Föstudagur 14.10.2016 - 20:13 - FB ummæli ()

Hundeltur af Aaron Sorkin

„Aaron Sorkin teaches screenwriting – Exclusive screenwriting class for only 90$“. Svona leit fyrirsögnin út á skjánum hjá mér þegar ég ætlaði að kveikja á stuttu Youtube myndbandi úr hinum frábæru West Wing þáttum. Nú er ég einn af þeim sem skrifar og skrifar og geymi það í skúffunni – eða í nútímaútgáfu af skúffunni, möppu í my documents.. Þannig vakti þetta mikinn áhuga hjá mér, ég ýtti á tengilinn í auglýsingunni og las þetta í svona 30-40 sekúndur. Ég lokaði auglýsingunni, en tók þá ákvörðun að þetta myndi ég skoða um næstu mánaðarmót, ef það verður afgangur eftir verðtryggðar greiðslur af húsnsæðisláni, greiðslur til dagforeldris, og allt sem fylgir því að vera ungt foreldri á Íslandi í dag..

Seinna um kvöldið hafði ég nýlokið við að svæfa son minn, settist í gamla góða hægindastólinn og kveikti á Facebook. Þar hafði Facebook eins og ávallt nýtt sér upplýsingar þeirra um mig og raðað á skjáinn þeim fréttum, myndum, stöðuuppfærslum og deilingum, sem ég á að hafa mestan áhuga á. Reiknirit Facebook brást ekki, fyrsta færslan var deilingar vina minna á fréttum um komandi formannskjör í Framsóknarflokknum. Síðan hafði yngri systir mín deilt mynd af sér og sérstaklega krúttlegri dóttur sinni (grínlaust.. sprengir skalann). En viti menn, þar á eftir var komin auglýsing frá Masterclass, um kennslu í handritaskrifum frá Aaron Sorkin!

Ef e-r veit ekki hver Aaron Sorkin er, og hefur villst inn á þessa bloggfærslu mína, þá er rétt og mikilvægt að ég útskýri örstutt hvers vegna hann er mitt á milli Shakeaspeare og Dumas á mínum lista yfir merkustu skáldin. Aaron Sorkin ber ábyrgð á West Wing, hann var aðalhandritshöfundur (og framleiðandi) á fyrstu 4 þáttaröðum þeirra snilldarþátta. West Wing er (eða a.m.k ætti að vera) óumdeilt einn af hápunktum sjónvarpssögunnar. Ef e-r er ósammála, þá mæli ég með þessu: https://www.youtube.com/watch?v=DSXJzybEeJM .

Það kemur í ljós að Aaron er ekki bara snillingur þegar kemur að skrifum, hann hefur annan stóran hæfileika. Maðurinn er alveg sérstaklega ákveðinn sölumaður. Alveg frá því að ég sá fyrstu auglýsinguna, ýtti á tengilinn og eyddi 30 sekúndum í að lesa auglýsinguna, þá hefur hann elt mig á röndum. Í hvert einasta sinn sem ég fer á Youtube, í hvert einasta sinn sem ég fer á Facebook og yfirleitt þegar ég er að ráfa á milli síðna á netinu – þar er Aaron. Hann er meira að segja farinn að heilsa upp á konuna mína, ég sá hann útundan mér um daginn þegar hún var á Facebook.

Þrátt fyrir aðdáum mína á Hr. Sorkin, þá er þetta orðið ágætt. Þetta vekur líka upp ýmsar spurningar hjá mér. Internetið og sérlega risasíður eins og Youtube og Facebook, eru miklu meira en bara vefsíður sem maður heimsækir – þetta er stór hluti af nútímasamfélaginu. Með því að klikka á þessa auglýsingu, gaf ég leyfi til þess að mér yrði sýnd auglýsingin í hvert skipti sem ég fer á netið, við hverja Facebook heimasókn? Við hvert Saturday Night Live myndband á Youtube?

Í þessu máli er ég eins og maðurinn sem mætti til Normandy nokkrum dögum eftir D-dag.. Þetta er risastór barátta sem er og hefur verið í gangi. Og þessar pælingar mínar eru ekki nýjar. En eftir að hafa upplifað það að vera hundeltur síðustu vikur af snillingnum Sorkin, þá er ég tilbúinn að draga upp minn fána og skipa mér í lið með þeim sem tala fyrir frelsi einstaklingsins á netinu – frelsi til að velja sjálfur hvenær ég hitti Aaron Sorkin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.8.2016 - 17:32 - FB ummæli ()

Tryggjum gæði og framboð íslenskukennslu fyrir innflytjendur

“Þetta er röng notkun á lýsingarhætti þátíðar” sagði konan mín við mig þegar ég hafði beðið hana um að lesa yfir pólitíska grein sem ég var að skrifa í tilefni af síðustu kosningabaráttu (mikla tímamótagrein um hugmyndir mínar um breytingar á fyrirkomulagi listamannalauna) sem var þá í fullum gangi. Hún er nefnilega á margan hátt betri en ég í íslensku, sem er sérstakt fyrir það að hún byrjaði fyrst að tala íslensku þegar hún var 22 ára þegar hún fluttist hingað frá Perú. Síðan þá hefur hún stundað íslenskunám, fyrst hjá Mími og svo kláraði hún B.A gráðu í íslensku fyrir útlendinga við Háskóla Íslands. Íslenskukunnátta hennar hefur reynst henni gríðarlega vel, bæði í einka- og atvinnulífi.

Hún átti möguleikann á því að fara í hágæða íslenskunám, þar sem gæði námsins voru 100% tryggð. Því miður er það ekki þannig fyrir alla innflytjendur, það eiga ekki allir möguleika/tíma til þess fara í 3 ára 100% háskólanám í íslensku, og gæði og skipulag sums annars náms sem er í boði er misjafnt. Það eru margir kennsluaðilar sem eru standa sig vel, en ekki allir. Síðan vantar mikið upp á að það nám sem er í boði, svari þörfum bæði innflytjenda og atvinnulífsins.

Í úttekt Mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá síðasta ári er farið heildstætt og vel yfir gæði íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þar kemur í fyrsta lagi fram að það er margt gott í gangi og margir fræðsluaðilar standa sig vel, en það er líka margt sem þarf að bæta. Í úttektinni kemur fram að á árunum 2012-2014 sóttu 14.452 námskeiðin. Heildarfjöldi námskeiða var samtals 955 hjá 15 fræðsluaðilum. Fjöldinn er af þeim skala að það er ljóst að það er gríðarlega mikilvægt að gæði námsins séu tryggð, og að þau svari þörfum þátttakendanna. Fyrir atvinnulífið og samfélagið allt er gríðarlega mikilvægt að þessir 15 þúsund einstaklingar fái það sem þau vilja og þurfa út úr þessu námi.

Í úttektinni kemur það skýrt fram að eitt stærsta verkefnið er að tengja betur saman íslenskukennsluna og atvinnulífið, bæði til að styrkja fólk í sínu starfi, auka möguleika þeirra í atvinnulífinu og sérlega til að veita þeim aukin tækifæri til að æfa sig í tungumálinu. Það er vel hægt að laga þetta, það eina sem þarf til er viljinn. Ég sé sjálfur fyrir mér að mögulegt (og hentugt) ætti að vera að sækja atvinnutengd íslenskunámskeið í öllum helstu atvinnugreinum: “Íslenska og læknisfræði”, “Íslenska og ferðaþjónusta”, Íslenska og verkfræði” o.s.frv. Það er lykilatriði að mögulegt sé fyrir alla innflytjendur að virkja að fullu menntun sína og reynslu, bæði fyrir þau sjálf og samfélagið allt. Þegar t.d hámenntaður og hæfur læknir getur ekki starfað sem slíkur, skaðar það okkur öll. Skortur á aðgengi að framúrskarandi og nútímalegri íslenskukennslu er aðgangshindrun (ein af mörgum), sem þarf að lagfæra.

Viðkvæmur rekstrargrundvöllur íslenskukennslu fyrir útlendinga á landsbyggðinni er annað verkefni sem þarf að leysa. Fram kemur í úttektinni að sumar símenntunarstöðvar á landsbyggðinni eiga í erfiðleikum að ná lágmarksþáttöku á námskeið. Því er það algengt að fræðsluaðilar eiga frumkvæði að því að fá nemendur á námskeið, t.d með því að heimsækja og skipuleggja með vinnustöðum – sem er frábært framtak. Það er samt ljóst að það þarf að gera meira til að styrkja íslenskunámið alls staðar á landinu, og þar hlýtur að þurfa að horfa til nútímatækni. Á sama hátt og háskólanemar á Íslandi geta tekið þátt í heimsklassa námskeiðum við Harvard og fleiri hágæða erlenda háskóla, þá hlýtur að vera hægt að skipuleggja íslenskukennsluna þannig að aðgengi að henni sé almennt, hvar á landinu sem þú býrð. Í úttektinni er einnig bent á nokkur önnur atriði sem þarf að skoða og vel er hægt er að vinna í, t.d endurskoðun grunnnámskrár, fyrirkomulag úthlutanar styrkja, kennsluaðferðum og námsmati.

Við í Innflytjendaráði höfum unnið fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra að gerð nýrrar þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016-2019. Innflytjendaráð er samstarfsvettvangur ríkis, sveitarfélaga og innflytjenda sem m.a er falið að vinna að stefnumótun og samhæfingu í málaflokknum. Í nýrri framkvæmdaáætlun eru uppi metnaðarfullar áætlanir um umbætur á gæðum íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Mennta- og Menningarmálaráðuneytið á fulltrúa í Innflytjendaráði og komu fleiri innan ráðuneytisins að gerð menntastoðar framkvæmdaáætlunarinnar, en ráðuneytið mun samkvæmt áætluninni bera ábyrgð á framkvæmd þeirrar aðgerðar sem snýr að íslenskukennslunni.

Framkvæmdaáætlunin, sem er núna í þinglegri meðferð, er gríðarlega metnaðarfull og mun á margan hátt stórbæta hag innflytjenda hér á landi. Ef Alþingi samþykki hana mun það þýða að unnið verður að umbótum á öllu kerfinu eins og það snýr að íslenskukennslunni: “kennsluháttum, nemendaskráningu, jöfnum aðgangi að námi, fjölbreyttum námsleiðum, samfélagsfræðslu og námsframvindu nemenda”. Auk þess verða útbúin gæðaviðmið, sem er gríðarlega mikilvægt. Stofnaður verður starfshópur sem fær það verkefni að “efla gæði og framboð íslenskukennslu fyrir innflytjendur þannig að íslenska nýtist einstaklingum til virkrar þátttöku í samfélaginu. Það er vissulega bara fyrsta skref að Alþingi samþykki framkvæmdaáætlunina og það er mikil vinna framundan. En þegar Alþingi hefur með þingsályktun staðfest mikilvægi umbóta á íslenskukennslunni, þá erum við fyrir alvöru komin af stað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.5.2016 - 23:11 - FB ummæli ()

Af hverju er rautt ljós á innflytjendur í áhrifastöður og opinber störf?

Á Alþingi eru 63 þingmenn. Ef lýðfræðileg samsetning Alþingis ætti að endurspegla samfélagið í heild, þá ættu 6 þingmenn að vera fyrstu eða annarrar kynslóðar innflytjendur. Í ársbyrjun 2015 var fyrsta kynslóð innflytjenda 8,9% af íbúafjölda landsins, eða 29.192 talsins, og önnur kynslóðin nam 1,1% af íbúafjölda landsins. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórnum er mjög lítill og innflytjendur eru allt of fáir í opinberum störfum. Auk 6 þingmanna ætti 1 ráðherra að vera innflytjandi og 1-2 borgarfulltrúar. Raunveruleikinn er annar – núll, núll og núll!

Nú hef ég bara nokkrum sinnum tekið sæti á Alþingi sem varaþingmaður, en sú reynsla hefur verið næg til að sannfæra mig um velvilja fulltrúa þar til að gera vel fyrir alla sem búa hér á landi. Það eru margir þingmenn sem leggja sig gríðarlega fram við stefnumótun í málefnum innflytjenda, en það er bara ekki það sama og að hafa fulltrúa sem eru sjálfir innflytjendur.

Það er komin frekar almenn sátt um að æskilegt sé að konur séu helmingur kjörinna fulltrúa – sem er algerlega eðlilegt. Ætti ekki það sama að gilda um innflytjendur? Er ekki æskilegt að samsetning kjörinna fulltrúa og fólks í áhrifastöðum endurspegli að innflytjendur séu 1 af hverjum 10 íbúum hérlendis? Mitt svar við þessu er eitt risastórt já! Ef Alþingi, sveitarstjórnir, ráðuneyti og stofnanir eiga að ná fram sem bestum árangri fyrir alla íbúa landsins, þá hlýtur samsetning þeirra að þurfa að endurspegla landið sem við raunverulega búum í.

Ég gegni embætti formanns innflytjendaráðs, þar sem við ásamt starfsmönnum Velferðarráðuneytisins höfum unnið í umboði og eftir leiðbeiningum Eyglóar Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, að gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar í málefni innflytjenda. Ráðherra hefur nú lagt fram þá þingsályktunartillögu á Alþingi: http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=765.

Í framkvæmdaáætluninni er ein aðgerð sem snýr að þessu máli. Þar er það sett sem markmið að „opinber þjónusta og atvinnulífið njóti þeirrar þekkingar og reynslu sem innflytjendur búa yfir og að hlutfall þeirra í þessum störfum endurspegli lýðfræðilega samsetningu samfélagsins“. Stofnaður verður sérstakur starfshópur sem fær það hlutverk að skoða málið heildstætt og leggja til hvernig auka megi hlutfall innflytjenda í starfsliði opinberra stofnana og í áhrifastöðum í þjóðfélaginu.

Það er gott fyrir okkur öll að við nýtum hæfileika og styrkleika allra íbúa í landinu okkar – og það er ekkert nema sjálfsagt að við vinnum meðvitað að því markmiði – eins og t.d Trudeau og frjálslyndi flokkurinn eru að gera í Kanada. Til að vitna (næstum því rétt) í Bill Clinton þá er það okkur öllum til hagsbóta ef Alþingi, sveitarstjórnir og stjórnkerfið almennt munu „líta út eins og Ísland“.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is