Miðvikudagur 22.09.2010 - 18:06 - 23 ummæli

Eilífðarvélin: Salvör um samfélagsábyrgð og viðskipti

Nú birtist hér fyrsta færslan um greinarnar í Eilífðarvélinni og mun ég telja kost og löst á þeim. Reyndar fæ ég ekki í fljótu bragði séð neina  megingalla á  grein  Salvarar Nordal „Samfélagsleg ábyrgð í viðskiptalífinu“. Greinin er í einu orði sagt frábær, kannski besta grein bókarinnar.

Hún tekur hinn englumlíka doktor Friedman inn á beinið, réttara sagt skoðanir hans á samfélagslegri (ó)ábyrgð fyrirtækja. Í stuttu máli sagt segir Friedman að þau beri enga félagslega ábyrgð nema þá að hámarka gróðann.

Hann segir að ef stjórnendur fyrirtækis hámarka ekki gróðann eða ráðstafa eigum fyrirtækisins til annarra en eigenda þá steli  þeir nánast frá eigendunum eða leggji á þá skatt. Dæmi um slíka (meinta) misnotkun fjár sé þegar stjórnendur ráða miður hæft fólk í vinnu til að sporna við atvinnuleysi, auki framlög til mengunarvarna meir en fyrirtækin er skylt samkvæmt lögum o.s.frv.

Salvör tekur þessa staðhæfingu Friedmans hressilega í gegn og bendir á að hagsmunaaðilar sem tengjast fyrirtæki eru ekki bara eigendurnir heldur líka starfsmenn, viðskiptavinir, nærsamfélagið o.s.frv. Hún spyr hvort stjórnendur banka séu ekki líka skyldugur til að taka tillit til hagsmuna innistæðueigenda. Svo bendir hún á að íslensku bankarnir komu landinu á hausinn og því sé tómt mál að staðhæfa að stjórnendur þeirra hafi einungis haft skyldum að gegna við eigendur bankanna.

Friedman segir að stjórnendurnir eigi bara að hegða sér í samræmi við reglur viðskiptalífsins. En Salvör bendir á að engan veginn sé ljóst hvaða reglur það séu eða hvernig draga megi mörkin  milli þeirra og annarra reglna samfélagsins. Sumir telji að reglur viðskiptalífsins líkist pókerreglum en Friedman hefði tæpast samþykkt það.

Í fyrra sagði einn af útrásargaukunum (ég man ekki hver, þeir eru allir eins) að hann og hans banki þyrftu sko alls ekkert að biðja þjóðina afsökunar, bara eigendur sína. Þetta er mjög í anda Friedmans.

Skömmu eftir hrun spurði ég í bloggfærslu hvers vegna í ósköpunum menn væru sýknt og heilagt að mótmæla fyrir framan stjórnaráð og Aþingi, varla hræða sæist fyrir framan Baugsgrenið á Túngötuna eða  Ó-Landsbankann, hvað þá Kaupþing.

Ég fékk það svar frá meintri vinstrimanneskju að þetta hefði sko bara verið þeirra mál hvernig þeir hegðuðu sér í business, vandinn væri bara ríkisvaldið sem velti byrðunum yfír á almenning.

Þarna er frjálshyggjuvæðing hins íslenska hugar lifandi kominn. Þessi manneskja skyldi ekki að fyrirtæki eru ekki rekinn í tómarúmi, þau njóta góðs eða skaðast af hefðum þjóða, njóta verndar lögreglu og jafnvel hers (þess utan þurftu bankarnir þurftu ekki að kvarta yfir skorti á opinberri fyrirgreiðslu).

Ekkert fyrirtæki er eyland, ekki einu sinni þótt það sé stofnsett á eylendu.

Íslensk fyrirtæki græða á því að Íslendingum er innrætt vinnusemi frá blautu barnsbeini. En þessa þjónustu fá þau ókeypis enda ekki hægt að verðleggja hana eins og reyndar obbann af því sem skapar hagnað. Hefðir skapa hagnað en framlagið er óútreiknanlegt, í báðum merkingum orðsins.

Auk þess komu útrásargaukarnir óorði á íslenskan atvinnurekstur sem heiðarleg og velrekin fyrirtæki tapa á. Þess vegna er engin  ástæða til annars en að telja að fyrirtæki hafi samfélagslega ábyrgð.

Í ofan á lag er ekki einu sinni víst að það að hámarka gróðann sé atvinnulífinu altaf til góðs, John Kay segir að rannsóknir bendi til þess að hógværum fyrirtækjum sem stefna ekki endilega að hámarksgróða vegni betur en fyrirtækjum gordonana gekkoana.

Af þessu sést hve fáránlegur málflutningur Friedmans er.

Auk þess legg ég til að AlvaldsHringadrottins-ábyrgðarleysis-battaríin verði snarsniðgengin, kvóta- og útrásarþýfi hraðfryst og hrunkvöðlar verði sóttir til ábyrgðar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

 • Sæll, og afsakaðu spammið, sem kemur efni þessarar færslu ekki beinlínis efnislega við. Þannig er nú bara að hann Skafti sem er akkúrat núna beint fyrir ofan þig á forsíðu Eyjunnar gerir mér einhverra hluta mjög erfitt fyrir að koma þessum hlekk á framfæri hjá sér: http://molur.blogspot.com/ – hann eyðir honum alltaf, sem og öllum ummælum þar sem minnst er á möguleg tengsl milli Skafta og Hannesar svo mikið sem einu orði.

  En, góðar greinar þínar um Eilífðarvélina hingað til. Hlakka til að sjá framhaldið.

  Þú mátt eyða þessu mín vegna ef þér finnst það ekki eiga heima hér.

 • jón eggert

  Það sem ég er að vellta fyrir mér er eftirfarandi. Um 1990 þá varð kapitalisminn gjaldþrota. Gekk ekki upp efnahagslega. Um 2007 þá varð kaptalisminn líka gjaldþrota. Nú sitja vesturlandabúar uppi með að 2 helstu stefnur stjórnmála og hagfræði síðustu áratugi virka ekki. Við erum í tómarúmi. Af því að þú ert með puttann á púlsinum hvaða stefnur heldurðu að komi í staðinn Stefán? Sósialdemokratismi? Eða hugsun í líkingu við Krugman?

 • jón eggert

  Kommunismi átti þetta að vera í fyrstu setningunni.

 • Einn upplýstur

  Góð grein hjá þér. Þér til aðstoðar skal ég nefna það að það var Hreiðar Már sem bað starfsmenn, hluthafa og viðskiptavini Kaupþings afsökunar en neitaði að biðja þjóðina afsökunar, enda hefði fall Kaupþings ekki haft nein áhrif á þjóðina. Vissulega var ekkert EdgeSave dæmi, vissulega (og það er kannski þeim til tekna) en Halldór á Morgunblaðinu birti nokkrum dögum síðar mynd af Hreiðari, þar sem hann var fyrir framan domino kubba sem voru að falla, fremsti kubbur var „Kaupþing“ en restin merkt krónunni, atvinnuleysi, orðspori etc.
  Merkilegur hroki og afneitun. Sigurður Einars er í sömu afneitun, sjá viðtal við hann í Fréttablaðinu/Mogganum um daginn.

  Málflutningur Friedman var fáránlegur hvað þessa samfélagslegu ábyrgð varðar en hann var þó ágætur yfirleitt. Hans helsta synd þó var að vera Guðfaðir Ný-Frjálshyggunnar sem á orðspor sem við öll þekkjum.

 • Mjög fín grein! Endilega að fletta ofan af þessari atómíseruðu heimsmynd frjálshyggjunnar.

  En hvernig er það dróg ekki Friedman e-ð í land á seinustu árum ævi sinnar, eins og fleirri harðir frjálshyggjumenn t.d. Nozik?

  kv.
  Freyr

 • Bjarni Kjartansson

  ÞAkka enn.
  Mér er farið að virðast sem svo, að þú sért ekki sósi, heldur aristokratískur þjóðvinur með opin hug til erlendra áhrifa, séu þau samræmanleg góðum siðum og kjarna þeirra reglna, sem okkur hafa verið settar um aldir af horskum mönnum, körlum og konum.

  Semsagt Íhald af ræktaðri gerðinni. Afar athygivert.

  Miðbæjaríhaldið

 • Sig. Kári

  Fín grein.

  Greinilega athyglisverð bók.

 • Stefán Snævarr

  Þakka ykkur fyrir, Bjarna þakka hlý orð, altaf gleðiefni þegar þú skrifar ummæli. Ætli ég sé ekki frjálslyndur jafnaðarmaður með íhaldshneigð? Gleymdu ekki að jafnaðarmenn og íhaldsmenn eiga sameiginlega andúð á mjög róttækum breytingum vilja bæta samfélagið með hægðinni. Um leið er ég á margan hátt hefðarsinni, þess utan frjálslyndur, t.d. á móti bannáráttu margra kvenréttindahópa og annarra pólitískt rétthugsandi hópa, er jafn mikið á móti rétthugsun og frjálshyggju (rétthugsun er allt að drepa í Noregi).
  Merkilegt að „Skafti“ skuli eyða ummælum þar sem hann er kallaður sínu rétta nafni.

 • Jamm. Hrunstjórnin var í raun skuggaráðuneyti. Valdið, þekkingin og
  spádómsgáfan var í höndum frjármálabraskara. Þaðan fengum við vitið
  allt,segir Geir Haarde nú. Undir það tekur harðkjarnaráðherrahópurinn hans.
  Ekki gat þetta góða fólk vitað að þau störfuðu undir yfirvaldi grímuklæddra
  bankaræningja, lygamarða og aumingja. Eða kannski vissu þau það mætavel ?
  Nýfrjálshyggjan er auðvitað siðbrot. Bæði kenning og framkvæmdin.

 • Auðvitað er til góðs að hámarka gróðann. En það er spurning hvort menn eru að hugsa um skammtímagróða; að taka peningana og hlaupa, eða langtímahagsmuni viðkomandi fyrirtækis í víðari skilningi og í höndum framtíðarkynslóða. Málið er að það vantar íhald í flesta íslenska frjálshyggjumenn. Og það vantar fyrirhyggju og langtímahugsun í mjög marga Íslendinga. Þetta á ekkert síður við um eldri kynslóðina („barnasprengjukynslóðina“) heldur en þá sem eru yngri, jafnvel enn frekar.

  Thomísk eða Aristótelísk siðfræði í ætt við það sem Salvör virðist vera að tala um er fullkomlega samræmanleg við frjálshyggju (án „ný-“ eða „dólga-“ forskeytis). Frelsið segir ekkert um að menn eigi að verða ömurlegar manneskjur um leið og ríkið hættir að segja þeim fyrir verkum. Þvert á móti gefur það mönnum tækifæri til að rækta það besta í sér og stýra lífi sínu í átt til farsældar, nokkuð sem alltumlykjandi ríkisforsjá vinstrimanna kemur í veg fyrir með því að taka siðferðislegar ákvarðanir fyrir þá.

  Já, ég veit að Margaret Thatcher sagði „Það er ekkert samfélag“, en hún var ekki upphaf og endir allrar frjálshyggju eða íhaldsstefnu. Heldur ekki Milton Friedman. Það er til fullt af siðferðis- og samfélagslega þenkjandi frjálshyggjumönnum sem er fyrst og fremst annt um réttlæti og hið góða líf, t.d. margir þeirra sem tilheyra austurríska hagfræðiskólanum.

 • Stefán Snævarr

  Karl þú leysir enginn vandamál með því að skrifa í hátíðarræðustíl um hvað gerist þegar ríkið hætti að segja mönnum fyrir verkum, þá geti menn ræktað það besta í sjálfum etc. Notaðu þessa frasa á næsta stórafmæli.
  Þið frjálshyggjumenn eruð gjarnir á að nota svona hátíðarræðufrasa þegar kreppir að hjá ykkur.
  Þegar ríkið „hættir að segja mönnum fyrir verkum“ ´(er ríkið lifandi vera?) er hætta á að ei nkaauðvaldi taki við og leggi gleipnisfjötra á menn. Fjármálamarkaðurinn íslenski var ekkert smávegis frjáls og afleiðingin valdataka útrásarauðvaldsins.
  Þú skrifar líka í hátíðarræðustíl um göfugmenni austurríska skólans og þeirra háleitu hugsjónir. ;Mises var svo annt um réttlætið að hann hrósaði ítalska fasismanum fyrir að hafa bjargað evrópskri siðmenningu og var svo ráðgjafi austurríska einræðisherrans Dollfuß.
  Hayek vildi láta svipta ríkisstarfsmenn og þurfamenn kosningarétti og kjörgengi til fjárveitingaþinga.
  Þú ert greinilega lærður maður en skilur ekki að þú skemmtir skrattanum (mér) með hátíðarræðustílnum því hann minnir á sunnudagspredikanir guðsmanna og eflist fyrir vikið sú tilgáta mín að frjálshyggjan eins og marxisminn sé pólitísk trúarbrögð.
  Öðru máli gegnir um frjálslyndisstefnu að hætti Mills, Berlins og Popper, eða íhaldsmennsku Burkes eða jafnaðarstefnu Giddens og Walzers. Þeirra kenningar snerta jörðina.

 • Ægir Karl Ægisson

  Hugmyndin um lágmarks skyldur gagnvart umhverfinu og hámarks skyldur gagnvart eigendum er hol. Hún gerir ráð fyrir gríðarlegu ósamræmi í siðferðilegri hugsun einstaklingsins. Hversvegna ætti gerandi (framkvæmdastjóri) ekki að yfirfæra siðferðisleg lágmörk á eigendurna? Auðvitað gerir hann það og breytir einsog hann kemst upp með. Þetta er varlar frumspekileg hugleiðing lengur eða hvað sýnir reynslan?

 • Frjálshyggja er ekki trúarbrögð. Frelsið er ekki gott eða slæmt í sjálfu sér, það er undir hverjum manni komið hvernig hann fer með það. Það er ekki frelsinu að kenna að menn hafi misnotað það. Þeir sem hafa brotið lög eiga að sjálfsögðu að svara til saka, og þeir sem gerast sekir um höfuðsyndir eiga skilið fordæmingu samfélagsins, sem hlýtur að koma sér illa fyrir viðskiptin.

  Hins vegar fer hefðbundin dyggðasiðfræði vestrænnar menningar vel saman við frelsið. Ég held reyndar að það sé nauðsynlegt, og ég tek undir að fólk eins og Friedman og Thatcher fóru villur vegar með að tala gegn samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja. Í fyrri athugasemd minni var ég að reyna að koma orðum að því að hagsmunir samfélagsins eru líka fyrirtækjum í hag, ef þau hugsa til langs tíma og um hagsmuni framtíðarkynslóða eins og sannir Burke-ískir íhaldsmenn.

  Ef maður fylgist með því sem Mises stofnunin sendir frá sér í dag (mises.org) sér maður að þeir taka oftar en ekki upp málstað venjulegs fólks og smærri fyrirtækja gegn „crony“ kapítalisma stórfyrirtækja í samkrulli við spilltar ríkisstjórnir. Það er ólíku saman að jafna við Krugman og aðra sjálfskipaða „málsvara lítilmagnans“ sem styðja eignatilfærslu almannafés til að bjarga hrunvöldum BNA. Hefurðu eitthvað skoðað austurríska hagfræðinginn Wilhelm Röpke og samfélagshugmyndir hans? Hann lagði mikla áherslu á sjálfvalin tengsl og sjálfsprottnar samfélagslegar stofnanir eins og fjölskyldu, kirkju, hefðir o.s.frv. Frjálshyggja í bland við menningarlega íhaldsstefnu býður upp á raunverulegan valkost um gott samfélag án þrúgandi forsjárhyggju ríkisvaldsins.

 • Stefán Snævarr

  Karl, Friedman var reyndar líka í því að taka málstað litla mannsins, ég hef aldrei neitað að það séu tilvik þar sem aukið markaðsfrelsi auki svigrúm litla mannsins. En ég tel ólíklegt annað en að tilraunir til að raungera útópíu hins „frjálsa“ markaðar leiði til ófarnaðar, m.a. ofurveldis hinna ríku, eymd fátækra og óstöðugs hagkerfis.
  Frjálshyggjan er trúarbrögð eins og marxisiminn, frjálslyndisstefna Mills, Berlins og Poppers ekki, ei heldur jafnaðarstefna Giddens og félaga. Kynntu þér frjálslyndisstefnu.

 • Bjarni Kjartansson

  Þar sem mér er ekki rótt um rótleysi ungra Heimdellinga, verð ég að víkja að þekktum hlut í okkar sögu.

  Karl JM sækir dæmin til útlanda og sveipar hugarfóstur erlendra manna íslenskum slæðum í orðavali. Þetta er algerlega óþarft. Við eigum ólygin dæmi einmitt hinnar þjóðlegu íhaldsstefnu, sprottna rótfasta í jarðvegi okkar fornu gilda.

  Fyrir Vestan þótti það sjálfsagt, að útgerðamenn réðu til sín olnbogabörn samfélagsins, þó að vinnuframlag þeirra væri mun minna en heilla. ÞEir tóku þátt í samfélaginu, mættu í skírnir, fermingar, brúðkaup og jarðarfarir síns fólks. Þeir ,,deildu“ að miklu leiti lífinu með samfélaginu en ekki utan og ofan við það.

  Áar mínir létu fara um sveitir við Djúp og komast að því, hvort ekki væru bjargir nægar frá des byrjun til Góu en þá hófust útræði venjulega úr verum utar. Þeir sendu mat í tunnum og kvartilum svo allir hefðu bjargir nógar yfir harðasta tímann.

  Þetta þekktist um alla Vestfirði og víðar, þar sem dönsk áhrif höfðu ekki gegnusýrt hugi manna og oflátungshátturinn hafði upprætt—– eða losað rótfestu ungra manna.

  Við horfum til eldri gerðar íslenskra þorpa við strendur landsins, þar voru útgerðir oftar en ekki bakbein þessara samfélaga og stjórnendur þar, fóru vel með ,,sitt fólk“ því það var beggja hagur. Áum mínum þótti gott að eiga fé nægt en þeir gerðu sér grein fyrir því, að skinhoraður ræðari væri til lítils í vondum veðrum Góu og allt fram á Miðsumar.

  Mér líst svo á, að einmitt þetta, að geta ekki lengur lesið í sína fornu sögu og skilið aðstæður manna í lífsbaráttu, þar sem allir skiptu máli, sé unirrót allra lasta okkar ungu Armani klæddu gróðapunga af báðum kynjum og menntahrokagikka, sem ekki hafa mannast en lesið og lært margt ónýtra fræða.

  Hinn Hæsti Höfuðsmiður, setur þetta jafnvel í dýr merkurinnar, þegar sljó og veik dýr ,,fórna“ sér til heilla hjarðarinnar eða sterkir einstaklingar geta flest afkvæmin til heilla hópsins en hinir veikari fá fóður, svo þeir haldi orku til verndar ættmeiðarins.

  Afsakaðu plássfrekjuna í mér en ég horfi oftar en ekki í okkar sögu til að skilja erlendar kennignar, raða eftir skynsemi og mynda mér skoðanir á þeim eftir slíka rýni.

  Þetta voru gildin sem Sjálfstæðisflokkurinn var byggður á og þessar voru stoðirnar sem gengin kynslóð feðra okkar skildu til hlýtar og urðu því þjóðelskir heimsborgarar, átakalaust með öllu.

  Því er ég með böggum Hilddar vegna óvarkárra yfirlýsinga Heimdellinga sumra en óska samt, að þeir læri af þeim bókum sem geta vísað þeim veginn í takt við þjóðleg gildi og kurteisleg.

  Miðbæjaríhaldið

 • Stefán Snævarr

  Svei mér Bjarni ef þú ert ekki meistari tungunnar! Mjög forvitnileg ummæli, hafðu þökk fyrir.

 • Halldór AS

  Ég held að hér hafi margir margt til síns máls; ég held einmitt að það sem Hólsmteinsfræðingar kalli frjálshyggju sé í raun miklu meira í ætt við kunningjakapítalisma (e. crony-capitalism) en klassíska frjálshyggju. Því á hugtakið nýfrjálshyggja fullan rétt á sér, þó ég telji nú orðið dólgafrjálshyggju kannski fullgildishlaðið. Mér finnst að sannir íhaldssamir frjálshyggjumenn mættu standa sig mun betur í að tala sínu máli og árétta muninn á gömlu og nýju frjálshyggjunni. Vandinn er bara að margir þeir íhaldsmenn sem hæst hafa hérlendis eiga í mörgum tilfellum alveg jafn erfitt með að vera málefnalegir og nýfrjálshyggjumennirnir.

  Annað sem er auðvitað að vissu leyti skylt nýfrjálshyggjunni er Blairisminn sem Samfylkingin tók upp hérlendis. Það er því líklegast alls engin tilviljun að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu stjórn árið 2007, og heldur ekki tilviljun hversu ‘bankavæn’ sú stjórn var.

 • droplaugur

  Í öllum kenningum verður að vera siðferði -það er einfaldlega undirstaðan.Bæði kommúnismi og frjálshyggja gáfu okkur mikinn lærdóm en hraði nútíma samfélagsins er í dag þannig að hann þ.e. tíminn stíngur af allar kenningar!!!þ.e. menn líkja mjög mikið þjóðfélaginu kenningarlega eins og bandaríkinn voru 1980 en það eru 30 ár síðan þ.e. hraðinn og viðmið og kröfurnar aukist margfalt síðan, og í raun og veru ekki á færi eins forseta bara að fylgjast með, og bara vera með inní framtíðinna .

 • droplaugur

  Í skilgreiningunni týnumst við, en í þjónustunni samverkast allt til góðs!!!

 • Contraries are cured by contraries.

 • Wow, this was a really quality post. In theory I’d like to write like this too – taking time and real effort to make a good article… but what can I say… I procrastinate a lot and never seem to get something done.

 • DannyGlamb

  need fast cash [url=http://installmentloansonlinei.org]online installment loans[/url] payday loans near me [url=http://installmentloansionline.org]installment loans[/url]

 • DannyGlamb

  fast payday loans [url=http://installmentloansionline.org]online installment loans instant approval[/url] approved cash advance [url=http://installmentloansionline.org]online installment loans direct lenders[/url]

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is