Mánudagur 27.6.2016 - 23:44 - FB ummæli ()

Ævintýrið heldur áfram!

Hvað getur maður sagt um árangur strákanna í Nice?!

Þeir voru frábærir, einfaldlega betri en Englendingar.

Það er ótrúlegt að verða vitni að þessum góðu sigrum okkar manna á EM.

Stórkostleg skemmtun.

Samstaða og fagmennska eru trúlega lyklarnir að þessum árangri.

Bretar segja að þjálfari þeirra sé með nærri 700 milljónir króna í laun – en að þjálfari Íslands sé tannlæknir í hlutastarfi! Hann og Lagerbäck hafa væntanlega bara brot af launum þess enska.

Og þá á eftir að bera saman laun bresku landsliðsmannanna við laun þeirra íslensku. Þar munar verulegu.

Einhver álitsgjafi sagði á SKY fréttastöðinni að Rooney hefði eytt meiru í hárkollu sína en næmi launum alls íslenska landsliðsins! Sel það ekki dýrar en ég keypti…

Það eru sem sagt ekki launin sem ráða úrslitum!

Ekki heldur fjöldi sem leikur fótbolta. Í Englandi er sagt að nærri 10 milljónir leiki fótbolta en þeir eru aðeins um 20 þúsund á Íslandi! Englendingar hafa mikla yfirburði í fjölda leikmanna sem þeir geta valið úr – en við höfum samt meiri gæði (að þessu sinni)!

Lars og tannlæknirinn hafa unnið frábært starf og strákarnir gefa allt sem þeir eiga í leikina.

Vonandi gengur þeim vel gegn Frakklandi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.6.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Guðni fyrir alla – konur og karla!

Guðni Th. Jóhannesson er eini frambjóðandinn sem er með góðan stuðning í öllum þjóðfélagshópum.

Hann hefur því bestu forsendurnar til að verða forseti allra.

Sameiningartákn, eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir.

Óhætt er að óska Guðna til hamingju með prúðmannlega framkomu hans í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að honum, oft með ósanngjörnum og jafnvel ósvífnum hætti.

Samt hefur hann haldið ró sinni og forðast að láta etja sér út á foraðið.

Guðni er með mikla þekkingu á sögu forsetanna og stjórnmálanna. Hann býr einnig að öðrum ágætum mannkostum sem vel munu nýtast á Bessastöðum.

Ég ætla því að kjósa Guðna á morgun.

 

Ég hrífst þó einnig af Andra Snæ. Hann er með áhugaverðar hugsjónir og sterka framtíðarsýn.

Hann á skilið að fá góða kosningu.

Halla Tómasdóttir hefur sótt á, þrátt fyrir að hafa haft náin tengsl við Viðskiptaráð á þeim árum er peningaöflin keyrðu samfélagið fyrir björg. Hún kemur ágætlega fyrir, segist hafa lært sína lexíu og vilji nú bæta samfélagið með auknu réttlæti.

Sturla Jónsson hefur einnig sótt á og kemur mun betur fyrir en áður. Hann er líklega ákveðnasti talsmaður réttlætis í hópi frambjóðenda.

En morgundagurinn verður dagur Guðna.

Og það er vel.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.6.2016 - 16:44 - FB ummæli ()

Halla og Davíð auglýsa mest

Það er áberandi hversu mikið Halla Tómasdóttir og Davíð Oddsson auglýsa í baráttunni um forsetaembættið.

Bæði eru mjög mikið með keyptar auglýsingar:  á prenti, í sjónvarpi, á strætóskýlum og á netinu.

Auk þess hefur Morgunblaðinu verið beitt í ríkum mæli til að styðja framboð Davíðs, með miklum tilkostnaði.

Kosningabaráttan er því  væntanlega langdýrust hjá Höllu og Davíð.

Það er hins vegar skemmtilegt að sjá, að Guðni Th. Jóhannesson er mjög hófsamur í auglýsingum.

Samt nær hann miklu meiri árangri en þau sem mest auglýsa.

Aðrir þættir en skrautmálaðar auglýsingar ráða sem betur fer úrslitum.

Það er heilbrigðara þannig.

 

Síðasti pistill:  Guðni sameinar þjóðina

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 21.6.2016 - 06:45 - FB ummæli ()

Tímamót á laugardag

Það er bjart yfir Íslandi núna. Sumarið komið og flest gengur vel.

Landsliðið í fótbolta stendur sig vel og yljar öllum um hjartarætur.

Forsetakosningarnar á laugardaginn eru síðan frábært tækifæri til að hleypa framtíðinni að og setja fortíðina aftur fyrir okkur.

Allir ættu því að taka þátt í kosningunni. Setja mark sitt á framtíðina.

 

Síðasti pistill:  Guðni sameinar þjóðina

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 18.6.2016 - 12:15 - FB ummæli ()

Frambjóðandi útvegsmanna?

Kristinn H. Gunnarsson, sá reyndi og heilsteypti stjórnmálamaður, skrifaði mjög athyglisverða grein á þjóðhátíðardaginn um forsetaframboð Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins (sjá hér).

Kristinn setur framboðið í samhengi við hagsmuni útvegsmanna og eignarhald þeirra á Morgunblaðinu. Hann vekur sérstaka athygli á hvernig blaðinu hefur markvisst verið beitt í þágu framboðsins.

Í ljósi umræðu í samfélaginu um breytingar á stjórnarskrá, sem meðal annars eigi að tryggja almenningi eðlilega hlutdeild í rentu af náttúruauðlindum landsins, þá dregur Kristinn fram mjög mikilvæg atriði sem ástæða er til að huga að.

Stuðningur Davíðs við kvótakerfið, andstaða við hækkun veiðileyfagjalda, stuðningur hans við notkun auðmanna á skattaskjólum og andstaða hans við breytingar á stjórnarskrá eru allt atriði sem útvegsmönnum hugnast vel.

Spurningin er þó hvort þjóðin hafi ekki gefið útvegsmönnum nógu mikið með kvótakerfinu, þó fulltrúi þeirra sé ekki líka settur á Bessastaði?

Ég hef almennt litið svo á að framboð Davíðs væri veikluleg tilraun hans til að leita syndaaflausnar hjá þjóðinni fyrir mistök frjálshyggjutímans og hrunsins, sem hann átti stóran þátt í.

Hann var í lykilhlutverki þeirrar óheillaþróunar, bæði sem áhrifamikill stjórnmálamaður frá 1995 til 2005 og sem aðalbankastjóri Seðlabankans 2005 til 2008, þegar bóluhagkerfið keyrði um þverbak í ósjálfbærri þróun og almennum galskap – sem svo gat af sér hrunið.

Grein Kristins dregur athygli að dýpri tengslum framboðsins við víðtæka hagsmuni útvegsmanna, sem fá stærstan hluta af rentu sjávarauðlindarinnar í sinn hlut – á kostnað almennings.

Í lok greinar sinnar segir Kristinn þetta:

“Svo virðist sem betur fer að almenningur sjái í gegnum þetta sjónarspil og muni kjósa óháðan og óspilltan frambjóðanda sem næsta forseta lýðveldisins. Það er fagnaðarefni.”

Óhætt er að taka undir orð Kristins.

Forsetakosningarnar eru frábært tækifæri til að hleypa framtíðinni að og setja fortíðina aftur fyrir okkur.

 

Síðasti pistill:  Guðni sameinar þjóðina

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.6.2016 - 11:25 - FB ummæli ()

Guðni sameinar þjóðina

Það sýnir sig ítrekað í könnunum að Guðni Th. Jóhannesson er sá forsetaframbjóðandi sem líklegastur er til að sameina þjóðina.

Tvennt kemur þar til.

Í fyrsta lagi er hann með yfirburðafylgi í nær öllum þjóðfélagshópum. Í reynd er fylgi hans óvenju vel jafnað milli ólíkra hópa samfélagsins. Guðni getur því verið fulltrúi allra.

Í öðru lagi er hann í langflestum tilvikum næsti kostur fyrir þá sem velja einhvern hinna frambjóðendanna (ef þeir kynnu að draga sig til baka). Þetta þýðir að þeir sem nú segjast ætla að kjósa einhvern annan eru samt ekki fjarri Guðna. Það yrði því án efa mikil sátt um Guðna sem forseta.

Forsendur Guðna til að verða sameiningartákn þjóðarinnar, eins og Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir, eru því óvenju góðar.

Enginn hinna frambjóðendanna nálgast þessa stöðu Guðna.

Guðni er einnig einstaklega vel hæfur til að gegna forsetaembættinu. Hann þekkir sögu forsetanna og stjórnmálanna betur en flestir og mun búa vel að því í embætti.

Ekkert er mikilvægara veganest í slíku hlutverki en traust þekking á sögunni og þeirri reynslu sem þar býr.

En Guðni er einnig sérstaklega geðþekkur maður sem á myndarlega fjölskyldu. Þau munu sóma sér vel sem fulltrúar þjóðarinnar.

Nú er tímabært að hleypa framtíðinni að í íslensku samfélagi.

Við þurfum að setja fortíð hrunsins afturfyrir okkur. Það væri því mjög rangt að flytja óuppgerðar deilur hruntímans og óreiðuáranna sem á undan því fóru til framhaldslífs á Bessastöðum.

Við eigum að horfa sameinuð til framtíðar með bjartsýni og traustan lærdóm af sögunni til leiðsagnar.

Sameiningarhlutverk forsetans er mikilvægara nú en oftast áður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.6.2016 - 18:56 - FB ummæli ()

Oddný er traustvekjandi

Ég held að það hafi verið sterkur leikur hjá Samfylkingunni að kjósa Oddnýju Harðardóttur sem nýjan formann.

Oddný er enginn spjaldagosi, sem er bólginn af innistæðulausu sjálftrausti og yfirborðsmennsku.

Nei, hún virðist frekar vera traustvekjandi og málefnalegur vinnuþjarkur. Og hún er alvöru jafnaðarmaður. Það hefur hún sýnt.

Á okkar tíma ríkir mikið vantraust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Þannig hefur það verið frá hruni og lítið batnað.

Birting Panama-skjalanna ýfði upp vantraustið á ný, þegar sást inn í völunarhús spillingarinnar og óréttlætið sem fylgir forréttindum yfirstéttarinnar, sem byggðust upp á frjálshyggjutímanum.

Þess vegna er mikilvægara en áður að fá traustvekjandi fólk í forystu.

 

Erindi klassískrar jafnaðarstefnu

Ísland er mest alríkustu löndum heims, en samt eru kjör alltof margra Íslendinga ófullnægjandi. Yfirstéttin hefur víða á Vesturlöndum verið í mikilli sókn og tekið til sín sífellt stærri hluta þjóðarkökunnar og auðlindanna. Líka hér.

Eftir situr almenningur, milli og lægri tekjuhóparnir.

Það er því mikil þörf fyrir öfluga jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum.

Vestrænir jafnaðarmannaflokkar sem hafa færst um of til hægri hafa víðast misst fylgi. Þeir ættu að rifja upp erindisbréf sín og fylgja hjartanu, áður en það verður of seint.

Almenningur þarf ákveðna og sterka talsmenn, sem berjast fyrir almannahag og réttlátara samfélagi – og gegn sérhyggju og sérhagsmunum ójafnaðaraflanna.

Óheft markaðshyggja og Evrópusambandsaðild ættu því að verða meira víkjandi gildi á þessum vettvangi, en ekki ráðandi, eins og um of hefur verið á vettvangi Samfylkingarinnar.

Nýsköpun í anda réttlátara samfélags ætti að verða helsta leiðarstefið.

Oddný Harðardóttir getur stuðlað að því að Samfylkingin nái vopnum sínum á ný, ef hún vinnur vel og ræktar hina klassísku jafnaðarstefnu.

Það er stefnan sem skapaði bestu samfélög jarðarinnar – norrænu velferðarríkin.

 

Síðasti pistill:  Eygló sigrar Sjálfstæðismenn

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 3.6.2016 - 11:15 - FB ummæli ()

Eygló sigrar Sjálfstæðismenn

Þau tíðindi urðu á Alþingi í gær að þrjú frumvörp Eyglóar Harðardóttur um nýskipan húsnæðismála voru samþykkt. Áður hafði þingið samþykkt fjórða frumvarpið sem fjallar um húsnæðisamvinnufélög.

Þarna er um að ræða lög um almennar íbúðir sem fela í sér nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun íbúða til leigu sem eiga að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Þá eru lög um húsnæðisbætur sem stefna að lækkun húsnæðiskostnaðar efnaminni leigjenda og sem jafna stuðning við leigjendur því sem tíðkast hefur í stuðningi við kaupendur. Þar hefði þó mátt hækka upphæð húsnæðisbóta (bæði vaxtabóta og leigubótaþættina) yfir línuna, meira en gert er ráð fyrir, í ljósi þróunar markaðsverðs.

Loks eru ný lög um breytingu á húsaleigulögum sem styrkja réttarstöðu leigjenda og lögin um húsnæðissamfélög bæta skilyrði fyrir slíkri starfsemi og bæta jafnframt stöðu búseturéttarhafa.

Það er skemmst frá því að segja að Sjálfstæðismenn hafa lengi lagt staksteina í götu þessa umbótastarfs, sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur beitt sér fyrir.

Framganga Sjálfstæðismanna hefur tafið málið og um hríð leit út fyrir að þeim tækist að stöðva það.

Sjálfstæðismenn vilja almennt engan eða lítinn velferðarstuðning við almenning, til dæmis með húsnæðisbótum, heldur vilja þeir styrkja fjárfesta og byggingaverktaka. Slíkur stuðningur er þó líklegastur til að auka arð þeirra aðila en ekki að auðvelda almenningi að koma þaki yfir höfuð sitt.

Eygló náði samstarfi við launþegahreyfinguna um málið, sem kom því inn í síðustu kjarasamninga, en það átti ríkan þátt í að tryggja framgang þessara mikilvægu umbóta. Það er einnig athyglisvert að stjórnarandstaðan hefur stutt málið.

Vonandi mun þessi nýskipan húsnæðismála duga vel til að bæta ófremdarástandið sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði, þar sem markaðsöflin hafa bæði orsakað mikið misvægi milli framboðs og eftirspurnar og gert húsnæðisöflun alltof dýra fyrir of stóran hóp fjölskyldna, ekki síst fyrir ungt fólk.

Eygló getur því fagnað þessum sigri yfir Sjálfstæðismönnum. Það getur almenningur líka.

Þeir sem ekki fagna eru sérhagsmunaöflin sem Sjálfstæðismenn ætluðu að fóðra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 28.5.2016 - 07:33 - FB ummæli ()

Íslendingar vinna lengst allra fram eftir aldri

Íslendingar vinna lengur fram eftir aldri en aðrir í hópi vestrænna hagsældarþjóða.

Opinber eftirlaunaaldur er við 67 ára markið hér á landi, en flestir Íslendingar vinna lengur en það. Í öðrum vestrænum löndum er algengast að fólk fari fyrr á eftirlaun en opinberi eftirlaunaaldurinn segir til um – stundum mun fyrr.

Norðmenn eru með sama opinbera eftirlaunaaldurinn og við (67), en hinar norrænu þjóðirnar eru með 65 ára markið. Allar hinar norrænu þjóðirnar fara þó fyrr á ellilífeyri en þessi aldursmörk segja til um.

Íslenskir karlar fara að jafnaði nærri sjötugu á ellilífeyri, sænskir og norskir karlar fara að meðaltali um 65 ára aldurinn, Danir 63ja ára og Finnar 62ja ára. Meðaltal OECD-ríkja er 64 ára fyrir karla – nærri 6 árum lægra en á Íslandi.

Íslenskar konur fara um 68 ára á ellilífeyri, sænskar og norskar við 64 ára aldurinn, finnskar konur fara 62ja ára og þær dönsku fara að jafnaði við 61 árs aldurinn. Meðaltal kvenna í OECD-ríkjunum er 63 ár – 5 árum lægra en á Íslandi.

Íslendingar vinna sem sagt mun lengur en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum og eru einir um að vinna lengur en þeir eiga rétt á í opinbera lífeyriskerfinu.

Þetta má sjá nánar á myndinni hér að neðan.

Screen shot 2016-05-14 at 11.29.10 AM

 

Ef við lítum á þetta frá sjónarhóli atvinnuþátttökunnar þá eru yfirburðir Íslendinga af sama toga.

Myndin hér að neðan sýnir virkni fólks á aldrinum 65 til 69 ára í launaðri vinnu.

Screen shot 2016-05-14 at 11.44.17 AM

Yfirburðir Íslendinga meðal Evrópuþjóða eru miklir – raunar algerir. Um 48% fólks á aldrinum 65-69 ára er í launaðri vinnu hér en meðaltal ESB-ríkja er tæp 12%, eða einungis um fjórðungur þess sem er á Íslandi.

Norðmenn koma næst okkur með um 27%. Þar munar þó miklu.

 

Er ástæða til að hækka eftirlaunaaldur á Íslandi?

Nú er til umræðu að hækka eftirlaunaaldur í íslenska lífeyriskefinu. Sú umræða er m.a. komin til vegna þess að lífeyrissjóðirnir rukka ekki inn nógu hátt iðgjald til að standa undir lífeyrisloforðum sínum til lengdar, vegna hækkandi lífaldurs fólks.

Tap lífeyrissjóðanna í hruninu á einnig sinn þátt í því að lífeyrissjóðirnir geta ekki staðið við lífeyrisloforð sín, að óbreyttu (þeir töpuðu um 20% eigna sinna).

Í ljósi þess að Íslendingar eru þegar með hæsta lífeyristökualdur á Vesturlöndum og fara að auki enn síðar en það á eftirlaun/lífeyri, er að mörgu að huga í þessari umræðu.

Ein góð og viðeigandi spurning er þessi: Er ástæða til að bæta afgerandi heimsmet okkar í vinnu eldri borgara núna, svo um munar, með því að hækka eftirlaunaaldur allra í 7o ára markið?

Ætti ef til vill að huga að öðrum leiðum?

Gott er að hafa í huga í þessu sambandi, að sumum hentar að vinna lengur – en öðrum ekki.

Til dæmis hentar erfiðisvinnufólki sem fór snemma út á vinnumarkað almennt ekki að vinna lengur. Flestir þeirra eru útbrunnir, slitnir á líkama og sál og eru alveg búnir að fá nóg við 65-67 ára aldurinn.

Sumir geta alls ekki unnið lengur af heilsufarsástæðum eða vinnumarkaðsástæðum.

Einnig er gott að hafa í huga að hækkun eftirlaunatökualdurs er réttindamissir vinnandi fólks og eykur að öllum líkindum álag á örorkulífeyriskerfið.

Ég flutti fyrirlestur um þessi mál á nýlegu málþingi Lífeyrissjóðanna og Aðila vinnumarkaðarins og mun fjalla meira um efnið á næstunni hér á Eyjunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 25.5.2016 - 04:44 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn klofna

Stofnun Viðreisnar í dag virðist hafa verið vel skipulögð og vel heppnuð. Stofnfundurinn í Hörpu var fjölmennur og áhugi og ákveðni virtist skína úr hverju andliti.

Það er eitthvað að gerast þarna!

En enginn fjölmiðill sem ég hef séð bendir þó á það sem er stærsti fréttapunkturinn við þennan fund.

Þarna klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn síðan Sverrir Hermannsson klauf flokkinn með stofnun Frjálslyndaflokksins árið 1998 og setti réttlátara kvótakerfi, umhverfisvernd og velferðarkerfið á dagskrá. Allt mál sem þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins (þ.e. Davíð Oddsson) vildi lítið með hafa.

Albert Guðmundsson hafði áður klofið flokkinn árið 1987 og tekið rúman fjórðung fylgisins með sér.

Fyrsti formaður Viðreisnar var kosinn Benedikt Jóhannesson. Hann hefur ekki aðeins verið áhrifamikill Sjálfstæðismaður um langt skeið, heldur er hann einnig af Engeyjarættinni, sem lengst af var áhrifamikill hluti af valdakerfi Sjálfstæðismanna.

Bjarni Benediktsson er af sömu ætt, þó hann hafi líklega meira af eyjunni Tortólu en Engey að segja nú til dags.

Auk Benedikts eru margir fyrrverandi Sjálfstæðismenn áberandi í stjórn Viðreisnar og í hópi fundarmanna. Sumir þeirra hafa verið áhrifamenn í flokknum. Þarna er einnig nýtt áhugasamt fólk.

Þegar stefnumál og áherslur Viðreisnar eru skoðaðar blasir við að þetta eru viðbrögð við þeim harða einstrengingi, þjóðernisrembingi og sérhagsmunaþjónkun sem hefur orðið að megin einkennum hins nýja Sjálfstæðisflokks, sem varð til á tíma Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins (sjá hér).

Viðreisn vill sinna hagsmunum almennings en bara ekki sérhagsmunum ríka fólksins, eins og einkennir Sjálfstæðisflokkinn nú á dögum (sjá hér).

Davíð Oddsson, sem nú kynnir sig sem sérstakan mann “sátta” í forsetaframboði, er sem sagt orsök þessa nýjasta klofnings í Sjálfstæðisflokknum (sjá hér).

Viðreisn er andsvar við þeim óheppilegu breytingum sem “friðarhöfðinginn” einráði Davíð Oddsson gerði á gamla Sjálfstæðisflokknum!

Viðreisn gæti hoggið umtalsverð skörð í fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem þegar er í lægri mörkum.

Viðreisn gæti einnig fengið eitthvert fylgi frá ESB-sinnuðu Samfylkingarfólki og gömlum Alþýðuflokksmönnum, sem leggja meiri áherslu á vestræna samvinnu en jafnaðarstefnuna.

Það er sem sagt ekki bara upplausn á vinstri væng stjórnmálanna heldur ekki síður á hægri vængnum.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.5.2016 - 18:27 - FB ummæli ()

Davíð leiðréttur

Það er ástæða til að leiðrétta Davíð Oddsson, þegar hann fullyrðir að hrunið sé okkur öllum að kenna (sjá hér).

Það er eiginlega eins langt frá því að vera rétt og hugsast getur.

Einfaldast er að vísa í hina viðamiklu úttekt Rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum falls bankanna (sjá hér).

Þar er engin sök borin á almenning í landinu. Gáið að því!

Hestu ábyrgðarmenn hrunsins eru sagðir þessir:

  • Eigendur og stjórnendur einkabankanna sem þöndu þá út með allt of mikilli áhættu og ógnvænlegri skuldsetningu.
  • Eftirlitsaðilar sem áttu að aftra því að fjármálakerfið færi afvega brugðust skyldum sínum. Þeir voru þessir:
    • Seðlabanki Íslands
    • Fjármálaeftirlitið
    • Stjórnvöld

Davíð sjálfur kemur mjög víða við í þessari sögu, en einkum sem sá stjórnmálamaður sem öðrum fremur lagði grunn að því umhverfi taumlausrar gróðasóknar, sem gerði þetta stórslys mögulegt.

Og svo enn frekar sem aðalbankastjóri Seðlabankans á þeim tíma (2005-2008) er fjármálabóla blés út á fordæmalausan og ósjálfbæran hátt, sem hlaut að enda með hruni.

Hann sleppti fjármála- og markaðsöflunum lausum og stýrði hinni misheppnuðu einkavæðingu bankanna, ásamt Halldóri Ásgrímssyni.

Fjárfestar og atvinnurekendur nýttu sér frelsið öðrum fremur og drekktu þjóðarbúinu í skuldum, með viðamiklu braski/spákaupmennsku (sjá hér).

Sem aðalbankastjóri Seðlabankans átti Davíð öðrum fremur að gæta að fjárhagslegum stöðugleika í landinu.

Fjármálakerfið hrundi hins vegar á hans vakt og Rannsóknarnefnd Alþingis taldi hann hafa brugðist starfsskyldum sínum á alvarlegan hátt, ásamt hinum bankastjórunum. Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld fengu einnig alvarlegar ákúrur hjá Rannsóknarnefndinni.

 

Það sem Davíð hefði átt að gera

Ég held að farsælla hefði verið fyrir Davíð að gangast við augljósri ábyrgð sinni og Sjálfstæðisflokksins fyrir löngu.

Bæði hefði honum liðið betur með það og lærdómur þjóðarinnar af mistökum hrunsins hefði betur nýst til að aftra því að slíkt gerðist aftur.

Það hefði verið allra hagur.

Hugsanlega hefði honum jafnvel verið fyrirgefið.

Slíkt gerist hins vegar ekki án auðsýndrar iðrunar.

Því er hins vegar ekki fyrir að fara hjá Davíð, ef marka má ofangrein ummæli hans.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 14.5.2016 - 12:46 - FB ummæli ()

Sigurður Ingi og Lukku Láki slá í gegn

Það er gaman að heyra fréttir af því að Sigurði Inga, forsætisráðherra vorum, hafi mælst vel í Hvíta húsinu í gær, í hátíðarkvöldverði Bandaríkjaforseta.

Lukku Láki (Lars Lökke) frá Danmörku átti líka góðan sprett.

Þetta minnir mig á, að Sigurður Ingi hefur raunar plumað sig ágætlega í hlutverki forsætisráðherra.

Hann er traustvekjandi og góður fulltrúi landbúnaðarins á Íslandi.

Menn komast varla nær hjarta þjóðarsálarinnar en að vera í landbúnaði, eins og Jónas frá Hriflu kenndi okkur hér um árið.

Svo hefur Sigurður Ingi jákvæðari samskiptamáta við stjórnarandstöðuna og fjölmiðla en forveri hans.

Er hann ekki bara ágætur?

 

Síðasti pistill:  Ríkisskattstjóri tekur á spillingunni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.5.2016 - 13:58 - FB ummæli ()

Ríkisskattstjóri tekur á spillingunni

Uppljóstranir Panama-skjalanna benda til að Íslendingar hafi verið óvenju miklir notendur skattaskjóla, á árunum að hruni.

Samt hafa ráðherrar verið hikandi í viðbrögðum sínum frá því þetta kom fyrst á dagskrá árið 2004 – og nú síðast Bjarni Benediktsson ráðherra skattamála (sjá hér).

Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið afgerandi afstöðu gegn þessari spilaborg siðleysis, lögbrota og spillingar, sem notkun skattaskjóla er.

Í nýjasta hefti tímarits Ríkisskattstjóraembættisins, Tíund, er mikið fjallað um þessi mál.

Leiðarinn hefur verið fréttaefni í dag og í gær og er það vel.

Hins vegar er einnig í tímaritinu mikið um gagnlegar upplýsingar um hvernig þessi mál hafa verið á dagskrá skattayfirvalda, a.m.k. frá árinu 2004.

Ríkisskattstjóraembættið hefur ítrekað bent á misbrestina sem þarna er að finna – en ríkisstjórnir hafa ekki viljað taka á málinu.

Það er skiljanlegt. Hvers vegna?

Jú, vegna þess að forysta Sjálfstæðisflokksins og hluti Framsóknarflokksins studdu notkun skattaskjóla á tímabilinu frá 1997 og að hruni.

Hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins (Hannes Hólmsteinn Gissurarson) var sérstakur talsmaður aukins frelsis fyrir auðmenn, þar með talið með notkun skattaskjóla til skattasniðgöngu og til að fela eignir.

 

Davíð Oddsson ver enn notkun skattaskjóla til sniðgöngu

Davíð Oddsson og fjármálaráðherrar hans (Geir Haarde og Árni Mathiesen) voru allir á þessari línu.

Davíð Oddsson er enn í dag á þessari línu (sjá hér og hér).

Þeir studdu og réttlættu skattasniðgöngu íslenskra auðmanna, meðal annars með notkun skattaskjóla.

Þess vegna var ekkert gert til að sporna við því, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir skattayfirvalda.

Þannig er rökrétt að íslenskir viðskiptamenn og fjárfestar yfirstéttarinnar hafi notað þessi spillingarbæli í meiri mæli en kollegar þeirra í grannríkjunum.

Það er svo auðvitað umhugsunarefni að talsmaður slíkrar spillingar, Davíð Oddsson, skuli nú vera í framboði til að gegna embætti forseta Íslands!

Skattaundanskot yfirstéttarinnar bitna á almenningi í hærri sköttum og grafa að auki undan íslenska samfélaginu.

Hvernig gæti það samrýmst hagsmunum Íslendinga almennt að hafa forseta sem er talsmaður notkunar skattaskjóla?

 

Síðasti pistill:  Guðni sigrar – á hvorn veg sem er

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.5.2016 - 09:24 - FB ummæli ()

Guðni sigrar – á hvorn veg sem er

Menn velta fyrir sér hvernig innkoma Davíðs Oddssonar breyti stöðunni í forsetakosningunum.

 

Staðan í dag

Að óbreyttu verður slagurinn milli Guðna, Ólafs og Davíðs. Aðrir munu varla ná máli, nema helst Andri Snær.

Í þessari stöðu tekur Davíð einkum fylgi frá Ólafi Ragnari og tryggir Guðna þar með sigur, miðað við síðustu kannanir.

Hins vegar aukast nú líkur á að Ólafur Ragnar dragi sig til baka, eins og ég lagði til í síðasta pistli.

Honum stóð þegar stuggur af framboði Guðna og nú sér hann viðbótarhættuna sem fylgir framboði Davíðs. Auk þess er Ólafur þegar búinn að ná öllu sem hann getur náð í forsetaembættinu og skattaskjólamál forsetafrúarinnar eru íþyngjandi.

Ólafur Ragnar mun því draga sig til baka á næstu dögum (* og er búinn að því núna*), enda það eina skynsamlega fyrir hann. Hann þarf einungis að gera það með reisn og arfleifð hans er áfram gulltryggð. Hætta á niðurlægjandi tapi er þar með frá.

 

Ef Ólafur Ragnar hættir við

Í þeirri stöðu verður valið einkum milli Guðna og Davíðs.

Davíð er stórskaddaður stjórnmálamaður og með álíka langa ofsetu í hæstu valdaembættum þjóðarinnar og Ólafur. Davíð hefur því þegar setið of lengi á toppnum, eins og hann segir um Ólaf.

Rök Davíðs gegn Ólafi hitta hann því sjálfan fyrir – eins og bjúgverpill!

Ferill Davíðs endaði að auki með skelfilegri brotlendingu, ólíkt því sem sagt verður um Ólaf Ragnar. Fáir munu nú sundra þjóðinni jafn mikið og Davíð Oddsson, enda umdeildasti stjórnmálamaður seinni ára.

Davíð mun því aldrei ná jafn miklu fylgi í forsetakjöri nú og Ólafur Ragnar myndi gera – og því væri sigur Guðna einnig líklegastur í þessari stöðu.

 

Tími endurnýjunar er núna

Eina leiðin til að endurvekja traust á stjórnmálunum og samfélaginu er að hleypa framtíðinni að – og leyfa fortíðinni að líða.

Guðni hefur víðari skírskotun til fólks í öllum þjóðfélagshópum en Andri Snær og einstaka hæfni til að gegna embættinu, eins og Ólafur Ragnar sagði sjálfur í viðtali við Björn Inga á Eyjunni.

Þeir sem vilja hleypa framtíðinni að með heilbrigðri endurnýjun ættu því að sameinast um Guðna. Gott væri hins vegar að fá rödd Andra Snæs inn í stjórnmálin.

Guðni Th. Jóhannesson er mesti sérfræðingur landsins í forsetaembættinu og sögu þess.

Svo er Guðni líka geðþekkur, bjartsýnn og réttsýnn.

 

Síðasti pistill:  Guðni er góður kostur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.5.2016 - 12:29 - FB ummæli ()

Guðni er góður kostur

Ég hef verið stuðningsmaður Ólafs Ragnars á forsetastóli, en nú ætla ég að kjósa Guðna Th. Jóhannesson. Fyrir því eru nokkrar ástæður (sjá t.d. hér).

En veigamestu ástæðurnar eru þó þær, að mér sýnist Guðni vera óvenju góður kostur í embættið.

Hann er óbundinn stjórnmálaflokkum og höfðar vel til allra átta á pólitíska litrófinu.

Hann er með góðan bakgrunn í íslensku samfélagi, góða menntun og reynslu.

Sagnfræðiþekking hans og rannsóknir á vettvangi stjórnmála og forsetaembættisins verða honum sérstaklega gott veganesti í starfi forseta.

Guðni er talsmaður heilinda og heilbrigðra sjónarmiða. Hann er skýrmæltur og sköruglegur og mun geta þjónað hagsmunum þjóðarinnar með myndarbrag. Hann styður umbætur á stjórnarskránni.

Raunar má segja að Guðni Th. Jóhannesson geti betur en aðrir frambjóðendur verið fulltrúi allrar þjóðarinnar.

Hann hefur því betri forsendur en sitjandi forseti til að auka traust almennings á stjórnmálum og forsetaembættinu. Einmitt það sem okkur vantar nú.

Ólafur Ragnar nefndi er hann tilkynnti um sjötta framboð sitt, að hann myndi bara fagna því ef sterkari frambjóðandi en hann kæmi fram og sigraði. Hann myndi óska honum velgengni í starfi og vel una málalyktum.

Ég held að Ólafur gerði enn betur ef hann drægi sig til baka og styddi þar með framboð Guðna. Þannig gæti hann hætt með reisn.

Endurnýjun er mikilvægur hluti af heilbrigðu lýðræði.

Tími endurnýjunar er núna.

 

Síðasti pistill:  Dorrit veikir framboð Ólafs Ragnars

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is