Miðvikudagur 25.5.2016 - 04:44 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn klofna

Stofnun Viðreisnar í dag virðist hafa verið vel skipulögð og vel heppnuð. Stofnfundurinn í Hörpu var fjölmennur og áhugi og ákveðni virtist skína úr hverju andliti.

Það er eitthvað að gerast þarna!

En enginn fjölmiðill sem ég hef séð bendir þó á það sem er stærsti fréttapunkturinn við þennan fund.

Þarna klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í fyrsta sinn síðan Sverrir Hermannsson klauf flokkinn með stofnun Frjálslyndaflokksins árið 1998 og setti réttlátara kvótakerfi, umhverfisvernd og velferðarkerfið á dagskrá. Allt mál sem þáverandi forysta Sjálfstæðisflokksins (þ.e. Davíð Oddsson) vildi lítið með hafa.

Albert Guðmundsson hafði áður klofið flokkinn árið 1987 og tekið rúman fjórðung fylgisins með sér.

Fyrsti formaður Viðreisnar var kosinn Benedikt Jóhannesson. Hann hefur ekki aðeins verið áhrifamikill Sjálfstæðismaður um langt skeið, heldur er hann einnig af Engeyjarættinni, sem lengst af var áhrifamikill hluti af valdakerfi Sjálfstæðismanna.

Bjarni Benediktsson er af sömu ætt, þó hann hafi líklega meira af eyjunni Tortólu en Engey að segja nú til dags.

Auk Benedikts eru margir fyrrverandi Sjálfstæðismenn áberandi í stjórn Viðreisnar og í hópi fundarmanna. Sumir þeirra hafa verið áhrifamenn í flokknum. Þarna er einnig nýtt áhugasamt fólk.

Þegar stefnumál og áherslur Viðreisnar eru skoðaðar blasir við að þetta eru viðbrögð við þeim harða einstrengingi, þjóðernisrembingi og sérhagsmunaþjónkun sem hefur orðið að megin einkennum hins nýja Sjálfstæðisflokks, sem varð til á tíma Davíðs Oddssonar og Hannesar Hólmsteins (sjá hér).

Viðreisn vill sinna hagsmunum almennings en bara ekki sérhagsmunum ríka fólksins, eins og einkennir Sjálfstæðisflokkinn nú á dögum (sjá hér).

Davíð Oddsson, sem nú kynnir sig sem sérstakan mann “sátta” í forsetaframboði, er sem sagt orsök þessa nýjasta klofnings í Sjálfstæðisflokknum (sjá hér).

Viðreisn er andsvar við þeim óheppilegu breytingum sem “friðarhöfðinginn” einráði Davíð Oddsson gerði á gamla Sjálfstæðisflokknum!

Viðreisn gæti hoggið umtalsverð skörð í fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem þegar er í lægri mörkum.

Viðreisn gæti einnig fengið eitthvert fylgi frá ESB-sinnuðu Samfylkingarfólki og gömlum Alþýðuflokksmönnum, sem leggja meiri áherslu á vestræna samvinnu en jafnaðarstefnuna.

Það er sem sagt ekki bara upplausn á vinstri væng stjórnmálanna heldur ekki síður á hægri vængnum.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með framvindunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 15.5.2016 - 18:27 - FB ummæli ()

Davíð leiðréttur

Það er ástæða til að leiðrétta Davíð Oddsson, þegar hann fullyrðir að hrunið sé okkur öllum að kenna (sjá hér).

Það er eiginlega eins langt frá því að vera rétt og hugsast getur.

Einfaldast er að vísa í hina viðamiklu úttekt Rannsóknarnefndar Alþingis á orsökum falls bankanna (sjá hér).

Þar er engin sök borin á almenning í landinu. Gáið að því!

Hestu ábyrgðarmenn hrunsins eru sagðir þessir:

  • Eigendur og stjórnendur einkabankanna sem þöndu þá út með allt of mikilli áhættu og ógnvænlegri skuldsetningu.
  • Eftirlitsaðilar sem áttu að aftra því að fjármálakerfið færi afvega brugðust skyldum sínum. Þeir voru þessir:
    • Seðlabanki Íslands
    • Fjármálaeftirlitið
    • Stjórnvöld

Davíð sjálfur kemur mjög víða við í þessari sögu, en einkum sem sá stjórnmálamaður sem öðrum fremur lagði grunn að því umhverfi taumlausrar gróðasóknar, sem gerði þetta stórslys mögulegt.

Og svo enn frekar sem aðalbankastjóri Seðlabankans á þeim tíma (2005-2008) er fjármálabóla blés út á fordæmalausan og ósjálfbæran hátt, sem hlaut að enda með hruni.

Hann sleppti fjármála- og markaðsöflunum lausum og stýrði hinni misheppnuðu einkavæðingu bankanna, ásamt Halldóri Ásgrímssyni.

Fjárfestar og atvinnurekendur nýttu sér frelsið öðrum fremur og drekktu þjóðarbúinu í skuldum, með viðamiklu braski/spákaupmennsku (sjá hér).

Sem aðalbankastjóri Seðlabankans átti Davíð öðrum fremur að gæta að fjárhagslegum stöðugleika í landinu.

Fjármálakerfið hrundi hins vegar á hans vakt og Rannsóknarnefnd Alþingis taldi hann hafa brugðist starfsskyldum sínum á alvarlegan hátt, ásamt hinum bankastjórunum. Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld fengu einnig alvarlegar ákúrur hjá Rannsóknarnefndinni.

 

Það sem Davíð hefði átt að gera

Ég held að farsælla hefði verið fyrir Davíð að gangast við augljósri ábyrgð sinni og Sjálfstæðisflokksins fyrir löngu.

Bæði hefði honum liðið betur með það og lærdómur þjóðarinnar af mistökum hrunsins hefði betur nýst til að aftra því að slíkt gerðist aftur.

Það hefði verið allra hagur.

Hugsanlega hefði honum jafnvel verið fyrirgefið.

Slíkt gerist hins vegar ekki án auðsýndrar iðrunar.

Því er hins vegar ekki fyrir að fara hjá Davíð, ef marka má ofangrein ummæli hans.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 14.5.2016 - 12:46 - FB ummæli ()

Sigurður Ingi og Lukku Láki slá í gegn

Það er gaman að heyra fréttir af því að Sigurði Inga, forsætisráðherra vorum, hafi mælst vel í Hvíta húsinu í gær, í hátíðarkvöldverði Bandaríkjaforseta.

Lukku Láki (Lars Lökke) frá Danmörku átti líka góðan sprett.

Þetta minnir mig á, að Sigurður Ingi hefur raunar plumað sig ágætlega í hlutverki forsætisráðherra.

Hann er traustvekjandi og góður fulltrúi landbúnaðarins á Íslandi.

Menn komast varla nær hjarta þjóðarsálarinnar en að vera í landbúnaði, eins og Jónas frá Hriflu kenndi okkur hér um árið.

Svo hefur Sigurður Ingi jákvæðari samskiptamáta við stjórnarandstöðuna og fjölmiðla en forveri hans.

Er hann ekki bara ágætur?

 

Síðasti pistill:  Ríkisskattstjóri tekur á spillingunni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 12.5.2016 - 13:58 - FB ummæli ()

Ríkisskattstjóri tekur á spillingunni

Uppljóstranir Panama-skjalanna benda til að Íslendingar hafi verið óvenju miklir notendur skattaskjóla, á árunum að hruni.

Samt hafa ráðherrar verið hikandi í viðbrögðum sínum frá því þetta kom fyrst á dagskrá árið 2004 – og nú síðast Bjarni Benediktsson ráðherra skattamála (sjá hér).

Ríkisskattstjóri hefur hins vegar tekið afgerandi afstöðu gegn þessari spilaborg siðleysis, lögbrota og spillingar, sem notkun skattaskjóla er.

Í nýjasta hefti tímarits Ríkisskattstjóraembættisins, Tíund, er mikið fjallað um þessi mál.

Leiðarinn hefur verið fréttaefni í dag og í gær og er það vel.

Hins vegar er einnig í tímaritinu mikið um gagnlegar upplýsingar um hvernig þessi mál hafa verið á dagskrá skattayfirvalda, a.m.k. frá árinu 2004.

Ríkisskattstjóraembættið hefur ítrekað bent á misbrestina sem þarna er að finna – en ríkisstjórnir hafa ekki viljað taka á málinu.

Það er skiljanlegt. Hvers vegna?

Jú, vegna þess að forysta Sjálfstæðisflokksins og hluti Framsóknarflokksins studdu notkun skattaskjóla á tímabilinu frá 1997 og að hruni.

Hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins (Hannes Hólmsteinn Gissurarson) var sérstakur talsmaður aukins frelsis fyrir auðmenn, þar með talið með notkun skattaskjóla til skattasniðgöngu og til að fela eignir.

 

Davíð Oddsson ver enn notkun skattaskjóla til sniðgöngu

Davíð Oddsson og fjármálaráðherrar hans (Geir Haarde og Árni Mathiesen) voru allir á þessari línu.

Davíð Oddsson er enn í dag á þessari línu (sjá hér og hér).

Þeir studdu og réttlættu skattasniðgöngu íslenskra auðmanna, meðal annars með notkun skattaskjóla.

Þess vegna var ekkert gert til að sporna við því, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir skattayfirvalda.

Þannig er rökrétt að íslenskir viðskiptamenn og fjárfestar yfirstéttarinnar hafi notað þessi spillingarbæli í meiri mæli en kollegar þeirra í grannríkjunum.

Það er svo auðvitað umhugsunarefni að talsmaður slíkrar spillingar, Davíð Oddsson, skuli nú vera í framboði til að gegna embætti forseta Íslands!

Skattaundanskot yfirstéttarinnar bitna á almenningi í hærri sköttum og grafa að auki undan íslenska samfélaginu.

Hvernig gæti það samrýmst hagsmunum Íslendinga almennt að hafa forseta sem er talsmaður notkunar skattaskjóla?

 

Síðasti pistill:  Guðni sigrar – á hvorn veg sem er

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 9.5.2016 - 09:24 - FB ummæli ()

Guðni sigrar – á hvorn veg sem er

Menn velta fyrir sér hvernig innkoma Davíðs Oddssonar breyti stöðunni í forsetakosningunum.

 

Staðan í dag

Að óbreyttu verður slagurinn milli Guðna, Ólafs og Davíðs. Aðrir munu varla ná máli, nema helst Andri Snær.

Í þessari stöðu tekur Davíð einkum fylgi frá Ólafi Ragnari og tryggir Guðna þar með sigur, miðað við síðustu kannanir.

Hins vegar aukast nú líkur á að Ólafur Ragnar dragi sig til baka, eins og ég lagði til í síðasta pistli.

Honum stóð þegar stuggur af framboði Guðna og nú sér hann viðbótarhættuna sem fylgir framboði Davíðs. Auk þess er Ólafur þegar búinn að ná öllu sem hann getur náð í forsetaembættinu og skattaskjólamál forsetafrúarinnar eru íþyngjandi.

Ólafur Ragnar mun því draga sig til baka á næstu dögum (* og er búinn að því núna*), enda það eina skynsamlega fyrir hann. Hann þarf einungis að gera það með reisn og arfleifð hans er áfram gulltryggð. Hætta á niðurlægjandi tapi er þar með frá.

 

Ef Ólafur Ragnar hættir við

Í þeirri stöðu verður valið einkum milli Guðna og Davíðs.

Davíð er stórskaddaður stjórnmálamaður og með álíka langa ofsetu í hæstu valdaembættum þjóðarinnar og Ólafur. Davíð hefur því þegar setið of lengi á toppnum, eins og hann segir um Ólaf.

Rök Davíðs gegn Ólafi hitta hann því sjálfan fyrir – eins og bjúgverpill!

Ferill Davíðs endaði að auki með skelfilegri brotlendingu, ólíkt því sem sagt verður um Ólaf Ragnar. Fáir munu nú sundra þjóðinni jafn mikið og Davíð Oddsson, enda umdeildasti stjórnmálamaður seinni ára.

Davíð mun því aldrei ná jafn miklu fylgi í forsetakjöri nú og Ólafur Ragnar myndi gera – og því væri sigur Guðna einnig líklegastur í þessari stöðu.

 

Tími endurnýjunar er núna

Eina leiðin til að endurvekja traust á stjórnmálunum og samfélaginu er að hleypa framtíðinni að – og leyfa fortíðinni að líða.

Guðni hefur víðari skírskotun til fólks í öllum þjóðfélagshópum en Andri Snær og einstaka hæfni til að gegna embættinu, eins og Ólafur Ragnar sagði sjálfur í viðtali við Björn Inga á Eyjunni.

Þeir sem vilja hleypa framtíðinni að með heilbrigðri endurnýjun ættu því að sameinast um Guðna. Gott væri hins vegar að fá rödd Andra Snæs inn í stjórnmálin.

Guðni Th. Jóhannesson er mesti sérfræðingur landsins í forsetaembættinu og sögu þess.

Svo er Guðni líka geðþekkur, bjartsýnn og réttsýnn.

 

Síðasti pistill:  Guðni er góður kostur

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.5.2016 - 12:29 - FB ummæli ()

Guðni er góður kostur

Ég hef verið stuðningsmaður Ólafs Ragnars á forsetastóli, en nú ætla ég að kjósa Guðna Th. Jóhannesson. Fyrir því eru nokkrar ástæður (sjá t.d. hér).

En veigamestu ástæðurnar eru þó þær, að mér sýnist Guðni vera óvenju góður kostur í embættið.

Hann er óbundinn stjórnmálaflokkum og höfðar vel til allra átta á pólitíska litrófinu.

Hann er með góðan bakgrunn í íslensku samfélagi, góða menntun og reynslu.

Sagnfræðiþekking hans og rannsóknir á vettvangi stjórnmála og forsetaembættisins verða honum sérstaklega gott veganesti í starfi forseta.

Guðni er talsmaður heilinda og heilbrigðra sjónarmiða. Hann er skýrmæltur og sköruglegur og mun geta þjónað hagsmunum þjóðarinnar með myndarbrag. Hann styður umbætur á stjórnarskránni.

Raunar má segja að Guðni Th. Jóhannesson geti betur en aðrir frambjóðendur verið fulltrúi allrar þjóðarinnar.

Hann hefur því betri forsendur en sitjandi forseti til að auka traust almennings á stjórnmálum og forsetaembættinu. Einmitt það sem okkur vantar nú.

Ólafur Ragnar nefndi er hann tilkynnti um sjötta framboð sitt, að hann myndi bara fagna því ef sterkari frambjóðandi en hann kæmi fram og sigraði. Hann myndi óska honum velgengni í starfi og vel una málalyktum.

Ég held að Ólafur gerði enn betur ef hann drægi sig til baka og styddi þar með framboð Guðna. Þannig gæti hann hætt með reisn.

Endurnýjun er mikilvægur hluti af heilbrigðu lýðræði.

Tími endurnýjunar er núna.

 

Síðasti pistill:  Dorrit veikir framboð Ólafs Ragnars

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.5.2016 - 11:34 - FB ummæli ()

Dorrit veikir framboð Ólafs Ragnars

Ég hef lengst af stutt Ólaf Ragnar Grímsson í hlutverki forseta Íslands. Ég hef hælt honum fyrir góð verk, en þó einnig haft mínar efasemdir um sumt.

Á heildina litið hefur hann verið öflugur forseti og gert margt gott, ekki síst á erlendum vettvangi. Ferill hans hefur verið glæsilegur og sérstakur.

En ég varð mjög hugsi er hann tók síðasta snúning og hætti við að hætta – í annað sinn.

Bæði er seta hans í embætti orðin lengri en lýðræðisskipulagi er hollt og rökin sem hann notaði til að réttlæta endurtekið framboð voru þunn í roðinu.

Í grunninn sagði hann að birting Panama-skjalanna opnaði á ný þau sár í þjóðarsálinni sem hrunið skildi eftir og sem grófu undan trausti almennings á stofnunum samfélagsins og stjórnmálunum. Kosningar gætu einnig verið á næsta leiti.

Því væri nauðsynlegt að hann sæti lengur, í þágu stöðugleika og festu.

Nú þegar upplýst hefur verið að eiginkona hans er mikilvirkur notandi erlendra skattaskjóla þá grípur gráglettni örlaganna harkalega inní atburðarrásina – og sömu rök hitta hann sjálfan fyrir.

Hann er að auki staðinn að rangfærslu um málið í erlendum fjölmiðlum, sem gæti skaðað orðspor þjóðarinnar enn frekar.

Nú má vel vera að fjárhagur þeirra hjóna hafi verið alveg aðskilinn og að Ólafur Ragnar hafi ekkert vitað um þessi mál. Ef svo er má segja að það sé ósanngjarnt að hann líði fyrir gerðir eiginkonunnar og fjölskyldu hennar.

Hann hefði þó átt að kanna málið áður en hann fullyrti jafn mikið og hann gerði á CNN, eða hafa þann fyrirvara á að hann vissi ekkert um málið.

En framhjá því verður ekki horft, að forsetafrúin er hluti af framboði Ólafs Ragnars. Búseta hennar í öðru landi síðan 2012 og þessi notkun skattaskjóla kastar rýrð á sameiginlegt framboð þeirra, jafnvel þó hann sjálfur sé með hreinan skjöld.

Staðan er því sú, að framboð Ólafs Ragnars hefur veikst við þessi síðustu tíðindi.

 

Síðasti pistill:  Arfleifð Davíðs: Forréttindi fyrir þá ríkustu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 30.4.2016 - 11:19 - FB ummæli ()

Arfleifð Davíðs: Forréttindi fyrir þá ríkustu

Það vakti athygli nýverið að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, varði “skattasniðgöngu” og notkun skattaskjóla í Reykjavíkurbréfi.

Einmitt þegar umræðan um Panama-skjölin stóð sem hæst.

Davíð sagði meðal annars að ekkert væri rangt við “skattasniðgöngu”, þ.e. að nota sér glufur í löggjöf eða klækjabrögð til að koma tekjum undan skatti, meðal annars með notkun skattaskjóla.

Allir vita að slík skattasniðganga er einkum á færi einstaklinga sem eru með rekstur og kaupa sér þjónustu sérfræðinga í skattaundanskotum. Þetta er fyrst og fremst leið hinna ríkustu.

Þegar þeir ríkustu koma sér undan þeim skattagreiðslum sem löggjöfin ætlast til af öllum, þá heitir það “skattasniðganga” í heimi Davíðs.

En ef vinnandi almenningur gerir slíkt heitir það “skattsvik” – og er refsivert án undanbragða.

Davíð varði sem sagt sérreglur og sérmeðferð fyrir þá ríku.

 

Nýfrjálshyggjan: hugmyndafræði og hagsmunir yfirstéttarinnar

Það var þó ekki nýtt að Davíð Oddsson gætti hagsmuna þeirra ríku. Það gerir hann iðulega á Morgunblaðinu, eins og löng hefð er fyrir á þeim bæ.

Á þeim tíma sem hann var forsætisráðherra innleiddi Davíð ýmis úrræði í anda nýfrjálshyggju. Eins og flestir vita gengur stefna nýfrjálshyggjunnar nær alfarið út á óhefta markaðshætti, afreglun og fríðindi ýmis konar, sem einkum nýtast atvinnurekendum og fjárfestum – oft á kostnað almennings.

Skattastefna nýfrjálshyggjunnar gekk t.d. á árunum að hruni út á að lækka skatta á hátekjufólk, stóreignamenn og fyrirtækjaeigendur, um leið og skattbyrði lægri og milli tekjuhópa var aukin.

Og þeim efnuðustu var einnig auðvelduð notkun erlendra skattaskjóla, eins og Styrmir Gunnarsson benti nýlega á í viðtali á RÚV.

Notkun skattaskjóla er til að koma sér betur undan skattgreiðslum í heimalandinu og til að fela eignir, svo auðveldara sé að komast undan ábyrgðum, til dæmis við gjaldþrot.

Nú sjáum við ýmsar afleiðingar alls þessa í Panama-skjölunum.

Íslendingar virðast hafa gengið lengra en flestar vestrænar þjóðir í notkun erlendra skattaskjóla. Hér varð óhófið og taumleysið með alversta móti. Og afleiðingarnar eftir því.

Menn sem ráku íslensk fyrirtæki sín í risagjaldþrot og áttu ekki fyrir skuldum sínum á Íslandi, reynast enn eiga umtalsverðar eignir í erlendum skattaskjólum.

Frelsi nýfrjálshyggjunnar var þannig fyrst og fremst frelsi fyrir þá ríku.

Það var því ekki óvænt að Davíð Oddsson og félagar hans í frjálshyggjunni skyldu amast við uppljóstrunum Panama-skjalanna og neikvæðri umræðu um notkun skattaskjóla.

Davíð fann sig knúinn til að verja “skattasniðgöngu” þeirra ríku.

Siðfræði nýfrjálshyggjunnar er sem sagt tvöföld: almennar reglur fyrir almenning en sérreglur og vettlingatök fyrir yfirstéttina.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.4.2016 - 13:52 - FB ummæli ()

Mun Bjarni selja ríkiseignir til vina og ættingja?

Það sem tíðkaðist á Íslandi á áratugnum fram að hruni var yfirgengilegt og einstakt. Taumlausri græðgi var sleppt lausri og yfirstéttin fór offari í braski, siðleysi og lögbrotum, sem leiddu til hrunsins.

Allt var það gert með stuðningi og vitneskju stjórnvalda, undir forystu Sjálfstæðisflokksins og viðskiptaarms Framsóknarflokksins. Opinber stuðningur við notkun erlendra skattaskjóla var hluti af prógramminu.

Einkavæðing ríkisbankanna árið 2003 markaði stærstu tímamótin. Þaðan í frá fór allt á allra versta veg.

Nú ber svo við að miklar eignir (m.a. tveir bankar) eru á ný komnar í hendur ríkisvaldsins, sem fékk það hlutverk að bjarga fjármálakerfinu og þar með stórum hluta atvinnulífsins, á kostnað almennings.

Í stað þess að ríkið haldi umtalsverðu eignarhaldi á bönkunum og fái áfram tugi milljarða arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, sem nýtist öllum Íslendingum til framfara, þá þykir yfirstéttinni og hagfræðingum hennar betra að örfáir auðmenn fái slíkt fé til eigin þarfa

Því skal selja bankana og aðrar eignir sem ríkið er með á sinni hendi. Jafnvel þó að rekstur þeirra sé gjöfull og þjóðinni í hag.

 

Á ráðherrann einn að ráða meðferð ríkiseigna?

Nú er sem sagt stofnað einkahlutafélag á vegum fjármálaráðherra sem á að fá það hlutverk að annast umsýslu þessara eigna ríkisins og svo sölu.

Fyrstu fréttir voru þær að fjármálaráðherrann myndi skipa sjálfan sig sem stjórnarformann félagsins, sem ætti svo að semja við alter-egó fjármálaráðherrans um niðurstöður. Það þætti gott á Tortólu!

Ráðherrann leiðréttir þetta og segir nú að hann muni frekar skipa fulltrúa sína í stjórnina.

En það er líka ófullnægjandi að ráðherrann einn skipi stjórn sem ráðstafar ríkiseignum (sjá góða grein Gauta Eggertssonar um þessi mál).

Það er ekkert betra að ráðherrann skipi vini sína og hagsmunagæslumenn í stjórn svona félags en að hann skipi sjálfan sig.

Hann á einfaldlega ekki að ráða þessu einn.

Eðlilegra væri að allir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi fái að tilnefna fulltrúa í stjórn slíks eignarhaldsfélags. Eða hæstiréttur.

Með því væru auknar líkur á að almannahagur komist á dagskrá í málinu.

Sú staðreynd að ráðherrann er af einni af þekktari auðmannaættum landsins gerir alla aðkomu hans að sölu ríkiseigna sérstaklega viðkvæma – ekki satt? Hver verður samkeppnisstaða annarra auðmannaætta?

Og hvernig ætti að verja hagsmuni almennings í svona ferli?

En ef til vill stóð það aldrei til. Þetta er kanski bara hugsað fyrir Borgunar-menn landsins og félög þeirra í myrkum skattaskjólum!

Eftir arfaslæma reynslu af einkavæðingu bankanna og annarri einkavæðingu á Íslandi þá virðumst við enn vera á nokkurn veginn sama stað.

Hugmyndir um að ríkið eigi umtalsverða hluti í tveimur bönkum má ekki einu sinni ræða, né heldur að bankakerfið sé sveigt að því að þjóna samfélaginu betur.

 

(Aths. höfundar: Það er leiðinlegt að setja þessa umfjöllun í svo persónulegt samhengi, eins og hér er gert, en annað er ekki í boði. Þannig liggur málið fyrir.)

 

 

Síðasti pistill: Blóðsugur á þjóðarbúinu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.4.2016 - 18:46 - FB ummæli ()

Blóðsugur á þjóðarbúinu

Panama-skjölin auka þekkingu okkar á því sem gerðist á Íslandi á áratugnum fram að hruni.

Við vissum auðvitað að tíðarandi og pólitík nýfrjálshyggjunnar sleppti öllu lausu í íslenska þjóðarbúinu.

Græðginni héldu engin bönd.

Brask varð að meginviðfangsefni atvinnulífs og fjármálageira.

Fyrirtækjum og bönkum var drekkt í skuldum. Eignir voru losaðar út.

Stjórnvöld stóðu hjá og hlógu þegar fjármálaráðherrann sagði: “Sjáið þið ekki veisluna drengir?”

Á endanum féll þjóðarbúið undan þessu öllu. Kafnaði í skuldum og fjármálakerfið hrundi, með tilheyrandi byrðum fyrir almenna skattgreiðendur heimilanna.

Enda skapa braskarar engin verðmæti.

Þeir eru yfirleitt í hlutverki blóðsuganna. Sjúga til sín verðmæti sem aðrir hafa skapað.

Þetta vitum við allt.

En nú vitum við líka að Íslenskir braskarar voru stórtækari en flestir braskarar Vesturlanda í notkun erlendra skattaskjóla.

Í stað þess að brauðmylsnur féllu af háborðum yfirstéttarinnar niður til pöpulsins á landinu bláa þá streymdi fjármagn í stórum stíl í erlend skattaskjól.

Blóðinu var tappað af þjóðarbúinu.

Svo þegar snillingarnir fóru á hausinn á Íslandi og áttu ekki fyrir skuldum þá reynast enn vera miklar eignir á leynireikningum þeirra í útlöndum – sem ekki er hægt að ganga að.

Þar sýna skattaskjólin gildi sitt.

Sennilega eru margir íslenskir “snillingar” í hópi “erlendu” hrægammanna sem eru kröfuhafar í þrotabúum bankanna.

Það getur ekki verið að fjölskylda forsætisráðherra sé eini aðilinn í landinu sem það á við um.

Það hlýtur að vera eðlilegt að birta nöfn allra kröfuhafanna í þrotabú bankanna, sem nú á að leysa út með gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 15.4.2016 - 15:04 - FB ummæli ()

Skattsvikamálin: Stórmerk grein Gunnars Smára

Í Fréttatímanum í dag er stórmerk grein, eftir ritstjórann Gunnar Smára Egilsson, um það hvernig stjórnvöld á Íslandi studdu kerfisbundið við skattaundanskot efnafólks á liðnum áratugum (sjá hér).

Þetta var sérstaklega afgerandi á áratugnum fram að hruni, þegar stjórnvöld lögðu lykkju á leið sína til að greiða fyrirtækjaeigendum og fjárfestum nýjar leiðir til að nota leynifélög í skattaskjólum, samhliða því að þau veiktu skattaeftirlitið umtalsvert.

Tilmælum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra um að Ísland fylgdi öðrum þjóðum í útfærslu skattareglna var ítrekað hafnað af Árna Matthiesen og Geir Haarde, fjármálaráðherrum í stjórnartíð Davíðs Oddsonar.

Gunnar Smári byggir að hluta á sögulegum gögnum úr mjög athyglisverðri MA ritgerð Jóhannesar Hraunfjörð Karlssonar sérfræðings í skattamálum.

Þetta er ekki bara saga um það hvernig ormagryfja skattaskjólanna stækkaði og dýpkaði á frjálshyggjuárunum, þegar Hannes Hólmsteinn hvatti félaga sína í Sjálfstæðisflokknum til að sleppa öllu siðferði lausu í þágu auðmanna. Sem þeir og gerðu, eins og Styrmir Gunnarsson hefur nú viðurkennt (sjá hér).

Þetta er líka saga langtíma samhengisins í forréttindameðferð stjórnvalda á yfirstéttinni á Íslandi.

Saga þess hvernig stjórnvöld, sem oftast voru undir forystu Sjálfstæðisflokksins, beinlínis leyfðu efnafólki margvísleg undanskot og vik frá þeim reglum sem almennum launaþrælum var gert að fara eftir í hvívetna.

Þetta er ljót saga sem allir eiga að kynna sér.

Greinin hefur líka mikið gildi fyrir það samhengi sem fylgir birtingu Panama-skjalanna, sem nú er hafin.

Gunnar Smári á þakkir skyldar fyrir að taka þetta efni saman og miðla því á svo skýran hátt í Fréttatímanum.

 

Síðasti pistill:  Skattaskjól stuðla að lögbrotum og siðleysi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.4.2016 - 16:53 - FB ummæli ()

Skattaskjól stuðla að lögbrotum og siðleysi

Menn segja að það sé ekki ólöglegt að nota skattaskjól, að eiga félög þar og vista í þeim eignir. Hins vegar er ólöglegt að svíkja undan skatti.

Skattaskjól eru þó fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum í heimalandinu.

Íslendingar sem nota skattaskjól gera það til þess að komast hjá því að greiða til fulls skatta af tekjum og eignum sem verða til á Íslandi.

Helsta málsvörn þeirra sem nota skattaskjól er að segja, að þeir gefi eignir og tekjur sínar sem skráðar eru í skattaskjólum upp til skatts í heimalandi sínu.

Hins vegar er ekki hægt að sannreyna það. Engin leið.

Einmitt vegna leyndarinnar sem er kjarninn í notkun og starfsemi skattaskjólanna.

Slík málsvörn getur því einfaldlega verið innantóm yfirlýsing, ef hún er ósannreynanleg.

 

Hvers vegna er notkun skattaskjóla ekki bönnuð?

Skattaundanskot eru sem sagt lögbrot. Þau bitna á heiðvirðum skattgreiðendum og eru beinlínis svik við samfélagið þar sem viðkomandi eignir urðu til.

Allar ríkisstjórnir í vestrænum löndum segjast vera andvígar starfsemi skattaskjóla og vilja beita sér gegn þeim, meðal annars á vettvangi OECD.

En hvers vegna er notkun skattaskjóla þá ekki beinlínis bönnuð?

Hvers vegna er ekki bannað fyrir íslenska ríkisborgara að eiga félög í þekktum skattaskjólum og að vista eignir þar?

Það væri þó ekki bann við því að eiga eignir erlendis almennt, þ.e. í löndum þar sem stjórnsýsla og upplýsingagjöf er skilvirk og heiðarleg. Ég er einungis að tala um bann við vistun eigna á óheiðarlegum aflandssvæðum, sem stuðla að lögbrotum.

Bann við notkun skattaskjóla virðist vera nauðsynleg forsenda fyrir skilvirkri og sanngjarnri framkvæmd skattalaga í landinu.

 

Yfirstéttin er helsti notandi skattaskjóla

Nú er það svo að notendur skattaskjóla eru alla jafna efnaðasta fólkið í hverju landi. Þetta er leið yfirstéttarinnar til að komast hjá fullum skattgreiðslum til heimalandsins.

Sennilega er það til marks um vald og áhrif yfirstéttarinnar í vestrænum samfélögum að notkun skattaskjóla er yfirleitt ekki beinlínis bönnuð.

Frá sjónarhóli heilbrigðrar stjórnsýslu og almenns siðferðis ætti notkun þeirra þó auðvitað að vera bönnuð.

 

Eru Íslendingar methafar í notkun skattaskjóla?

Nú benda Panama-skjölin til þess að Íslendingar séu óvenju miklir notendur erlendra skattaskjóla.

Það endurspeglar þá lausung, græðgi og spillingu sem festi rætur hér í tíðaranda áratugarins að hruni.

Bankarnir beinlínis beittu sér fyrir mikilli notkun skattaskjóla. Þeir grófu þannig undan samfélaginu, með blygðunarlausum hætti. Hugmyndafræðingar yfirstéttarinnar (nýfrjálshyggjumenn) sögðu sjálfsagt að nota viðskiptafrelsið með þessum hætti.

Sú þátttaka íslenskra stjórnmálamanna í notkun skattaskjóla sem lekinn frá Panama hefur þegar opinberað virðist einnig benda til óvenju mikillar virkni stjórnmálamanna okkar í skattaskjólum.

Þar erum við á plani með spilltum og vanþróuðum þróunarlöndum. Minnumst þess líka að þessi Panama skjöl eru örugglega ekki tæmandi upplýsingar um notkun Íslendinga á skattaskjólum.

Margt á því eftir að koma í ljós.

Það verður fróðlegt að sjá nöfn þeirra 600 íslensku efnamanna sem eru á Panama-listanum og mun segja mikið um samfélagið sem þróaðist á Íslandi á áratugnum að hruni.

Það er því mikið verkefni að vinna á Íslandi við að hreinsa út þá spillingu og lögleysu sem mikil notkun íslensks efnafólks á skattaskjólum er.

Það er sá hluti uppgjörsins við hrunið sem enn á eftir að framkvæma. Sú hreinsun er nauðsynleg forsenda þess að verjandi sé að selja hluti ríkisins í bönkunum. Hún er forsenda þess að koma á heilbrigðum kapítalisma í landinu.

Stjórnvöld eru aðilinn sem þarf að veita hið eðlilega viðnám gegn því að notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, bæði fjárhagslega og siðferðilega.

Það gengur því ekki að stjórnmálamenn séu sjálfir notendur skattaskjóla.

Það hljóta allir að sjá.

 

Síðasti pistill: Hve mikið eiga Íslendingar í skattaskjólum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.3.2016 - 11:17 - FB ummæli ()

Hve mikið eiga Íslendingar í skattaskjólum?

Umræðan um eignir Íslendinga í skattaskjólum er að aukast með nýjum upplýsingum um málið.

Hún nær væntanlega hámarki þegar Jóhannes Kristjánsson og samstarfsfólk hans birta lista yfir efnaða Íslendinga sem vista eignir í erlendum skattaskjólum.

Það ætti þó auðvitað ekki að koma neinum á óvart að íslenskt efnafólk eigi miklar eignir í erlendum skattaskjólum.

Íslensku einkabankarnir stofnuðu allir útibú í Lúxemborg sem höfðu það sem meginverkefni að hjálpa efnuðum Íslendingum við að koma eignum sínum úr landi og vista þær í hinum ýmsu skattaskjólum.

Einhverju hafa bankarnir væntanlega áorkað í þeim verkefnum, svo við hljótum að ætla að fjölmargir Íslendingar eigi umtalsverðar eignir erlendis.

En hversu miklar upphæðir gætu verið í þessum spilum?

Á það mætti slá út frá opinberum gögnum um fjármagnsflæði úr landi. Best væri að fá Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra, til að lesa í þær tölur.

Önnur leið er að yfirfæra niðurstöður annarra sem rannsakað hafa notkun skattaskjóla.

 

Mat Zuckmans

Frakkinn Gabriel Zucman, einn af samstarfsmönnum Thomasar Piketty, birti í fyrra bók um slíkar rannsóknir í heiminum almennt, The Hidden Wealth of Nations.

Mat Zuckmans er að um 8% af auði heimsins sé nú vistað í ýmsum skattaskjólum og hefur umfangið verið mjög vaxandi á síðustu tveimur áratugum.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru skráðar hreinar fjáreignir íslensku þjóðarinnar um 7600 milljarðar króna, eða ígildi landsframleiðslu þriggja og hálfs árs.

Ef við notum heimsmeðaltal Zuckmans og áætlum að um 8% af fjáreignum Íslendinga séu vistuð í erlendum skattaskjólum gæti íslenskir efnamenn átt nálægt 600 milljörðum króna þar á bókum – þ.e. sex hundruð þúsund milljóna króna ígildi.

Það gæti til dæmis dugað til að byggja sjö til átta eintök af nýja Landsspítalanum.

Ef Íslendingar hafa notað skattaskjól meira en margar aðrar þjóðir á bóluárunum að hruni, sem virðist líklegt, þá gæti þessi upphæð verið hærri.

En kanski tapaðist líka eitthvað af þessum eignum í fjármálakreppunni. Eigendur eigna í skattaskjólum hafa þó verið betur varðir en ef þeir hefðu geymt slíkar eignir í íslenskum krónum, því gengi hennar féll miklu meira en gengi þeirra gjaldmiðla sem skattaskjólin nota.

Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki líklegir til að vera stórtækastir í þessum efnum. Eignir eiginkonu forsætisráðherra, sem til umræðu hafa verið, eru til dæmis bara lítið brot af þessum heildareignum (um 1 af 600 milljörðum).

Það eru atvinnurekendur og fjárfestar sem eiga langmest af þessum eignum erlendis. Þar á meðal svokallaðir forystumenn atvinnulífsins á liðnum árum.

Fróðlegt verður að sjá hverjir úr þeim hópi verða á listunum sem væntanlega birtast á næstunni.

En skattaskjólin eru mörg og leiðirnar þangað flestar að einhverju leyti leyndar.

Því er varla við að búast að einstakir listar yfir notendur erlendra skattaskjóla geti verið tæmandi. Rétt er að hafa þann fyrirvara í huga.

 

Síðasti pistill:  Gunnar Þórðarson – okkar besti maður

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 29.3.2016 - 11:42 - FB ummæli ()

Gunnar Þórðarson – okkar besti maður

Mikið var gaman að horfa á afmælistónleika Gunnars Þórðarsonar á RÚV í gærkveld. Ég missti því miður af tónleikunum í Hörpu á sínum tíma og beið því spenntur.

Það er raunar óhjákvæmilegt að tónleikar þar sem flutt er yfirlit um lög Gunna Þórðar verði góðir, því af slíku perlusafni er að taka. Og það gekk eftir.

Frábær hljómsveit, landsliðið í söng og ágætur kór tryggðu topp flutning.

Að öðrum ólöstuðum stóðu gítarsnillingarnir Guðmundur Pétursson og Friðrik Karlsson út úr, enda almennt gert ráð fyrir stóru hlutverki gítarsins í verkum Gunna.

Ég mæli eindregið með þessari kvöldskemmtun og gaman var að fá Gunna sjálfan á svið með syni sínum í lokin.

Mér fannst það raunar hraustlegt hjá Gunna að syngja Fyrsta kossinn meira og minna einn undir lokin. Þó hann hafi gert það vel þá vantaði auðvitað rödd Rúnars Júlíussonar, því hann var meira áberandi í upprunalegri útgáfu lagsins.

Mikið má Gunnar Þórðarson vera ánægður með æviverk sitt í tónlistinni – og hvergi nærri hættur.

Sjá tónleikana hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/afmaelistonleikar-gunnars-thordarsonar/20160328

Screen Shot 2016-03-29 at 11.38.59

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.3.2016 - 14:02 - FB ummæli ()

Kári með drottningarstæla

Það er fyndið þegar Kári Stefánsson segir RÚV vera með drottningarstæla.

Staðreyndin er nefnilega sú, að það er hann sjálfur sem öðrum fremur er með drottningarstæla!

RÚV bauð honum að vera á pallborði á áhugaverðum borgarafundi um heilbrigðismál í Háskólabíói í kvöld – sem einnig verður í beinni útsendingu.

Auðvitað hefði Kári átt að vera þar og taka þátt í umræðunni, eftir hið góða framtak hans með undirskriftarsöfnun, tækjagjöf og ágætri annarri baráttu fyrir umbótum í heilbrigðisþjónustunni.

Enda bauð RUV honum að vera þar í öndvegi.

En Kári var með drottningarstæla. Bjó til mál um það að honum væri ekki réttilega til sætis skipað á pallinum.

Hann sætti sig ekki við að vera á borði með sérfræðingum um heilbrigðismál. Vildi heldur vera í hópi stjórnmálamanna.

„Who cares“ – myndu rappararnir segja!

Það er bara fyrir sérfræðinga í snobbi að ráða í mikilvægi þeirrar sætaskipanar sem í boði var og hvers vegna Kári styggðist við og afþakkaði boðið. Skiptir þó litlu máli, en samt hefði verið fengur af því að hafa hann með í umræðunni.

Þetta er raunar algengt hjá Kára. Hann er með stórt egó og ruddalega samskiptahætti á köflum. Sumir kalla þetta hroka. Slíkt getur þó haft skemmtigildi, ef það er ekki tekið of alvarlega.

Menn ættu því bara að brosa að hinum drottningarlegu leiksýningum sem hann annað slagið setur á svið.

Kanski Kári verði þrátt fyrir allt með uppistand á gólfinu í salnum í kvöld og taki nokkrar sveiflur í umræðunni…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is