Fimmtudagur 4.8.2016 - 06:11 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Festa á hlutunum

Einn helsti styrkur rentukóngsins er að hann kemur festu á hlutina. Innanlandsflugið fyrir 1952 er gott dæmi. Þar sem áður var opinn, ógnvænlegur, spennandi og krefjandi markaður var nú komin ein föst stærð með einum sællegum rentukóngi.

Sama á við um mjólkurvörumarkaðinn. Þar er svo mikil festa á hlutunum að næstum hver einasta vara í mjólkurkælinum í Krónunni, svo dæmi sé tekið, er frá einu fyrirtæki.

Leigubílamarkaðurinn er að sama skapi í föstum skorðum. Svo föstum að ný fyrirtæki eins og Über geta ekki hafið starfsemi. Penir rentukóngar aka um bæinn á gljáfægðum leigubílunum sínum í skjóli fyrir samkeppninni sem er jú „dýr og almennt til leiðinda,“ svo vitnað sé í einn af fyrrum stjórnmálaleiðtogum okkar.

Bara ef það væri meiri festa á öðrum sviðum. Til dæmis í ástarmálum. Hvað ef öll hjónabönd væru ákveðin fyrirfram af hlutlausri nefnd á vegum ríkisins? Væri það ekki yndislegt? Enginn þyrfti framar að leggja út á þá ógnvænlegu, spennandi og krefjandi braut sem makaval getur verið.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

Mánudagur 27.6.2016 - 09:32 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Skotheld rök

Stundin rann upp. Fulltrúar Flugfélags Íslands voru mættir. Á miðju borðinu stóð glæsileg súkkulaðikaka. Einhver bið var eftir Loftleiðamönnum. Björn Ólafsson, óvilhallur flugmálaráðherra allrar þjóðarinnar, gekk í salinn með brasshúðaðan kökuhníf í hendi tilbúinn að skera kökuna í réttlátar og sanngjarnar sneiðar. Loftleiðamenn hlutu að birtast á hverri stundu.

Það leið og beið. Ekkert bólaði á Loftleiðamönnum. Loks rann upp fyrir ráðherra og viðstöddum að þeir ætluðu að skrópa. Kliður fór um salinn. Hvað var að gerast? Voru þeir virkilega svo smekklausir að vilja ekki súkkulaðiköku? Öll augu beindust að Birni Ólafssyni sem fitlaði órólegur við kökuhnífinn. Hvað fór úrskeiðis? Hafði hann gert glappaskot, eða öllu heldur hlutlausa nefndin hans? Björn lagði hnífinn frá sér og sagði að hann myndi skrifa bréf þar sem útskýrt væri af hverju nauðsynlegt var að baka köku.

Harðsnúin samkeppni hafði staðið milli Flugfélags Íslands og Loftleiða um langt skeið, skrifaði Björn í bréfinu, harðsnúin, dýr og hættuleg samkeppni. Reynt hafi verið með góðu að fá flugfélögin til að hafa með sér samvinnu, jafnvel sameinast. Það hafi ekki gengið. Því hafi hann neyðst til að skipta flugrútunum milli þeirra með valdi og leggja á kvaðir.

Flugfélögin gátu ekki orðið á eitt sátt

Vísir 5. febrúar 1952. Ráðherra útskýrir hvers vegna flugrútunum var skipt milli flugfélaganna.

En hvað var svona dýrt og hættulegt við samkeppnina að mati Björns?

Dýrt. Fjárhagsráð ríkisins hafði skrifað bréf til ráðuneytisins 1950 og lýst áhyggjum af gjaldeyrisþörf félaganna vegna samkeppninnar: „Mikil óþörf eyðsla hefur átt sér stað í flutningunum.“ Nauðsynlegt væri að ráða bót á því, sagði þar. Í bréfi fjárhagsráðs birtist aðdáunarverð umhyggja fyrir velferð ríkiskassans.

Hættulegt. Tryggingastofnun ríkisins hafði skrifað ráðuneytinu bréf 1951 með vangaveltum um „hvort ekki sé ástæða til að ætla, að hin harða samkeppni félaganna um fólksflutninga innanlands geti aukið slysahættuna.“ Umhyggja Tryggingastofnunar fyrir velferð þjóðarinnar er aðdáunarverð.

Björn Ólafsson gat bara dregið eina ályktun út frá þessum skotheldu rökum: Óviðunandi ástand! Skipa hlutlausa nefnd og láta hana skipta flugrútunum!

Hlutlausu mennirnir í nefndinni voru Birgir Kjaran þingmaður, Baldvin Jónsson frá Fjárhagsráði og Þórður Björnsson frá Flugráði. Að Baldvini og Þórði ólöstuðum var Birgir Kjaran trúlega þeirra hlutlausastur.

Bestu vinir aðal. Birgir Kjaran þingmaður og Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra. Björn skipaði Birgi í nefndina sem skipti flugrútunum innanlands. Fyrir utan að vera sjálfstæðismenn eiga þeir það sameiginlegt að hafa setið í stjórn Flugfélags Íslands.

Birgir Kjaran þingmaður (tv) og Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra. Björn skipaði Birgi í nefndina sem skipti flugrútunum innanlands. Fyrir utan að vera sjálfstæðismenn og þingmenn eiga þeir það sameiginlegt að hafa setið í stjórn Flugfélags Íslands.

Umhyggja fyrir þjóðinni og ríkissjóði. Það er svo fallegt. Og kunnuglegt. Eiga ekki búvörusamningarnir nýju sem kosta ríkiskassann 14 milljarða á ári næstu 10 árin að spara ríkinu stórkostlegar upphæðir? Eru þeir ekki gerðir af einskærri umhyggju fyrir þjóðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , ,

Föstudagur 24.6.2016 - 09:30 - FB ummæli ()

Glámskyggnir menn og skarpskyggnir

Michael Lewis sem svo eftirminnilega var dreginn á asnaeyrunum í Íslandsheimsókn sinni skömmu eftir hrunið er hálfgerður seppi þeirra sem sáu þetta sama hrun fyrir. Svo mikill að hann skrifaði heila bók um þá, The Bigh Short. Efniviður bókarinnar var síðar notaður í samnefnda kvikmynd sem naut mikilla vinsælda.

Ef Michael Lewis hefði verið sagt í heimsókn sinni eins og satt var að Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi væri í hópi þeirra sem sáu hrunið fyrir hefði tónninn trúlega verið annar í hans garð í greininni Wall Street on the Tundra. Davíðs væri jafnvel getið í The Big Short. Davíð ætti sér jafnvel tryggan seppa í Michael Lewis.

6. nóvember 2007, tæpu ári fyrir bankahrunið mikla, sagði Davíð þetta um bankakerfið: „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Hafa verður í huga að Davíð varð að gæta orða sinna vegna þess að hann var bankastjóri Seðlabankans. Ef þetta er það sem hann sagði opinberlega er ekki nokkur vafi að hann hafði meiri og þyngri áhyggjur með sjálfum sér.

Fróðlegt er að bera Davíð saman við annan frambjóðanda og sérfræðing og kennara í hrunmálum. Á meðan Davíð var skarpskyggn á hlutina var hinn frambjóðandinn einkar glámskyggn á hlutina og tók virkan þátt í einhverju mesta afglapamáli allrar Íslandssögunnar 2009; talaði landið niður og hótaði þjóðinni einangrun og örlögum kommúnistaríkja.

Kannski er frambjóðandinn svona hrekklaus að hann lét plata sig út í þetta? Hver sem ástæðan var set ég stóran fyrirvara við að slíkur maður gegni forsetaembættinu. Það er algjört lágmark að forsetinn haldi með Íslandi.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , ,

Þriðjudagur 21.6.2016 - 01:18 - FB ummæli ()

Rentukóngar verða til

Greiðar samgöngur er grundvallarskilyrði fyrir gjaldeyrisöflun (verðmætasköpun) á Íslandi. Við slíkar aðstæður skila vörur sér hratt og örugglega milli seljenda og kaupenda; vörur sem oft og tíðum eru nauðsynlegar í fyrirtækjarekstri — til dæmis við framleiðslu útflutningsafurða. Ennfremur kemst fólk með verðmæta sérþekkingu fljótt til fundar við viðskiptavini hvar sem er á landinu.

Þegar Loftleiðir var stofnað lýðveldisárið 1944 hófst strax lífleg og hörð samkeppni á innanlandsmarkaðnum sem á var fyrir Flugfélag Íslands. Loftleiðamenn létu sér ekki nægja að keppa á helstu leiðum eins og til Akureyrar og Austfjarða heldur stækkuðu þeir markaðinn með nýju áætlunarflugi til margra staða á Vestfjörðum auk Vestmannaeyja.

FerdistMedLoftleidumInnanlands

Áfangastaðir Loftleiða innanlands: Hellissandur, Patreksfjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Ísafjörður, Ingólfsfjörður, Hólmavík, Siglufjörður, Kópasker, Akureyri, Melgerði, Seyðisfjörður, Reyðarfjörður, Hornafjörður, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustur, Vestmannaeyjar, Hella og Keflavík.

En átta árum eftir stofnun Loftleiða skipti Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra flugrútunum innanlands milli flugfélaganna tveggja.

Hjálmar Finnsson forstjóri Loftleiða settist niður ásamt bókaranum og reiknaði út að flugrekstur á flugleiðunum sem Loftleiðum var úthlutað stæði ekki undir sér.

Loftleiðamenn fóru við svo búið á fund Björns Ólafssonar og tilkynntu honum að hann gæti hirt þessi leyfi Loftleiðum til handa, þeir tækju ekki við þeim. Í kjölfarið sendi félagið frá sér tilkynningu um að það væri hætt innanlandsflugi:

TilkFráLoftlVegnaSkiptingarFlugl

Morgunblaðið 2. febrúar 1952. Loftleiðir tilkynnir að innanlandsflugi félagsins hafi verið hætt frá og með 1. febrúar.

Ákvörðun Loftleiða kom mjög á óvart. Það hafði enginn sem um vélaði gert ráð fyrir þeim möguleika. Reiðialda fór um landið, einkum um þá staði sem aðeins nokkrum árum áður höfðu komist í langþráð flugsamband við umheiminn.

Ráðherra var kominn í klemmu. Hann þurfti að gera grein fyrir ákvörðun sinni.

Glöggir lesendur hafa vafalaust tekið eftir að með skiptingu flugrútanna innanlands var búið að baka köku úr markaðnum og skipta sneiðunum á milli aðilanna sem fyrir voru, loka aðgangi og búa til kvaðir. Flugfélagsmenn og Loftleiðamenn breyttust við úthlutunina úr keppendum á frjálsum og opnum markaði í rentukónga.

Eini gallinn á þessu annars frábæra plani ráðherra var, eins og áður segir, að Loftleiðamenn mættu ekki í kökuskurðinn.

Hverjar voru skýringar ráðherra á skiptingunni? Hafði hann fyrir því góð og gild rök?

Um það verður fjallað síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,

Sunnudagur 19.6.2016 - 13:09 - FB ummæli ()

Vöxtur og viðgangur rentukóngsins

Búvörusamningarnir sem undirritaðir voru í vetur sýna að vöxtur og viðgangur rentukóngsins er í góðu meðallagi á Íslandi. Það er einkar ánægjulegt vegna þess að rentukóngurinn er eins og lúpínan og framræsluskurðirnir, ómissandi hluti af landslaginu.

Rentukóngurinn á það sameiginlegt með beitukónginum að beygjast eins. Að öðru leyti eru þeir býsna ólíkir. En þótt rentukónginn sé víða að finna er eðli hans og lunderni um margt á huldu.

Buvorusamningar

Bændablaðið 1. mars 2016. Búvörusamningar undirritaðir. Íslenski fáninn er sjaldnast langt undan þegar rentukóngar hittast vegna þess að þeir elska landið sitt og renturnar af því.

Rentukóngurinn hefur nokkra framúrskarandi mannkosti: Hann er einkar útsjónarsamur og séður og er haldinn meiri ættjarðarást en meðaljóninn — hann bókstaflega elskar landið sitt og renturnar af því — og hann er sérstaklega snjall í samningum. Eða hvað er það annars annað en einstök snilligáfa að ná virkilega góðum búvörusamningi við aðila sem á engan fulltrúa við samningsborðið?

Já, rentukóngurinn er ekki allur þar sem hann er séður. Til að varpa betra ljósi á hann þarf ekki annað en að líta til íslandssögunnar. Nánar tiltekið á þegar flugrútunum var skipt milli Flugfélags Íslands og Loftleiða 1952.

Meira um það síðar.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , ,

Miðvikudagur 8.6.2016 - 01:35 - FB ummæli ()

Davíð að kenna

Andstæðingar Davíðs Oddssonar mega eiga það að þeir komu einni ranghugmynd á legg sem reynst hefur langlíf. Hún er sú að hann hafi nánast verið einræðisherra á Íslandi. Af því draga margir þá ályktun að fyrst hann var svona voldugur þá hljóti a) bankahrunið á Íslandi að vera honum að kenna og b) hinum vestræna heimi líka. Þeir hafa sannfært sig um að hann hefði átt að gera eitthvað til að stöðva þetta aðvífandi lestarslys en ekki gert það. Ergó: Allt Davíð að kenna.

Það er ánægjulegt að Davíð sé blóraböggull hrunsins í heild sinni vegna þess að það afhjúpar ranghugmyndina (og raunar rætnina, eineltið og vanstillinguna sem býr að baki henni). Það sýnir hve galin ásökunin er og það sýnir einnig hve galin sú hugmynd er að hann beri ábyrgð á bankahruninu á Íslandi. Í frjálsu, vestrænu lýðræðissamfélagi eins og Íslandi eru mörg fyrirtæki stór og smá sem saman mynda fjölþætta heild sem enginn einn stjórnmála- eða embættismaður getur haft taumhald á. Sem dæmi tryggði EES samningurinn íslenskum fyrirtækjum, þar með talið bönkum, aðgang að — og jafnræði á — sameiginlegum markaði Evrópu, frjálst flæði fjármagns, fólks osvfrv.

DavidAdKenna

Hver hefur ekki lent í þeirri óþægilegu aðstöðu að þurfa að finna blóraböggul? En ekki lengur. Það er kominn bolur. Þetta var allt Davíð að kenna.

Það er sérstaklega pínlegt fyrir þá sem ala ranghugmyndina „Davíð að kenna“ við brjóst sér að horfast í augu við það að að hann var nánast eini ráðamaðurinn á Íslandi sem varaði við útlánaþenslu bankanna. Eitt skýrasta dæmið um viðvaranir Davíðs var ræða hans hjá Viðskiptaráði 6. nóvember 2007, heilu ári fyrir bankahrunið:

„Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Alvaran í orðum hans dylst ekki. Því miður tóku fæstir mark á honum. Svo mikil var tregðan til að bregðast við viðvörunum hans og almennt að hlusta á hann að Seðlabankinn varð að lokum að senda einkaflugvél með þremur erlendum sérfræðingum til landsins til að telja ríkisstjórnina á að leggja áherslu á að draga varnarhring um Ísland og gæta hagsmuna ríkisins og almennings frekar en hluthafa og kröfuhafa bankanna, eins og lýst er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, bls. 102–3).

Það er mikilvægt að benda á þetta í aðdraganda forsetakosninganna vegna þess að væntanlegur forseti þarf fyrst og fremst að gæta hagsmuna Íslands.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , ,

Föstudagur 3.6.2016 - 05:07 - FB ummæli ()

Undirlægju eða skörung?

Eins og öllum ætti að vera orðið ljóst studdi Guðni Th. Jóhannesson forsetaframbjóðandi fyrsta Icesave-samninginn sem hinn alóreyndi samningamaður Svavar Gestsson gerði sumarið 2009, en hann var langversti samningurinn af þeim sem gerðir voru. Með honum hefðu níðþungar byrðar verið lagðar á Íslendinga, ekki síst vegna vondra vaxtakjara á „láni“ sem Bretar og Hollendingar tóku upp á að veita íslenska ríkinu að því forspurðu.

Bretar og Hollendingar ætluðu að beita Íslendinga ofríki af því að þeir treystu því að íslenskir ráðamenn — og álitsgjafar — gæfust upp. Margir þeirra gerðu það og tóku jafnvel þátt í ljótum leik; að hræða þjóðina til hlýðni með því segja að Ísland yrði eins og sum draumaríki kommúnismanns ef hún skrifaði ekki undir. Guðni Th. og félagar töldu sig eflaust vera að sýna samningsvilja og skilning í erfiðum aðstæðum en í raun voru þeir einfeldningar og undirlægjur. Það kom í ljós síðar þegar hinir reyndu og slægu erlendu samningamenn slógu stórkostlega af kröfum sínum.

Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi var frá upphafi með þá skoðun í Icesave-málinu að Íslendingar bæru ekki ábyrgð á Icesave-innistæðunum. Eftir að hafa talað fyrir daufum eyrum valdsmanna ákvað hann, 22. október 2008, að skrifa Geir Haarde bréf:

BrefDavids

Kæri Geir. Er það virkilega svo að íslensk stjórnvöld ætli án lagaheimildar að taka á sig stórkostlegar erlendar skuldbindingar að kröfu Breta og fl. Slíkar byrðar myndu sliga íslenskan almenning sem ekkert hefur til saka unnið; seinka endurreisn íslensks efnahagslífs og tryggja lágt mat matsfyrirtækja um langa hríð. Reyndar þykir mér með ólíkindum ef íslensk stjórnvöld taka á móti breskri sendinefnd meðan Bretland hefur íslenska starfsemi opinberlega á lista með fáeinum mestu fjöldamorðingjum veraldarinnar. Davíð. – Morgunblaðið 5. júlí 2009.

Þótt álar séu kyrrir nú um stundir, þarf ekki mikið að gerast í umbreytingasömum heimi að það syrti í þá. Þá er mikilvægt að á Bessastöðum sé maður sem heldur málstað Íslands á lofti en ekki leggist ekki flatur fyrir útlendingum.

Valið í forsetakosningunum er einfalt. Það er milli undirlægju eða skörungs.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , ,

Miðvikudagur 1.6.2016 - 02:55 - FB ummæli ()

Enginn hlustar á mig

Hver kannast ekki við að hafa verið í þeim sporum að hafa varað sterklega við einhverju en enginn hlustað?

EnginnHlustarAMig

Þú ert ekki einn.

Þú ert í góðum félagsskap Kassöndru hinnar grísku sem sá framtíðina fyrir en enginn lagði trúnað á forspár hennar eða viðvaranir. Og þú ert í góðum félagsskap Davíðs Oddssonar sem varaði margoft við útþenslu bankanna þegar partýið hjá Díonýsosi dunaði sem hæst. Því miður drukknaði rödd hans í veisluglaumnum.

Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sérstaklega 6. bindi. Davíð varaði við útlánaþenslu bankanna og yfirvofandi hættu á fundi með Geir Haarde og Árna Mathiesen 13. janúar 2008 (bls. 102), á fundi með Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Mathiesen og embættismönnum 7. febrúar (bls. 117–124), á fundi með Geir Haarde 6. mars (bls. 136–137), á fundi með Geir Haarde 18. mars (bls. 143) og á fundi með Geir Haarde og Árna Mathiesen 30. mars (bls. 148).

Þótt Davíð yrði að fara varlega sem seðlabankastjóri (hann mátti ekki tala traustið niður) má líka lesa sterkar viðvaranir út úr ræðu hans á ársfundi Seðlabankans vorið 2008. Hann varaði við á fundi með Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur 1. apríl (bls. 152) og á fundi með Geir Haarde, Árna Mathiesen og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur 7. maí (bls. 173). Hinir bankastjórar Seðlabankans voru með Davíð á flestum þessara funda. Ingibjörg Sólrún sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að á fundinum 7. febrúar hefði Davíð „farið mikinn“. Hún var einn þeirra ráðamanna sem tóku ekki mark á viðvörunum hans.

Það er mikilvægt að þetta komi fram nú vegna þess að sú draugasaga hefur verið á kreiki í mörg ár að fall íslensku bankanna þriggja sé Davíð Oddssyni að kenna. Raunar er honum líka kennt um kreppuna á heimsvísu. Það er vitaskuld kostulegt og sýnir ef til vill best hve stór hann er í augum andstæðinga sinna.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 31.5.2016 - 15:51 - FB ummæli ()

Áfram Ísland

Ég get tæplega kosið Guðna Th Jóhannesson, þótt hann sé eflaust hinn mætasti maður, því hann stóð ekki með Íslandi Icesave-deilunni. Ummæli hans í myndbandinu eru af sömu rót runnin, hann lítur að því er virðist niður á sína eigin þjóð. Er ekki nauðsynlegt að forsetinn haldi með Íslandi?

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 30.5.2016 - 17:15 - FB ummæli ()

Fræ ótta og skelfingar

Ýmsir fræðimenn bundust samtökum um að dreifa fræjum ótta og skelfingar á Íslandi þegar útlit var fyrir að Alþingi myndi ekki samþykkja hinn frábæra Icesave-samning Kúbuvinarins Svavars Gestssonar. Gildir limir samtakanna voru:

  • Gylfi Magnússon sem sagði að Ísland yrði eins og Kúba norðursins.
  • Þórólfur Matthíasson sem sagði að Ísland lenti á sama stalli og Kúba og Norður-Kórea.
  • Guðni Th. Jóhannesson sem sagði að Ísland yrði jafn einangrað og Norður-Kórea eða Myanmar.
UmmæliGuðna2

„En augljóslega, ef Ísland ætlar að segja, við ætlum ekki að samþykkja þetta, þá myndi það gera okkur álíka einangruð og lönd eins og Norður-Kórea eða Myanmar. Þetta snýst ekki bara um Evrópusambandsaðild.“ – Guðni Th. Jóhannesson í Grapevine í júní 2009.

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram í aðdraganda forsetakosninganna. Ég fyrir mitt leyti, sem var á móti Icesave-samningnum í öllum útgáfum hans, get ekki með góðri samvisku kosið mann sem brást landi sínu og þjóð jafn hrapallega og raun ber vitni.

icesaveheimsendir2

Þessi bolur var hannaður þegar samtök fræðimanna stráðu fræjum ótta og skelfingar á Íslandi. Svei mér þá ef ég á hann ekki í stærð Icesave-Guðna.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is