Laugardagur 7.1.2017 - 00:27 - FB ummæli ()

Á ég að gera það?

Íslendingar ættu að spyrja sig að því, hvaða erindi auðmenn á borð við formenn Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eiga í þau verk að  gæta almannahagsmuna. Efast má um að þeir geti sett sig í spor fólks sem er að vandræðast með að láta enda ná saman.

Í þessu ljósi verður að sýna því skilning þegar formaður Sjálfstæðisflokksins telur fólk andlega veiklað, sem hefur einhverjar áhyggjur sem hann sjálfur botnar ekkert í, á borð við að eiga ekki fyrir leigunni.

Sömuleiðis er tímabært að íslenskur almenningur spyrji líkt og Indriði gerði í Skaupinu – Hver ber ábyrgð á þessu? Hver ber ábyrgðina á að greiða alla þessa skatta, í ljósi þess að auðmenn og helstu ráðamenn landsins hafa orðið uppvísir að því að skjóta gríðar háum fjárhæðum undan skattgreiðslum?

Á ég að gera það?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.1.2017 - 00:14 - FB ummæli ()

Ljósmóðirin Katrín Jakobsdóttir

Umræðan sem fram fór í Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag markaðist af því að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar auk viðhengisins BF, er í burðarliðnum. Formaður Vg á veigamikinn þátt í  fæðingu nýrrar stjórnar, þar sem Vg sleit viðræðum um myndun 5 flokka ríkisstjórnar í tvígang. Það sem steytti á í viðræðum flokkanna 5, var fyrst og fremst að Vg vildi ekki breyta kvótakerfinu í sjávarútvegi. Í sjálfu sér er það æði undarlegt að flokkur sem segist vera til vinstri skuli halda verndarhendi yfir kerfi sem þjónar fyrst og fremst örfáum auðmönnum. Kerfið hefur leitt til mikillar samþjöppunar, þannig að sá 300 milljarða hagnaður greinarinnar frá árinu 2009, hefur runnið með hverju árinu sem líður  í færri og færri vasa. Mikið vill meira –  þannig að stórútgerðin hefur sótt fast að kjörum sjómanna, sem hafa neyðst til þess að fara í verkfall.

Í Kryddsíldinni  geislaði formaður Vg af ánægju yfir stöðunni í landsmálum og gerði enga athugasemd við að ný ríkisstjórn undir forystu Panamráðherra, væri í þann mund að sjá dagsins ljós. Í stað þess að mæta málflutningi Bjarna Benediktssonar af festu, sem reyndi að gera lítið úr þeirri sorglegu staðreynd að æðstu ráðmenn Íslands hefðu verið staðnir að því að fela fé fyrir skattayfirvöldum á Tortóla og Lúxembúrg, þá tók formaður Vg þátt í að drepa umræðunni á dreif með einhverju tali um kerfið.

Það væri áhugaverð tilraun að texta þá kósíumræðu sem fram fór í þættinum og fá útlendinga sem ekki þekktu til íslenskra stjórnmála til að horfa þáttinn.  Það kæmi mér ekki á óvart ef helsta niðurstaðan úr slíkri tilraun vera þá, að Bjarni væri formaður í stjórnarflokki og Katrín Jakobsdóttir væri hans helsti bandamaður. Mikil almenn ánægja var hjá fulltrúum allra flokka um að koma fjárlagafrumvarpi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks nánast óbreyttu á hraðferð í gegnum þingið. Hraðferðin á fjárlagfrumvarpinu og fleirir mál á borð við frumvarpið um skerðingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna, var jafnvel talin gefa fyrirheit um aukna virðingu Alþingis og gilti þá einu megn óánægja opinberra starfsmanna með málsmeðferðina.

Á Íslandi eru fjölmörg verk að vinna fyrir framsýna stjórnmálamenn m.a. á svið húsnæðismála sem tengist mjög afkomu ungs fólks og framfærslu lífeyrisþega. Það sker í eyru að heyra fullrúa stjórnmálaflokka halda því fram að núverandi biðstaða við stjórn landsins sé einhver óskastaða. Sömuleiðis hlýtur það að vera áhyggjuefni þegar formaður stærsta stórnmálaflokks landsins skuli úthrópa réttmæta og þarfa þjóðfélagslega gagnrýni  m.a.  aukna á misskiptingu auðs eða óstjórn í heilbrigðiskerfinu sem einhverja geðveiki.

Ólíkt Bjarna Benediktssyni þá hef ég ekki áhyggjur af aukinni geðveiki á Íslandi heldur miklu frekar aukinni meðvirkni.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.12.2016 - 20:40 - FB ummæli ()

Vg-liðar tvöfaldir í roðinu

Það  átti ekki að koma á óvart að Vg hafi látið steyta á breytingum á fiskveiðikerfinu í stjórnarmyndunarumræðum með Pírötum, BF, Viðreisn og Samfylkingu.

Í kjölfar hrunsins mynduðu Vg og Samfylkingin hreina og tæra vinstristjórn, fyrst minnihlutastjórn í boði Sigmundar Davíðs sem breyttist síðan í meirihlutastjórn. Í aðdraganda kosninganna árið 2009, lofuðu flokkarnir að koma á grundvallarbreytingum á stjórn fiskveiða m.a. auknu frelsi og innköllun veiðiheimilda. Reyndin varð allt önnur, en í stað frumvarps um raunverulegar breytingar þá  kom fram tillaga þegar farið var að líða verulega á kjörtímabilið, um að festa kerfið óbreytt í sessi, til  nokkurra áratuga.

Í upphafi ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vg  skrifuðu Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir upp á í svokallaðan stöðugleikasáttmála við atvinnulífið og ASÍ ofl., um að ekki yrði ráðist í neinar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, nema að það yrði gert í sátt við LÍÚ inn í sáttanefnd. Í stuttu máli sagt þá voru boðaðar breytingar flokkanna svæfðar inn í nefndinni og þær tillögur sem komu á endanum fram, voru svo þvældar eins og að ofan greinir, að búið var að hafa endaskipti á hlutunum þ.e. festa átti kerfið í sessi.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra reyndi á kjörtímabilinu að koma á ýmsum breytingum á alvondu kvótakerfi m.a. að koma skötuselnum úr kvóta og leyfði frjálsar veiðar á rækju. Skötuselurinn var þá farinn að veiðast í auknum mæli fyrir vestan og norðan land. Sjómenn fyrir vestan höfðu ekki kvóta í skötusel og rækjuveiðum var þá að mestu hætt og rækjukvótinn notaður í brask. Steingrímur J. barðist gegn öllum þessum breytingum og naut liðsinnis helmings þingflokks Samfylkingarinnar auk ASÍ SA, LÍÚ ofl.  Í varðstöðu um sérhagsmuni og engar breytingar á kvótakerfinu var stöðugleikasamningnum haldið á lofti.  Skötuselsmálið snérist fyrst og fremst um að ráðherra vildi í koma í veg fyrir að grásleppukarlar sem fengu skötusel í veiðarfærin í auknum mæli yrðu ekki gerðir að leiguliðum örfárra útgerða á Suðurlandi, sem réðu yfir öllum aflaheimildum á skötusel.

Á síðasta kjörtímabili undir forystu Sigurðar Inga formanns Framsóknarflokksins, voru þær ágætu breytingar sem Jón Bjarnason hafði komið á þ.e. aukið frelsi til veiða á rækju og skötusel afturkallaðar. Umhugsunarvert er að allir þingmenn Vg greiddu atkvæði með breytingum sem miðuðu að því að koma í veg fyrir jafnræði og frelsi í fiskveiðum.

Atkvæðagreiðslan um frumvarpið sem afturkallaði með ómálefnalegum hætti jafnræði og frelsi til veiða á rækju og skötusel, auk þess sem það veikti grundvöll strandveiða, afhjúpaði endanlega afstöðu þingmanna Vg og S til réttlátra breytinga á stjórn fiskveiða.  Mikil samstaða var á þinginu um frumvarpið vonda. Eflaust hafa einhverjir þingmenn ekki áttað sig á hvað þeir voru að samþykkja en það á þó ólíklega við reynda þingmenn á borð við Lilju Rafney Magnúsdóttur og Steingrím J. Sigfússon.

Sú spurning hlýtur að vakna hvers vegna í ósköpum flokkur sem gerir tilkall til þess að vera lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum skuli halda sérstakri verndarhendi yfir kerfi sem tryggir örfáum aðilum gríðarlegan auð og völd.

Það er eitthvað svo lítið vinstri við stefnu Vg sjávarútvegsmálum og svo lítið að það minnir helst á umhverfisstefnu flokksins sem birtist í ríkisstyrktu stóriðjunni að Bakka.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2016 - 16:47 - FB ummæli ()

Þorskstofninn á niðurleið!

Niðurstöður haustmælinga Hafró gefa til kynna að þorskstofninn sé á hraðri niðurleið.

Fréttirnar hljóta að vekja spurningar í hugum þeirra sem hafa hingað til viljað fylgja ráðgjöf reiknisfiskifræðinga Hafró í blindni. Samdrátturinn verður þrátt fyrir að ráðgjöfinni hafi verið fylgt út í ystu æsar á síðustu árum.  Hafa ber í huga að hrygningarstofninn hefur ekki verið stærri í fjörutíu ár og að nánast ekkert er veitt úr stofninum.  Í skýrslum Hafró kemur fram að veiðihlutfall sé það lægsta frá upphafi stofnmats. Þorskveiðin nú er einungis um helmingur af því sem hún var fyrir daga kvótakerfisins.   Nýliðun þ.e. 3 fiskur sem er að koma inn í veiðina er sömuleiðis mun minni, en hún var árin 1955–1985.

Ef farið er yfir gögn síðustu ára þá blasir það við:

a) Stór hrygningarstofn gefur ekki af sér mikla nýliðun, eins og forsendur núverandi veiðiráðgjafar ganga út á.

b) Minnkuð veiði gefur ekki af sér meiri veiði seinna eins sem er einn af hornsteinum núverandi veiðiráðgjafar.

Engu að síður þá er þróun stofnsins í fullu samræmi við viðtekna vistfræði um að helst sé að vænta mikillar nýliðunar þegar fyrir er í hafinu lítill stofn.  Auknar veiðar skapa því rými fyrir aukna nýliðun og hraðari vöxt einstaklinga.

Niðurstaðan gefur augljóslega tilefni til þess að breyta nýtingarstefnunni og auka veiðar til muna, sérstaklega í ljósi þess að fæða í þorskmögum er með allra minnsta móti.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.12.2016 - 16:06 - FB ummæli ()

2.138 tonnum af þorski hent í fyrra

Einn af vondum fylgifiskum kvótakerfis í fiskveiðum er brottkast og rangar upplýsingar um landaðan afla. Hér er ný skýrsla Hafró sem sýnir fram á að liðlega 2.138 tonn af þorski hafi verið hent í sjóinn í fyrra. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að brottkast þorsks hafi aukist talsvert í bæði línu og botnvörpuveiðum á árinu 2015 og var orðið álíka og mesta reiknaða brottkast í þessum veiðarfærum.

Það er rétt að taka það fram útreikningarnir ná einungis til brottkast af völdum línu- og togveiða en hvorki til dragnóta- né netaveiða, þannig að ætla má að tjónið sem kvótakerfið veldur sé mun meira. Hér er um gríðarlega verðmætasóun að ræða, sem veldur milljarða króna tjóni og það ef einungis er litið til einnar fisktegundar, þorsksins. – Vitað er að upplýsingar um magn á landaðri lúðu eru brot af því sem raunverulega kemur á land.

Allt þetta tal um hagræði og ábyrgar fiskveiðar er meira og minna innihalds áróður fjársterkra aðila sem eru í einokunaraðstöðu í greininni. Fyrir utan algert árangursleysi og sóun kvótakerfisins þá virðist hagræðið ekki vera meira en svo að SFS (LÍÚ) treystir sér alls ekki til þess að greiða markaðsvirði fyrir aflann inn í fiskvinnslur sem reknar eru í tengslum við útgerð í samkeppni við fiskvinnslur án útgerðar!

Var ekki einhver að tala um matarsóun?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.11.2016 - 20:26 - FB ummæli ()

Ráðherrasýning Pírata

Píratar hafa samþykkt  að  verða ekki aðilar að ríkisstjórn nema þá aðeins að ráðherrar hennar muni ekki sitja samtímis á þingi. Fyrirvarinn er eflaust byggður á  því að tryggja betur en nú er 18. alda hugmyndir Montesquieu nái fram að ganga um þrískiptingu ríkisvaldsins.  Aðgreina átti helstu þætti ríkisvaldsins þ.e. löggjafarvald, framkvæmdavald (ráðherravald) og dómsvald. Hver þáttur átti að takmarka og veita hinum þáttunum aðhald og bæta þannig stjórnarfar .

Skipan eintómra utanþingsráðherra mun varla breyta nokkru að óbreyttri stjórnarskrá, þar sem ráðherrarnir yrðu eftir sem áður í starfi upp á náð og miskunn formanna meirihlutaflokkanna sem skipa þá til starfa.  Ákveðin hætta er á að utanþingsráðherrar sem hafa ekki fengið neitt umboð frá almenningi til eins né neins verði síður líklegri til þess að láta til sín taka og „endurræsa Ísland“.

Breytingin með skipan utanþingsráðherra yrði mest til sýnis. Í sjálfu sér má ekki vanmeta góða sýningu í heimi stjórnmála og ekki síst fyrir Pírata sem verða að setja sitt fangamark á breytt vinnubrögð.

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2016 - 13:11 - FB ummæli ()

Kjósendur eru sammála Dögun

Mikill meirihluti kjósenda tekur undir þau sjónarmið Dögunar að vextir séu allt of háir í landinu.
Mikill meirihluti kjósenda tekur undir þá kröfu Dögunar að leggja beri verðtrygginguna af og skipta verðbólguáhættu á milli fjármálafyrirtækja og skuldara.
Meirihluti kjósenda styður hugmyndir Dögunar um að ríkisbönkunum sem enn eru að greiða bónusa og moka eignum til einkavina út um bakdyrnar verði breytt í samfélagsbanka. Forystufólk í Dögun hefur um árabil barist fyrir heilbrigðara fjármálakerfi.
Meirihluti kjósenda styður kröfu Dögunar um að auðveldara verði að virkja beint lýðræði líkt og gafst svo vel í þjóðaratkvæðagreiðslunn um Icesave.
Kjósendur styðja aukið frelsi smábáta til veiða og að í hlutaskiptum sjómanna og útgerðar verði miðað við markaðsverð.
Meirihluti kjósenda styður breytingartillögur Dögunar á lífeyrissjóðakerfinu með það að markmiði að einfalda kerfið og  gera það gagnsærra.
Dögun vill minnka yfirbyggingu kerfisins og minnka sjóðasöfnun og brask. Dögun vill lýðræðisvæða kerfið.
Mikill meirihluti landsmanna er fylgjandi því að efla heilbrigðiskerfið og tryggja jafnan aðgang Íslendinga að því.
Kjósendur ættu að hafa ofangreind atriði í huga á kjördag, standa með sjálfum sér og setja x við T.

Sigurjón Þórðarson í fyrsta sæti á lista Dögunar xT, í Norðvestur kjördæminu

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.10.2016 - 09:29 - FB ummæli ()

Séríslenskt – auknar greiðslur en minni réttindi

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er talið af eitt það allra besta í heimi af þeim sem fara með stjórn þess.  Í kvöldfréttum RÚV var sagt frá því að til standi að hækka framlag í lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, í um 20% af launum þeirra.  Við slíka tug prósenta hækkun á lífeyrisframlagi, þá hefði mátt ætla að verið væri að gefa launafólki kost á að komast fyrr á lífeyri.  Reyndin var þveröfug þ.e. að ætlunin er skerða réttindin og hækka lífeyrisaldurinn!

Ragnar Þór Ingólfsson frambjóðandi Dögunar í Kraganum, hefur um langt skeið haldið uppi rökfastri gagnrýni á  lífeyrissjóðakerfið.  Þessi gríðarlega hækkun á peningastreymi inn í kerfið auk skertra réttinda, gefur til kynna að Ragnar þór hafi haft rétt fyrir sér

Hringekja peninga í lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna er rökleysa.  Ríkið greiðir háar upphæðir inn í sjóðinn. Sjóðurinn notar síðan drjúgan hluta upphæðarinnar til þess að kaupa skuldabréf af ríkinu sem gefa háa vexti.  Þetta eru peningar úr einum vasa í annann. Einfaldar væri að lækka framlag ríkisins í sjóðinn og nota fjarmunina í að bæta stöðu ríkissjóðs.

Vafasamara er þó þegar  lífeyrissjóðurinn sé að notar lífeyrisframlag ríkisstarfsmanna til þess að kaupa upp hlutabréf í fyrirtækjum á almennum markaði, nema þá ætlun stjórnvalda sé að félagsvæða eða réttara sagt Sovétvæða atvinnulífið.  Ef fram heldur sem horfi er hætt við að íslensku atvinnulífi verði stjórnað af fámennum hópi sem fær umboð sitt með óræðum hætti í gegnum samstjórn fulltrúa launamanna og samtaka atvinnulífsins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.10.2016 - 00:32 - FB ummæli ()

Argentíska leið Viðreisnar

Ekki er hún gæfuleg leiðin sem Viðreisn býður landsmönnum upp á til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, en leiðin er að rígbinda gengi íslensku krónunnar við gengi evrunnar, með svokölluðu myntráði.  Hugmyndin er að ríkið festi í lög að ætíð sé hægt að skipta íslensku krónunni fyrir evru  á ákveðnu föstu gengi

Þessi leið hefur verið reynd í Argentínu með hræðilegum afleiðingum. Einhliða fastgengisstefna er mjög kostnaðarsöm vegna þess að hún krefst gríðarlega mikils gjaldeyrisvarasjóðs til þess að jafna út sveiflur í gjaldeyrisöflun. Fyrir liðlega 300 þúsund manna samfélag sem býr við  miklar sveiflur í gjaldeyrisöflun, þá eru þessar hugmyndir Viðreisnar algerlega ábyrgðarlausar.

Hver man ekki eftir því hvað ein fisktegund makríllinn, hafði gríðarlega hagfelld áhrif fyrir efnahagslífið í tíð síðustu ríkisstjórnar og allir vita hvaða áhrif ferðamaðurinn hefur á efnahag síðustu ára.  Aflabrestur eða öflugt eldgos á borð við Kötlugos sem truflaði flugsamgöngur gæti strax haft gríðarlega neikvæð áhrif gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins svo einhver dæmi séu tekin.  Með fastgengisstefnu við slíkar aðstæður væri verði að festa ójafnvægið í sessi, sem býður upp á efnahagslegar hamfarir ef samdráttarskeið í gjaldeyrisöflun dregst á langin.

Eina fastgengisstefna sem væri mögulega raunhæf væri að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið um að verja gengið, með samkomulagi í ætt við ERMII, sem tengir m.a. gengi dönsku krónunnar við evru.  Forsenda slíks samstarfs hefur hingað til verið aðild að Evrópusambandinu.

Dögun leggur áherslu á að hagur almennings verði tryggður fyrir sveiflum í efnahagslífinu með því að afnema verðtrygginguna.  Núverandi verðtrygging miðar að því að varpa allri áhættu af sveiflum í efnahagslífinu yfir á lántakendur. Á meðan fjármálastofnanir bera enga áhættu af þenslu og verðbólgu þá er það ekki beint hvetjandi til þess að þær hagi sér af ábyrgð.  Augljóst er að þegar upp er staðið þá hafa fjármálafyrirtæki miklu meiri áhrif á famvindu efnahagsmála en einstaka neytendur og því sanngjarnt að lánveitendur og lántakar skipti með sér verðbólguáhættu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2016 - 10:33 - FB ummæli ()

Illskiljanleg og flókin einföldun

Samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi er „þverpólitískur“ vettvangur undir forystu Rögnu Árnadóttur, sem ætlað er að stuðla að upplýstri umræðu sem á að  hafa það að markmiði að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.

Skýrsla 6 sérfræðinga  til Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, um hvernig hægt sé að einfalda skattkerfið og gera það skilvirkara, vakti miklu frekar spurningar en svör.  Við lestur á liðlega 100 bls. skýrslu er ekki nokkur leið að átta sig á hvað tillögur um breytingar á persónuafslætti, skattþerpum og barnabótum fela nákvæmlega í sér. Sett voru upp nokkur dæmi án þess að skýra niðurstöður eða gera skýra grein fyrir útreikningum.

Vinnubrögðin eru óneitanlega mótsögn við markmið  Samráðsvettvangsins, sem var ætlað að skapa gagnsæja samantekt! Sama á við um grautarlega framsetningu. Í sama kafla og fjallað er um áhugaverðar tillögur um innheimtu á bílastæðagjöldum á ferðamannastöðum, er að finna algerlega óútfærðar flóknar vangaveltur um hækkun á veiðigjöldum. Ekki er minnst orði á að auðveldasta leiðin til þess að skapa aukna hagsæld og arð fyrir samfélagið af fiskveiðum, er að afli verði seldur á frjálsum markaði.

Eitt er víst að margar af tillögunum sem settar eru fram undir merkjum einföldunar munu leiða til stóraukins flækjustigs. Það á örugglega við um einhvers konar sveiflujöfnun á tryggingagjaldinu en tryggingajaldið er lítið annað en dúlbúinn flatur launaskattur. Sama á við um illskiljanlegar tillögur um veiðigjöld og að fjármagnsskattur nái einungis til raunávöxtunar fjár.

Við skoðun á samsetningu Samráðsvettvangsins er áberandi hve kvótaaðallinn á marga nýja og gamla fulltrúa í samráðinu – það er mjög sláandi ef litið er til þess að stórir hópar á borð við aldraða og öryrkja eru ekki hafðir með í ráðum.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is