Þriðjudagur 21.09.2010 - 18:13 - 13 ummæli

Uppreisn gegn frjálshyggju: Eilífðarvélin

Loksins, loksins, spámenn eru risnir á meðal vor. Út er komin bókin Eilífðarvélin þar sem valinn hópur fræðimanna vega að frjálshyggjunni og talar með spámannlegum hætti.

Kverinu ritstýrir Kolbeinn ungi Stefánsson. Bókin hefst á grein eftir hann þar sem hann bendir á að frjálshyggjan sé draumur um samfélagið sem sjálfgengisvél, eilífðarvél, vél sem mali öllum gull algerlega sjálfkrafa. Markaðurinn er þessi eilífðarvél, ég hef notað líkinguna við sigurverk. Snillingarnir hugsa líkt.

Annar ungur fræðimaður, Sveinbjörn Þórðarson, skrifar stutta en skilmerkilega grein þar sem hann ræðir hugmyndasögulegar forsendur frjálshyggjunnar.

Svo tætir Svíinn Pär Gustafson nýklassíska hagfræði í sig. Þá kemur afbragðsgrein eftir Salvöru Nordal um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja þar sem Milton Friedman fær einn á hann.

Stefán Ólafsson leggur fram tölfræðilegar sannanir á því að velferðaríkjum hafi vegnað jafnvel eða betur og frjálshyggjuríkjum. Ég held hann sé nálægt sanni.

Finna má fjölda annarra greina í ritinu, greina sem fjalla um hinar  aðskiljanlegustu hliðar frjálshyggju, t.d. nýskipan í opinberri þjónustu, afstöðu frjálshyggjunnar til kynjanna, og frjálshyggju og verðmætamat.

Bókin er bæði læsileg og fræðandi, ég skora á alla áhugamenn um pólitíska hugmyndafræði að lesa þessa bók. Ég mun ekki gera endasleppt við hana, fleiri færslur um hana koma á næstu dögum.

Auk þess legg ég til að AlvaldaHringadrottinsbattaríin verði snarsniðgengin, kvóta- og útrásarþýfi hraðfryst og réttað í málum hrunkvöðla.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

 • Hannes Hólmbergur

  Nei nei og aftur nei.
  Þetta eru ekki góðar greinar! Þessir sem skrifa eru bara kommúnistasvín og Baugsleikjur. Þegar við Davíð vorum við völd þá var allt betra þangað til kommarnir og kratarnir skemmdu bankakerfið og allt varð verra. Ef við hefðum bara fengið að selja það síðasta til vina viðskiptamanna þá hefði Ísland nú aldeilis grætt.
  Kolbeinn Stefáns er nú bara sonur Stefáns Gini Ólafssonar og hefur hann oft þurft að taka allt til baka sem hann hefur sagt.
  Pär Gustafson er nú tengdasonur Ikea þannig að hvað veit hann.
  Svo er Salvöru Nordal bara einhver frek feministakvensnift, hver tekur mark á svoleiðis leiðindakellingum.

  Allir að lesa „Hvernig verður Ísland ríkasta land í heimi“ ! enginn að lesa þennan kommúnistareyfara!!!!!!!

  Björgólfur lengi lifi „Húrra, Húrra, Húrra!!!!“

 • Ég vil hvetja góðgerðafélög að kaupa tugi eintaka og senda til SUS, Heimdalls, Frjálshyggjufélagsins og Valhallar!

 • Stefán Snævarr

  Vel mælt Hannes, er ekki Ikea mamma þessa Gustafssons? Ikea Gustafsson heitir hún víst. Amman hét Mubla eða Hilla, man ekki hvort.

 • Mjög athyglisvert framtak. Ætla svo sannarlega að lesa þessa bók.

 • Gott hjá þeim feðgum!

 • og þú getur ekki sjálfur séð að þú og þessir sem skrifa í bókina eruð bara hin hliðin á sama peningnum? alveg jafn mikill áróður beggja meigin, málið er að þú heldur með þínu liði og hatar andstæðinganna. Stefán, þú ert eins og fótboltabulla.

 • Þessari bók eru gerð ágæt skil í morgunblaðinu nýverið og það væru miklar ýkjur að segja að þú og greinarhöfundur væruð sammála um ágæti þessarar bókar.

 • Sigurjón

  Þetta hljómar eins og þú njótir þess að sparka í liggjandi fólk!

  En sannaðu til: Frjálshyggjan á eftir að rísa upp að nýju og kapitalisminn lifir, freistandi og svalandi ens og Kókakóla – en nú með aðeins minna gosi, aðeins minni loftbólum…..

 • Stefán Snævarr

  Fannarh ég held ekkert með mínu liði, mun halda áfram að ræða bókina og gagnrýna einstakar greinar, þær eru misgóðar og ég hef eitthvað að athuga við þær allar. Einni grein er ég að miklu leyti óssammála enda höfundur helst til langt til vinstri fyrir minn smekk.
  Ólafur hver skrifaði í Moggann um bókina? Séra Hannes í frjálshyggjuprestakalli?

 • Bjarni Kjartansson

  Ef hin sanna frjálshyggja (stefna hins frjálshuga manns) væri það sem þið talið um, á fátt, af því sem upp er talið, við þá stefnu.

  Stefnan sem ég er að vitna í, er að miklu leiti hin kristaltæra Sjálfstæðisstefna, sem bygir á virðingu fyrir frelsi hvers einstaklings til athafna og öflunar viðurværis, ÁN ÞESS, að það verði helsi næstu manna. Því er gert ráð fyrir eðlilegum girðingum og vörnum gegn eðlislægum brestum í Mannheimum. Höfuðsyndirnar ekki teknar út fyrir sviga og ekki gert ráð fyrir frekari eignarétti hjá einum, frekar en öðrum. Þetta er grundvallaratriði Sjálfstæðisstefnunar, atriði, sem sumum hefur yfirsést við lagasetningar og því hafa ólög svo sem Ólafslög um Verðtryggingu, Kvótalög og EES samningar fengið að gilda án eðlilegra girðinga.

  Því fór sem fór og því fer sem útlit er fyrir ef fram fer sem horfir, því það mun satt, sem kveðið var hér áður og fyrrmeir, að ólög eyða byggð.

  Með þökk fyrir hungurvekju.

  Miðbæjaríhaldið

 • Einn upplýstur

  Þú fyrirgefur, vonandi, Stefán, en svona bók, skrifuð af Sósíalistum um Frjálshyggju, er jafn sannfærandi og eflaust jafn marktæk sem hlutlaust rit og ef að Hannes Hólmsteinn Gissurarson og fleiri álíka sinnaðir myndu skrifa uppgjörsrit um Sósíalismann, með fall Sovét sem fyrirmynd. Bara sorrí.

  En þessa bók mun ég þó lesa, verandi klassískur frjálshyggjumaður. Því ný-frjálshyggjan er eitur í mínum beinum, alveg eins og sovét kommúnismi er eitur í beinum sannra sósíalista.

 • Upplýstur, Þú ert líklega frjálslyndissinni fremur en frjálshyggjumaður eins og Mill, Berlin og Popper.
  Höfundar greinanna í Eilífðarvélin eru fæstir sósíalistar, fremur miðjusinnar og hógværir jafnaðarmenn. Ekki nema þú skilgreinir „sósíalisma“ að amerískum hætti.

 • Interesting reading. Nice piece of info, I absolutely enjoy reading your post.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is