Fimmtudagur 15.2.2018 - 00:08 - FB ummæli ()

Vill Vg einkavæða heilbrigðiskerfið?

Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir sló því fram sí-svona á Viðskiptaþingi í dag, að það væri óskynsamlegt að ríkið ætti bankana.  Ekki kom hún með neinar sérstakar röksemdir máli sínu til stuðnings – hún sagði einfaldlega að einkavæðing bankanna væri nauðsynlegur liður í því sem kallast endurskipulagning fjármálakerfisins.

Ég stórefast um að einkavæðing bankanna sé ofarlega á óskalista almennings og atvinnurekenda sem eru að byggja upp fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Efst á lista almennings er lækkaður vaxta- og bankakostnaður og margir eru einfaldlega smeykir við einkavæðinguna. Ríkisútvarpið vakti nýlega athygli á því söluferlið væri með gamalkunnu sniði –  bæði ógagnsætt og byrjað að tína væna bita út úr bönkunum! Fyrirsjáanlegt er sömuleiðis að væntanlegir „kaupendur“ verði sömu aðilar og ráku gömlu bankana í einu stærstu gjaldþrot veraldarsögunnar. Búast má því við að meðal áberandi hluthafa verði Björgólf Thor, Ólafur Ólafsson, Samherji, Bakkavararbræður og fjölskylda fjármálaráðherra.

Verður stutt að bíða þess að Vg mæli fyrir frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.2.2018 - 23:22 - FB ummæli ()

Braskið og ASÍ

Forysta ASÍ hefur í félagi við áhrifamenn innan Samtaka atvinnulífsins verið leiðandi í íslensku fjármálakerfi.  Þetta einkennilega samstarf ASÍ og SA á sér stað í gegnum stjórnir í lífeyrissjóðanna sem ráðstafa drjúgum hluta af launaveltu landsmanna. Fjármálavafstur forystu ASÍ hefur leitt af sér að óskýra hagsmunavörslu þar sem greinilegt er að hagsmunir almenns launafólks eru komnir neðarlega á blaðið en í öndvegi er að tryggja óbreytt kerfi og völd. Þetta samkrull ASÍ og fjáramálakerfisins hefur staðið um áratugaskeið, en ekki þótti  það tiltökumál á sínum tíma þegar fyrrum forseti ASÍ réð sig í framkvæmdastjórastól Íslandsbanka í beinu framhaldi af setu á forsetastóli ASÍ.  Það kæmi í sjálfu sér alls ekki á óvart ef að núverandi forseti ASÍ færi sömu leið á næstunni.

Afleiðingarnar af fjármálabraski forystu ASÍ eru meðal annars þær að forystan hefur þegar á reynir staðið fast með þröngum hagsmunum stórfyrirtækja þrátt fyrir að augljóst sé að það sé á kostnað þorra launafólks.  Forysta ASÍ hefur staðið með verðtryggingunni, kvótakerfinu í sjávarútvegi, endurreisn óbreytts fjármálakerfis og braskara á borð við Bakkavararbræðra.  Að vísu stóð forysta ASÍ með almenningi í furðulegum endurútreikningum Seðlabankans á ólöglegum gengistryggðum lánum.

Þessi einkennilega mynd er að framkallast með skýrari hætti hugum landsmanna í ýmsum málum m.a. í fjárfestingum og að því virðist samstarfi lífeyrissjóðanna við Gamma.  Fjárfestingarfélagið Gamma virðist hafa ótæmandi aðgang að fjármunum lífeyrissjóðanna til kaupa á  húsnæði sem síðan er leigt út dýrum dómi til launafólks.  Skyldusparnaður launafólks er með þessu hætti notaður til þess að spenna upp verð á fasteignum og koma á okurleigu. Launþegar vilja frekar fara þá leið sem formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson boðar þ.e. að bjóða húsnæði á sanngjörnu verði og stöðva græðgisvæðingunar á húsnæðismarkaði einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Allt tal forseta ASÍ um samstöðu snýst þegar öllu á botninn er hvolft um áframhaldandi brask og völd nokkurra forystumanna launþega á kostnað almennings.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.1.2018 - 21:47 - FB ummæli ()

Er Vg fyrst og fremst flokkur ríka fólksins?

Það er ákaflega erfitt að greina það með nokkrum hætti á stjórn landsins, að hún sé undir forystu róttæks vinstriflokks. Vg hefur löngum boðað að taka ætti á misskiptingunni og koma á réttlæti og sjálfbærni við nýtingu á auðlindum þjóðarinnar.

Nú þegar flokkurinn er kominn í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn þá hafa forystumenn flokksins þagnað um þessi baráttumál og umræðunni beint í allt aðrar áttir m.a. #Ég líka mál stjórnmálakvenna.  Ástæðan fyrir þögninni er alls ekki sú að ástand mála hafi farið batnandi hvað varðar misskiptinguna eða hvað þá auðlindanýtingu.  Nýlegar fréttir báru með sér að um að 1.000 auðugustu Íslendingarnir ættu nær allt eigið fé í íslensku atvinnulífi. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur beindi sjónum að því að stjórnvöld settu kíkinn fyrir blinda augað þegar komið var að svindli og sóun stærri aðila í kvótakerfinu, í sjávarútvegi.

Eitt af því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áformar, er að teknir verði út úr bönkunum fjármunir, til þess að fara í ákveðin samfélagsverkefni m.a. vegagerð og niðurgreiðslu skulda ríkisins.  Umræddir fjármunir í bönkunum eru tilkomnir vegna okurvaxta og afarkjara sem íslenskur almenningur býr við.  Á árunum 2015 og 2016 var gróði viðskiptabankanna samanlagt um 165 milljarðar kr. Ef gróðanum væri skipt á milli landsmanna, þá kæmi um 2 milljónir í hlut hverrar 4 manna fjölskyldu í landinu. Það gefur auga leið að gjöld bankanna leggjast mjög misþungt á landsmenn og ætla má að ungt fólk sem er að fjárfesta í húsnæði beri þyngstu byrðarnar á meðan bankarnir létta undir með ríka fólkinu.

Það er merkilegur fjandi ef Vg ætlar að nota áhrif sín við stjórn landsins með þeim hætti að steravaxnir bankar verði reknir áfram í algerlega óbreyttri mynd, í stað þess að koma á samfélagsbanka sem byði almenningi sanngjörn kjör.

Ef bankarnir verða reknir í óbreyttri mynd og fjármunum tappað af þeim í ríkissjóð, þá mun það vera til mikillar hagsbóta fyrir auðmenn og leiða til enn frekari misskiptingar.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.12.2017 - 18:22 - FB ummæli ()

Doktor að blekkja

Greinin birtist í síðustu viku í Morgunblaðinu:

Dr. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur SFS,  skrifar grein, sem birtist 200 mílum Morgunblaðsins, þar sem hann segir að það hafi náðst afar góður árangur við að stjórna þorskveiðum frá árinu 1992. Á grein Kristjáns má skilja að þorskstofninn sé að gefa meiri afla og að stækkun hrygningarstofnsins hafi gefið góða raun.

Ef skoðað er tímabilið frá árinu 1992 og fram til dagsins í dag og borið saman við jafn langt tímabil til baka, þá ætti að vera augljóst hverju mannsbarni að „stjórnunin“ hefur valdið gríðarlegu tjóni.  Meðaltals ársaflinn á seinna tímabilinu er aðeins 57% af því sem hann var á fyrra tímabilinu, Nýliðun seinna tímabilsins er aðeins 73% af því sem hún var fyrra á tímabilinu, sem Kristján vill meina að óstjórn hafi ríkt á.  Vel að merkja að fækkun nýliðunar verður þrátt fyrir markvissa stækkun hrygningarstofns og friðunar á smáfiski!

Í greininni er fullyrt að Íslendingar hafi verið leiðandi í því að búa til aflareglu á tíunda áratugnum, sem segði til um hve veiða ætti stóran hluta af fiskistofni, til þess að tryggja langtíma hagkvæma nýtingu.  Hann sleppir því hins vegar að nefna þá staðreynd að sú aflaregla var endurskoðuð upp úr síðustu aldamótum vegna þess að hún reyndist afar illa.  Þorskstofninn fór í sína náttúrulega niðursveiflu um aldamótin, þrátt fyrir að dregið hafi verið gríðarleg úr veiðum frá árinu 1992.

Gefin var út skýrsla, nefndar um langtíma nýtingu fiskistofna árið 2004, með „endurskoðaðri“ aflareglu, án þess að farið væri með gagnrýnum hætti yfir líffræðilegar forsendur hennar. „Endurskoðunin“ var framkvæmd af höfundum upphaflegu reglunnar og var niðurstaða skýrslunnar í stuttu máli að stofnmatið sjálft væri ónákvæmt og því nauðsynlegt að leggja til að enn lægra hlutfalls veiðistofns yrði veiddur en áður hafði verið gert.  Með því að fara með veiðina niður í 20% af veiðistofni, þá væri gulltryggt að mögulegt ofmat á veiðistofni hefði neikvæð áhrif á afrakstur þorskstofnsins.

Afli síðustu ára er langt frá því að ná því að vera í námunda við þau fyrirheit sem gefin voru þegar aflaregla var tekin upp og sömuleiðis þegar hún var endurskoðuð.  Með öðrum orðum þá hefur hún fallið á eigin forsendum.

Í lokinn er rétt að útgerðarmenn og landsmenn allir spyrji – Hvers vegna er Dr. Kristján Þórarinsson að beita blekkingum og halda því fram að það hafi náðst árangur þegar reynslan sýnir augljóslega annað?

nefndaralit2004_lokaeint (2)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.12.2017 - 23:46 - FB ummæli ()

Norðurlandameistarinn Katrín Jakobsdóttir

Í fyrir nokkru áttum við fosætisráðherra sem var alltaf að setja heimsmet.  Okkar ágæti Sigmundur Davíð setti að eigin mati mörg heimsmet m.a. í leiðréttingu lána í boði íslenskra skattgreiðenda.

Fréttir af leiðtogafundi um loftslagsmál sem fram fer nú í París bera það með sér að ungur og efnilegur forsætisráðherra þjóðarinnar hafi þegar sett eitt Norðurlandamet á fyrstu dögum sínum í embætti.  Afrekið gefur góð fyrirheit um enn frekari árangur –  Evrópumet eða jafnvel heimsmet. Katrín kynnti  á fundinum metnaðarfulla í tíma­setn­ing­u, um að Ísland verði fimm árum á und­an hinum Norður­landaþjóðunum í að koma á svokallaðri kolefnishlutleysingu. Með kolefnishlutleysingu er átt við að jafn mikið verði bundið af koltvísýringi t.d. með skógrækt og losað er af koltvísýringi út í umhverfið með mengandi útblæstri.

Inn í útreikningum Katrínar Jakobsdóttur er eftir því sem ég best veit ekki losun frá stóriðjunni. Hún getur sjálf þakkað sér töluverðan hluta af þeirri losun, þar sem hún studdi dyggilega við að reist yrði kolakynnt kísilver á Bakka. Það var gert meðal annars með beinum opinberum stuðningi við uppbygginguna.

Það gerir þessi markmið Íslendinga um kolefnishlutleysinguna glæsilegri en ella er að byrðarnar verða alfarið á kostnað íslensks almennings en ekki erlendrar stóriðju.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.12.2017 - 23:03 - FB ummæli ()

Áhuga- og atvinnumenn

Mér fannst vel fundið að Kastljósið tæki viðtal við nýjan umhverfisráðhera í kjölfar umræðu um hvort fyrrum framkvæmdastjóri Landverndar væri heppilegur í starfi umhverfisráðherra.

Nýliðinn í stjórnmálum Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra komst vel frá Kastljósþætti kvöldsins, þar sem hann lýsti sýn sinni á starfið. Hann greindi réttilega frá því að úrskurðir í deilumálum sem snúa að málaflokkum ráðuneytisins væru að miklu leyti komnir til óháðra úrskurðanefnda. Það að hann hafi unnið af harðfylgni í starfi á vegum áhugamannnafélags um náttúruvernd ætti að gefa til kynna að hann geti tekið til hendi, en alls ekki að hann virði í engu andstæð sjónarmið.

Það er ekki úr vegi að RÚV haldi áfram umfjöllun um augljósa hagsmunaárekstra ráðherra og láti ekki staðar numið við nýliðann Guðmund Inga.  Nokkuð hefur borið á efasemdum um hvort fyrrum stjórnarformaður Samherja sé heppilegur í stóli sjávarútvegsráðherra.  Fyrir vestan hefur hann verið borinn þeim sökum að hafa misnotað aðstöðu sína sem bæjarstjóri á Ísafirði til þess að koma Guggunni gulu til Samherja.

Efst á blaði ætti auðvitað að vera hjá RÚV að taka til umfjöllunar hvernig tryggja megi að almenningur standi við sama borð viðskiptafélagar og fjölskyldufyrirtæki fjármálaráðherra þegar komið er að samningagerð við hið opinbera. Með öðrum orðum hvernig koma megi í veg fyrir ný Borgunarmál.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.11.2017 - 17:34 - FB ummæli ()

Reglugerð sem hvetur til framhjálöndunar

Einn af vondum fylgifiskum kvótakerfis í fiskveiðum er hvati brottkasts og rangrar upplýsingagjafar um landaðan afla, eins og skýrt kom fram í Kveik, fréttaskýringaþætti RÚV. Viðbrögð ráðamanna og hagsmunasamtaka útgerða við þættinum, hafa einkennst af því að halda því fram að vandamálið sé hverfandi og það heyri að mestu fortíðinni til.

Hér er  skýrsla Hafró frá í fyrra sem sýnir fram á að liðlega 2.138 tonn af þorski hafi verið hent í sjóinn á árinu 2015 og inn í þeirri tölu eru ekki öll veiðarfæri. Niðurstaða skýrslunnar er að reiknað brottkast hafi aukist en ekki minnkað eins og sjávarútvegsráðherra hefur haldið fram í kjölfar fréttflutnings RÚV!

Í stað þess að reglur um fiskveiðar séu; réttlátar, sveigjanlegar og þannig úr garði gerðar að taka í burtu hvata til brottkasts, þá er of oft farin þveröfug leið.  Sorglega gott dæmi um slíkt er reglugerð sem sett var árið 2011 um lúðuveiðar sem skyldaði sjómenn til þess að sleppa allri lífvænlegri lúðu í sjóinn. Þeirri lúðu sem ekki væri hugað líf átti að landa á markað og verðmæti aflans að gera upptæk í ríkissjóð. Þegar reglugerðin var sett, þá voru engar beinar lúðuveiðar stundaðar og öll sú lúða sem veiddist var meðafli á öðrum veiðum. Aðeins lítill hluti lúðu sem er veidd, er lífvænleg, þannig að þeir sem settu reglugerðina hafa eflaust búist við að eitthvað lítið myndi draga úr að lúðu væri landað á markað.  Ég benti hins vegar á það að reglugerðin myndi strax leiða til þess að lúðan yrði seld á svörtum markaði. Samkvæmt reglugerðinni fengu sjómenn ekkert fyrir vinnu sína og útgerð ekkert upp í kostnað við veiðar og löndun á aflanum. Afleiðingarnar af þessu regluverki létu ekki á sér standa – skráður landaður lúðuafli var strax árið eftir gildistöku reglugerðarinnar, innan við 7 % af því sem hann var ári áður.  Þar sem lúðan er að mestu meðafli þá er ljóst að raunveruleg veiði var miklu mun meiri en löndunartölur gefa til kynna. Reglum um lúðuveiðar var síðan breytt í lok árs 2012, þannig að útgerðir og sjómenn fá í sinn hlut 20% af virði landaðs lúðafla. Við þá breytingu jókst skráður lúðuafli upp í um 20% af því sem aflinn var áður en reglugerðin var sett.

Mér finnst tímabært að ráðamenn hætti þessu tali um BESTA sjálfbæra fiskveiðistjórnunarkerfið í heimi og fari að sníða augljóst misrétti og ágalla af kerfinu.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.11.2017 - 23:21 - FB ummæli ()

Þegar ég sótti um starf fiskistofustjóra

Nú fer hátt í einn milljarður króna í eftirlit með sjómönnum og mér er til efs að nokkur íslensk stétt manna sé undir jafn miklu eftirliti ef frá eru taldir íslenskir fangar.  Rekstur Fiskistofu slagar upp í að vera um 2/3 af rekstrarkostnaði fangelsanna.

Fyrir nokkrum árum þá sótti ég um starf fiskistofustjóra og var meira að segja boðaður í atvinnuviðtal í sjávarútvegsráðuneytinu.  Sú heimsókn var um margt minnisstæð m.a. fyrir þá sök að í ráðuneytinu var þá á ferð framkvæmdastjóri LÍÚ sem gek valdsamlega um svæðið rétt eins  og hann ætti það með hurðum og gluggum á meðan ágætur sjávarútvegsráðherra skaust laumulega um á milli herbergja.

Viðtalið sjálft byrjaði frekar vandærðalega. Ég þóttist finna í viðtalinu að mér sem þekktum baráttumanni gegn ónýtu og óréttlátu kvótakerfi og auknu frelsi til veiða, væri mætt af ákveðni tortryggni af yfirstjórn ráðuneytisins.

þegar ég var spurður út í mína sýn á starfið og svaraði því á þá leið að nauðsynlegt væri að nálgast verkefnið með öðrum hætti en gert væri.  Ég taldi nauðsynlegt að taka sem flesta hvata í burtu úr kerfinu til brottkasts.  Ein leið væri að fara í sóknarkerfi líkt og gert er í Færeyjum en þar er brottkast nær óþekkt. Ef ætlunin væri hins vegar að halda sig við kvótakerfi þá þyrfti að fara í ákveðnar breytingar m.a. að minni og verðminni fiskur drægist hlutfallslega minna frá  kvóta en stærri og verðmætari fiskur.  Ef svo væri þá hyrfi allur hvati til brottkasts á smáfiski. Sömuleiðis taldi ég rétt að tryggja að kvótaleiga yrði aldrei hærri en svo að sjómenn hefðu alltaf hag af því að landa öllum afla. Ef leigan er hærri en fæst fyrir aflann á markaði er lítil von til þess að fiskur skili sér í land.  Enginn þarf að velkjast í vafa um að sjómönnum mislíkar að þurfa að taka þátt í brottkasti og það ætti að vera auðvelt að ná miklum árangri með því að setja réttu hvatana inn í kerfið.

Gott ef ég benti ekki einni á í viðtalinu  að rétt væri að huga að nýtingaprósentu frystitogara og að eðlilega væri rétt að setja stórt spurningamerki við að stóru fyrirtækin í greininni vigtuðu sjálf aflann inn í sínar vinnslur.

Viðtalið endað síðan kurteislega en „sérfræðingur“ ráðuneytisins benti mér kurteislega á undir rós að ég væri ekki á réttum stað í atvinnuleit.  Ég er ekki frá því að fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV í kvöld, hafi staðfest að svo hafi alls ekki verið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.9.2017 - 22:16 - FB ummæli ()

Afrek Garðabæjarprinsins

Nú reynir á ábyrgð íslenskra kjósenda

Við fáum það á hreint hvort að hinn almenni kjósandi sé fyllilega sáttur við:

  1. Gjöf á eigum almennings til vandamanna forsætisráðherra, Borgun, upp á a.m.k. 5 milljarða króna!
  2. Að birta ekki skýrslur um annars vegar aflandsfélög og hins vegar hvernig „leiðréttingin“ rataði helst til stóreignafólks, en báðar þessar skýrslur voru tilbúnar fyrir alþingiskosningarnar á síðasta ári, en núverandi forsætisráðherra ákvað að halda þeim leyndum fram yfir kosningarnar!
  3. Stórfellda einkavæðingu á  heilbrigðiskerfinu!
  4. Stórhækkun á eldsneytissköttum og hótanir um að umlykja höfuðborgina með tollahliðum!

Kjósendur geta sagt skoðun sína á kjördag. Ef það er ekki gert með skýrum hætti í kjörklefanum, þá mun þessi listi lengjast hratt og örugglega. Ég hef fullan skilning á því að ríkasta 1% landsmanna vilji verðlauna afrek Garðabæjarprinsins, en  bágt með að skilja ef aðrir vilja taka þátt í því.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.8.2017 - 21:44 - FB ummæli ()

Karlmennskan í Barselóna

Það var mikið mannval í þættinum Vikulokunum á RÚV í dag, þann 19. ágúst.  Í þættinum voru aðstoðarmenn ráðherra, sérfræðingur sem hefur veitt íslenskum ráðamönnum ráðgjöf auk þáttarstjórnenda á Ríkisútvarpinu eða þau;  Snærós Sindradóttir, Andrés Jónsson, Ólafur Teitur Guðnason og Karl Pétur Jónsson.  Fyrirfram hefði mátt búast við yfirvegaðri og skynsamari umræðu um menn og málefni sem efst voru á baugi í liðinni viku.

Efst í huga álitsgjafanna var forseti BNA, vinaríkis Íslands og var bróðurparti þáttarins varið í að ræða Donald Trump. Í stað þess að það færi fram yfirveguð umræða, þá upphófst múgæsingur í hljóðverinu, þar sem forseti BNA var nefndur í sömu andrá og fasistar og minnt var á fjöldamorð nasista í seinni heimstyrjöldinni.  Gekk sefjunin í hljóðverinu svo langt að kallað var eftir bandarískt kerfi eða almenningur kæmu réttkjörnum forsetna BNA frá völdum „með einum eða öðrum hætti“, sem auðvelt er að skilja á versta veg.  Mér varð ekki um sel að heyra þessar yfirlýsingar fólks sem allt er nátengt æðstu ráðmönnum í einu friðsælasta ríki heims.

Umræðan í þættinum róaðist mjög þegar talið barst að hryðjuverkaárásum íslamista í Barselóna, en jafnframt varð hún vitlausari. Í stað þess að ræða augljósa rót vandans þ.e. hvernig megi ráðst gegn því að öfga íslamistar nái að spilla ungum múslimum, þá var kastljósinu beint að vanda ungra reiðra karlmanna almennt.    Það var látið að því liggja að það lægi einhver vafi á því hver kveikjan að hryðjuverkunum í Barselóna væri og kastljósinu jafnvel beint að vonleysi ungra karla í stórborgum Evrópu. Þeirri spurningu var jafnframt varpað fram áskandi út til íslensku þjóðarinnar – hvað við værum að gera rangt í uppeldinu sem samfélag!  Þessi bullkenning var síðan undirstrikuð með umræðu um sjálfsvíg ungra íslenskra karlmanna.

Það sem olli mér áhyggjum var niðurstaða opinberu álitsgjafanna. Hún var á þá leið að talsverð von væri á að alda hryðjuverka í Evrópu myndi linna, við það eitt að fjallað yrði minna um voðaverkin. Kenningin var á þá leið, að ef fjallað yrði minna um hryðjuverkin, þá yrði fólk síður hrætt, sem leiddi af sér minni hvata ungra reiðra karlmanna til þess fremja hryðjUverk.

Það að stinga hausnum í sandinn átti að leysa málið að sjálfu sér!

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is