Laugardagur 18.09.2010 - 12:19 - 56 ummæli

Frjálshyggjan, skattarnir og auðvalds-ánauðin.

Skafti  Harðarson býsnast yfir því að Kolbeinn Stefánsson skyldi leyfa sér að benda á að  tilraunir til að raungera frjálshyggju gætu leitt til aukinna ríkisumsvifa. Frjálshyggjumenn séu á móti slíku, þess vegna sé þetta ómakleg gagnrýni á frjálshyggjuna, segir hinn hólmsteinski bloggari.

Að breyttu breytanda sögðu sósíalistar slíkt hið sama, þegar frjálshyggjumaðurinn Ólafur Björnsson benti á að viss alræðishætta væri byggð inn í marxismann sagði Árni Bergmann undrandi og hneykslaður að sósíalistar væru alfarið á móti slíku. Ólafur svaraði með að segja að hann efaðist ekki um góðan vilja þeirra heldur að leiðin til vítis væri lögð góðum áformum.

Það var margt til í gagnrýni Ólafs  á sósíalismann en gagnrýna má frjálshyggjumenn með svipuðum hætti. Ég efast ekki um góðan vilja þeirra en hættan er sú að tilraunir til að raungera frjálsan markað leiði til ofurveldið hinna auðugu, markaðsfrelsið hverfist í auðhelsi.

Víkur nú sögunni til heimspekingsins John Gray sem var nemandi Hayeks og ráðgjafi Thatchers en vitkaðist, sá í gegnum frjálshyggjublöffið eins og kommúnistabroddurinn Milovan Djilas sem sá í gegnum blekkingarvef kommúnismans.

Gray segir að tilraunir Thatchers til að raungera frjálsan markað hafi með nauðsyn haft í för með sér eflingu ríkisvaldsins sem aftur þýddi aukna skattbyrði (þessu spáði  reyndar vinstrimaðurinn Andrew Gamble árið 1979, árið sem Thatcher komst til valda, Gray hefði betur mátt hlusta á hann þá!). Gray segir að ríkið þurfi að hreinsa til eftir frjálshyggjupartíið,  því séu tilraunir að framkvæma hugsjónir frjálshyggjunnar dæmdar til að mistakast.

 Ég held að þetta sé rétt, bæta má dæmum sem staðfesta tilgátu Grays.  Nýsjálendingar gengu lengra í einkavæðingu á raforku en nokkur önnur þjóð ríkð skipti sér ekkert af rafveitum. En svo gerist að hið rammeinkavædda rafmagnskerfi Aucklandborgar hrundi með látum, borgin var meira eða minna rafmagnslaus í fimm vikur og herinn þurfti að bjarga málunum (menn geta fræðst um þessa uppákomu í bók John Kays The Truth About Markets). Eitthvað hefur þetta kostað skattgreiðendur suður þar.

Flest bendir til þess að stóraukið „frjálsræði“ (les: auðræði) í fjármálageiranum vestanhafs sé meginorsök fjármálakreppunnar, engin slík kreppa átti sér stað á þeim árum þegar fjármálamarkaðurinn laut ströngum reglum. Og viti menn, ríkið þurfti að redda málunum, borga fyrir hreinsunina eftir frjálshyggjupartíið.

Það fylgir sögunni að þriðja markas-„frjálsasta“ hagkerfi  heimsins, hið írska, hrundi með látum haustið 2008. En hin erkikratíska Svíþjóð og hið ríkisstýrða Frakkland komust vel frá kreppunni, nú er talið að hagkerfi Svía muni vaxa um 4% á yfirstandandi ári og það þótt (eða vegna þess) að Svíar borgi manndrápsskatta.

Staðhæfingar kaupkotsforstjórans Þórðar Friðjónssonar um að „eiginlega“ ríki frjáls markaður á Norðurlöndum eru á mörkum þess að vera hlægilegar. Hann hefur það eftir Newsweek (!!!!) að Finnland sé opnari fyrir erlendum fjárfestingum en flest önnur lönd en nefnir ekki að finnska ríkið hirðir um 43% þjóðarframleiðslunnar í skatta, samkvæmt skýrslum OECD frá 2009. Sama skýrsla segir að sænska ríkið hirði hvorki meira né minna en 48.2% í skatta, hið hrunda írska ríki aðeins 32.2%. Samt stendur sænskur og finnskur efnahagur sig þokkalega en sá írski er í næstum jafn vondum málum og hin íslenski.

„Margt er líkt með skyldum“, frjálshyggjumenn sjá einfaldlega það sem þeir vilja sjá. Þeir halda að til sé ein allsherjarformúla fyrir skynsamlegri hagstjórn en skilja ekki að til eru margvísleg markaðskerfi, misvel aðlöguð aðstæðum, réttara sagt ættu að vera til  mismunandi útgáfur af blönduðum hagkerfum, aðstæður ráða hvort skynsamlegt er að auka eða minnka ríkisþátttöku. Tilraunin til að framkvæma „frjálsan“ markað er leiðin til ánauðar, auðvalds-ánauðar.

Auk þess legg ég til að AlvaldsHringadrottinsfrjálshyggjubattaríin verði snarsniðgengin, kvóta- og útrásarþýfi fryst og réttað í málum hrunkvöðla.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (56)

 • Stefán Snævarr

  Í BNA voru auðkýfingar vægast sagt valdamiklir á blómaskeiði frjálshyggjunnar í lok nítjándu keyptu dómara og pólitíkusa. Einokunarlöggjöf Teddy Roosevelt dró stærstu vígtennurnar úr þeim, þannig getur ríkið komið í veg fyrir auðvald.

 • Stefán Snævarr

  Verð að setja þetta inn í smáskömmtum vegna þess að frjálshyggjudraugurinn í apparatinu reynir að koma í veg fyrir svar mitt við ummælum Karls:
  Lítum á ísland: Algert frelsi ríkti til að dæla fé í stjórnmálamenn og flokka, afleiðing varð sú að útrásarhyskið tók völdin settu gleipnisfjötra á þjóðina. Takmörkun á þessu „frelsi“ í löggjöfinni frá 2007 gefur von um að rjúfa megi hlekkina en LÍUræðið er eftir.

 • Stefán Snævarr

  Áfram svara ég Karli í smáskömmtum: Það er rangt hjá þér að einkavinavæðing og talsamband við flokka sé aðalorsök auðvaldsins á Íslandi.
  Jón Ásgeir var hundeltur af yfirvöldum en náði samt hálgerðri einokunaraðstöðu í verslun og fjölmiðlun.
  Setjum svo að einkavæðing bankanna hefði farið fram eftir öllum markaðarins kórréttu reglum, þá hefði mátt ætla að hyggnari menn hefðu keypt þá, þeir hefðu kannski farið skár út úr kreppunni og haldið miklum hluta eigna sinna en þar með líka valdi.
  Niðurstaðan af því sem segir í þessum fjórum/fimm smáummælum er að rangt sé að telja ríkisvaldið einu uppsprettulind auðvalds, markaðurinn sér oft um það sjálfur að skapa auðvald.

 • Stefán Snævarr

  Jonasgeir, ekki ertu Jón Ásgeir Hringadrottinn? Allt um það, þú ert nú farinn að skrifa aftur í skætingstóni, tala um hatur á BNA. Ekki hata ég BNA, ég hef margoft sagt að ameríska þrígreiningin á valdi væri til fyrirmyndar sem og vísindastarfið þar vestra sem er skilgetið afkvæmi blandaðs hagkerfis. Kanar gátu ekkert í vísindum fyrr en eftir stríð þegar ríkið fór að dæla peningum í amerísk vísind, flóttamenn frá Evrópu hjálpuðu líka mikið.
  Vísindin hafa eflt alla ameriska tækni og efnahagsdáð, Friedman vildi að ríkið hætti að styrkja vísindi það hefði sett landið á hausinn. Engin hefur beinan hag af grunnrannsóknum því erfitt er að spá fyrir um hvort þær séu tælknilega nýtilegar um leið eru þær öllum opnar, því er auðvelt að gerast laumufarþegi (free rider) sem þýðir einkafyrirtæki hafa takmarkaðan hag af að styrkja þær. Ríkið verður að redda þessu, stóraukið vægi grunnrannsókna í efnahagslífi framtíðarinnar mun þýða að vægi ríkisins í efnahagslífinu má ekki minnka hvað vísindi varðar þótt vissulega megi draga úr ríkisafskiptum t.d. í landbúnaði.
  Kanar búa ekki lengur við betri kjör en Evrópubúar, þeir eru meira að segja ekki lengur með mestu bílaeign í heimi. Þeim tekst að ná endum saman með rosalegri vinnu og endalausri lántöku.
  Ég hef verið þrisvar í BNA fyrst 1972 þá bjó milli- og verkalýðsstétt vestra við ljóslega betri kjör en í Norð-Vestur-Evrópu, þegar ég kom þangað 1996 í 3 mánað dvöl var ástandið greinilega öðruvísi, lífskjörin voru ekki lengur klárlega betri. 2009 var ég í þrjá mánuði í Kaliforníu sama reynsla og 1996.
  Sem sagt á ríkisafskipta og -jafnaðarskeiðinu höfðu þeir það gott ekki síðar.

 • Stefán Snævarr

  Jonasgeir, Kanarinr hættu að búa til verðmæti þegar frjálshyggjuöld rann upp um 1980, allt dralsið flutt til Kína, það var miklu gróðvænlegra að búa til pappírsgróða með afleiðum.
  Raunlaun Kana á unna klukkustund hafa ekki aukist síðan 1977, á meðan hafa hinir ríku grætt á tá og fingri. Hvernig skýrirðu þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is