Sunnudagur 29.08.2010 - 15:44 - 9 ummæli

Þjóðernisstefna?

Upp er risinn flokkur meintra þjóðernissinna sem lætur ófriðlega og brigslar ESB-sinnum um landráð, hótar þeim jafnvel lífláti.

Hvar voru þessir menn þegar Viðskipta(ó)ráð mælti með því að enskuvæða Íslendinga?

Hvar voru þessir menn þegar annar hver veitingarhúsaeigandi á Íslandi afréð að hafa matseðla einvörðungu á kúlmálinu ensku?

Hvar voru þessir menn þegar íslenskri náttúru var nauðgað með Kárahnjúkavirkjun og öðrum ósóma?

Spyr sá sem ekki veit.

Auk þess legg ég til að Alvaldshringadrottinsbattaríin verði snarsniðgengin, kvóta- og útrásarþýfi fryst, og réttað verði í málum hrunkvöðla.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Sem „meintur þjóðernissinni“ skal ég svara þér.

  Það fór fram hjá mér að Viðskiptaráð vildi enskuvæða Íslendinga, en hvort eð er, þá er ég andvígur Viðskiptaráði almennt sem og flestum þeirra veruleikafirrtu ráðleggingum.

  Ekki stunda ég mikið veitingahúsin, en þó tel ég að matseðlar á ensku séu ekki helsta ógnin við íslenska tungu. Ef þú vilt vita hver er helsta ógnin við íslenska tungu, hleraðu þá samræður unglinga og taktu eftir takmörkuðum orðaforða og ofnotum á hikorðum. Þetta er málið, ekki einhverjir matseðlar.

  Og vissulega mætti ég í mótmælabúðirnar uppí Kárahnjúkum þegar þau náttúruhryðjuverk (virkjanasmíðin) voru unnin.

  Hvar varst þú Stefán? Væntanlega í útlöndum.

  En í alvöru talað, þá legg ég áherslu á það að við þurfum að fara að horfast í augu við þá skelfilegu ógn að ungt fólk er hætt að geta talað. Það er einstaklega dapurleg þróun. Ástæður þessarar hnignunnar blasa nokkuð við, en viðbrögð eru nánast engin og ekki einu sinni umræða þar sem bent er á þetta vandamál.

 • Arnþór Jónsson

  Hvaða þvæla er þetta eiginlega? Hver segir að ungt fólk sé hætt að geta talað? Upp til hópa er ungt fólk miklu betra en við sem erum eldri. Vandamálið í okkar þjóðfélagi eru beturvitrungar sem vaða uppi með þvælu og alhæfingar – rétt eins og ég er að gera.

 • Arnþór, annað hvort misskilur þú mig eða að þú sérð ekki vandamálið. Það ætti samt að vera augljóst hvað ég á við.

 • Hans Haraldsson

  Í guðanna bænum Stefán Snævarr!

  Það sem gerðist hérna um daginn var að Pressan rakst á facebook-síðu sem einstaklingar í yngri kanntinum hafði stofnað sem brandara. Af þeim sem skráðir voru í þennan hóp hafa sárafáir tekið þátt í Evrópuumræðunni og þeir einu sem hafa gert það eru hallir undir aðild (ég er ekki að halda því fram að þetta hafi verið einhverskonar ráðabrugg – síðan var of augljóslega búin til í gríni).

  Pressumenn rugluðu þessu svo saman við einhvern hóp áhugamanna um víkingabardaga (leiðrétt hér: http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/facebook-hopur-bendladi-iss-ranglega-vid-sjalfstaedisbarattu-ekki-politiskur-hopur ) og af því hlaust einhver minniháttar fjölmiðlasirkus.

  Er það ekki fyrir neðan virðingu prófessors að éta upp svona borgarmýtur?

 • Stefán Snævarr

  Þórarinn, mér er fullkunnugt um vanda unglinga sem reyndar er ekki bundinn við Ísland, það er mikið talað um orðfæð og tjáningarerfiðleika ungmenna annars staðar. Ég geri þetta að umfjöllunarefni í greininni „Pragmatism and Popular Culture“ sem á að vera finnanleg á Netinu.
  En erfitt er að beita sprengjuhótunum gegn öllum unglingum Íslands, auðveldara að taka veitingahúsin í gegn, þ..e. ef menn eru tilbúnir til að beita ofbeldi til að bjarga þjóðerninu.
  Viðskiptaóráð vildi gera ensku jafn hátt undir höfði og íslensku á Íslandi, íslenskan hefði liðið undir lok í því sambýli.
  Hans, gott að heyra ef satt er.

 • Vissulega er orðfæðin víða en hver þjóð ber ábyrgð á sínu móðurmáli. Mig grunar að orðfæðin sé þó verri hér en annarsstaðar.

  En nei, líklega eru sprengjuhótanir ekki líklegar til árangurs. Hugsanlegt þó að nýta kynbombur til þess að fanga athygli. Fyrst og fremst vantar þó hvata til þess að unga fólkið (og reyndar allir) nýti meiri orðaforða og njóti þess að tjá sig ríkulega um áhugaverða lífsreynslu og göfug áform í stað þess að lýsa með svipbrigðum og búkhljóðum síðustu vonbrigðum og hneykslismálum.

  Viðskiptaráð skulum við svo leggja niður.

 • Þór Eysteinsson

  Stefán, í gær hélt Sterkara Ísland, eitt af samtökum Evrópusinna, opinn vinnufund á Hótel Borg í Reykjavík. Þá birtust áður hótanir á vefsíðu með fasísku yfirbragði um að hleypa fundinum upp og valda „landráðamönnunum“ skaða. Þetta olli ótta meðal Evrópusinna í landinu og framkvæmdastjóri Sterkara Íslands kærði til lögreglu. Lögregla mun hafa kallað þá er stóðu fyrir síðunni til yfirheyrslu eins og henni ber að gera. Ég veit ekki hvað kom út úr því. Vonandi var þetta „grín“ og ekkert til að hafa áhyggjur af en ég hygg að mörgum hafi þótt „gamanið“ grátt. Það er oft sem fasísk öfl koma upp og gera sig breið við þær aðstæður sem íslenska þjóðin lenti í 2008, og við höfum í raun að mestu sloppið við það en samt vert að halda vöku sinni. Hvers vegna ekki er hægt að halda uppi vitrænni umræðu á Íslandi um ESB og umsókn okkar í bandalagið er flókið mál en svona uppákomur hjálpa ekki.

 • Stefán Snævarr

  Takk Þór og Þórarinn, Þórarinn, eitt getum við verið sammála um og það er að „þjóðernisstefna“ náhirðararmsins í FLokknum sé af yfirborðslegasta tagi. Þetta fólk hefur aldrei skotið skildi fyrir móðurmál og menningu, öðru nær. Hvað þá íslenska náttúru, þetta fólk hefur bara áhuga á hagsmunum sjálfra sín, LÍU osfrv.

 • gambítur

  Allt er skárra en íhaldið var sagt fyrrum. Náhirð þeirra trúarsamtaka er sínu verri.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is