Miðvikudagur 23.01.2013 - 19:00 - 14 ummæli

Hvað er í pakkanum?

Kjartan Gunnar Kjartansson skrifar góða grein í Morgunblaðið í dag um þá möntru vinstrimanna að við þurfum að kíkja í pakkann í hinum svonefndu aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem eru auðvitað ekkert annað en aðlögunarferli.

Hvað er í pakkanum? Það erum við sjálf. Þetta er bögglasending til Brüssel, eitt stykki smáþjóð með verðmæt fiskimið og orkulindir og hugsanlega olíu einhvers staðar innan efnahagslögsögunnar.

Það eru engir aðrir pakkar á leið til og frá okkur. Það er ekki verið að semja um eitt eða neitt í Brüssel, eins og Evrópusambandið hefur margsinnis sagt okkur. Það er aðeins verið að fara yfir lista um ýmis mál og haka við þau sem Íslendingar hafa lagað að reglum Evrópusambandsins.

Þegar menn ganga í lokaða klúbba hefja þeir ekki samningaviðræður um reglur klúbbsins. Þeir lofa að fara eftir reglum klúbbsins. Það eina sem er í boði stundum eru tímabundnar undanþágur, sem eru þá alltaf á náð þeirra sem stjórna klúbbnum.

Við erum margir Íslendingar sem viljum ekki vera í einhverjum pakka sem Össur, Jóhanna og Steingrímur senda til Brüssel.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

 • Elvar Örn Arason

  Cameron lýsti því yfir í morgun að Bretar ætluðu að reyna að að endursemja um aðild sína að ESB. Ræðan hans afhjúpaði tvær algengar mýtur Evrópuandstæðinga. Í fyrsta lagi það er hægt að ganga úr Evrópusambandinu og í öðru lagi að það er um eitthvað að semja.

 • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

  ,,Með verðmæt fiskimið“! En Skapti vilt þú ekki að nokkrir fái séreign á fiskinn? Fyrir mér skiptir engu máli hvort það sé Íslendingur eða Útlendingur.

 • Rafn Guðmundsson

  svar við spurningunn er: kemur í ljós þegar samningum er LOKIÐ

 • Örvar Arnarson

  Elvar: Reyndar er það rangt hjá þér, annars vegar er ekki í boði fyrir Breta að semja um breytingar á ESB, þó honum langi það (eða segist langa það). Það hefur komið skýrt fram í umræðunni síðustu mánuði.

  Þá sýnir þetta jafnframt hvað það er erfitt að komast út úr ESB þar sem stjórnmálaelítan kiknar í hnjánum þegar hún sér Brussel gullið. Cameron hefur lofað áður kosningu um ESB en sveik það, og hvað þýðir það að lofa einhverju 2017 þegar kosið verður um nýja ríkisstjón 2015. Af hverju heldur hann sig ekki við fyrra loforð og boðar inn/út kosningu eftir fáeina mánuði?

  Jóhann: Það skiptir miklu máli að íslendingar veiði og vinni fiskinn. Það er fiskur sem sér til þess að þú hafir í þig og á. Í þessu samhengi er jafnframt mikilvægt að Íslendingar hafi ráðstöfunarrétt á aflaheimildum. Menn sem búa á landsbyggðinni, ekki einhver gaur í Ungverjalandi.

  Rafn: Staðreyndirnar tala sínu máli, það er ekki verið að semja um eitt né neitt. Í mesta falli er hægt að semja um tímaramma um það hvernig við aðlögumst lögum ESB. Því er það rangt að halda því fram að það komi í ljós þegar samningum er LOKIÐ.

 • Meh.

  Ég er sammála því að það er væntanlega um lítið að semja. En það hjálpar ekki málstaðnum að endurvekja mýtuna um að þessar takmörkuðu auðlindir okkar vekji sérstaka athygli ESB.

  Við höfum ríkar auðlindir miðað við 300.000 manna örþjóð. En það er eini mælikvarðinn sem við höfum ríkar auðlindir á.

 • Sigurður Haukur

  En hvað með EES Skafti? Það er nú aldeilis pakki sem við þurfum að kyngja.

 • Stærsti pakki sem þessi þjóð hefur þurft að opna var auðvitað peningaóstjórn Davíðs Oddssonar með öllum þeim þjófnaði sem þá var í boði fyrir útvaldi vini og einn og einn óvin.

  ESB getur aldrei orðið verra en sá þjóðarstuldur.

  Ef ESB hjálpar þjóðinn að halda krumlum þessa sama liðs frá þjóðareignum, í framtíðinni, þá skal ég ganga hundrað sinnum í það.

 • Egill egilsson

  T.d. Stöðugur gjaldmiðill, lægri vextir og hugsanlega sér lausnir í landbúnaði og sjávarútvegi.

 • Örvar Arnarson

  Egill: hvaða gagn er að þessum stöðuga gjaldmiðli fyrir alla þá Grikki, Ítali, Portúgala og Spánverja sem eru atvinnulausir. Það er gríðarlegt atvinnuleysi í þessum löndum. Og Frakkar byrjaðir að svitna líka.

  Lægri vextir: Reglugerð nokkur kveður á um 3,5% raunávöxtunarkröfu fyrir lífeyrissjóði, það er hægt að afnema þessa prósentu. Láta markaðinn koma á einhverri kröfu. Greiðslur í lífeyrissjóð er langstærsi sparnaður landsmanna.

  Þá er ágætt að benda á að þessir lágu vexti sem voru stýrðir af Seðlabönkum USA og í Evrópu voru upphafir að alþjóðlegri lánabólu sem sprakk

  Hvaða sérlausnir, það er ekkert slíkt í boði. Þarf ekki að ræða slíkt.

 • Örvar,
  Miklu frekar vil ég biðja um stöðugan gjaldmiðil, lága vexti og raunveruleg tækifæri almennings til að EIGNAST eitthvað í húsnæði sínu, heldur en núverandi fyrirkomulag með íslenskri krónu, óviðráðanlegri verðbólgu (frá upphafi) sem leiðir af sér stórtæka eignaupptöku, sérstaklega hjá þeim sem „eiga“ skuldsettar eignir á borð við húsnæði.
  Fórnin er að efnahagssveiflur koma harðar fram um leið og þær gerast, og leiða til aukins atvinnuleysis og kalla á hraðar lausnir / aðgerðir stjórnvalda. Íslensk pólítík myndi gjörbtreytast þegar stjórnvöld geta ekki velt vandanum inn í framtíðina og afskrifað með gengis-fiffi virði á eigum almennings og stóraukið skuldaklafann í gegnum verðbólguna.

  Þeir sem trúa á íslensku krónuna eru í raun að segja að þeir treysti íslenskum pólítíkusum, sama í hvaða flokki eða á hvaða tíma. Ég kýs fremur að treysta stöðugum og sterkum gjaldmiðli að vísa okkur veginn inn í framtíðina. Ég spái því að eftir 15-20 ára verði hlegið að umræðum eftirhrunsáranna og þeim spekingum sem hafa verið að verja íslensku krónuna. Það verður litið á þetta sömu augum og mótmæli við upptöku símans á Íslandi á sínum tíma.
  Góðar stundir.

 • Örvar Arnarson

  Mási: Í þessum orðum þínum fellst sú fullyrðing að íslenskir stjórnmálamenn séu verri en erlendir. Það er langt frá því að vera raunin. Þú ættir að hlusta á þessa herramenn í Brussel; Barroso, Herman van Rompuy, Sarkozy og þessa félaga.

  Það eru til ýmsar leiðir í peningamálum, en að gerast hreppur í nýju ríki Evrópusambandsins er ekki fýsilegt til að taka upp Evru.

  Ég keypti mér mína fyrstu íbúð 1999, og þrátt fyrir verðbólgu og hækkandi höfuðstól þá eignaðist ég mikið í henni. Fasteignaverð hækkar með verðbólgu og launin meira.

 • Skafti. Mér finnst þú yfirleitt vera inni í afar þröngum pakka í öllum málflutningi þínum og útsýni þitt úr pakkanum gegn um rör. Sem sagt rörsýn á lífið og tilveruna.

 • Örvar,
  Ég geri ráð fyrir að þú hafir séð samantekt á því hvernig eigið fé stórs hluta heillar kynslóðar gufaði upp eftir hrunið, kynslóðar sem var að festa fé í húsnæði á ákveðnu árabili fyrir hrun. Kannski finnst þér slíkt lítið tiltökumál af því að þú persónulega komst vel frá borði. Ég vona samt að þú sért ekki svo sjálfhverfur.
  Varðandi íslenska pólítíkusa þá hefur það margsýnt sig að þeir ná ekki að vinna gegn verðbólgunni, í gegnum alla söguna. Í besta falli hefur verið skapleg verðbólga hér um fárra ára skeið, en þau tímabil voru að hluta byggð á blekkingum (of sterkri krónu vegna hávaxtastefnu). Ég held að það hafi ekki nema að hluta til með gæði íslenskra stjórnmálamanna að gera, heldur er herkostnaður við krónuna einfaldlega það mikill að það viðheldur háum vöxtum og verðbólgu.
  Íslensk króna er meinsemd í íslensku samfélagi. Eins og ég sagði í fyrri pósti þá verður hlegið að skoðunum krónusinna eftir fáein ár. Vittu til.
  Gleðilegan bóndadag.

 • Örvar Arnarson

  Mási minn, rétt eins og þú bendir á sjálfur þá er gott að vera með eigin gjaldmiðil á krepputíma. Það segir sig sjálft. Að sjálfsögðu var verðbólga (eða gengisfelling) við bankahrunið en það orsakaði mun lægra atvinnuleysi en gengur og gerist. Ég er reyndar hluti af sjálfhverfu kynslóðinni, en það er annað mál.

  Ég fór illa úr bankaáfallinu eins og allir aðrir og eigið fé þurrkaðist upp, en þú sjálfur vildir miða við að gott væri að vera með „sterkan og stöðugan“ gjaldmiðil, nema þegar kreppa er – því er ég að bera saman þann tíma. Ekki hrunið. Ég var eingöngu að segja að þrátt fyrir verðbólgu t.d. 1999-2007 þá var kaupmáttaraukning samhliða og hækkun fasteignaverða. Það er síðan annað mál hvort við ættum að vera svona háð verðtryggðum lánum.

  Ég tel mig ekki „krónusinna“, en ég tel að það sé hreint út sagt fáránlegt að ganga í ESB til að taka upp Evru. Við eigum að vera sjálfstæð þjóð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is