Mánudagur 26.04.2010 - 11:57 - 38 ummæli

Um siðferði þings og þjóðar

Eitt það athyglisverðasta í siðferðisskýrslunni sem fylgir skýrslu sannleiksnefndar Alþingis er hin almenna niðurstaða vinnuhópsins um siðferði í íslensku samfélagi. Í lokaorðum hópsins kemur fram að brýn þörf sé fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum samfélagsins og að hún sé langtímaverkefni sem krefjist framlags frá fólki á öllum sviðum þess.

Þetta eru stór orð en íslenskt samfélag verður að kyngja þeim. Leiðin út úr vanda þjóðarinnar er fólgin í því að taka sannleiksskýrsluna alvarlega og líta í eigin barm. Undanfarið hafa nokkrir íslenskir stjórnmálamenn þverskallast við og ætla sér að hverfa af sviðinu tímabundið í stað þess að skammast sín og finna sér starf við hæfi. Aðrir sitja sem fastast og sjá ekki ekki út fyrir þingsalinn. Siðvæðingin virðist sem sé ekki ætla að byrja hjá Alþingi sem þó fékk það óþvegið hjá vinnuhópnum um siðferði og starfshætti.

Í síðustu viku rakst ég á kostulegt dæmi um siðferðisvandann í samfélaginu. Stofnaður hefur verið fésbókarhópur undir nafninu vinir lúpínunnar. Í eins konar yfirlýsingu á titilsíðu er skorin upp herör gegn fyrirætlunum stjórnvalda til varnar líffræðilegri fjölbreytni í gróðurríki landsins. Þar segir m.a.: „Við mótmælum þessari fásinnu og hyggjumst bregðast við henni með því að stuðla að uppgangi og útbreiðslu lúpínunnar sem mest við megum.“

Fésbókarhópurinn er ekki aðeins að andæfa stjórnvöldum heldur er hér verið að hvetja til lögbrota. Reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda frá árinu 2000 er ágætlega skýr hvað þetta varðar þó svo að til þessa hafi henni lítt verið hampað. Nú hefur umhverfisráðherra tekið af skarið og ákveðið að dreifingu alaskalúpínu í landinu verði hætt nema á sérstökum svæðum sem Landgræðsla ríkisins gerir tillögur um og jafnframt að hafist skuli handa við að uppræta lúpínu á hálendinu strax í sumar.

Að auki hefur framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Íslands birt texta á fésbók sinni þar sem hann finnur aðgerðum ráðherra allt til foráttu og hvetur fólk til að skrá sig á fésbók vina lúpínunnar. Skógræktarfélag Íslands er regnhlífarsamtök skógræktarfélaga um allt land og þau byggja starfsemi sína að stórum hluta á framlögum ríkisins. Svo er að sjá sem félögin ætli sér að vinna opinberlega gegn stjórnvöldum í þessu máli. Ástæðuna fyrir andófinu hygg ég vera þá að samtökin neita að viðurkenna að hluti af starfi skógræktarfélaganna undanfarna áratugi er á gráu svæði gagnvart alþjóðlegum samningum um innflutning nýrra plöntutegunda. Við þetta bætist að yfirmenn hjá Skógrækt ríkisins hafa tekið áskorun framkvæmdarstjórans og skráð sig á fésbók vina lúpínunnar.

Fyrrnefndur vinnuhópur um siðferði og starfshætti segir að ógagnrýnin sjálfsánægja meðal íslensku þjóðarinnar hafi á sinn hátt búið í haginn fyrir þá atburðarás sem hér varð í bankahruninu. Á fésbókinni er á ferðinni hliðstætt dæmi um slíka hegðun sem býr í haginn fyrir spjöll á íslenskri náttúru. Skógræktarfélag Íslands er á bás með þeim þingmönnum sem þurfa að líta í eigin barm þar sem siðferðið er annars vegar. Framkvæmdarstjóri félagsins hefur gengið fram fyrir skjöldu og sýnt landslögum lítilsvirðingu.

Það er sýnilega brýn þörf fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (38)

 • Jóhannes Laxdal

  Andstaða við ólög getur nú varla flokkast undir siðleysi Sigmundur?

 • Spillingarliðið sem þáði „styrki“ af auðmönnum situr sem fastast á þingi og í ríkisstjórn.

  Formaður allsherjarnefndar þingsins þáði 13 milljónir í „styrki“ af glæpamönnum sem lögðu samfélagið í rúst.

  Hvar annars staðar mydi fólk sætta sig við þetta ástand?

  Hvergi í lýðræðisríki.

  Samtryggingin sem Vilmundur Gylfason benti á hefur aldrei verið sterkari í íslenskum stjórnmálum.

  Og hún hefur aldrei verið annað eins samfélagsmein.

 • Jóhannes – hver metur hvað eru ólög og hvað eru lög ?

 • Þorsteinn Úlfar Björnsson

  Lúpínan er sennilega stærsta umhverfisslys í sögu þjóðarinnar. Ég hef lúmskan grun um að við eigum eftir að vakna upp við vondan draum einn góðan veðurdag í ekkert mjög svo fjarlægri framtíð og finna okkur í sömu sporum og Ný-Sjálendingar gagnvart lúpínunni og Ástralir gagnvart kanínum.

 • Jón Baldur

  Er nýbúinn að skrá mig í skógræktarfélag vegna almenns áhuga á náttúrunni, mun snarlega skrá mig úr því aftur. Ekki mun ég vera þáttakandi í félagskap sem hefur skiplegan hernað á náttúru landsins á yfirlýstri stefnuskrá sinni, þvert gegn löngu tímabærum lögum.
  Ég var grunlaus um að skógræktarfólk væri ennþá í þessu sorglega og forna fari.

 • Aðalsteinn Sigurgeirsson

  Ósköp er þetta skrítinn, ómálefnalegur og þversagnakenndur pistill hjá starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sigmundi Einarssyni jarðfræðingi (http://www.ni.is/stofnunin/starfsmenn/persona/68/fyrirtaeki/1).

  Kostulegust þykja mér hin fasísku skilaboð sem starfsmaður NÍ virðist leggja í munn skýrsluhöfunda sannleiksnefndar Alþingis um siðferði í íslensku samfélagi og gera að sínum: að þjóðin sem byggir þetta land skuli eftir birtingu skýrslunnar fylgja ásköpuðu hjarðeðli sínu út í ystu æsar og aldrei gagnrýna nokkra ákvörðun né andæfa nokkurri skoðun stjónvalda.

  Hvort sem sú skoðun eða sú ákvörðun byggist (svo ég noti eigin orð pistlahöfundarins): á „fúski“ fremur en „vísindum“.

 • Brynjólfur Jónsson

  Sigmundur Einarsson ætti að fara varlega í fullyrðingar. Það verður því að leiðrétta þær rangfærslum um að nafn undirritaðs hafi eitthvað með skoðanir skógræktarfélaga að gera. Þar eru sem betur fer margvíslegar skoðanir uppi.

  Það sem undirritaður gerir á sinni eigin fésbókarsíður er væntanlega lögbuninn réttur eins og hvers og eins, eða hvað? Hefur það eitthvað breyst nýlega ? Hefur ekkert með minn vinnustað að gera. Fullyrðingar jarðfræðingsins í kjölfarið um Skógræktarfélag Íslands þar að lútandi eru merkileg hótfyndni og sýna siðferði viðkomandi einstaklings í réttu ljósi.
  Hvað gráa svæði er maðurinn eiginlega að þvaðra um. Hálf kveðnar vísur eru ágætt stílbragði til að fylla í eyður og vekja tortyggni. Hún er um leið lákúra af versta tagi og á því plani er orðræða Sigmundar Einarsonar.

 • Mér sýnist trúverðugleiki Sigmundar Einarssonar á sviði plöntuvistfræði, stjórnmálaheimspeki og siðfræði álíka klénn og á sviði orkumála:
  http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/files/gudmunduromarfridleifsson-undarlegumraeda-30okt2009-mbl_0_0.pdf

  Tek annars undir með Guðmundi Ómari Friðleifssyni:
  Sigmundur! Hættu þessu ómálefnalega þrasi! Hald þú þig frekar að VINNU ÞINNI Á VINNUTÍMA ÞÍNUM á Náttúrufræðistofnun Íslands!

 • Brynjólfur Jónsson

  Um þróað siðferði:
  Það getur vel verið að það sé hlutverk opinbers starfsmanns Náttúrufræðistofunar Sigumund Einarssonar að rægja framkvæmdastjóra frjálsra félagasamtaka en það verður að teljast ólíklegt að það sé í starfslýsingu hans að brigzla félagasamtökum um að vinna á gráu svæði og ætla þeim að vinna gegn stjórvöldum. Ekkert hefur komið fram opinberlega sem styður þær vangaveltur. Það væri því afar áhugavert að fá nánari útlistun á því hvaða háskalega gráa svæði það er sem höfundur vélar um en nefnir ekki. Hafa þar verið brotin landslög eða önnur æðri? Hvaða heilögu samninga er þar að finna sem er vitnað í?

 • Sigmundur: Sú skoðanakúgun, sem þú stendur fyrir, má aldrei þrífast. Þöggunin var næg í tíð Davíðs og hjarðhegðunin. Þjóðin þarf á málefnalegri gagnrýni að halda, líka þegar stjórnvaldsákvarðanir eiga í hlut, og kannski ekki síst þá. Náttúrufræðistofnun hefur að því er virðist einsett sér að knésetja skógrækt á Íslandi, ellegar troða henni undir sinn væng, þar sem ekkert mætti þá gróðursetja, nema það hafi haft númer á lista Flóru Íslands frá 1948. Index librorum prohibtorum var gefið út á dögum Rómarveldis. Þú stendur væntanlega fyrir skoðunum, sem vilja setja allt, sem háttvirtum rannsóknadómstól þóknast ekki, á lista bannaðra tegunda. Megi það aldrei verða!

  Snúið frekar spjótum ykkar að Landsvirkjun, þótt hún úvegi Náttúrufræðistofnun mörg feit verkefni, þar sem dagpeningar koma við sögu. Ykkur er væntanlega tekið að þyrsta í nýja virkjun og meira mat á umhverfisáhrifum, blessuðum sakleysingjunum! Þá er betra að naga skógræktina en skóna sína. Ísland þarfnast þess að flóra þess verði auðguð með fleiri tegundum en Ísöldin þyrmdi og þeim sem öðrum verum náttúrunnar en Homo sapiens þóknaðist að fleyta hingað að henni lokinni. Kynntu þér jarðsöguna maður!

  Mannkynið þarf mat. Það er skylda okkar sem viti bornum mönnum að auðga íslenskan svörð með hinum dásamlegu köfnunarefnisverksmiðjum sjálfrar náttúrunnar, svo sem belgjurtum á borð við lúpínu. Frjósöm mold býður uppá meiri matvælaframleiðslu í sveltandi heimi. Við megum ekki hugsa bara í núinu eins og margir sjálfskipaðir náttúruverndarmenn gera. Við þurfum að hugsa til framtíðar, með fjölgandi mannkyni, þar sem fjölmennum þjóðum vex fiskur um hrygg og taka meira til matar síns. Hvað þarf mörg kíló af korni til að framleiða hvert kíló af kjöti? Svarið er nálægt 10 kílóum, aldrei undir 5 kílóum. Stundum hátt á annan tug kílóa af korni til að framleiða eitt kíló af kjöti.

  Kínverjar ætla ekki að halda áfram að lifa af korni einu saman, sama hvað ykkur myndi langa til þess, þessum hreintrúuðu bókstafsmönnum. Ef þið lesið Ríó sáttmálann, en látið ekki mata ykkur á völdum paragröfum, mynduð þið skilja, að andóf gegn sjálfbærri auðgun íslensks jarðvegs er andstætt þeirri hugsun sjálfbærni, að skila landinu helst gróskumeira til næstu kynslóða en ekki því niðurnídda landi eftir 1000 ára ofbeit, sem við fengum í arf frá hinum myrku miðöldum. Andstætt tilbúnum áburði er lúpínan áburðarverksmiðja sjálfrar náttúrunnar. Og hún hörfar að loknni auðgun jarðvegsins, andstætt því sem þið sum haldið og hafið ekki einu sinni reynt að kynna ykkur málið, nema vera skyldi að gleymst hafi að skeyta í ykkur skilningi á tímavíddinni. Mér dytti aldrei í huga að dreifa lúpínu, ef ég hefði ekki séð æ fleiri gleðileg dæmi þess, að hún hörfar fyrir öðrum gróðri. Nægir þar að nefna Heiðmörkina og Mógilsá, þar sem skógarkerfill riður henni reyndar úr vegi alltof fljótt.

  Þið þyrftuð aðeins að reyna að óhreinka á ykkur hendurnar og anda að ykkur gróðurilminum, áður en þið sendið þjóðinni tóninn úr fílabeinsturninum við Hlemm! Næst þegar þú ferð landveginn austur á Þveráraura, ættirðu að skyggnast inní gamla girðingu neðan við Múlakot, þar sem lúpínan var fyrst notuð til að græða upp aurana. Þar kennir nú margra grasa, sem flest fengu númer í Flóru Íslands frá 1948 og fátt er þar um lúpínu. Þú færð þarna að sjá, hvernig Markarfljótsaurarnir gætu litið út eftir 60 ár, eða sá hluti þeirra, sem er friðaður fyrir ágangi fljótsins, ef hreintrúarstefna ykkar verður brotin á bak aftur.

 • @Þorsteinn Úlfar Björnsson:

  Í anda fyrri pistils Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og siðfræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands (sem vill gera skýran greinarmun á „vísindum“ og „fúski“ sem undirlag stjórnvaldsákvarðana), væri sæmst að stjórnvöld tækju tillit til meðfylgjandi upplýsinga:

  „In their new paper [in Proc. Natl. Acad. Sci. USA], Dr. Sax and Dr. Gaines analyze all of the documented extinctions of vertebrates that have been linked to invasive species. Four-fifths of those extinctions were because of introduced predators like foxes, cats and rats. But Dr. Sax and Dr. Gaines argue that competition from exotic species shows little sign of causing extinctions. This finding is at odds with traditional concepts of ecology, Dr. Sax said.“

  http://fatknowledge.blogspot.com/2008/09/invasive-species-increase-biodiversity.html

  http://www.pnas.org/content/105/suppl.1/11490.abstract?sid=fe3a51f0-b305-416c-8993-78c29b126d30

  Ótti manna gagnvart innfluttum plöntum virðist m.ö.o. byggjast á rangtúlkunum og alhæfingum vegna þekktra dæma af einangruðum eyjum í Kyrra- og Atlantshafi um skaðsemi ýmissa rándýra (rotta, refa og heimiliskatta) á fánu viðkomandi eyja. Rökrétt túlkun á fyrirliggjandi rannsóknagögnum er sú að halda beri rottum, refum, heimilisköttum o.fl. rándýrum frá frá einangruðum eyjum (svo sem Íslandi) til þess að koma í veg fyrir útrýmingu tegunda.

  Hins vegar kemur ekkert annað fram í þessum né öðrum birtum rannsóknum Sax og Gaines á plöntutegundum annað en að innfluttar plöntur séu hinir mestu aufúsugestir á slíkum eyjum. Með tilkomu þeirra fjölgar bara plöntutegundum í lífríkinu, án þess að líffræðileg fjölbreytni í frumbyggjagróðurlendinu bíði tjón af samneyti við nýbúana! Á öllum eyjum í Kyrrahafi (þ.m.t. Nýja Sjálandi) hefur fjöldi háplöntutegunda tvöfaldast eftir landnám Evrópumanna og ekki er þekkt eitt einasta dæmi um að innlendri plöntutegund hafi verið útrýmt vegna landnáms og samkeppni við innfluttar plöntutegundir.

  Í krækjum við greinar í New York Times um rannsóknir þeirra Sax og Gaines birtust tvö gröf sem segja í raun alla söguna um að ótti sumra landa okkar um örlög frumbyggjaflóru þessa einangraða eylands af völdum nýbúajurta sé með öllu ástæðulaus:

  http://graphics8.nytimes.com/images/2008/09/08/science/09inva_1.GIF

  http://graphics8.nytimes.com/images/2008/09/08/science/09inva_2.GIF

 • @Guðmundur Páll Ólafsson

  Innan fræðasviðsins „innrásarlíffræði“ (invasion biology) kennir margra og mismerkilegra grasa. Fæst af því sem ritað hefur verið í nafni þeirrar fræðigreinar stenst viðurkennda vísindalega aðferðafræði.

  Sá litteratúr sem Guðmundur Páll Ólafsson tínir til sem rök fyrir máli sínu er e.t.v. ekki það hlutlægasta sem um þessi mál hefur verið ritað.

  Fremur vil ég benda honum og öðrum áhugasömum á lesa nýjustu bók Marks Davis, prófessors McAllisterháskóla í Minnesota (sjá hér fyrir neðan).

  Sá ágæti maður sagði nýverið í viðtali við BBC:
  „What I have been arguing against is sloppy thinking, sloppy communication, over-generalization, simplification – there’s a lot of nuance out there.“

  Slíkt höfum við skógræktarmenn einnig verið að gera í gegnum árin, nú síðast á þessum vettvangi.

  Alien Invasion? An Ecologist Doubts the Impact of Exotic Species
  Many conservationists have dedicated their lives to eradicating invasive plant and animal species, but Mark Davis wants them to reassess their missions
  http://www.scientificamerican.com/article.cfm?id=alien-invasion-ecologist-doubts-exotic

  Mark A. Davis (2009): Invasion biology. Oxford Univ Press. 244 bls.
  http://books.google.is/books?id=41jS4xjy3P8C&printsec=frontcover&dq=mark+davis+invasion+biology&source=bl&ots=56rbBHvdDU&sig=LYQU9YQEDKtfFR-wQt5pvMBQ-0E&hl=is&ei=RV3YS9P1JJemnQPy7K2-CA&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=3&ved=0CBMQ6AEwAg#v=onepage&q&f=false

 • „í Bandaríkjunum er talið að tjón vegna sebraskeljar nemi um fimm milljörðum dala árlega“ stóð í Fréttablaðinu fyrr í vikunni (http://www.visir.is/article/2010303203156)

  Um þetta er fjallað nánar á vef Scientific American með eftirfarandi hætti:

  Mussel Madness
  For ecologists Mark Davis of Macalester College in St. Paul, Minnesota and Matthew Chew of Arizona State University, rhetoric over invasive species has crossed the line from science to propaganda. Certainly, fighting invasive species can have a kind of populist appeal: ecological righteousness that anyone can undertake in their own backyard. Conservation groups and government agencies have fueled this xenophobic mentality by producing FBI-style „wanted“ posters for some of the most notorious invasive species. Consider the case of zebra mussels, which first arrived in 1988 from the Black and Caspian seas in Asia to the U.S.’s Great Lakes region, after possibly hitching a ride in the ballast water of ships entering through the Saint Lawrence Seaway. Today, the mussels clog the region’s power utilities and water treatment plants, damaging nautical equipment, as well. Some have estimated that the mussels cost such facilities $500 million per year, but Chew says the mollusks’ impact has a silver lining: „They’ve clarified the water a bit.“
  (http://www.scientificamerican.com/slideshow.cfm?id=alien-invasion-ecologist-doubts-exotic&photo_id=15B8FFB1-E672-E223-99E75EB4077FA2A4)

 • Guðmundur Páll Ólafsson

  Þökk sé þér, Sigmundur, fyrir góða grein og þarfa áminningu um siðferði í íslensku samfélagi. Mér komu hins vegar ekki á óvart heiftúðug viðbrögð Aðalsteins Sigurgeirssonar á Mógilsá að saka þig um fasisma, ómálefnalegan og þversagnakenndan pistil. Sá málflutningur hefur tíðkast hjá honum og nokkrum öðrum skógræktarmönnum um áratuga skeið, Skógrækarfélagi Íslands því miður til mikils vansa.

  Ég furða mig á fáfræðinni um líffræðilegan fjölbreytileika sem Aðalsteinn og reyndar fleiri virðast hampa og velti því fyrir mér hvort hann hafi lesið líf- og vistfræði, kynnt sér alþjóðlega sáttmála um líffræðilega fjölbreytni og verndun innlendra gróðursamfélaga sem Íslendingar eru aðilar að eins og CBD, Bernarsamninginn, NOBANIS (www.nobanis.org) eða CAFF; fylgst með ógninni af innfluttum ágengum tegundum um allan heim og viti um það hömlulausa ábyrgðarleysi að flytja alls kyns tegundir lífvera inn í vistkerfi sem eru varnarlaus fyrir ágangi nýrra tegunda. Lúpínan er dæmi um tegund sem fékk að dafna og breiðast út eins og óhamin bankastarfsemi – alveg sama þótt varað væri við henni.

  Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi hvatt þjóðir heims til að taka á þessari vá og þar sem skynsemin ræður ríkjum er allur innflutningur á plöntum og dýrum stranglega bannaður. Þetta er ekki af fasískum ástæðum heldur af líffræðilegum og efnahagslegum enda er búið að rugla vistkerfi heimsins verulega með heimskulegum og illa grunduðum innflutningi á framandi lífverum. Skógarkerfilshlíðarnar á Mógilsá eru sýnishorn af mistökum.

  Ég vil hvetja skógræktendur og félaga í Skógræktarfélagi Íslands að ígrunda og kynna sér vel hættuna af ágengum innfluttum plöntum og ræða málefnalega um vandann í stað dylgja og stóryrða. Vil benda á sérlega vandaða skýrslu frá 2009 sem var unnin af starfsmönnum Náttúrustofu Vesturlands í samstarfi við Stykkishólmsbæ http://nsv.is/NSV_skyrslur/Agengar plontur i Stykkisholmi, uppsett skyrsla, lokaeintak, netupplausn.pdf Í þessu skilmerkilega plaggi segir meðal annars:

  „Dreifing innfluttra tegunda getur hæglega leitt til hnattrænnar einsleitni, sem er talin ein helsta ógnun við líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu skv. þúsaldarskýrslu Sameinuðu þjóðanna [39]. Það eru því léleg skipti að auka tegundafjölbreytni ákveðins svæðis með tegundum sem eru algengar alþjóðlega á kostnað tegunda sem eru sjaldgæfar eða gætu orðið sjaldgæfar í nánustu framtíð.“

  Í skóglausa belti Andesfjalla, „paramo“, er fjöldi fágætra plantna sem notaðar hafa verið m.a. til lækninga frá fornu fari og svo auðugt og sérstætt er vistkerfið af lífmyndunum að ekki hafa allar verið greindar til tegunda en glöggt er að vistkerfið „paramo“ er mikill fjársjóður fyrir framtíðina og lyfjaframleiðslu í heiminum. Einmitt í þessu fágæta belti hafa greniskógaræktendur í Hollandi komið sér fyrir með þykjustu-þróunaraðstoð við Ekvador og eyðileggja skipulega dýrmætt vistkerfi, heimsbyggðinni til mikils skaða. Hvort skyldi nú vera mikilvægara greniskógur við miðbaug eða náttúrulegur „paramo“?

  Það er sorglegt að vita að Skógrætarfélag Íslands skuli ekki hafa víðsýnni forystu og vera læs á slíka vá sem innfluttar plöntur á borð við lúpínu eru – og það eftir svo mikla reynslu og rugl. Kannski er Hrísey paradísarástand þeirra. Og viðbrögð Aðalsteins og Sigvalda skógarvarðar S.Á. eru af sama toga og heiftin gegn þeim sem andmæltu virkjunum og eyðileggingu náttúrulegra þjóðargersema á tíma Eyjabakka, Kárahnjúka og Þjórsárvera.

 • Ég hjó eftir því hjá sjálfskipuðum páfa íslenskra náttúruverndarmála, Guðmundi Páli Ólafssyni, hvernig hann grípur til gamalkunnugs bragðs í íslenskum rökdeilum: útúrsnúningnum.

  Hér er fyrst það sem ég sagði um málflutning Sigmundar jarðfræðings og siðfræðings:
  „Kostulegust þykja mér hin fasísku skilaboð sem starfsmaður NÍ virðist leggja í munn skýrsluhöfunda sannleiksnefndar Alþingis um siðferði í íslensku samfélagi og gera að sínum: að þjóðin sem byggir þetta land skuli eftir birtingu skýrslunnar fylgja ásköpuðu hjarðeðli sínu út í ystu æsar og aldrei gagnrýna nokkra ákvörðun né andæfa nokkurri skoðun stjónvalda.“

  Og skoðum síðan hvernig GPÓ kýs að snúa út úr orðum mínum:

  „Mér komu hins vegar ekki á óvart heiftúðug viðbrögð Aðalsteins Sigurgeirssonar á Mógilsá að saka þig um fasisma, ómálefnalegan og þversagnakenndan pistil. Sá málflutningur hefur tíðkast hjá honum og nokkrum öðrum skógræktarmönnum um áratuga skeið, Skógrækarfélagi Íslands því miður til mikils vansa.“

  Könnum í framhaldinu hvað orðið „fasismi“ þýðir skv. íslenskri orðabók og berum þá skilgreiningu saman við efni pistils Sigmundar:

  „þjóðernissinnuð stjórnmálastefna (á 20. öld) blönduð kynþáttahyggju, andstæð lýðræðisskipan, með áherslu á forræði ríkisins og öflugs leiðtoga þess með miklu lögregluvaldi á öllum sviðum og skipan atvinnulífs í hálfopinberum vinnustéttafylkingum.“

  Öðrum útúrsnúningum, dylgjum, aðdróttunum og staðreyndavillum GPÓ hirði ég ekki um að svara. Enda dæma þær sig sjálfar.

 • Dálítið er hún langsótt hliðstæðan, sem Guðmundur P. Ólafsson sækir sér til Andesfjalla við miðbaug. Ísland er landfræðilega í barrskógabeltinu, í því loftslagsbelti, sem stundum hefur verið kallað hið kaldtempraða. Við búum hér ekki við heimskautaloftslag. Samt virðist birkið okkar öllu kræklóttara en gengur og gerist um þá tegund í öðrum heimkynnum hennar, svo sem í Skandinavíu. Það kann að stafa af því, að erfðamengi þess hafi þrengst svo mjög á kuldaskeiðum ísaldar, að hér hafi einungis orðið eftir sá þröngi hluti erfðamengisins. sem þrífst á mörkum hins mögulega, sem sagt birki aðlagað heimskautaloftslagi. Sumir halda, að neikvætt úrval hinnar ágengu framandi tegundar Homo sapiens á öldum áður hafi skapað kræklubirkið. Ég hallast fremur að fyrri tilgátunni, en hvorug hefur verið sönnuð ennþá eða afsönnuð. Hvað sem því líður, er það afbrigði tegundarinnar, sem er hér á landi útbreiddast, kallað í Skandinavíu „Betula tortuosa“. Kræklubjörkin ætti með hlýnandi loftslagi að fylgja skógarmörkunum uppá við (ef ofbeit verður aflétt), en á lægri svæðum gætu tekið við ýmist bein- og stórvaxnari afbrigði tegundarinnar, en einnig aðrar tegundir, sem sumar hverjar voru hér á fyrri hlýskeiðum ísaldar, aðrar – eða náskyldir ættingjar þeirra – á tertíer og sumar aldrei. Lesa má um trjátegundir, sem áður uxu á Íslandi, en eru nú útdauðar, í gagnmerkri grein eftir þá Friðgeir Grímsson og Leif Á. Símonarson í Skógræktarritinu, 2. tbl. frá árinu 2008. Vegna hnattstöðu Íslands úti á reginhafi og undangenginna kuldaskeiða ísaldar, eru flóra og fauna Íslands afar snauðar, hvað varðar lífbreytileika og allur samanburður við háfjöll við miðbaug út í hött, enda hefur lífríkið þar um slóðir getað hörfað upp og niður fjöllin eftir því sem hitafar hefur sveiflast, sömu tegundir því haldist við og þróast jafnvel um milljónir ára og lífbreytileikinn þar því margfaldur á við hér á landi.

  Náttúran er sífellt að breytast. Trúarleg afstaða Guðmundar Páls Ólafssonar hefur e.t.v. ekki pláss fyrir slíkan sveigjanleika í hugsun, að hinn viti borni maður eigi þess kost að nota vit sitt til að hjálpa náttúrunni til að aðlagast ört hlýnandi loftslagi með því að flytja inn tegundir, sem ekki náðu að verða innmúraðar í Flóru Íslands frá 1948. Eins er það kannski hluti hinnar trúarlegu afstöðu, að ekki megi auka gróðurmátt íslenskrar moldar með notkun mikilvirkra köfnunarefnisverksmiðja sjálfrar náttúrunnar. Frekar skuli notaður verksmiðjuframleiddur áburður eins og Landgræðslan gerir mikið af, sem krefst gífurlegrar losunar gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu, auk þess sem framleiðsla hans gengur á takmarkaðan forða jarðefnaeldsneytis í heiminum. Sá áburður er líka allur aðfluttur um langan veg og til kaupanna notaður dýrmætur gjaldeyrir á þessum síðustu og verstu tímum. Kannski vilja hinir svörtustu náttúruverndarmenn, þeir sem elska grjótið og sandinn og melana, reyna að viðhalda klæðaburði hinnar tötrum klæddu Fjallkonu óbreyttum um aldur og æfi, hvað sem tautar eða raular (t.d. með ofbeit eða eiturefnahernaði) eða gera eins og sumir hugmyndafræðingar „laissez faire“ í uppgræðslumálum: Láta náttúruna græða landið og auka gróðurmáttinn „á sínum eigin forsendum“ (hljómar meira sem trú en vísindi í mínum eyrum sbr. aðferðarfræði Dr. Ásu L Aradóttur o. fl. hugmyndafræðinga lasissez faire stefnunnar í uppgræðslumálum). Helst að megi gróðursetja loðvíði, sem þó kemur jafnan af sjáfdáðum, í kjölfar annars gróðurs, vegna þess hve fræ hans er víðförult. Hvað skyldi taka mörg hundruð ár, að gæða landið þeim gróðurmætti sem náttúrufarsskilyrði, svo sem loftslag og bergrunnur, bjóða uppá, ef notaðar verða aðferðir laissez faire? Hversu mörg börn munu þá hafa dáið um aldur fram af matarskorti, sem koma hefði mátt í veg fyrir með því að auka gróðurmátt Ísland með skilvirkari hætti, þar sem Homo sapiens notar vit sitt, en lætur ekki stjórnast af trúarlegum kennisetningum náttúruhyggjunnar?

  Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að skógur ræktaður á Íslandi, dregur úr þrýstingi á skógarhögg í Amazonas. Hið sama mun kjötframleiðsla með sjálfbærum hætti gera hér á landi í framtíðinni, þegar töfraðir hafa verið fram þeir eiginleikar íslenskrar gróðurmoldar, sem náttúran sjálf býður uppá, en skyni skroppnir menn, hafa látið drabbast niður í tímans rás, lengstum af illri nauðsyn, en hin seinni ár af ásetningi.

  Lífbreytileikinn í regnskógi Amazonas er svo mikill, að í samanburði við hann, er allt tal um lífbreytileika á Íslandi fremur hlægilegt, ég tala nú ekki um, ef menn neita að grípa til aðgerða hérlendis, sem hjálpa til við að varðveita lífbreytileikann í Amazonas, á þeim grundvelli, að með því væri verið að spilla lífbreytileika hérlendis – og bera engin rök fram máli sínu til stuðnings. Upptalning Guðmundar Páls á alþjóðasamningum, sem Íslendingar hafi undirritað í þessu sambandi, stenst reyndar ekki nánari skoðun og er honum til vansa. Ef farið væri að vilja Guðmundar P. Ólafssonar og náttúrufræði dulhyggjunnar og náttúran fryst í núverandi fátæklega fari á Íslandi, fullyrði ég að slíkt myndi óbeint stuðla að eyðingu mun meiri lífbreytileika í Amazonas en nemur öllum lífbreytileika á Íslandi, sé miðað við Flóru Íslands frá 1948. (Reyndar er rétt að geta þess, að fleira telst með í lífbreytileika en háplöntur).

  Við eigum að starfa í anda Staðardagskrár 21: „Act local, think global“. Hérlendis má rækta trjátegundir, sem eru betur aðlagaðar hlýnandi loftslagi en íslenska birkið, m.a.s. betur aðlagaðar því loftslagi, sem núþegar er hér á landi en birkið. Með því mætti, bæði draga úr eftirspurn eftir viði úr regnskógum Amazonas, og líka binda mikinn koltvísýring og nota lakasta efnið til framleiðslu á lífdísil eða metanóli/etanóli, sem frá sjónarmiði orkubúskapar er allt að þvi 50 sinnum skilvirkari orkuframleiðsla, en sú etanólframleiðsla, sem nú fer fram í Bandaríkjunum og byggist á maís (og sem auk þess tekur því mat frá sveltandi fólki).

  Hvað varðar heimspekilegar hugleiðingar, sem Guðmundur Páll vitnar til í skýrslu Náttúrustofu Vesturlands, þá get ég mér þess til, að skýrsluhöfundar viti ekki, að svo sjaldgæf er lúpínan í Alaska, vegna þess að hún græðir landið jafnóðum, raskist gróðurþekjan og víkur svo fyrir öðrum gróðri, að þarlendir aðilar keyptu lúpínufræ frá Landgræðslunni fyrir nokkrum árum til að græða upp raskað gróðurlendi meðfram olíuleiðslunni frá norðurströnd Alaska til Valdez við suðurströndina. Alaskalúpínan gæti góðu heilli náð tímabundið mikilli útbreiðslu á Íslandi, einmitt vegna þess hve gróðurhulan er hér slitrótt. En jafnvíst er, að hún mun víkja aftur, þegar hún hefur gætt jörðina meiri grósku.

  Ástand gróðurhulunnar á Íslandi er að langmestu leyti hinum viti borna manni að kenna, sem því miður hefur nú óvart valið sér til forystu fólk, sem vill viðhalda þessum gróðufarslega óskapnaði. Maður hélt, að Samfylkingin væri hinn pólitíski armur Náttúrufræðistofnunar, vegna vensla forstöðumanns hennar við forystu þess flokks. Ekki veit ég, hvernig stendur á því, að nú slitnar vart slefan milli forystu NÍ og umhverfisráðherra úr VG. Er búið að sameina VG og Samfylkinguna?

 • Sigmundur Einarsson

  Vegna þess sem ritað hefur verið hér að ofan tel ég skylt að upplýsa að sá sem skrifar undir nafninu S.Á. heitir Sigvaldi Ásgeirsson og er framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga. Aðalsteinn Sigurgeirsson hefur einnig farið mikinn en hann er forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins að Mógilsá.

 • Þetta er rétt, það staðfestist hér með, að SÁ er skammstöfun fyrir Sigvaldi Ásgeirsson. Ég skil þig þannig Sigmundur, að þú sjáir að þér og hafir ekkert málefnalegt frekar til umræðunnar að leggja. Vonandi kynnir þú þér jarðsögu Íslands, einkum gróðurfar á Tertíer. Þá getum við aftur rætt saman.

 • Það staðfestist hér með, að siðfræðingurinn/jarðfræðingurinn á Náttúrufræðistofnun Íslands fer rétt með starfsheiti mitt og vinnustað. Því er við þessar upplýsingar að bæta, að undirritaður situr í frítíma sínum í stjórnum ýmsra frjálsra félagasamtaka til almannaheilla, s.s. Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Skógræktarfélagi Íslands og Trjáklúbbnum. Auk þess er undirritaður formaður Skógfræðingafélags Íslands.

  Séu menn á annað borð þannig innréttaðir og einbeittir, geta þeir nú dróttað ýmsu að þeim samtökum, svo sem „hegðun sem býr í haginn fyrir spjöll á íslenskri náttúru“, brigslað þeim um að vinna á „gráu svæði gagnvart alþjóðasamningum“ og hermt upp á þau að þau „vinni gegn stjórvöldum“ (sbr. SE, 26/5, kl. 11:57), með þeim rökum að innan þeirra raða sé að finna menn sem leyfa sér þá ósvinnu að andmæla eða vefengja ýmsar staðhæfingar sem fram eru settar í háheilögu nafni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

  En ástæða er að taka fram, að það sem hér birtist í mínu nafni er ritað alfarið í eigin nafni og utan vinnutíma og er óviðkomandi vinnustaðnum.

  Hitt er svo annað mál, að ég hafði vonast til þess að Sigmundur kæmi með aðeins málefnalegri andsvör við athugasemdum mínum og annarra. En hvorki örlar á vilja né getu til slíks. En það verður víst hver að fljúga eins og hann er fiðraður til.

  Að lokum skal Sigmundur Einarsson minntur á að hann á enn eftir að biðja Brynjólf Jónsson framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands formlega afsökunar á fyrri brigslyrðum sínum og dylgjum.

  Ég sé ekki betur en að Brynjólfur hafi fullt tilefni til ákæru á hendur Sigmundi jarðfræðingi Einarssyni fyrir meiðyrði, að teknu tilliti til 233. (a), 234., 235., 236. og 237. greina almennu hegningarlaganna. En það verður Brynjólfur að meta sjálfur.

  [233. gr. a. Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á [mann eða hóp manna]1) vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, [kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar]1) sæti sektum …2) eða fangelsi allt að 2 árum.]3)
  234. gr. Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.
  235. gr. Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða [fangelsi]1) allt að 1 ári.
  236. gr. Sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varðar það …1) fangelsi allt að 2 árum.
  Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það sektum …1) eða fangelsi allt að 2 árum.
  237. gr. Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.

 • Áskell Örn Kárason

  Það er svona rétt að maður þori að taka til máls hér, hitinn er slíkur að maður gæti átt von á bréfsprengju. Minnir mig dáldið á það sem var í gangi á gamladaga þegar marxlenínistar voru í tísku. Þá var eg alltaf hræddur við að tala af mér.
  Sjálfur er eg leikmaður á sviði náttúruvísinda, en sæmilega óvitlaus samt hefur mamma sagt mér.

  Lúpínan er auðvitað varasöm planta og ágeng, en henni fylgir engin sérstök umhverfisógn. Margt er enn órannsakað um hegðun hennar, en eg kenni a.m.k. örlítinn vott af rasisma í skrifum sumra um þessa „útlendu“ plöntu. (Af hverju má vera á móti útlendum plöntum og dýrum, en allsekki á móti útlendu fólki?) Þessu urt hefur verið hér frá 1945 og skapað sér þegnrétt ekki síður en þýsku vinnukonurnar sem hleyptu lífi í marga baðstofuna á forðum. Ef einhver heldur að hún muni eyðileggja íslenska mela og móa, þá verður maður að biðja um frekari útskýringar. Sjálfum finnst mér hún auðvitað mega láta uppáhalds berjalautina mína vera.

  Mér er meira uppsigað við skógarkerfilinn, sem þó er ekki alveg eins mikið hataður og úlfabaunin meðal hreintrúarmanna. Eg á mér óðalsreit norður í Reykjadal sem er „kerfli vaxinn milli fjalls og fjöru“. Ef lúpínan er bjór, þá er kerfillinn a.m.k. 75% vodki, gott ef ekki heróín. Kosturinn við hinn síðarnefnda – eða gallinn í mínu tilviki – er að hann vex ekki út um allt, heldur bara þar sem jörð er þokkalega frjósöm. Þar leggur hann allt undir sig nema sauðkind hamli. Kannski verður hún okkur til bjargar í þessu efni þegar upp er staðið. Það væri dáldið kátlegt.

  Að lokum legg eg til að Aðalsteinn og Guðmundur Páll fari í sjómann til að komast að því hvor þeirra hefur rétt fyrir sér.

 • Guðmundur Páll Ólafsson

  Jæja, mikill er nú trúarhitinn í Lúpínubræðrum, og ekki öll vitleysan eins.
  En takmörk eiga hinsvegar að vera fyrir því hve leiðinlegir menn mega vera á svona bloggsíðum. Áttu ekki einhverja síu á þetta, Sigmundur?

  Reyndar gat ég brosað út í annað þegar Aðalsteinn kallaði mig „Sjálfskipaðan páfa íslenskra náttúruverndarmála“ því þetta er svo miklu fallegra uppnefni heldur en það sem hann hefur áður kallað mig. Lái mér hver sem er að vilja ekki vera bendlaður við einn svakalegasta fjöldamorðingja og rasista sögunnar sjálfan Karadzic, eins og Aðalsteinn skrifaði mér í bréfi sem hann skráði í vinnunni á Mógilsá – og ég geymi. Síðan mátti líka brosa af fullyrðingu Sigvalda: “… að skógur ræktaður á Íslandi dregur úr þrýstingi á skógarhögg í Amazonas.“ Einmitt það? Síðan hvenær?

  Sigvaldi prestur í skógi virðist lesa með gagnaugunum og segir að ég stundi „náttúrufræði dulhyggjunnar“. (Ég mátti nú til með að fletta þessu upp). Það eru fréttir, því sljórri einstakling á því sviði er vart að finna. Hins vegar þykir mér vænt um íslenska náttúru eins og hún hefur mótast í tímans rás og varla er það glæpur að þykja landið sitt fagurt og frítt (án lúpínu og skóga)? Melar þykja mér mjög fallegir við viss tækifæri og þeir eru afar fjölbreyttir líka. Þetta er ekki spurning um smekk heldur skynjun. Hins vegar harma ég, eins og kemur alls staðar fram í skrifum mínum, gróður- og jarðvegseyðingu af manna völdum, einkum á hálendi Íslands. Ég harma það líka að skógrækt og landgræðsla hafi ekki borið gæfu til að sinna því grundvallarhlutverki að koma upp öflugum stofnum fjölbreyttra íslenskra jurta til að endurheimta gróðurfar. Og ég hef lýst því yfir og geri enn að ég tel það háalvarlegt að halla sér að ágengum erlendum tegundum vegna getuleysis við að efla harðgerar íslenskar tegundir og kvæmi. Sigvaldi segir lúpínuna hörfa með tímanum og tiltekur dæmi að hún hörfi fyrir innfluttum skógarkerfli. Mikið rétt, og Spánarkerfill er enn ágengari innflutt planta og algjörlega gagnslaus. Það er þó ekki hægt að segja um lúpínuna. Og það er eðlilegt að lúpínan í Alaska vaði ekki uppi í sínu náttúrulega umhverfi. Alaskalúpínan er frá Alaska, Sigvaldi. Ansi óheppileg dæmi hjá þér, Lúpínuvinur.

  En ég nenni ekki þessum skrifum mikið lengur. Leiðindi eru hættuleg. Þau geta drepið mann. Ég vil samt árétta að hér þýðir ekki að draga fram einhverja menn í einhverjum löndum sér til stuðnings. Á netinu má alltaf finna kverúlanta og tækifærissina sem eru á sömu línu og aðrir kverúlantar. (Þetta er bara dæmi – ekki beint til ykkar). Innflutningur á lífverum er háalvarlegt mál og vandamál um allan heim, og í stað þess að treysta einhverjum flökkusagnaspekingum þá er hollara að hafa vísindamenn Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra stofnana um alla Jörð að traustum, fræðilegum bakhjarli. Hér á landi höfum við til dæmis Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, ágæt háskólasetur og náttúrustofur, til dæmis litla náttúrustofu vestur í Stykkishólmi sem bræðrum þykir ástæða að hnýta í vegna þess að hér á að útrýma lúpínu úr Stykkishólmslandi. Bravó!

  Þjóðir heims eru að taka við sér – og enn erum við langt á eftir – til dæmis bættist Brasilía nýverið í hóp þeirra sem hafa bannað innflutning á plöntum. Engu skiptir hvort líffræðilegur fjölbreytileiki er mikill eða lítill. Menn eru einfaldlega ekki þess umkomnir að leika alviturt almætti, ekki einu sinni á Mógilsá eða í Vesturlandsskógum hversu moldugir upp fyrir haus menn eru. Enda vitkast menn ekki endilega við það frekar en að míga í sjó. Ég hef til dæmis gert hvort tveggja og skánaði ekki neitt.

  Enn vil ég árétta að ég vara fólk við að trúa skrifum þeirra reglubræðra og þó er mun varhugaverðara kæruleysi og virðingarleysi þeirra gagnvart íslenskri flóru og þeim stofnunum sem sinna náttúrurannsóknum. Einnig er alvarlegt andvaraleysi í stjórnsýslunni að ausa fé skattborgaranna í það að ógna íslenskum vistkerfum. Mál að linni.

  Þótt ég líði fyrir leiðindi og hætti á bloggi þá vil ég þakka þér Sigmundur fyrir Siðferði þings og þjóðar, góða grein og þarfa. Þeim félögum sendi ég líka kveðju með vísu sem ekki var ort um þá en vil tileinka þeim hana hér. Höfundur er óþekktur en vísan er svona:

  Bræður tveir á bökkum slógu,
  steinn í hverju höggi var.
  Það var þeirra fergursta lukka
  að þeir féllu ekki báðir í ána.

 • En herra Sigmundur! Er ekki komin næg ástæða fyrir ykkur þessa plöntu-siðfræði-vistfræðinga að fara líka að fetta fingur út í innfluttning á fólki af framandi þjóðerni, svo ekki sé talað um af öðrum litarhætti til landsins.

 • Ég útskýrði skýrt og greinilega, hvers vegna lúpínan er ekki jafnalgeng í Alaska og á Íslandi og get ekki annað en vorkennt Guðmundi Páli fyrir skilningsskortinn. Hún græðir semsagt upp raskað land í Alaska jafnóðum, af því að spírunarhæft fræ er í jarðveginum vítt og breytt, en hér á landi hefur hinn viti borni maður raskað tugum prósenta alls landsins og gert það að manngerðum eyðimörkum, sem lúpínan gæti vissulega grætt með sjálfbærum hætti. Þeir sem kjósa frekar að ausa út tilbúnum áburði til uppgræðslu geta vart talist styðjast við sjálfbærar aðferðir. Þeir sem vilja viðhalda eyðimörkinni verða þá að lýsa sig meðvitað samábyrga um hungurdauða viti borinna manna, jafnvel í fjarlægum heimshornum í framtíðinni, enda ber okkur að hugsa hnattrænt, þegar við framkvæmum heima fyrir.
  Act local, think global er kjarninn í Staðardagskrá 21. Kannski vilja Guðmundur Páll og fleiri ekki tileinka sér hugsun Staðardagskrár 21, enda þyrftu þeir þá að rífa höfuðið upp úr sandinum. Þannig held ég, að slíku fólki sé fyrirmunað að skilja samhengið á milli þess að rækta skóg á Íslandi og vernda skóga í Brasilíu. Ég tek fram, að lengi vel var mér illa við þetta tuð um Staðardagskrá 21, það var nafnið eða þýðingin á hinu erlenda hugtaki, sem fór í mínar fínustu. Engu að síður vona ég, að æ fleiri Íslendingar muni tileinka sér þessa hugsun, jafnvel þótt sumir þeirra fái við það ofbirtu í augun, eftir langa dvöl með höfuðið ofaní sandinum.
  Hvað varðar þjóðernis-dulhyggju Guðmundar Páls get ég viðurkennt að ættjarðarást er mér í blóð borin, þótt mér finnist stundum, að Íslendingar verðskuldi ekki land það, sem þeir hafa fóstrað síðustu 11. aldirnar. Eins þykja mér margar helstu perlur sígildrar tónlistar frá öld þjóðernisrómantíkur með því fegursta sem hinn viti borni maður hefur skapað. En af sömu hugsjónum í bland við dulhyggju spratt líka þjóðernisjafnaðarstefnan. Fánaberar hennar voru miklir náttúruverndarmenn og vildu t.d. útrýma fólki af víðum lendum í austanverðri Evrópu, svo þar mættu verða ósnortnar veiðilendur hinna kynhreinu.
  Guðmundur Páll upplýsir, að Brasilía hafi nú bæst í hóp þeirra ríkja sem banna innflutning erlendra tegunda. Samt er langt yfir 90% af öllum gróðursettum trjám í Brasilíu um þessar mundir af erlendum uppruna, sem er kannski miður, því Brasilía skartar yfir 7.000 innlendum trjátegundum meðan þær trjátegundir, sem fengu inni í flóru Íslands frá 1948 fylla vart tuginn. Hvergi á jörðinni mun finnast jafnmikill lífbreytileiki innan eins ríkis og í Brasilíu. Fá ríki munu vera jafn fátæk að lífbreytileika og Ísland. Því er svo sannarlega ólíku saman að jafna. Vonandi munu þjóðernishreinsanir í flóru Brasilíu ekki verða til þess að kaffirunnanum verði útrýmt þar í landi, en hann mun innflutt tegund frá Horni Afríku.

 • Guðmundur Halldórsson

  Hef fylgst með þessari umræðu og þar sem ég sat í hópi sem vann við gerð lúpínuskýrslunnar og tel ég mér þetta mál skylt. Ég tel mig geta fullyrt að allir íslenskir gróðurvistfræðingar og grasafræðingar hafi haft upp varnaðarorð gagnvart notkun lúpínu og erlendis er afstaða þessara sérfræðinga einnig mjög á þá lund. Gagnrýni góðra gjalda verð, en við verðum að gæta þess að bera virðingu fyrir sérfræðiþekkingu annarra ég held að við æskjum slíks öll hvað okkar eigin sérfræðiþekkingu áhrærir1. Gróðurvistfræði er fræðasvið sem okkur ber að virða. Samfélag byggir á trausti og hér verður slíkt einnig að gilda. Hvað áhrærir niðurstöðu skýrslunnar þá markast hún annarsvegar af þeim varnaðarorðum sem fræðimenn á sviðinu hafa haft uppi, en hinsvegar af þeim nytjum sem af tegundinni eru. Óheft og ábyrgðarlaus dreifing vegur að nytjum tegundarinnar til frambúðar, því fyrr sem komið er á skýrum reglum um notkun lúpínu því betra.

 • @ Áskell Örn Kárason

  Hjartanlega sammála öllu sem í bréfi þínu stendur, nema e.t.v. einu:

  Hvorugur okkar Guðmundar Páls Ólafssonar mun nokkru sinni ná að höndla algildan sannleikann. Því tel ég til lítils að reyna með okkur í sjómann til þess að sýna hvor okkar hefur rétt fyrir sér.

  Engin lífvera og engin jurt, innlend eða útlend, er heldur algóð eða alslæm. Ekki einu sinni lúpínan, enn síður skógarkerfillinn. Jafnvel kerfillinn gæti hugsanlega reynst hin mesta nytjajurt og okkur til heilsubótar, ef eitthvað er að marka þær rannsóknir sem vitnað er til í meðfylgjandi, ágætri grein Sigmundar Guðbjarnasonar, fyrrum háskólarektors. Og stórvarasamt væri að láta undan þrýstingi efnaiðnaðarauðhringa (s.s. Monsanto, sem framleiðir ‘Roundup’) og eiturúða hálendi og friðlönd Íslandi, í meintri þágu „náttúruverndar“.

  Lúpína og skógarkerfill – eyðing með eitri eða aðrir valkostir?
  Eftir Sigmund Guðbjarnason (Mbl., föstudaginn 23. apríl, 2010 – Aðsent efni)

  Á blaðamannafundi í umhverfisráðuneytinu 9. apríl var rætt um að hefta útbreiðslu og uppræta lúpínu og skógarkerfil í yfir 400 metra hæð yfir sjó. Áhrifaríkasta leiðin til að eyða lúpínu var talin vera að úða hana með eitri.
  Lítum aðeins nánar á þessar jurtir. Neikvæða hliðin er talin vera sú að þetta eru frekar og kraftmiklar jurtir sem geta tekið yfir vaxtarsvæði annarra jurta og rutt þeim úr vegi og aukið þannig á fábreytni flórunnar. Rætt hefur verið um að halda þeim í skefjum með því að slá þær eða eyða með eitri. Þegar jurtirnar eru úðaðar með eitri þá fer eitrið einnig á annan gróður og í jarðveginn. Þessi eitraði gróður verður nýttur af sauðfé sem gengur laust á sumrin og getur eitrið þannig fengið greiða leið í lömbin og fæðukeðju manna. Eitrið sem fer á jörðina hefur einnig áhrif á lífríki moldarinnar og fer jafnframt í grunnvatnið. Það eitur sem menn líta helst til er „Roundup“ eða glyphosate sem er mjög umdeilt illgresiseitur eins og sjá má á netinu. Annar kostur er að slá jurtirnar og halda þeim þannig í skefjum.

  Jákvæða hliðin á þessum jurtum er einmitt að þær eru frekar og kraftmiklar. Þær hafa þróað efnavopn sem duga vel í landvinningum þeirra. Þessi efni mætti vinna og hagnýta á ýmsan hátt. Lúpínan hefur fyrst og fremst verið hagnýtt sem landgræðslujurt, jurt sem hefur breytt örfoka melum og gróðursnauðum svæðum í gróið land. Lúpínan hefur einnig verið nýtt sem lækningajurt en Ævar Jóhannesson hefur framleitt lúpínuseyði í rúm 20 ár. Notendur telja margir að seyðið hafi stórlega bætt heilsu þeirra og eru honum þakklátir fyrir aðstoðina.

  Skógarkerfill hefur talsvert verið rannsakaður hin síðari ár bæði í Asíu (Kóreu, Kína og Japan) og Evrópu (Hollandi og Bretlandi). Hafa menn einkum rannsakað heilsubótarefni í jurtinni en þar er að finna ýmis efni sem hafa marktæk áhrif og hefta t.d. fjölgun krabbameinsfrumna og hafa áhrif á bólgur og bólguvaka, o.m.fl. Þessar freku og kraftmiklu jurtir eru ásamt ætihvönn meðal öflugustu jurta í íslensku flórunni og geta þjónað sem hráefni í íslenskum lífefnaiðnaði og í fæðubótarefna framleiðslu.

  Áður en stríðið við illgresið er hafið, stríð sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar, væri heppilegt að kanna hvernig hægt er að nýta þessar jurtir, hvort unnt er og hagkvæmt að vinna úr þeim verðmæt efni og gera slíka vinnslu arðbæra og atvinnuskapandi.

  Höfundur er prófessor emeritus, Saga Medica.

 • @Guðmundur Halldórsson

  Ég leyfi mér að efast um að þið skýrsluhöfundarnir hafið undir höndum yfirlit um skoðanir „allra“ gróðurvistfræðinga og grasafræðinga, innlendra jafnt sem erlendra. Ekki að það skipti máli. Sannleikurinn verður ekki sannaður með neinum meirihluta.

 • Lúpína eftir fimmtíu ára Íslandsdvöl
  Kvæði eftir Margréti Guðjónsdóttur í Dalsmynni.

  Alaskalúpína er öndvegisjurt
  sem ætti að lofa og prísa
  en umhverfisverndarmenn vilja hana burt
  og vanþóknun mikilli lýsa.

  Þó gerir hún örfoka eyðisand
  og urðir að frjósömum reitum
  undirbýr vel okkar ágæta land
  til átaka í hrjóstugum sveitum.

  Hún er líka ágætur íslenskur þegn
  með alveg magnaðar rætur,
  í auðninni er henni ekki um megn
  að annast jarðvegsins bætur.

  Mestallt sumar er grænt hennar glit
  þó geti það valdið fári
  að hún ber himinsins heiðbláa lit
  hálfan mánuð á ári.

 • Notre boutique en ligne de stéroïdes anabolisants a été conçu pour répondre à toutes les questions concernant les stéroïdes anabolisants et pour l’achat rapide et pratique tous les stéroïdes anabolisants connus. Notre boutique en ligne a passé quelques années l’étude et la recherche des stéroïdes anabolisants. Nous avons essayé de compiler toutes les informations provenant d’autres sites, entreprises, particuliers, des livres et d’espoir qui couvrent tous les anges de stéroïdes anabolisants.
  [url=http://www.allanabolics.com] acheter des stéroïdes anabolisants en ligne[/url] allanabolics.com

 • Very useful site. Great post, have a good day!

 • 144189937kcjkg
  583680522353365144461359831ltl
  uv low migration printing inks j ozs
  754719689156320298vy

 • 336089815mqmdv
  654716898842643959894278606agm
  uv low migration litho printing inks o lbk
  53133071963432763oy

 • tnxciegqrqmyllvoxr
  mrt pddqirvpyglvgavh
  uq jevwqzi mhelbm ivud
  gjkzqfanzgbp nueqgvw
  m

 • gwmzlaykvhwmigzwls
  vwa nyqcloctiiegvica
  bz jfazivc udifac lact
  xjlddcembnjw nmccmxv
  m

 • Money is the root of all evil.

 • euutythvzhfppksyko
  hrw wwotuxvuuoczvnvt
  wg yatmqqd bdryfe zzbt
  lvzvaowsadvk gtnlvqa
  l

 • kldjcbulluxuqzupya
  obp yuwhkcnovoumrduf
  ih jgejcyz miiagd aadz
  egiotncuefgu lcbfouu
  u

 • I thought it was going to be some boring old post, but it really compensated for my time. I will post a link to this page on my blog. I am sure my visitors will find that very useful.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is