Þriðjudagur 8.12.2009 - 11:10 - 57 ummæli

Jólakúlunámskeið

Hekluð speis-jólakúla eftir Eddu Lilju

Knitting Iceland heldur æsispennandi námskeið í jólakúlugerð – hekli og þæfingu – fimmtudaginn 17. desember kl. 19-22. Verð 5500 – garn og glys innifalið. Kennarar eru Ragga E og Edda Lilja (52 húfur á 52 vikum) . Námskeiðið verður haldið í kjallara Bústaðakirkju, þar sem bókasafnið var áður. Hafið samband á ragga@knittingiceland.com til að skrá ykkur. Gleðileg prjól!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 26.11.2009 - 15:57 - 108 ummæli

Hvar fæst diskurinn?

Knitting Iceland gefur út diskinn Prjónum saman

Knitting Iceland gefur út diskinn Prjónum saman

Nú er aldeilis hringt og meilað og sms-að og spurt um prjónakennsludiskinn Prjónum saman. Skilaboð berast úr öllum áttum og alla langar í eintak. Ístex dreifir DVD disknum  til sinna söluaðila – svo það er hægt að nálgast diskinn á sömu stöðum og lopann góða út um allt land. Diskurinn er kominn í fullt af prjónabúðum, einhverjar Hagkaupsverslanir, Krónubúðir og Kost. Söluaðilar Ístex geta haft samband beint þangað en ef einhverjir aðrir eru spenntir, t.d. bókaverslanir, matvörubúðir, plötubúðir, raftækjabúðir eða bara barnafatabúðir – er hægt að hafa beint samband við Knitting Iceland sem gefur diskinn út á ragga@knittingiceland.com

Meira rokk, meira prjón!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 25.11.2009 - 22:18 - 5 ummæli

Kastljósið

Kastljósið kom í heimsókn í dag og fjallaði svo um prjónadiskinn góða og hvað þetta er nú allt dásamlegt… Prjónína fékk líka smá prómó, enda afskaplega þokkafull kind og framleiðir þessa fínu ull fyrir mig. Ljúflingurinn hún Ragnhildur Steinunn sagði: „Með prikum og bandspotta má skapa nánast hvað sem er og að sögn Ragnheiðar Eiríksdóttur er prjón hinn mesti galdur. Hún óttast að brátt verði hún komin með kindur út í garð í miðri höfuðuðborginni en prjónakúnstir eiga hug hennar allan. Við litum í heimsókn í Kjalarlandið þar sem nóg var af garni og prjónum.“ Hér er hægt að sjá atriðið.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 25.11.2009 - 08:24 - 3 ummæli

Prjónum saman

Ég voða hress að morgni með diskinn...

Ég voða hress að morgni með diskinn...

Ég ætla nú ekki að segja að mér líði eins og eftir fæðingu… kannski eins og eftir fæðingu á DVD disk sem væri nú örugglega ekkert mál! En jú, það er ótrúlegur léttir að diskurinn sé kominn út í heiminn og fram að þessu hafa viðbrögðin verið alveg frábærlega jákvæð. Það var góð stemmningin í Norræna húsinu í gær á frumsýningunni – kertaljós, piparkökur og prjón. Síðdegisútvarp Rásar 2 mætti á staðinn og fjallaði um Prjónum saman í beinni. Hér er þátturinn – viðtalið við mig er undir lokin. Fram að mánaðarmótum verður hægt að panta diskinn hjá mér á kynningarverði, 3000 kr. Almenn dreifing hefst innan skamms. Ístex dreifir á alla sína sölustaði en aðrir áhugasamir endursöluaðilar geta haft samband við mig á ragga@knittingiceland.com
Hér er umfjöllun fréttablaðsins í dag.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Mánudagur 23.11.2009 - 14:21 - 59 ummæli

Velkomin í útgáfuhófið

Guvðséossnæstur diskurinn er mættur á svæðið! Hamingja og gleði. Ég er afskaplega ánægð með hann enda frábært fólk sem vann að verkefninu með mér. Svo er ég líka agalega þakklát þeim sem styrktu en það eru Ístex, Ikea, Epal, Nálin og Nakti apinn.

Á morgun verður frumsýning í Norræna húsinu kl. 17 og þangað eru prjónarar hjartanlega velkomnir. Við ætlum að prjóna saman (nema hvað?), sjá brot af disknum og maula piparkökur við kertaljós. Yndispiltarinir frá Dill verða á staðnum og selja sitt víðfræga jólaglögg þeim sem þess óska. Allir prjónarar eru velkomnir, líka þeir sem þrá að verða prjónarar og líka velunnarar okkar prjónara. Þeir sem mæta fá að kaupa diskinn á sérstöku kynningarverði og þurfa þá að reiða af hendi 3000 krónur á pappírs- eða plastformi. Nammigarnið verður líka á staðnum í allri sinni litadýrð og í boði á sérstöku vildarverði.

Ég hlakka til að sjá ykkur lömbin mín…

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Föstudagur 6.11.2009 - 21:17 - 134 ummæli

DVD á leiðinni

Þá er fyrsti DVD prjónadiskur Íslandssögunnar aaalveg að verða tilbúinn. Ekki nema 2 vikur hérumbil í frumsýningu. Á disknum kenni ég ýmis prjónatrikk og hvet prjónara til dáða í sköpuninni. Honum fylgja líka 3 sætar prjónauppskriftir.  Spenntir prjónarar sem vilja tryggja sér fyrstu eintökin geta haft samband á netfangið ragga@knittingiceland.com. Sendið upplýsingar um nafn, heimilisfang og símanúmer. Þeir sem gera það fá sína diska afhenta áður en almenn dreifing hefst. Í kringum útgáfuna verður efnt til skemmtilegra prjónaviðburða… fylgist með!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Sunnudagur 1.11.2009 - 22:10 - 11 ummæli

Lóan í Lóunni og Lóan á ensku

Ég dreif mig í fínpússa Lóuuppskriftina á ensku. Pabbinn fór líka með Lóurnar í stúdíó í dag og tók fínar myndir. Endilega dreifið til vina nær og fjær. Hér er hlekkurinn. Næst á dagskrá er að prjóna Lóuna í fullorðinsstærð. Margir hafa nefnilega spurt mig um fullorðinsútgáfu af peysunni. Ef ég mundi loka miðlungssnjallan prjónara inni í búri og ekki fóðra fyrr en Lóa í fullorðinsstærð yrði tilbúin mundi sá hinn sami svosem ekki svelta í hel. Ég ætla þó að útfæra hana á næstunni… hún verður líka ókeypis og fáanleg hér og á Ravelry. Svo þarf ég að fara að skella í litun á Nammi – já Nammigarnið lita ég sjálf – svoldið sull og vesen en agalega skemmtilegt. Ég er líka komin með aðgang að þessari fínu aðstöðu hjá Textílfélagi Íslands á Korpúlfsstöðum.

Flokkar: Menning og listir
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 30.10.2009 - 14:35 - 11 ummæli

Peysan Lóa

Peysan Lóa

Peysan Lóa

Peysan Lóa er létt og hlý laskapeysa sem prjónuð er að ofan. Þannig er byrjað á hálsmálinu, axlastykkið prjónað, búkurinn kláraður og að lokum ermarnar. Mér finnst þessi aðferð til að prjóna peysur miklu betri en sú hefðbundna þar sem byrjað er neðst. Að minnsta kosti var ég algjörlega glataður peysuprjónari þar til ég tileinkaði mér þessa aðferð. Maður hefur miklu betri stjórn á flíkinni og getur mótað hana að vild, já og mátað á öllum stigum málsins. Smelltu hér til að nálgast uppskriftina. Ravelry notendur: munið að tengja ykkar Lóur við uppskriftina á Ravelry.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 23.10.2009 - 13:28 - 3 ummæli

Loksins! Prjónablogg á Eyjunni

Jæja, það var kominn tími til að flytja upp á Eyju með prjónablogg. Hér verður fjallað um prjón, prjónamenningu og ýmislegt sem hægt er að gera með bandi og prikum. Húrra fyrir prjóninu!

Flokkar: Óflokkað · Menning og listir
Efnisorð: , ,

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is