Föstudagur 6.1.2017 - 21:39 - FB ummæli ()

Skattaskjól – skömm Íslands staðfest

Nefnd fjármálaráðherra sem falið var að leggja mat á umfang eigna Íslendinga í erlendum skattaskjólum skilaði skýrslu sinni til ráðherra fyrir kosningar og var hún birt loks í dag (sjá hér).

Niðurstaðan er að uppsafnaðar eignir Íslendinga í skattaskjólum sé á bilinu 350-810 milljarðar króna, með tæplega 600 milljarða sem líklegustu niðurstöðu. Sex hundruð þúsund milljónir króna. Það er hátt í 30% af vergri landsframleiðslu.

Nefndin setur þó þann fyrirvara að upphæðin sé vanmetin vegna líklegra umsvifa íslenskra hlutafélaga sem eru með alþjóðlega starfsemi og starfsmannaleiga sem ekki fengust upplýsingar um.

Norkun skattaskjóla gengur öðru fremur út á að auðmenn (eigendur fyrirtækja, fjárfestar og stjórnendur) nýta sér leyndar leiðir til að koma fé undan skattgreiðslum og ábyrgðum.

Þær opinberu vísbendingar sem hægt er að fá hljóta því alltaf að vera vanmetnar – umfram það líklega vanmat sem nefndin vísar til.

En ef byggt er á hinu mjög svo varkára mati nefndarinnar þá er ljóst að þjóðin hefur orðið af miklum skatttekjum, sem nema allt að 6,5 milljörðum króna á ári.

Tapaðar skatttekjur ríkisins á árunum 2006 til 2014 eru samanlagt um 56 milljarðar króna, að mati nefndarinnar. Og þetta er augljóst vanmat.

Upphæðin myndi án efa duga til að fjármagna byggingu nýs Landsspítala.

 

Fjórfalt meira á Íslandi en í Danmörku

Nefndin vísar einnig til niðurstöðu danskrar rannsóknar af sama toga og bendir sá samanburður til að fé Íslendinga á skattaskjólum hafi verið um fjórfalt meiri en fé Dana, miðað við hvern íbúa.

Íslendingar voru ekki bara miklu fleiri í Panama-skjölunum en grannþjóðirnar heldur fluttu þeir einnig miklu meira fé í erlend skattaskjól – undan sköttum og ábyrgðum.

Nefndin segir: “Ekki leikur vafi á því að skráning eigna á aflands- og lágskattasvæðum til þess að forðast eðlileg skattskil og tryggja leynd er andstæð hagsmunum alls almennings og hefur í för með sér margvíslegan óbeinan skaða sem útilokað er að meta að fullu til fjár.”

Auðveldara var fyrir íslenskt efnafólk að koma fé í erlend skattaskjól en almennt var í grannríkjunum. Nýfrjálshyggja Sjálfstæðismanna ýtti beinlínis undir þetta. Lausungin varð því meiri hér.

Hvað ætla stjórnvöld að gera til að fyrirbyggja slík undanskot yfirstéttarinnar frá skattskyldu og ábyrgðum? Hvernig verður tekið fyrir slíkt siðleysi og spillingu?

Almenningur sem stendur skil á sínum gjöldum og skyldum á heimtingu á að fá svör við því.

Almennir skattborgarar greiða meira vegna þessara og annarra undanskota frá skatti.

Hvers vegna skyldu venjulegir borgarar yfir höfuð sætta sig við að greiða skatta þegar yfirstéttin fer fram með þessum hætti?

 

Síðasti pistill:  Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.12.2016 - 13:41 - FB ummæli ()

Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Lyfjafyrirtækið Actavis hefur sagt upp nærri 300 hundruð starfsmönnum síðan 2015 og hættir nú stórum hluta starfsemi sinnar á Íslandi (sjá hér og hér).

Actavis varð til með samruna tveggja íslenskra lyfjafyrirtækja, Pharmaco og Delta, sem nýttu sér séríslenskar aðstæður til árangursríkrar framleiðslu samheitalyfja

Þetta voru nýsköpunarfyrirtæki sem uxu upp úr íslenskum jarðvegi. Snjallir frumkvöðlar komu þeim á legg og gerðu úr þeim verðmæti. Það gagnaðist bæði íslenskum starfsmönnum og eigendum fyrirtækjanna.

Þjóðarbúið hafði af þessari starfsemi nokkrar tekjur – sem var eðlilegt því það lagði til grunninn og efniviðinn í starfsemina.

Svo kom spákaupmaðurinn Björgólfur Thór Björgólfsson inn í myndina. Hann keypti sig inn í fyrirtækið með lánsfé (fyrst í Pharmaco og síðar keypti hann aðra hluthafa út úr Actavis með risaláni frá Deutsche Bank). Fór illa í hruninu en fékk miklar skuldir afskrifaðar eftir hrun og seldi loks fyrirtækið endanlega til alþjóðlegs fyrirtækis (fyrst til Watsons og þaðan fór það til Teva).

Þeir hafa nú ákveðið að hætta allri framleiðslu lyfja Actavis á Íslandi. Brátt mun starfsemi Actavis á Íslandi heyra sögunni til.

Björgólfur Thór græðir á sölu fyrirtækisins, en Ísland tapar starfseminni úr landi. Mörg hundruð starfsmanna hafa misst álitlega vinnu og þjóðarbúið tapar tekjum af starfseminni. Þetta er sigur Björgólfs og kanski örfárra annarra minni eigenda.

Stjórnendur voru að einhverju leyti færðir yfir til Teva, að því er virðist til málamynda meðan umskiptin gengu yfir. Forstjórinn missti til dæmis starf sitt nýlega, eftir innan við tveggja ára forstjórastarf yfir samheitalyfjasviði Teva (sjá hér).

Þessi saga gengur þvert á forskrift Adams Smiths um að eigin hagsmunir atvinnurekenda fari saman við samfélagshagsmuni, eins og fyrir tilstilli “ósýnilegrar handar”.

Í stað þess að græðgi eins kapítalista geri samfélaginu gagn þá einmitt leiðir græðgi hans til mikils taps starfsmanna og samfélagsins alls – það er þegar spákaupmennskan er leiðarljósið frekar en uppbygging framleiðslu til langs tíma.

Einkahagur ræður för og skaðar almannahag.

 

Trumpari í sekknum!

Svona virkar hinn alþjóðlegi kapítalismi nú á dögum. Spákaupmenn taka yfir heilbrigða atvinnustarfsemi, braska með hana sjálfum sér til hagsbóta – og samfélagið tapar.

Fjárfestar græða en almenningur tapar störfum og tekjum. Ríkasta eina prósentið eykur tekjur og eignir sínar enn meira…

Þetta er það sem hefur skapað hina miklu óánægju millistéttarfólks í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Þetta er megin ástæðan fyrir sigri Donalds Trump í forsetakjörinu í Bandaríkjunum. Hann lofaði að sækja aftur störf sem hafa tapast með þessum hætti.

Trump mun að vísu ekki stöðva spákaupmennsku og eignabrask né flótta fyrirtækja til láglaunalanda, enda er hann sjálfur braskari af þessum toga.

Það er því viðbúið að kjósendur Trumps úr milli og lægri stéttum hafi keypt köttinn í sekknum! Val hans á valinkunnum auðmönnum í ráðherraembætti sýnir það með óyggjandi hætti.

Auðræðið í Bandaríkjunum mun væntanlega eflast enn frekar í valdatíð Trumps.

Þetta virðist vera óumflýjanleg þróun um þessar mundir – sem hlýtur þó að enda illa.

Fjármálaöflin hafa allt of mikil völd til að skara eld að eigin köku, jafnvel þó það skaði samfélagið. Þau orsökuðu fjármálakreppuna 2008 með óhóflegri græðgi og ósjálfbærri skuldasöfnun. Þau eru enn á sömu leið – þó hægar fari fyrst um sinn.

Samfélagið og fjölmiðlar þess eru svo villuráfandi að þeir eru vísir með að heiðra svona spákaupmenn sem höfunda “viðskipta ársins” fyrir svona starfsemi.

Sumir virðast sem sagt telja að slíkt brask einstakra fjáraflamanna sé samfélaginu til góðs.

Kanski við ættum að leiða hugann lítillega að þessari þróun á nýju ári – áður en of mikið tapast út landi.

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.12.2016 - 11:41 - FB ummæli ()

Getur Bjarni látið Viðreisn beygja sig?

Það hefur gengið eftir sem ég sagði í pistli strax eftir kosningar, að Viðreisn myndi helst af öllu vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokki.

Benedikt hlekkjaði sig snemma við Bjarta framtíð (BF) og hefur þrisvar reynt við Sjálfstæðisflokkinn með það föruneyti. Tvisvar fór hann í sýndarviðræður við vinstri-mið flokkana fjóra.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar tekið málaleitan Viðreisnar og BF treglega, vegna lítils meirihluta slíkrar stjórnar í þinginu, að sagt er.

Stefnuáherslur Viðreisnar vega þó einnig mjög að sálarlífi Sjálfstæðismanna.

Ástæðan er sú, að helstu áherslur Viðreisnar eru stefnumál Samfylkingarinnar (endurupptaka aðildarviðræðna við ESB, uppboð á fiskveiðikvótum og aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum).

Öll þessi mál skapa Sjálfstæðisflokknum vanda. Þau grafa undan fylgi hans á landsbyggðinni og styggja verulega marga áhrifamenn í flokknum.

Svo hefur heldur ekki tíðkast í Valhöllu að verðlauna klofningsmenn, en Viðreisn er auðvitað fyrst og fremst klofningur ESB-sinna út úr Sjálfstæðisflokknum.

Viðreisn þarf hins vegar að ná umtalsverðum árangri með þessi stefnumál sín í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki, því annars verður för hennar til háðungar.

Erindisleysa og svört framtíð!

Spurningin sem nú hangir yfir næstu tilraun til að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er því sú, hvort Bjarni geti látið Viðreisn beygja sig?

Getur Bjarni sætt sig við þessi stefnumál Samfylkingarinnar?

Eða getur hann sjálfur gert framboð Viðreisnar að erindisleysu, með því að beygja Benedikt og félaga?

Hinn valkosturinn er að núverandi stjórn sitji áfram sem minnihlutastjórn eða starfsstjórn til kosninga í apríl. Hægt er að starfa á þinginu næstu vikurnar með sama hætti og gert var við afgreiðslu fjárlaga. Enginn bráðavandi bíður lausnar.

Það er væntanlega góður kostur fyrir núverandi stjórnarflokka að kjósa aftur á næstu mánuðum. Þeir gætu þá hugsanlega náð meirihluta á ný.

VG og flokkarnir á vinstri-miðjunni virðast ekki ætla að blanda sér mikið í frumlegar tilraunir til stjórnarmyndunar, hvorki með Framsóknarflokki né Sjálfstæðisflokki.

Meðan svo er aukast líkur á kosningum í vor – eins og upphaflega stóð til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.12.2016 - 22:19 - FB ummæli ()

Hlutverk fyrir VG?

VG er næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Ef þau ætla ekki beinlínis að hætta í stjórnmálum þá finnst mér að VG-fólk ætti að endurskoða stöðu og markmið sín svolítið.

Það voru mistök að nálgast hina fjóra flokkana ekki meira í viðræðunum um daginn.

VG ætti sennilega að slá af þeim kröfum sem sigldu fimm flokka tilrauninni í strand. Og hinir kanski eitthvað líka. Þetta virðist hafa verið komið vel á veg.

Skilja mátti af umtali að helsta frágangssökin hafi verið mismunandi kröfur um útgjaldaaukningu til velferðarmála. VG hafi viljað fá 25-30 milljarða aukningu útgjalda en hinir boðið um 7 milljarða.

Ef þetta er rétt þá semja menn auðvitað um að mætast á bilinu 10-14 milljarðar.

Sjálfsagt er mögulegt að um 10 milljarða útgjaldaaukning geti borgað sig sjálf með veltuaukningu í hagkerfinu. Þannig hefur það verið undanfarin ár, vegna vaxtar ferðaþjónustu, hærra gengis, launahækkana og aukinnar einkaneyslu.

Í mesta lagi þarf minniháttar skattahækkun á breiðustu bökin, fullan virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna og lítillega hærri veiðileyfagjöld á sjávarútveg til að ná ofangreindum markmiðum.

Svo myndi ríkisstjórnin byggja nýjan Landsspítala fyrir fjármuni sem ríkið á til nú þegar, til dæmis óþarflega mikið eigið fé sem er í bönkunum eða með hluta af stöðugleikaframlögunum (sjá nánar um þetta hér).

Það þarf engar skattahækkanir til að byggja nýjan spítala.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna VG-fólk ætti ekki að geta sætt sig við slíkan ramma að stjórnarþátttöku, þar sem hlutverk þeirra yrði án efa veglegt. Þjóðin fengi nýjan landsspítala og ýmsar umbætur aðrar.

Eða er betra að fá “Engeyjarstjórn”, sem ráðstafar ríkisbönkunum og öðru fémætu úr stöðugleikaframlögunum til einkavina sinna – og lækkar síðan skatta á fjármagnseigendur?

 

En hvað með að styðja minnihlutastjórn hinna?

Ef VG-fólk vill ekki koma betur til móts við hina  flokkana fjóra (sem sagðir eru að mestu sammála um forsendur samstarfs), þá ætti VG að bjóðast til að styðja minnihlutastjórn þeirra.

Ef það gengur ekki ætti VG-fólk að reyna að semja um að styðja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og freista þess að fá eitthvað út úr slíkum stuðningi.

Þar gæti t.d. verið um að ræða tímasetta byggingaráfanga í nýja Landsspítalanum eða eitthvað annað samsvarandi, t.d. brýnar umbætur í lífeyrismálum öryrkja og frekari húsnæðisumbætur fyrir ungt fólk – svo nokkuð sé nefnt. Kanski þjóðgarð á hálendinu!

Þá myndi VG meðal annars geta haft mikil áhrif á hvenær næst yrði gengið til kosninga, t.d. þegar næsta hneyksli kemur upp…

Pólitík á að snúast um að hafa áhrif. Til þess þarf list hins mögulega. Útsjónarsemi í samningum.

Þannig hugsuðu menn þegar sósíalistar og kratar fóru í Nýsköpunarstjórnina með Sjálfstæðisflokki Ólafs Thors árið 1944.

Út úr því fékk þjóðin glæsilega löggjöf um almannatryggingar, verulegar umbætur í heilbrigðis- og menntamálum, auk nýsköpunarátaks í atvinnumálum. Það var mikil framfarastjórn, eins og Styrmir Gunnarsson myndi væntanlega segja.

Svo er það auðvitað valkostur fyrir VG að verða varanlegur stjórnarandstöðuflokkur sem fælist það að hafa áhrif – ja, eða bara að hætta alveg í pólitík!

Það er pláss núna fyrir nýja aðila í vistvænni hænsnarækt!  (smá grín…)

 

Síðasti pistill:  Nýja fangelsið heitir Hólmsteinn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.12.2016 - 15:08 - FB ummæli ()

Nýja fangelsið heitir Hólmsteinn!

Gárungarnir eru búnir að skíra nýja fangelsið á Hólmsheiði.

Þeir segja að á Hverfisgötu sé „Hverfissteinninn“ og á Hólmsheiði sé „Hólmsteinninn“.

Sagt er að í nýja fangelsinu verði sérstakur frjálshyggjugangur, þar sem fjárglæframenn nýfrjálshyggjunnar verði vistaðir.

Þeir verða þá settir inn í Hólmstein – sem gæti talist viðeigandi!

Það eru því margar góðar ástæður fyrir þessari nafngift.

Sel þetta þó ekki dýrar en keypti…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.12.2016 - 12:28 - FB ummæli ()

Vegið að dómara úr launsátri

Fréttir um meint vanhæfi forseta hæstaréttar, Markúsar Sigurbjörnssonar, til að dæma í málum er tengjast Glitni banka hafa vakið mikla athygli og umræðu.

Málið kom upp vegna þess að einhver lak gögnum um hlutabréfaeign nokkurra dómara til fjölmiðla. Gögnin eru sögð koma frá slitanefnd Glitnis.

Fyrrverandi formaður slitanefndarinnar segir hins vegar að slitanefndin hafi ekki séð þessi gögn – og því væntanlega ekki getað lekið þeim.

Sá sem lak gögnunum virðist hafa hagað framsetningu þeirra með þeim hætti að þau beindust sérstaklega að Markúsi Sigurbjörnssyni. Enda var uppsláttur þeirra fjölmiðla sem gögnin fengu með sama hætti í byrjun.

Þetta hefur á sér sterkan svip leka úr launsátri, sem miðar að því að sverta mannorð og störf tiltekins einstaklings.

Þar sem um er að ræða fyrrverandi forseta hæstaréttar er þetta sérstaklega viðkvæm gagnrýni á réttinn og raunar á dómskerfi landsins – það er ef rétt væri að ekki hafi verið gætt hlutleysis og hlutlægni í starfi hæstaréttar í tilteknum málum er tengjast hruninu.

En því fer hins vegar fjarri að með þessum dularfulla leka hafi verið sýnt fram á einhverja misbresti eða tilefni til að draga fagleg vinnubrögð viðkomandi dómara í efa. Sjá ágæta umfjöllun Sigurðar Tómasar Magnússonar prófessors um það hér.

Forseti hæstaréttar virðist einnig hafa allt sitt á hreinu varðandi lögbundna tilkynningarskyldu um eigin hagsmuni er þessu tengjast.

 

Hvaðan kom lekinn og frá hverjum?

Eðlilega birta fjölmiðlar slíkar upplýsingar sem þeim eru réttar. Ekki er hægt að amast við því. Við viljum öll að mikilvæg störf opinberra aðila standist skoðun ef grunur vaknar um mistök eða misferli. Það gildir einnig um aðila í einkageiranum.

En hér var enginn rökstuddur grunur um hagsmunatengd mistök eða misferli á ferð hjá viðkomandi aðilum, áður en til lekans kom.

Því ber að taka þetta mál alvarlega sem tilraun til að grafa undan stöðu hæstaréttar og dómkerfisins alls. Málið snýst um traust á dómstólum.

Mikilvægt er að rannsakað verði hvernig þessi leki og þessi vafasami málatilbúnaður er til kominn.

Hvort hann megi til dæmis rekja til persónulegs illvilja gagnvart viðkomandi dómara eða hvort hann kunni að vera frá dæmdum mönnum sem vilja hafa áhrif á starf og stöðu dómstóla. Fleira getur komið til.

Dómstólar eru ekki yfir gagnrýni hafnir, frekar en annað, en slík gagnrýni þarf að byggja á traustum upplýsingum og málefnalegum rökum.

Þar virðist pottur vera brotinn í þessu máli.

Það er hvorki málefnalegt né heiðarlegt að vega að heiðri og störfum nafngreindra einstaklinga með dreifingu innihaldslítilla gagna úr launsátri.

 

Síðasti pistill:  Skapa þarf pólitískan möguleika

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 2.12.2016 - 15:34 - FB ummæli ()

Skapa þarf pólitískan möguleika

Þrátt fyrir að margir tölfræðilegir möguleikar séu á myndun meirihlutastjórnar 3ja til 5 flokka þá standa hugmyndafræðilegar andstæður og jafnvel fordómar í vegi margra samstarfsmöguleika.

Niðurstaða kosninganna var í senn sveifla til hægri (Viðreisn og Sfl.) og til vinstri (Píratar og VG).

Ekki væri óeðlilegt að stjórnarmyndun tæki mið af því. Hægri vængurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn (með aðstoð BF), hefur þegar reynt tvisvar og fer nú hugsanlega í þriðju tilraunina.

Úr því yrði mesta hægri stjórn lýðveldissögunnar á Íslandi – réttnefnd “Engeyjarstjórn”.

Hins vegar er kosturinn á mið-vinstri stjórn fimm flokka, sem Viðreisn blés af í síðustu viku, án þess að fullreynt væri á málefnasamstöðu.

Það yrði þó í reynd ekki nema fjögurra flokka stjórn, því líta má á Viðreisn og Bjarta framtíð sem einn flokk. En það er aukaatriði, hvort við köllum hana fjögurra eða fimm flokka stjórn.

 

Hverjar eru horfurnar?

Það verður áfram erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gleypa samstarf með Viðreisn og BF sem skilar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við ESB á kjörtímabilinu og uppboði á 3% kvótans á hverju ári (sem í reynd eru bæði upphaflega stefnumál Samfylkingarinnar).

Hið sama á við um aukna markaðsvæðingu í landbúnaði (óheftari innflutning landbúnaðarvara, sem myndi grafa undan veikri bændastétt – og minnka fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsbyggðinni).

Það yrði kræsileg saga til næsta bæjar ef Viðreisn tækist að þvinga þessa stefnu Samfylkingarinnar uppá Sjálfstæðisflokkinn – einmitt núna!

Og það yrði ekki minna magnað ef Viðreisn myndi hlaupa frá þessum höfuðmálum sínum til að komast í faðm Sjálfstæðisflokksins!

Í þessum ómöguleika liggur möguleikinn á 4-5 flokka stjórninni.

Inn í það dæmi vantar hins vegar einhvern nýjan hvata sem gerir slíkt samstarf fýsilegra fyrir Viðreisn en það var í síðustu viku.

VG menn gætu til dæmis boðið Viðreisn og BF að fá forsætisráðherraembættið í slíkri stjórn. Viðreisn og BF væru jú stærsta einingin í þeirri stjórn (11 þingmenn á móti 10 VG-mönnum), ef við gerum ráð fyrir áframhaldandi tvíburasamstarfi þeirra, sem virðist frágengið.

Þessi leið gæti verið einhvers virði fyrir bættan samstarfsvilja Viðreisnar gagnvart VG, Pírötum og Samfylkingu.

Kanski menn ættu að reyna aftur við þann kost á nýjum forsendum?

Svo eru líka fleiri óreyndir kostir, ef sveigjanleiki er fyrir hendi, eins og ég hef áður bent á (t.d. hér).

Þegar pólitískur ómöguleiki hefur skotið rótum þurfa menn að plægja moldina aftur og rækta nýja möguleika.

Leiðarljósið ætti að vera þetta: Allt er betra en „Engeyjarstjórn“!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 24.11.2016 - 14:05 - FB ummæli ()

Framsókn er miðjan – ekki Viðreisn

Viðreisn stillti sér upp sem miðjuflokkur fyrir kosningar. Að vísu bættu þau gjarnan við “frjálslyndur” fyrir framan “miðjuflokkur”.

Þegar hins vegar er skoðað hvaða fólk er í forystu Viðreisnar, hvaðan þau komu og hvaða megináhersla er í stefnu þeirra þá blasir við nokkuð hefðbundin hægri pólitík og náin tengsl við hörðustu sérhagsmunasamtök atvinnurekenda (SA og Viðskiptaráð).

Viðreisn samanstendur einkum af markaðshyggju-sinnuðum Sjálfstæðismönnum, sem höfðu þá sérstöðu innan Sjálfstæðisflokksins að vilja ganga í ESB.

Álitamál er hvort Viðreisn er sem slík hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn eða bara á svipuðum slóðum og Sjálfstæðisflokkurinn.

En miðjuflokkur er Viðreisn ekki.

Að þessu leyti hefur Viðreisn siglt undir fölsku flaggi.

Framsókn á sér hins vegar hundrað ára sögu sem stjórnmálaflokkur og a.m.k. á síðustu hálfri öldinni sem miðjuflokkur, “opinn í báða enda”, eins og áður var sagt.

Ef menn skoða starf fráfarandi stjórnar þá sjá menn að þar var umtalsverð togstreyta milli Sfl. og Ffl., einkum um velferðarmál og hag heimilanna, sem og um landsbyggðarsjónarmið.

Framsókn hélt uppi talsverðri sókn í velferðarmálum og skilaði ágætum efndum á kosningaloforðum sínum frá kosningunum 2013, ekki síst loforðum sem snéru að hagsmunum heimilanna og upptöku á eignum erlendra kröfuhafa.

Sjálfstæðismenn streyttust gegn mörgum þessara mála, t.d. húsnæðisumbótum sem Eygló Harðardóttir beitti sér fyrir.

Sjálfstæðismenn beittu sér einnig fyrir því að skuldalækkunin gagnaðist um of hátekjufólki – sem og því að láta skuldugu heimilin borga sjálf skuldalækkunina að hluta með eigin lífeyrissparnaði – sem var billegt.

Á lokasprettinum fyrir kosningarnar nú var kastað um 5 milljarða viðbót inn í frumvarp Eyglóar um hækkun á lífeyri eldri borgara.

 

Katrín ætti að skoða samstarf við Framsókn í fullri alvöru

Ég vissi það alltaf að Viðreisn var ekki að fara í viðræður um fimm flokka stjórn Katrínar af neinni alvöru. Það var ekki þeirra partí. Enda sleit Viðreisn viðræðum í gær án þess að fullreynt væri á málefnasamstöðu.

Hins vegar eru mun betri forsendur fyrir að slíkt mynstur geti gengið með Framsókn í stað Viðreisnar.

Píratar höfðu áður haft uppi neikvæða afstöðu til samstarfs við Framsókn, vegna Panama-skjalanna. Þeir hafa hins vegar sýnt sig að vera lausnamiðaðir og sveigjanlegir. Vonandi getur Björt framtíð haft svipaða afstöðu til Framsóknar, því BF á samleið með Framsókn í velferðarmálum.

Framsókn vill líka miðla í stjórnarskrármálinu.

Panama-hneykslið var bundið við fyrrverandi formann Framsóknar og á því var tekið, með endurnýjaðri forystu flokksins, þó erfitt væri fyrir alla þar á bæ. Það ber að virða.

Þess vegna á ekki að erfa Panama-málið við Framsókn um of, enda eru það einkum efnamenn úr Sjálfstæðisflokknum sem prýða listann yfir notendur erlendra skattaskjóla.

Fyrir Framsókn sjálfa er líka álitlegra að fara í slíka stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, því staða Framsóknar þar væri mun sterkari en í hægri stjórn með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Þar væri Framsókn með afar veika stöðu.

Það er því margt sem mælir með fimm flokka stjórn Katrínar með aðild Framsóknar. Það væri alvöru mið-vinstri stjórn, með góðan stuðning um land allt.

Þenna kost ætti því að skoða í mikilli alvöru, til að forða okkur frá róttækri hægri stjórn.

Að þessum valkosti frágengnum á Katrín kost á að vinna með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð með góðan meirihluta og þokkalegt mótvægi við hægri pólitík Sjálfstæðisflokksins. Forsenda þess er þó sú að BF hafi sjálfstæða tilveru án Viðreisnar.

Varla getur talist vænlegt fyrir VG að fara í stjórn með báðum Sjálfstæðisflokkunum (Sfl. og Viðreisn), staða VG væri of veik þar.

Betra væri fyrir VG að vera með Framsókn og Sfl – en allt munu þetta þó þykja lítt spennandi kostir í herbúðum VG.

 

Síðasti pistill:  Arðsamt að eiga illa rekinn banka

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.11.2016 - 14:13 - FB ummæli ()

Arðsamt að eiga illa rekinn banka

Ríkisendurskoðun hefur staðfest viðamikil afglöp við sölu eigna út úr Landsbankanum frá 2010 til 2016 (sjá hér).

Enginn skilur hvers vegna þetta var gert með þeim hætti að eigandinn, íslenska ríkið (almenningur), hafi orðið af umfangsmiklum söluhagnaði.

Enginn skilur heldur hvers vegna helstu stjórnendum bankans er áfram sætt við stjórnvölinn.

Þetta er auðvitað afleitt.

En er samt eitthvert ljós í þessu myrkri?

Jú, það borgar sig samt að eiga þennan banka, þó stjórnendur hans haldi fádæma illa á málum hans.

Bankarekstur í hávaxtalandinu Íslandi er svo arðsamur að eigið fé bankans hefur vaxið ört, enda skilar hann tugum milljarða hagnaði á ári hverju.

Ríkið getur nú leyst hluta eiginfjárins í ríkisbönkunum tveimur til sín (ca. 100-120 milljarða strax) og notað það til að byggja upp nýjan Landsspítala og hjúkrunarheimili um allt land – jafnvel vegi líka (sjá hér).

Svo getur ríkið síðar einnig selt einhvern hluta af tveimur bönkum sínum og fjármagnað önnur góð verk.

Lexían af þessu er eftirfarandi:

  1. Þó stjórnendur banka séu staðnir af því að reynast illa hæfir til starfa sinna þá fær ekkert haggað ráðningu þeirra.
  1. Svo vel er að bönkum á Íslandi búið að þeir stórgræða þó mörgu sé þar illa klúðrað.
  1. Á meðan svona vel er búið að íslensku bönkunum væri algjört glapræði fyrir okkur skattgreiðendur að selja ríkisbankana.

Fyrst ætti að skera kerfið niður, endurstilla það – og stórlækka vaxtastigið í landinu.

Síðan mætti skoða sölu einhverra hluta í ríkisbönkunum.

 

Síðasti pistill:  Valkostir VG

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.11.2016 - 14:03 - FB ummæli ()

Valkostir VG

Nú þegar hægri stjórnin hefur verið sett á ís eru áhugaverðir kostir í myndinni.

VG er næst stærsti flokkur landsins og leiðir því stjórnarmyndun, að Sjálfstæðisflokki frágengnum.

Mikið er í húfi að það heppnist, því stór og spennandi verkefni bíða.

Fjárhagur ríkisins býður nú upp á gott svigrúm til uppbyggingar og umbóta, sem stækka má með heilbrigðari innheimtu gjalda af notkun náttúruauðlinda og einhverri sölu nýfenginna ríkiseigna (t.d. hlutum í bönkunum tveimur).

En hver ættu að vera stærstu mál nýrrar ríkisstjórnar?

 

Stærstu og brýnustu málin

Allir eru sammála um að myndarleg uppbygging heilbrigðisþjónustunnar sé efst á listanum. Skólakerfið hefur einnig drabbast niður á óviðunandi stig. Hvaða stjórn sem er væri fullsæmd af því að koma þessum tveimur stórmálum í gott horf.

En fleira kemur til. Nýbreytt lög um almannatryggingar hækkuðu lífeyri til eldri borgara en um leið voru skerðingar auknar og nær allir vinnuhvatar teknir út. Það þarf að laga. Auk þess þarf að hugsa til enda hvernig á að haga nýrri skipan lífeyrismála fyrir öryrkja og endurhæfingarfólk. Það er óleyst.

Þá er enn margt óklárað á sviði húsnæðismála.

Gott væri að fá lagfæringar á stjórnarskránni. Sjálfur væri ég nokkuð sáttur við þá nýlegu málamiðlun sem stjórnarskrárnefnd skilaði í sumar. Það væri gott skref.

Menn þurfa að vanda stjórnarskrárbreytingar vel og tryggja að þær fáist samþykktar á tveimur þingum. Það krefst víðtækrar samstöðu. Því þarf að fara hóflega fram í þeim efnum. Ef nýr meirihluti í næstu kosningum dregur allt til baka er til lítils unnið.

Þá þarf að lagfæra skattkerfið, t.d. draga úr undanskotum, afnema undanþágur ferðaþjónustunnar frá virðisaukaskatti og hamla notkun erlendra skattaskjóla.

Ríki og sveitarfélög þurfa að fá auknar tekjur af auðlindanotkun sjávarútvegsins, með hækkun veiðigjalda. Ég held að bein hækkun stjórnvalda sé öruggari leið til þess en uppboð aflaheimilda (kvótakaupendur eru fámennishópur sem geta hagrætt útkomum úr lítilfjörlegu uppboði á kvóta, t.d. ef einungis 3% væri boðið upp, eins og Viðreisn hefur rætt um).

Svo þarf líka að skila þjóðinni meiri arði af orkulindum og náttúruskoðuninni sem ferðamenn borga fyrir.

Þjóðaratkvæði um endurupptöku aðildarviðræðna við ESB er hins vegar ekki brýnt mál. ESB hefur ákveðið að taka ekki fleiri aðildarríki inn á næstu 4-5 árum. Munið það!

ESB-aðildarviðræðurnar ættu því klárlega að vera áfram á ís. Annað er bara tímasóun og fóður fyrir sundrungu. Þetta mál skemmdi mikið fyrir vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms og engin ástæða er til að endurtaka þann leik nú.

Þó fleira komi auðvitað til þá gætu ofangreind umbótamál öll orðið næstu ríkisstjórn til sóma.

 

Möguleg stjórnarmynstur

VG mun sjálfsagt reyna fyrst að mynda fimm flokka mið-vinstri stjórn, með gömlu stjórnarandstöðunni og annað hvort Framsókn eða Viðreisn. Ég reikna þó með að Viðreisn verði helsti dragbíturinn þar.

Erfitt verður að ná saman um málefni fyrir svo stóran hóp flokka. Geta VG menn til dæmis gleypt það hjá Viðreisn og BF sem strandaði hjá Sjálfstæðisflokki (uppboðsleiðin í sjávarútvegi og endurnýjun ESB-aðildarumsóknar)?

Framhjá því verður heldur ekki horft að erfitt yrði að halda slíkri stjórn saman. Nyti hún nægilega mikils velvilja almennings?

En þetta er vissulega umræðunnar virði.

Loks má þó benda á að vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar sem sat frá 1988 til 1991 (eftir að stjórn Þorsteins Pálssonar úr Sjálfstæðisflokki sprakk í beinni útsendingu RÚV) var margflokka stjórn.

Fyrst voru saman 3 flokkar (Framsókn, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur), með stuðningi frá Stefáni Valgeirssyni óháðum þingmanni „Samtaka um jafnrétti og félagshyggju“. Síðar kom Borgaraflokkurinn inn í stjórnina með 2 ráðherra. Þar með var sú stjórn orðin fimm flokka stjórn í reynd.

Þessi fimm flokka stjórn starfaði ágætlega. Kom á umbótum í skattamálum og velferðarmálum (inleiddi m.a. vænar barnabætur) og lagði grunn að þjóðarsáttinni á vinnumarkaði.

Hún stóð sig betur en margar tveggja flokka stjórnir!

Það á því að vera mögulegt að halda úti fimm flokka stjórn, ef menn vanda sig og standa saman.

 

Þjóðstjórn yfir miðjuna?

Hinn stóri kosturinn sem VG hefur er þriggja flokka “þjóðstjórn” yfir miðjuna (VG, BF og Sfl.). Það er mynstur sem ég held að mörgum kjósendum hugnist vel. Ef BF yrði treg í slíku samstarfi mætti vel sækja Framsókn Sigurðar Inga í staðinn. Það væri þó ferskara að hafa BF með VG í slíku samstarfi. Fleiri útfærslur mætti þó hugsa sér.

VG og BF hefðu saman þokkalegt mótvægisvald gegn verstu göllum Sjálfstæðisflokksins, sem gæti vel virkað farsællega. Góðu velferðarmálin ættu að ná vel í gegn og einhverjar umbætur í stjórnsýslu, sjávarútvegs- og umhverfismálum.

Hóflegar umbætur á stjórnarskrá gætu jafnvel skriðið í gegn – enda tímabærar. En enginn flokkur nær öllu sem hann óskar sér. Menn verða að vera raunsæir þegar stjórn er mynduð.

Svona stjórn fengi mun betri vinnufrið en vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms og ætti góða möguleika á að njóta hylli almennings.

VG hefur því nokkra góða og raunar afar spennandi kosti, sem vonandi tekst að vinna farsællega úr.

 

Nýlegur pistlar:  Uppreisn alþýðunnar og Hættan frá hægrinu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 13.11.2016 - 14:18 - FB ummæli ()

Valkostir BF: Engeyjarstjórn eða Þjóðstjórn?

Nú reyna menn myndun hreinnar hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks (D), Viðreisnar (C) og Bjartrar framtíðar (A). Það yrði réttnefnd “Engeyjarstjórn” þeirra frænda, Bjarna Benediktssonar og Benedikts Jóhannessonar.

Slík stjórn yrði með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi (32 þingmenn).

Hægri menn vilja samt reyna þetta, því mikið er í húfi að þeirra mati.

Viðamiklar eignir liggja nú hjá ríkinu (2 bankar o.m.fl.) sem hægt verður að koma í hendur “réttra aðila” á næsta kjörtímabili. Svigrúm til skattalækkana á yfirstéttina er líka nokkurt, ef ekki verður of miklu eytt í velferðarumbætur.

Ég sagði það strax eftir kosningar að Viðreisn myndi velja Sjálfstæðisflokkinn sem sinn fyrsta kost í stjórnarsamstarfi (sjá hér).

Það er vegna þess að Viðreisn samanstendur einkum af Sjálfstæðismönnum, meðal annars mörgum fyrrverandi forystumönnum Samtaka atvinnulífsins (t.d. Þorsteini Víglundssyni, Þorsteini Pálssyni og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur).

Sjálfur er Benedikt Jóhannesson gamall refur úr valdakerfi Sjálfstæðisflokksins, en hann móðgaðist hins vegar vegna meðferðar flokksins á ESB-aðildarumsókninni. Finnst að hann þurfi að rétta hlut sinn gagnvart flokknum.

Engeyjarstjórn yrði lengst til hægri á pólitíska litrófinu (sjá hér hvað felst í því).

Engeyjarstjórn yrði t.d. mun lengra til hægri en fráfarandi stjórn, þar sem Framsókn veitti Sjálfstæðisflokknum umtalsvert mótvægi, einkum í velferðarmálum. Framsókn hafði umtalsverðan þingstyrk til þess, enda flokkarnir með jafn marga þingmenn á síðasta þingi.

Eygló Harðardóttir og aðrir á félagshyggjuvæng Framsóknar háðu marga hildina við Sjálfstæðisflokkinn og náðu umtalsverðum árangri í velferðarumbótum – þrátt fyrir allt. Þó ekki eins miklum og þau vildu.

Í hugsanlegri Engeyjarstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri ekkert samsvarandi mótvægi við óhefta markaðshyggju, einkavæðingu og auðmannadekur Sjálfstæðismanna.

Björt framtíð er alltof lítil til að veita nokkurt viðnám og hinn naumi meirihluti gefur hagsmunagæslumönnum sjávarútvegs og landbúnaðar í þingliði Sjálfstæðisflokks skothelt neitunarvald um allar alvöru breytingar. Einstaka frjálshyggjuróttæklingar í Sfl. fengju líka neitunarvald.

Ég myndi því segja að Björt framtíð seldi sig fyrir afar lítið í slíku samstarfi. Raunar kemur á óvart að hún hafi stillt sér upp sem einstaklega þægilegu verkfæri í höndum Benedikts – eins og það birtist í öllu falli.

 

Aðrir valkostir Bjartrar framtíðar

En Björt framtíð hefur í reynd aðra valkosti sem gætu fært henni vænlegra hlutverk. Þeir eru þó misgóðir.

Sá fyrsti er fjölflokkastjórn vinstri og miðjuflokka, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Hún gæti t.d. verið með tvennum hætti:

VG (10)+Píratar (10)+Framsókn (8)+Björt framtíð (4) og Samfylking (3): alls 35 þingmenn. Ágætur meirihluti. Þarna eru umbótaflokkar sem gátu unnið ágætlega saman eftir að Sigurður Ingi tók við forystuhlutverkinu í Framsókn í vor.

Þetta eru að vísu margir flokkar og sumir hafa efasemdir um samstarf við Pírata vegna reynsluleysis þeirra. Veik staða Samfylkingar stendur líka í sumum.

Annar kostur væri þessi:

VG (10)+Píratar (10)+Viðreisn (7)+Björt framtíð (4) og Samfylking (3): alls 34 þingmenn.

Fjögurra flokka kostur, þar sem Framsókn kæmi í stað Bf og Sf, væri þessi:

VG (10)+Píratar (10)+Viðreisn (7)+Framsókn (8): alls 35 þingmenn.

Viðreisn myndi hins vegar varla samþykkja þessa tvo síðastnefndu, vegna neikvæðrar afstöðu þeirra til Pírata og Framsóknar, en ekki síður vegna eðlislægrar ástar Viðreisnarfólks á Sjálfstæðisflokknum.

Minnihlutastjórn í skjóli Pírata og Samfylkingar væri svo enn minna fýsilegur kostur – veikari bygging.

Þá er eftir sá kostur sem væri í hvað mestum takti við niðurstöður kosninganna.

 

Þjóðarsáttarstjórn í stað Engeyjarstjórnar?

Í kosningunum var sveifla til Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Pírata mest afgerandi, auk þokkalegs gengis Viðreisnar.

Ef Björt framtíð gengi til samstarfs við VG og Sjálfstæðisflokk væri staða þeirra mun vænni, ef markmiðið væri að veita mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn og ofurvald hægri aflanna.

Slík stjórn hefði ágætan 35 manna meirihluta og mun betri forsendur til að veita mótvægi við hægri stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Það þyrfti að vísu að vinna VG á band þessarar hugmyndar – en það getur varla verið útilokað. Manni heyrist að almenningur sé mjög hallur undir svona stjórnarmynstur, ekki síst vegna vinsælda Katrínar Jakobsdóttur.

Þetta væri mun vænlegra fyrir þjóðina en að fá harðdræga hægri stjórn, eins og nú er til umræðu.

En kanski vilja VG-menn ekki axla slíka ábyrgð…

Eða hafa þeir kanski unnið að slíkri brúarsmíð bak við tjöldin?

Og kanski sér Björt framtíð sig bara sem mið-hægri flokk sem gæti verið fullsæmdur af því að vera hækja í Engeyjarstjórn…

En Björt framtíð á þó klárlega fleiri raunhæfa valkosti en þann sem nú er til umræðu.

Þar á meðal er annar þriggja flokka kostur (Sfl+VG+Bf) sem er með mun styrkari þingmeirihluta en Engeyjarstjórnin hefði (35 í stað 32).

 

Síðasti pistill:  Uppreisn alþýðunnar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 9.11.2016 - 12:07 - FB ummæli ()

Uppreisn alþýðunnar

Sigur Donalds Trump í forsetakosningunum vestra er sögulegur. Ekki bara fyrir Bandaríkin, heldur einnig fyrir vestræn ríki almennt.

Það er bandarísk alþýða sem færir Trump sigurinn. Einkum hvítt fólk úr lægri millistétt og verkalýðsstétt, sem setið hefur eftir í lífskjaraþróun síðustu þriggja áratuga.

Þessu fólki finnst það vera afskipt og sér störfin sín flytjast til annarra landa. Það sér nýja innflytjendur koma inn sem keppinauta, sem eru tilbúnir að þiggja lægri laun og lakari réttindi.

Þetta er alþýðan sem hefur gefið upp alla von um að Demókrataflokkurinn geri nokkuð til að breyta kjörum venjulegs fólks (en það var meðal sögulegra erinda þess flokks).

Alþýðan trúir ekki lengur á kerfið og hefðbundnu flokkana. Vill eitthvað nýtt, eitthvað sem kemur utanfrá.

Donald Trump er að vísu afar mótsagnakenndur “fulltrúi alþýðunnar”. Hann er auðugur fasteignabraskari, bólginn af sjálfsupphafningu, eigingirni og hégóma. Raunar er hann heldur ógeðfelldur í háttarlagi.

En hann talaði til alþýðunnar, sagðist ætla að færa þeim störfin aftur, halda innflytjendum frá og gera Ameríku almennilega á ný.

Hann virtist sýna þeim afskiptu áhuga og vilja gera eitthvað í málum þeirra.

Hvort hann gerir það er svo annað mál. Það kemur í ljós.

Bernie Sanders fékk hljómgrunn hjá alþýðunni á svipaðan hátt og Trump.

Hillary Clinton virðist hins vegar tengd “kerfinu” sem þessu fólki finnst að hafi brugðist. Hún er líka sögð tengd fjármálageiranum, sem styrkti hana kröftuglega. Enginn efaðist samt um hæfni hennar.

Fáir trúðu því að hún myndi breyta einhverju fyrir afskipta alþýðuna, jafnvel þó hún gæti verið góður fulltrúi kvenna. Femínismi mætir þó enn meiri fyrirstöðu í Bandaríkjunum en við eigum að venjast á Íslandi.

 

Hnattvæðingin er of langt gengin

Þessi óvænta sveifla í Bandaríkjunum er hluti af sambærilegri þróun í Evrópu. Þar hefur fylgið flætt af hefðbundnum flokkum, ekki síst sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum), til nýrra flokka.

Þeir flokkar eru nú fulltrúar fórnarlamba hnattvæðingar (alþjóðavæðingar) og nýfrjálshyggjuþróunar síðustu áratuga, þróunar sem flytur störf úr landi og hleypir auknum fjölda innflytjenda inn á vestræna vinnumarkaði, sem keppinautum heimamanna.

Óheft markaðshyggja, alþjóðlegir viðskiptasamningar og frjálst flæði fjármagns virðist einkum hafa gagnast yfirstéttinni. Ójöfnuður hefur aukist. Þeir ríku hafa hagnast óhóflega, en almenningur hefur setið eftir.

Þessir nýju flokkar á Vesturlöndum eru gjarnan kallaðir “hægri lýðskrumsflokkar” (eða “popúlískir flokkar”), sem er að hluta villandi auðkenni. Þeir endurspegla það sama og er nú að gerast í Bandaríkjunum.

Nýju flokkarnir virðast vera að bregðast við helstu áhyggjuefnum alþýðufólks á Vesturlöndum. Trump kemur sömuleiðis nýr inn í stjórnmálin, í óþökk kerfisins og það er talinn hans helsti kostur.

Þessar sveiflur í stjórnmálunum á síðustu árum eru því viðbrögð við neikvæðum afleiðingum hnattvæðingar og nýfrjálshyggjuþróunar, sem hefur skilið stóran hluta almennings eftir í hagsældarþróuninni.

Fólki finnst líka í vaxandi mæli að samfélög þeirra séu að breytast til hins verra – menn segjast gjarnan vilja “endurheimta landið sitt”. Það getur magnað þjóðlega íhaldssemi.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá er þetta hið stóra samhengi þess sem hefur verið að gerast í stjórnmálaþróun Vesturlanda á síðustu árum.

Þetta skýrir einnig sögulegan og óæntan sigur Trumps í gær.

Á meðan undirliggjandi orsakir þróunarinnar verða áfram til staðar má búast við framhaldi slíkrar þróunar á Vesturlöndum.

Vonandi sveigist hún þó ekki um of í átt fasisma eða skyldra öfgahreyfinga, eins og varð á millistríðsárunum í Evrópu.

Af því má hafa áhyggjur.

 

Síðasti pistill:  Hættan frá hægri

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 5.11.2016 - 14:23 - FB ummæli ()

Hættan frá hægri

Á meðan margir tala sig ringlaða um það, að hægri – miðju – vinstri víddin í stjórnmálum sé úrelt, þá skerpa hægri menn hugmyndir sínar og herða sóknina.

Hægri menn vita nefnilega vel hvað “hægrið” er í stjórnmálum. Þeir hafa hugmyndafræðina á hreinu.

En hverjir eru hægri menn?

Það eru yfirleitt þeir sem tala fyrir hugmyndum er gagnast einkum yfirstéttinni hverju sinni – þeim ríkustu og valdamestu.

Þeir eru sagðir íhaldsmenn, af því þeir vilja ekki breyta kerfum sem þjóna vel hagsmunum yfirstéttarinnar. Stundum beita þeir líka hugmyndum nýfrjálshyggjunnar um óhefta markaði, frelsi fjármagnsins og veikt ríkisvald, sem skilar sömu áhrifum yfirstéttinni til hagsbóta.

Yfirstéttin er venjulega ekki stærri en svona tíundi hluti þjóðarinnar – ríkustu tíu prósentin.

Milli og lægri stéttirnar eru stór meirihluti kjósenda og ættu því að geta haft mestu völdin í lýðræðissamfélagi. En yfirstéttin fær gjarnan mun fleiri til liðs við hugmyndir sínar – nær jafnvel meirihluta stundum í kosningum.

Hreina hægrið á Íslandi (Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn) fengu samanlagt um 40% atkvæða í nýliðnum kosningum. Restin (miðjan og vinstrið) fengu rúm 60%. Hægri flokkarnir fengu sem sagt mun meira en bara atkvæði yfirstéttarinnar – en þó ekki meirihluta.

Af hverju er meirihlutinn (vinstrið og miðjan) þá ekki að fara að stýra landinu í þágu almannahagsmuna í stað hagsmuna yfirstéttarinnar?

Klofningur, langtíma sundrung, heimska og óskýr hugmyndafræði skýrir mest að því. Stundum hefur miðjan líka haft of mikla þjónustulund við hægrið og fína fólkið.

Þannig gefa miðju og vinstri menn gjarnan frá sér völdin. Eða láta sér duga að vera áhrifalitlir meðreiðarsveinar hægri flokka…

 

Hægrið sýnir vígtennurnar

Á meðan miðjan og vinstrið skilgreina sig út úr myndinni þá vita hægri menn fyrir hvað þeir standa.

Nýr framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka útvegsmanna segir t.d. að “þjóðin geti ekki átt neitt”!

Hún er að tala um sjávarauðlindina…

screen-shot-2016-11-05-at-12-03-52-pm

Þeir sem hún starfar fyrir samþykkja ekki það sem stendur í lögum, að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar. Þeir vilja heldur ekki fá það skráð í nýja stjórnarskrá.

Útvegsmenn vilja sjálfir eiga auðlindina og græða á henni – án afskipta almennings.

Þeir vilja heldur ekki greiða sanngjarnan hluta af auðlindarentunni til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar (t.d. til endurreisnar heilbrigðisþjónustunnar).

Nei, talskonan með frjálshyggjuheilann og vélbyssukjaftinn segir slíka skatta vera “ofbeldi”.

Hún er auðvitað að vinna fyrir laununum sínum, en hún vill líka sjálf hafa þetta þannig, að útvegsmenn geti nýtt auðlind annarra (þjóðarinnar) sem sína eigin. Það er hennar hægri hugmyndafræði.

Hannes Hólmsteinn hefði einmitt orðað þetta allt alveg eins. Og vísað í Ayn Rand og aðra hugmyndafræðinga yfirstéttarinnar og fjármálaaflanna.

Þetta fólk veit fyrir hvað hægrið stendur. Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð brýna hægri raustina að staðaldri og reyna að stýra stjórnvöldum og almenningsáliti í þá átt.

ASÍ og önnur launþegasamtök ættu að veita mótvægi en eru oft heldur lítilþægir meðreiðarsveinar…

 

HræGammar ýfa fjaðrir

Braskfélagið Gamma hf. í Garðastræði (sem ætti raunar að heita “HræGamma hf.”) er komið í herferð til að koma á dagskrá einkavæðingu Landsvirkjunar, Orkuveitunnar, Isavia og sem flestra innviða í landinu (t.d. samgöngukerfinu). Sjá nánar um það hér.

HræGammar fjármálageirans og atvinnulífsins hafa einmitt líka skilning á því, að “þjóðin geti ekki átt neitt”.

Hvorki auðlindir eða Þingvelli, né vegina, skólana og sjúkrahúsin sem þjóðin þó byggði.

Og jafnvel þó gjöld fyrir rafmagnið frá Landsvirkjum og heita vatnið frá Orkuveitunni séu þau ódýrustu fyrir almenning sem þekkjast í Evrópu, segja Gammarnir að það sé slæmt fyrirkomulag.

Þessir hugmyndafræðingar sérhagsmuna vilja auðvitað taka þetta yfir og fara að græða á því í eigin vasa. Þá myndi almenningur fá að greiða meira fyrir þessa þjónustu.

Væri það í þágu almannahagsmuna? Ónei!

Sérgróðaöflin kreista alltaf meira út úr slíkum rekstri en opinberir aðilar, sem hafa skaffað okkur hita og ljós með miklum ágætum á Íslandi í áratugi.

 

Hægrið veit hvað það vill

Hægrið er sem sagt með allt sitt á hreinu. En vinstrið og miðjan segja að hægri – vinstri tal sé úrelt bók. Þau vilja frekar heita “umbóta” eitthvað eða „frjálslynd“ eitthvað.

Kanski þeir sem ekki tilheyra yfirstéttinni (eða ekki beinlínis dreymir um að komast í yfirstéttina síðar) ættu að hugsa málið betur.

Miðjan og vinstrið ættu náttúrulega að vinna saman alla jafna. Úrslit kosninganna nú gera það að vísu ekki einfalt.

Að öðru leyti ættu þau að reyna að vinna gegn ofurvaldi hægri aflanna. Mikið er í húfi. Samstarf vinstri og miðju við hægrið þarf þá að fela í sér alvöru möguleika á viðspyrnu gegn yfirgangi og undirferli hægrisins.

Í millitíðinni ættu fulltrúar meirihluta almennings að gera sér betur grein fyrir því hvar almannahagsmunir liggja og hvernig hægt sé að varast fyrirséða yfirtöku hægrisins á sameiginlegum eignum og hagsmunum þjóðarinnar – bæði nú og í framtíðinni.

Hægrið er nefnilega með slíka yfirtöku á dagskrá sinni.

Hægrið vill útrýma þeirri hugsun að „þjóðin eigi landið og miðin“. „Þjóðin getur ekki átt neitt“, segja þau.

Þeirra sýn er sú að landið sé í eigu útvalinna „landeigenda“ og þjóðin bara gestur í landinu – eins og túristarnir. Gestur sem má rukka.

Það liggur því ekki svo mjög á að skilgreina hægri – vinstri víddina út úr stjórnmálasögunni.

Hún hefur enn mjög mikið að segja um skiptingu auðs og valds í samfélaginu.

 

Síðasti pistill:  Hvað er í kortunum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 30.10.2016 - 23:11 - FB ummæli ()

Hvað er í kortunum?

 

Niðurstaða kosninganna í gær var nokkuð tvíátta.

Lítum fyrst á hvernig sveiflan á fylgi var hjá þeim sem komust á þing, á myndinni hér að neðan. Hún sýnir breytingar á fylgi þingflokkanna, í prósentustigum.

sveiflan

Viðreisn bætti mestu við sig, fór úr 0 í 10,5%. Píratar bættu næstmestu við sig, eða um 9,4 %-stigum (úr 5,1% í 14,4%). VG eru með þriðju stærstu sveifluna, 5 %-stig (þau fóru úr 10,9% í 15,9%) og svo kemur Sjálfstæðisflokkur sem bætti við sig 2,3 %-stigum (fór úr 26,7% í 29,0%).

Sjálfstæðisflokkur er stærstur, en samt er fylgi hans nú það fjórða minnsta í sögu hans.

Aðrir töpuðu fylgi. Framsókn tapaði mestu, eða 12,9 %-stigum (fór úr 24,4% í 11,5%), svo kom Samfylkingin sem tapaði 7,2 % stigum (úr 12,9% í 5,7%) og þá Björt framtíð sem tapaði 1,0 %-stigi (úr 8,2% í 7,2%).

Ef sveiflan er það sem mestu máli skiptir þá eru Viðreisn og Píratar helstu sigurvegarar kosninganna – og svo VG. Ef stærðin ein skiptir máli er Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegarinn.

 

Er þetta sveifla til hægri, vinstri eða á miðjuna?

Ef við skilgreinum Viðreisn sem hægri flokk og Pírata sem vinstri flokk þá er sveiflan um tæp 13 %-stig til hægri. Miðjan tapar nærri 14 %-stigum (Framsókn og Björt framtíð samtals).

Á vinstri vængnum er jákvæð sveifla til Pírata og VG um 14,4 %-stig, en ef við drögum tap Samfylkingarinnar frá því þá er nettósveifla til vinstri um 7,2 %-stig.

Á heildina litið er sveiflan til hægri því stærri en vinstri sveiflan.

Ef við hins vegar teljum bæði Viðreisn og Pírata sem miðjuflokka þá er einungis um 2,3 %-stiga sveifla til hægri, 6,1 %-stiga sveifla til miðjunnar og um 2,2 %-stiga sveifla frá vinstri.

Fleiri rök eru þó fyrir því að telja Viðreisn hægri flokk (hún kemur mest úr Sjálfstæðisflokki og frá Samtökum atvinnurekenda). Pírata er réttara að telja vinstri flokk (þeir vilja ekki starfa með Sjálfstæðisflokki, heldur með vinstri flokkum; stefnan er meira til vinstri).

Þetta eru þannig nokkuð tvíátta úrslit: sveifla bæði til hægri og vinstri, en frá miðjunni (einkum frá Framsókn).

Í kosningunum 2009 var veruleg sveifla til vinstri. Svo var það sveifla yfir á miðjuna (Framsókn) í kosningunum 2013 og nú er sveifla frá miðjunni til bæði hægri og vinstri – meira þó til hægri.

 

Verður hægri blokkin allsráðandi í næstu ríkisstjórn?

Ætla má að Viðreisn vilji öðru fremur starfa með Sjálfstæðisflokki. Viðreisnarfólk er jú mest Sjálfstæðismenn, sem fóru í fýlu vegna meðferðar flokksins á Evrópuumsókninni. Stóra spurningin er hverja aðra þeir gætu fengið með sér, því þess er þörf? Björt framtíð og Framsókn koma helst til greina.

Með samstarfi Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks væri hægri blokkin í íslenskum stjórnmálum orðin mun sterkari en var á síðasta kjörtímabili. Þar var Framsókn með afar sterka stöðu og hélt að nokkru leyti aftur af nýfrjálshyggjuleitni Sjálfstæðisflokksins og þrýsti á um velferðarumbætur – oft í andstöðu við Sfl.

Ef Björt framtíð fer með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn væri það mjög veik stjórn, með minnsta meirihluta (alls 32 þingmenn á móti 31). Það gæti þó gengið, ef Björt framtíð verður mjög hlýðin.

Þriðja hjólið undir vagn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar mun þó ekki hafa sterka stöðu til að sveigja hægri öflin af leið og milda áhrif sterkrar hægri stefnu (t.d. í einkavæðingu, skattalækkunum til efnastétta o.s.frv.). Sérstaklega ekki ef það væri jafn veikt afl og Björt framtíð er.

Hægri áhrifin yrðu sem sagt afar sterk í slíkri stjórn (Sfl.+Vr.+Bf.).

Eina vonin til að hægt væri að halda aftur af hægri öflunum á þingi og í ríkisstjórn væri hins vegar að VG og Björt framtíð tækju höndum saman og störfuðu með Sjálfstæðisflokki – ef hann fengist til þess (þá er ég að gefa mér að stjórnarandstaðan og Viðreisn í 5 flokka stjórn muni alls ekki ganga eftir).

Slík stjórn (Sfl.+VG+Bf.) hefði stærri meirihluta (35 þingmenn).

Það væri stjórn með mun meira jafnvægi yfir miðjuna en ef Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn færu saman – með einhverju þriðja hjólinu. Eiginlega „þjóðarsáttarstjórn“.

Slík stjórn gæti sett ESB-umsóknina á ís, enda ætlar ESB ekki að taka við nýjum meðlimaríkjum næstu 4-5 árin.

Talsverð andstaða er innan VG við samstarf við Sfl. – en það gæti komið til greina í annarri umferð tilrauna til stjórnarmyndunar!

Ég spái því hins vegar að Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn muni fljótlega tengja sig saman og leita að ódýrri hækju til að ná meirihluta.

Stærstu og valdamestu hagsmunirnir á Íslandi liggja í atvinnulífinu. Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn eru nátengd þeim hagsmunum. Framsókn tengist þeim þó líka, en hún þykir of sködduð vegna innanflokksátakanna (og Viðreisn hefur hafnað því að ganga inn í núverandi stjórn). Það gæti líka breyst í annarri umferð!

Hægri öflin eiga nú meiri möguleika á pólitískum áhrifum en nokkru sinnum fyrr frá hruni.

Tilkoma Viðreisnar sem hjáleigu Sjálfstæðisflokksins gerir það að verkum – og auðvitað úrslit kosninganna, með þeirri hægri sveiflu sem þar varð.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.10.2016 - 10:17 - FB ummæli ()

Pólitískur möguleiki?

Menn velta nú fyrir sér mögulegum stjórnarmynstrum.

Kannanir hafa bent til að hugsanlega nái stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nægum meirihluta – og þeir ræða það sín á milli. Það er þó ekki í hendi enn.

Þá kemur allt í einu upp þessi pólitíski ómöguleiki, sem er krafa Pírata um stutt kjörtímabil og höfuðfókus á setningu nýrrar stjórnarskrár.

Það er ekki efst á lista kjósenda og varla geta hinir andstöðuflokkarnir samþykkt það, þó þeir hafi mikinn áhuga á stjórnarskrárumbótum.

Annað hvort víkja Píratar frá þessari fráleitu kröfu eða sá stjórnarmöguleiki fer út af borðinu. Væri það gott fyrir framgang umbóta á stjórnarskránni og önnur áhugamál Pírata?

Til að koma fram umbótum á grunni tillagna stjórnlagaráðs þarf vönduð vinnubrögð með samstarfi allra flokka, nema helst Sjálfstæðisflokksins (sem hefur engan áhuga á slíku).

Það þýðir að framgangur stjórnarskrárbreytinga kallar á samstarf stjórnarandstöðunnar við Framsókn og Viðreisn. Menn þurfa helst að tryggja að stjórnarskrárbreytingar lifi af tvennar kosningar – annars kunna þær að verða til einskis.

Í þessu samhengi er mikilvægt að menn átti sig á að stjórnarskrárbreytingar eru ekkert smámál sem tekur örfáa mánuði. Ekki dugir að ljósrita tillögur stjórnlagaráðs og greiða atkvæði um þær. Vinna þarf með þær og útfæra vandlega, með aðstoð sérfræðinga. Ná nægri samstöðu.

Óraunsæ tímapressa og einstrengingur eru ekki sérlega skapandi innlegg í þá vinnu.

Stjórnarmyndun og samstarf þarf að vanda. Flaustur og ringulreið skila engu nema vonbrigðum.

Þess vegna ættu stjórnarandstöðuflokkarnir að hafa Framsókn og Viðreisn einnig inni í kortlagningu sinni á pólitískum möguleikum.

Samstarf við Framsókn í velferðarmálum og umhverfismálum landsbyggðar getur verið mikilvægt og farsælt. Viðreisn hefur reifað vilja til alvöru umbóta í sjávarútvegsmálum – svo nokkuð sé nefnt.

Allt getur þetta fallið vel að mikilvægum markmiðum stjórnarandstöðuflokkanna. Menn fá þó sjaldan allt sem er á óskalistanum.

Umbótastjórn verður varla mynduð ef pólitískir ómöguleikar eru settir í forgang!

Pólitík er list hins mögulega.

 

 

Síðasti pistill: Sveiflur á fylgi og framtíð Fjórflokksins

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is