Laugardagur 18.3.2017 - 16:21 - FB ummæli ()

Frumstæð læknisfræði Seðlabankans

Áhyggjuefni dagsins er ofþensla í efnahagslífinu, sem hefur hækkað gengi krónunnar. Útflutningsgreinar kvarta um versnandi afkomu vegna þessa.

Hærra gengi er gott fyrir heimilin, því það eykur kaupmátt þeirra gagnvart innfluttum vörum og þjónustu.

Hærra gengi þýðir hins vegar minni tekjur útflutningsgreina í krónum talið (þó erlendu tekjurnar séu þær sömu).

Hver er helsta orsök ofþenslunnar?

Það er óvenju mikill vöxtur ferðaþjónustunnar. Þaðan er þetta lúxusmein sprottið.

Seðlabankinn á að stýra peningastefnu þjóðarinnar, þar með talið genginu, eins og hægt er.

Í ofþenslu er forskrift „haglæknisins” í Seðlabankanum sú, að spyrna gegn bólgunni – kæla eða hægja á efnahagsumsvifum í landinu.

Hans helsta meðal við framkvæmd peningstefnunnar er hækkun eða lækkun stýrivaxta. Bindiskylda kæmi þó líka til greina en hún er ekki í tísku hjá nýfrjálshyggjuhagfræðingum nútímans.

Hækkun stýrivaxta er því megin úrræði Seðlabankans, eða viðhald hás vaxtastigs.

Háir stýrivextir eiga að draga úr ofþenslunni með því að halda aftur af lántökum í landinu. En er það líklegt til að draga úr vexti ferðaþjónustunnar – mun það fækka ferðamönnum sem hingað vilja koma? Þeir eru ekki að koma hingað til að taka lán!

Stórtækir ferðaþjónustuaðilar (flugfélögin og félög sem eru stórtæk í hótelbyggingum) taka einkum lán erlendis, á mun lægri vöxtum en tíðkast á Íslandi.

Hátt vaxtastig á Íslandi, sem ætlað er til að draga úr vexti ferðaþjónustunnar, lendir því einkum á heimilunum sem eru með húsnæðisskuldir, en einnig á minni fyrirtækjum.

Háir stýrivextir lenda sem sagt ekkert sérstaklega á ferðaþjónustunni – heldur mest á öðrum.

Þetta úrræði virkar á svipaðan hátt og ef læknir setti gifs á vinstri upphaldlegg sjúklings sem er með bólgu eða brot í hægri ökla!

Það hefði auðvitað engin áhrif á sjúkdóminn, enda frumstæð læknisfræði í meira lagi.

Hagstjórn Seðlabankans er svolítið af þessum toga. Úrræðið beinist ekki að rótum vandans.

 

Vitlegri úrræði

Leið markaðarins í þessari stöðu er sú að gengi krónunnar hækkar uns verðlag Íslandsferða til útlendinga verður svo hátt að úr straumi ferðamanna dregur loks. Við höfum sem sagt verið á þeirri leið.

Gallinn við þessa „leiðréttingu” markaðarins er, að sú hækkun sem þarf til að stemma stigu við ofþenslunni sem stafar af of mikilli velgengni ferðaþjónustunnar drepur allar aðrar útflutningsgreinar áður en yfir lýkur – sem er slæmt.

Lækning markaðarins og Seðlabankans drepur ýmsa aðra saklausa aðila í þjóðarbúinu og leggur að auki ósanngjarnar byrðar á heimilin sem eru að sligast undan húsnæðisskuldum. Hittir alls ekki í mark – og er kanski bara sjálfsmark!

Svokallaðir „markaðsaðilar” vilja að lífeyrissjóðir verði neyddir til að flytja fjárfestingar sínar í stórum stíl úr landi. Þannig megi halda hávaxtastiginu hér á landi áfram og jafnframt lækka gengi krónunnar.

Það er hins vegar skylda stjórnenda lífeyrissjóða að ávaxta fé sjóðanna sem best, í þágu félaga sinna. Þess vegna vilja og eiga þeir auðvitað að leggja fénu þar sem ávöxtunin og vextirnir eru hæstir – á Íslandi!

Vitlegra væri að stjórnvöld (ríkisstjórnin) tækju að sér að stýra þjóðarbúinu og hvíla bæði Seðlabankann og óhefta markaðinn svolítið.

Ég er að tala um að ríkisstjórnin grípi inní með raunsærri aðgerðum, í anda Keynes. Nærtækast er að setja sérstakan komuskatt á ferðamenn, til dæmis 10 þúsund krónur á hvern ferðamann (veita mætti afslátt þegar fjölskyldur koma saman). Þetta mætti útfæra með ýmsum hætti, jafnvel þannig að íslenskum ferðamönnum væri hlíft við skattinum (sem væri best).

Önnur leið væri að færa virðisaukaskatt á ferðaþjónustu upp í það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum (sem hefði átt að gerast fyrir löngu). Svo mætti fara bil beggja eða finna enn önnur úrræði af sama toga.

Þetta góða úrræði gæti líkað fjármagnað samgönguáætlun sem er munaðarlaus um þessar mundir…

 

Feilskot Seðlabankans og óhefta markaðarins

Ferðaþjónustuaðilar myndu að sjálfsögðu reka upp ramakvein og fella tár við grátmúr útvegsmanna þegar þetta kæmi á dagskrá.

En þetta er það sem þarf og ætti að virka til að draga úr þenslunni. Hægja á vextinum. Og þetta er leið sem gerir það án þess að setja aðrar útflutningsgreinar í úlfakreppu.

Þá mætti líka í framhaldinu lækka vexti umtalsvert, sem hjálpar atvinnulífi og heimilum og gerir umhverfið á Íslandi heilbrigðara, eins og talsmenn atvinnurekenda hafa nýlega bent á.

Það er ekki oft sem ég er sammála talsmönnum atvinnurekenda. En mér hugnast vel nýupptekin barátta þeirra fyrir lækkun vaxta. Hvers vegna skyldu launþegafélögin ekki hafa sömu afstöðu í því máli? Þau taka auðveldlega upp launastefnu atvinnuekenda þegar SALEK er á dagskrá…

Eru þau meira að hugsa um ávöxtun lífeyrissjóða en um hag heimilanna?

En boltinn er hjá stjórnvöldum. Þau ættu að fara að beita alvöru hagstjórn sem tekur á þeim vanda sem við er að eiga.

Nóg er komið af feilskotum Seðlabankans og óhefta markaðarins.

 

Síðasti pistill: Ný bók um hrunið:  Stjórnmálamenn stóðu sig vel

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.3.2017 - 14:52 - FB ummæli ()

Ný bók um hrunið: Stjórnmálamenn stóðu sig vel

Í síðustu viku var kynnt ný bók um endurreisn fjármálakerfisins og eftirstöðvar hrunsins, eftir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson.

Bókin heitir The Icelandic Financial Crisis: A Study into the World’s Smallest Currency Area and its Recovery from Total Banking Collapse. Hún er gefin út af Palgrave Macmillan forlaginu. Höfundar eru báðir fræðimenn við Háskóla Íslands og störfuðu í fjármálakerfinu fyrir hrun.

Bókin er ólík fyrri bókum um hrunið sem flestar lýsa aðdraganda hrunsins og orsökum, til dæmis bækur Guðrúnar Johnsen (2014) og Robert Aliber og Gylfa Zoega (2011). Hún segir sögu þeirra viðbragða og aðgerða sem gripið var til eftir hið fordæmalausa gjaldþrot þriggja stærstu bankanna haustið 2008 – og lýsir þeim árangri sem náðist við endurreisnina.

Þetta nýja sjónarhorn er mikilvægt til að draga lærdóm af því hvernig bregðast má við djúpri fjármálakreppu og því er mikill fengur í þessari nýju bók.

Bókin er lipurlega skrifuð og aðgengileg, raunar fljótlesin fyrir þá sem hafa fylgst með þróuninni undanfarin ár. Hún segir sögu viðbragðanna all ítarlega, birtir margvísleg gagnleg talnagögn og endar með nýjum athyglisverðum útreikningum á nettó kostnaði ríkisins af hruni bankanna.

Þetta er saga sem þarf að segja á ítarlegan hátt, ekki síður en saga aðdraganda hrunsins. Þetta ævintýri “íslensku alþjóðlegu fjármálamiðstöðvarinnar”, sem oft hefur verið kallað “tilraun nýfrjálshyggjunnar á Íslandi”, var einstakt og afdrifaríkt um margt.

Nauðsynlegt er að draga réttan lærdóm af þessari tilraun svo forðast megi slíkar hamfarir í framtíðinni. Einnig er mikilvægt að gera grein fyrir þeirri um margt óvenjulegu leið sem Ísland fór við endurreisn fjármálakerfisins. Þessi bók hjálpar til við það.

Aðdragandi hrunsins var um flest klassísk en óvenju stór fjármálabóla, sem blés út með ósjálfbærri skuldasöfnun og tengdist öðru fremur óhóflegri spákaupmennsku og braski. Helstu gerendurnir græddu gríðarlega á ævintýrinu en almenningur þurfti að bera þungar byrðar í kreppunni sem í kjölfarið fylgdi (sjá nánar hér).

Bókin er ekki tæmandi um eftirmála hrunsins, því enn á eftir að gera fulla grein fyrir því hvernig ævintýrið lék heimilin: lífskjör og velferðarþjónustu, vinnumarkað, skólakerfið og aðra innviði, skulda- og skattamál og útdeilingu byrðanna sem af hlutust milli ólíkra þjóðfélagshópa

 

Stjórnmálamönnum hælt fyrir góð verk

Það sem mér finnst hvað athyglisverðast við þessa bók þeirra Ásgeirs og Hersis er sá þráður sem gengur meira og minna í gegnum bókina.

Það er niðurstaðan um að flestar þær aðgerðir sem gripið var til af stjórnvöldum þriggja ríkisstjórna skiluðu góðum árangri, frá setningu neyðarlaganna til samningsins um stöðuleikaframlögin.

Þetta er merkilegra fyrir þær sakir að Ísland fór að umtalsverðu leyti ótroðnar slóðir í úrræðum.

Sumt var óhjákvæmilegt, svo sem að bankarnir færu í gjaldþrot, enda ekki viðbjargandi eftir alltof öran og glannalegan vöxt í umhverfi takmarkandi gjaldmiðils í örríki. Bankakerfið var í reynd án lánveitanda til þrautavara að minnsta kosti frá árinu 2006, ef ekki þegar frá árinu 2005.

Annað var heppni (til dæmis góðar göngur makríls inn í íslenska lögsögu, eldgos er örvaði ferðaþjónustuna, sigur í Icesave-málinu fyrir EFTA dómstólnum o.fl.).

Neyðarlögin, gjaldeyrishöftin, fyrirkomulag bankaendurreisnarinnar, lagfæring ríkisfjármálanna, Icesave kosningarnar og samningurinn um stöðugleikaframlögin fela hins vegar í sér margt sem var frumlegt og jafnvel séríslenskt.

Með neyðarlögunum nýtti Ísland sér fullveldisrétt sinn í meiri mæli en hægt hefði verið fyrir einstök Evru-lönd, eins og dæmin sanna hvað best í Grikklandi. Uppskipting föllnu bankanna í innlenda og erlenda hluta var óvenjuleg, en rökrétt og gekk vel.

Gjaldeyrishöftin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til voru afdrifarík og í raun einstaklega vel heppnað úrræði.

Bókin er satt að segja meiri málsvörn fyrir gjaldeyrishöftin en áður hefur sést hér á landi, a.m.k. síðan ég skrifaði einmanalegar bloggfærslur í þá veru (sjá t.d. hér).

Raunar segja höfundarnir að sennilega verði gjaldeyrishöftin “hetja” þessarar sögu í kennslubókum framtíðarinnar. Höftin færðu stjórnvöldum tæki til að ná utanum fordæmalausar og erfiðar aðstæður og sköpuðu svo að auki forsendur fyrir sterkri samningsstöðu stjórnvalda gagnvart fjármálaöflunum, einkum erlendum kröfuhöfum.

Hagfræðingum er gjarnt að ofmeta kosti óheftra markaða og hafna ríkisafskiptum hvers konar. Þess vegna virðast þeir Ásgeir og Hersir vera með óbragð í munni er þeir hæla gjaldeyrishöftunum og öðrum ríkisafskiptum á tímabilinu, sem þó skiluðu góðum árangri.

Þeir líkja upptöku gjaldeyrishaftanna við samning Faust við myrkrahöfðingjann, í kafla 7!

Í líkingunni á það líklega að vera sál hagfræðinnar (trúin á óhefta markaði) sem seld er ríkisvaldinu (myrkrahöfðingjanum), til að ná veraldlegum árangri. Til að friða samvisku hagfræðinganna bæta höfundarnir við að gjaldeyrishöftunum fylgi líklega ókostir, einkum til langframa.

Þeir sýna hins vegar engin afgerandi sönnunargögn um þá meintu ókosti, frekar en aðrir hagfræðingar hafa gert. Þylja bara léttvægar þulur um að erlent fjárfestingarfé hafi síður komist til landsins (en engin þörf var þó fyrir það) og að innlendir efnamenn og fyrirtæki hafi ekki getað flutt fé úr landi (sem varla hefði skilað sér í hagvexti og sköpun starfa innanlands).

Því fer fjarri að höfundarnir sýni að hugsanlegir ókostir gjaldeyrishaftanna geti verið meiri en kostirnir sem fyrir liggja.

Stöðugleikasamkomulagið, sem gert var í skjóli gjaldeyrishaftanna, skilaði svo ríkinu umtalsverðum fjárhæðum upp í þann beina kostnað sem ríkið hafði af hruninu. Samkvæmt útreikningum í lokakafla bókarinnar gera þau útslagið um að ríkið gæti náð inn að fullu fyrir útlögðum beinum kostnaði sínum vegna hrunsins.

Þá vantar að vísu inn í dæmið framleiðslutap kreppuáranna og þungar byrðar heimilanna vegna hrunsins og kreppunnar sem fylgdi. Hrunið var fjarri því að vera ókeypis fyrir þjóðina, þó einhverjir hafi grætt á því.

 

Annmarkar

Ég hef einkum fjallað um ágæta kosti bókar þeirra Ásgeirs og Hersis. Hún er þó ekki gallalaus frekar en flestar aðrar bækur.

Helstu annmarkana fann ég í fyrsta kafla. Á bls. 18 og 19 eru nokkrar yfirborðslegar yfirlýsingar um aðdraganda og orsakir hrunsins sem kalla á fleiri og ítarlegri skýringar. Það er að vísu utan erindis bókarinnar, sem einkum beinist að eftirmálum bankahrunsins.

Meðal fullyrðinganna þar er til dæmis sagt að ekki sé ástæða til að ætla að íslensku bankarnir hafi verið verr staddir en erlendir bankar. Raunar kemur svo á blaðsíðu 32 í sama kafla vísun í umsögn erlends sérfræðings frá Merril Lynch bankanum frá 2008, sem kollvarpar þessu sem fullyrt er á bls. 18.

Erlendi bankamaðurinn segir að “of ör vöxtur, óreyndir og djarfir stjórnendur, mikil notkun ytri fjármögnunar, há skuldsetningarhlutföll og leynd yfir krosseignatengslum” hafi sýnt meiri áhættu í íslensku bönkunum en almennt tíðkaðist í erlendum bönkum. Fleiru mætti bæta við þennan lista.

Reinhart og Rogoff (2010) segjast t.d. aldrei fyrr hafa séð jafn öra skuldasöfnun eins og hjá Íslendingum og Írum, og var hraðinn heldur meiri á Íslandi. Þessi atriði eru líka í samræmi við niðurstöður Guðrúnar Johnsen um orsakir falls bankanna, sem og niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis og verka Gylfa Zoega og fleiri sem um það hafa ítarlega fjallað (sjá nánar um þetta hér).

Það dugir því ekki að skrifa bankahrunið eingöngu á reikning ókosta íslensku krónunnar, stærðar bankakerfisins og getu- og viljaleysis til að bjarga bönkunum eftir að þeir voru komnir í þrot. Þó skipta krónan og stærð bankakerfisins auðvitað máli, ásamt öðrum þeim oraskaþáttum sem að framan eru nefndir.

Þá eru full mikil lausatök á heimildaskránni. Þar vantar til dæmis inn tvö rita John Maynard Keynes um fjármálakreppur og ríkisafskipti sem fjallað er um í texta, en einnig vantar þar rit eftir Milton Friedman sem við sögu kemur. Þá er Keynes kallaður “George” Maynard Keynes í atriðaskrá!

Ég sé þó ekki ástæðu til að ætla að þessi meðferð á Keynes í heimildaskrá og atriðaskrá endurspegli neina fordóma höfunda í garð Keynes og fræða hans, enda gera höfundar árangri ríkisafskiptanna sem við sögu komu góð og sanngjörn skil í bók sinni.

Bókin er að mörgu leyti lofgjörð til fjármálahagfræða sem eru í anda Keynes.

John Maynard Keynes var, eins og menn muna, helsti hugmyndasmiður blandaða hagkerfisins, þar sem farsælli blöndu markaðsbúskapar og fínstillandi ríkisafskipta, eftirlits og aðhalds var beitt með afar góðum árangri.

Slík skipan var ríkjandi í vestrænum löndum frá lokum seinni heimsstyrjaldar til áttunda áratugarins. Þá færðist skipanin meira í átt nýfrjálshyggju með aukinni áherslu á óheftari markaðshætti.

Aðdragandi hrunsins á Íslandi sýnir einmitt vel hvers ber að varast við óhefta skipan fjármálageirans. Þegar einkageirinn og hinir óheftu fjármálamarkaðir voru búnir að leyfa íslenska fjármálakerfinu að reka sig í þrot var ríkið eitt til bjargar.

Mikilvæg lexía af þessari ágætu bók Ásgeirs og Hersis er sú, að við eigum að setja meiri fyrirvara við hugmyndina um algerlega óhefta markaði og átta okkur betur á gildi lýðræðislegs ríkisvalds í heildarmyndinni, sem þarf að vera heilbrigð blanda ríkis og markaða, eins og svo vel gafst á Vesturlöndum á árunum frá um 1950 til 1980.

Stjórnmálamenn eiga líka að njóta sanngirni fyrir það sem vel er gert á þeirra vettvangi. Mikið hefur vantað uppá það til þessa. Þessi bók hjálpar til við að rétta þann halla.

 

Síðasti pistill:  Háleitar hugsjónir um áfengi

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 24.2.2017 - 12:01 - FB ummæli ()

Háleitar hugsjónir um áfengi

Maður er djúpt snortinn yfir því hversu mikið er af hugsjónafólki á Alþingi um þessar mundir.

Sérstaklega þegar kemur að álitamálum um sölu áfengis.

Við búum við skipan sölumála áfengis sem sérfræðingar í lýðheilsu eru almennt sammála um að sé farsæll millivegur, er sameinar gott aðgengi að slíkri vöru og hóflegt viðnám gegn misnotkun þess.

Um þrír af hverjum fjórum kjósendum í landinu eru andvígir því að selja sterkt áfengi í matvörubúðum.

ÁTVR verslanirnar og starfsfólk þar fær hæstu einkunnir í ánægjuvog viðskiptalífsins – ár eftir ár. Einkafyrirtækin standa sig almennt verr.

Við búum sem sagt við fyrirkomulag sem gengur vel og mikil ánægja er með.

Hugsjónafólkið á Alþingi vill hins vegar hafa vit fyrir þjóðinni og troða áfenginu inn í flestar matvörubúðir um land allt – þrátt fyrir andstöðu kjósenda.

Þetta er heldur ólýðræðisleg forsjárhyggja, sem þarna á að framkvæma í nafni “viðskiptafrelsis”.

Hugsjónafólkið vil meiri samkeppni um sölu áfengis og frelsi til að hvetja almenning áfram í drykkjunni – með auglýsingum.

Aðrar tegundir af frelsi skipta engu máli fyrir hið prúða hugsjónafólk – svo sem frelsi frá áfengisvandamálinu, eða jákvæð markmið í lýðheilsumálum þjóðarinnar.

Það mætti ætla að við búum í samfélagi þar sem búið sé að leysa öll vandamál almennings.

Því þurfi að breyta skipan áfengissölumála til að búa til ný vandamál fyrir samfélagið að takast á við.

 

Yrði breytingin til bóta?

Ég hef sjálfur búið í löndum þar sem áfengi er selt í matvöruverslunum og get alveg lifað við það. Ég sé hins vegar ekki yfirburði þeirrar skipanar.

Þar er t.d. ekki betra aðgengi að fjölbreyttu framboði áfengra drykkja en hér tíðkast nú.

Úrval áfengisdrykkja er yfirleitt lítið í matvöruverslunum í þessum löndum og af því að þær eru svo margar verður þrengri markaður fyrir sérverslanir með gott úrval gæðavína og öls.

Sérverslanir með gott úrval áfengis eru því oft færri og vegalengdir milli þeirra lengri. Þannig verður það líka hér eftir að Bónus og Hagkaup og kaupmaðurinn á horninu fara að selja áfengi.

Meira verður þá fyrir því haft að fá góðu eða sérstöku tegundirnar. Aðgengi að glundri og bónusvínum eykst hins vegar mikið.

Ef niðurstaðan á hinu háa Alþingi verður samt sú, að fara inn á þessa nýju braut aukinna vandamála, þá finnst mér lágmark að þeir sem fá gróðann af sölu áfengis í sinn vasa taki líka á sig hinn aukna kostnað samfélagsins af því tjóni sem áfengið veldur.

Annars gæti þurft að hækka skatta á saklausan almenning, til að greiða fyrir auknar byrðar af áfengisvandanum í heilbrigðiskerfinu og löggæslunni.

Best væri þó að hugsjónafólkið á Alþingi fyndi sér verðugri viðfangsefni í framfaraleitinni – til dæmis á sviði húsnæðismála ungs fólks. Þar bíða stór og brýn verkefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 19.2.2017 - 12:05 - FB ummæli ()

Stjórnvöld stóðu í lappirnar

Því má fagna að stjórnvöld stóðu í lappirnar í kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna.

Útvegsmenn og helstu þingmenn þeirra á Alþingi kröfðust þess að hluti af launakostnaði sjómanna yrði færður yfir á herðar almennra skattgreiðenda.

Sú hugmynd er vægast sagt ævintýraleg í ljósi gríðarlegs hagnaðar útvegsmanna á síðustu 5 árum og mikillar eignamyndunar í fyrirtækjum þeirra. En þeir sem mest fá kunnar sér ekki hóf, eins og oft vill vera. Græðginni halda engin bönd.

Vegna fyrirstöðu stjórnvalda varð niðurstaðan hins vegar sú, að útvegsmenn greiða að fullu fæðiskostnað sjómanna á veiðum, auk þess að greiða einnig kostnað við hlífðarfatnað. Nokkrar kjarabætur eru einnig í öðrum þáttum samningsins.

Mér finnst það raunar vitnisburður um slælega frammistöðu sjómannaforystunnar á fyrri árum að hafa ekki fyrir löngu komið kostnaði af fæði og hlífðarfatnaði að fullu yfir á útvegsmenn.

Niðurstaða kjarasamninganna er í senn eðlileg og sjómönnum hagstæð.

Að niðurgreiða launakostnað einkafyrirtækja með skattfríðindum er leið sem á að heyra fortíð til.

Þessi deila var nokkurs konar prófsteinn á staðfestu ráðherra Viðreisna gagnvart yfirgangi og forréttindum útvegsmanna.

Vonandi boðar þessi frammistaða Viðreisnar áframhaldandi starf að heilbrigðari virkni kvótakerfisins og hækkun veiðigjalda, svo þjóðin geti sætt sig við kerfið.

 

Síðasta grein:  Gammar ásælast eignir okkar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 11.2.2017 - 12:49 - FB ummæli ()

Gammar ásælast eignir okkar

Viðskiptaráð var með ársfund sinn í vikunni. Þar steig á stokk forstjóri Gamma Capital fyrirtækisins og lagði til að ríkið seldi orkugeirann til einkafjárfesta (sjá hér). Nefndi hann ýmis léttvæg og bjánaleg rök fyrir því.

Auðmenn á Íslandi hafa lengi ásælst Landsvirkjun og orkuveitur landsmanna.

Þeir gætu nefnilega grætt ógeðslega mikið á þeim. Enda eru þetta oft einokunarfyrirtæki sem hafa viðskiptavini sína í bandi. Heimilin eiga almennt ekkert val um kaup sín á rafmagni og heitu vatni.

Annað er það að verðlag á neysluvörum á Íslandi er yfirleitt með því hæsta sem þekkist í Evrópu – ef ekki í heiminum. Það bendir til óvenju lakrar frammistöðu einkageirans á Íslandi.

Undantekningar frá því eru þó verð á rafmagni og heitu vatni. Það er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Fyrirkomulag þeirra mála hér á landi er því gott eins og nú er.

Ef orkufyrirtækin færu í hendur einkaaðila og væru rekin í anda sjálfgræðisstefnunnar þá myndu þau auðvitað stórhækka notendagjöldin til almennings við fyrsta tækifæri.

Gróðafærin þarna væru því gríðarleg – en allt væri þetta þvert gegn hagsmunum heimilanna sem kaupa rafmagn og heitt vatn.

Einka(vina)væðing orkufyrirtækja landsmanna væri því fráleit leið fyrir alla – nema fyrir fámennan hóp auðmanna.

 

Hagsmunabarátta auðmanna gengur gegn almannahag

Viðskiptaráð og Samtök atvinnurekenda (SA) hafa lengi ásælst allt það sem verðmætt er á Íslandi og vilja koma því sem mest í hendur einkaaðila (auðmanna).

Þessir aðilar birta linnulaust skýrslur og fabúlur um þessa drauma sína og færa fyrir þeim alls konar rök úr smiðju vúdú-hagfræðanna, til að blekkja fólk á sitt band.

Nýjasta framlagið í þessari hagsmunabaráttu auðmanna er sú tillaga Viðskiptaráðs að ríkið selji slíkum aðilum allt það húsnæði sem það notar undir starfsemi sína – þar með talið stjórnarráðið, skóla og lögreglustöðvar (sjá hér).

Ríkið gerist í staðinn leiguliði auðmanna og greiði miklu hærri notendagjöld fyrir húsnæði en nú tíðkast.

Það væri veisla fyrir fjárfestana en gríðarlegt tap fyrir almenna skattgreiðendur!

En almenningur sér í gegnum svona gróðabrall og tilburði ránfugla.

Fyrir nokkrum misserum var mikið talað um ógn frá erlendum “hrægömmum” og vildu menn almennt varast slíka ásælni í eignir hér á landi.

En innlendir gammar eru kanski mesta ógnin við hagsmuni almennings…

 

Síðasti pistill:  Útvegsmenn eiga að greiða laun sjómanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 7.2.2017 - 11:51 - FB ummæli ()

Útvegsmenn eiga að greiða laun sjómanna

Nú eru uppi vaxandi kröfur um að ríkið grípi inn í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Jafnvel er nefnt að taka megi upp sjómannaafsláttinn að nýju.

Slíkar kröfur eru beinlínis um það, að almenningur taki að sér að greiða hluta launakostnaðar útvegsmanna.

Það væri eins fáránlegt við núverandi aðstæður og nokkuð gæti orðið!

Hagur sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur batnað um nærri 350 milljarða frá hruni og til 2015 (samanlagt eigið fé og arðgreiðslur til eigenda).

Á meðan það gerðist fór þjóðin í gegnum djúpa kreppu – almenningur tapaði kaupmætti og eignum.

Pælið í því!

Arðgreiðslur til eigenda útvegsfyrirtækja námu ríflega 50 milljörðum frá 2010 til 2015.

Á sama tíma hafa veiðigjöld til ríkisins lækkað úr rúmlega 12 milljörðum á ári í um 4,8 milljarða.

Margir hafa eðlilega kallað eftir því að útgerðin greiði mun stærri hluta af auðlindarentunni til almennings (ríkissjóðs) en verið hefur. Það væri eðlilegt og því var lofað af sumum stjórnmálamönnum fyrir kosningar.

Í stað þess að við því sé orðið kemur nú upp sú krafa að almenningur taki á sig hluta af launakostnaði útgerðanna!

Því ber að fagna að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa tekið afgerandi afstöðu gegn slíkum inngripum stjórnvalda. Vonandi heldur sú afstaða alla leið.

Ef útvegsmenn skyldu færa hluta launagreiðslna sinna í form dagpeninga (sem yrðu þá skattfrjálsir), til að leysa kjaradeiluna, þá hljóta stjórnvöld að hækka veiðigjöldin sem nemur a.m.k. slíkum skattaafslætti.

Annað væri óverjandi.

Þeir sem fá dagpeninga ofaná laun, vegna starfa fjarri heimilum sínum, fá slíkar greiðslur til að mæta kostnaði við gistingu og uppihald. Slíkt er hins vegar veitt um borð í fiskiskipunum og dagpeningar eiga því varla við í tilviki sjómanna.

Útvegsmenn eiga því einir að greiða launakostnað sjómanna. Upp í topp.

Það væri með öllu óboðlegt að ýta hluta hans yfir á almenna skattgreiðendur, sem flestir hafa mun lægri laun en tíðkast í fiskveiðum.

 

 

Síðasti pistill: Óþelló – flott leiksýning Vesturports

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 5.2.2017 - 11:37 - FB ummæli ()

Óþelló – flott leiksýning Vesturports!

Ég sá Óþelló í Þjóðleikhúsinu í vikunni. Fáar sýningar hafa fengið verri dóma en þessi sýning – ekki síst frá Jóni Viðari.

Mér sýnist að gagnrýnin byggist mikið á þröngsýni.

Uppsetning Vesturports er flott, nútímaleg og snjöll og skilar efni verksins vel. Hún er án efa frábrugðin hefðbundnum uppsetningum. En efni verksins á erindi nú sem fyrr og flutningur allur er vel gerður og á köflum snilldarlegur.

Áhorfendur voru greinilega flestir mjög ánægðir með sýninguna.

Lokasenan þar sem hluti leikmyndarinnar svífur um með fórnarlömbin innanborðs var einstaklega flott og skilur eftir sig sterka mynd.

Minn leikdómur er því þessi: Frumleg uppsetning, snjöll og áhrifarík. Vel útfært og vel leikið og tvímælalaust góð kvöldstund fyrir þá sem eru til í að láta koma sér á óvart og upplifa eitthvað nýtt.

 

Síðasti pistill:  Ætti að selja Alþingishúsið og Þingvelli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 29.1.2017 - 15:04 - FB ummæli ()

Ætti að selja Alþingishúsið og Þingvelli?

Viðskiptaráð lagði til um daginn að ríkið seldi sem mest af byggingum sínum til einkaaðila (sjá hér).

Hugsunin er þá væntanlega sú, að ríkið leigi síðan húsnæðið af þeim fjárfestum sem kaupa góssið (á góðu verði, eins og tíðkast almennt við einkavæðingu).

Viðskiptaráð nefnir sem dæmi allar skrifstofubyggingar ríkisins, skólahúsnæði, byggingar Landsspítalans, lögreglustöðvar og jafnvel kirkjur.

Sem sagt flestar verðmætar fasteignir sem ríkið notar fyrir starfsemi sína.

Alþingishúsið er hluti af skrifstofuhúsnæði ríkisins. Stjórnarráðið líka. Og Bessastaðir.

Áður hafa Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins lagt til að sem flestar stofnanir ríkisins verði lagðar niður og að aðrar eignir en fasteignir verði einnig seldar fjárfestum.

Landsvirkjun, Orkuveitur, bankar, flugstöðvar, ÁTVR, vegir o.fl. sl. hafa verið nefnd í þessu sambandi.

Einnig hafa þessir aðilar lagt til skipan ferðaþjónustu sem í reynd gæti falið í sér að eignarhald á landinu verði að flestu leyti fært í hendur fámennrar stéttar eignamanna. Svokallaðir landeigendur, hver á sinni þúfu, gætu þá rukkað ferðamenn og einnig íbúa Íslands fyrir að fara um landið og t.d. taka myndir af fjöllum og fallvötnum, svo dæmi sé tekið.

Í þeim anda yrðu Þingvellir auðvitað líka seldir einhverjum sjálfgræðismönnum – innlendum eða erlendum.

Þarna er sem sagt talað fyrir róttækari einkavæðingu og eins konar ofurkapítalisma fjáraflamanna, langt umfram það sem nokkurs staðar tíðkast.

Menn átta sig sennilega ekki á því hversu róttæk sjálfgræðisöflin á Íslandi eru – hve langt fámenn yfirstétt efnamanna er reiðubúin að ganga til að sölsa undir sig öll verðmæti á Íslandi.

Þetta er kanski það sem átt er við með hugtakinu “ræningjakapítalismi” (“predatory capitalism”).

Talsmenn nýfrjálshyggju tala fyrir svona sýn á samfélagið og talsmaður útvegsmanna sagði nýlega: “þjóð getur ekki átt neitt”!

Þið skiljið hvað átt er við með slíkum boðskap:  Einungis ríkir einstaklingar mega eiga verðmæti sem máli skipta. Sameign þjóðar á ekki að tíðkast á neinu sviði.

Hvenær fara þeir svo að ásælast íbúðarhúsnæði almennings sem enn er í séreign?

 

Hverjir myndu græða – skattgreiðendur eða auðmenn?

Svona tillögur eru gjarnan settar fram með því fororði að þetta sé „hagkvæmt“ fyrir ríkið (og þar með fyrir skattgreiðendur).

Nú er svo að húsnæði ríkisins hér á landi er yfirleitt hagkvæmt, vel nýtt og þokkalega við haldið. Notkun þess kostar oftast mun minna en ef leigt væri af almennum leigumarkaði. Ég þekki mörg dæmi um slíkt.

Þetta tal um að hagkvæmt væri fyrir ríkið að gerast leiguliði auðmanna í stað þess að eiga húsnæði sem opinber starfsemi notar er því yfirleitt eingöngu til blekkingar.

Það sem vakir fyrir sérhagsmunasamtökum, eins og Viðskiptaráði og Samtökum atvinnurekenda, er að vinna að aukinni fésæld fámennrar yfirstéttar fjárfesta („sjálfgræðismanna“) – jafnvel þó það sé á kostnað skattgreiðenda.

Ef allt húsnæði ríkisins væri komið í hendur auðmanna þyrfti hver bygging sem ríkið á nú að hafa á framfæri sínu fjárfesti sem krefst vænlegs arðs af byggingunni á hverju ári, jafnvel á hverjum ársfjórðungi.

Það væri verulega aukinn húsnæðiskostnaður.

Einkaaðilar sem keyptu opinberar byggingar gætu auk þess hækkað afnotagjöld (leigu) af slíkum byggingum upp í markaðsverð, sem væri mun hærra en nú er í flestum tilvikum. Í því væru fólgin mikil fjáraflatækifæri fyrir fjárfestana.

Þess vegna hafa fjáraflamenn einkageirans áhuga á að komast yfir sem flestar eignir þjóðarinnar, hvort sem um er að ræða fasteignir ríkisins, náttúruauðlindir eða innviði.

Þeir geta grætt ógeðslega mikið á því!

Þeim þætti heldur ekki verra að hafa hreðjatak leigusala á allri ríkisstarfseminni, sem þeir líta á sem keppinaut einkageirans – keppinaut sem þeir vilja yfirleitt feigan, en væru til í að blóðmjólka.

Svo má í þessu sambandi rifja upp reynslu Reykjanesbæjar af því að hafa farið að hluta inn á þessa braut á árum „sterakapítalismans“ (frá 2003 til 2008). Sjálfstæðismenn í bæjarstjórninni seldu frá bænum fjölmargar fasteignir og stóran hluta úr Orkuveitu Suðurnesja.

Það fór illa. Bæjarfélagið varð nánast gjaldþrota og ber nú miklar byrðar vegna þessa langt inn í framtíðina. Svipað gerðist í Hafnarfirði, þó í minni mæli væri.

Dettur nokkrum í hug að fjáraflamenn einkageirans séu að leggja svona villtar tillögur til af sérstakri umhyggju fyrir ríkisrekstri og sameignum þjóðarinnar – eða fyrir hagsmunum almennra skattgreiðenda?

Nei, það er græðgin ein sem ræður för í þessu.

 

Síðasti pistill:  Skuldir heimila – þróun og staða

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 23.1.2017 - 15:32 - FB ummæli ()

Skuldir heimila – þróun og staða

Skuldabyrði heimilanna varð eitt stærsta málið í stjórnmálunum eftir hrun.

Gríðarleg gengisfelling, með tilheyrandi verðbólgu, stórjók eftirstöðvar verðtryggðra skulda og um 20% skerðing kaupmáttar heimilistekna gerði skuldabyrðina afar erfiða fyrir meirihluta heimila – einkum í lægri og milli tekjuhópum.

Ýmis úrræði vinstri stjórnarinnar beindust sérstaklega að þeim sem verst voru staddir og Skuldaleiðréttingin svokallaða varð eitt helsta stefnumál ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem tók við sumarið 2013.

Vinstri stjórnin hafði einnig stórhækkað vaxtabætur til að létta heimilum skuldabyrðina. Vaxtabætur nýttust eignaminni og tekjulægri heimilum sérstaklega og tóku einnig tillit til fjölda barna á heimilinu.

Skuldaleiðréttingin átti að breikka stuðning til heimila ofar í tekjustiganum, en þó með þaki svo hún færi ekki með fullum þunga upp allan tekjustigann (eða þannig var um það rætt fyrirfram).

Það er fróðlegt að skoða nú nokkrum árum síðar hvernig framvindan í skuldum heimilanna hefur verið.

skuldir-samanburdur

Mynd 1 sýnir skuldir heimila sem hlutfall ráðstöfunartekna þeirra frá 1989 til annars ársfjórðungs 2016, fyrir Ísland og hinar norrænu þjóðirnar, auk Hollands (heimild: Seðlabanki Íslands).

Skuldirnar náðu hámarki hér á landi árið 2010, eftir að verðbólguskotið gekk yfir, en hafa lækkað ört á hverju árið síðan, raunar meira en hjá nokkurri þessara þjóða sem hér eru sýndar.

Hækkun ráðstöfunartekna á einnig drjúgan þátt í lækkandi skuldahlutfalli hér á landi. (Raunar lækkuðu skuldir Íra með næstum jafn miklum hraða og hjá Íslendingum – sjá hér).

Dönsk heimili voru og eru mun skuldugri en íslensk heimili og það sama á við um hollensk heimili. Ísland hefur svo lækkað niður fyrir bæði norsk og sænsk heimili á síðustu árum. Einungis finnsk heimili skulda minna en þau íslensku í lok árs 2015 og byrjun 2016.

Þetta er góður árangur úr erfiðri stöðu Íslendinga á fyrstu tveimur árum kreppunnar.

Ekki er afgerandi munur á umfangi lækkunar skulda heimilanna í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar og þeirrar sem á eftir kom. Sú seinni hafði þó lengri tíma til að lækka skuldirnar því sú fyrri þurfti að taka á sig verðbólguskot hrunsins, með hækkun skulda og lækkun kaupmáttar er varði til um 2010 – auk þess að búa við mun erfiðari fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Í byrjun árs 2016 er Ísland komið í svipaða stöðu og hafi verið um 1989. Með áframhaldandi lækkun skulda heimilanna er Ísland komið í góða stöðu, raunar betri en í flestum grannríkjanna.

Þetta má telja góðan árangur og í lagi að hæla báðum ríkisstjórnum fyrir sinn þátt í því. Dómstólar eiga líka stóran þátt í lækkun gengistryggðra lána og svo hafa einhverjir greitt sjálfir niður skuldir sínar.

 

Skuldabyrði ólíkra tekjuhópa

En hvernig snerti þessi skuldaþróun ólíka tekjuhópa heimila?

Það má sjá á mynd 2, er sýnir hlutfall framteljenda sem skulda meira en 300% af ráðstöfunartekjum (þ.e. búa við mjög erfiða skuldabyrði), eftir fjórum jafn stórum tekjuhópum (hver hópur er 20% framteljenda, raðað frá lægri millitekjum, til millitekna, hærri millitekna og hátekjuhópsins).

Lægsta tekjuhópi (lægstu 20% framteljenda) er sleppt, vegna þess að þar eru margir námsmenn (16-25 ára) sem búa hjá foreldrum, eru tekjulitlir og eiga sjaldan íbúðir og íbúðaskuldir.

Myndin sýnir vel misjafna skuldabyrði tekjuhópanna.

skuldabyrdi-tekjuhopa

Mynd 2: Þyngd skuldabyrðarinnar í fjórum tekjuhópum fólks sem var með íbúðaskuldir, frá 1997 til 2015 (heimild: Seðlabanki Íslands). Hlutfall framteljenda sem eru með skuldir um eða yfir 300% af ráðstöfunartekjum sínum.

Þessi mynd segir eftirfarandi sögu:

  • Mjög þung skuldabyrði var lang algengust í lægri tekjuhópunum.
  • Erfið skuldabyrðin í hátekjuhópnum var rétt um helmingur af byrðinni í lægsta tekjuhópnum þegar mest var (árið 2010)
  • Árið 2015 var erfið skuldabyrði (meira en 300% ráðstöfunartekna) í hátekjuhópnum einungis um þriðjungur af því sem var í lágtekjuhópnum (lægri millitekjuhópnum).
  • Bilið milli lægri og hærri hópanna hefur þannig aukist á síðustu árum

Erfið skuldabyrði var sem sagt langmest í lægri og milli tekjuhópum íbúðaeigenda, en viðráðanlegri í hátekjuhópnum (þ.e. þegar skuldir eru miðaðar við ráðstöfunartekjur viðkomandi).

 

Lækkun skulda mest í hærri tekjuhópum

Síðasta myndin sýnir lækkun skuldabyrðarinnar í þessum ólíku tekjuhópum, bæði fyrir þá sem voru með íbúðaskuldir og alla framteljendur, frá toppnum 2010 til 2015.

laekkun-skulda-eftir-tekjuhopum

Mynd 3: Heildarlækkum erfiðrar skuldabyrði (300% af ráðstöfunartekjum eða meira) frá 2010 til 2015, eftir ólíkum tekjuhópum (heimild: Seðlabanki Íslands).

Hér má sjá að heildarlækkun skulda var áberandi mest í hæstu tekjuhópunum (í prósentustigum talið).

Í lægsta tekjuhópnum fækkaði framteljendum (með íbúðaskuldir) sem voru með erfiða skuldabyrði um 12 prósentustig á meðan fækkunin var 18-19 stig í hæstu tekjuhópunum, þegar miðað er við þá sem voru með íbúðaskuldir.

Þegar miðað er við alla fækkaði þeim sem voru með erfiða skuldastöðu (300% af ráðstöfunartekjum eða meira) um 4 prósentustig en í hæsta tekjuhópnum var það meira en þrefalt (14 prósentustig).

Það hefur því gengið mun betur hjá hæstu tekjuhópunum en þeim sem eru í miðju eða með lægri miðtekjur.

Þetta er í takti við það sem kom fram í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins um niðurstöðu Skuldaleiðréttingarinnar (sjá hér).

Þungi stuðningsins þar fór til þeirra tekjuhærri sem betur voru staddir en milli og lægri miðtekjuhóparnir fengu minni stuðning en efni stóðu til.

Þetta er því dæmi um aðgerð sem stuðlaði frekar að auknum ójöfnuði en jöfnun kjara. Varla er hægt að hrósa fyrir þessa framkvæmd.

Raunar á við um báðar ríkisstjórnirnar sem sátu fyrst eftir hrun að varla var nógu mikið gert fyrir þá verst settu. Veruleg hækkun vaxtabóta hjá vinstri stjórninni, sem fram kom 2009 til 2011, létti þó byrðar þeirra verr settu svo um munaði.

Frá 2013 lækkuðu vaxtabætur hins vegar umtalsvert og enn frekar þegar skuldaleiðréttingarinnar tók að gæta (því viðmið vaxtabótanna voru ekki hækkuð nógu mikið).

Margir þeirra sem fengu einhverja skuldaleiðréttingu frá 2014 sátu svo uppi með mun lægri vaxtabætur en áður, sem dró úr gildi Leiðréttingarinnar. Vaxtabætur eru nú minni en nokkrum sinnum fyrr (sjá tölur Ríkisskattstjóra  hér).

Þessa framkvæmd alla hefði verið hægt að útfæra með mun skilvirkari hætti til að létta þeim heimilum byrðarnar sem mest þurftu á að halda.

Þess vegna leyfði ég mér að fullyrða í síðasta pistli að framkvæmd þessarar skuldaleiðréttingar, sem ég þó studdi upphaflega, hafi verið “skelfileg”.

Tilefnið til skuldalækkunar hjá heimilum var ærið, en framkvæmdin hefði átt að vera með öðrum hætti.

 

Síðasti pistill:  Leiðréttingin – skelfileg framkvæmd!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 19.1.2017 - 14:00 - FB ummæli ()

Leiðréttingin: Skelfileg framkvæmd!

Í gær var Alþingi birt skýrsla um framkvæmd skuldaleiðréttingar síðustu ríkisstjórnar (sjá hér).

Þar má sjá hvernig þeir fjármunir sem úthlutað var (alls um 72 milljarðar) skiptust á tekjuhópa og eignahópa þjóðarinnar.

Niðurstaðan er vægast sagt skuggaleg og kemur mér verulega á óvart!

Ríkasta tíu prósent heimila fékk nærri 30% fjárins í sinn hlut.

Ríkari helmingur heimilanna fékk um 86% af leiðréttingunni í sinn hlut, en sá helmingur sem lægri tekjurnar hafði fékk einungis 14%.

Þeir sem höfðu hæstar tekjur og áttu mestar eignir fyrir fengu mest.

Svipurinn á þessari framkvæmd á meira sameiginlegt með bónusgreiðslum til bankamanna á Wall Street en nokkru sem tengist norrænum velferðarríkjum!

 

Leiðréttingin jók ójöfnuð

Ég studdi hugmyndina um skuldaleiðréttingu frá byrjun og hef hrósað fyrri ríkisstjórn fyrir að framkvæma hana hratt og örugglega.

Ég setti að vísu fyrirvara um útfærslur og framkvæmd hennar og lagði áherslu á að þungi leiðréttingarinnar ætti að fara til þeirra sem minna áttu og verr stóðu, en mætti ná vel upp eftir milli tekjuhópum.

Aldrei hvarflaði þó að mér að útkoman yrði sú sem nú liggur fyrir.

Að þetta yrði að mestu leyti eins konar bónusgreiðsla til þeirra efnamestu, einmitt sama hóps og græddi mest á braski og eignaverðshækkunum bólutímans.

Þetta hefði ég aldrei stutt.

Útfærslan var unnin í fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, undir stjórn Tryggva Þórs Herbertssonar, fyrrverandi forstjóra Askar Capital.

Það má segja að þessi framkvæmd sé í anda þeirrar stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn gekkst fyrir á tímabilinu frá um 1995 til hruns, þ.e. að hygla sérstaklega þeim efnamestu.

Þetta var ekki velferðaraðgerð í þágu venjulegra heimila og síst af öllu í þágu ungra fjölskyldna sem keyptu húsnæði eftir 2003 og fóru hvað verst út úr hruninu.

Ég leyfi mér að efast um að ráðherrar Framsóknar hafi haft mikið með útfærslu framkvæmdarinnar að gera – en gott væri að fá það staðfest hjá þeim.

Þetta er ekki minnisvarði sem Framsóknarfólk getur verið stolt af.

 

Síðasti pistill:  Skattaskjól – skömm Íslands staðfest

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 6.1.2017 - 21:39 - FB ummæli ()

Skattaskjól – skömm Íslands staðfest

Nefnd fjármálaráðherra sem falið var að leggja mat á umfang eigna Íslendinga í erlendum skattaskjólum skilaði skýrslu sinni til ráðherra fyrir kosningar og var hún birt loks í dag (sjá hér).

Niðurstaðan er að uppsafnaðar eignir Íslendinga í skattaskjólum sé á bilinu 350-810 milljarðar króna, með tæplega 600 milljarða sem líklegustu niðurstöðu. Sex hundruð þúsund milljónir króna. Það er hátt í 30% af vergri landsframleiðslu.

Nefndin setur þó þann fyrirvara að upphæðin sé vanmetin vegna líklegra umsvifa íslenskra hlutafélaga sem eru með alþjóðlega starfsemi og starfsmannaleiga sem ekki fengust upplýsingar um.

Norkun skattaskjóla gengur öðru fremur út á að auðmenn (eigendur fyrirtækja, fjárfestar og stjórnendur) nýta sér leyndar leiðir til að koma fé undan skattgreiðslum og ábyrgðum.

Þær opinberu vísbendingar sem hægt er að fá hljóta því alltaf að vera vanmetnar – umfram það líklega vanmat sem nefndin vísar til.

En ef byggt er á hinu mjög svo varkára mati nefndarinnar þá er ljóst að þjóðin hefur orðið af miklum skatttekjum, sem nema allt að 6,5 milljörðum króna á ári.

Tapaðar skatttekjur ríkisins á árunum 2006 til 2014 eru samanlagt um 56 milljarðar króna, að mati nefndarinnar. Og þetta er augljóst vanmat.

Upphæðin myndi án efa duga til að fjármagna byggingu nýs Landsspítala.

 

Fjórfalt meira á Íslandi en í Danmörku

Nefndin vísar einnig til niðurstöðu danskrar rannsóknar af sama toga og bendir sá samanburður til að fé Íslendinga á skattaskjólum hafi verið um fjórfalt meiri en fé Dana, miðað við hvern íbúa.

Íslendingar voru ekki bara miklu fleiri í Panama-skjölunum en grannþjóðirnar heldur fluttu þeir einnig miklu meira fé í erlend skattaskjól – undan sköttum og ábyrgðum.

Nefndin segir: “Ekki leikur vafi á því að skráning eigna á aflands- og lágskattasvæðum til þess að forðast eðlileg skattskil og tryggja leynd er andstæð hagsmunum alls almennings og hefur í för með sér margvíslegan óbeinan skaða sem útilokað er að meta að fullu til fjár.”

Auðveldara var fyrir íslenskt efnafólk að koma fé í erlend skattaskjól en almennt var í grannríkjunum. Nýfrjálshyggja Sjálfstæðismanna ýtti beinlínis undir þetta. Lausungin varð því meiri hér.

Hvað ætla stjórnvöld að gera til að fyrirbyggja slík undanskot yfirstéttarinnar frá skattskyldu og ábyrgðum? Hvernig verður tekið fyrir slíkt siðleysi og spillingu?

Almenningur sem stendur skil á sínum gjöldum og skyldum á heimtingu á að fá svör við því.

Almennir skattborgarar greiða meira vegna þessara og annarra undanskota frá skatti.

Hvers vegna skyldu venjulegir borgarar yfir höfuð sætta sig við að greiða skatta þegar yfirstéttin fer fram með þessum hætti?

 

Síðasti pistill:  Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.12.2016 - 13:41 - FB ummæli ()

Sigur Björgólfs er ósigur Íslands

Lyfjafyrirtækið Actavis hefur sagt upp nærri 300 hundruð starfsmönnum síðan 2015 og hættir nú stórum hluta starfsemi sinnar á Íslandi (sjá hér og hér).

Actavis varð til með samruna tveggja íslenskra lyfjafyrirtækja, Pharmaco og Delta, sem nýttu sér séríslenskar aðstæður til árangursríkrar framleiðslu samheitalyfja

Þetta voru nýsköpunarfyrirtæki sem uxu upp úr íslenskum jarðvegi. Snjallir frumkvöðlar komu þeim á legg og gerðu úr þeim verðmæti. Það gagnaðist bæði íslenskum starfsmönnum og eigendum fyrirtækjanna.

Þjóðarbúið hafði af þessari starfsemi nokkrar tekjur – sem var eðlilegt því það lagði til grunninn og efniviðinn í starfsemina.

Svo kom spákaupmaðurinn Björgólfur Thór Björgólfsson inn í myndina. Hann keypti sig inn í fyrirtækið með lánsfé (fyrst í Pharmaco og síðar keypti hann aðra hluthafa út úr Actavis með risaláni frá Deutsche Bank). Fór illa í hruninu en fékk miklar skuldir afskrifaðar eftir hrun og seldi loks fyrirtækið endanlega til alþjóðlegs fyrirtækis (fyrst til Watsons og þaðan fór það til Teva).

Þeir hafa nú ákveðið að hætta allri framleiðslu lyfja Actavis á Íslandi. Brátt mun starfsemi Actavis á Íslandi heyra sögunni til.

Björgólfur Thór græðir á sölu fyrirtækisins, en Ísland tapar starfseminni úr landi. Mörg hundruð starfsmanna hafa misst álitlega vinnu og þjóðarbúið tapar tekjum af starfseminni. Þetta er sigur Björgólfs og kanski örfárra annarra minni eigenda.

Stjórnendur voru að einhverju leyti færðir yfir til Teva, að því er virðist til málamynda meðan umskiptin gengu yfir. Forstjórinn missti til dæmis starf sitt nýlega, eftir innan við tveggja ára forstjórastarf yfir samheitalyfjasviði Teva (sjá hér).

Þessi saga gengur þvert á forskrift Adams Smiths um að eigin hagsmunir atvinnurekenda fari saman við samfélagshagsmuni, eins og fyrir tilstilli “ósýnilegrar handar”.

Í stað þess að græðgi eins kapítalista geri samfélaginu gagn þá einmitt leiðir græðgi hans til mikils taps starfsmanna og samfélagsins alls – það er þegar spákaupmennskan er leiðarljósið frekar en uppbygging framleiðslu til langs tíma.

Einkahagur ræður för og skaðar almannahag.

 

Trumpari í sekknum!

Svona virkar hinn alþjóðlegi kapítalismi nú á dögum. Spákaupmenn taka yfir heilbrigða atvinnustarfsemi, braska með hana sjálfum sér til hagsbóta – og samfélagið tapar.

Fjárfestar græða en almenningur tapar störfum og tekjum. Ríkasta eina prósentið eykur tekjur og eignir sínar enn meira…

Þetta er það sem hefur skapað hina miklu óánægju millistéttarfólks í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Þetta er megin ástæðan fyrir sigri Donalds Trump í forsetakjörinu í Bandaríkjunum. Hann lofaði að sækja aftur störf sem hafa tapast með þessum hætti.

Trump mun að vísu ekki stöðva spákaupmennsku og eignabrask né flótta fyrirtækja til láglaunalanda, enda er hann sjálfur braskari af þessum toga.

Það er því viðbúið að kjósendur Trumps úr milli og lægri stéttum hafi keypt köttinn í sekknum! Val hans á valinkunnum auðmönnum í ráðherraembætti sýnir það með óyggjandi hætti.

Auðræðið í Bandaríkjunum mun væntanlega eflast enn frekar í valdatíð Trumps.

Þetta virðist vera óumflýjanleg þróun um þessar mundir – sem hlýtur þó að enda illa.

Fjármálaöflin hafa allt of mikil völd til að skara eld að eigin köku, jafnvel þó það skaði samfélagið. Þau orsökuðu fjármálakreppuna 2008 með óhóflegri græðgi og ósjálfbærri skuldasöfnun. Þau eru enn á sömu leið – þó hægar fari fyrst um sinn.

Samfélagið og fjölmiðlar þess eru svo villuráfandi að þeir eru vísir með að heiðra svona spákaupmenn sem höfunda “viðskipta ársins” fyrir svona starfsemi.

Sumir virðast sem sagt telja að slíkt brask einstakra fjáraflamanna sé samfélaginu til góðs.

Kanski við ættum að leiða hugann lítillega að þessari þróun á nýju ári – áður en of mikið tapast út landi.

Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu sem er að líða.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.12.2016 - 11:41 - FB ummæli ()

Getur Bjarni látið Viðreisn beygja sig?

Það hefur gengið eftir sem ég sagði í pistli strax eftir kosningar, að Viðreisn myndi helst af öllu vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokki.

Benedikt hlekkjaði sig snemma við Bjarta framtíð (BF) og hefur þrisvar reynt við Sjálfstæðisflokkinn með það föruneyti. Tvisvar fór hann í sýndarviðræður við vinstri-mið flokkana fjóra.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar tekið málaleitan Viðreisnar og BF treglega, vegna lítils meirihluta slíkrar stjórnar í þinginu, að sagt er.

Stefnuáherslur Viðreisnar vega þó einnig mjög að sálarlífi Sjálfstæðismanna.

Ástæðan er sú, að helstu áherslur Viðreisnar eru stefnumál Samfylkingarinnar (endurupptaka aðildarviðræðna við ESB, uppboð á fiskveiðikvótum og aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum).

Öll þessi mál skapa Sjálfstæðisflokknum vanda. Þau grafa undan fylgi hans á landsbyggðinni og styggja verulega marga áhrifamenn í flokknum.

Svo hefur heldur ekki tíðkast í Valhöllu að verðlauna klofningsmenn, en Viðreisn er auðvitað fyrst og fremst klofningur ESB-sinna út úr Sjálfstæðisflokknum.

Viðreisn þarf hins vegar að ná umtalsverðum árangri með þessi stefnumál sín í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki, því annars verður för hennar til háðungar.

Erindisleysa og svört framtíð!

Spurningin sem nú hangir yfir næstu tilraun til að mynda stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er því sú, hvort Bjarni geti látið Viðreisn beygja sig?

Getur Bjarni sætt sig við þessi stefnumál Samfylkingarinnar?

Eða getur hann sjálfur gert framboð Viðreisnar að erindisleysu, með því að beygja Benedikt og félaga?

Hinn valkosturinn er að núverandi stjórn sitji áfram sem minnihlutastjórn eða starfsstjórn til kosninga í apríl. Hægt er að starfa á þinginu næstu vikurnar með sama hætti og gert var við afgreiðslu fjárlaga. Enginn bráðavandi bíður lausnar.

Það er væntanlega góður kostur fyrir núverandi stjórnarflokka að kjósa aftur á næstu mánuðum. Þeir gætu þá hugsanlega náð meirihluta á ný.

VG og flokkarnir á vinstri-miðjunni virðast ekki ætla að blanda sér mikið í frumlegar tilraunir til stjórnarmyndunar, hvorki með Framsóknarflokki né Sjálfstæðisflokki.

Meðan svo er aukast líkur á kosningum í vor – eins og upphaflega stóð til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.12.2016 - 22:19 - FB ummæli ()

Hlutverk fyrir VG?

VG er næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Ef þau ætla ekki beinlínis að hætta í stjórnmálum þá finnst mér að VG-fólk ætti að endurskoða stöðu og markmið sín svolítið.

Það voru mistök að nálgast hina fjóra flokkana ekki meira í viðræðunum um daginn.

VG ætti sennilega að slá af þeim kröfum sem sigldu fimm flokka tilrauninni í strand. Og hinir kanski eitthvað líka. Þetta virðist hafa verið komið vel á veg.

Skilja mátti af umtali að helsta frágangssökin hafi verið mismunandi kröfur um útgjaldaaukningu til velferðarmála. VG hafi viljað fá 25-30 milljarða aukningu útgjalda en hinir boðið um 7 milljarða.

Ef þetta er rétt þá semja menn auðvitað um að mætast á bilinu 10-14 milljarðar.

Sjálfsagt er mögulegt að um 10 milljarða útgjaldaaukning geti borgað sig sjálf með veltuaukningu í hagkerfinu. Þannig hefur það verið undanfarin ár, vegna vaxtar ferðaþjónustu, hærra gengis, launahækkana og aukinnar einkaneyslu.

Í mesta lagi þarf minniháttar skattahækkun á breiðustu bökin, fullan virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna og lítillega hærri veiðileyfagjöld á sjávarútveg til að ná ofangreindum markmiðum.

Svo myndi ríkisstjórnin byggja nýjan Landsspítala fyrir fjármuni sem ríkið á til nú þegar, til dæmis óþarflega mikið eigið fé sem er í bönkunum eða með hluta af stöðugleikaframlögunum (sjá nánar um þetta hér).

Það þarf engar skattahækkanir til að byggja nýjan spítala.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna VG-fólk ætti ekki að geta sætt sig við slíkan ramma að stjórnarþátttöku, þar sem hlutverk þeirra yrði án efa veglegt. Þjóðin fengi nýjan landsspítala og ýmsar umbætur aðrar.

Eða er betra að fá “Engeyjarstjórn”, sem ráðstafar ríkisbönkunum og öðru fémætu úr stöðugleikaframlögunum til einkavina sinna – og lækkar síðan skatta á fjármagnseigendur?

 

En hvað með að styðja minnihlutastjórn hinna?

Ef VG-fólk vill ekki koma betur til móts við hina  flokkana fjóra (sem sagðir eru að mestu sammála um forsendur samstarfs), þá ætti VG að bjóðast til að styðja minnihlutastjórn þeirra.

Ef það gengur ekki ætti VG-fólk að reyna að semja um að styðja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og freista þess að fá eitthvað út úr slíkum stuðningi.

Þar gæti t.d. verið um að ræða tímasetta byggingaráfanga í nýja Landsspítalanum eða eitthvað annað samsvarandi, t.d. brýnar umbætur í lífeyrismálum öryrkja og frekari húsnæðisumbætur fyrir ungt fólk – svo nokkuð sé nefnt. Kanski þjóðgarð á hálendinu!

Þá myndi VG meðal annars geta haft mikil áhrif á hvenær næst yrði gengið til kosninga, t.d. þegar næsta hneyksli kemur upp…

Pólitík á að snúast um að hafa áhrif. Til þess þarf list hins mögulega. Útsjónarsemi í samningum.

Þannig hugsuðu menn þegar sósíalistar og kratar fóru í Nýsköpunarstjórnina með Sjálfstæðisflokki Ólafs Thors árið 1944.

Út úr því fékk þjóðin glæsilega löggjöf um almannatryggingar, verulegar umbætur í heilbrigðis- og menntamálum, auk nýsköpunarátaks í atvinnumálum. Það var mikil framfarastjórn, eins og Styrmir Gunnarsson myndi væntanlega segja.

Svo er það auðvitað valkostur fyrir VG að verða varanlegur stjórnarandstöðuflokkur sem fælist það að hafa áhrif – ja, eða bara að hætta alveg í pólitík!

Það er pláss núna fyrir nýja aðila í vistvænni hænsnarækt!  (smá grín…)

 

Síðasti pistill:  Nýja fangelsið heitir Hólmsteinn!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.12.2016 - 15:08 - FB ummæli ()

Nýja fangelsið heitir Hólmsteinn!

Gárungarnir eru búnir að skíra nýja fangelsið á Hólmsheiði.

Þeir segja að á Hverfisgötu sé „Hverfissteinninn“ og á Hólmsheiði sé „Hólmsteinninn“.

Sagt er að í nýja fangelsinu verði sérstakur frjálshyggjugangur, þar sem fjárglæframenn nýfrjálshyggjunnar verði vistaðir.

Þeir verða þá settir inn í Hólmstein – sem gæti talist viðeigandi!

Það eru því margar góðar ástæður fyrir þessari nafngift.

Sel þetta þó ekki dýrar en keypti…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is