Laugardagur 15.11.2014 - 21:58 - FB ummæli ()

Tónlistarskólinn – kanarífuglinn í námunni

Ég hef pínulítið verið gagnrýndur fyrir það að ætla sveitarstjórnum að nýta alla sparnaðarmöguleika í nýjum kjarasamningum til hins ítrasta. Margir trúa því að faglegur metnaður sveitarstjórna sé meiri en svo að þau láti freistast til að skera fjármagn til skólanna við nögl. Þau muni ekki skemma skólana bara til að spara peninga.

Þeir sem eru sæmilega fullorðnir muna eftir Sambandinu sáluga. Það var svakalegt fyrirbæri. Í dag reka sveitarfélög með sér Samband sem ekki er mikið skárra. Meðal þess sem Samband sveitarfélaga hefur á stefnuskrá sinni er að tryggja að sveitarfélög keppi ekki um starfsfólk. Þar á bæ telja menn það sameiginlega hagsmuni allra sveitarfélaga að hindra launahækkanir sem af slíku gætu hlotist.

Ég geri alls ekki ráð fyrir því að sveitarfélög fari að reka neitt harðari niðurskurðarpólitík hér eftir en hingað til. Ég geri einfaldlega ráð fyrir að sú pólitík verði svipuð hér eftir og hingað til. Þeir sem voru við störf árið 2004 vita alveg hve hrottaleg sú pólitík getur verið.

Þeir sem efast um að sveitarfélög muni fórna gæðum fyrir peninga þurfa ekki nema að horfa á tónlistarskólana. Þar hafa sveitarfélög gengið svo nærri tónlistarkennslu að það má segja með sanni að við stöndum frammi fyrir stórkostlegum og jafnvel óafturkræfum skaða. Og þetta er ekki nýtilkomið. Vandi tónlistarskólanna hefur verið að ágerast í nokkur ár. Síðustu ár hefur eitt skýrasta merki þess hve illa er fyrir tónlistarnámi komið verið það hve geggjuð félagsleg misskipting hefur orðið til í kringum tónlistarnám. Börn efnameiri foreldra hafa verið u.þ.b. 7 sinnum líklegri til að stunda tónlistarnám í Reykjavík en börn þeirra efnaminni. Sem segir okkur það að sveitarfélagið er löngu hætt að reyna að stuðla að tónlistarnámi og að félagslegt bolmagn foreldra hefur verið afgerandi þáttur í því hvort börn fái tónlistarlegt uppeldi. Eins og svo oft áður eiga stefnumarkandi aðilar engin svör önnur en að plástra óhugnaðinn með uppskafningi og snobbi. Það fór meiri orka í að agítera fyrir Bíófílíu Bjarkar hjá yfirvöldum menntamála í Reykjavík á síðasta kjörtímabili en í að tryggja börnum alminlega tónlistarmenntun.

Tónlistarskólarnir eru kanarífuglarnir í námunni. Ef þeim er leyft að deyja er það vegna þess að eitrunin hefur fengið að þrífast. Af einhverjum ástæðum hafa ekki farið mjög hátt tilraunir sveitarfélaga til að höggva að faglegu starfi í grunnskólunum líka. Sveitarfélögin fóru með bænaskrá til menntamálaráðherra fyrir örfáum árum síðan og báðu náðarsamlegast um að mega fækka kennslustundum nemenda, fækka kennsludögum um 10, að valgreinum nemenda yrði fækkað og  að vægi námsgreina væri breytt. Auk þess gripu skólar til aðgerða eins og að fella niður verklegt nám, vettvangsferðir, forfallakennslu var ekki sinnt, tækjabúnaður var ekki endurnýjaður og svo mætti lengi telja.

Nú má auðvitað segja sveitarfélögum til varnar að við gengum í gegnum kreppu. Í því samhengi má nefna að kennarar sem störfuðu innan Norðlingaskóla (þar sem gerð var tilraun með sveigjanlegt skólastarf) tóku á sig verulega launalækkun til að mæta þörfum Reykjavíkurborgar fyrir samdrátt. Gert var skriflegt samkomulag þar sem skýrt var kveðið á um að kennarar ætluðust til að fá til baka umsamin laun þegar kreppan grynntist. Starfsfólk sveitarfélagsins kaus að stinga kröfum kennara ofan í skúffu og lét kjörna fulltrúa borgarinnar ekki vita af kröfum kennara. Þar með voru allar áætlanir um fjármagn til skólans byggðar á upplýsingum sem í vantaði mikilvægar breytur – vegna þess að embættismenn tóku ákvarðanir um að þær skiptu ekki máli. Þegar svo stjórnmálamennirnir fóru að hækka við sig launin sögðu kennarar stopp og allt sprakk í loft upp og sér ekki fyrir endann á því. Embættismenn hjá sveitarfélaginu töldu að fyrst þeir hefðu haft af kennurum laun í kreppunni – væri það alfarið þeirra ákvörðun hvort yfirhöfuð kæmi til álita að skila þeim launum til baka þegar betur áraði. Vandamálið hér er bersýnilega ekki bara bundið við kreppur.

Og hvernig stendur á því að það er svo gott sem búið að drepa tónlistarskólann í Reykjavík?

Jú, vegna þess að embættismenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir þurfi ekki að reka tónlistarskóla frekar en þeir vilji. Það neyðir enginn borgina til að reka slíka skóla – og á meðan svo er verða þeir ekki reknir. Þeim verður leyft að deyja, vegna þess að það er hægt. Það er löglegt.

Ef þið trúið mér ekki, lesið þá þessa skýrslu.

Þessi skýrsla er upphafið að dauða tónlistarskólanna. Þarna kemst Samband sveitarfélaga að því að sveitarfélögunum beri engin skylda til að reka tónlistarskóla. Kjarni skýrslunnar er þessi:

Tónlistarskólar eru ekki hluti af almenna skólakerfinu og hvergi í lögum er kveðið á um rétt almennings til þess að stunda tónlistarnám.

Almenningur á engan rétt á tónlistarnámi. Og þess vegna er hann nú, örfáum árum seinna, í raun og veru búinn að tapa því. Í kerfi sem stjórnað er af misvitrum embættis- og skrifstofumönnum með takmarkaða þekkingu á námi og sáralitla hugsjón mega tilfinningar og hugsjónir kjörinna fulltrúa síns lítils. Nú sitja í sveitarstjórnum um land allt manneskjur sem gjarnan vildu koma tónlistarskólunum til varnar – en þær eru múlbundnar og fjötraðar við stólana. Vegna þess að sambandið er tilbúið að leika vonda kallinn eiga allir kjörnu fulltrúarnir að láta sem samviska þeirra sé hrein og ábyrgð þeirra engin.

Raunin er sú að ábyrgð þeirra er algjör. Það skiptir engu þótt menn komi fram og þykist voða aumir yfir þessu öllu. Kerfið sem menn eru að vernda með athafnaleysi sínu hefur komið því til leiðar að búið er að rústa tónlistarnám heillar kynslóðar – vegna þess að excel-fólkið sér enga nauðsyn til að tryggja viðgang skólanna.

Skólakerfi er ekki klifurjurt. Það fléttar sig ekki áfram upp bókstaf laganna. Skólakerfi dreifir úr sér um víðan völl og stjórnmálamenn eiga að tryggja rými og áburð, ekki klifurgrind og klippur. Þegar lögfræðingarnir hafa ákveðið að það þurfi ekki að reka tónlistarskóla eru það stjórnmálamennirnir sem eiga að stíga fram og segja: jú, víst!

Stjórnmálamenn hafa ornað sér of lengi við það að ríka, fræga og félagslega sterka fólkið hefur átt sæmilega góðan aðgang að tónlistarmenntun fyrir börn sín. Fátæka fólkið er frekar í vandræðum með að kaupa buxur handa sínum börnum en básúnur. En nú hefur meira að segja stönduga fólkið séð að tónlistarskólarnir eru ekki að virka. Þeir eru að hruni komnir.

Svar lögfræðinganna er auðvitað: Það er ekkert í lögum sem segir að tónlistarskólar megi ekki hrynja. Svar stjórnmálamannanna má ekki vera: Lögfræðingarnir ráða þessu.

Þeir sem skamma mig fyrir að ætla sveitarfélögum það versta held ég að hljóti að tilheyra öðrum af tveim hópum. Þeir koma annað hvort úr forréttindarsamfélögum þar sem tekjur sveitarfélagsins eru með allt öðrum hætti en annarsstaðar og því óttast þeir ekkert um sinn persónulega hag – eða að þeir hafa ekki kynnt sér framgöngu sveitarfélaga í skólamálum síðustu ár.

Sá sem sættir sig við það að börn alist upp án tónlistar hefur ekki hugmynd um hvað raunverulega felst í hugtakinu „menntun“. Tónlistarkennarar róa lífróður þessa dagana vegna þess að virði þeirra er einskis metið. Það er einskis metið vegna þess að þótt tónlist sé öllu hugsandi fólki grunnþörf – þá telst hún ekki í lagaflækjuumhverfi sveitarstjórna grunnþjónusta.

Ef stjórnmálamenn vakna ekki og reka af sér slyðruorðið og hætta sér til að skríða undan borðunum og konfrontera excel-skrílinn sem heldur skólakerfinu í gíslingu fer að verða full ástæða til að auka við mótmælin á landinu og færa þau nær ráðhúsunum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is