Miðvikudagur 5.10.2016 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

Uppstokkun á fjármálakerfinu og nýtt húsnæðiskerfi

Nú hefur framsóknarflokkurinn kosið sér nýja forrystu sem sýnir enn og aftur það að framsóknarflokkurinn er ávallt tilbúinn að taka áskorunum og ganga í það að endurnýja umboð sitt og um leið forrystu þegar áföll koma upp og vanstraust myndast. Flokkurinn gerði þetta eftir hrunið og nú aftur eftir áföll fyrrverandi formanns.

Hvað sem því líður þá hef ég lítið viljað taka beinan þátt í stjórnmálum. Hins vegar sá ég mig knúinn til að ganga inn í framsóknarflokkinn og taka þátt í þeirri hugmyndafræði sem þar er að grassera þegar kemur að húsnæðismarkaðinum og velferð fólksins í landinu í tengslum við fjármálageirann. Mér hefur í langan tíma leiðst aumingjaskapurinn í kringum marga stjórnmálaflokka þegar kemur að því að stokka upp í fjármálakerfinu hér á landi. Mér hefur fundist framsóknarflokkurinn ganga lengst í því að taka á þessu. Það er orðið tímabært að kerfið sé stokkað upp og um leið gert að verkum að fjármálageirinn taki á sig ábyrgð þegar kemur að samskiptum og uppgjöri við sína viðskiptavini, gróðahyggja og glæpsamleg græðgi á ekki að þrifast í litlu samfélagi eins og okkar.

Hér þarf að starfa fjármálakerfi sem veitir viðskiptavinum sínum lánafyrirgreiðslu sem gengur ekki öll út á að rukka ofuvexti af lánum t.d. til íbúðarkaupa eða rekstur fyrirtækja. Afnema þarf verðtrygginguna og um leið gera venjulegu fjölskyldufólki kleift að kaupa húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína þannig að ekki þurfi að ráðstafa meira en 30% af ráðstöfunartekjum í íbúðarkaupin. Eins þarf að stoppa alla ofubónusa og græðgishyggju sem gengur út á það að bankinn leggur ofuráherslu á innheimtu til að tryggja starfsmönnum sínum bónusa sem eru ekkert í takt við raunveruleika almennings í landinum.

Ég lýsi því yfir hér með að ég legg alla áherslu á að beita mér fyrir uppstokun í kerfinu líkt og fram kemur í nýsamþykktri stefnuskrá flokksins samhliða því að byggja hér upp húsnæðiskerfi þar sem hvorki ofurvextir né verðtrygging verður við líði. Það er kominn tími til að stjórmálamenn átti sig á staðreyndum í þessum efnum og að til að tryggja hér góða velferð þarf að vera fyrir hendi fjármálakerfi sem er í takt við það sem er réttlát og eðlilegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.7.2016 - 16:58 - Lokað fyrir ummæli

Hvítflibba-uppar vinstri flokkanna

Það sjá það allir sem vilja sjá að fylgi vinstri flokkana dalar mikið. Innra getuleysi þessara flokka er algjört og virðist ríkja algjört agaleysi innan þeirra. Samhliða þessu virðist þeim ofviða að fara í naflaskoðun á sjálfum sér og spurja sig grundvallarspurninga eins og hvers vegna vinsældir þeirra hafa dalað líkt og nýlegar skoðanakannanir sýna.

Líkt og með stéttarfélög þessa lands hefur forrysta vinstri flokkanna breyst mikið en hér áður fyrr voru forystumenn þeirra verkamenn eða fólk sem þekkti vel hvað það þýddi að vera hluti af alþýðunni, vera hluti af hinum vinnandi verkalýð eins og það var orðað. Í dag er forrystan oftar en ekki vel menntaðir háskólamenn með hinar ýmsu prófgráður, klæðast jakkafötum eða drögtum og tala um réttindi alþýðunnar þrátt fyrir í reynd að hafa ekki hugmynd um hvað það þýðir að draga fram lífið á lágmarkslaunum, verandi með allt að eina milljón til tvær milljónir á mánuði í laun. Hver er veruleiki þessa fólks í reynd samanborið við það fólk sem það reynir að sækja fylgi sitt til.

Staðreynd málsins er sú að vinstri flokkarnir og verkalýðsforrystan hefur misst öll tengsl við þá sem þeir reyna að sækja fylgi sitt til. Svipaða stöðu sjáum við t.d. í Bretalandi en fylgi verkamannaflokksins þar hefur dalað og kenna menn því um að forrysta flokksins hafi misst öll tengst við þá sem flokkurinn sótti fylgi sitt upprunalega til, – verkalýðsins. Það sama hefur gerst hér á landi enda á forrystan ekkert sameiginlegt með verkafólki þessa lands eða þeirra sem þeir ljúga að um að þeir séu að gæta hagsmuna fyrir. Hvenær hefur samfylkingin t.d. staðið undanfarin ár með vinnandi fólki þessa lands. Varla er hægt að halda því fram að Jóhanna eða Steingrímur hafi haft hagsmuni alþýðu þessa lands fyrir brjósti þegar þau endufjármögnuðu bankakerfið með eignum fólksins í landinu.

Það er augljóst að vinstri flokkarnir eru jú flokkar alþýðunnar eða voru það í upphafi. Líkt og með rekstur þurfa þessir flokkar og fara í naflaskoðun og endurmeta stöðu sína og kanna betur hvaðan þeir eru að sækja mesta fylgi sitt og um leið kanna hvers vegna þeir hafa misst trúverðuleika þeirra sem tilheyra þeim hópi. Ljóst er að forrystan þarf að geta talað máli þessa hóps og vera hluti af honum. Að öðrum kosti mættu þessir flokkar heyra sögunni til.

 

Flokkar: Dægurmál

Sunnudagur 12.6.2016 - 20:41 - Lokað fyrir ummæli

Munaðarlaust barn í óskilum

Á Íslandi viðgengst svokallað fósturforeldrakerfi þar sem börn sem einhverra hluta vegna geta ekki dvalið hjá blóðforeldrum sínum eru vistuð hjá fósturforeldrum. Ég þekki þetta kerfi persónulega og hef hjálpað mörgum fósturforeldrum í gegnum tíðina. Mér þykir þetta kerfi því miður gallað að mörgu leyti og í reynd þannig vaxið að réttur fósturforeldra eru engin, hvað þá þeirra barna sem eru vistuð í þessu kerfi. Snýr þetta aðallega að þeim aðstæðum þar sem ljóst er að viðkomandi fósturbörn munu ekki fara aftur til blóðforeldra sinna, í þeim tilvikum er ættleiðing oft eðlilegasti kosturinn. Því miður hefur komið bakslag í þetta kerfi eftir umræðu síðasta sumars um staðgöngumæðrun. Algjör kúvending hefur nú orðið í afgreiðslu ættleiðingarmála hjá sýslumanni og virðist niðurstaða mála oft ráðast af hræðslu en ekki hvað sé barninu fyrir bestu. Mun ég nefna dæmi um eitt mál sem ég þekki til þar sem réttur bæði fósturforeldra er brotinn og barnsins sem er í fóstri.

Fyrir ca 4 árum fengu fósturforeldrar sem hér um ræðir barn í fóstur sem kom frá aðstæðum sem voru það hræðilegar að það er þyngra en tárum taki að fjalla um. Um var að ræða munaðalaust barn þar sem hvorugt blóðforeldranna var til staðar. Var umræddum fósturforeldrum falið barnið til fósturs og um leið gefið í skyn að þau gætu ættleitt barnið eftir ár þar sem foreldrar þess væru ekki til staðar. Var farið í ferli þar sem unnið var í því að sækja um ættleiðinguna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og fóru umræddir fósturforeldrar í mikið hæfismat. Stóðust fósturforeldrarnir matið með sóma. Í kjölfar upphófst einhver ótrúlegasta málsmeðferð sem sögur fara af. Í marga mánuði heyrðist ekkert frá sýslumanni. Hjónin fara þá að hringja í sýslumann til að spyrja tíðinda en fá engin svör. Þau fá heldur ekki að tala við starfsmenn fjölskyldudeildar sýslumannsins af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Þau senda tölvupósta á fjölskyldudeild sýslumannsins en allt fyrir ekkert, engin svör koma til baka. Einu upplýsingarnar sem fósturforeldrarnir fengu komu í gegnum þriðja aðila, barnaverndarnefnd sem er lögboðinn umsagnaraðili í málinu. Barnaverndarnefnd gerði úttekt á aðstæðum fósturforeldranna og barnsins og mæltu með því að ættleiðingin yrði heimiluð. Þá gerðist það sem ekki hafði gerst áður að sýslumaður véfengir umsögn barnaverndarnefndar og óskar eftir nýrri umsögn. Barnaverndarnefnd verður við beiðninni og gerir nýja og ýtarlegri greiningu á aðstæðum barnsins og er niðurstaðan sú að það séu ótvíræðir hagsmunir barnsins að vera ættleitt. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vill sýslumaður ekki fara eftir lögboðinni umsögn fagaðilans og ákveður að óska eftir umsögn ættleiðingarnefndar.

Ættleiðingarnefnd er stjórnsýslunefnd sem starfar í hálfgerðu tómarúmi, um störf hennar og valdsvið hafa ekki verið settar neinar reglur. Hlutverk hennar í regluverkinu er ekki skýrt. Af lögskýringargögnum að dæma virðist hlutverk hennar einkum vera það að veita umsögn um hæfi og aðstæður umsækjenda ættleiðingar. Þrátt fyrir það veitir nefndin umsagnir um ýmis málefni og mörg önnur efnisatriði í ættleiðingarmálum, þ.á m. hvort hún telji að fallast eigi á ættleiðingu eður ei. Sú var raunin hér þar sem nefndin fjallaði minnst um aðstæður og hæfi fósturforeldranna en mest um rétt barnsins til þess að þekkja uppruna sinn og mögulega ættingja þess erlendis sem barnið hafði engin tengsl við. Það skal haft í huga að foreldrum sem ættleiða ber lögum samkvæmt að upplýsa barnið um uppruna sinn og sá réttur barnsins er lögvarinn. Ættleiðing stendur því ekki í vegi að barn kynnist uppruna sínum, þvert á móti er sá réttur tryggður í lögum. Þótt þessi sjónarmið kunni að eiga rétt á sér að einhverju leyti þá verður að vega þau og meta á móti aðalmarkmiði ættleiðingarlaganna sem er hvað sé barninu til hagsbóta. Í þessu tilviki hefði eðlilega niðurstaðan verið að tryggja öryggi og stöðugleika munaðarlauss barns og leyfa því að tilheyra fjölskyldu með öllum lögfylgjum sem því fylgir, eins og t.d. erfðum.

Einu og hálfu ári eftir að fósturforeldrarnir sóttu um ættleiðinguna barst þeim loksins fyrsta bréf frá sýslumanni. Í því bréfi var þeim kynnt niðurstaða ættleiðingarnefndar og þeim boðið að draga umsókn sína til baka. Það er alveg ljóst að meðferð málsins hjá sýslumanninum á höfðuborgarsvæðinu var haldinn verulegum vanköntum sem gætu auðveldlega valdið ógildinu lokaákvörðunar í málinu. Það má velta því fyrir sér hvort sýslumaður hafi af þessum sökum reynt að fá fósturforeldrana til þess að draga umsókn sína til baka og komast þannig hjá því að þurfa að taka fyrirsjáanlega ógildanlega ákvörðun. Fósturforeldrunum var aldrei svarað eða þeim tilkynnt um meðferð málsins, þau fengu aldrei að tjá sig eða koma að sjónarmiðum vegna umsagna í málinu. Í stað þess að veita fósturforeldrunum lögvarinn andmælarétt, t.d. um umsögn ættleiðingarnefndar, þá var þeim boðið að draga umsókn sína til baka. Þau fengu heldur ekki neinar leiðbeiningar um hvaða réttaráhrif sú ákvörðun kynni að hafa fyrir þau og barnið.

Þegar þetta mál er skoðað og önnur sambærileg mál þá má spyrja sig um rétt fósturforeldra og barnanna sjálfra. Í núverandi kerfi eru börnum komið fyrir hjá fólki sem á að ganga þeim í foreldrastað ef svo má að orði komast. Hins vegar hafa fórsturforeldrar engan rétt, þau fá svokallaðan fóstursamning sem er í reynd samningur um hlutverk og skyldur fósturforeldra en er ekkert öruggari en aðrir samningar, eins og gengur og gerist. Það sjá það allir sem vilja sjá að slíkt er ekki boðlegt í svona málum því eins og í tilvikum sem þessum myndast sterk tengsl og þá sérstaklega þegar blóðforeldrar eru ekki til staðar. Það að ala upp barn og eiga það alltaf yfir höfði sér að hægt sé að segja foreldrunum upp er ekki boðlegt, hvorki fyrir fósturforeldra og allra síst fyrir barn sem á engan annan að. Stundum mætti halda að þessi mál væri afgreidd með álíka hugarfari og bílaviðskipti, þú fær bílinn en ekki afsalið, þú mátt ala barnið upp og gefa því allt, gefa þig allan en þú færð engan rétt, ekkert tilkall til barnsins. Það er löngu orðið tímabært að móta skýra stefnu í þessum málum. Það að framkvæmd jafn alvarlegra mál og ættleiðinga geti tekið stakkaskiptum eftir geðþótta sýslumanns í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar er ekki það öryggi og stöðugleiki sem lýðræðislegt réttarkerfi á að halda uppi. Það þarf að skerpa betur á rétti fósturforeldra og sérstaklega barna sem eru foreldralaus að þau geti með einfaldari hætti gengið í ættleiðingu þegar öll skilyrði eru fyrir hendi.

 

 

Flokkar: Lögfræði

Þriðjudagur 3.5.2016 - 22:50 - Lokað fyrir ummæli

Getuleysi stjórnsýslunnar

Það er ekki ofsögum sagt að segja að stjórnsýsla Íslands er því miður meingölluð og illa skilvirk. Í huga mér koma þrjú mál sem ég tel endurspegla kerfið sem við búum við og hversu hættulegt það er í reynd þegar kemur að réttlátri og gegnsærri málsmeðferð. Við teljum okkur eiga að búa við stjórnsýslu sem eigi að vera gegnsæ og skilvirk. Því miður verður nú að segja að það er víða pottur brotinn hvað það varðar í kerfinu sem við búum nú við og í reynd tel ég mikil hætta stafa af því kerfi sem nú er við líði hvað réttaröryggi varðar. Svo virðist vera að innan stjórnsýslunnar starfi einstaklingar sem hafa mikinn valkvíða þegar kemur að því að taka ákvarðanir í málum, er þetta t.d. sérstaklega áberandi þegar kemur að málum sem t.d. snúa að embættum sýslumanns og svo ákværuvaldsins.

Má af þessu tilefni nefna fjölskyldudeild sýslumannsembættisins sem eitt gott dæmi. Nú er rekið mál hjá embættinu þar sem sótt er um ættleiðingu á munaðarlausu barni. Starfsmenn embættisins hafa að mínu mati ekki farið eftir settum reglum hvað varðar úrvinnslu málsins heldur látið ráðast af ótta og óvæginni fjölmiðlaumræðu. Í málinu liggur fyrir beiðni um ættleiðingu sem er komin á annað ár í aldri. Á miðju tímabili málsmeðferðarinnar fór af stað umræða í þjóðfélaginu um staðgöngumæður. Sú umræða og önnur er varðar frágang slíkra máli virðist hafa haft áhrif á úrvinnslu slíkra mála hjá embættinu og annarra er varða ættleiðingu. Sú ótrúlega staða kom upp að starfsmenn embættisins að mínu mati fóru út fyrir þann lagaramma sem gildir um slík mál og tóku upp vinnuaðferðir sem engin lagaheimild var í reynd fyrir. Illa gekk að fá skýr svör við úrvinnslu málsins og allan tímann sem málið var í vinnslu hjá embættinu var málsaðilum ekki svarað þó þau hefðu sent ítrekað erindi um málið og óskað eftir svörum. Samhliða þessu leituðu starfsmenn embættisins eftir áliti aðila út fyrir embættið vegna málsins en fyrir slíku er lagaheimild þó það sé í reynd mjög sérstakt og sjaldgæft. Með engu var tekið tillit til stöðu málsaðila, hagsmunir barnis voru ekki metnir út frá því hvað var í reynd því fyrir bestu en í málinu lá fyrir mat sérfræðinga þar sem þeir mæltu með því að barnið yrði ættleitt. Í þessu máli má ljóst vera að starfsmenn embættisins voru í reynd hræddir við að taka ákvörðun í málinu og ber málið þess merki að starfsmenn embættisins ætla sér að leggja ábyrgðina á herðar 3ja aðila og firra sig af allri ábyrgð við töku ákvörðunarinnar.

En hér er ekki um einsdæmi að ræða. Ætla mætti að þetta sé líka viðtekin venja hjá ákæruvaldinu. Ég hef orðið var við þetta í sakamálum þar sem einstaklingar eru ákærðir fyrir sakir sem lítlar eða engar sannanir eru til staðar fyrir. Þessi umræða er ekki ný af nálinni en ég hef rekið mig á það í málum og leitað eftir skýringum. Það er nefnilega þannig að samkvæmt 145. gr. laga um meðferð sakamála ber ákæruvaldinu að meta hvort það sem fram er komið í málinu sé nægilegt eða líklegt til sakfellis, sé svo ekki á þar við að sitja. Þær skýringar sem ég hef fengið frá ákæruvaldinu eru oft á tíðum loðnar og gefa því miður tilefni til að ætla að stundum sé farið af stað með veikburða mál í stað þess að taka faglega afstöðu til tilefni saksóknar út frá ofangreindri lagareglu. Menn virðast þá frekar vilja eyða tíma og skattpeningum í að láta reyna á veikburða mál fyrir dómi til að firra sig af allri ábyrgð um ákvörðunartöku. Oft á tíðum virðist þetta líka vera gert í þeirri von að eitthvað nýtt komi fram í málinu fyrir dómi sem gæti sannað sekt ákærða, t.d. vitni segi eitthvað meira fyrir dómi en það gerði hjá lögreglu. Ég tel þetta hafa aukist í kjölfar aukinnar umræðu um kynferðisbrot. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að mikil umræða hefur sprotið upp um hversu illa hefur gengið að ákæra aðila sem eru grunaðir um kynferðisbrot og höfum við því miður séð hvernig almenningur hefur t.d. safnast saman við lögreglustöðvar og krafist í reynd að þeir sem eru grunaðir fyrir slíkt verði ákærðir og refsað þrátt fyrir að mál séu jafnvel á frumstigi rannsóknar. Við slíkar aðstæður má ætla að þeir sem beri ábyrgð á málunum á rannsóknarstigi verði fyrir ómældum þrýstingi vegna skrílsins sem heimtar blóð og hafi því meiri tilhneigingu en ella að setja málið af stað og leggja það í hendur dómsstóla að taka ábyrgðina í stað þess að meta málið sjálfir út frá faglegri athugun. Þetta er jú hættan í litlu samfélagi en hættan er líka mikil ef saklausir einstaklingar verði fyrir ómældum skaða vegna slíkra aðstæðna. Við þessu verður að bregðast.

Þriðja dæmið um þetta er svo stofnun sem ber heitið Íbúðarlánasjóður. Það þekki ég alveg hreint ótrúlegt mál þar sem lántaki var með lán til 40 ára en af óskiljanlegum ástæðum og fyrir mistök starfsmanna sjóðsins var lánstíma umræddra lána styttur um fjölda ára. Afleiðingar þessara aðgerða voru þær að afborganirnar hækkuðu úr öllu hófi og viðkomandi lántaki lenti í alvarlegum vanskilum og missti svo eignina á uppboði. Staðreyndin málsins er sú að sjóðnum og öðrum kröfuhöfum voru gerð grein fyrir stöðunni og hverjar afleiðingarnar væru. Þá var og embætti sýslumanns einnig gerð grein fyrir málavöxtum en allt kom fyrir ekki. Eftir að uppboðinu var lokið var lántakanum tilkynnt að um mistök hefði verið að ræða en að hann ætti að höfða mál gegn sjóðnum vegna málsins og kosta til fjárútláta vegna þess á eigin reikning. Af málinu að dæma má sjá að málsaðilar vísa hver á annan og þar með forðast að bera ábyrgð á málinu og þeim mistökum sem urðu í því. Afleiðingarnar eru að viðkomandi missti húseign sína og þarf að reka mál fyrir dómsstólum til að fá einhverja bót sinna mála.

Það getur ekki dulist neinum sem til þekkja að fara þarf í algjöra uppstokkum á því kerfi sem nú er rekið og þá í því augnamiði að gegnsæi og skilvirni sé með þeim hætti að hægt sé að treysta faglegri úrvinnslu mála og að þeir sem sinni málum innan embættanna séu óhræddir við að taka þær ákvarðanir sem þeim ber að gera á faglegum grunni en láti ekki óviðkomandi hagsmuni hafa þar áhrif. Geturleysi innan kerfisins þegar kemur að því að taka ábyrgð er slíkt að ætla má að hagsmunum málsaðila stafi hætta af.  Sífellt sjáum við fleiri dæmi um þetta í þjóðfélagsumræðunni.

Flokkar: Lögfræði · Óflokkað

Sunnudagur 21.2.2016 - 10:48 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn felldur

Föstudaginn síðastliðin féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Landsbankans gegn Einari V. Ingimundarssyni, umbjóðanda mínum. Niðurstaða dómsins var sú að umbjóðandi minn var sýknaður af kröfum bankans. Saga málsins er löng og sorgleg og enn eitt dæmið um yfirgang og óbilgirni banka í garð skuldara. Málavextir eru þeir að Landsbankinn stefndi umbjóðanda mínum vegna fjárskuldbindinga í erlendri mynt.  Umbjóðandi minn hafði fyrir efnahagshrunið stofnað til skuldar við Landsbankann á sérstökum gjaldeyrisreikningi með yfirdráttarheimild en það hafði hann gert skv. ráðgjöf bankans. Umbjóðandi minn hafði átt verðbréf sem hann hafði ætlað að selja í byrjun árs 2008 til að fjármagna íbúðarkaup. Bankinn hafði ráðlagt honum að selja ekki bréfin heldur taka yfirdráttarlán í erlendri mynt þar sem bankinn taldi bréfin myndu hækka meira í verði síðar meir. Í september  sama ár óskaði umbjóðandi minn eftir því við bankann að verðbréfaeign hans sem hafði verið veðsett til tryggingar umræddum yfirdrætti yrði seld og skuldin gerð upp en bankinn hafði ekki orðið við þeirri beiðni umbjóðanda míns. Fyrir dómi skoraði umbjóðandi minn á Landsbankann að leggja fram upptökur af símtölum hans við starfsmenn bankans þar sem þetta kom meðal annars fram en bankinn varð ekki við þeirri áskorun.

Í dómnum segir að sannað þykir að árið 2008 hafi forsvarmenn Landsbankans hindrað að hlutabréf í bankanum myndu lækka í verði, sú ráðgjöf bankans til umbjóðanda míns um  að telja honum trú um að selja ekki hlutabréf sín í janúar 2008 heldur taka lán í formi yfirdráttar, féll að þessum fyrirætlunum bankans. Héraðsdómur kemst einnig að þeirri niðurstöðu að þegar horft sé til þeirrar ráðleggingar sem umbjóðanda mínum voru veittar um lántöku, sem fól í sér verulega áhættu fyrir hann, og vanrækslu bankans á að selja verðbréf til greiðslu skuldarinnar þegar umbjóðandi minn krafðist þess, verður að telja að það sé óheiðarlegt af bankanum að bera fyrir sig þennan samning um þessa tilteknu fjárskuldbindingu umbjóðanda míns. Samningurinn um yfirdráttarlánið var því dæmdur ógildur með vísan til 33. gr samningalaga og umbjóðandi minn sýknaður af öllum kröfum Landsbankans.

Þessi niðurstaða er út af fyrir sig stórmerkileg. Hún er engu að síður eðlileg að mínu mati enda alveg ljóst af gögnum málsins að Landsbankinn hafði aðra hagsmuni að leiðarljósi en umbjóðandans þegar að þessi umdeilda ráðgjöf um lán var veitt. Tvennt annað vekur athygli mína út frá lagatæknilegum atriðum. Í fyrsta lagi slær dómarinn því föstu að nú sé alþekkt að á árinu 2008 hafi forsvarsmenn Landsbankans unnið að því að hindra að hlutabréf í bankanum féllu í verði. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála þarf ekki að færa sönnur fyrir því sem alkunnugt er á þeim stað og tíma sem dómur fellur. Af þessum dómi má álykta sem svo að héðan í frá þurfi ekki að færa sönnur fyrir því að Landsbankinn hafi reynt allt sem hann gat til þess að koma í veg fyrir að bréfinu í banknum féllu árið 2008. Í öðru lagi segir í dómnum að fullvíst sé að umbjóðanda mínum hafi ekki dottið þetta lánaform í hug sjálfum og leggja verði til grundvallar að bankinn hafi ráðlagt honum að taka gengistryggt yfirdráttarlán. Hér virðist dómarinn beita öfugri sönnunarbyrði um það hvorum aðilum hafi dottið þetta lánaform í hug. Þótt öfug sönnunarbyrgði sé almennt undantekningin í dómsmálum þá er þetta samt eðlileg og réttmæt nálgun hjá dómaranum. Hafa verður í huga að ekki var um eðlilega lántöku að ræða heldur gengistryggt yfirdráttarlán, lán sem ekki mörgum almennum neytendum myndi detta í hug. Almennt er það nú svo að þegar einstaklingar leita til viðskiptabanka sinna um lán þá er það bankinn sem leggur fram þá möguleika sem bankinn telur í stöðunni. Tillögur að óvenjulegum lánum eru því af þessum sökum nær undantekningarlaust runnar undan rifjum bankanna.

Þessi dómur vekur upp þær spurningar hvort ekki megi beita sömu nálgun varðandi önnur fjármálafyrirtæki og önnur lánaform?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.1.2016 - 20:45 - Lokað fyrir ummæli

„Við hjálpum ekki túristum,,

Nú fyrir helgi upplifði ég mjög sérstaka afstöðu bæði lögreglu og þjónustuaðila á sviði dráttarbílaþjónustu þegar erlendir túristar, sem voru með bílaleigubíl á vegum félags sem ég sit í stjórn fyrir, lentu í því að festa bifreiðina fjarri byggð. Túristarnir hringdu í lögregluna eftir aðstoð um 3 leytið að nóttu til þar sem þeir sátu fastir í bifreið sinni í snjó á sveitavegi. Lögreglan gaf þeim beint samband við bílaleiguna með þeim skilaboðum að þeir ættu að leita þangað eftir aðstoð. Þessi afstaða verður að teljast mjög sérstök sérstaklega þegar ekki lá skýrt fyrir hvar umræddir aðilar væru staðsettir og hefðu vel getað verið í aðstæðum sem væru þeim hættulegar. Starfsmaður bílaleigunnar leitaði svo aftur til lögreglu eftir aðstoð og skýringa en fékk þá það svar að þeir væru ekki í því að hjálpa túristum sem festu sig. Afstaða lögreglunnar var skýr, þeir myndu sækja fólkið ef það væri í hættu annars yrði það að finna út úr þessu sjálft eða starfsmenn bílaleigunnar. Þá var óskað eftir því að lögreglan í viðkomandi umdæmi benti á þjónustuaðila sem gæti aðstoðað því ljóst var að leita þyrfti aðstoðar í að finna ferðamennina um hánótt og um leið koma þeim til byggða. Var þá bent á dráttarbílafyrirtæki sem haft var samband við. Þegar haft var samband við viðkomandi þjónustuaðila þá var því svarað til að þeir hjálpuðu ekki túristum sem festu sig, það hefði verið svo mikið að gera hjá þeim í því að þeir væru hættir þessu. Sem sagt lögreglan vildi ekki hjálpa til né einkaaðili sem sérhæfði sig í að draga og sækja ökutæki því það hefði verið svo mikið að gera í því.

Ég spyr mig hvort þessi afstaða beri keim af hroka, allir vilja græða á túristunum en þegar þeir þurfa á aðstoð að halda þá mega þeir eiga sig af því þeir eru svo vitlausir og kunna ekki að keyra við íslenskar aðstæður. Væri ekki nær að hlúa að erlendu ferðafólki sem færir okkur gríðarlegar tekjur og erlendan gjaldeyrir, og gerði það í efnahagshruninu þegar fáar aðrar atvinnugreinar gátu skilað hagnaði. Við erum að opna landið fyrir ferðaþjónustu allt árið og því fylgir ábyrgð sem bæði einkaaðilar og opinberir aðilar verða að bera. Það liggur í hlutarins eðli að aðilar sem keyra við aðstæður sem þeir eru ekki vanir eru útsettari fyrir óhöppum fyrir vikið. Höfum í huga að ferðaþjónustan er atvinnugrein sem stækkar og stækkar með hverju árinu og stefnir hraðbyr í að verða jafnoki sjávarútvegsins ef ekki stærri. Hér skal ítrekað að umrædd bílaleiga ætlaðist ekki til að fólkinu yrði liðsinnt að kostnaðarlausu né voru ferðamennirnir utanvegar né á vanbúnu ökutæki. Niðurstaðan var sú að hóa þurfti saman mannskap á vegum bílaleigunnar til þess að finna fólkið og koma því til byggða. Í reynd voru þetta starfsmenn leigunnar sem tóku þetta að sér og kannski bara sjálfsagt en á móti kom að fólkið þurfti að hírast í bylmingskulda og svartamyrkri í meira en fjóra klukkutíma. Eflaust hefði það tekið ofangreinda fagaðila mun skemmri tíma til koma fólkinu til bjargar. Við megum ekki leyfa okkur svona vinnubrögð né afstöðu því allt svona spyrst út og hefur neikvæð áhrif á atvinnugrein sem er í eðli sínu mjög viðkvæm. Við verðum að sýna gestrisni og virðingu fyrir hinum erlendu gestum og ekki síst fyrir greininni í heild sinni.

Flokkar: Dægurmál

Þriðjudagur 5.1.2016 - 12:04 - Lokað fyrir ummæli

Frjálst mat skattyfirvalda

Meginreglan í skattarétti er að aðilum beri að greiða skatt af öllum tekjum sínum. Undantekningareglan er hins vegar sú að aðilar hafi heimild til að nýta frádráttarbæran rekstrarkostnað á móti tekjum og þannig lækka skattstofn sinn sem því nemur. Almanna reglan er að skattaðila ber að sýna fram á að frádráttarbær kostnaður sé tilkominn vegna tekjuöflunar í rekstri til að mynda með gögnum. Þrátt fyrir þessa reglu þá eru fordæmi fyrir því að kostnaður hafi verið metinn að álitum þegar kostnaðargögn liggja ekki fyrir. Er þetta t.a.m staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 92/2000. Þar lágu gögn um ferða- og dvalarkostnað ekki fyrir en ljóst var að viðkomandi hafði haft kostnað vegna starfs síns og var hann því metinn að álitum.

Dæmi eru um það að skattyfirvöld fari ekki eftir þessu fordæmi Hæstaréttar og hafni kostnaði á móti tekjum. Er þetta sérstaklega bagalegt í þeim tilvikum þar sem t.d. aðilar vilja nýta kostnað vegna ferðalaga sem eru farin í þágu rekstrarins. Ljóst má vera að aðilar sem ferðast vegna rekstrar eða vinnu sinnar hafa af því kostnað sem þeir verða að hafa möguleika á að nýta í skattalegu tilliti. Aðilar verða að geta sýnt fram á að umrædd ferðalög nýtist í rekstri eða atvinnu þeirra. Tilvik eru til þar sem aðilar geta sýnt fram á að ferð sé farin vegna atvinnu eða rekstrar en hafa ekki haldið til haga öllum fylgigögnum hvað kostnað varðar. Þá á með réttu að nýta heimild til að meta þann kostnað að álitum en ekki að hafna öllum kostnaði eins og dæmi eru um.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.1.2016 - 20:34 - Lokað fyrir ummæli

Kjararáð á villigötum

Árið var vart byrjað þegar við heyrðum fréttir af hótunum verkalýðsfélaga um hörku í kjaramálum vegna nýlegrar ákvörðunar kjararáðs um hækkun launa embættismanna um hundruði þúsunda króna á mánuði. Það getur vart dulist neinum að þessi ákvörðun kemur illa við þjóðina og þeim sem minnst hafa að bíta og brenna í þessu samfélagi okkar. Hvers vegna fara menn svona illa að ráði sínu.

Á sama tíma og þetta er að gerast lýsa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra því yfir að aldrei hafi verið gert meira fyrir öryrkja og aldraða í þessu landi. Hverja eru þeir að reyna að blekkja? Forsætisráðherra talar um það í nýársræðu sinni að þjóðin verði að vera bjartsýn og hætta að þrífast í neikvæðni. Hvaða þjóð er forsætisráðherra að ávarpa? Eru forráðamenn ríkisstjórnarinnar orðnir svona veruleikafirrtir.

Staðreyndin er jú sú að stór hluti af þjóðinni er ekki að fá útborgaða þá krónutölu fyrir fullan vinnudag sem hækkanir kjararáðs veita opinberum emættismönnum á silfurfati. Almenningur nýtur ekki þess að fá krónutöluhækkanir heldur eru honum skammtaðar launahækkanir í formi prósentu hækkana sem virka á allt annan máta. Það er í reynd ekki eðlilegt að embættismenn sem vinna í þágu almennings geti í skjóli kjararáðs skaffað sér lífskjör sem almenningi þessa lands er neitað um og að verið sé að búa til gjá milli embættismanna og almennings hvað lífskjör varða. Ríkisstjórnin segir sig úr vinskap og tengslum við þjóðina með því að viðhalda þessu kerfi. Það er kominn tími til að ráðmenn sýni gott fordæmi og endurskoði þetta kerfi í stað þess að ala á spennu og ójöfnuði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.1.2016 - 14:30 - Lokað fyrir ummæli

Ísland, flóttamenn og verndun kynstofnsins

Eins og svo margir nú um jólin þá fékk ég bækur í jólagjöf. Ein þeirra bóka var bókin Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Hér er um mjög vandað verk að ræða og höfundi til mikils sóma. Í bókinni er að finna mikinn fróðleik um aðstæður á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni.

Það sem ég hjó eftir í bókinni er umfjöllun um umsókn flóttamanna frá Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni af gyðingaættum. Virðist sem að flestum flóttamönnum sem hingað vildu koma í seinna stríði og flýja ofsókn nasista hafi verið hafnað um landvistarleyfi hér á landi af íslenskum stjórnvöldum. Virðist sem ótti við blöndun hins hreinræktaða íslenska kynstofns hafi valdið ráðamönnum þjóðarinnar miklum áhyggjum. Er til dæmis vitnað í íslenskan vísindamann um að jafnvel blöndum við ekki fleiri en 50 gyðinga gæti valdið miklum skaða á íslenska kynstofninum á ekki lengri tíma en 2-3 mannsöldrum. Á sama tíma voru börn íslenskra ráðamanna þáttakendur og samverkamenn nasista í Evrópu í voðaverkum þeirra.

Frá örófi alda hefur mikil fóbía verið í íslenskri þjóðarsál fyrir blöndun hins svokallaða íslenska kynstofns við erlend þjóðerni og mikill áróður fyrir því að koma í veg fyrir allt sem geti stuðlað að óæskilegum tengslum við allt sem erlent er. Jafnvel í dag má heyra slíkar raddir og tala sumir ráðamenn gegn öllu sem erlent er hvort sem það er í formi samvinnu við erlend stjórnmálabandalög eða hælisleitenda sem eru að reyna að komast undan stríðsógn. Þrátt fyrir það að Íslendingar hafi frá fornu fari átt allt sitt undir samvinnu við þjóðir heimsins. Öll sú menntun og uppbygging sem hefur orðið á Íslandi hefur í reynd að miklu leiti verið samvinnu við erlend ríki að þakka. Hvar væri þessi þjóð án þeirra samvinnu? Hvar væri heimurinn án friðsamlegrar samvinnu þjóðanna?

Nú á tímum sjáum við sama mynstur, hatursumræða gegn flóttamönnum og því fólki sem leitar á náðir okkar til að flýja hörmungar, ekkert megi gefa eftir í viðleitni til að vernda þennan kynstofn, hinn íslenska kynstofn, landnámsstofninn. Umræðan í dag er á þá leið að allt muni hér hrynja ef við leyfum okkur hleypa flóttafólki inn í landið. Umræðan er í reynd ekkert ólík því sem átti sér stað hér í seinni heimsstyrjöldinni. Rétt eins og þá taka ýmsir ráðamenn þátt í þeirri umfjöllun og því miður virðist þröngsýni og fáfræði stundum ráða þar för.  Íslendingar verða líkt og aðrar þjóðir álfunnar, nú síðast Frakkar, að gera upp sína þátttöku í ofsóknum gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Synjun íslenskra ráðamanna þá um að veita gyðingum landvistarleyfi kann að hafa skilið á milli lífs og dauða í einhverjum tilvikum. Getur verið að hið sama eigi við í dag í tilvikum þeirra sem nú sækja hér um hæli. Við sem þjóð og þátttakendur í samfélagi þjóða verðum að axla ábyrgð og leggja okkar af mörkum. Liður í því er að gera upp fortíðina og hætta að endurtaka sömu mistökin.

Flokkar: Dægurmál

Fimmtudagur 15.10.2015 - 15:05 - Lokað fyrir ummæli

Ekkert heilagt

Það fer enginn varhluta af því, sem á annað borð fylgist eitthvað með umræðunni á netinu, hvað hún getur verið óvægin og ómálefnaleg á köflum og hreint og beint einkennst af eineltistilburðum. Svo virðist sem fjöldi fólks finnist því leyfast að segja nánast hvað sem er á netinu og virðast litlar hömlur vera því í vegi að fólki láti hvað sem er flakka í þessum svokölluðu bloggheimum. Seint verður hægt að fallast á það að umræðan sé alltaf málefnaleg og að skoðanir fólks fái að njóta sín, hvað þá að borin sé virðing fyrir mismunandi skoðunum.

Að undanförnu hef ég fyrir hönd stjórnenda útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu fylgst með umræðunni um stöðina og forsvarsmenn hennar og má með sanni sega að sú umræða er komin út fyrir öll velsæmismörk. Eitt er að vera ósammála um málefni og hafa ólíkar skoðanir, það er eðlilegt og nauðsynlegt í lýðræðisríki og grundvöllur þess að hægt sé að eiga rökræn skoðanaskipti. En það er annað mál að úthrópa fólki fyrir skoðanir sínar, slíkt á sér engan stað í lýðræðislegri umræðu. Það á vitaskuld að bera virðingu fyrir skoðunum fólks, þótt þær kunni að vera ólíkar, og sé maður ósammála þá mætir maður þeim með málefnalegir gagnrýni og rökum. Það er ekki boðlegt í lýðræðislegri umræðu að ráðast með óvægnum og meiðandi hætti á persónu þess sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur, þaðan af síður að gera öðrum upp skoðanir. Hvaða tilgangi þjónar það að þagga niður í fólki með slíku ofbeldi? Er það gert í þágu almannaheill eða lýðræðis?

Það hefur tíðkast í þessu sambandi að fela sig á bak við tjáningarfrelsið eins og það feli í sér einhvern rétt til þess að segja hvað sem er án ábyrgðar. Það gleymist aftur á móti að frelsi fylgir ábyrgð. Í 73. gr. stjórnarskrá lýðveldisins segir orðrétt: Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Það er nefnilega ekki hægt að ætla sér að nýta frelsið en bera enga ábyrgð, ef þú ætlar að nýta annað þá verður þú að gangast við hinu. Það er nefnilega ekki hægt að fela sig á bak við tjáningarfrelsið til að komast undan ábyrgð.

Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa falið mér að sækja þá til ábyrgðar sem harðast hafa gengið fram gegn persónum þeirra með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Það á ekki að líðast í lýðræðisríki að fólk þurfi að sitja undir persónulegum árásum á opinberum vettvangi eins og internetinu og þurfa að þola særandi og ærumeiðandi ummæli ítrekað. Það er partur af eðlilegum samskiptum að hver og einn íhugi framgöngu sína og hvaða áhrif orð geta haft á fólk þegar talað er um persónu þess og ekki síst hvaða áhrif það getur haft á fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Skiptir engu hvort um opinbera persónu sé að ræða eða ekki, aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Flokkar: Lögfræði

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is