Miðvikudagur 23.5.2018 - 10:55 - Rita ummæli

Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni

Miðflokkurinn svo og 75% þjóðarinnar vill að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni og verði tafarlaust endurbættur til að þjóna betur innanlandsflugi og sem varaflugvöllur millilandaflugs því hann getur núna tekið á móti 24 þotum í neyðartilvikum. Þá verða lendingarbrautir lagfærðar og neyðarbrautin tekin í aftur í notkun.

Þessi tillaga núverandi meirihluta í Reykjavík í samgöngumálum ganga út frá að nýr flugvöllurinn verði fjármagnaðar í samgönguáætlun ríkissjóðs en ekki af útsvarsgreiðslum Reykvíkinga. Landsmenn allir eiga sem sagt að taka á sig fjármögnun þessa dýra samgöngugæluverkefnis en ekki má gleyma að Reykvíkingar greiða einnig skatta í ríkissjóð.

Það er alveg ljóst að það er ekki áhugi á Alþingi Íslendinga fyrir þessu óskynsamlega samgöngugæluverkefni Dags B. Eggertssonar borgarstjóra því það er tugur annarra samgönguverkefna sem eru meir aðkallandi um land allt eins og lagning og viðhald vega, fækkun einbreiðra brúa, jarðgöng eins og Sundagöng. Í flugmálum eru einnig meir aðkallandi verkefni tengd öryggismálum eins og viðhald og stækkun flugvalla á Akureyri og Egilstöðum vegna alþjóðlegra flugsamgangna og til að þjóna sem varaflugvellir millilandaflugs með nútíma GPS staðsetningar- og lendingarkerfum, stækkun flughlaða fyrir fleirri og stærri vélar svo og lengingu og fjölgun flugbrauta. Einnig lagfæring minni flugvalla um land allt vegna sjúkra- og útsýnisflugs. Þá er bygging samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll á áætlun.

Ofannefnt 200 milljarða samgöngugæluverkefni núverandi meirihluta Reykjavíkurborgar er því óskynsamlegt, óraunhæft og ofloforð í aðdraganda borgarstjórnarkosninga.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
3. sæti í Reykjavík fyrir Miðflokkinn

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.5.2018 - 14:33 - 2 ummæli

Seljahlíð í Breiðholti

Gluggar eru illa farnir og sumstaðar lekur inn

Seljahlíð við Hjallasel í Breiðholti var á sínum tíma eitt glæsilegasta hjúkrunarheimilið í Reykjavík. Á sínum tíma var Seljahlíð eins og listigarður með tjörn skammt frá, fallega hirta lóð og húsnæðið var vel við haldið. Fyrir stuttu heimsótti ég íbúa að Seljahlíð. Í huga minn kom; „nú er hún Snorrabúð stekkur.“

Seljahlíð er nú undir rekstri hjá Félagsbústöðum og í algjörri óþökk íbúa tóku Félagsbústaðir við rekstri og eigninni, hækkuðu leiguna, og höfðu áætlun um að taka allt í gegn. Starfsmenn fengu fyrirmæli um að skrifa niður lista og benda á það sem má lagfæra og í það yrði farið strax. Það er skemmst frá því að segja að ekkert hefur verið gert. Húsaleiga hefur hækkað, umhirða hússins er engin, gluggar leka og eru margir skemmdir. Sérstakt aukagjald vegna læknisþjónustu var sett á og að mati íbúa er aðeins um aukna gjaldtöku að ræða. Íbúar eru búnir að lýsa áhyggjum sínum lengi en engin hlustar. Starfsmenn hafa með alúð lagt mikla vinnu í að gera sem best úr breytingunum og stutt íbúa – því ber að þakka!

Seljahlíð var glæsilegt hús og vel við haldið. Lóðin var vel hirt og íbúum og nágrönnum þótti vænt um þetta reisulega hjúkrunarheimili í Breiðholtinu. Það er ljóst að fráfarandi borgarstjóri hefur algjörlega brugðist. Umhirða og viðhaldi er fyrir löngu orðið þarft, það er skömm að bjóða íbúum uppá ástand sem þetta. Mér þykir vænt um hverfið mitt og ég ætla ekki að láta svona lagað gerast.

Okkur í Miðflokknum blöskrar við að sjá stöðuna eins og hún er með Seljahlíð, en víða eru byggingar borgarinnar í algjöru viðhaldsleysi. Það er fyrir löngu komin tími á breytingar og tiltekt í Reykjavík og við Seljahlíð þarf hin virðulega sýn að eiga sér stað á ný og hlusta þarf á íbúa.

Með því að bæta borgina, setja markvissa vinnu í viðhald og þrífa borgina, þá verðum við að fá tækifæri til þess 26. maí næstkomandi.

Settu X við M
Miðflokkurinn í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.5.2018 - 12:22 - 1 ummæli

EFTIRBREYTNI MEÐFERÐAR OG BETRUNAR

Á landsþingi Miðflokksins sem fór fram helgina 21.-22. apríl í Hörpu samþykkti flokkurinn meðal annars ályktun um málefni fanga, en í ályktun flokksins um þessi mál segir:
„Stytta skal biðtíma fanga eftir afplánun. Auka þarf úrræði eins og samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit til að auka möguleika fangelsisstofnana til að styðja fanga til betrunar. Leggja þarf aukna áherslu á eftirfylgni við fanga og fjölskyldur þeirra, fyrir, á meðan og eftir að afplánun er lokið.
Dómarar skulu ákvarða um reynslulausn, ekki fangelsismálastofnum.“

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að koma á fót virkniúrræði fyrir einstaklinga sem eru að koma inn í samfélagið á nýjan leik að lokinni meðferð eða betrunarvist. Þetta er á stefnuskrá flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar þann 26. maí. Miðflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur á stefnuskrá sinni og sem kosningamál aðstæður þeirra sem ljúka betrunarvist eða meðferð.
Málefni þessi eru oft á tíðum falin og stimplað sem vandamál. Við teljum mikilvægt að huga að betrun til batnaðar og jákvæðri uppbyggingu, að samfélagið veiti hjálparhönd til þeirra sem sýna betrun og bæta sig með meðferð og uppbyggingu. Til þess að það sé hægt þarf fyrst að opna á þá staðreynd að hver manneskja þarf að fá tækifæri á ný. Í umræðunni gleymist þáttur aðstandenda og fjölskyldur einstaklinganna. Virkur stuðningur og markviss uppbygging og eftirfylgni er mikilvægt skref til bata.

Miðflokkurinn í Reykjavík ætlar að hefja þessa vinnu strax eftir kosningar, en til þess þurfum við stuðning þegar kosið eru nú þann 26. maí.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
3. sæti Miðflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is