofnun Framsóknarflokksins. Hún varði frá 1948 til 1991 en vissulega var hún viðloðandi í raun og sann alla tíð fyrir kosningarnar 1948 þó hún hafi sérstaklega verið tekin upp á því ári. Þessi skelfilega stefna gerði það að verkum að fólk átti mjög bágt svo orðum verður vart komið þar að til að lýsa hörmungunum.

Hitt stendur þó eftir en það er sú sátt sem náðist undir lok tímabilsins og eftir það. Þar markaði einn maður umfram aðra djúp spor í sandinn. Lögfræðingurinn Nelson Mandela var leystur úr haldi árið 1990 eftir að hafa setið inni í 27 ár í fangelsi á Robben Eyju (e. Robben Island), Pollsmoor fangelsinu og Victor Vestor.

Þrátt fyrir þær hörmungar myndaðist sátt í þessu landi langt suður af Íslandi og nærri öðrum pól en þeim sem við búum við. Talið er að þetta sé ein merkilegasta sátt sem náðst hefur varðandi heimsfrið í sögunni.

Hvers vegna getum við Íslendingar ekki fundið þessa sátt í hjörtum okkar?

 • Er ekki óþarfi fyrir Ríkisútvarpið, sem svo sannarlega á að leita svara við mörgum spurningum fyrir land og lýð, að stuðla að sundrungu í eigin landi eftir þá erfiðleika sem þjóðin hefur nú gengið í gegnum?
 • Er ekki rétt að við gerum þá kröfu til Ríkisútvarpsins að það ritrýni þær skýrslur og það efni sem berst þeim áður en það fer í loftið samanber umfjöllun um Panamaskjölin svokölluðu þar sem allt var lögmætt þar á ferð varðandi fjölmarga og saklaust fólk borið saman við harðvítuga alþjóðlega glæpahunda?
 • Er ekki rétt að Ríkisútvarpið meti þá löggjöf sem í gildi er á Íslandi á hverjum tíma (sbr. lög um lágskattasvæði sem samþykkt voru eftir endurskoðun á Alþingi fyrir kosningarnar 2013) áður en umfjöllun fer í loftið?
 • Er ekki rétt að ræða um 100 ára afmæli hafi á annað borð verið sent skeyti þess efnis að markmið viðtalsins væri að ræða við viðkomandi í ,,tilefni dagsins“?

Það er ekkert að því að spyrja spurninga en það skiptir máli hvaða hugur býr að baki. Það er allt í lagi að koma fólki á óvart en slíkt verður að miðast við almennt velsæmi. Það er allt í lagi að birta myndir af fólki en það verður einnig að vera í samræmi við almennt velsæmi og virðingu við þann sem myndin er af.

Við höfum öll áhrif á umhverfið okkar. Sum viljum við undir þrýstingi (e. peer pressure) fullnægja óskum hópsins sem við vinnum í kringum. Við viljum einnig vinna til verðlauna og fá viðurkenningu á okkar starfssviði.

Með vísan í okkar forfeður skiptir máli orðstýr og það er hverjum sem er heimilt að verja sinn orðstýr sé að honum vegið. Eftir allt ber ég mikla virðingu fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þó svo að hann sé eins og hann er, þrasgjarn eins og ég sjálfur, fastur fyrir og sérlundaður eins og við öll erum í raun og sann.

Berum virðingu fyrir náunganum og látum ekki leiða okkur út af sporinu sem þjóð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstírdeyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Heimild: Úr Gestþætti Hávamála)

 

Gleðileg Jól kæru lesendur og hamingjuríkt ár 2017, þakka liðið.

Flokkar: Heimspeki · Sagnfræði

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is