Laugardagur 11.02.2017 - 12:49 - FB ummæli ()

Gammar ásælast eignir okkar

Viðskiptaráð var með ársfund sinn í vikunni. Þar steig á stokk forstjóri Gamma Capital fyrirtækisins og lagði til að ríkið seldi orkugeirann til einkafjárfesta (sjá hér). Nefndi hann ýmis léttvæg og bjánaleg rök fyrir því.

Auðmenn á Íslandi hafa lengi ásælst Landsvirkjun og orkuveitur landsmanna.

Þeir gætu nefnilega grætt ógeðslega mikið á þeim. Enda eru þetta oft einokunarfyrirtæki sem hafa viðskiptavini sína í bandi. Heimilin eiga almennt ekkert val um kaup sín á rafmagni og heitu vatni.

Annað er það að verðlag á neysluvörum á Íslandi er yfirleitt með því hæsta sem þekkist í Evrópu – ef ekki í heiminum. Það bendir til óvenju lakrar frammistöðu einkageirans á Íslandi.

Undantekningar frá því eru þó verð á rafmagni og heitu vatni. Það er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Fyrirkomulag þeirra mála hér á landi er því gott eins og nú er.

Ef orkufyrirtækin færu í hendur einkaaðila og væru rekin í anda sjálfgræðisstefnunnar þá myndu þau auðvitað stórhækka notendagjöldin til almennings við fyrsta tækifæri.

Gróðafærin þarna væru því gríðarleg – en allt væri þetta þvert gegn hagsmunum heimilanna sem kaupa rafmagn og heitt vatn.

Einka(vina)væðing orkufyrirtækja landsmanna væri því fráleit leið fyrir alla – nema fyrir fámennan hóp auðmanna.

 

Hagsmunabarátta auðmanna gengur gegn almannahag

Viðskiptaráð og Samtök atvinnurekenda (SA) hafa lengi ásælst allt það sem verðmætt er á Íslandi og vilja koma því sem mest í hendur einkaaðila (auðmanna).

Þessir aðilar birta linnulaust skýrslur og fabúlur um þessa drauma sína og færa fyrir þeim alls konar rök úr smiðju vúdú-hagfræðanna, til að blekkja fólk á sitt band.

Nýjasta framlagið í þessari hagsmunabaráttu auðmanna er sú tillaga Viðskiptaráðs að ríkið selji slíkum aðilum allt það húsnæði sem það notar undir starfsemi sína – þar með talið stjórnarráðið, skóla og lögreglustöðvar (sjá hér).

Ríkið gerist í staðinn leiguliði auðmanna og greiði miklu hærri notendagjöld fyrir húsnæði en nú tíðkast.

Það væri veisla fyrir fjárfestana en gríðarlegt tap fyrir almenna skattgreiðendur!

En almenningur sér í gegnum svona gróðabrall og tilburði ránfugla.

Fyrir nokkrum misserum var mikið talað um ógn frá erlendum “hrægömmum” og vildu menn almennt varast slíka ásælni í eignir hér á landi.

En innlendir gammar eru kanski mesta ógnin við hagsmuni almennings…

 

Síðasti pistill:  Útvegsmenn eiga að greiða laun sjómanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is