Fimmtudagur 9.3.2017 - 17:09 - FB ummæli ()

Ólöglegi naglaklipparinn

Einn góðan veðurdag í Concord-borg í New Hampshire hóf ungur maður, Michael Fisher að nafni, að snyrta neglur í leyfisleysi á túninu fyrir framan Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu ríkisins.

Naglasnyrting er góður siður.

Þetta var í fyrsta sinn sem Michael snyrti neglurnar á öðrum en sjálfum sér. Aðspurður af fréttamanni sem var á staðnum um hversvegna hann ákvað að byrja að snyrta neglur og það í leyfisleysi fyrir framan ríkisstofnunina sem fer með þessi mál sagði hann: „Ástæðan fyrir því að ég er að þessu er sú að naglasnyrting er einn af þessum meinlausu verknuðum sem ég get gripið til, til að afhjúpa hve lögin eru ósanngjörn.“

Ekki leið á löngu þar til eftirlitsmenn frá Hárklippinga-, snyrtifræða- og fegurðarmálastofu voru mættir á „snyrtistofuna“ hans Michaels til að gera athugasemdir við starfsemina. Skömmu síðar bar lögregluna að. „Upphaflega ætluðum við bara að birta honum stefnu um að mæta fyrir rétt,“ sagði lögreglumaðurinn við fréttamanninn. „En hann gaf í skyn að hann hyggðist ekki láta af starfseminni svo við handtókum hann.“

Michael hafnaði reynslulausn og ákvað að játa sekt sína til að vekja enn meiri athygli á þessu máli.

Hér er fréttin í heild sinni:

Eins og alkunna er þá eru atvinnuleyfi gefin út með hag og öryggi viðskiptavinarins (þjóðarinnar) fyrst og fremst í huga eins og þeir sem fyrir sitja á fleti (rentukóngarnir) eru óþreytandi við að benda okkur á.

En það er önnur hlið á atvinnuleyfum og það var sú hlið sem ólöglegi naglasnyrtirinn vildi draga fram í dagsljósið. Sú hlið er viðskiptahindrunin, viðskiptahindrunin sem felst í allskyns námskeiðum, útgjöldum og kröfum sem fækka tækifærum og draga úr samkeppni, framförum og velmegun. Ennfremur eru þeir sem sækja slíkan „skóla“ að sóa dýrmætum tíma með tilheyrandi tekjutapi og jafnvel skuldasöfnun.

Eða hví skyldu fullorðnir, sjálfráða einstaklingar ekki ráða því sjálfir hvort þeir eiga með sér viðskipti um jafn einfaldan og saklausan hlut og naglasnyrtingu? Ég tala nú ekki um á vorum dögum með hið góða aðhald sem felst í gagnkvæmri einkunnagjöf á netinu (sbr. Uber, Ebay, Yelp, Tripadvisor, Facebook og Airbnb)? Hafi nokkurn tíma verið þörf á löngum lista um nauðsynlegan útbúnað og aðbúnað á snyrtistofum er hún ekki lengur fyrir hendi. Viðskiptavinirnir eru fullfærir um að meta það á eigin spýtur hvort naglasnyrtistofa er verð viðskipta þeirra.

Uppreisn Michael Fishers hefur því miður litlu skilað vegna þess að enn þann dag í dag þarf að sækja námskeið í 60 daga til að öðlast réttindi til að snyrta neglur í New Hampshire. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að ekki þarf lengur sérstakt leyfi til að mega þvo lubbann á öðrum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

Fimmtudagur 2.3.2017 - 04:13 - FB ummæli ()

Uber fækkar fullum

Tim Kleiser aðstoðarvarðstjóri í lögreglu Lónsstrandarbæjar í Kaliforníu benti á það í viðtali við bæjarblaðið sl. helgi að svo virtist sem skutl með einkabílum á vegum Uber og Lyft drægi úr ölvunarakstri — að tilfellum hefði fækkað um 21% milli ára. „Uber og Lyft er svo aðgengilegur ferðamáti að drukkið fólk freistast síður til að setjast undir stýri,“ sagði hann.

Uber dregur úr freistingunni að aka fullur. Á myndinni má sjá milljónamæringjann og Uber-bílstjórann Paul English aka farþegum í Teslunni sinni.

Þessi óvæntu og ánægjulegu hliðaráhrif hafa ekki farið framhjá bæjarstjórn Lónsstrandar. Hún hefur látið útbúa sérstök stæði á fjölförnum stöðum í miðbænum svo auðveldara og öruggara sé að stíga í og úr bílum.

Það er eflaust bara tímaspursmál hvenær skutl með einkabílum fyrir milligöngu Uber eða Lyft eða sambærilegs fyrirtækis (etv. íslensks?) kemur til Íslands. Þeir sem hyggjast vinna sér inn aukapening með slíkum hætti þurfa að standast þessar kröfur:

  • Vera amk. 21. árs.
  • Hafa ekið bíl í amk. þrjú ár.
  • Hafa almennt bílpróf (ökuskírteini).
  • Hafa fjögurra dyra bifreið til umráða sem er yngri en 10 ára og stenst skoðun.
  • Hafa skráningarskírteini bílsins á reiðum höndum.
  • Vera með tryggðan bíl.
  • Vera með hreint sakarvottorð.
  • Vera með flekklausan ökuferil.

Þeir sem vilja gerast leigubílstjórar á Íslandi eins og fyrirkomulagið er í dag þurfa — fyrir utan að standast svipaðar kröfur — að sækja 52 kennslustunda námskeið sem kostar 155 þúsund krónur.

Þetta hafði ónefndur nemandi um meiraprófið að segja nýlega:

„Þá er þetta komið í vasann eftir 3 daga námskeið í vikunni (ath dagsnámskeið) til viðbótar við aukinn ökuréttindi 18 kvölda námskeið og fjöldann allan af ökutímum og prófum. Verð nú að segja „ÞETTA ER NÚ MEIRA ANDSK BULLIГ! í þessu þjóðfélagi. Tíminn og peningarnir sem hafa farið í þetta er lygilegt 🙁

En núna er þetta búið og gert og verður nýtt til fulls, en ég er í alvörunni að spá í hvað ég eigi nú! að taka mér fyrir hendur næst 😉 Dæs, erfitt líf 😉 —“

En kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. Útskrifaður leigubílstjóri getur ekki skellt TAXI-merki á toppinn á bílnum sínum og byrjað að flytja farþega. Fjöldi leigubílaleyfa er takmarkaður með lögum.

Í svari Samgöngustofu vegna fyrirspurnar Fréttablaðsins frá í desember sl. sagði: „Til að Uber gæti starfað hér á landi þyrfti því að koma til breyting á regluverkinu. Eitt það helsta er að gefa þyrfti starfsemina frjálsa.“

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 1.2.2017 - 04:43 - FB ummæli ()

Bjórkassi frelsisins

Baráttan fyrir frelsi einstaklingsins til að bera ábyrgð á sjálfum sér hefur löngum verið á brattann á Íslandi. Ekki síst vegna þess að sumir Íslendingar hafa talið sér trú um að þeir viti best hvað öðrum fullorðnum einstaklingum er fyrir bestu (þótt þeir kunni vart sínum eigin fótum forráð).

Þessi frétt í DV 30. janúar 1980 var lítill bautasteinn í baráttunni. Fyrir utan að vera góður drykkur þeim sem kunna með áfengi að fara er bjórinn fyrirtaks dæmi um við hvað er að etja þegar kemur að ófrelsi á Íslandi í gegnum tíðina.

Við hlæjum að þessu núna, en vegferðinni fyrir auknu frelsi er ekki lokið og lýkur aldrei. Á hverjum tíma er skríll uppi sem situr um frelsi annarra.

Við hlæjum að þessu núna, en vegferðinni fyrir auknu frelsi er ekki lokið — og lýkur aldrei. Á hverjum tíma er skríll uppi sem situr um frelsi meðbræðra sinna. (DV 30. janúar 1980).

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 25.1.2017 - 16:21 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Donald Trump

Ein tegund rentukóngs er sú sem á fasteignir miðsvæðis. Slíkir rentukóngar geta í krafti þeirra forréttinda verðlagt afnotin sér í vil. Ósjaldan hafa þeir fengið konungdæmið í arf frá foreldrum sínum. Donald Trump forseti Bandaríkjanna er slíkur erfðaprins. Manhattan-eyja, þar sem rætur viðskiptaveldis hans eru, er svæði sem afmarkast af náttúrulegum ástæðum (er tæpir 60 ferkílómetrar með um 850 þúsund fasteignum). Þrátt fyrir að vera í Bandaríkjunum gilda af þessum sökum svipuð lögmál á Manhattan og í löndum þar sem rentukóngarnir eru margfalt valdameiri og hagur almennings að sama skapi verri.

Ef til vill mótaðist afstaða Donald Trumps til umheimsins út frá þessum veruleika. Stjórnmálastefna hans er sumpart lituð sjónarmiðum rentukóngsins. Hann vill búa svo um hnútana að innlend framleiðslufyrirtæki standi betur að vígi á innanlandsmarkaði en framleiðslufyrirtæki sem flytja framleiðslu sína til landsins. Eins og Íslendingar hafa kynnst á eigin skinni og gera enn þá hækkar slík verndarstefna vöruverð, dregur úr framþróun, minnkar úrval og almenna hagsæld. Vegna þessa hafa margir talsmenn frjálsra viðskipta ekki stutt forsetaframboð Donalds.

Donald Trump er mikill áhugamaður um samninga og samningatækni. Það er í samræmi við eðli rentukóngsins. Fyrir honum snýst flest um að ná samningum frekar en láta markaðslögmálin njóta sín. Stóri ljóðurinn á samningalist rentukóngsins er sá að þeir sem bera kostnaðinn — almenningur — eiga sjaldnast fulltrúa við samningsborðið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , ,

Laugardagur 21.1.2017 - 18:11 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – hringt á bíl

Maður sem býr í útlöndum heimsótti Ísland nýlega. Hann var staddur í boði í heimahúsi síðla kvölds þegar einn gestanna bjóst til brottfarar og símaði á leigubíl. „Ég ætla að panta leigubíl í Flyðrufold 70, takk,“ sagði gesturinn. Maðurinn veitti þessu athygli og fannst hann vera horfinn á vit fyrri tíðar.

Ástæðan fyrir því að honum þótti þetta eftirtektarvert var sú að þar sem hann býr er ekki lengur hringt eftir leigubílum upp á gamla mátann heldur þeir pantaðir með sérstöku forriti í snjallsímanum. Á skjánum birtist kort sem sýnir hvar leigubíllinn er, hvað langt er í hann, nafn bílstjórans og mynd af bílnum auk einkunnagjafar. Ennfremur er hægt að sjá áætlað fargjald á skjánum.

Ástæðan fyrir því að nútíminn hefur ekki haldið innreið sína á Íslandi í þessu efni er sú að rentukóngar hafa komið sér svo vel fyrir á markaðnum að svigrúm til framfara og frelsi til að keppa er lítið sem ekkert.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 19.8.2016 - 06:25 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Amish áhrifin

Þegar rentukóngur hefur komið sér þægilega fyrir á markaði með vöruna sína tekur við lögmál sem kalla mætti Amish-áhrifin. Amish-áhrifin lýsa sér í því að vöruþróun hægir á sér eða stöðvar alveg, fjölbreytni minnkar, nýir aðilar geta ekki reynt fyrir sér, öldungaráð eða nefnd ákveður verð og ný lönd eru ekki numin.

Það verður að taka skýrt fram að þótt Amish-samfélög séu stöðnuð bændasamfélög, er ekki þar með sagt að Amish-áhrifin eigi við um alla kima íslensks landbúnaðar. Einn kimi er þó ofurseldur Amish-áhrifunum. Það er ostakiminn. Eins ljúffengir og þeir eru nú íslensku ostarnir, þá verður að segjast eins og er að úrvalið er heldur takmarkað.

OsturErVeislukosturEhaggi

Ostur er veislukostur — ef hann er íslenskur. Útlenskur ostur er ekki veislukostur vegna þess að veisluhöldurum gefst ekki kostur á að kaupa hann.

Eitt af skilyrðum rentukóngsins þegar hann tekur að sér að sinna markaði með velferð þjóðarinnar og ríkiskassans að leiðarljósi er að hann þurfi ekki að eiga á hættu að útlendingar dembi jafnvel niðurgreiddum vörum sínum inn á svæðið hans. Skilyrðin voru aldeilis ekki svikin í sambandi við ostinn, enda bundin í lög og höfð utan samkeppnislaga (geri aðrir betur í samningum!).

Að vísu þurfti rentukóngurinn að gefa örlítið eftir vegna gargs í ósanngjörnum og uppivöðslusömum fýlupúkum sem vildu hafa val. Í samvinnu við vini sína í ráðuneytum og frændur sína stjórnmálaflokkunum gaf hann einum og einum útlenskum fýluosti landvistarleyfi. En til þess að enginn tæki upp á þeirri ósvinnu að ánetjast útlenska ostinum var samið þannig að fyrir hvern innfluttan ost þurfti að greiða toll sem gerði hann næstum virði þyngdar sinnar í gulli.

Hvað fjölbreytnina varðar eða öllu heldur skortinn á henni þá birtast Amish-áhrifin einnig í því að nöfn fyrirtækja rentukóngsins eru ósjaldan höfð með greini. Osta og smjörsalan og Mjólkursamsalan eru fyrirtaks dæmi um þetta. Í draumaríki rentukóngsins er aðeins einn aðili sem sinnir þörf markaðarins á hverju sviði. Amish-áhrifin er ljótur púki í þeim annars fallega draumi.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , ,

Föstudagur 12.8.2016 - 16:25 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Festa über alles

Spurt er: Hefði Über getað orðið til á Íslandi? Svarið er nei, næstum örugglega ekki. Það er vegna þess að festan sem rentukóngurinn er svo duglegur að koma á hlutina er svo alltumlykjandi að nýjar hugmyndir fæðast ekki. Og þótt þær fæddust þá væri engin aðstaða til að þróa þær.

Nú eru Íslendingar yfirleitt þjóða fyrstir að taka upp nýja tækni (hæsta hlutfall snjallsímaeigenda, hæsta hlutfall tengdra við internetið osfrv.). En ekki í akstri með farþega. Það gerir festan. Hún hefur farsællega hindrað nýjungar og þróun.

Vörumerki über.

Über er eins og Loftleiðir var, flytur fólk á milli staða fyrir minna.

Þegar rentukóngurinn hefur komið festu á markaðinn (samið um einkaafnot með föðurlegri umhyggju fyrir þjóðinni og ríkiskassanum) beinist orka hans að því að viðhalda festunni. Hann horfir innávið og hlúir að sínu. Það er lítil sem engin orka eftir (hvað þá vilji) til að brydda upp á nýjungum.

Nú er Über yfir 60 milljarða dala virði. Hvað eru nokkrir milljarðar milli vina þegar festa er annars vegar? Festan. Það er hún sem gildir.

Að vísu hefur það komið í ljós að þar sem Über starfar hefur dauðsföllum vegna aksturs undir áhrifum áfengis og annarra fíkniefna fækkað. Hví skyldi það vera? Jú, það er vegna þess að það er ódýrara að ferðast með Über en hefðbundnum leigubílum. Færri freistast til að aka undir áhrifum þegar fargjaldið er lágt.

En það skiptir vitaskuld engu þegar velferð þjóðarinnar er annars vegar. Festa über alles.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , ,

Fimmtudagur 4.8.2016 - 06:11 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Festa á hlutunum

Einn helsti styrkur rentukóngsins er að hann kemur festu á hlutina. Innanlandsflugið fyrir 1952 er gott dæmi. Þar sem áður var opinn, ógnvænlegur, spennandi og krefjandi markaður var nú komin ein föst stærð með einum sællegum rentukóngi.

Sama á við um mjólkurvörumarkaðinn. Þar er svo mikil festa á hlutunum að næstum hver einasta vara í mjólkurkælinum í Krónunni, svo dæmi sé tekið, er frá einu fyrirtæki.

Leigubílamarkaðurinn er að sama skapi í föstum skorðum. Svo föstum að ný fyrirtæki eins og Über geta ekki hafið starfsemi. Penir rentukóngar aka um bæinn á gljáfægðum leigubílunum sínum í skjóli fyrir samkeppninni sem er jú „dýr og almennt til leiðinda,“ svo vitnað sé í einn af fyrrum stjórnmálaleiðtogum okkar.

Bara ef það væri meiri festa á öðrum sviðum. Til dæmis í ástarmálum. Hvað ef öll hjónabönd væru ákveðin fyrirfram af hlutlausri nefnd á vegum ríkisins? Væri það ekki yndislegt? Enginn þyrfti framar að leggja út á þá ógnvænlegu, spennandi og krefjandi braut sem makaval getur verið.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , ,

Mánudagur 27.6.2016 - 09:32 - FB ummæli ()

Rentukóngurinn – Skotheld rök

Stundin rann upp. Fulltrúar Flugfélags Íslands voru mættir. Á miðju borðinu stóð glæsileg súkkulaðikaka. Einhver bið var eftir Loftleiðamönnum. Björn Ólafsson, óvilhallur flugmálaráðherra allrar þjóðarinnar, gekk í salinn með brasshúðaðan kökuhníf í hendi tilbúinn að skera kökuna í réttlátar og sanngjarnar sneiðar. Loftleiðamenn hlutu að birtast á hverri stundu.

Það leið og beið. Ekkert bólaði á Loftleiðamönnum. Loks rann upp fyrir ráðherra og viðstöddum að þeir ætluðu að skrópa. Kliður fór um salinn. Hvað var að gerast? Voru þeir virkilega svo smekklausir að vilja ekki súkkulaðiköku? Öll augu beindust að Birni Ólafssyni sem fitlaði órólegur við kökuhnífinn. Hvað fór úrskeiðis? Hafði hann gert glappaskot, eða öllu heldur hlutlausa nefndin hans? Björn lagði hnífinn frá sér og sagði að hann myndi skrifa bréf þar sem útskýrt væri af hverju nauðsynlegt var að baka köku.

Harðsnúin samkeppni hafði staðið milli Flugfélags Íslands og Loftleiða um langt skeið, skrifaði Björn í bréfinu, harðsnúin, dýr og hættuleg samkeppni. Reynt hafi verið með góðu að fá flugfélögin til að hafa með sér samvinnu, jafnvel sameinast. Það hafi ekki gengið. Því hafi hann neyðst til að skipta flugrútunum milli þeirra með valdi og leggja á kvaðir.

Flugfélögin gátu ekki orðið á eitt sátt

Vísir 5. febrúar 1952. Ráðherra útskýrir hvers vegna flugrútunum var skipt milli flugfélaganna.

En hvað var svona dýrt og hættulegt við samkeppnina að mati Björns?

Dýrt. Fjárhagsráð ríkisins hafði skrifað bréf til ráðuneytisins 1950 og lýst áhyggjum af gjaldeyrisþörf félaganna vegna samkeppninnar: „Mikil óþörf eyðsla hefur átt sér stað í flutningunum.“ Nauðsynlegt væri að ráða bót á því, sagði þar. Í bréfi fjárhagsráðs birtist aðdáunarverð umhyggja fyrir velferð ríkiskassans.

Hættulegt. Tryggingastofnun ríkisins hafði skrifað ráðuneytinu bréf 1951 með vangaveltum um „hvort ekki sé ástæða til að ætla, að hin harða samkeppni félaganna um fólksflutninga innanlands geti aukið slysahættuna.“ Umhyggja Tryggingastofnunar fyrir velferð þjóðarinnar er aðdáunarverð.

Björn Ólafsson gat bara dregið eina ályktun út frá þessum skotheldu rökum: Óviðunandi ástand! Skipa hlutlausa nefnd og láta hana skipta flugrútunum!

Hlutlausu mennirnir í nefndinni voru Birgir Kjaran þingmaður, Baldvin Jónsson frá Fjárhagsráði og Þórður Björnsson frá Flugráði. Að Baldvini og Þórði ólöstuðum var Birgir Kjaran trúlega þeirra hlutlausastur.

Bestu vinir aðal. Birgir Kjaran þingmaður og Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra. Björn skipaði Birgi í nefndina sem skipti flugrútunum innanlands. Fyrir utan að vera sjálfstæðismenn eiga þeir það sameiginlegt að hafa setið í stjórn Flugfélags Íslands.

Birgir Kjaran þingmaður (tv) og Björn Ólafsson samgöngumálaráðherra. Björn skipaði Birgi í nefndina sem skipti flugrútunum innanlands. Fyrir utan að vera sjálfstæðismenn og þingmenn eiga þeir það sameiginlegt að hafa setið í stjórn Flugfélags Íslands.

Umhyggja fyrir þjóðinni og ríkissjóði. Það er svo fallegt. Og kunnuglegt. Eiga ekki búvörusamningarnir nýju sem kosta ríkiskassann 14 milljarða á ári næstu 10 árin að spara ríkinu stórkostlegar upphæðir? Eru þeir ekki gerðir af einskærri umhyggju fyrir þjóðinni?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál
Efnisorð: , , , , , , , ,

Föstudagur 24.6.2016 - 09:30 - FB ummæli ()

Glámskyggnir menn og skarpskyggnir

Michael Lewis sem svo eftirminnilega var dreginn á asnaeyrunum í Íslandsheimsókn sinni skömmu eftir hrunið er hálfgerður seppi þeirra sem sáu þetta sama hrun fyrir. Svo mikill að hann skrifaði heila bók um þá, The Bigh Short. Efniviður bókarinnar var síðar notaður í samnefnda kvikmynd sem naut mikilla vinsælda.

Ef Michael Lewis hefði verið sagt í heimsókn sinni eins og satt var að Davíð Oddsson forsetaframbjóðandi væri í hópi þeirra sem sáu hrunið fyrir hefði tónninn trúlega verið annar í hans garð í greininni Wall Street on the Tundra. Davíðs væri jafnvel getið í The Big Short. Davíð ætti sér jafnvel tryggan seppa í Michael Lewis.

6. nóvember 2007, tæpu ári fyrir bankahrunið mikla, sagði Davíð þetta um bankakerfið: „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Hafa verður í huga að Davíð varð að gæta orða sinna vegna þess að hann var bankastjóri Seðlabankans. Ef þetta er það sem hann sagði opinberlega er ekki nokkur vafi að hann hafði meiri og þyngri áhyggjur með sjálfum sér.

Fróðlegt er að bera Davíð saman við annan frambjóðanda og sérfræðing og kennara í hrunmálum. Á meðan Davíð var skarpskyggn á hlutina var hinn frambjóðandinn einkar glámskyggn á hlutina og tók virkan þátt í einhverju mesta afglapamáli allrar Íslandssögunnar 2009; talaði landið niður og hótaði þjóðinni einangrun og örlögum kommúnistaríkja.

Kannski er frambjóðandinn svona hrekklaus að hann lét plata sig út í þetta? Hver sem ástæðan var set ég stóran fyrirvara við að slíkur maður gegni forsetaembættinu. Það er algjört lágmark að forsetinn haldi með Íslandi.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , , ,

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is