Miðvikudagur 12.3.2014 - 22:43 - FB ummæli ()

Að vera vinur Sveins Andra Sveinssonar

Síðastliðið haust fór ég í mína árlegu sumarbústaðarferð með æskuvinkonunum. Að vanda skemmtum við okkur mjög vel, drukkum kokteila, elduðum mat, hlógum og fórum í handahlaup og kollhnísa (djók). Sem endranær átti ég erfitt með að leggja frá mér tölvuna (a.k.a. fésbók) og uppfærði stöðu mína eins og óð manneskja inn á milli kokteila. Og áfram leið nóttin. Daginn eftir vöknuðum við stöllurnar dálítið beyglaðar en yfirmáta hamingjusamar. Ég vildi auðvitað deila þessari hamingju í beinni útsendingu á fésbók en ég var ekki fyrr búin að logga mig inn þegar mig rekur í rogastans yfir alls kyns tilkynningum um að þessi og hinn hafi samþykkt vinarbeiðni mína. Þar á meðal Sveinn Andri Sveinsson. Já, þið lásuð rétt. Sjálfur SVEINN ANDRI SVEINSSON, takk fyrir. Við þessar fregnir fékk ég nánast flogakast. Og verk fyrir hjartað. Og tók þá fyrst eftir vinkonum mínum sem nánast ældu úr hlátri á gólfinu, bláar í framan af andnauð.

Já, ég var feisreipuð. Sem í sjálfu sér var ekki stórmál. Vandinn var miklu heldur fólginn í Sveini Andra. Hvað munu vinir mínir halda um mig? Hvaða heilvita kona vingast sí svona við Svein Andra? Ég leit á prófílmyndina hans í angist. Mér hefði sennilega ekki liðið verr þó kölski sjálfur hefði starað glaðhlakkalega framan í mig, í beinni á fésbók. Samt hef ég enga persónulega reynslu af þessum manni. Ég hef aldrei hitt hann, ef frá eru talin spinning tímar þar sem hann hjólar eins og óður maður, hef aldrei talað við hann í síma og rekst aldrei á hann á förnum vegi. Ég hef hvorki séð hann pynta kettlinga né sparka í konur með barnavagna. Samt lá ég nánast í fósturstellingunni af hryllingi yfir þessum nýja vinskap. Við bláókunnugan mann.

Málið er nefnilega þannig að í mínum ranni, á minni plánetu, í mínum kvennahópi, á maður (kona?) að hata Svein Andra. Svona af því bara. Hann er alltaf að verja alls konar glæpamenn, barnaði víst einhverja konu sem talaði um það í fjölmiðlum og, að sögn fólks, er nánast alfarið á móti mannréttindum. Hann er víst svo mikill kapítalist og gróðakall að annað eins hefur ekki sést á byggðu bóli. Alræmdur sjálfstæðis- og Davíðsmaður og nánast étur úr lófa þeirra. Eða svo segir sagan.

Til að skora sjálfa mig á hólm ákvað ég að láta þessa blessuðu vinarbeiðni standa. Enda var ég dálítið forvitin um þennan sameiginlega óvin allra kvenna. Á hverjum degi bjóst ég við sjokkinu mikla. Að sjá dávaldinn herskáa segja eitthvað ljótt um konur, yrkja fögur ljóð um sjálfstæðisflokkinn, Davíð Oddson og Sigmund Davíð. En viti menn. Ekkert slíkt gerðist. Nema síður sé. Í fréttaveitu minni birtast hins vegar tíðar stöðuuppfærslur frá manni sem talar fallega um litla barnið sitt og móður þess (sem þjóðin var reyndar búin að afskrá sem vitleysing, ef mig minnir rétt), er á móti dauðarefsingum, er fylgjandi fjölmenningu og byggingu mosku. Wtf?

En það sem meira er, Sveinn Andri hikar ekki við að gagnrýna ráðamenn og gengur þar hart fram fyrir skjöldu. Hann hlífir hvorki vinum sínum í sjálfstæðisflokknum né öðrum í þessu ljóta aðildarviðræðumáli og mætir bísperrtur á mótmælafundi. Í hnotskurn, má segja að maðurinn sé óhræddur við að segja sína skoðun, burtséð frá vina- og hagsmunatengslum.

Að sjálfsögðu er þessum pistli ekki ætlað að mæra bláókunnugan mann, því að sjálfsögðu veit ég ekkert hvers konar mann Sveinn Andri hefur að geyma.

Þessum pistli, er miklu frekar, beint að mér, þér og öllum hinum fyrir þessa fáránlegu og heimskulegu svart-hvítu heimsmynd sem stýrir okkar daglega lífi en þá sérstaklega afstöðu okkar til stjórnmála og viðbrögðum okkar við álitamálum þar.

En þá er ég komin að kjarna þessa pistils. Sem er hið ólæknandi mein stjórnmálanna. Íslendingar skipta sér í dilka, með eða á móti stjórnmálaflokkum, mönnum og málefnum nánast gagnrýnilaust. Þ.e.a.s við gagnrýnum bara „hina.“ Ekki þá sem við kusum eða við aðhyllumst. Nei nei, bara hina. Að fáum einstaklingum undanskildum gagnrýna sjálfstæðismenn sjaldan aðra sjálfstæðismenn opinberlega. Samfylkingarfólk gerir slíkt hið sama. Það gagnrýnir sjálfstæðismenn og Framsókn. En upphefur sitt fólk. Og ákvarðanir þess.  Vinstri menn gagnrýna hægri menn. Hægri menn gagnrýna vinstri menn. Báðar fylkingar snúa síðan blindu auga að sjálfum sér og eigin fólki.  Femínistar eru yfirleitt alltaf sammála öðrum femínistum, þ.e.a.s á opinberum vettvangi en ekki endilega í hjartanu. Jafnréttissinnar eru líka oftast nær sammála öðrum jafnréttissinnum, en ósammála femínistum.

Að mínu mati geldir þessi menning stjórnmálin og málefnin.  Lof og last, gagnrýni eða stuðningur skiptir engu máli. Ekki nokkru. Vegna þess að við erum blind á það sem okkur er þóknanlegt missir lof okkar marks. Að sama skapi missir gagnrýni okkar á „hina“ marks því við henni er einfaldlega búist. Það er ætlast til þess að við finnum „hinum“ allt til foráttu en styðjum við bakið á okkar fólki. Auga fyrir auga, og tönn fyrir tönn.

Af hverju þetta er svona, veit enginn. Mín kenning er sú að fámennið á Íslandi kalli fram ákveðið hugleysi í okkur því málefnaleg gagnrýni krefst þess að við beinum henni einnig að þeim sem við styðjum eða eigum samleið með.  Sem getur kostað okkur vinskap og tengsl.  Einhver sem lækaði alltaf statusana þína hættir því skyndilega. Eða stórmóðgast við þig ef þú sýnir sameiginlegum óvini ekki nægilega andstöðu.  Eða segir við næsta mann ,, heyrðu, er þessi Sveinn Andri nokkuð svo slæmur, eða hvað?

Vegna þessa finn ég mig ekki í íslenskri pólitík. Ég hef of breiðar skoðanir til að fylgja einni stefnu í blindni en er líka of huglaus á köflum til að vera mjög gagnrýnin á þá sem ég kann vel við.  Að þessu leyti malar Sveinn Andri mig. Og sennilega þig líka.

Annað var það nú ekki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 13:44 - FB ummæli ()

Sigraði einhver í alþingiskosningunum?

Mikið óskaplega er ég þreytt á þessu sigurvegaratali. Sumir segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigrað því hann er stærstur. Miklu fleiri segja að Framsóknarflokkurinn hafi sigrað því hann hefur ekki mælst svona stór í lengri tíma. Svo eru einhverjir sem segja að nýju framboðin hafi sigrað því samtals eru þau með 13,3% fylgi.

Ég er ósammála.

Í mínum huga töpuðu allir. Af hverju segi ég það?  Ég skal telja það upp fyrir ykkur í stuttu máli.

1) Í fyrsta lagi var kjörsókn einungis 81,4%. Til samanburðar var kjörsóknin árið 2009 85,1%.

2) Sameiginlegt kjörfylgi fjórflokksins hefur aðeins einu sinni áður  (svo ég viti til, árið 1987) mælst svona lágt, þ.e. um 75%.

3) Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni í kosningasögunni fengið lægra kjörfylgi en nú (árið 2009).  Allt tal um sigur er því afar undarlegt. Eini ‘sigurinn’ sem hægt er að tala um í þessu tilliti er að útkoma flokksins í kosningunum er betri en kannanir í mars og apríl sýndu. Á hinn bóginn er flokkurinn að tapa stórt ef miðað er við fylgi hans í könnunum síðustu tvö ár.

4) Þó Framsókn sé að vinna kosningasigur að því leytinu til að hann hefur ekki mælst jafn stór síðan í kosningunum 1979, er ekki hægt að segja að 24,4% fylgi muni breyta gangi sögunnar.

5) Þó það sé ekki algengt að tvö ný framboð komist inn á þing í alþingiskosningum, er 13,3% sameiginlegt fylgi ekki sérlega hátt í ljósi eftirspurnarinnar eftir nýju blóði á þingi.  Til samanburðar má geta þess að Kvennalistinn og Borgaraflokkurinn fengu samtals rúm 21% í alþingiskosningunum 1987.

6) 25% kjósenda kusu önnur framboð en fjórflokkinn. Heil 25%. Tæp 12% þessara atkvæða eru ómerk.

Þetta er því ekki merki um neinn sigur, heldur tap. Tap fjórflokksins og tap þeirra kjósenda sem kusu ný öfl.  Þegar kjörsókn er 81,4% og sameiginlegt kjörfylgi tveggja stærstu flokkanna er ekki nema 51,1% er ekki um neinn sigur að ræða. Nú er mér minnistæð hin umdeilda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárbreytingarnar í október síðastliðnum. Þá var mönnum mjög hugleikin hin óljósa afstaða þeirra sem heima sátu. Hvað segja menn nú? Tæp 19% mætir ekki á kjörstað. 25% kjósa annað en fjórflokkinn.

Með þetta í huga, væri ekki ráð að sýna niðurstöðum þessara alþingiskosninga smávegis auðmýkt?

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 10:20 - FB ummæli ()

Hvaða kannanafyrirtæki komust næst úrslitum alþingiskosninganna?

Svo virðist sem MMR, og Fréttablaðið þar á eftir, hafi komist næst úrslitum alþingiskosninganna 2013 ef miðað er við síðustu könnun fyrir kosningar, líkt og myndin hér fyrir neðan ber með sér:

fylgi og kosningar 4

Almennt voru frávikin þó smávægileg en meðalfrávik síðustu könnunar MMR var 0,67% og meðalfrávik Fréttablaðsins var 0,70%.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.4.2013 - 12:38 - FB ummæli ()

Heildverslunin ‘kínversk-íslenska’ í augum kjánalegs kjósanda

Ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig ég á að taka á þessum fríverslunarviðræðum við Kína. Kannski er ég bara heimskur kjósandi, líkt og sumir stjórnarliðar ásamt einstaka oddvita í Bjartri framtíð halda fram, sem getur hvorki séð í gegnum „gylliboð“ Framsóknarmanna og nýju framboðanna um skuldaleiðréttingu eða „innantómt“ kosningaloforð Sjálfstæðismanna um skattalækkanir. Já, ég er kannski bara mjög vitlaus og í því ljósi stíg ég varlega til jarðar varðandi fríverslunarviðræður við Kína.

En, ef minnið bregst mér ekki, hélt ég að staðan í heimsmálum okkar Íslandinga væri svona:

1) Við eigum í umdeildum aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þó ég vilji sjálf klára það ferli, eru ekki allir á sömu skoðun um það mál.

2) Kínversk stjórnvöld hafa staðið fyrir grófum mannréttindabrotum um langa hríð, sem íslensk stjórnvöld, ásamt öðrum, hafa gagnrýnt.

3) Barnaþrælkun, sem við ‘þykjumst’ vera mótfallin, er víðtæk í Kína.

Samt sem áður, er skyndilega eftirsóknarvert að semja um verslun og viðskipti við landið án tolla og hindrana. Þá væntanlega til þess að geta keypt ódýrari vörur (sem sennilega eru þá framleiddar af ódýru vinnuafli).

Ég er bara alveg bit.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.4.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Hvaða frambjóðendur styðja almenna niðurfærslu á skuldum einstaklinga og afnám verðtryggingar?

Það er alveg sérstaklega athyglisvert að skoða svör frambjóðenda á myndrænu formi við spurningum um afnám verðtryggingar og almenna niðurfærslu á skuldum einstaklinga.  Í fyrsta lagi sést bersýnilega hvaða flokkar setja þessi mál á oddinn og hvaða flokkar gera það ekki. Einnig er hægt að sjá hvaða stjórnmálaflokkar hafa ekki beint tekið afstöðu til málaflokkanna (eða eru ósammála innbyrðis), sem sést þá helst í  ‘hvorki né’  svörum eða misræmi í svörum frambjóðenda innbyrðis.

Í myndunum er annars vegar slegið upp svörum oddvita (í efstu sætum kjördæmanna sex) og svörum frambjóðenda í þremur efstu sætunum. Jafnframt sló ég saman svarmöguleikunum sammála/mjög sammála og ósammála/mjög ósammála, til að einfalda myndirnar. Athugið þó að enn vantar svör frá sumum frambjóðendanna og er listinn því ekki tæmandi.

Lítum á fyrstu myndina sem sýnir svör við spurningunni um afnám verðtryggingar (smellið á myndina til að stækka hana).

Oddvitar og thrju efstu saetin afnam verdtryggingar

Þar kemur fram að af sex oddvitum Hægri grænna og Dögunar eru fimm sammála afnámi verðtryggingar. Fjórir af sex oddvitum Bjartrar framtíðar eru hlutlausir í garð spurningarinnar en tveir slepptu að svara. Tveir oddvitar Framsóknarflokks og Lýðræðisvaktarinnar eru sammála afnámi á meðan enginn oddviti Pírata segist vera því hlynntur. Þrír oddvitar Pírata eru ósammála afnámi og tveir eru hlutlausir.  Enginn oddviti stjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokks eru sammála afnámi verðtryggingar.

Þegar litið er til þriggja efstu sæta breytist mynstrið nokkuð. Þó ekki hjá Dögun og Hægri grænum þar sem nær allir (sem svara) eru sammála afnámi. Helstu breytingarnar eru þær að nú fást fleiri jákvæð svör við afnmámi verðtryggingar en áður, t.a.m. meðal frambjóðenda Samfylkingar (4) og, Vinstri grænna (5) og Bjartrar framtíðar (4).  Svör Lýðræðisvaktarinnar eru mjög athyglisverð í þessu tilliti en 12 frambjóðendur, af 18 í þremur fyrstu sætunum, eru sammála afnámi verðtryggingar þó svo flokkurinn hafi það ekki beinlínis á stefnuskránni. Einnig breytist mynstrið nokkuð meðal Pírata en nú svara sex frambjóðendur því til að þeir séu sammála afnámi.

Afstaða frambjóðenda til almennrar niðurfærslu skulda er afdráttarlausari en til afnáms verðtryggingar (sjá næstu mynd). Þegar svör oddvita eru skoðuð, eru það helst Dögun, Hægri grænir og Lýðræðisvaktin sem eru hlynnt niðurfærslu. Fjórir oddvitar pírata eru því ósammála og er enginn sammála. Tveir oddvitar Bjartrar framtíðar eru ósammála niðurfærslu en einn sammála og einn er hlutlaus.

Oddvitar og thrju efstu saetin nidurfaerslur a skuldum.jpeg

Þetta mynstur styrkist frekar í sessi þegar litið er til frambjóðenda í þremur efstu sætunum.  Fjórtán frambjóðendur Dögunar, tíu frambjóðendur Hægri grænna og sjö frambjóðendur Framsóknarflokks eru sammála niðurfærslu á skuldum. Fimm Lýðræðisvaktarframbjóðendur eru einnig sammála á meðan átta frambjóðendur Samfylkingar, níu frambjóðendur Vinstri grænna og sjö frambjóðendur Bjartrar framtíðar eru því ósammála.

Á næstu mynd eru niðurstöðurnar í fyrri tveimur myndunum sameinaðar í einni. Athugið þó að svörin hér miða bara við  þrjú efstu sætin, svörum oddvita sérstaklega var sleppt.

Þá blasir við dálítið ‘skemmtileg og lífleg’ mynd. Mesta dreifnin er í svörum Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Þar eru sumir sammála, sumir ósammála og nokkrir hlutlausir.  Af hverju þetta stafar er erfitt að segja. Í fyrsta lagi gæti auðvitað verið um málefnaágreining að ræða þó það sé einnig inni í myndinni að stefna þeirra í málaflokknum sé óljós eða einfaldlega enn í mótun.

saman verdtrygging og nidurfaersla

Hvað sem þessum vangaveltum líður ætti þessi samantekt að auðvelda kjósendum sem eru hlynntir afnámi verðtryggingar og almennri niðurfærslu skulda, sem og þeim kjósendum sem líta ekki á það sem forgangsmál, að velja framboð við hæfi.

Skemmtið ykkur vel!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.4.2013 - 11:44 - FB ummæli ()

Er borgaraleg ferming, „hermiferming?“

Þegar tólf ára gamall sonur minn sat yfir námsbókunum um helgina, sagði hann skyndilega upp úr eins manns hljóði: mamma, ég vil borgaralega fermingu. Ég vil alls ekki fermast í kirkju.

Nú, sagði ég, eilítið hissa. Af hverju ekki?

Ég vil fermast á sama hátt og önnur börn, í veislusal. Ekki í kirkju, sagði drengurinn. Ég var eitt spurningamerki í framan. Á sama hátt og önnur börn? Flest börn fermast í kirkju sonur sæll. Þannig er það bara. Mamma þekkir tölfræðina, ekki deila við dómarann.

Nei það er ekki rétt, mótmælti barnið. Við höfum aldrei farið í neina kirkjufermingu hjá neinum. Við höfum bara farið í fermingar í veislusölum með fullt af kökum og alls konar atriðum.  Ég vil alls ekki húka í kirkju í svona skikkju með presti og sálmum í minni fermingu á meðan allir aðrir skemmta sér í veislum.

Ég skellihló. Elsku drengurinn minn, fermingarbörnin fermast ekki í veislusölunum. Nei nei. Þau fara fyrst í kirkju með foreldrum og öfum og ömmum og svo halda þau veislu þar sem gestum er boðið.

Aha. Ég skil, sagði drengurinn.

En ég þekki minn dreng og vissi að málið færi ekki af dagskrá svona auðveldlega.

Eftir smá umhugsun spurði hann svo:  hver er þá munurinn á þessum fermingum?  Mér finnst þetta vera nánast eins. Báðar eru haldnar í sal með veislumat og gjöfum. Nenna krakkarnir í borgaralegum fermingum ekki í kirkjuna?

Eh, nei. Sko, þetta snýst ekki um nennu, sagði ég. Þessir krakkar vilja ekki játast kristinni trú.

??

Krakkinn varð eitt spurningamerki. Og spurði svo: snýst ferming um kristna trú?

Já, svaraði ég.

Og þau vilja þá ekki vera kristin?

Nei, það vilja þau ekki.

En þau vilja samt láta ferma sig?

Já.

Og játast þá annarri trú?

Uuu, nei. Ekki beint. Þau vilja vera ábyrgir borgarar.

Ha, hváði krakkinn.  Vilja aðrir ekki vera ábyrgir borgarar?

Jújú, auðvitað vilja flestir það, tautaði ég þreytt.

Ég skil, sagði sonurinn svo. Veistu hvað ég held, mamma? Ég held að þetta sé „hermiferming.“ Þau nenna ekki í kirkjuna en vilja samt fermast.

Ég nenni ekki heldur í kirkjuna. Má ég sleppa við hana?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.3.2013 - 13:08 - FB ummæli ()

Verðtryggingin og himinháa óréttlætið: af hverju höfum við launþegar leyft stjórnvöldum að komast upp með þetta?

Burtséð frá öllum rökum gegn verðtryggingunni og með henni eru í minum huga ein rök sem vega þar þyngst: þetta bölvaða ójafnræði milli lántaka og lánveitanda, launþega og fjármálastofnana.  Nú segja sumir að verðtrygging dragi úr verðbólgu og sé þ.a.l. nauðsynleg. En ég spyr á móti, af hverju eru laun þá ekki verðtryggð líka?

Í álitsgerð um ólögmæti verðtryggingu á Íslandi, (unnin af Birni Þorra Viktorssyni, hrl, og Braga Dór Hafþórssyni, hdl)  fyrir Verðalýðsfélags Akraness, kemur dálítið merkilegt fram. Og haldiði ykkur nú.

„Við setningu Ólafslaga árið 1979 var markmið verðtryggingar að draga úr neikvæðum áhrifum verðbólgu á hagkerfið og tryggja fyrirtæki og einstaklinga fyrir áhættu vegna óvissu um framtíðarþróun verðlags.“

Athyglisvert. En ef við höldum áfram sjáum við ákveðna þversögn, sem er þessi:

Á sama tíma voru laun í landinu almennt verðtryggð en sú skipan var afnumin þar sem hún var talin verðbólguhvetjandi.

Ha? Verðbólguhvetjandi? Hvernig þá? Hvernig stendur á því að verðtryggð laun eru verðbólguhvetjandi á meðan verðtryggð lán og innstæður eru það EKKI? Er það vegna þess að laun eru ákveðinn fasti í veruleikanum (þ.e. flestir einstaklingar yfir 18 ára aldur eru með einhvers konar tekjur) en ekki lán? Af því að lántökur eru, upp að ákveðnu marki,  ‘valkvæðar’?

Ef svo er, höfðu menn rangt fyrir sér. Lántökur á Íslandi urðu svo umfangsmiklar og algengar að það er nánast hægt að líkja þeim við algengt hobbý. Íslendingar tóku lán álíka oft og þeir fóru í kvikmyndahús.

En ég spyr, hvar er jafnvægið? Hvar er yang og yin? Er ekki út í hött að féð sem notað er til að greiða af lánum (laun) er ekki verðtryggt að sama skapi? Er það ekki ávísun á misvægi? Á jöfnu sem ætíð kemur út í mínus?

Er það sanngjarnt að fasteignalán mín, bifreiðalánið og námslánin eru öll verðtryggð með síhækkandi höfuðstól og afborgunum á meðan laun mín eru í núvirði lægri en áður?

Nei og aftur nei.

Þetta vil ég að sé lagað strax.

Með kveðju, SNJ.

P.s. Ekki bjóða mér nýja mynt (upptöku Evru) eða inngöngu í ESB til að leysa málið. Það tekur hvort eð er mörg ár og ég nenni ekki að bíða. Ég segi bara, réttlæti strax.

P.s.s. Ekki segja mér að ‘þetta mál sé flóknara en sem nemur skilningi mínum,’ eða ‘það er margt í þessu,’ eða eitthvað í þeim dúr. Ég er án efa að minnsta kosta álíka vel gefin og stjórnmálamennirnir sem settu þessi lög.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.3.2013 - 09:41 - FB ummæli ()

Baráttan um líkama konunnar

Konan var auðvitað lengi vel eign karlmannsins. Og eign Húshaldsins ehf. Með ýmsum lagalegum breytingum og þrýstingi frá femínistum og frelsisleitandi hugsjónafólki  minnkuðu fjötrar konunnar eftir því sem leið á 20. öldina. Þessar breytingar komu þó ekki til átakalaust og eru eflaust margir þeirrar skoðunar í dag að konan sé ennþá ófrjálsari en karlinn.

Þó líkaminn sé mestmegnis eign konunnar í orði, er hann það ekki á borði. Þessu til staðfestingar nægir að rýna í söguna. Á háskólaárum mínum skrifaði ég BA ritgerð um pólitíkina í kringum fóstureyðingarmálið svokallaða, sem er ansi hreint áhugaverð saga.

Allar konur vilja fara í fóstureyðingu

Árið 1973 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra, Magnús Kjartansson, fram frumvarp á þingi um fóstureyðingar (ásamt ráðgjöf og fræðslu um kynlíf og barneignir) sem vakti gríðarlegar deilur innan þings og utan. Megin inntak frumvarpsins var fólgið í tvennu:

1) að heimila fóstureyðingar vegna bágrar félagslegrar stöðu móður og 2) að konan sjálf hefði ákvörðunarvaldið í þeim efnum en ekki óháðir sérfræðingar (þ.e. aðgerð veitt að ósk konu).

Þessi róttæka breytingartillaga í annars íhaldssömum málaflokki gerði allt vitlaust í landinu. Í bókstaflegri merkingu. Deilurnar um efni frumvarpsins á þingi stóðu yfir í hvorki meira né minna en tvö ár. Þinginu bárust ógrynnin öll af bréfum frá einstaklingum sem og hagsmunasamtökum og félögum, sem ýmist studdu efni frumvarpsins eða andmæltu því.

Það sem er þó athyglisverðast við þessar deilur er að þær stóðu ekki nema að litlu leyti um siðferðilegar forsendur fóstureyðinga, þ.e. hvort fóstureyðingar væru yfirhöfuð réttlætanlegar. Flestir virtust átta sig á því að félagslegar aðstæður barnshafandi konu geta verið alveg jafn hamlandi heppilegu barnauppeldi og líkamlegur sjúkleiki. Það sem helst var deilt um var sú tillaga að ákvörðunarrétturinn yrði í höndum konunnar sjálfrar en ekki lækna eða annarra sérfræðinga.

Fólki blöskraði einfaldlega sú hugmynd að barnshafandi kona gæti tekið þá ákvörðun, ein og óstudd, að fara í fóstureyðingu. Spurt var, hvernig á kona að geta metið það hvort félagslegar aðstæður hennar sjálfrar réttlæti fóstureyðingu eður ei? Þarf ekki fagaðila til þess? Vissi þingheimur ekki að um háalvarlegan hlut var að ræða?  Alvarlegri en svo að konur átti sig á? Sumir þingmanna lýstu því meira að segja yfir að án verulegra hindrana til fóstureyðinga myndu konur flykkjast að og standa bísperrtar í biðröðum eftir aðgerðinni. Íslendingum myndi þ.a.l. fækka umtalsvert og skálmöld og hórdómur tæki við.

Konur eru vitlausar og lauslátar

Þessi umræða er mjög lík annarri, sambærilegri umræðu sem átti sér stað 40 árum áður. Í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar var lagt fram frumvarp fyrir alþingi þess efnis að læknar fengju heimild til þess að fræða konur um getnaðarvarnir og láta þeim þær í té ef þær óskuðu svo. Um þetta risu miklar deilur. Menn áttu ekki til orð yfir frjálslyndi þessara hugmynda og töldu að konur hefðu sjálfar ekki burði til að átta sig á alvarleika málsins. Skildi fólk ekki að konum væri hætta búin ef þetta gengi eftir? Skildu menn ekki að ef konur fengju getnaðarvarnir í eigin hendur myndu þær sofa hjá án ábyrgðar? Að hjónabönd myndu hrynja og engin börn fæðast? Að fjöllyndi og önnur óværa myndi leggja samfélagið í rúst? Kunnuglegar röksemdir ekki satt?

Í þessum hugmyndum kristallaðist feðraveldið í allri sinni dýrð. Sú hugsun að konan sjái ekki fótum sínum forráð, að hún viti ekki hvað henni er fyrir bestu, er kjarninn í þessari karllægu afstöðu ásamt gömlum hugmyndum um erfðasyndina. Konan er ekki bara vitlaus og kann ekki fótum sínum forráð heldur er stutt í hórueðli hennar og þá kvenlægu tilhneigingu að siðspilla umhverfi sínu. Sem betur fer réðust femínistar (þá kvenréttindakonur) á þessa hugmyndafræði og sendu mörg erindi til alþingis þess efnis. Það gerðu þær einnig nokkrum áratugum seinna þegar umræðan um fóstureyðingar kom fram.  Enda hefur hlutverk femínista ætíð verið það að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt og frelsi konunnar.

Vegna þessa er ég eilítið hvumsa yfir umræðunum að undanfarin tvö ár um staðgöngumæðrun. Þar koma fram hugmyndir sem bera óhugnanlega mikinn keim af liðnum tíma þegar átökin um frelsi kvenna til fóstureyðinga og notkunar á getnaðarvörnum stóð sem hæst. Hugmyndir sem telja okkur trú um að einhver með vald og þekkingu þurfi að hafa vit fyrir konum og gæta þess að þær fari sér ekki að voða eða kalli meiri hörmungar yfir sjálfar sig og aðra.

Sá athyglisverði munur er þó á þessum umræðum og þeim fyrri að nú eru femínistar helst í hópi þeirra sem vilja setja lög um líkama kvenna, þ.e. gegn staðgöngumæðrun. Sem er á margan hátt skiljanlegt. Í fyrsta lagi er um að ræða afar flókið málefni, sem krefst þess auðvitað að löggjafinn fari sér hægt og taki mið af öllum hagsmunum sem þar koma við sögu, og í öðru lagi er þetta nýtt. Þ.e.a.s. ekki hefur í sjálfu sér reynt á þetta hérlendis ef frá er talið þetta undarlega mál fyrir nokkru síðan sem tengdist íslensku hjónunum og indversku staðgöngumóðurinni. (Leiðréttið mig endilega ef dæmin eru fleiri).

En hvað sem þessum vangaveltum líður, og sama hversu flókið staðgöngumæðramálefnið er, þá eru röksemdirnar gegn staðgöngumæðrun merkilega líkar eldri hugmyndum um konuna. Þ.e.a.s. ef frá eru taldar  hugmyndir um erfðasyndina og siðspillandi áhrif frjálsra kvenna (enginn femínisti undir sólinni myndi halda því fram að aukið frelsi kvenna myndi kalla siðspillingu yfir samfélagið).

Enn er því haldið fram að konur kunni ekki fótum sínum forráð, að kerfið þurfi á einhvern hátt að vernda konur gegn illum öflum sem vilja misnota þær. Að konur geti ekki verndað sig sjálfar. Í hvert sinn sem ég heyri setningu á borð við þá að „konur verði notaðar sem útungunarvélar“ fer um mig hrollur. Hrollur vegna þess að ekki er gert ráð fyrir því að konur hafi styrk til að verja sig gegn slíkri misnotkun.

Ég spyr því: geta konur ekki sjálfar varið sínar persónur og sína líkama? Veit kerfið betur en einstök kona hvað hentar henni best, líkt og menn héldu fram þegar frelsi kvenna til fóstureyðinga var rætt? Og það sem meira er, vita konur almennt hvað einstaka konu er fyrir bestu?

Það er spurning.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.3.2013 - 16:26 - FB ummæli ()

Þurfa alþingismenn ekki að kunna neitt?

Margir stjórnmálaflokkar í landinu hafa beðið mig um að fara í framboð. Ég hugsa að á undangengnum 18 mánuðum hafi ég hafi fengið þessa spurningu um það bil milljón sinnum. Ekki vegna kunnáttu minnar í tölfræði.  Ekki vegna bakgrunns míns í opinberri stefnumótun. Ekki vegna þess að ég kenndi í háskóla.  Nei nei.  Einungis hefur verið óskað eftir kröftum mínum vegna þess að ég a) hef munninn fyrir neðan nefið, og b) á það til að blogga stundum.

Þetta eru einu ástæðurnar.

Í hvert sinn sem mér misbýður verulega og ég tjái það af mikilli festu ( með frekjugangi segja sumir)  er rokið til og sagt að það sé þörf fyrir konur eins og mig í pólitík.  Því það þurfi „að hreinsa til á þingi“ og „segja fólki til syndanna“.

Enginn talar um þekkingu mína eða reynslu í þessu sambandi. Enginn segir að það þurfi einhvern með mína menntun og reynslu á þing. Eða mína skynsemi.

Pæliði í þessu.

Ef við heimfærum þetta yfir á önnur fagsvið sést bersýnilega hversu kjánalegt þetta er. Það dettur engum í hug að kona sem opnar munninn reglulega og skammar einhvern ætti að gerast seðlabankastjóri hið snarasta. Eða biskup.

Ég spyr því: gerum við engar faglegar kröfur til alþingismanna? Og ráðherra? Þurfa þeir ekki að kunna neitt annað en að opna munninn? Þurfa þeir ekki að hafa neina sérstaka starfsreynslu að baki sem undirbýr þá fyrir þingstörfin? Nei, greinilega ekki.

Samt eru það ekki léttvægar ákvarðanir sem alþingismenn taka. Mér finnst ekkert léttvægt við það að ákveða hver fær hvað, hvenær og hvernig.

Prófum því að gera eitt róttækt. Prófum að skoða pólitíska frambjóðendur í ljósi mannkosta þeirra, reynslu og þekkingu í stað þess að einblína á það hversu hátt og mikið þeir tala eða hversu vel þeir koma fyrir í einstaka fréttaþætti (þó framkoma skipti vissulega máli).

Hvernig væri að velja bara hæft fólk til starfans 27. apríl?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 21:35 - FB ummæli ()

Geðhjálp skorar á stjórnmálaflokka í framboði – hvern ykkar eiga geðsjúkir að kjósa?

Hvernig ætla stjórnmálaflokkarnir að standa að geðheilbrigðisþjónustu í landinu á næsta kjörtímabili? Geðhjálp lagði spurningar fyrir alla stjórnmálaflokka í framboði en svör þeirra munu birtast í Fréttablaðinu þann 14. mars næstkomandi.  Fylgist því með og takið upplýsta ákvörðun um það hvaða stjórnmálaflokka þið viljið hafa í eldlínu heilbrigðismála næstu fjögur árin.

Við Íslendingar lifum á háskalegum tímum þar sem eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu eykst og örorka vegna geðsjúkdóma verður æ algengari. Í hnotskurn er staðan svona:

 • Geðverndarfélag Akureyrar segir neyðarástand ríkja í geðheilbrigðismálum á svæðinu, líkt og kom fram í Fréttablaðinu í gær
 • Um 37% öryrkja hérlendis voru með örorkumat vegna geðsjúkdóma árið 2011 ( sem gera rétt rúmlega 6000 manns)
 • u.þ.b. 30 þúsund manns tóku þunglyndislyf að jafnaði (árið 2009)
 • 56 einstaklingar létust af völdum geð- og/eða atferlisraskana (árið 2009)
 • 36 einstaklingar frömdu sjálfsvíg (árið 2009)

Þetta myndi ég kalla ófremdarástand. Svo ég taki vægt til orða.

Það hljóta allir að vera sammála því að á tímum efnahagsþrenginga er mikilvægara en ella að grunnstoðir sálgæslu og geðverndar í nærsamfélaginu séu styrktar til að mæta auknu álagi kreppunnar á einstaklinga og fjölskyldur.

Við spyrjum því, hvaða aðgerðir ætla stjórnmálaflokkarnir, sem nú etja kappi um hylli kjósenda, að ráðast í á næsta kjörtímabili til að vinda ofan af þeim vanda sem nú steðjar að geðheilbrigðisþjónustunni? Í tilefni alþingiskosninganna í næstkomandi aprílmánuði lagði Geðhjálp eftirfarandi spurningar fyrir stjórnmálaflokkana:

 1.  Hvaða aðgerðir ætla framboðin að ráðast í til að skapa nauðsynlega samfellu á milli þeirra sem veita geðheilbrigðisþjónustu
 2. Hvernig ætla framboðin að auka þátt heilsugæslunnar í geðheilbrigðisþjónustu svo hún megi verða fyrsti viðkomustaður fólks með geðrænan vanda?
 3. Stefna framboðin að því að stytta biðlista eftir meðferðarþjónustu á geðdeildum sjúkrahúsanna m.a. með því að útvega húsnæði fyrir þá sem ekki eiga þak yfir höfuðið og geta þ.a.l. ekki útskrifast?
 4.  Hvenær má almenningur vænta þessara umbóta í geðheilbrigðisþjónustunni?
 5. Munu framboðin tryggja nauðsynlegt fjármagn til umbóta í geðheilbrigðisþjónustunni á kjörtímabilinu?
 6. Munu framboðin koma á samráðsvettvangi sjúkrahúsa, heilsugæslna og félagasamtaka til að vinna sameiginlega að þessum umbótum á kjörtímabilinu?

Geðhjálp bíður spennt eftir svörum stjórnmálaflokkanna sem munu birtast í sérblaði Geðhjálpar sem verður dreift með Fréttablaðinu fimmtudaginn þann 14. mars næstkomandi. Jibbý.

Þegar hafa borist svör frá þremur framboðum. Láttu þitt framboð ekki vanta í þessa umfjöllun!

Ást og friður,

Stjórn og starfsmenn Geðhjálpar

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is