Föstudagur 21.11.2014 - 21:20 - FB ummæli ()

Hnúturinn í tónlistakennaradeilunni

Í dag dýpkaði enn kreppa tónlistarkennara þegar stjórn Sambands sveitarfélaga lýsti því yfir að kröfur þeirra væru ósanngjarnar og lýstu fullum stuðningi við samninganefnd sveitarfélaganna.

Sambandið segir að tónlistarskólakennarar geti sjálfir skapað svigrúm til launahækkana með því að fallast á rýmri kennsluskyldu gegn því að dregið sé úr öðrum störfum í staðinn. Þar liggi samningsgrundvöllurinn.

Tónlistarkennarar segja að samningurinn síðan 2011 hafi sýnt svo ekki verði um villst að hlutfall kennslutíma sé nú þegar eins hátt og hægt sé að komast. Það sé hreinlega ekki rými innan vinnutímans til að vinna öll hin störfin líka. Og þá skipti engu máli þótt samið verði um að minnka skuli aðra vinnu – þetta sé vinna sem þurfi að vinna og hvergi sé hægt að skera neitt burt. Hér er um að ræða atriði á borð við undirbúning og úrvinnslu kennslu, æfingar, umsjón kennslurýmis, námsmat, útlán hljóðfæra, umsjón með nótnasöfnum, skólanámskrárvinnu, gerð kennsluáætlana og einstaklingsnámskráa, samstarf við aðra kennara og foreldra, teymisvinnu, tilfallandi kórastarf og margt fleira. Þar ofan á bætist endurmenntun.

Ástæða þess að deila tónlistarkennara er í svo hörðum hnút sem raun ber vitni er fyrst og fremst tímasetningin. Sveitarfélögin hafa lengi viljað ná álíka samningi við grunnskólakennara og þeir náðu við tónlistarkennara árið 2011. Nú liggja fyrir slík drög. En grunnskólakennarar eiga þó eftir að samþykkja stærsta hluta nýrra samninga. Í þeim hluta felast ýmis hagræðingartækifæri fyrir sveitarfélögin með því að tryggja lægri kostnað við kennslu nemenda. Eftir er að útfæra með hvaða hætti raða á öðrum störfum á kennara og leita á leiða til að útfæra það í einhverskonar samningalotum milli kennara og stjórnenda.

Mikið var gert með hvað grunnskólakennarar hefðu náð góðum samningi fyrr á þessu ári. Excel-skjölum var dreift sem sýna áttu verulegar kauphækkanir í prósentum. Tónlistarkennarar, sem dregist hafa aftur úr öðrum kennurum, gerðu þá kröfu að nú væri það leiðrétt og að þeir fengju sömu laun og búið er að bjóða öðrum kennurum.

En hér liggur vandinn.

Tónlistarkennarar eiga ekkert til að selja. Þeir eru búnir að selja allt. Og þeir geta varla aukið kennslu sína vitandi það að nú þegar flæða önnur störf langt út fyrir vinnuskyldu.

En ef gerður er samningur við tónlistarkennara án þess að þeir selji neitt á móti nú – er komin upp erfið staða gagnvart grunnskólakennurum. Þeir munu þá fara fram á að lögmálið um að allir kennarar fái sömu laun gildi í báðar áttir. Og munu varla sjá neina ástæðu til að fara að selja einhver réttindi ef þeir sjá að verkfall tónlistarskólakennara skilaði umbeðnum kauphækkunum án réttindaafsals eða hagræðingar.

Það virðast því vera tveir kostir í stöðunni fyrir sveitarfélögin. Annar er að gera sem mest úr því hve kröfur tónlistarkennara séu ósanngjarnan og halda þeim í verkfalli í um það bil þrjá mánuði í viðbót. En þá munu grunnskólakennarar kjósa um seinni hluta síns samnings og það mun virka mjög hvetjandi á þá að samþykkja ef þeir sjá blóðugt verkfall tónlistarkennara skila engu.

Hinn kosturinn er að fá tónlistarkennara til að tvískipta samningnum. Samþykkja einhvern hluta og fresta afgangnum fram yfir febrúar á næsta ári með því að láta einhverja vinnu eða mat fara fram í biðtímanum.

Að minnsta kosti vilja sveitarfélögin alls ekki verða við kröfu tónlistarkennara þegar grunnskólakennarar eru enn óafgreiddir.

Þrýstingur á aðrar lyktir en þessar verður að koma utan frá. Nefnt hefur verið að allir tónlistarkennarar og -menn segi skilið við þá stjórnmálaflokka sem ábyrgð bera á sveitarstjórnarsviðinu. Horfa menn þar aðallega til Samfylkingarinnar sem ræður ríkjum í Reykjavík (sem er mesti þröskuldurinn í vegi fyrir samningum).

Tónlistarkennarar hafa síðan annan kost. Hann er að sprengja upp samtryggingu sveitarstjórna. Að einstök sveitarfélög geri samninga við sína tónlistarskóla án aðkomu samninganefndarinnar.

Það myndi gera Samband sveitarfélaga alveg brjálað. Þeir semja við tæplega 100 aðila fyrir sveitarfélögin og þeim sem svíkja lit verður harkalega refsað – ef þeir eru nógu litlir til að miðstýringarvaldið sé þeim yfirsterkara.

Tónlistarkennarar hafa reynst mun harðari í horn að taka en grunnskólakennarar. Þeir síðarnefndu settu fram mjög skýrar og afgerandi kröfur í aðdraganda samninga en samþykktu svo samning sem var töluvert langt frá því sem kröfurnar hnituðust um. Tónlistarkennarar hafa ekki slegið af kröfum sínum – að sögn vegna þess að þeir eiga hreinlega ekkert eftir til að selja – nema líffæri, eins og einn sagði.

Ég veit ekki hver tók þá ákvörðun að taka upp samninga tónlistarkennara í hálfnuðum samningum grunnskólakennara – en það er fyrst og fremst sú ákvörðun sem veldur því að nú stendur allt pikkfast.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is