Sunnudagur 23.08.2009 - 11:35 - 21 ummæli

Dr. Eiríkur Bergman og Hr. Eiríkur Friedman (og frelsið)

Ég hef stundum á tilfinningunni að Eiríkur Bergman Einarsson sé tveir menn, annars vegar fræðimaðurinn Dr Eiríkur Bergman, hins vegar frjálshyggjuáróðursmaðurinn hr. Eiríkur Friedman. Sá fyrrnefndi skrifaði ágæta bók um Ísland og Evrópusamrunann, sá síðarnefndi átelur íslenska þjóðernissinna á nítjándu öld fyrir að leggja ekki áherslu á  (meint) frelsi einstaklingsins.

Takið eftir að hann notar orðasamband („frelsi einstaklingsins“) sem ættað er beint úr frasasafni Sjálfsstæðisflokksins enda er hann í hægriarmi Samfylkingarinnar og sá armur vill helst að Samfó framkvæmi stefnumið FLokksins, mínus spillingu og sóðaskap.

Eiríkur gerir mér vitanlega hvergi grein fyrir hvað hann eigi við með „frelsi“. Þess er þörf því hinir lærðu deila um hvernig skilgreina eigi frelsi, sumir fylgja því sem kallast „neikvætt frelsi“, aðrir því sem nefnist „jákvætt frelsi“.

Ef maður telur frelsi einvörðunga vera neikvætt þá er maður þeirrar hyggju að frelsi sé fjarvera hindrana af mannavöldum. Maður er frjáls þá og þvi aðeins að aðrir menn hindri mann ekki í að gera það sem maður vill.

Til eru ýmsar útgáfur af neikvæðu frelsi. Sú þekktasta er sú sem  kveður á um að þær hindranir sem um sé að ræða séu ytri hindranir. Samkvæmt öðrum útgáfum getur hindrunin verið innri hindrun. Hafi einhver gert annan mann að ópíumsþræli þá hefur sá fyrrnefndi skapað innri hindrun, veikt vilja þess síðarnefnda. Hið sama gildir um Samfylkingarmann sem heilaþveginn hefur verið af frjálshyggjuáróðri, hann sé ekki fyllilega frjáls.

Fyrrnefnda útgáfan af hugmyndinni um neikvætt frelsi er sú útgáfa sem flestir frjálshyggjumenn aðhyllast. Ríkið á að banna sem fæst því boð og bönn skapa ytri hindranir. Til dæmis má ríkið ekki banna ópíumneyslu. Fylgjendur síðarnefndu útgáfunnar gætu sagt að slíkt bann geti aukið frelsi með þeim hætti að það dragi úr líkum þess að menn geti gert meðbræður sínar og -systur að ópíumsþrælum.

Það fylgir reyndar sögunni að til eru sósíalistar sem aðhyllast neikvæðu skilgreininguna á frelsi, til dæmis kanadíski heimspekingurinn Gerry Cohen. Hann telur að kapítalisminn skapi hindranir sem takmarki frelsi mannsins, sósíalískt samfélag sem banni kapítalískt athæfi auki frelsi manna með þeim hætti.

En yfirleitt hafa vinstrimenn fylgt hugmyndinni um jákvætt frelsi. Samkvæmt henni er maður þá og því aðeins frjáls að hann hafi mátt til framkvæmda en það þýðir að hann njóti innra frelsis, sé ekki bara frjáls frá ytri hömlum. Samfélag þar sem uppeldið gerir menn að hreinum undirlægjum geti ekki verið frjálst. Menn verði að hafa mátt til að hagnýta sér frelsið til að vera frjálsir og það eru undirlægjurnar ekki. Þær verða ekki frjálsar  þótt lítið sé um ytri hömlur.

Það skín  í gegn að Eiríkur trúir á hugmynd frjálshyggjumanna um frelsið, frelsi sé neikvætt frelsi og fjarvera ytri hindrana. En jafnvel þótt allt væri í himnalagi með þessa skilgreiningu á frelsi er ekki þar með sagt að svonefnt frjálst markaðskerfi sé besta trygging fyrir frelsi (ég efast ekki eina sekúndu um að Eiríkur telji að svo sé).

Lítum nú á kenningu mína um markaðsfrelsisbogann. Markaðsfrelsi stendur bara undir nafni að vissu leyti. Auki maður markaðsfrelsi í Norður-Kóreu þá eykur maður raunfrelsi og þarf ekki mikið til. En auki maður þetta meinta frelsi mjög mikið í venjulegu kapítalísku samfélagi  er hætta á að farið verði yfir hátind bogans, að frelsið hverfist í auð-helsi.

Markaðsfrelsið hefur þá leiðu áráttu að stuðla að misdreifingu auðs, sumir verða vellauðugir í markaðsfrjálsu kerfi og geta notað auðinn til að tryggja sér völd. Þeir geta t.d. séð til þess að markaðfrelsið verði skert þeim í hag.

Þannig var ástand mála í BNA á gylltu öldinni frá 1875-1910. Hvergi í heiminum var meira markaðsfrelsi en óvíða voru auðmenn eins voldugir. Þeir höfðu stjórnmálamenn, dómara og embættiskerfi í rassvasanum. og sátu yfir hlut alþýðu manna.  Því var engin furða þótt Matthías Jochumsson kallaði Bandaríkin „Mammonsríki Ameríku“ í þekktu kvæði. Landið fór yfir hátind bogans, markaðsfrelsið varð að auðhelsi.

Svipað hefur gerst í BNA og víðar á síðustu áratugum aukins markaðsfrelsis, hagfræðingurinn Simon Johnson talar um hið hljóðláta valdarán (the quiet coup) auðkýfinga og stórfyrirtækja. Bæði í BNA og Bretlandi hefur dregið úr félagslegum hreyfanleika á síðustu áratugum en ekki í þeim ríkjum sem farið hafa sér hægar í markaðsvæðingu. Minni félagslegur hreyfanleiki þýðir einfaldlega „minni möguleikar alþýðu manna á að „meika það“, og það  þýðir „aukin stéttskipting“ og „meira auðvald“.

Það er enginn vafi á að svipuð þróun hefur átt sér stað á Íslandi á síðustu áratugum. Aukið frelsi í fjármálageiranum var einn þeirra þátta sem sköpuðu ofurveldi útrásarfurstanna, vald þeirra yfir stjórnmálaflokkum, fjölmiðlum, já öllu samfélaginu. Jafnvel þótt markaðsöfl hefðu verið látin ráða einkavæðingu bankanna er ekki víst að þetta ofurveldi hefði orðið minna.

Mikilvægt er nú að brjóta hið íslenska auðvald á bak aftur, með því t.d. að frysta eigur útrásarhyskisins, rétta í málum þeirra, afnema kvótaósómann og leggja prófkjör niður (þau urðu að auðkjörum á útrásaröld, útrásarherrarnir hreinlega keyptu frambjóðendur).

Spurt er: Vill Eiríkur Bergman vera með í þeirri baráttu eða vill hann láta Eirík Friedman halda áfram að stjórna sínum  pólitíska vilja, hefta sitt innra frelsi?

Auk þess legg ég til að eigur útrásarhyskisins verði frystar, samfélagið bólusett gegn frjálshyggjuauðvaldsmennsku og réttað verði í málum útrásarmanna sem fyrst.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

 • Guðmundur Guðmundsson

  Mér finnst þetta fínn pistill en þér verður ekki fyrirgefið að hæðast að Eiríki Bergmann. Honum er ætlað að gefa stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum fræðilegt yfirbragð. Vei þeim sem stjakar við honum.

 • Stefán Snævarr

  Hæðist ég að honum? Ekki fæ ég séð að svo sé. Eiríkur er fínn í Evrópumálum en hefur einvern íslenskan frálshyggju-guðfræðitendens í öðrum málum.

 • Ómar Harðarson

  Mér finnst þetta nokkuð ruglingslegt. Frelsi einskaklingsins er ekki endilega hugsjón frjálshyggjumanna. Í Kommúnistaávarpinu skrifuðu Marx og Engels um draumaþjóðfélagið: „Í stað hins gamla borgaralega þjóðfélags með stéttum sínum og stéttaandstæðum rís þá upp samfélag manna, þar sem frjáls þróun hvers einstaklings er skilyrði fyrir frjálsri þróun heildarinnar.“

 • Stefán Snævarr

  Athugaðu Ómar að ég segi beinum orðum a) að sósíalistinn Gerry Cohen sé fylgjandi neikvæðu frelsi, b) að vinstrimenn séu yfirleitt jákvæða frelsisins megin.
  M.ö.o. það kemur skýrt fram í færslunni að frjálshyggjumenn eiga engan einkarétt á frelsishugsjóninni. Lestu hana betur.

 • Ómar Harðarson

  Ég er ekki svo viss um að skiptingin í jákvætt/neikvætt frelsi eða ytra/innra frelsi sé svo gagnleg. (Ég las greinina aftur, hún varð minna ruglingsleg fyrir vikið). Innprentað trúarrugl sem kemur í veg fyrir heilbrigða hugsun er ekki síður áþreifanlegt en ritskoðun sem kemur í veg fyrir heilbrigða umræðu.

  Vandamálið er að flestir tala um frelsi sem ástand. Ég vil frekar líta á það sem prósess, þróun. Maðurinn sem situr afskiptalaus upp í sófa er ekki frjáls/ófrjáls. Það kemur ekki í ljós fyrr en hann sprettur upp og skrifar skammargrein á Eyjuna. Þannig má sjá fyrir sér tvær tegundir frelsissviptingar, annars vegar jákvæða sem fólgin er í ritskoðun á Eyjunni og hins vegar neikvæða sem fólgin er í því að gaurinn á ekki tölvu.
  Kapitalisminn, hvað sem um hann má annars segja, hefur þó átt sinn þátt í að lyfta flestum hindrunum af þessu tagi. En aðferðirnar sem hann beitir eru ekki geðslegar oft á tíðum.

 • Stefán Snævarr

  Ómar það er nákvæmlega ekkert ruglingslegt við þessa grein. En þér er frjálst að vera óssammála mér.
  Ritskoðun er almennt talin hindrun á neikvæðu frelsi en skortur á mætti sem kemur fram í að einhver á ekki tölvu vegna þess t.d að samfélagið skiptir tekjum ójafnt, myndi vera hindrun á jákvæðu frelsi.
  Segjum t.d. að fátækt Afríku stafi af arðráni Vesturlanda. Þá má segja að sú staðreynd að fólk í Afríku er allmennt síður tölvuvætt en á Vesturlöndum sé frelsissvipting.

 • Ómar Harðarson

  Það að greinin hafi orðið „minna ruglingsleg“ við yfirlestur bendir nú til að ruglingurinn hafi ekki síður verið hjá lesandanum 🙂

 • Blessaður Stefán.
  Það er þarft að þú bendir á múturnar í sambandi við prófkjörin. Nú er Alþingi að ræða lög í þessu sambandi, en heldurðu þá ekki að hvuttarnir þar á bæ, ætli að takmarka upplýsingaskyldu varðandi fjárhagslega aðstoð við frambjóðendur, við vilja styrkveitenda.
  Bestu kveðjur í Litlahamar,
  P.H.L.

 • Var hugsað til þín við gröf Zola í liðinni viku.

 • Stefán Snævarr

  Þakka þér fyrir Ómar, kannski það sé rétt.
  Pétur, ég er handviss um að prófkjaramútur sé ein ástæðan fyrir linkind í útrásaruppgjöri.
  Snorri, þakka þér fyrir, fallega hugsað.

 • Steinþór

  Og hvað Snorri, vildirðu að hann væri komin við hliðina á Zola?

 • Stefán Snævarr

  Það væri nú aldeilis flott ef ég væri dauður og í heiðursgrafreit Frakka! Er ekki Zola annars þar?
  Er ekki verið að ræða um Emile Zola en ekki knattspyrnukappann ítalska, Gianfranco Zola?

 • Magnús Jónsson

  „Eiríkur er fínn í Evrópumálum en hefur einvern íslenskan frálshyggju-guðfræðitendens í öðrum málum.“

  Stefán, ég hallast að því að Eiríkur sé bara samkvæmur sjálfum sér. Hann sér frelsishugmyndir sínar holdgast alveg skítsæmilega í ESB!

 • Stefán Snævarr

  Magnús, ESB er hreint kratabandalag, holdgervingur frjálslyndrar jafnaðarstefnu, EKKI frjálshyggju.

 • Magnús Jónsson

  Stefán, það er mörg frjálshyggjan. Ein lifir góðu lífi í „kratabandalaginu“. Þegar Eva Joly skrifaði sína fjögra-blaða-grein á dögunum var hún fyrst og síðast, eins og græningjar gera almennt á Evrópuþinginu, að andæfa þeirri Brussel-frjálshyggju sem leggur blessun sína yfir eftirlitslítið fjármálakerfi – sem hagfræðingar þér kunnugir, Krugman og Stiglitz, segja að sé lítið skárra en hið bandaríska.

  Nú hef ég ekki lesið Eirík Bergman samlede værker. En af því sem ég hef séð virðist mér hann
  ósköp venjulegur frjálshyggjukrati. Og slæmur misskilningur hjá þér ef þú heldur að það sé skortur á slíkum á valdastólunum í ESB.

 • Stefán Snævarr

  ESB er mikið fyrir opinbera styrki, dælir þeim í útkjálka, þess utan mjög reglugerðarsinnað, sbr ákvæði um stærð á smokkum. Það telst ekki frjálshyggja.

 • Magnús Jónsson

  Útkjálkastyrkir og smokkastærð eru smotterí hjá hinu: mógúlarnir hafa frelsi til fara sínu fram. Það ER fjálshyggja! Og kratafrjálshyggja er það þegar ríkið hleypur svo undir bagga með þeim eftir að allt er komið um koll, svona rétt til að gefa þeim frelsi til halda áfram eina ferðina enn.
  Einkavæða gróðann og þjóðnýta tapið, er það eitthvað sem ekki þekkist í „kratabandalaginu“?

 • Náttfari

  Ákvæðið um smokkinn Stefán … hvað það ekki á um sérstaka tillitssemi við Ítali, ef ég man rétt?
  😉

 • Náttfari

  Kvað, átti að standa þarna …

 • Stefán Snævarr

  Náttfari, er ónefndur líkamshluti Ítala af sérstakri stærð? Berlusconi virðist alla vega vera með einn í óvenjulegum stærðarflokki.

 • Náttfari

  Já Stefán, eða svo las ég þessa EURO-smokks umræðu í mogganum á sínum tíma, og ekki lýgur hann!
  Þetta var víst þannig að vegið meðaltal limstærðar spagettíæta dró niður þetta sama meðaltal heimfært á afgang Evrópubúa og réðist því stöðlun (fínt ÓMÓ orð) þessa EURO-gúmmís af frádrætti þessarar innbyggðu skekkju.
  Efast um Mússólínító nái einu sinni að fóðra svona grip, maður sem gengur um á háhæluðum skóm (sökum minnimáttarkenndar smæðar).

  PS. Þessi Eiríkur, gef perónulega ekki mikið fyrir „fræði“ – frekar en læriföður hans.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is