Mánudagur 25.03.2013 - 15:43 - FB ummæli ()

Rökræður mínar og Miltons Friedmans

Árið 1984 kom bandaríski hagfræðingurinn og frjálshyggjumaðurinn Milton Friedman til Íslands, í boði hérlendra frjálshyggjumanna.

Að því tilefni var efnt til sjónvarpsumræðna þar sem þrír íslenskir fræðimenn rökræddu hugmyndir Friedmans við hann í sjónvarpssal. Viðmælendurnir voru Ólafur Ragnar Grímsson, þá prófessor, Birgir Björn Sigurjónsson hagfræðingur og ég hafði verið lektor við HÍ í rúm 3 ár þegar þetta var. Þetta var langur þáttur sem vakti nokkra athygli á sínum tíma

Ég var ánægður með samræður okkar Friedmans og fannst hann þurfa að gefa nokkuð eftir í sumum þeirra efnisatriða sem ég beindi að honum. Félagar mínir voru líka með góða punkta, en Friedman var þekktur fyrir mælsku sína og sjálfsöryggi.

Hér má sjá myndband af þættinum. Á mínútu 23:16 til 37:10 ræddi ég við hann um kosti og galla stórs ríkisvalds. En á mínútu 49:50 til 57:58 ræddum við um fullyrðingu Friedmans um að bandarísku samfélagi stafaði meiri hætta af velferðarríkinu en sjálfum Sovétríkjunum, með öll sín kjarnorkuvopn.

Síðan fór umræðan á þeim kafla líka út í áhrif skatta og jöfnunaraðgerða á vinnuframlag þar sem hann var í nokkrum vandræðum með kenningar sínar.

 

Sumt af því sem þarna var til umræðu er enn í dag á dagskrá þjóðmálaumræðunnar. Mér fannst Friedman skemmtilegur og sjarmerandi.

Undir lokin gerði ég athugasemd við að rukkað væri inn á opinberan fyrirlestur hans, um 12.000 krónur að núvirði. Bæði var þetta óvenjulegt á Íslandi á þessum tíma og mér fannst þetta afar dýrt, enda í tímabundnum blankheitum.

Íslenskir frjálshyggjumenn hafa sérstaklega flaggað þessu og talið þetta eitthvað niðrandi fyrir mig. Hannes Hólmsteinn endurtekur þetta á bloggi sínu í dag -sennilega í tíunda skiptið-  og kallar mig að því tilefni „íslenskan sósíalista“!

Ja, mikið megum við miðjusinnaðir framsóknarmenn þola nú á dögum! Kanski það sé velgengni okkar sem ærir frjálshyggjumanninn?

Það sýnir raunar hversu óvenjulegt þetta var, að öllum myndi þykja það undarlegt nú ef þeir þyrftu að greiða 10-15 þúsund krónur fyrir að heyra Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, eins og Joseph Stiglitz eða Paul Krugman, tala um fræðimennsku sína við Háskóla Íslands.

Þessi markaðsvæðing íslenskra frjálshyggjumanna á fræðilegri umræði náði sem sagt ekki að festa rætur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is