Föstudagur 14.11.2014 - 23:14 - FB ummæli ()

Vinnumat kennara

Nú er komið að lotu 2 í kjaramálum grunnskólakennara. Í þetta skipti standa kennarar einir í sinni baráttu. Almenningur heldur að kennarar hafi fengið mjög ríflega launahækkun nýlega og enginn er að fara að kippa sér neitt sérlega upp við það þótt kennarar fari að kvarta aftur. Þá hafa tónlistarkennarar fengið að malla einir í sínu verkfalli án mikils, sýnilegs stuðnings annarra kennara – nema í einstökum skólum.

Það sem er í gangi nú er sumsé það að kennarar eiga eftir að samþykkja seinni hluta kjarasamnings. Sá hluti er kallaður vinnumat. Í því er gengið út frá því að skilgreina þurfi í hörgul í hvað tími kennarans fer og þegar vinnutíminn er uppurinn megi ekki fela kennara fleiri verkefni. Markmið sveitarfélaga er að losna við að greiða sérstaklega fyrir forföll. Þess vegna hömruðu þau inn ákvæði um það að fela megi kennurum að kenna tveim námshópum í einu allt að 7 sinnum í mánuði. Í stétt sem telur næstum 5000 manns gæti það þýtt að fækka mætti kennurum um nokkur hundruð – ef þessi heimild yrði fullnýtt.

Kennarar virðast nú vera að vakna við vondan draum – enda erfitt að sjá hvernig hægt sé að kenna tveim hópum í einu. Eitthvað á að reyna að vinna í því á næstu mánuðum. Þetta á þó ekki að koma neinum á óvart því með samþykkt síðasta samning voru þessir 7 forfallatímar um leið samþykktir sem forsendur vinnumats. Það þýðir ekkert að bakka út úr því núna.

Stundum finnst mér kennarar vera óttalegir kjánar þegar kemur að þessum málum. Og mér finnst núverandi samningur og framhald þess vera viljandi ruglingslegur til að hylja fyrir kennurum þá staðreynd að þetta er hagræðingarsamningur. Honum er ætlað að lækka kostnað sveitarfélaga af grunnskólanum – fyrst og fremst með fækkun starfsfólks.

Fyrir hönd sveitarfélaga í verkefnisstjórn vegna vinnumats situr meðal annars Ragnar Þorsteinsson. Þá er Svandís Ingimundardóttir áheyrnarfulltrúi. Þau koma bæði úr starfshópi sem hafði það hlutverk að meta möguleika sveitarfélaga á að hagræða í kostnaði við grunnskólann. Sá hópur komst að þessari niðurstöðu:

Helstu skýringar á kostnaði við rekstur grunnskóla má, að mati vinnuhópsins, rekja til fjölda stöðugilda bæði meðal kennara og annarra starfsmanna. Að einhverju leyti ræðst þessi fjöldi af þeirri þjónustu sem veitt er innan grunnskólans en stór hluti skýringarinnar liggur í lágu hlutfalli af  vinnutíma kennara sem varið er til kennslu og háum meðalaldri kennara

Og hópurinn er ekki í vafa um að hægt sé að skera verulega niður:

Svo virðist sem töluvert svigrúm sé til hagræðingar í grunnskólum hér á landi ef horft er eingöngu til kostnaðar við rekstur grunnskólans og hann borinn saman við rekstrarkostnað annarra þjóða til þessa málaflokks og kostnað ríkisins við rekstur framhaldsskóla.

Sveitarfélögin gengu til kjarasamninga með það að markmiðið að hagræða. Markmiðin voru tvö: að minnka slæm áhrif þess að kennarar á Íslandi eru gamlir og að auka þann tíma sem varið er í kennslu. Í þegar samþykktum samningum hafa grunnskólakennarar þegar samþykkt að leggja niður kennsluafsláttinn. Það felur í sér töluverða fækkun kennara án þess að kennsla minnki. Nú vilja sveitarfélögin hætta að greiða fyrir forföll og mögulega fækka kennurum töluvert í leiðinni.

Ef vinnumatið verður samþykkt má eiginlega segja að tilraunins em hófst sem Bókun 5 og varð svo að grein 2.1.6.3. sé orðinn rammi alls skólastarfs. Kennarar fá um 10% launahækkun gegn því að afnema kostnaðarsama liði í kjarasamningnum. Sveitarfélög hefur lengi dreymt um það. Síðasta áratug hefur sveitarfélögum verið heimilt innan ramma kjarasamnings að gera slíka samninga til árs í einu. Það er áhugavert að bera það sem sveitarfélög hafa verið tilbúin að greiða fyrir það sem þau vilja núna borga 9,5% launahækkun fyrir (með einni hækkun og ótímabundnum gildistíma).

Árið 2005 buðust þeim kennurum sem þetta vildu 30% hærri laun. Var þá talið að laun kennara væru á svipuðum stað og laun meðlima BHM.

Sveitarfélög fullyrtu stuttu seinna að styst hefði á milli kennara og BHM-stétta og lækkuðu greiðslu fyrir sveigjanleikann niður í 24%.

Við hrun sögðu sveitarfélög að draga yrði saman og neituðu að greiða meira en 15% fyrir hið sama. Þannig hefur það verið á flestum stöðum síðan. Með öðrum orðum, ef gamli samningurinn hefði verið látinn gilda áfram værum við að ræða um eitthvað á þeim nótum. Þess í stað er talan nú komin niður fyrir 10% og mun ekki breytast, því hún var samþykkt fyrir hönd kennara við samþykkt fyrri hluta samnings. Nú er aðeins í boði að hafna vinnumatinu í heild sinni – prósentutölunni verður ekki breytt.

Hið áhugaverða í málinu er að þegar sveitarfélög höfðu lækkað sig niður í 15% kom í ljós að skólar sem störfuðu eftir því kerfi – það er, með sveigjanleika og 15% hærri laun, kostuðu að meðaltali minna en aðrir skólar!

Það var semsagt ódýrara að borga 15% hærri laun á línuna en að borga fyrir sama vinnuframlag í hefðbundum skóla. Og viðmiðið við BHM er fokið út um gluggann.

Að sveitarfélögin skuli nú ná samningi um bæði sveigjanleikann og það fyrir innan við 10% er auðvitað stórsigur fyrir þau – verði vinnumatið samþykkt.

Það verður ævinlega að hafa í huga að það er ekki áhættulaust að hafna vinnumati. Ráðamenn innan sveitarstjórnarstigsins hafa ítrekað hótað því að þetta sé það sem er í boði – ef það verði fellt sé ekkert mál að hanga í verkfalli í einhvern tíma og fá síðan ríkisvaldið til að fella gamla samninginn úr gildi með lögum og setja inn samning á forsendum sveitarfélaga. Við sjáum í samskiptum við tónmenntakennara hvað bíður kennara ef þeir fella vinnumatið.

Kennarar hafa því val um að lækka launakostnað sveitarfélaga viljandi eða vera neyddir til þess. Aðrir valkostir eru í raun ekki í boði. Almenningur er ekki að fara að styðja kennara til launahækkana í kjölfar verkfalla. Þannig er það bara.

Af hálfu kennara er vinnumatið hugsað sem einhverskonar skaðaminnkun. Kennarar séu undir álagi og nú skuli samið við hvern og einn um þau verkefni sem hann skuli vinna. Þannig fái kennarar tækifæri til að afþakka verkefni ef þeir eru að sligast.

Alveg burtséð frá launum og öllu slíku held ég að vinnumatið sé afburða vond hugmynd.

Í fyrsta lagi er mjög líklegt að vinnumatið muni hindra skólaþróun. Ég efast ekki um það eitt augnablik að framtíðin felst í valdeflingu kennara og nánara samstarfi, t.d. með teymiskennslu. Hefðbundin forfallakennsla í teymum er að meðlimir teymisins leysa hverja aðra af. Þannig er ákvæðið um 7 tíma forfallakennsluna raunar hugsað. Samhliða því ætla sveitarfélög að innleiða teymiskennslu í massavís. En þau eru í vanda, því það er erfitt að beita 7 tíma reglunni á kennara sem ekki starfa í teymum. Það er útilokað að kenna bekkjum í tveim aðskildum stofum í einu. Kennarar sem hefja teymiskennslu héðan af munu því taka áhættu á því að lenda í meiri forfallakennslu en þeir sem þráast við og kenna í einangrun. Hvati til skólaþróunar að þessu leyti er ekki bara horfinn heldur eru fælingaráhrif komin í staðinn.

Í öðru lagi eru það að mínu mati algjör mistök að ákveða að kennsla og undirbúningur kennslu skuli veri forgangsatriði en skólaþróun skuli vera skilgreind sem það sem falla skuli burt sé tími af skornum skammti. Ef ég réði væri skólaþróun í fyrsta sæti og kennsla afgangsstærð. Því kennsla hér merkir í raun ekkert annað en gæsla fyrir sveitarfélögunum. Þau eru tilbúin að fórna gæðum kennslu fyrir hagkvæmari útfærslu (forfallaákvæðið sannar það). Álag á kennara verður ekki minnkað með því að skera burt skólaþróun. Álagið verður aðeins minnkað með skólaþróun. Með því t.d. að fela nemendum meiri ábyrgð á eigin námi og nota tæknina til að auka yfirsýn yfir stöðu og árangur. Með öðrum orðum, það eru algjör mistök að slá varðmúr um kennslu (hvað þá hefðbundna kennslu eins og örlar á) og ætla að púsla til öllu öðru. Róttæku breytingarnar þurfa að verða á því sem gert er í kennslustundum en ekki utan þeirra.

Í þriðja lagi er það verulega hæpin forsenda að með því að setjast niður og raða verkefnum á kennara muni skyndilega léttast á þeim álagið. Þar er verið að gefa sér að ástæða þess að stór hluti kennara kvarti undan álagi sé sú að annar eins hópur geti bætt á sig verulegum hluta af verkefnum þeirra. Eða að verulegur hluti þeirra verkefna sem verið er að vinna sé óþarfur og í raun ofaukið. Þriðji möguleikinn, sá að starfið sé einfaldlega mjög erfitt og tímafrekt, er líklega sá rétti. Ef svo er, mun ekkert lagast við það að ætla að færa verkefnaeiningar til eða frá – og það að skera burt einhver verkefni mun líklega koma í bakið á fólki með enn meira álagi og veseni. Lausnin er sú að finna nýjar leiðir til að sinna þessu starfi – og aftur er það skólaþróunin sem skiptir öllu. Ekki hefðbundna kennslan eða viðvera á gólfinu.

Einn magnaðasti drifkraftur skólaþróunar er álag. Þannig þarf yfirleitt ekki mikið til svo kennari kjósi rafræna yfirferð verkefna fram yfir tímafrekar setur yfir verkefnabunkum með rauðum penna. Ég vek athygli þeirra sem skoða áróðursmyndband fyrir vinnumatinu (sjá hér) að kennsluhættirnir sem þar sjást eru svo gott sem algjörlega ósnortnir af þróun kennsluhátta síðustu áratuga. Þeim mun meira má sjá af börnum með hefðbundnar bækur – og meira að segja rauði leiðréttingarpenninn fær sínar sekúndur. Þetta er algjörlega galið. Það er í alvöru verið að fara að koma skólanum fyrir í einhverju tímahylki sem varðveitir þá kennsluhætti sem m.a. hafa stuðlað að ofurálagi á stéttina með því að múra um þá veggi – og kjarni alls skólastarfs er merktur með c-i og látinn mæta afgangi. Fyrir utan það að flokkun verkefna í skólum í a, b og c – tilheyrir algjörri gerviveröld. Þar eru engin skýr mörk.

Sem ég segi. Sveitarfélögin vita nákvæmlega hvað þau eru að gera. Þau eru að hagræða. Með því að búa til samning sem fæstir kennarar skilja hefur þeim tekist ætlunarverkið að hluta. Þau þurfa ekki að hafa þungar áhyggjur. Í versta falli láta þau kennara hér eftir hanga samningslausa, fara í verkfall og fá svo ríkið til að leysa sig úr snörunni. Þá er reyndar mikilvægt að hafa við völd þá flokka sem nú eru. Fyrrverandi ríkisstjórn var þeim mjög erfið að þessu leyti – og þau voru send heim með skottið milli lappanna ítrekað eftir að hafa verið synjað um heimild til hagræðingar sem stangaðist á við lög.

Af einhverjum ástæðum eru ýmsir kennarar að reyna að tromma upp einhverja bjartsýnisstemmningu kringum þessa samninga. Telja að allt sem geti farið úrskeiðis, geti líka farið á besta veg – og það sé alveg jafn eðlilegt að treysta á það eins og hitt.

Ef þetta væru fyrstu samningar sem gerðir hafa verið mætti líta þannig á hlutina. En allir sem fylgst hafa með samskiptum sveitarfélaga og kennara síðustu áratugi hafa séð hvernig fyrr eða seinna hleypur í kekki um hvert einasta vafaatriði. Kennarasambandið sendir á hverju ári áréttingar út í skólana um að sveitarfélögin skuli nú hætta að svindla með því að spara sér peninga frekar en að fylgja samningum. En svindlið heldur alltaf áfram.

Að auki hefur ekkert farið leynt hvað sveitarfélögin ætla sér. Það eru til margar skýrslur þar sem þeir gangast við því að ætla að spara. Það, að gerður sé samningur sem opni á sparnaðinn en heimili um leið að eytt sé umfram það – gefur ekkert tilefni til að ætla að einni krónu verði ofaukið þegar kemur að fjárúthlutun.

En, eins og áður sagði, þá er staðan verulega vond fyrir kennara – og enginn sigur í því að fella vinnumat. Í því felst raunar ákveðinn möguleiki á samráði – sem annars er ekki vís. Og því fylgir 9,5% launahækkun og svo framlenging seinna með 2% í viðbót.

Ég á þó eftir að nefna það sem er verst.

Hvernig geta sveitarfélög farið að því að sníða vinnumat að störfum ef kennarar kvarta undir ofálagi?

Jú, þau geta þrengt námskrána – og dregið úr fjölbreytni og skólaþróun. Þau geta innleitt fleiri samræmd próf og stýrandi námsefni. Þau geta breytt kennslu úr skapandi starfi í afgreiðslustarf.

Og það mun líklegast gerast.

Og þá endum við með miklu, miklu verra skólakerfi.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is